Ísland er ekki eyland.

 

Stjórnvöld og hagsmunaaðilar sem taka núna stríð við þjóðina um orkuauðlindir hennar, sem við skulum muna að er næstsíðasta stríð þeirra ef þau hafa sigur í þessu, það síðasta verður þá stríðið um fiskinn, að þessir aðilar haldi áfram þar sem Bretar gáfust upp í síðasta þorskastríði, láta eins og Ísland sé í tómarúmi.

Að það gildi aðrar reglur um okkur, að við getum sett einhliða fyrirvara þó slíkt hafi engu öðru ríki tekist á hinu sameiginlega evrópska efnahagssvæði.

Og síðan að innihald hans sé allt annað fyrir okkur en hjá öllum hinum ríkjum efnahagssvæðisins.  Hjá þeim snúist hann vissulega um tengingu milli landamæra til að koma á virkri samkeppni á hinum sameiginlega orkumarkaði, en hjá okkur snúist hann um neytendavernd og líklegast aukið gegnsæi þó enginn skilji nákvæmlega hvað átt er við.

Einnig er látið eins og það sé ekki til neitt sem heitir saga, bæði í nútíð og fortíð sem gefi vísbendingar um hvað er rétt, og hvað er rangt. 

 

Sagan kennir að einhliða fyrirvarar haldi ekki, ef slíkir eiga að halda, þá þarf að semja um þá í upphafi.

Líkt og við Íslendingar gerðum þegar við sömdum okkur frá hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins.  Þeir fyrirvarar hafa haldið enda virðir ESB samninga, ætlast til þess að þeir haldi.

En það er hollt að rifja upp að Bretum tókst ekki að halda í einhliða fyrirvara sína með vísan í bresk lög þar um.  Þáverandi breskir þingmenn sögðu umbjóðendum sínum í fiskveiðibæjunum Hull og Grimsby að skip annarra landa Evrópusambandsins myndu ekki fá að veiða innan bresku fiskveiðilögsögunnar, en smátt og smátt urðu Bretar að breyta löggjöf sinni þar um, þar til allar varnir féllu. 

Í þessu samhengi er gott að muna að þetta var á þeim tíma þar sem Evrópusambandið var ennþá viðskiptabandalag og regluveldið var að þróa sinn innri markað og alla þá einsleitni sem hann krefst. Í dag kæmist enginn upp með að bulla svona eins og bresku þingmennirnir gerðu á sínum tíma, en þeir höfðu það sér til afsökunar að þeir vissu ekki betur.  Því allt var nýtt í þá daga.

 

En íslenskir stjórnmálamenn sem fullyrða að Ísland sé eyland og ekki í neinum tengingum við hvorki söguna eða raunveruleikann, reyna núna að sannfæra kjósendur sína að þeir geti samþykkt orkupakka 3, án þess að samþykkja aðalatriði hans, því um það munu þeir gera fyrirvara.

Og vísa í íslensk lög, lög um Landsvirkjun, og lögin sem þeir ætla að samþykkja sem banna lagningu sæstrengs nema þeir sjálfir fái tækifæri að svíkja fyrri heitstrengingar.

Treysta líka á að kjósendur þeirra, sérstaklega þeir sem yngri eru, þekki ekki söguna, enda fæstir fæddir þegar Brussel lamdi breska heimsveldið til hlýðni á sínum tíma.  Eða önnur þau dæmi þar sem ríki urðu að lúffa með lagasetningu sína þegar hún gekk gegn reglum sambandsins um hið frjálsa flæði á sameiginlegum markaði.

 

En þá er hægt að skoða nútíðina.

Norðmenn, miklu stærra og öflugra ríki en við, sem Þórdís Kolbrún fullyrðir að hafi mikil áhrif á þróun orkustefnu sambandsins vegna hinnar öflugu hagsmunagæslu sinnar, hafa þegar tapað máli fyrir EFTA dóminum vegna þess að þeir aðlöguðu áratuga gömul lög ekki að orkutilskipunum sambandsins.

Þar var bundið í lög að þegar einkaaðilar sem höfðu fjárfest í vatnsaflsvirkjunum höfðu fengið kostnað sinn og sanngjarna arðsemi á fjárfestingu sinni til baka, að þá áttu þeir að skila inn virkjunarleyfinu, og ríkið yfirtæki virkjunina.  Því vatnsaflið væri auðlind í eigu þjóðarinnar, og þeir sem virkjuðu höfðu aðeins afnotarétt af auðlindinni.

Lög sem héldu alveg þangað til að þeir höfðu samþykkt orkupakkana, eftir það urðu þeir að lúta hinu evrópska regluverki sem leyfði ekki svona mismun á milli ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækja.

 

Þessi dómur er tiltölulega nýlegur og fjallar um innlend lög, áratugagömul, sem héldu ekki því ekki var samið um slíka fyrirvara áður en orkupakkarnir voru samþykktir.

Samt láta stjórnvöld og vísa sannarlega í innlenda lögfræðinga, eins og að okkar sérlög haldi. 

Að evrópska reglugerðin víki þegar hún stangast á við íslensk lög, ekki öfugt.

Og að við getum samþykkt Orkupakka 3 án þess að samþykkja innihald hans.

Að við séum eyland meðal þjóða.

 

Og þau ætlast til þess að kjósendur trúi þessari vitleysu.

Hve arfaslæm er ein reglugerð ef hún þarf svona bull og vitleysu til að hægt sé að réttlæta samþykkt hennar fyrir þjóðinni??

Að það sé ekki hægt að segja satt orð í málinu, að rökin séu bull, og ekki sé hægt að viðurkenna þá staðreynd sögunnar, sem er þar algjörlega sammála regluveldinu, að einhliða fyrirvarar halda ekki.

 

Af hverju er ekki hægt að tala um meinta ávinninga sem felast í þessu valdaafsali til Brussel, og tenginguna við hinn sameiginlega orkumarkað.

Um ávinninginn af markaðsvæðingu orkunnar og markaðsvæðingu orkufyrirtækjanna.

Það er ekki eins og enginn hafi gert það samanber prófessorinn sem kom í Silfrið fyrir nokkrum vikum og sagði að þetta yrði mikið gæfuspor fyrir þjóðina, og færði fyrir því rök.

Af hverju má ekki kynna þau rök fyrir þjóðinni og ræða þau??

 

Af hverju þessar lygar og blekkingar??

Og af hverju er allt svona heimskt við málflutning stjórnvalda??

 

Ísland er ekki eyland á hinum innra markaði, það gilda sömu lög og reglur um okkur eins og hin ríkin.

Orkupakki 3 er ekki um neytendavernd og aukið gegnsæi, hann er um tengingu milli landa, og þær reglur sem eiga að gilda þar um.  Þó vissulega sé líka skerpt á ýmsum samkeppnisákvæðum fyrri orkupakka.

Það verður lagður sæstrengur því einkafyrirtæki eru á fullu við að undirbúa hann.

Og Landsvirkjun í það minnsta verður skipt upp í smærri einingar og allavega hluti af þeim fer á markað. 

 

Þetta eru staðreyndir og aðeins lygarar halda öðru fram.

Síðan má ekki gleyma að reglurnar um ACER ganga gegn fullveldi þjóðarinnar og eru því brot á stjórnarskránni eins og hún er í dag.  Henni má auðvitað breyta eins og Norðmenn gerðu, en á meðan það er ekki gert, þá brýtur samþykkt Orkupakka 3 íslensku stjórnarskrána.

Um þetta þarf ekki að deila.

 

Síðan er það lágmarkskrafa til stjórnmálamanna að þó þeir treysti sér ekki til að ræða staðreyndir, og kjósi því að ljúga og blekkja, að þá sé það ekki gert á svo heimskulegan hátt og gert er í þessu máli.

Þetta er niðurlægjandi fyrir þá, og þetta er niðurlægjandi fyrir þjóðina.

 

Það er mál að linni.

Kveðja að austan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Íslenskir stjórnmálamenn eru litlir kallar og kellingar í útlöndum sem langar að leika við stóru krakkana. En heima eru þessar litlu kellingar og litlu kallar stærri en annað fólk.

Vandinn er ekki þeirra og ekki heldur óheiðarleikinn. Vandinn er okkar hinna að skilja ekki hvað þau eru mikil, skynsöm og klár, enda er þeim en ekki okkur stundum boðið í hallir og kastala.

Það er leiðinlegt fyrir svona stórmenni að þurfa að útskýra fyrir kjánunum, en neyðast til þess af því að kjánarnir halda á atkvæðunum.

Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 5.5.2019 kl. 19:26

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, þú spyrð: "Af hverju er ekki hægt að tala um meinta ávinninga sem felast í þessu valdaafsali til Brussel, og tenginguna við hinn sameiginlega orkumarkað. Um ávinninginn af markaðsvæðingu orkunnar og markaðsvæðingu orkufyrirtækjanna."

Um sumt talar maður einfaldlega ekki því vegna almanna hagsmuna þyldi slíkt "samtal" ákaflega illa dagsljósið.

Eins og þú veist þá eiga "umræðustjórnmálamenn" dagsins í dag "samtal" áður en þeir komast að niðurstöðu, bara ekki við hvern sem er, allra síst óbreyttan pöpulinn.

Hvað þá um raforkuverð íslenskra heimila, það þolir svo djöfullega ljósið þegar allt er sam-talið.

Með kveðju að ofan.

https://www.samorka.is/rafmagnid-odyrast-a-islandi/?fbclid=IwAR0mCdzJqgyPVTuE6kI08agZjP0NMOqBW3ihA5Rc4yFJycVA5iEehDS9SVA

Magnús Sigurðsson, 5.5.2019 kl. 19:34

3 identicon

Frábær pistill Ómar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 5.5.2019 kl. 20:01

4 identicon

Kvótagreifarnir halda að þeir stjórni ESB. 

Það er mikill misskilningur þeirra.

Þeir gátu selt byggðakvóta hér innanlands,

en kannski þeir selji bara næst sjávarauðlindina

til hæstbjóðanda, á ESB svæðinu

og skilji þjóðina eftir án allra auðlinda sinna?

Er ekki allt markaðsvæðing á EES svæðinu?

Allt á vakt forystu Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri Grænna?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.5.2019 kl. 20:26

5 identicon

Það er þetta, sem Þórólfur Gíslason hefur áttað sig á, og því risið upp, ásamt Skagfirsku sveitarstjórninni, og mótmælt innleiðingu OP 3.

og risið upp til varnar byggðinni þar.

Er hann sá eini af kvótakóngum hér á landi,

sem skynjar samsvörunina sem þú bendir hér á Ómar?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.5.2019 kl. 20:48

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon Pétur.

Ég lagði of mikla vinnu í að hugsa þennan pistil frá mörgum hliðum, til að fá svona bull athugasemd.  Það liggur við að það hvarfli að mér að þú vinnir fyrir virkjunargreifa, og ástundir þau vinnubrögð að kasta aðalatriðum á dreif, en reynir að láta umræðuna snúast um tittlingaskít aukaatriða.

Það eina sem þú getur hugsanlega tengt við kvótagreifa er þegar ég bendi á að stjórnvöld og hagsmunaöfl taki síðustu orrustuna og þá um fiskiauðlindina, en ein birtingarmynd þeirrar orrustu gæti verið sú markaðsvæðing að allur aflaheimildir færu á uppboðsmarkað, sem er opinn á öllu evrópska efnahagssvæðinu, eitthvað sem gerði kvótagreifa af fyrstu fórnarlömbum þeirrar markaðsvæðingar, auk sjómanna og landverkafólks og okkur hinna sem búum á landsbyggðinni.

Annars var ég að fjalla um næstsíðasta stríðið, sem ég vil gera að því síðasta með því að vinna þetta stríð.

En þú ert vægast ekki að hjálpa til við það Símon minn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.5.2019 kl. 20:49

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Esja.

Mér finnst að þú sért svona að reyna að láta íslenska stjórnmálamenn passa inní afstæðiskenningu Einsteins, að stærð þeirra fari eftir þeim punkti sem þeir eru staddir á, Brussel er þá eins og svarhol sem brenglar öllum lögmálum.

En það er rétt, vandi fólks getur verið mjög mismunandi, og sjálfsagt er það vandi þeirra sem vita betur, að þurfa að eiga samtal við fáfróða kjósendur.

Ég man að Bjössi stærðfræðikennari stundi oft yfir svipuðum vanda þegar hann horfði yfir bekkinn.  En ég man ekki eftir því að hann hafi kosið að stytta sér þá leið að segja, að svarið 2+2 væri það sem við skrifuðum niður, og að vitlaust svar væri jafnrétt röngu, og ef fólkið fyrir sunnan sem semdi samræmdu prófin héldi einhverju öðru fram, þá væri það af fáfræði, illkvittni, sunnlendingahroka (101 var þá ekki til sem hugtak, heldur talað um fólkið fyrir sunnan)eða allt annað en það að afstaða þess væri rétt. 

Fáfræði er til að sigrast á, þó það gangi misvel, en menn sigrast ekki á henni með þeirri orðræðu sem ég lýsti hér að ofan.

Svo ég endurtaki, hún er niðurlægjandi fyrir stjórnmálastéttina, og hún niðurlægir þjóðina.

Og það er mál að henni linni.

Við ættum öll að geta tekið undir þá kröfu, óháð afstöðu okkar til orkupakkans að öðru leiti.

Kveðja að ausan.

Ómar Geirsson, 5.5.2019 kl. 21:37

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Það má vel vera að þeir telji svo að þetta þoli ekki dagsljósið, en það leysir þá ekki undan þeirri skyldu að eiga samtal við þjóðina á vitrænum forsendum.

Norska embættismannakerfið lýsti því til dæmis yfir að þó raforkan hefði hækkað snarlega eftir orkan flæddi inná samkeppnismarkaðinn, þá hefði hún hækkað ennþá meir ef sú tenging hefði ekki verið til staðar.  Um þetta pistlar Ketill orkusérfræðingur og kemur að auki með fleiri vitræn rök sem hægt er að taka afstöðu til.

Allavega var ég ekki nógu glöggur til að sjá að hann væri að bulla eða fabúlera en um ákveðnar forsendur var ég bara ósammála honum.

Og hvað með það??

Stjórnmálastéttin er búin að taka ákvörðun eins og þú lýsir svo hnyttilega hér að ofan, sem sagt búin að eiga sínar samræður og komast að niðurstöðu.

Við fáum þar engu um breytt, og það má guð vita hvaða hitamál verða í deiglunni í næstu kosningum.

En þessi vinnubrögð eru ekki boðleg.

Meira að segja svínin í Animalfarm finndu skítalyktina af þeim.  Og þó voru þau alin uppí skít.

Svo ég endurtaki aftur, þessi vinnubrögð eru niðurlægjandi fyrir stjórnmálastéttina, og þau eru niðurlægjandi fyrir þjóðina, að til skuli vera fólk sem fyrirlítur hana svo mjög, að það telur þessi vinnubrögð boðleg þegar hún á í hlut.

Skömm þess er mikil.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.5.2019 kl. 21:49

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Enn og aftur takk fyrir það Pétur.

Tíst smáfuglanna hefur áhrif, gleymum því aldrei.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.5.2019 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 32
  • Sl. sólarhring: 960
  • Sl. viku: 5518
  • Frá upphafi: 1338405

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 4865
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband