Nú er bleik brugðið.

 

Stefán Ólafsson, áður einn harðasti stuðningsmaður Evrópusambandsins á Íslandi, fagnar stefnubreytingu Alþýðusambandsins gagnvart sambandinu.

Telur rökin, að hafna áframhaldandi markaðsvæðingu, bæði sterk og mikilvæg.

Með öðrum orðum, Stefán er loksins búinn að fatta hið innra eðli sambandsins, sem er frjálshyggja markaðarins í þágu stórfyrirtækja.

 

Eftir stendur ennþá aumingjalegri Samfylking, taglhnýtingur frjálshyggju og markaðsvæðingar i anda kennisetninga Friedmans.

Félagshyggjuflokkur í orði, en frjálshyggjuflokkur á borði.

Þykist standa með launafólki en er í grímulausri hagsmunabaráttu fyrir auð og auðmenn.

 

Núna standa spjót á Stefáni að skrifa sinn Skáldatíma, og gera upp við alræðið skriffinnanna í Brussel.

Hann hefur til þess þekkinguna, en spurning um kjarkinn.

 

Hann einn getur svarað því.

Kveðja að austan.


mbl.is Breytt afstaða ASÍ til ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín og sjálfbærnin.

 

Katrín Jakobsdóttir er vel máli farinn og talar oft um hugðarefni sín þegar hún fer til útlanda þá er henni tíðrætt um tískuorð nútímans, sjálfbærni og velsældarhagkerfið.

Sjálfbærni er til dæmis að nýta okkar grænu vistvæna orku til að framleiða holl og góð matvæli líkt og gert í gróðurhúsum þjóðarinnar og við gætum gert miklu meira af ef stjórnvöldum bæri gæfa til að semja við garðyrkjubændur sem eina heild um kaup á raforku á svipuðum kjörum og hún er seld til stóriðju.

Á þessi er samt einn hængur, markaðsregluverk Evrópusambandsins bannar allar slíkar tilfærslur, þær geta skekkt samkeppni innflutningsins við innlenda framleiðslu.

 

Velsældarhagkerfið er síðan eitthvað þar sem venjulegt fólk hefur í sig og á, og það geti sinnt öllum sínum grunnþörfum eins og að ráða við að kaupa hollan mat, haft efni á heilsugæslu og húsnæði, og já efni á að lýsa og kynda þessi hús sín.

Þar stöndum við Íslendingar nokkuð vel að vígi, sérstaklega ef við náum að draga úr innlendum kostnaði við matvælaframleiðslu, en enn og aftur, regluverk Evrópusambandsins magnar upp slíkan kostnað eins og hin meinta samkeppni á raforkumarkaði fólst öll í að hækka rafmagn til bænda og búaliðs.

 

Það er nefnilega þannig að það er svo auðvelt að tala í útlöndum, og sérstaklega brosa án þess að segja svo mikið.

Erfiðara er fara gegn hagsmunaöflum markaðarins sem þola ekki sjálfbærni og velsæld fjöldans.

Allt á að markaðsvæða, allt á að selja á markaðsverði þar sem brask og tilbúinn skortur knýja verð uppúr öllu valdi.

 

Katrín Jakobsdóttir fékk sinn prófsstein sem var orkutilskipun ESB um markaðsvæðingu orkunnar og sölu hennar á samkeppnismarkaði.

Tilskipun sem vinnur algjörlega gegn öllum hennar fallegu orðum, og ef hún meinti eitt orð, þá væri hún í dag að berjast gegn þessari tilskipun á öllum vígstöðum því argari frjálshyggja hefur ekki skolað á land við Íslandsstrendur frá því að land byggðist.

En baráttan er öll á hinn veginn, með frjálshyggju, með hagsmunum fámennrar auðstéttar, gegn þjóð og fyrrum hugsjónum vinstri manna.

Hugsjónum sem kváðu á um að auðlindir væru sameign þjóðar, sameign fólksins í landinu, og ættu að vera nýttar í þess þágu.

 

Þetta er ekki einu sinni frammistaða uppá 0,0, þetta er ekki frammistaða.

Þetta eru svik við helg vé.

Við lífsskoðanir og hugsjónir genginna vinstrimanna sem töldu einmitt daginn í dag, heilagan dag í baráttu þeirra fyrir jöfnuði og réttlæti.

Manna sem hefðu nýtt þennan dag til að hamra á mikilvægi þess að berjast gegn ásókn markaðsafla í grunnundirstöður samfélagsins því þeirra augun er grunnundirstaða aðeins féþúfa sem má nýta til að arðræna fólk og samfélög.

 

En Katrín er bara í útlöndum og brosir.

Engar eru brýningarnar, aðeins innantómir frasar i samræðum við annað fólk sem er ekki í neinu sambandi við þá hörðu lífsbaráttu sem venjulegt launafólk háir á hverjum degi til að hafa í sig og á.

Í samfélögum sem eru búin að hafna félagslegum lausnum en markaðsvæða allt sem snýr að grunnþörfum fólks.

Og þetta sama frasafólk skilur ekkert í af hverju kjósendur eru að hafna því í hverju landinu á fætur öðru, skilur ekki fyrirlitninguna sem venjulegt fólk hefur á því og fílabeinsturni þess.

Kjósendur, sem upplifa frjálshyggju hins frjálsa flæðis og samkeppnina við þrælabúðir glóbalvæðingarinnar á hverju degi í verri lífskjörum, í atvinnumissi, í félagslegum undirboðum, í markaðsvæðingu sem aðeins gagnast hinu ofurríku.

 

Þessi firring endar aðeins á einn veg.

Með algjöru vantrausti kjósenda og í kjölfarið upplausn hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka.

Og maður hlýtur að spyrja sig, er þjónkunin við regluveldi frjálshyggjunnar svona mikils virði??

Að bæði flokk og þjóð sé fórnað??

 

Það er allavega ekki mikil sjálfbærni í því.

Það er fyrir flokkinn.

 

En kannski bíður feitur bitlingur einhvers staðar?

Hver veit.

 

En er það þess virði??

Kveðja að austan.


mbl.is Katrín fundaði með Corbyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkalýðshreyfing í tómarúmi.

 

Það hefur ekki farið framhjá neinum að ný kynslóð hefur hafist til valda í verkalýðshreyfingunni, fólk sem sameinar það að hafa eitthvað segja annað enn innantóma frasa, og dug til að berjast fyrir bættum kjörum launafólks.

Það má merkja þennan nýja herskáa tón í ræðu Sólveigar Önnu Jónsdóttur í 1. mai ávarpi hennar;

"„Við ætl­um ekki leng­ur að fórna tíma okk­ar og lífi, okk­ur sjálf­um fyr­ir þjóðfé­lag þar sem fá­menn yf­ir­stétt greiðir sjálf­um sér millj­arða í fjár­magn­s­tekj­ur á meðan að fjöldi fólks fær aldrei um frjálst höfuð strokið.“ „Vel­sæld okk­ar, raun­veru­leg vel­sæld sam­fé­lags þar sem þarf­ir fólks eru ávallt í fyr­ir­rúmi bygg­ir á jöfnuði, á efna­hags­legu rétt­læti. Jöfnuður býr til sam­fé­lag þar sem mann­fólk hef­ur tíma og frelsi, raun­veru­legt frelsi, til að ann­ast sjálft sig og börn­in sín, frelsi til að njóta þeirr­ar einu til­veru sem okk­ur er út­hlutuð, frelsi til að vaxa og dafna á eig­in for­send­um. Fyr­ir þessu ætl­um við að berj­ast, sam­einuð.“".

 

Meinið í þessu er að verkalýðshreyfingin á ekki lengur fulltrúa á Alþingi sem berst fyrir jöfnuði og réttlæti, eða berst fyrir að leikreglum sé breytt á þann hátt að meira sé til skiptanna fyrir launafólk.

Þvert á móti er Alþingi orðin að einhverri sjálfsafgreiðslu stofnun fyrir Evrópusambandið sem dag og  nótt framleiðir nýjar og íþyngjandi reglur fyrir fyrirtæki og atvinnulífið en á sama tíma er barist fyrir frjálsum innflutning frá þrælaverksmiðjum glóbalvæðingarinnar þar sem engar reglur eru virtar, hvorki varðandi kaup, kjör eða annan aðbúnað, hvað þá að reynt sé að draga úr mengun og öðrum umhverfissóðaskap.

Afleiðingin er skert samkeppnisstaða og útvistun starfa í stórum stíl, illkynjað æxli sem því sem næst hefur gengið að hefðbundnum iðnaði dauðum í Evrópu.

 

Það er nefnilega til lítils að hækka lægstu laun svo þau verði lífvænleg þegar sú kauphækkun er það síðasta sem viðkomandi launamaður sér áður en honum er sagt upp vinnunni.

Einnig hefur frjálst flæði vinnuafls á lágmarkskjörum frá fátækari hluta álfunnar haldið niðri kjörum verkafólks ásamt því að vera gróðrarstía félagslegra undirboða í stórum stíl.

 

Síðasta atlagan að þessum toga er tilskipun Evrópusambandsins um orkumál sem er ætluð til að markaðsvæða orkuna á einum sameiginlegum orkumarkaði Evrópu, undir yfirstjórn Brussel valdsins.

Það er langt síðan að svona atlaga hefur verið gerð að lífskjörum almennings enda brást Alþýðusamband Íslands harkalega við og talaði tæpitungulaust í áliti sínu sem sent var utanríkismálanefnd;

"Raforka á að vera á forræði almennings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.“".

 

Einhvern tímann hefðu svokallaðir jafnaðar og félagshyggjuflokkar tekið undir þessar réttmætu ábendingar Alþýðusambandsins, allavega á degi eins og þessum.

Í grein Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu í dag er ekki minnst einu orði á þessar ályktun ASÍ, hvorki til að taka undir rök sambandsins, eða á einhvern hátt reynt að útskýra fyrir launafólki af hverju Samfylkingin telji það launafólki til heilla að markaðsvæða orkuna.

Aðeins þögnin ein innan um merkingarlausa frasa sem ekkert segja um raunverulegan vilja eða aðgerðir. 

Og ekki orð um hvernig regluverk Evrópusambandsins stuðlar að félagslegum undirboðum og mannsali.  Eða hvernig það íþyngir fyrirtækjum og dregur úr þrótti þeirra til að greiða mannsæmandi laun til allra.

Formaður VinstriGrænna, hún brosir og telur þar með umræðunni lokið.

 

Þetta er í raun hin stóri vandi verkalýðshreyfingarinnar, hún á ekkert pólitískt bakland á Alþingi.

Eftir að Ögmundur hætti á þingi þá virðist enginn þingmaður hafa nokkurt vit eða þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins, hvað þá að einhver berjist gegn regluverkinu og leikreglunum sem ýta undir misskiptingu og arðrán í samfélaginu.

Samtryggingarflokkurinn ögrar engu, breytir engu.

 

Framhjá því verður ekki horft.

Og þessu verður að breyta.

 

Það vantar verkalýðsflokk á þing.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Við skulum fagna firringunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkalýðsbarátta er ekki bara kjarabarátta.

 

Vegna þess að lífskjör markast af svo mörgum þáttum sem ekkert hafa með krónur í launaumslaginu að gera.

Síðasta dæmið þar um er andstaða Alþýðusambandsins við lífskjaraskerðinguna sem kennda er við Orkutilskipanir Evrópusambandsins sem hafa það eina markmið að markaðsvæða orkuna og gera þessa grundvallarþörf samfélagsins að leikvang auðmanna og braskara.

 

Í framhaldi af því á ASÍ að skera upp herör gegn EES samningum því í kringum þann óþurftarsamning koma leiðirnar sem mannsal og félagsleg undirboð þrífast á. Sem og að regluverkið leggur allskonar kvaðir á fyrirtæki sem auka kostnað og draga úr samkeppnishæfni þess gagnvart þrælabúðum þriðjaheimsins sem kölluð er globalvæðing í daglegu tali. 

Í þessu samhengi má vitna í góða grein í Morgunblaðinu í dag eftir Óla Björn þar sem hann segir meðal annars þetta;

"Við Íslend­ing­ar höf­um gengið lengra en aðrar þjóðir í að reglu­væða sam­fé­lagið. Reglu­byrðin er þyngri hér á landi en í helstu sam­keppn­islönd­um, kostnaður­inn er hærri og sam­keppn­is­hæfn­in þar með lak­ari. Ætla má að ár­leg­ur kostnaður fyr­ir­tækja við að fram­fylgja sí­fellt flókn­ari og strang­ari regl­um hlaupi á tug­um millj­arða króna. Erfitt er að meta óbein­an kostnað vegna minni fram­leiðni, verri skil­virkni og lak­ari sam­keppn­is­stöðu. Beinn og óbeinn kostnaður við reglu­verkið og eft­ir­lit­s­kerfið er ekki aðeins bor­inn af eig­end­um fyr­ir­tækja held­ur ekki síður af launa­fólki í formi lægri launa og af neyt­end­um öll­um sem þurfa að sætta sig við hærra verð á vöru og þjón­ustu. Dýrt og flókið kerfið hef­ur bein áhrif á verðlag, skuld­ir og tekj­ur launa­fólks.".

 

Eins má minnast á launaskatta eins og tryggingagjaldið, sú tekjuöflun ríkissjóðs er bein ávísun á lægri laun.

 

Síðan hafa sjálfar leikreglurnar í efnahagskerfinu mikið að segja um lífskjör fólks.

Drífa bendir réttilega á höfuðmeinsemdina sem er sjálftaka auðsins;

" ...sagði fram­leiðni í heim­in­um hafa þre­fald­ast síðustu tutt­ugu ár. Auður­inn hefði þó ekki skilað sér til vinn­andi fólks gegn­um laun eða bætta innviði. „Þvert á móti hafa mögu­leik­ar til auðsöfn­un­ar og skattaund­an­skota auk­ist hjá fáum ofur rík­um ein­stak­ling­um og stór­fyr­ir­tækj­um.".

 

Það er sama hvað stjórnmálamenn lofa eða hve margir skildir eru brýndir í í kjarabaráttunni, á meðan leikreglurnar eru svona þá er alltaf hlutfallslega minna til skiptanna.

 

Þessar leikreglur alþjóðavæðingarinnar eru niðurjörfaðar í reglufargan Evrópusambandsins enda sjást hagsmunatengslin best á því að þegar meðlimir framkvæmdarstjórnarinnar láta af embættum sínum, bíða þeirra feitar stöður í velferðarneti stórfyrirtækjanna, stjórnarsetur og annað slíkt þar sem mönnum er launað fyrir vel unnin störf.

Og lífskjör batna ekki nema slagurinn sé tekinn við þessar leikreglur og þessa hugmyndafræði.  Eitthvað sem Donald Trump er að gera vestra við litlar vinsældir alþjóðavæðingarsinna, sem af einhverjum ástæðum eru orðnir fleiri á vinstri væng stjórnmála en hægri.

 

Síðan batnar ekkert nema fólk horfist í augun á sínu eigin hugarfari.

Drífa segir þetta um lág laun;

"„Í aðdrag­anda kjara­samn­inga fáum við að heyra að lægstu laun séu há hér á landi í sam­an­b­urði við önn­ur lönd og jöfnuður hvergi meiri. Gott og vel, en önn­ur lönd eiga ekki endi­lega að vera viðmiðið held­ur það sem okk­ur sjálf­um þykir sann­gjarnt og rétt­látt.".

Mikið rétt en þess vegna er það ótækt að verkalýðshreyfingin sjálf hafi þá hugsun að ætíð eigi að taka lægsta tilboði, sérstaklega þegar það kemur frá löndum þar sem kjör launafólks og allur aðbúnaður er miklu lakari en hér.

Því það er það sem setur viðmiðin um hin lægstu laun, ekki orðin um annað.

 

Verkalýðsbaraátta er því ekki bara kjarabarátta.

Hún er barátta um lífskjör í víðustu merkingu þess orðs, hún er stjórnmálabarátta, hún er hugmyndafræðibarátta, en fyrst og síðast snýst hún um hugarfar.

Því það er hugarfarið sem mótar allt annað í samfélaginu okkar.

 

Sem betur fer er ASÍ á réttri leið hvað það varðar.

En stærri skref þarf að stíga og það þarf að taka slaginn við hinn raunverulega andstæðing.

Globalvæðingu stórfyrirtækja sem engu eira, hið frjálsa flæði frjálshyggjunnar, reglufargan Evrópusambandsins, því allt er þetta af sama meiði.

Því meiði að gera hin ríku ríkari, og okkur hin fátækari.

 

Um þetta munu stjórnmál nýrrar aldar snúast.

Um þetta mun alvöru kjarabarátta snúast.

Að endurheimta samfélögin okkar úr klóm stórfyrirtækja og þeirrar hugmyndafræði sem gerir þeim kleyft að sjúga allt til sín án þess að gefa neitt til baka.

 

Risaskref í þá átt er að hafna með öllu orkutilskipunum Evrópusambandsins.

Taka þar slaginn og segja; hingað og ekki lengra.

 

Því þennan slag þarf að taka.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Risastórar áskoranir fram undan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. maí 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 15
  • Sl. sólarhring: 666
  • Sl. viku: 5299
  • Frá upphafi: 1326845

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 4699
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband