Landsnet vill sæstreng.

 

Og hefur unnið að því í töluverðan tíma.

Svo auðvitað vill fyrirtækið orkupakka 3 sem kveður á um tengingu yfir landamæri og reglur til að koma í veg fyrir allar hindranir þar um.

Auk þess sem markaðsvæðing kerfisins mun skapa þrýsting á lagningu lína þvers og kurrs um landið, og kverúlantar landverndar munu verða skilgreindir sem markaðshindrun af landsreglaranum (sjálfstæð Orkustofnun sem lýtur hvorki innlendum yfirvöldum eða innlendu dómsvaldi) og munu því ekki verða hindrun í veginum.

 

Svo má ekki gleyma sporslunum, munum hvað laun æðstu stjórnenda ríkisfyrirtækja hækkuðu við það eitt að fyrirtækin urðu ohf-vædd.

Þá geta menn ímyndað sér kaupaukann við einkavinavæðingu orkufyrirtækja.

Það er það eina sem er öruggt á samkeppnismarkaði fákeppninnar, að allt hækkar.

Laun æðstu stjórnenda, arður eiganda og verð þjónustunnar.

 

Því er það ákaflega eðlilegt að þeir sem sjá gróðatækifærin, fjármagni áróður og kaupi stuðning, að þeir sem sjá framá margföldun launa mæli með sem og að þeir sem borga brúsann séu á móti.

Og þannig er staðan í dag.

Almenningur á móti, hinir uppkeyptu með.

Ekkert fréttmætt við það.

 

Hinsvegar væri það fréttnæmt ef stjórnendur Landsnets hugsuðu til nágrannans, til samborgara sinna og mæltu gegn orkupakka 3.

Sem og það er fréttnæmt þegar þingmenn þora gegn hagsmunum auðsins og samtryggingarinnar og lýsa yfir andstöðu við orkupakkann líkt og Ásmundur Friðriksson hafði kjark til.

Það er frétt þegar guðfaðir EES samningsins, Jón Baldvin Hannibalsson, mælir gegn tilskipunum Evrópusambandsins.

Það er frétt þegar öldungar Sjálfstæðisflokksins eins og Styrmir Gunnarson og Tómas Ingi Olrich mæla gegn ásetningi forystu flokksins um að afhenda skrifræði Evrópusambandsins yfirstjórn orkuauðlinda þjóðarinnar.

Og það er frétt ef það finnst venjulegt fólk sem er samþykkt þessu valdaafsali og markaðsvæðingu orkunnar.

 

En það er ekki frétt að sólin komi upp í fyrramálið eða Landsnet vilji flóknari reglur og aukin umsvif.

Þannig gerast bara kaupin á eyrinni og fátt um það að segja.

 

Embættismannakerfið okkar er fyrir langa löngu gengið í Evrópusambandið.

Kveðja að austan.


mbl.is Landsnet mælir með orkupakkanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlafrelsi! Hvað er fjölmiðlafrelsi??

 

Er fjölmiðlafrelsi á Íslandi??

Er það fjölmiðlafrelsi að peningamenn eigi allaflesta fjölmiðla og stjórni þeirri umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu??

Felst þá frelsið í frelsinu til að ljúga í þágu hagsmuna??

 

Vitnum í António Guter­res, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna;

"„Lýðræði stend­ur ekki und­ir nafni án aðgangs að gagn­sæj­um og áreiðan­leg­um upp­lýs­ing­um. Það er horn­steinn sann­gjarnra og óvil­hallra stofn­ana sem draga vald­hafa til ábyrgðar og segja valda­mönn­um sann­leik­ann,”".

Á þetta við um Ísland þegar hagsmunir og gróði peningaaflanna er undir??

 

Var einhver fjölmiðill sem í miðri ICEsave deilunni notaði annað orð yfir fjárkúgun breta en "ICEsave skuldbinding" þjóðarinnar?? 

Myndu þeir tala um skuldbindingu Hagen fjölskyldunnar gagnvart mannræningjunum, að hún væri skuldbundin að greiða þeim lausnargjaldið fyrst þeir höfðu fyrir því að ræna húsmóðurinni?? 

Nei, auðvitað ekki, en samt var glæpsamleg fjárkúgun kölluð skuldbinding fórnarlambsins, það er íslensku þjóðarinnar.

 

Einstakt tilfelli??

Nei, nákvæmlega sömu rangfærslurnar vaða uppi af nákvæmlega sömu fjölmiðlum og fjölmiðlafólki í umræðunni um Orkupakka 3.

 

Fréttablaðið til dæmis er ekkert sanngjarnara eða óvilhallara en ríkisfjölmiðill Norður Kóreu er, aðeins sagt það sem eigandinn vill og hentar hagsmunum hans á hverjum tíma.

Skítyrði blaðsins núna gagnvart því fólki sem vogar sér að standa gegn hagsmunum fjármagnsins er engu minna en var í ICEsavedeilunni.  "Lýðskrum, popúlismi, hægri öfgar og einangrunarhyggja, vanþekking, rangfærslur", allt orð sem koma fyrir í skrifum blaðsins.

Dómur EFTA dómsins og hinn algjöri ósigur bresku fjárkúgarana breytir þar engu um, enginn er lærdómurinn, ekki einu sinni haft fyrir því að endurvinna áróðurinn.

Og aðrir fjölmiðlar eru ekki miklu betri, sumir vefmiðlar eins og Kjarninn miklu verri.

 

Síðan má spyrja??, hefur einhver séð umfjöllun um orkutilskipanir Evrópusambandsins þar sem hægt er að heimfæra orð Guterresum gagnsæi og áreiðanlegar upplýsingar, og slíkt notað til að draga ráðherra til ábyrgðar svo þeir komist ekki upp með blekkingar sínar??

Segja þeim sannleikann eins og Guterres kemst að orði.

 

Hvernig geta ráðherrar komist upp með í drottningarviðtölum að fullyrða að regluverk sem er hugsað til að markaðsvæða orkuna, gera hana að markaðsvöru á sameiginlegum orkumarkaði Evrópusambandsins, snúist bara um neytendavernd (Þ.K.), þess vegna eigi að samþykkja Orkupakka 3.

Þegar það er skýrt í aðfaraorðum tilskipunarinnar að "Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku.".

Hvaða íslenskur fjölmiðill hefur í fréttaskýringu sinni sagt ráðherra þennan sannleika, eða spurt hann gagnrýnna spurninga??

 

Jú, reyndar er hann til, eða réttara sagt útvarpsþátturinn Harmageddon tók viðtal við ráðherra sem afhjúpaði svo margt í innihaldsleysi málflutnings hennar svo það var pínlegt á köflum.

En það hlusta svo fáir og enginn af stærri fjölmiðlunum hefur fylgt málinu eftir, því það gæti kostað það að þurfa að segja sannleikann, í óþökk eiganda miðilsins.

 

Af hverju er Þórdís til dæmis ekki spurð útí þessi ummæli sín??

""Spyrill: En til þess kæmi í framtíðinni að Evrópusambandið myndi leggja fram kröfu um að það yrði lagður sæstrengur?

Þórdís: Við myndum bara segja Nei.

Spyrill: Gætum við það? Er þá ekki EES samningurinn í uppnámi??

Þórdís: Jú, en ef að við viljum ... en það er allt önnur spurning. Skilurðu, ef við myndum segja – Ef Evrópusambandið mun þróa sín mál þannig og við erum bara ömurleg í hagsmunagæslu og við munum bara leyfa því að gerast sem við ætlum einmitt ekki að gera, þess vegna erum við að setja aukin kraft í hagsmunagæslu okkar. Til dæmis Norðmenn, þeir eru að hafa meiriháttar áhrif á það hvernig þessir raforkumarkaðir í Evrópu eru að þróast. Af hverju??, þeir eru sterkir í hagsmunagæslu og hafa áhrif hvernig leikreglurnar verða. Það sem við erum að gera núna er að setja aukna fjármuni í þessa hagsmunagæslu sem við höfum ekki verið að gera undanfarin ár að nægilegum krafti, við höfum alveg haft hana en ekki af nægjanlegum krafti og hún fór auðvitað algjörlega niður þegar við eyddum öllum okkar fjármunum eða efford í umsókn að Evrópusambandinu sem við erum núna búin að draga til baka. Ef við værum léleg í hagsmunagæslu og á einhverjum tímapunkti myndi Evrópusambandið segja að núna verðið þið að leggja sæstreng sama hvað þið segið þá getum við sagt Nei, og ef þá er sagt að það muni hafa afleiðingar, þá segjum við gott og vel, við ætlum ekki að leggja sæstreng.".

 

Það er eins og að hún viti ekki að þegar Alþingi hefur á annað borð aflétt stjórnskipulegum fyrirvara á Orkupakka 3 að þá er framkvæmdavaldið búið að afsala sér forræðinu yfir þessum málum og ákvæði reglugerðarinnar um tengingar yfir landamæri gilda. 

Og ákvæði tilskipunarinnar gildir óháð öllum lobbýisma eða hagsmunagæslu í Brussel, einstakt aðildarríki getur ekki neitað að leggja sæstreng ef hið yfirþjóðlega regluverk krefst þess, og ef það neitar, þá er það sótt til saka eins og hver annar sakamaður.

Fyrir EFTA dómi, ekki íslenskum dómstólum.

Sýni einhver til dæmis fram á tjón vegna brota á reglugerðinni, þá ber íslenskum stjórnvöldum að bæta þann skaða.  Og greiða sektir þar til farið er eftir reglum vegna þess að innri markaðurinn gengur ekki ef einstök aðildarríki komast upp með að hundsa leikreglur hans.

 

Barnaskapurinn í þessu svari ráðherra ríður ekki við einteyming.

En hún þarf ekki að óttast hið íslenska fjölmiðlafrelsi, það er enginn hérlendur fjölmiðill sem telur sig hafa það hlutverk að segja valdhöfum sannleikann.

Því þeirra hlutverk er að gæta hagsmuna eiganda sinna.

 

Það þarf nefnilega fjölmiðla til að hægt sé að tala um fjölmiðlafrelsi.

Það dugar ekki að tryggja frelsi þeirra samkvæmt lögum, ef þeir eru ekki sjálfir frjálsir.

Heldur í taumi eiganda sinna.

 

Það er nefnilega kosturinn við Orkupakka 3, hann afhjúpar.

Hann hefur afhjúpað stjórnmálastétt okkar, hverra erinda hún gegnir.

Hann hefur afhjúpað sírífandi kjaft fjölmiðla eins og Kjarnans og Stundarinnar sem þykjast vera berjast gegn spillingu, en eru fyrst og síðast verkfæri í valdabaráttu og valdastríði auðsins og auðmanna, valdastríði svona svipað og Rósastríðin voru á sínum tíma í Englandi þar sem helstu aðalsættir börðust um krúnuna.

Og hann hefur afhjúpað alla hina fjölmiðlana, sem í besta falli þegja þegar þeir eiga að verja, sem í versta falli ljúga þegar þeir eiga að segja satt um valdið og valdhafa.

 

ICEsave var nefnilega ekki einstakt tilfelli sem tengdist einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokkum eða ákveðnum fjölmiðlum.

Það var tilviljun ein sem ákvað flokkadrættina en í raun eru þeir aðeins einn, samtryggingarflokkurinn sem lýtur vilja auðsins.

Og fyrir utan einn ritstjóra eru allir fjölmiðlar annað hvort í vasanum á auðnum, eða múlbundnir á þann hátt að þeir fara ekki gegn hagsmunum hans.

 

Þessi þróun var hafin löngu fyrr.

Hún hófst með einkavæðingu bankakerfisins, þá skaut rótum peningavald sem keypti upp það sem var til sölu í þjóðfélaginu.

Þar á meðal æru fólks og tryggð.

Fólks sem er í stjórnmálum, vinnur á fjölmiðlum, í akademíunni, í almannatengslum, eða er ritfært og getur skrifað greinar í blöð sem eftir er tekið.

 

Þessi uppkaup blöstu við öllum í aðdraganda Hrunsins, en eftir Hrun reyndi þjóðin á eigin skinni alvarleik þeirra.

Það átti að skuldaþrælka hana, það átti að svipta hana sjálfstæði sínu.

Það mistókst, en ekki vegna þess að hinir uppkeyptu hafi ekki reynt sitt besta, það dugði bara ekki til.

 

Núna á að stela orkuauðlindum hennar þó fína nafnið sé að markaðsvæða þær í þágu samkeppni og neytendaverndar.

Og hinir uppkeyptu róa sömu bátunum á sömu mið.

Treysta meðal annars á að hér er ekki fjölmiðlafrelsi því það vantar forsendur þess, frjálsa fjölmiðla.

Og þeir hafa lært af síðustu mistökum sínum.

 

Hvort þeim tekst þetta, kemur í ljós.

Það er mikið undir.

Gróði fyrir húsbændur þeirra.

Ljós og ylur fyrir almenning ásamt arðinum af orkuauðlind sinni.

 

Næstu dagar verða afdrifaríkir.

Þá á að véla í gegn blekkingunni.

Það eina sem samtryggingin óttast er að andstaðan nái að vekja fjöldann af þyrnirósarsvefni sínum, sem reyndar er ekki langur, almenningur var glaðvakandi í þjóðaratkvæðinu um ICEsave.

Og hann er aðeins með annað augað lokað í dag. Svo þegar betur er gáð sést greinilega að bæði eyru eru sperrt.

 

Það er í raun háskaspil fyrir stjórnmálastéttina að hundsa vilja hans í þessu máli. 

Það gæti verið hennar síðasta verk.

Mikið má vera undir ef heimskra manna óðagát setur þann kúrs.

 

Vitur maður leggur ekki í orrustu þegar hann veit að stríðið er tapað.

Hann semur frekar á meðan einhver vill semja við hann.

Pyrrhosarsigur breytir engu þar um, nema að eftir hann er ekkert til að semja um.

 

Alþingi getur sagt þjóðinni stríð á hendur með því að samþykkja orkupakka 3 á þessu þingi.

En það verður síðasta stríð viðkomandi þingmanna og viðkomandi flokka.

 

Er það þess virði??

Þó launin séu örugglega góð.

 

Er það samt þess virði.

Kveðja að austan.


mbl.is Fjölmiðlafrelsi hjá innan við 10% jarðarbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. maí 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 101
  • Sl. sólarhring: 682
  • Sl. viku: 5385
  • Frá upphafi: 1326931

Annað

  • Innlit í dag: 98
  • Innlit sl. viku: 4783
  • Gestir í dag: 98
  • IP-tölur í dag: 97

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband