Orkan okkar.

 

Er þverpólitísk samtök hins venjulega Íslendings sem vill standa vörð um orkuauðlindir þjóðarinnar, að þær verði áfram undir forræði hennar og þær nýttar af fyrirtækjum í eigu hennar.

Þess vegna mælir Orkan okkar gegn Orkupakka 3, sem er framhald af orkutilskipunum Evrópusambandsins um markaðsvæðingu orkunnar, að hún sé skilgreind sem markaðsvara, og seld hæstbjóðanda á samevrópskum orkumarkaði.

 

Gegn Orkunni okkar eru þverpólitísk samtök hagsmunaaðila sem leidd eru af Viðskiptaráði og útbúi þess á Alþingi, Viðreisn.

Þessi samtök hagsmunaaðila berjast fyrir markaðsvæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar enda eftir miklu að slægjast, þó orkuverð til almennings sé hvergi lægra í Vestur Evrópu, áætlar Landsvirkjun að hagnast um rúma 100 milljarða á næstu árum svo eftir miklu er að slægjast ef það tekst að koma þessari sameign þjóðarinnar í hendur á einkaaðilum.

 

Dansandi með þessum hagsmunasamtökum eru Evrópusinnar á þingi, hvort sem þeir eru í Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni eða Pírötum.

Síðan eru ríkisstjórnarflokkarnir VG og Framsókn, afstaða þeirra snýst aðeins um eitt, völd.  Og völd þeirra í dag eru háð því að flokkarnir fari ekki gegn orkupakka 3.

 

Fyrirfram er þetta ójafn leikur, annars vegar sjálfsprottin samtök almennings, hins vegar öflugt hagsmunabandalag viðskiptalífs og stjórnmálastéttarinnar.

En spyrjum að leikslokum, þetta hagsmunabandalag hefur áður tapað stríði við þjóðina.

 

Og við þennan málstað er ekki hægt að rífast;

"Með orkupökk­un­um er inn­leitt hér reglu­verk sem leiðir til grund­vall­ar­breyt­inga á fyr­ir­komu­lagi orku­mála. Hér á landi hef­ur orku­kerfið verið nær al­farið í sam­eign þjóðar­inn­ar. Hér er fram­leidd tvö­falt meiri raf­orka á íbúa en í nokkru öðru ríki. Þjóðin nýt­ur í sam­ein­ingu vax­andi arðs af orku­fram­leiðslu. Orku­mál eru án nokk­urs vafa eitt stærsta hags­muna­mál þjóðar­inn­ar en umræðan um framtíð orku­mála hef­ur samt ekki verið fyr­ir­ferðamik­il,“ seg­ir enn frem­ur í um­sögn sam­tak­anna og áfram:

„Með orkupökk­un­um verða um­skipti til markaðsvæðing­ar orku­kerf­is­ins, án þess að áður hafi farið fram ít­ar­leg grein­ing á marg­vís­leg­um áhrif­um markaðsvæðing­ar eða að afstaða lands­manna til slíkr­ar grund­vall­ar­breyt­ing­ar hafi verið könnuð. Áður en lengra er haldið á sömu braut væri skyn­sam­legt að taka umræðuna, meta kosti og galla og kanna hvort al­menn sátt ríki um frek­ari markaðsvæðingu orku­kerf­is­ins.“".

 

Ekki nema þú ætlir að selja auðlindina.

Kveðja að austan.


mbl.is Samþykkt grafi undan EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar rassskelltir.

 

Styrmir Gunnarsson vakti nýlega athygli á að í Bandaríkjunum væri deilt um endursögn  dómsmálaráðherra Bandaríkjanna á skýrslu Mullers gæfi villandi mynd af efni hennar.

Þar í landi telst slíkt alvarlegt stjórnsýslubrot, þingið á að geta treyst framkvæmdavaldinu að fara rétt með þegar það veitir því upplýsingar. 

Með öðrum orðum, ráðherrar mega ekki ljúga að þinginu.

 

Í þessu samhengi bendir Styrmir á atriði í umsögn þeirra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar sem engan veginn geta passað við þessa endursögn tveggja ráðuneyta á innihaldi lögfræðiálita sem ráðuneytin létu vinna fyrir sig um Orkupakka 3.

""Allir fræðimenn sem að málinu hafa komið eru sammála um að sú leið, sem lögð er til við innleiðingu sé í fullu samræmi við stjórnarskrána."".  Og Styrmir feitletrar orðið "fullu".

 

Kannski vissu ráðuneytin eitthvað betur, en á fundi utanríkismálanefndar segja þeir Stefán og Friðrik eftirfarandi;

"„Við full­yrðum ekki að ákvæði [þriðja orkupakk­ans] brjóti í bága við stjórn­ar­skrá, en segj­um að það sé veru­leg­ur vafi á því. Okk­ar um­sögn er nei­kvæð í þeim skiln­ingi,“".

Með öðrum orðum, hafi það ekki verið ljóst að ráðherrar lugu að þingi, þá ætti það að vera hafið yfir allan vafa að svo sé.

Og hvað gera þingmenn þá???

 

Annað er síðan í þessum dúr, fyrirvarar ráðherra halda ekki, ríkið mun baka sér skaðabótaskyldu, enginn steinn er eftir í málflutningi ráðherra.

Aðeins samsekt þing samþykkir vitleysuna sem þeir leggja til, og það er glæpur.

Glæpur gagnvart lýðræðinu og þjóðinni sem veitti þeim umboð til setu á Alþingis.

 

Einhliða fyrirvarar halda ekki, það er morgunljóst, um það eru ótal dómafordæmi, en engin um að þeir halda.

Og Stefán og Friðrik benda á hvað þarf að gera til að þeir fyrirvara haldi sem þingmenn eru sammála um að þurfi að gera svo hægt sé að samþykkja Orkupakka 3.

Og fyrst þingmenn eru sammála um þessa fyrirvara, þá verða þeir að hlusta á rödd skynseminnar, annað er líka glæpsamlegt athæfi og vekur upp spurningar hvort eitthvað óeðlilegt ráði afstöðu meirihluta Alþingis í þessu máli.

 

Eina færa leiðin er að;

"Þá séu eng­in ákvæði í EES-samn­ingn­um sem gefa ís­lensk­um stjórn­völd­um fyr­ir­vara um að inn­leiða ákveðin atriði samn­ings­ins, eins og ríki ESB hafa. Það myndi þarfn­ast yf­ir­legu að semja laga­leg­an fyr­ir­fara um ákvæði þriðja orkupakk­ans. Það að senda málið aft­ur til sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar gæfi tæki­færi til þess að fara fram á lög­form­lega fyr­ir­vara eða und­anþágur.".

Og þessa leið á þingheimur að fara.

 

Annað er aðför að þjóð og lýðræði.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Lögfræðilega rétt að hafna innleiðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hráa kjötið og ábyrgðin.

 

Jón Bjarnason skrifar ágæta grein í Morgunblaðið í dag um stóra kjötmálið þar sem hann færir rök fyrir að fyrst dómur hefði fallið gegn stjórnvöldum vegna bannsins á innflutningi á fersku hráu kjöti, að þá sé öll löggjöfin um innflutning á landbúnaðarvörum í húfi.

Það er þegar einn hluti löggjafarinnar er dæmdur ólöglegur, þá falli heildarlöggjöfin um sjálfa sig því hún hefði verið heildstæð út frá ákveðnum forsendum um lýðheilsu og verndun búfjárstofna.

Enda heitir grein Jóns Hráa kjötið og sjálfstæði Alþingis.

 

Það er náttúrulega borin von að Alþingi virði sitt eigið sjálfstæði, til þess þarf fullorðið fólk og mörgu slíku er ekki til að dreifa á Alþingi Íslendinga í dag.

En það ágætis fólk ætti að íhuga þessi orð Jóns; "Hæstirétt­ur hef­ur síðan staðfest að ekki er hægt að samþykkja inn­leiðingu frá ESB með fyr­ir­vara".

Vegna þess að það ætlar að samþykkja orkutilskipun Evrópusambandsins með þeim fyrirvara að efni hennar gildi ekki á Íslandi, og ætlar að setja lög þar um.

En af hverju ætti sá fyrirvari að halda þegar fyrirvari Jóns Bjarnason sem hann setti inní innleiðingu matvælakafla Evrópusambandsins??

 

Svarið er augljóslega, hann gerir það ekki, en alþingismenn halda öðru fram.

Meðal annars vegna þess að hafi þeir rangt fyrir sér, og valda þar með landsmönnum stórtjóni, að þá sæta þeir engri ábyrgð.

Alþingismenn mega nefnilega valda öðrum vísvitandi tjóni ef þeir gera það í gegnum löggjöf sína þó þeir megi ekki frekar en við hin rústa börum eða áreita veika kynið.

Nærtækasta dæmið þar um er verðfall húsnæðis á landsbyggðinni í kjölfar setningu laga um kvótakerfið án þess að það hvarflaði að nokkrum þingmanni að setja hluta af meintum ávinningi í sjóð til að bæta saklausu fólki tjónið.

 

Eins er það með innflutning á hráu kjöti.

Hver ber það tjón ef alvarlegur smitsjúkdómur breiðist út í innlendum búfénaði og leggur restina af landbúnaðinum í rúst??

Ekki innflytjandinn, hann hirðir bara gróðann, það er borin von að hann þurfi að leggja fram tryggingu sem gæti bætt slíkt tjón.

Og ekki alþingismenn, þeir hlæja bara.

 

En hvað með samþykkt Orkupakka 3??

Í greinargerðinni með frumvarpinu viðurkenna embættismenn að tenging við hinn samevrópska orkumarkað muni hafa hækkun raforkuverðs í för með sér. Eitthvað sem gæti riðið fólki í helgreipum vaxtaokursins að fullu, því það erum svo margir sem ná ekki endum saman, það eru svo mörg fyrirtæki sem berjast i bökkum við erlenda samkeppni láglaunalanda.

Fyrir utan að hækkun á raforkuverði vegna þess eins að Alþingi innleiðir reglugerð þar um, er alltaf tjón í sjálfu sér af völdum ábyrgðarlausra alþingismanna.

 

Þessir sömu alþingismenn segja að það komi aldrei til að Hæstiréttur eftir úrskurð ESA, felli upp þann dóm að "að ekki er hægt að samþykkja inn­leiðingu frá ESB með fyr­ir­vara" án þess að vísa í nokkur dómafordæmi þar um.

En væru þeir jafn einbeittir í þessum ásetningi sínum ef þeir vissu að þeir persónulega þyrftu að bæta samborgurum sínum það tjón sem af hlytist ef þeir hefðu rangt fyrir sér??

Ef þeir eru svona fullvissir, myndu þeir fríviljugir stofna sjóð þar sem eignir þeirra væru að veði og í þennan sjóð gæti fólk sótt skaðabætur vegna þess tjóns sem hækkun raforkuverðs myndi valda því.

Væru menn tilbúnir að skaða aðra ef sá skaði væri líka þeirra??

 

Hefði Boeing leynt upplýsingum um galla í hugbúnaði ef menn þar innandyra vissu að þeir yrðu ákærðir fyrir fjöldamorð þegar flugvélar færust??

Myndu heildsalar vera jafn viljugir að flytja inn hrátt kjöt ef örvingluð móðir sem hefði misst barn sitt vegna fjölónæmra baktería gæti ákært þá fyrir manndráp?? Það er ekki ómerkilegri maður en yfirlæknir á Landsspítalanum sem telur slíkt raunverulega hættu.  Og ef menn fullyrða að slíkt sé bara bull og vitleysa, þá hljóta menn sætta sig við slíka ábyrgð í löggjöfinni, að innflytjendur sem heild séu þá sannarlega ábyrgir og sekir ef þeir hafa rangt fyrir sér og yfirlæknirinn, sérfræðingurinn rétt.  Annars er málið bara dautt, það reynir aldrei á fyrirvarann um ábyrgð.

Og fyrst það er engin áhætta við innflutning á hráu kjöti, þvert á álit til dæmis Margrétar Guðnadóttir prófessor og veirufræðings, sem sagði að hún tryði ekki þeim aumingjaskap uppá þingmenn að þeir stæðu ekki gegn slíkum innflutningi, að þá hljóta viðskiptabankar innflytjendanna að vera tilbúnir að leggja fram ábyrgð, segjum til dæmis uppá 100-200 milljarða vegna meints tjóns af búfjársjúkdómum. Mæti þess vegna vera billjón því ef áhættan er engin, þá kemur ekki til þess að slík ábyrgð falli.

 

Það er nefnilega svona sem afhjúpar alvörun á bak við fullyrðingar.

Eru menn tilbúnir að axla ábyrgðina af tjóninu hafi þeir rangt fyrir sér??

En þar setja margir af stuðningsmönnum hins frjálsa markaðar mörkin, þeir hafa ekkert á móti ábyrgð á meðan aðrir sæta henni. 

Líkt og þeir eru tilbúnir að hirða gróðann á meðan aðrir bera tjónið. 

 

En þeir eru ekki tilbúnir að axla hana sjálfir, ekki frekar en útrásarvíkingarnir okkar sem höfðu tapið allt á sér kennitölu.

Af hverju halda menn að skúffufyrirtæki eigi hitt og þetta??, varla vegna þess að það eru svo mikil verðmæti í skúffunni?

 

Þetta er svona, en á ekki að vera svona.

Ekki í siðuðu samfélagi.

 

En það er okkar að breyta.

Það eru jú við sem að lokum sitjum uppi með tjónið, og ábyrgðina.

 

Þess vegna skiptir svo miklu máli að stjórnmálamenn okkar sæti ábyrgð ef þeir samþykkja Orkupakka 3.

Ekki bara vegna þess að orkuauðlindir okkar eru í húfi, heldur vegna þess að við þurfum að takast á við meinsemd.

Meinsemd ábyrgðarleysisins.

 

Áður en við verðum svipt öllu.

Kveðja að austan.


Ísland er ekki eyland.

 

Stjórnvöld og hagsmunaaðilar sem taka núna stríð við þjóðina um orkuauðlindir hennar, sem við skulum muna að er næstsíðasta stríð þeirra ef þau hafa sigur í þessu, það síðasta verður þá stríðið um fiskinn, að þessir aðilar haldi áfram þar sem Bretar gáfust upp í síðasta þorskastríði, láta eins og Ísland sé í tómarúmi.

Að það gildi aðrar reglur um okkur, að við getum sett einhliða fyrirvara þó slíkt hafi engu öðru ríki tekist á hinu sameiginlega evrópska efnahagssvæði.

Og síðan að innihald hans sé allt annað fyrir okkur en hjá öllum hinum ríkjum efnahagssvæðisins.  Hjá þeim snúist hann vissulega um tengingu milli landamæra til að koma á virkri samkeppni á hinum sameiginlega orkumarkaði, en hjá okkur snúist hann um neytendavernd og líklegast aukið gegnsæi þó enginn skilji nákvæmlega hvað átt er við.

Einnig er látið eins og það sé ekki til neitt sem heitir saga, bæði í nútíð og fortíð sem gefi vísbendingar um hvað er rétt, og hvað er rangt. 

 

Sagan kennir að einhliða fyrirvarar haldi ekki, ef slíkir eiga að halda, þá þarf að semja um þá í upphafi.

Líkt og við Íslendingar gerðum þegar við sömdum okkur frá hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins.  Þeir fyrirvarar hafa haldið enda virðir ESB samninga, ætlast til þess að þeir haldi.

En það er hollt að rifja upp að Bretum tókst ekki að halda í einhliða fyrirvara sína með vísan í bresk lög þar um.  Þáverandi breskir þingmenn sögðu umbjóðendum sínum í fiskveiðibæjunum Hull og Grimsby að skip annarra landa Evrópusambandsins myndu ekki fá að veiða innan bresku fiskveiðilögsögunnar, en smátt og smátt urðu Bretar að breyta löggjöf sinni þar um, þar til allar varnir féllu. 

Í þessu samhengi er gott að muna að þetta var á þeim tíma þar sem Evrópusambandið var ennþá viðskiptabandalag og regluveldið var að þróa sinn innri markað og alla þá einsleitni sem hann krefst. Í dag kæmist enginn upp með að bulla svona eins og bresku þingmennirnir gerðu á sínum tíma, en þeir höfðu það sér til afsökunar að þeir vissu ekki betur.  Því allt var nýtt í þá daga.

 

En íslenskir stjórnmálamenn sem fullyrða að Ísland sé eyland og ekki í neinum tengingum við hvorki söguna eða raunveruleikann, reyna núna að sannfæra kjósendur sína að þeir geti samþykkt orkupakka 3, án þess að samþykkja aðalatriði hans, því um það munu þeir gera fyrirvara.

Og vísa í íslensk lög, lög um Landsvirkjun, og lögin sem þeir ætla að samþykkja sem banna lagningu sæstrengs nema þeir sjálfir fái tækifæri að svíkja fyrri heitstrengingar.

Treysta líka á að kjósendur þeirra, sérstaklega þeir sem yngri eru, þekki ekki söguna, enda fæstir fæddir þegar Brussel lamdi breska heimsveldið til hlýðni á sínum tíma.  Eða önnur þau dæmi þar sem ríki urðu að lúffa með lagasetningu sína þegar hún gekk gegn reglum sambandsins um hið frjálsa flæði á sameiginlegum markaði.

 

En þá er hægt að skoða nútíðina.

Norðmenn, miklu stærra og öflugra ríki en við, sem Þórdís Kolbrún fullyrðir að hafi mikil áhrif á þróun orkustefnu sambandsins vegna hinnar öflugu hagsmunagæslu sinnar, hafa þegar tapað máli fyrir EFTA dóminum vegna þess að þeir aðlöguðu áratuga gömul lög ekki að orkutilskipunum sambandsins.

Þar var bundið í lög að þegar einkaaðilar sem höfðu fjárfest í vatnsaflsvirkjunum höfðu fengið kostnað sinn og sanngjarna arðsemi á fjárfestingu sinni til baka, að þá áttu þeir að skila inn virkjunarleyfinu, og ríkið yfirtæki virkjunina.  Því vatnsaflið væri auðlind í eigu þjóðarinnar, og þeir sem virkjuðu höfðu aðeins afnotarétt af auðlindinni.

Lög sem héldu alveg þangað til að þeir höfðu samþykkt orkupakkana, eftir það urðu þeir að lúta hinu evrópska regluverki sem leyfði ekki svona mismun á milli ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækja.

 

Þessi dómur er tiltölulega nýlegur og fjallar um innlend lög, áratugagömul, sem héldu ekki því ekki var samið um slíka fyrirvara áður en orkupakkarnir voru samþykktir.

Samt láta stjórnvöld og vísa sannarlega í innlenda lögfræðinga, eins og að okkar sérlög haldi. 

Að evrópska reglugerðin víki þegar hún stangast á við íslensk lög, ekki öfugt.

Og að við getum samþykkt Orkupakka 3 án þess að samþykkja innihald hans.

Að við séum eyland meðal þjóða.

 

Og þau ætlast til þess að kjósendur trúi þessari vitleysu.

Hve arfaslæm er ein reglugerð ef hún þarf svona bull og vitleysu til að hægt sé að réttlæta samþykkt hennar fyrir þjóðinni??

Að það sé ekki hægt að segja satt orð í málinu, að rökin séu bull, og ekki sé hægt að viðurkenna þá staðreynd sögunnar, sem er þar algjörlega sammála regluveldinu, að einhliða fyrirvarar halda ekki.

 

Af hverju er ekki hægt að tala um meinta ávinninga sem felast í þessu valdaafsali til Brussel, og tenginguna við hinn sameiginlega orkumarkað.

Um ávinninginn af markaðsvæðingu orkunnar og markaðsvæðingu orkufyrirtækjanna.

Það er ekki eins og enginn hafi gert það samanber prófessorinn sem kom í Silfrið fyrir nokkrum vikum og sagði að þetta yrði mikið gæfuspor fyrir þjóðina, og færði fyrir því rök.

Af hverju má ekki kynna þau rök fyrir þjóðinni og ræða þau??

 

Af hverju þessar lygar og blekkingar??

Og af hverju er allt svona heimskt við málflutning stjórnvalda??

 

Ísland er ekki eyland á hinum innra markaði, það gilda sömu lög og reglur um okkur eins og hin ríkin.

Orkupakki 3 er ekki um neytendavernd og aukið gegnsæi, hann er um tengingu milli landa, og þær reglur sem eiga að gilda þar um.  Þó vissulega sé líka skerpt á ýmsum samkeppnisákvæðum fyrri orkupakka.

Það verður lagður sæstrengur því einkafyrirtæki eru á fullu við að undirbúa hann.

Og Landsvirkjun í það minnsta verður skipt upp í smærri einingar og allavega hluti af þeim fer á markað. 

 

Þetta eru staðreyndir og aðeins lygarar halda öðru fram.

Síðan má ekki gleyma að reglurnar um ACER ganga gegn fullveldi þjóðarinnar og eru því brot á stjórnarskránni eins og hún er í dag.  Henni má auðvitað breyta eins og Norðmenn gerðu, en á meðan það er ekki gert, þá brýtur samþykkt Orkupakka 3 íslensku stjórnarskrána.

Um þetta þarf ekki að deila.

 

Síðan er það lágmarkskrafa til stjórnmálamanna að þó þeir treysti sér ekki til að ræða staðreyndir, og kjósi því að ljúga og blekkja, að þá sé það ekki gert á svo heimskulegan hátt og gert er í þessu máli.

Þetta er niðurlægjandi fyrir þá, og þetta er niðurlægjandi fyrir þjóðina.

 

Það er mál að linni.

Kveðja að austan.

 


Viðskiptaráð hefur ekkert lært.

 

Frá því að ráðið vann gegn þjóðarhagsmunum í ICEsave deilunni með rangfærslum og gífuryrðum.

 

Rangfærslurnar voru þær að þegar það stóð skýrt í tilskipun ESB um innlánstryggingar að ef einstök aðildarríki innleiddu reglur um innlánstryggingasjóði á réttan hátt, þá væru þau EKKI (NOT) í ábyrgð fyrir sjóði sína.  Þetta sagði viðskiptaráð að þýddi að viðkomandi ríki væru í ábyrgð.

Gífuryrðin voru þau að ef þjóðin stæði á rétti sínum, þá væri EES samningurinn í uppnámi, og síðan kom löng lofrulla um mikilvægi hans.  Sem var dálítið hjákátlegt í ljósi þess Hrunið hefði aldrei orðið ef Ísland hefði ekki samviskusamlega innleitt reglurnar um hið frjálsa flæði fjármagns, og skjóli þeirra þöndust bankarnir út þar til þeir féllu undan sínum eigin þunga.

 

Í dag eru svipuð gífuryrðin eins og vísað er í fyrirsögn Mbl.is; "Höfn­un hafi al­var­leg­ar af­leiðing­ar", og sama mærðin um mikilvægi EES samningsins.  Eins og ekki sé hægt að eiga viðskipti við Evrópusambandið nema að vera í EES, og þar með sé alltí kalda koli í Sviss, því Sviss sem er í EFTA, kaus að fara þá leið að gera tvíhliða viðskiptasamning við sambandið.

Sem er ekki, Svisslendingar eiga í góðum viðskiptum við Evrópuríki og það er ekkert sem segir að við getum ekki farðið þá leið. 

Og það getur ekki verið gagnkvæmur samningur sem byggist á sífelldum hótunum annars aðilans ef hinn vill nýta sér það ákvæði samningsins að hafna einstökum tilskipunum vegna mikilvægara þjóðarhagsmuna.

Á mannamáli kallast slíkt kúgun, og það er svo skrýtið að hvergi er til stafkrókur um slíkar hótanir að hálfu ESB, ekki einu sinni þegar þráteflið í ICEsave deilunni var sem mest.  Og þegar dómur féll, þá hafði það engar afleiðingar af ESB hálfu, tröllasögurnar voru bara tröllasögur innanlands sem þoldu ekki dagsljós raunveruleikans.

 

Svo maður hlýtur að spyrja sig, af hverju ættu þeir sem lugu og blekktu áður, að hafa eitthvað réttara fyrir sér núna??

Sérstaklega þegar þeir málflutningur þeirra er endurunnin.

Staðreyndum snúið á hvolf og síðan sú hótun að Ísland standi á rétti sínum samkvæmt EES samningnum, sem er gagnkvæmur samningur en ekki einhliða kúgunarsamningur, að þá sé sjálfur samningurinn í hættu.

 

Það er óumdeilt að orkutilskipanir sambandsins snúast um markaðsvæðingu orkunnar, að hún verði markaðsvara seld á sameiginlegum evrópskum orkumarkaði.

Tilskipanir eitt og tvö voru um markaðinn og samkeppnina, sá þriðji um orkutengingar yfir landamæri, og hvernig þau mál eru tækluð af yfirþjóðlegu valdi, Orkustofnun Evrópu, ACER.

Þegar Ísland er búið að aflétta stjórnskipulegum fyrirvörum sínum, þá er landið skuldbundið að innleiða pakkann í heild sinni án fyrirvara.  Vissulega reynir ekki á reglurnar um tengingar yfir landamæri fyrr en einhver aðili fer fram á leyfi til að leggja sæstreng, þá er Íslendingum skylt samkvæmt reglugerðinni að veita það leyfi, og ef hugmyndin er raunhæf, þá tengir sá sæstrengur landið við hinn sameiginlega orkumarkað.

Þetta er óumflýjanlegt og allir einhliða fyrirvarar af okkar hálfu eru haldlausir, eru markaðshindranir sem regluveldið mun sjá til þess að verða kipptir úr sambandi.

 

Þessar tilskipanir snúast því um grundvallarmál, hvort orkan eigi að vera auðlind og arðurinn af henni eigi að dreifast um þjóðfélagið með því að vera á viðráðanlegu verði fyrir einstaklinga og fyrirtæki hans, eða á hún að vera markaðsvara sem er seld hæstbjóðanda.

Og það grundvallarmál, viljum við stjórna orkuauðlindum okkar, eða viljum við að stjórn þeirra lúti forræði yfirþjóðlegrar stofnunar. Eftir reglum sem við höfum engin áhrif á og höfum ekki hugmynd um í framtíðinni hvernig munu þróast.

 

En alveg eins og viðskiptaráð á sínum tíma sagði að EKKI þýddi að ÆTTI að þá afgreiðir það þessi grundvallarmál með að um léttvæg mál sé að ræða.

"Áhrif orkupakk­ans á Íslandi verða hins veg­ar tak­mörkuð að mati Viðskiptaráðs, „en þó skref í rétta átt til að tryggja aukna sam­keppni og skil­virk­ari raf­orku­markað“. Tel­ur ráðið einnig að mik­il­vægi EES-samn­ings­ins sé marg­falt meira en hugs­an­leg­ir ágall­ar orkupakk­ans. „Fram hef­ur komið að óviss­an við það að neita samþykkt sé mik­il og að í raun breyti orkupakk­inn sára­litlu.“".

Það breytir sem sagt sáralitlu hvort við sem þjóð höfum yfirstjórnina eða undirstofnun Evrópusambandsins, hvort við mótum regluverkið eða skriffinnar Brusselsvaldsins og hvort orkan sé auðlind sem nýtist í þágu þjóðar, eða markaðsvara á samkeppnismarkaði.

 

Svo ætlast þetta fólk til þess að það sé tekið alvarlega.

Veit ekki hvort það sér sorglegra eða sú staðreynd að það er fullt af fólki sem tekur það alvarlega.

Og flestir vinna við fjölmiðlun.

 

Sem aftur verkur upp spurningar.

Er þetta ekki áunnin heimska??

Svona svipuð og hjá lögregluyfirvöldum í Mexíkó á sínum tíma sem höfðu ekki einu sinni frétt af tilvist eiturlyfjabaróna, en ef slíkir fyrirfyndust, þá væri allir búsettir í útlöndum.

Slíkur var máttur gullsins.

 

Veit ekki, en það má velta því fyrir sér.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Höfnun hafi alvarlegar afleiðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíflaðu kjósendur þína.

 

Og þú uppskerð.

Afhroð.

Höfnun kjósenda.

 

Það mættu núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa í huga þegar þeir ákváðu að taka upp stefnu Viðreisnar og Samfylkingarinnar í málefnum Evrópusambandsins.

Þá stefnu að samþykkja allt sem frá Brussel kemur þó í því felist að afhenda skrifveldi þess yfirráð yfir orkuauðlindum þjóðarinnar.

Þó það felist í því að markaðsvæða þessar sömu auðlindir.

Þó það þýði að lokum stórhækkað verð til almennings og fyrirtækja hans.

 

Því Samfylkingin og Viðreisn hafa aðeins eina stefnu í grunninn, sem er að landið gangi í Evrópusambandið og hafi þar með öráhrif á stefnumörkun regluveldisins.

Allur þeirra málflutningur miðast við að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru.

Málflutningur sem höfðar til um þriðjungs kjósenda þjóðarinnar.

 

Þessum kjósendum fjölgar ekkert þó Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn taki upp Evrópustefnu Viðreisnar og Samfylkingar, heldur fjölgar aðeins samkeppninni um sálu þeirra.

Svo óhjákvæmilega mun einhver flokkur bíða afhroð í næstu kosningum standi Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn fast á því að innleiða orkutilskipun Evrópusambandsins.

Og einhverjir flokkar fylla uppí það tómarúm sem þeir skilja eftir sig hjá tveimur þriðju hluta kjósenda.

 

Því fólk er ekki fyrir það að láta fífla sig.

Líklegast er fátt sem gerir það reiðara, nema kannski jú ef það fattar að það sé í faldri myndavél.

 

Og það er sama hvað því er sagt.

Ef það sem sagt er að meiði blekkinga og hálfsannleiks, það lætur ekki fíflast.

Það lætur ekki blekkjast.

 

Þess vegna má spyrja, er þjónkunin við Evrópusambandið þess virði??

Þess virði að fórna flokknum??

 

Eða býr eitthvað annað og stærra undir??

Til dæmis milljarða hagsmunir þeirra sem sjá viðskiptatækifæri í markaðsvæðingu orkuauðlindarinnar??

 

En samt, er það þess virði??

Kveðja að austan.


mbl.is Íhaldsmenn guldu afhroð í kosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsnet vill sæstreng.

 

Og hefur unnið að því í töluverðan tíma.

Svo auðvitað vill fyrirtækið orkupakka 3 sem kveður á um tengingu yfir landamæri og reglur til að koma í veg fyrir allar hindranir þar um.

Auk þess sem markaðsvæðing kerfisins mun skapa þrýsting á lagningu lína þvers og kurrs um landið, og kverúlantar landverndar munu verða skilgreindir sem markaðshindrun af landsreglaranum (sjálfstæð Orkustofnun sem lýtur hvorki innlendum yfirvöldum eða innlendu dómsvaldi) og munu því ekki verða hindrun í veginum.

 

Svo má ekki gleyma sporslunum, munum hvað laun æðstu stjórnenda ríkisfyrirtækja hækkuðu við það eitt að fyrirtækin urðu ohf-vædd.

Þá geta menn ímyndað sér kaupaukann við einkavinavæðingu orkufyrirtækja.

Það er það eina sem er öruggt á samkeppnismarkaði fákeppninnar, að allt hækkar.

Laun æðstu stjórnenda, arður eiganda og verð þjónustunnar.

 

Því er það ákaflega eðlilegt að þeir sem sjá gróðatækifærin, fjármagni áróður og kaupi stuðning, að þeir sem sjá framá margföldun launa mæli með sem og að þeir sem borga brúsann séu á móti.

Og þannig er staðan í dag.

Almenningur á móti, hinir uppkeyptu með.

Ekkert fréttmætt við það.

 

Hinsvegar væri það fréttnæmt ef stjórnendur Landsnets hugsuðu til nágrannans, til samborgara sinna og mæltu gegn orkupakka 3.

Sem og það er fréttnæmt þegar þingmenn þora gegn hagsmunum auðsins og samtryggingarinnar og lýsa yfir andstöðu við orkupakkann líkt og Ásmundur Friðriksson hafði kjark til.

Það er frétt þegar guðfaðir EES samningsins, Jón Baldvin Hannibalsson, mælir gegn tilskipunum Evrópusambandsins.

Það er frétt þegar öldungar Sjálfstæðisflokksins eins og Styrmir Gunnarson og Tómas Ingi Olrich mæla gegn ásetningi forystu flokksins um að afhenda skrifræði Evrópusambandsins yfirstjórn orkuauðlinda þjóðarinnar.

Og það er frétt ef það finnst venjulegt fólk sem er samþykkt þessu valdaafsali og markaðsvæðingu orkunnar.

 

En það er ekki frétt að sólin komi upp í fyrramálið eða Landsnet vilji flóknari reglur og aukin umsvif.

Þannig gerast bara kaupin á eyrinni og fátt um það að segja.

 

Embættismannakerfið okkar er fyrir langa löngu gengið í Evrópusambandið.

Kveðja að austan.


mbl.is Landsnet mælir með orkupakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlafrelsi! Hvað er fjölmiðlafrelsi??

 

Er fjölmiðlafrelsi á Íslandi??

Er það fjölmiðlafrelsi að peningamenn eigi allaflesta fjölmiðla og stjórni þeirri umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu??

Felst þá frelsið í frelsinu til að ljúga í þágu hagsmuna??

 

Vitnum í António Guter­res, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna;

"„Lýðræði stend­ur ekki und­ir nafni án aðgangs að gagn­sæj­um og áreiðan­leg­um upp­lýs­ing­um. Það er horn­steinn sann­gjarnra og óvil­hallra stofn­ana sem draga vald­hafa til ábyrgðar og segja valda­mönn­um sann­leik­ann,”".

Á þetta við um Ísland þegar hagsmunir og gróði peningaaflanna er undir??

 

Var einhver fjölmiðill sem í miðri ICEsave deilunni notaði annað orð yfir fjárkúgun breta en "ICEsave skuldbinding" þjóðarinnar?? 

Myndu þeir tala um skuldbindingu Hagen fjölskyldunnar gagnvart mannræningjunum, að hún væri skuldbundin að greiða þeim lausnargjaldið fyrst þeir höfðu fyrir því að ræna húsmóðurinni?? 

Nei, auðvitað ekki, en samt var glæpsamleg fjárkúgun kölluð skuldbinding fórnarlambsins, það er íslensku þjóðarinnar.

 

Einstakt tilfelli??

Nei, nákvæmlega sömu rangfærslurnar vaða uppi af nákvæmlega sömu fjölmiðlum og fjölmiðlafólki í umræðunni um Orkupakka 3.

 

Fréttablaðið til dæmis er ekkert sanngjarnara eða óvilhallara en ríkisfjölmiðill Norður Kóreu er, aðeins sagt það sem eigandinn vill og hentar hagsmunum hans á hverjum tíma.

Skítyrði blaðsins núna gagnvart því fólki sem vogar sér að standa gegn hagsmunum fjármagnsins er engu minna en var í ICEsavedeilunni.  "Lýðskrum, popúlismi, hægri öfgar og einangrunarhyggja, vanþekking, rangfærslur", allt orð sem koma fyrir í skrifum blaðsins.

Dómur EFTA dómsins og hinn algjöri ósigur bresku fjárkúgarana breytir þar engu um, enginn er lærdómurinn, ekki einu sinni haft fyrir því að endurvinna áróðurinn.

Og aðrir fjölmiðlar eru ekki miklu betri, sumir vefmiðlar eins og Kjarninn miklu verri.

 

Síðan má spyrja??, hefur einhver séð umfjöllun um orkutilskipanir Evrópusambandsins þar sem hægt er að heimfæra orð Guterresum gagnsæi og áreiðanlegar upplýsingar, og slíkt notað til að draga ráðherra til ábyrgðar svo þeir komist ekki upp með blekkingar sínar??

Segja þeim sannleikann eins og Guterres kemst að orði.

 

Hvernig geta ráðherrar komist upp með í drottningarviðtölum að fullyrða að regluverk sem er hugsað til að markaðsvæða orkuna, gera hana að markaðsvöru á sameiginlegum orkumarkaði Evrópusambandsins, snúist bara um neytendavernd (Þ.K.), þess vegna eigi að samþykkja Orkupakka 3.

Þegar það er skýrt í aðfaraorðum tilskipunarinnar að "Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku.".

Hvaða íslenskur fjölmiðill hefur í fréttaskýringu sinni sagt ráðherra þennan sannleika, eða spurt hann gagnrýnna spurninga??

 

Jú, reyndar er hann til, eða réttara sagt útvarpsþátturinn Harmageddon tók viðtal við ráðherra sem afhjúpaði svo margt í innihaldsleysi málflutnings hennar svo það var pínlegt á köflum.

En það hlusta svo fáir og enginn af stærri fjölmiðlunum hefur fylgt málinu eftir, því það gæti kostað það að þurfa að segja sannleikann, í óþökk eiganda miðilsins.

 

Af hverju er Þórdís til dæmis ekki spurð útí þessi ummæli sín??

""Spyrill: En til þess kæmi í framtíðinni að Evrópusambandið myndi leggja fram kröfu um að það yrði lagður sæstrengur?

Þórdís: Við myndum bara segja Nei.

Spyrill: Gætum við það? Er þá ekki EES samningurinn í uppnámi??

Þórdís: Jú, en ef að við viljum ... en það er allt önnur spurning. Skilurðu, ef við myndum segja – Ef Evrópusambandið mun þróa sín mál þannig og við erum bara ömurleg í hagsmunagæslu og við munum bara leyfa því að gerast sem við ætlum einmitt ekki að gera, þess vegna erum við að setja aukin kraft í hagsmunagæslu okkar. Til dæmis Norðmenn, þeir eru að hafa meiriháttar áhrif á það hvernig þessir raforkumarkaðir í Evrópu eru að þróast. Af hverju??, þeir eru sterkir í hagsmunagæslu og hafa áhrif hvernig leikreglurnar verða. Það sem við erum að gera núna er að setja aukna fjármuni í þessa hagsmunagæslu sem við höfum ekki verið að gera undanfarin ár að nægilegum krafti, við höfum alveg haft hana en ekki af nægjanlegum krafti og hún fór auðvitað algjörlega niður þegar við eyddum öllum okkar fjármunum eða efford í umsókn að Evrópusambandinu sem við erum núna búin að draga til baka. Ef við værum léleg í hagsmunagæslu og á einhverjum tímapunkti myndi Evrópusambandið segja að núna verðið þið að leggja sæstreng sama hvað þið segið þá getum við sagt Nei, og ef þá er sagt að það muni hafa afleiðingar, þá segjum við gott og vel, við ætlum ekki að leggja sæstreng.".

 

Það er eins og að hún viti ekki að þegar Alþingi hefur á annað borð aflétt stjórnskipulegum fyrirvara á Orkupakka 3 að þá er framkvæmdavaldið búið að afsala sér forræðinu yfir þessum málum og ákvæði reglugerðarinnar um tengingar yfir landamæri gilda. 

Og ákvæði tilskipunarinnar gildir óháð öllum lobbýisma eða hagsmunagæslu í Brussel, einstakt aðildarríki getur ekki neitað að leggja sæstreng ef hið yfirþjóðlega regluverk krefst þess, og ef það neitar, þá er það sótt til saka eins og hver annar sakamaður.

Fyrir EFTA dómi, ekki íslenskum dómstólum.

Sýni einhver til dæmis fram á tjón vegna brota á reglugerðinni, þá ber íslenskum stjórnvöldum að bæta þann skaða.  Og greiða sektir þar til farið er eftir reglum vegna þess að innri markaðurinn gengur ekki ef einstök aðildarríki komast upp með að hundsa leikreglur hans.

 

Barnaskapurinn í þessu svari ráðherra ríður ekki við einteyming.

En hún þarf ekki að óttast hið íslenska fjölmiðlafrelsi, það er enginn hérlendur fjölmiðill sem telur sig hafa það hlutverk að segja valdhöfum sannleikann.

Því þeirra hlutverk er að gæta hagsmuna eiganda sinna.

 

Það þarf nefnilega fjölmiðla til að hægt sé að tala um fjölmiðlafrelsi.

Það dugar ekki að tryggja frelsi þeirra samkvæmt lögum, ef þeir eru ekki sjálfir frjálsir.

Heldur í taumi eiganda sinna.

 

Það er nefnilega kosturinn við Orkupakka 3, hann afhjúpar.

Hann hefur afhjúpað stjórnmálastétt okkar, hverra erinda hún gegnir.

Hann hefur afhjúpað sírífandi kjaft fjölmiðla eins og Kjarnans og Stundarinnar sem þykjast vera berjast gegn spillingu, en eru fyrst og síðast verkfæri í valdabaráttu og valdastríði auðsins og auðmanna, valdastríði svona svipað og Rósastríðin voru á sínum tíma í Englandi þar sem helstu aðalsættir börðust um krúnuna.

Og hann hefur afhjúpað alla hina fjölmiðlana, sem í besta falli þegja þegar þeir eiga að verja, sem í versta falli ljúga þegar þeir eiga að segja satt um valdið og valdhafa.

 

ICEsave var nefnilega ekki einstakt tilfelli sem tengdist einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokkum eða ákveðnum fjölmiðlum.

Það var tilviljun ein sem ákvað flokkadrættina en í raun eru þeir aðeins einn, samtryggingarflokkurinn sem lýtur vilja auðsins.

Og fyrir utan einn ritstjóra eru allir fjölmiðlar annað hvort í vasanum á auðnum, eða múlbundnir á þann hátt að þeir fara ekki gegn hagsmunum hans.

 

Þessi þróun var hafin löngu fyrr.

Hún hófst með einkavæðingu bankakerfisins, þá skaut rótum peningavald sem keypti upp það sem var til sölu í þjóðfélaginu.

Þar á meðal æru fólks og tryggð.

Fólks sem er í stjórnmálum, vinnur á fjölmiðlum, í akademíunni, í almannatengslum, eða er ritfært og getur skrifað greinar í blöð sem eftir er tekið.

 

Þessi uppkaup blöstu við öllum í aðdraganda Hrunsins, en eftir Hrun reyndi þjóðin á eigin skinni alvarleik þeirra.

Það átti að skuldaþrælka hana, það átti að svipta hana sjálfstæði sínu.

Það mistókst, en ekki vegna þess að hinir uppkeyptu hafi ekki reynt sitt besta, það dugði bara ekki til.

 

Núna á að stela orkuauðlindum hennar þó fína nafnið sé að markaðsvæða þær í þágu samkeppni og neytendaverndar.

Og hinir uppkeyptu róa sömu bátunum á sömu mið.

Treysta meðal annars á að hér er ekki fjölmiðlafrelsi því það vantar forsendur þess, frjálsa fjölmiðla.

Og þeir hafa lært af síðustu mistökum sínum.

 

Hvort þeim tekst þetta, kemur í ljós.

Það er mikið undir.

Gróði fyrir húsbændur þeirra.

Ljós og ylur fyrir almenning ásamt arðinum af orkuauðlind sinni.

 

Næstu dagar verða afdrifaríkir.

Þá á að véla í gegn blekkingunni.

Það eina sem samtryggingin óttast er að andstaðan nái að vekja fjöldann af þyrnirósarsvefni sínum, sem reyndar er ekki langur, almenningur var glaðvakandi í þjóðaratkvæðinu um ICEsave.

Og hann er aðeins með annað augað lokað í dag. Svo þegar betur er gáð sést greinilega að bæði eyru eru sperrt.

 

Það er í raun háskaspil fyrir stjórnmálastéttina að hundsa vilja hans í þessu máli. 

Það gæti verið hennar síðasta verk.

Mikið má vera undir ef heimskra manna óðagát setur þann kúrs.

 

Vitur maður leggur ekki í orrustu þegar hann veit að stríðið er tapað.

Hann semur frekar á meðan einhver vill semja við hann.

Pyrrhosarsigur breytir engu þar um, nema að eftir hann er ekkert til að semja um.

 

Alþingi getur sagt þjóðinni stríð á hendur með því að samþykkja orkupakka 3 á þessu þingi.

En það verður síðasta stríð viðkomandi þingmanna og viðkomandi flokka.

 

Er það þess virði??

Þó launin séu örugglega góð.

 

Er það samt þess virði.

Kveðja að austan.


mbl.is Fjölmiðlafrelsi hjá innan við 10% jarðarbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórdís kennir sér eldri og reyndari mönnum.

 

Fyrir ekki svo mörgum dögum síðan þá átti málstaður andstæðinga orkutilskipana Evrópusambandsins lítinn aðgang að almenningi sökum þess að líkt og í ICEsave deilunni hafa næstum því allir fjölmiðlar landsins tekið beina afstöðu með stjórnmálastéttinni gegn þjóðinni í þessu grundvallarmáli um forræði hennar yfir orkuauðlindum landsins.

Slíkt hefur þó þann kost að ráðherrar hafa talið sig getað komist upp með fullyrðingar og hálfsannleik í málinu í trausti þess að fjölmiðlar tali aldrei við þá sem geta leiðrétt málflutning þeirra.

 

Eitt slíkt viðtal, sem spyrillinn var þó inní málinu og spurði gagnrýna spurninga, var tekið við Þórdísi Kolbrúnu í útvarpsþættinum Harmageddon, og þar kom margt fróðlegt fram um afstöðu ráherra gagnvart samþykkt orkupakka 3. 

Það skal tekið skýrt fram að auðvitað er afstaða ráðherra skiljanleg, það er erfitt fyrir ungan og óreyndan ráðherra að taka málefnalega afstöðu gegn regluveldi ESB, sérstaklega í ljósi þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem eru í húfi, hagsmunaafla sem meðal annars stýra eða eiga flesta fjölmiðla landsins. 

Og að sjálfsögðu er líka rök fyrir samþykkt pakkans, þó ríkisstjórnin kannski heykist á að ræða þau en reynir þess í stað að blekkja almenning á þann hátt að efni þessa markaðspakka eigi ekki við Ísland nema að litlu leiti því landið sé ekki tengt orkumarkaði Evrópusambandsins gegnum sæstreng.

 

Margir gullmolar komu fram í þessu viðtali en í þessum pistli langar mig að benda á hvernig Þórdís Kolbrún afgreiðir þann mikla fjölda sjálfstæðismanna sem hafa ekki látið sannfærast af málflutningi stjórnvalda.

", já já ég veit að það eru margir sjálfstæðismenn á móti þessu en það er þannig að ef þú færð tækifæri til að setjast niður með fólki og segja því frá málinu, að þá eru mjög margir sem hlusta algjörlega á það. Þegar þú segir að fólki finnst - það er nefnilega alveg merkilegt -ég átta mig algjörlega á því að tilfinningar eru hluti af pólitík og það á við í öllum málum. Viðkvæmum málum, efnahagslegum málum, svona málum öllum saman. Það sem ég geri einfaldlega kröfu um, sérstaklega fólk með málefnalega innistæðu,sem hafa tekið þátt í umræðunni í langan tíma, almennt þegar þeir segja eitthvað þá opnar bara fólk eyrun og hlustar. Að eitt er að tala um tilfinningar en þú verður að hafa staðreyndir málsins þegar þú gerir það..... og getir fært rök fyrir máli þínu".

 

Eftir að þessi orð voru sögð, þá skrifaði fyrrum formaður flokksins, sem hefur setið einna lengst í stól forsætisráðherra, ætti því að hafa bæði reynslu og þekkingu á EES samningnum sem og hvernig alvöru stjórnsýsla virkar., leiðara í Morgunblaðið um orkupakkann.  Og margt hafa andstæðingar Davíðs Oddssonar borið uppá hann, en ekki það að hann geti ekki fært rök fyrir sínu máli út frá þeim staðreyndum sem fyrir liggja.

Og hreint út þá er hann ekki hrifinn af málflutningi ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

"Það er ekki aðeins eftirtektarvert heldur himinhrópandi að þeir sem ætla sér nú að fara gegn sívaxandi andúð almennings á þessu máli færa ekkert fram sem mælir með slíkri framgöngu. Öll rök þeirra, svo fátækleg sem þau eru, snúast um að þær hættur sem almenningur telji stafa af málinu og blasa reyndar við, séu ekki jafn alvarlegar og fólkinu finnst. Því valdi „fyrirvararnir“. Fyrirvararnir? Hvaða fyrirvarar? Jú þá er vísað í minnisblað um viðhorf sem sendinefnd undir forystu íslenska utanríkisráðherrans hafi fengið að viðra við einn af kommissörum ESB og afhenda á fundi með honum, þar sem sá viðurkenni að hafa verið viðstaddur. Þarna eru fáeinar vangaveltur á ferð sem enga þýðingu hafa, og nálgast hvergi að vera lögformlega bindandi „fyrirvarar“.

Fyrrverandi forsætisráðherra, raunar ákafur talsmaður valdeflingar ESB á kostnað Íslands, hefur bent á, að þarna sé farið með hreinar blekkingar gagnvart þingi og þjóð. Sá bætir þó við, svo furðulegt sem það er, að þær blekkingar séu „lofsverðar blekkingar“ fyrst einhver gleypti þær. Dómstólar hafa þegar úrskurðað að sambærilegir „fyrirvarar“ (í hrákjötsmálunum) sem íslenskir þingmenn féllu fyrir hafi ekkert gildi".

 

Og hvor skyldi hafa rétt fyrir sér, lærlingurinn sem er ennþá blaut á bak við eyrað eða hinn þrautreyndi stjórnmálamaður, sem reyndar líka hafði kjark til að standa með málstað þjóðarinnar í ICEsave deilunni, og þá gegn svipuðum málflutningi og beitt er í dag gegn andstæðingum orkupakkans. 

"Þið vitið ekki hvað þið eruð að segja, þið færið ekki rök fyrir máli ykkar, viljið ekki axla ábyrgð, eru bara á móti". 

En allir vita hvernig sú deila fór, dómur kom sem kvað úr um að einmitt menn eins og Davíð Oddsson vissu allan tímann hvað þeir voru að segja.

Því þeir töluðu út frá rökum og staðreyndum.

 

Margt má taka út úr málflutningi ráðherra þar sem hún afhjúpar algjöra vanþekkingu sína á efnisatriðum málsins, en ætli þessi sé ekki sá sorglegasti;

"Þegar maður er með svona mál og það er sagt, þið eigið bara að hafna þessu, það verða þá að vera mjög ríkar ástæður fyrir því og þegar fólk segir – hvað með það sem síðar mun koma, þá segjum við það bindur okkur enginn í þennan samning, við getum alltaf sagt, nei heyrðu -stoppum nú".

Já, ef fyrirvararnir halda ekki eða ef málið þróast gegn hagsmunum þjóðarinnar, þá er alltaf hægt að segja stopp, en það er bara ekki svo.  Ekki ef menn ætla að virða EES samninginn.

 

Um þetta atriði segja þeir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson í álitsgerð sinni sem fylgir þingsályktunartillögu utanríkisráðherra,

"„Fram hefur komið að ekki standi til að innleiða 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 í landsrétt jafnvel þótt þriðji orkupakkinn væri tekinn upp í EES-samninginn (að undangengnu samþykki Alþingis á fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017), þar sem Ísland sé ekki tengt við innri orkumarkað ESB (t.d. gegnum sæstreng). Að mati höfunda er þó til þess að líta að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr. 713/2009 í landsrétt, með þeim breytingum/aðlögunum sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 7. gr. EES-samningsins.74 Myndi Íslandi þvi bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlôgunurn sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. ".

 

Svo þetta sé þýtt á mannamál, þá geta íslensk stjórnvöld ekki neitað að innleiða reglugerðina sem fjallar um tengingu yfir landamæri eftir að það hefur aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum við hana.  Því eftir það tekur sameiginlega EEs nefndin málið ekki upp.

Raunverulega getur ekki verið um vanþekkingu að ræða, heldur vísvitandi blekkingu til að slá ryki í augu fólks.

og slíkt er ekki góð kennsla.

 

Þetta er aðeins eitt dæmið af mörgum, og fleiri verða týnd til á næstu dögum eftir því sem vindur að ákvörðun Alþingis í þessu stóra hagsmunamáli þjóðarinnar.

Svona pistlar fara vissulega ekki langt og víða, en margir svona pistlar, margar svona raddir, ná athygli og eyrum fólks.

Þeir gerðu það í ICESave deilunni, þeir gera það í dag.

 

Því þetta snýst ekki um fjölmiðla, ekki ef þeir taka þátt í blekkingarleik valdhafa.

Það sást í Austur Þýskalandi um leið og fólk hætti að óttast skriðdreka valdsins.

Þetta snýst um hvort einhver hafi vilja til að verja þjóð sína á Ögurstundum hennar.

 

Og við erum mörg, mjög mörg.

Þau eru fá, mjög fá.

 

Þar á milli er almenningur sem hefur dómgreind og vit til að hlusta.

Treystum honum.

Kveðja að austan.

 

 


Frjálshyggjufólkið á þingi.

 

Mætir hneykslað í ræðustól og kvartar yfir biðlistum.

Segir þá hneisu sem er rétt, og segir að það eigi að skipta við einkaaðila til að leysa vandann. Sem getur alveg líka verið rétt, allavega ekki gáfulegt að senda fólk um langan veg til útlanda, ef það er hægt að framkvæma sömu aðgerð í næstu götu, innanlands.

Held í raun að enginn deili um það þó tregðulögmálið hafi ekki séð ljósið.

 

En hvers er ábyrgðin að hafa fjársvelt heilbrigðiskerfið um langt árabil??

Og hvaða hugmyndafræði liggur að baki að skemma innviði til að hampa einkarekstri??

 

Ekki að einkarekstur sé slæmur, alls ekki hann hlýtur að vera nauðsynleg viðbót til að fá fjölbreytni og snerpu í kerfið.

En hið skipulagða fjársvelti til að skemma innviðina er hins vegar glæpsamlegt.

 

Fjármálaráðherra bendir réttilega á flöskuhálsa en þeir urðu ekki til að sjálfur sér.

Ítrekaðar hagræðingarkröfur hafa búið þá til og í raun snúist uppí faðirvor andskotans, það sem átti að spara, stórjók kostnað ásamt lakari nýtingu þeirra fjármuna sem þó eru settir í heilbrigðiskerfið.

Fagfólk varaði ítrekað við þessari meintu hagræðingu, að fækkun rúma, lokanir deilda, lokanir stofnana eins og Landakosts eða Sankti Jósefsspítalans myndu aðeins auka vanda, skapa flöskuhálsa og að lokum sprengja Landsspítalann.

Og allt gekk eftir.

 

Samt kemur þetta fólk, sem hundsaði aðvaranirnar, í ræðustól og skammast, samt með þeim undirliggjandi tón að nú sé lag að láta einkaaðila fá peninga sem ekki var hægt að finna handa hinu opinbera kerfi.

Og á undan þessu fólki var annað fólk sem hagaði sér eins.

Skar niður í nafni hagræðingar, og sólundaði þannig fjármunum skattgreiðanda, stórskemmdi heilbrigðiskerfið og gerði allt kerfið óskilvirkara.

 

Af hverju kemst þetta fólk upp með þessi vinnubrögð??

Af hverju látum við bjóða okkur þetta??

 

Það eru jú við sem borgum og blæðum.

Og það bauð sig ekki sjálft á þing.

 

Það erum jú við sem kjósum það.

Aftur og aftur.

Og allt við það sama.

 

Og þó ekki, núna ætlar það að afhenda vinum sínum orkuauðlindir þjóðarinnar.

Sbr, mikið vill alltaf allt.

 

Og samt kjósum við það.

Er það einleikið??

 

Oft hefur verið spurt af minna tilefni.

Kveðja að austan.


mbl.is Þjáningunum verði að linna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2019
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 686
  • Sl. sólarhring: 910
  • Sl. viku: 5241
  • Frá upphafi: 1458731

Annað

  • Innlit í dag: 607
  • Innlit sl. viku: 4565
  • Gestir í dag: 574
  • IP-tölur í dag: 552

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband