Viðrini umræðunnar.

 

Það er hulin ráðgáta tímans hvort Ásmundur Friðriksson hefði keyrt þvers og kurrs um kjördæmi sitt ef aksturspeningar Alþingis væru ekki ríflegir.

Hins vegar fékk hann sömu ríflegu aksturspeningana per kílómeter og aðrir þingmenn, hann keyrði aðeins meir en þeir, sjálfsagt í vanþökk Djúpríkisins sem þolir ekki þingmenn á meðal fólks, því slíkt er hjáleið framhjá múrum skrifræðisvaldsins sem deilir og drottnar og ætlast til þess að vald þess sé óvéfenglegt.

Hafi hann dregið sér fé með því að keyra, þá eru allir þingmenn sem hafa keyrt sekir um sama glæp.

 

"Rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé" er þá vísan í eitthvað annað, að hann hafi rukkað fyrir ferðir sem hann hafi ekki farið, eða ferðarnar komi starfi hans sem þingmanns ekkert við.

Ákaflega einfalt er að sýna fram á slíkt, það þarf aðeins að nefna viðkomandi ferðar, og til þess má nota putta, í fyrsta lagi, í öðru lagi og svo framvegis. 

En jafnvel heimskasti maður, hvort sem hann er í hópi kjósenda Pírata eða tilheyrir þeim stóra hópi fólks sem þykist vera á móti, getur ekki talið á fingrum sér rökstuddan grun, nema hann sé rökstuddur með dæmum.

Við lærðum jú öll að telja í uppí tíu í fyrsta bekk, og rökstuddur grunur án dæma er ekki talinn, hann er þá dylgjur.

Dylgjur ef rökin á bak við hinn meinta rökstudda grun eru ekki talin upp.  "Í fyrsta lagi, í öðru lagi .." og svo framvegis.

Svo einfalt, svo auðskiljanlegt, en Pírötum ofviða.

 

Píratar væru ekki viðrini umræðunnar ef þetta væri tilfallandi dæmi um málflutning þeirra.

Og þeir væru ekki svo sem eineltispúkar heldur þó þeir tæki manninn fyrir, en ekki það kerfi sem gerði slíka áskrift af aksturspeningum mögulegt.

En þegar þessi hegðun bætist ofan á þau fáheyrð þegar Sunna og Björn stóðu með skilti við ræðupúlt Alþingis þar sem þau lítilsvirtu þingmenn sem varð á í fyllerí, þó viðkomandi þingmenn hefðu margbeðist afsökunar á framferði sínu, enda ekki reiknað með, ekki frekar en aðrir á fyllerí, að vera hleraðir, að viðhafa fyllerísraus.

Tvískinnungurinn og hræsnin gat þá líka verið tilfallandi, en ekki með svona stuttu millibili.

 

Samhengið blasir við þegar sumir eru teknir fyrir en ekki aðrir (væru þeir samkvæmir sjálfir sér þá hefðu Píratar látið gera bol með orðinu "nauðgari", og farið í hann í hvert skipti sem Ágúst Ólafur hefði sést í þingsal), kallast einelti á mannamáli.

Og eineltispúkarnir ofsækja ekki hvern sem er, algjör fylgni er milli ofsókna þeirra og fórnarlamba sem á einhverju stigi málsins hafa lagst gegn markaðsvæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar og afsal forræðis hennar yfir þeim.

 

Tilviljun???

Varla.

 

Björn Leví, eineltishrellir, skrifaði afhjúpandi grein í Morgunblaðið nýlega þar sem hann á mjög sérstakan máta sýndi fram á að engin þörf væri á fyrirvörum á samþykkt Orkupakka 3, eðlilegasti hluti í heimi væri að Evrópusambandið hefði forræði með tengingum á milli landa, því regla yrði að ríkja.

Jafnvel Viðreisn í þjónkun sinni við fjárfesta sem ætla að mala gull við markaðsvæðingu orkunnar, hefur ekki gengið svo langt í málflutningi sínum.

Því eitthvað tillit þarf að taka til vitsmuna kjósenda.

 

En Píratar, flokkurinn sem þykist vera á móti kerfinu, sér ekkert athugavert við markaðsvæðinguna eða forræði Evrópusambandsins yfir orkuauðlindum þjóðarinnar.

Sem á vissan hátt er andkerfislæg skoðun, það er hún fer gegn þeirri sátt um sameign þjóðarinnar á orkunni og nýtingu hennar. Gegn sáttinni að ljós og ylur er allra, ekki bara þeirra sem betur mega sín.

Og hvað hefur svona örþjóð að gera við sjálfstæði, ef það sjálfstæði bitnar á frelsi fjárfesta að maka krókinn á kostnað okkar hinna??

 

Þegar þessi fáheyrða atlaga Björns Leví að vitsmunum kjósenda sinna er sett í samhengi við einelti hans gagnvart þeim sem standa í veginum, þá er ljóst hverjum hann þjónar, og hver er tilgangur Pírata á þingi.

Vissulega er það lýðræðislega réttur að vera viðrini umræðunnar, og það er lýðræðislegur réttur kjósenda að þykjast vera á móti frjálshyggju og auðræði, og segjast síðan styðja Pírata.

Það er ekkert sem bannar að vera viðrini, en það er afdrifaríkt ef andstaða þjóðar við auðsöfnun Örfárra, gegn eign þeirra á stjórnmálamönnum og fjölmiðlum, leitar til flokks sem gerir út á upphlaup, og öll þau upphlaup lúta því mynstri að vængstífa andstöðu þjóðarinnar gegn ásælni auðsins og ofurítökum hinna Örfáu á samfélaginu öllu.

Þegar fólk er í raun að styðja það sem það þykist vera á móti.

 

Höfum þetta í huga næst þegar fjölmiðlar slá upp einelti Pírata.

Höfum í huga gegn hverjum það beinist og hverjum það þjónar.

Það er ekki bæði sleppt og haldið, og það er ekki hægt að vera á móti auðræðinu og ítökum auðmanna í samfélaginu, og segjast um leið vera stuðningsmaður Pírata.

Jafnvel þó fólk telji það mannréttindi að fá að vera viðrini, þá er of mikið í húfi til að hægt sé að umbera slíkt hátterni.

 

Það er val að vera Pírati.

En það val útilokar sjálfkrafa að vera hluti af andstöðunni.

Því andstaða byggist ekki á frösum og gífuryrðum, andstaða byggist á afstöðu.

 

Þeirri afstöðu að telja við séum öll manneskjur.

Að við ráðum samfélagi okkar, að landið okkar og auðlindir séu sameign en ekki einkaeign.

Að hagsæld þjóðar sé mæld út frá velmegun og velferð fjöldans en ekki auðsöfnun Örfárra.

Og við verjum samfélag okkar og sjálfstæði þegar að því er sótt.

 

Hvað það varðar er ekkert val.

Það er annað hvort eða.

Svo augljóst að ekki er hægt að leika tveimur skjöldum hvað það varðar.

 

Sjálfstæði okkar er í húfi.

Velferð okkar er í húfi.

Ásælni auðsins í skjóli regluverks ESB þarf að stöðva.

 

Það er okkar.

Sem mun takast ef við stöndum saman og látum ekki blekkjast.

 

Allra síst af viðrinum umræðunnar.

Eða stuðningsmönnum þeirra.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Björn fór „ósæmilegum orðum“ um Ásmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. maí 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 88
  • Sl. sólarhring: 680
  • Sl. viku: 5372
  • Frá upphafi: 1326918

Annað

  • Innlit í dag: 86
  • Innlit sl. viku: 4771
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband