Varnarbaráttan um orkuauðlindina.

 

Afhjúpaði í síðustu viku hve stjórnvöld eru ráðalaus í þessu máli.

 

Það átti að sigla þessu máli í gegnum þingið í þokkalegri sátt þingheims, vitað var um andstöðu Miðflokksins og eins var Inga Snæland líkleg að vera á móti.

Í samfélaginu var vitað um fámennan hóp í kringum Frosta Sigurjónsson, Ögmund Jónasson og nokkra aðra öldunga flokkanna sem ekki var talin mikil ógn af.

Eitthvað fór samt úrskeiðis og hvort alvaran var ljós þegar skoðanakannanir sýndu að áróðursvélin náði ekki til almennings og þegar ASÍ tók í fyrsta sinn í langan tíma afstöðu gegn sjálfvirkri stimplun á reglugerð frá Brussel, eða hvort rökþrotið og blekkingarnar hafi ekki þolað dagsljós umræðunnar.

Allavega var blásið til risa áróðurssóknar, sem út af fyrir sig er skrýtið því öruggur þingmeirihluti er fyrir málinu, og nú átti að þagga niður í andstæðingum orkutilskipanna Evrópusambandsins jafnt innan þings sem utan.

 

Fyrsta útspilið var að láta ritara Sjálfstæðisflokksins og formann utanríkismálanefndar koma í pontu og leggja út af skoðanakönnun Fréttablaðsins þar sem átti að sýna fram á hvað Evrópusinnarnir í Samfylkingunni og Viðreisn væru vel gefið fólk. 

En einhvern veginn tókst Áslaug Örnu að herða á andstöðunni innan flokksins, líklegast var það ekki mjög gáfulegt að fullyrða að hinn almenni flokksmaður væri óupplýstur og að öldungar flokksins líkt og Styrmir Gunnarsson, Davíð Oddsson, Tómas Ingi Olrich og Sturla Böðvarsson stjórnuðust af annarlegum hvötum (fyrir Miðflokkinn??) og málflutningur þeirra einkenndist af rangfærslum og blekkingum.

Eftir á hefði verið betra að engir fjölmiðlar hefðu verið á svæðinu til að blása upp hinum rauðu dulum Áslaugar.

Sjálfsmark númer 1.

 

Næsta útspilið í umræðustjórnuninni var að fá gamlan ráðgjafa, með fortíð, til að koma á fund utanríkismálanefndar og segja nefndarmönnum frá því hve hann teldi Evrópusambandið voðalegan félagsskap sem ekki virti samninga sína og "að við getum gert ráð fyrir að ESB verði hart í horn að taka, einnig í ljósi þess að orka skiptir svo miklu fyrir ESB". 

Eins og menn skyldu ekki að svona hræðsluáróður hefur þveröfug áhrif, ef rétt er, sem engin ástæða er til að ætla, að þá losa þjóðir sig út úr heljargreipum slíkra kúgunarbandalaga, þó það kosti tímabundið bakslag í lífskjörum, því það er engin framtíð í að hlýða og ganga í takt í gæsagang alræðisins.

En lögfræðin sem ráðgjafinn ræddi af þekkingu, staðfesti hins vegar lögfræði Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Hirst, um að hin sameiginlega EES nefnd væri hinn rétti farvegur ef stjórnvöld á annað borð gera fyrirvara á reglugerðum Evrópusambandsins.

Sjálfsmark númer 2.

 

Þriðja og síðasta útspilið var að kalla á yfirlýsingu frá EFTA ríkjum um ?????, já um hvað sem átti að gagnast áróðrinum??  Héldu menn að EFTA ríkin myndu taka þátt í blekkingarleiknum, smækka pakkann niður í ekki neitt eða lýsa því yfir að Ísland væri undanskilið þeim reglum sem það samþykkti??

Að sjálfsögðu hélt EFTA sig við staðreyndir málsins.

Gagnvart því sem íslensk stjórnvöld segja um innihald orkupakka 3, til dæmis Þórdís Kolbrún í viðtali; "Þetta er tæknilegt framhald af fyrsta og öðrum orkapakka,sem eykur neytendavernd, eykur aðhald á fyrirtæki sem selja raforku og eykur upplýsingaskyldu þessara fyrirtækja, það er í eðli sínu mjög fínt finnst mér", þá benda EFTA ríkin á hvað er verið að innleiða í orkupakka 3; "stór hluti ákvæða þriðja orkupakk­ans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunn­virki fyr­ir raf­orku yfir landa­mæri".

Vissulega bent réttilega á að þar sem Ísland er ekki tengt hinum sameiginlega orkumarkaði Evrópusambandsins, þá gilda þau ákvæði ekki á meðan, en meinið er að þau gilda um önnur lönd sem eru tengd, og sæstrengur hefur tvo enda.  Og ef einkafyrirtæki vill tengja, segjum til dæmis Noreg eða Skotland við íslenska raforkumarkaðinn með sæstreng, þá erum við sjálfkrafa orðinn hluti af þessum regluverki sem hefur einmitt það megin markmið að útrýma raforkueyjum innan hins samevrópska orkumarkaðar.

Og það eru ákvæði reglugerðarinnar sem gilda en ekki einhverjar yfirlýsingar stjórnmálamanna eða embættismanna um annað, sama hve þær yfirlýsingar eru sameiginlegar.

Sjálfsmark númer 3.

 

En öll þessi sjálfsmörk hafa samt orðið umræðunni til góðs.

Þau hafa skýrt hana, afhjúpað blekkingar stjórnvalda um innihald orkupakkans, sýnt fram á að einu fyrirvarar sem halda eru þeir sem samið er um sérstaklega samkvæmt ákvæðum EES samningsins, og þau hafa dregið EFTA ríkin inní málið með eftirtektarverðum hætti.  Sem er það besta og gæfuríkasta fyrir framhald málsins.

Íhugum þessi orð í yfirlýsingu EFTA;

".. „raf­orku­kerfi Íslands sé, eins og stend­ur, ein­angrað kerfi og ekki tengt við raf­orkusæ­streng milli Íslands og orku­kerf­is innri markaðar ESB. Í því ljósi hefði stór hluti ákvæða þriðja orkupakk­ans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunn­virki fyr­ir raf­orku yfir landa­mæri, ekki gildi eða neina raun­hæfa þýðingu fyr­ir Ísland á meðan eng­inn raf­orkusæ­streng­ur er til staðar".

 

Við erum einangruð og okkar raforka hefur í dag í raun ekkert gildi fyrir orkukerfi hins innri markaðar ESB og þannig viljum við hafa það áfram.

Orkuauðlindirnar undir okkar forræði og nýttar á þann hátt sem hefur reynst okkur svo vel í gegnum tíðina, það er á samfélagslegum forsendum, ekki markaðslegum.

Og fyrst við skiptum ekki máli fyrir hinn innri orkumarkað, þá hlýtur vera hægt að semja um að svo verði áfram.

Sé það síðan í framtíðinni sameiginleg ákvörðun okkar og Evrópusambandsins að leggja sæstreng, þá verði það gert undir formerkjum tvíhliða samnings þar sem hagsmunum beggja er haldið til haga.

Þetta eru verkefni sumarsins fyrir hina sameiginlegu EES nefnd, og ef marka má þessa yfirlýsingu, þá hlýtur samkomulag þar um vera létt verk og löðurmannlegt.

 

Hinn möguleikinn er að sætta sig við regluverkið eins og það er, og hætta að ljúga því að þjóðinni að það sé hægt að samþykkja eitthvað og síðan þurfi ekki að fara eftir því.

Sætta sig við markaðsvæðingu orkuauðlindanna á hinum samevrópska samkeppnismarkaði og sætta sig við algjör yfirráð Evrópusambandsins og stofnana þess á orkumálum þjóðarinnar.

Þau eru ekki algjör í dag, en þau verða þegar Brussel sendir út síðasta orkupakka sinn, því slík yfirráð eru hornsteinn stefnu skrifræðisveldisins í orkumálum álfunnar.

 

Eftir þessa yfirlýsingu EFTA ríkjanna þá er ekki lengur hægt að halda því fram með gildum rökum að ekki sé hægt að semja um sjálfstæði þjóðarinnar í orkumálum við EES ríkin, stólar eru aldrei settir fyrir dyrnar hjá þeim sem skipta ekki máli að gangi inn.

Og með þann bakhjarl munum við ná samkomulagi við ESB.

 

Evrópusambandið hefur allan hag af samkomulagi, það hefur engan hag af því að kúga okkur.

Í allri þeirri ólgu sem þar er í dag, þá skiptir það miklu máli að geta sýnt fram á eðlileg og gagnkvæm samskipti við önnur ríki.

Ávinningurinn að kúga Ísland til hlýðni, og neyða þjóðina í kjölfarið að segja upp EES samningnum, er minimal miðað við álitshnekkinn sem af því yrði.

Meira að segja Sovétríkin, sem var alræðisríki, stóðust ekki slíkt til lengri tíma.

 

Trúum því ekki tröllasögum.

Nýtum meðbyrinn sem hin sameiginlega yfirlýsing EFTA ríkjanna er, semjum í sumar.

Um fyrirvara sem halda.

 

Sættum þannig þjóðina.

Kveðja að austan.

 

 


Bloggfærslur 12. maí 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 260
  • Sl. sólarhring: 790
  • Sl. viku: 5544
  • Frá upphafi: 1327090

Annað

  • Innlit í dag: 234
  • Innlit sl. viku: 4919
  • Gestir í dag: 225
  • IP-tölur í dag: 221

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband