Þórdís kennir sér eldri og reyndari mönnum.

 

Fyrir ekki svo mörgum dögum síðan þá átti málstaður andstæðinga orkutilskipana Evrópusambandsins lítinn aðgang að almenningi sökum þess að líkt og í ICEsave deilunni hafa næstum því allir fjölmiðlar landsins tekið beina afstöðu með stjórnmálastéttinni gegn þjóðinni í þessu grundvallarmáli um forræði hennar yfir orkuauðlindum landsins.

Slíkt hefur þó þann kost að ráðherrar hafa talið sig getað komist upp með fullyrðingar og hálfsannleik í málinu í trausti þess að fjölmiðlar tali aldrei við þá sem geta leiðrétt málflutning þeirra.

 

Eitt slíkt viðtal, sem spyrillinn var þó inní málinu og spurði gagnrýna spurninga, var tekið við Þórdísi Kolbrúnu í útvarpsþættinum Harmageddon, og þar kom margt fróðlegt fram um afstöðu ráherra gagnvart samþykkt orkupakka 3. 

Það skal tekið skýrt fram að auðvitað er afstaða ráðherra skiljanleg, það er erfitt fyrir ungan og óreyndan ráðherra að taka málefnalega afstöðu gegn regluveldi ESB, sérstaklega í ljósi þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem eru í húfi, hagsmunaafla sem meðal annars stýra eða eiga flesta fjölmiðla landsins. 

Og að sjálfsögðu er líka rök fyrir samþykkt pakkans, þó ríkisstjórnin kannski heykist á að ræða þau en reynir þess í stað að blekkja almenning á þann hátt að efni þessa markaðspakka eigi ekki við Ísland nema að litlu leiti því landið sé ekki tengt orkumarkaði Evrópusambandsins gegnum sæstreng.

 

Margir gullmolar komu fram í þessu viðtali en í þessum pistli langar mig að benda á hvernig Þórdís Kolbrún afgreiðir þann mikla fjölda sjálfstæðismanna sem hafa ekki látið sannfærast af málflutningi stjórnvalda.

", já já ég veit að það eru margir sjálfstæðismenn á móti þessu en það er þannig að ef þú færð tækifæri til að setjast niður með fólki og segja því frá málinu, að þá eru mjög margir sem hlusta algjörlega á það. Þegar þú segir að fólki finnst - það er nefnilega alveg merkilegt -ég átta mig algjörlega á því að tilfinningar eru hluti af pólitík og það á við í öllum málum. Viðkvæmum málum, efnahagslegum málum, svona málum öllum saman. Það sem ég geri einfaldlega kröfu um, sérstaklega fólk með málefnalega innistæðu,sem hafa tekið þátt í umræðunni í langan tíma, almennt þegar þeir segja eitthvað þá opnar bara fólk eyrun og hlustar. Að eitt er að tala um tilfinningar en þú verður að hafa staðreyndir málsins þegar þú gerir það..... og getir fært rök fyrir máli þínu".

 

Eftir að þessi orð voru sögð, þá skrifaði fyrrum formaður flokksins, sem hefur setið einna lengst í stól forsætisráðherra, ætti því að hafa bæði reynslu og þekkingu á EES samningnum sem og hvernig alvöru stjórnsýsla virkar., leiðara í Morgunblaðið um orkupakkann.  Og margt hafa andstæðingar Davíðs Oddssonar borið uppá hann, en ekki það að hann geti ekki fært rök fyrir sínu máli út frá þeim staðreyndum sem fyrir liggja.

Og hreint út þá er hann ekki hrifinn af málflutningi ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

"Það er ekki aðeins eftirtektarvert heldur himinhrópandi að þeir sem ætla sér nú að fara gegn sívaxandi andúð almennings á þessu máli færa ekkert fram sem mælir með slíkri framgöngu. Öll rök þeirra, svo fátækleg sem þau eru, snúast um að þær hættur sem almenningur telji stafa af málinu og blasa reyndar við, séu ekki jafn alvarlegar og fólkinu finnst. Því valdi „fyrirvararnir“. Fyrirvararnir? Hvaða fyrirvarar? Jú þá er vísað í minnisblað um viðhorf sem sendinefnd undir forystu íslenska utanríkisráðherrans hafi fengið að viðra við einn af kommissörum ESB og afhenda á fundi með honum, þar sem sá viðurkenni að hafa verið viðstaddur. Þarna eru fáeinar vangaveltur á ferð sem enga þýðingu hafa, og nálgast hvergi að vera lögformlega bindandi „fyrirvarar“.

Fyrrverandi forsætisráðherra, raunar ákafur talsmaður valdeflingar ESB á kostnað Íslands, hefur bent á, að þarna sé farið með hreinar blekkingar gagnvart þingi og þjóð. Sá bætir þó við, svo furðulegt sem það er, að þær blekkingar séu „lofsverðar blekkingar“ fyrst einhver gleypti þær. Dómstólar hafa þegar úrskurðað að sambærilegir „fyrirvarar“ (í hrákjötsmálunum) sem íslenskir þingmenn féllu fyrir hafi ekkert gildi".

 

Og hvor skyldi hafa rétt fyrir sér, lærlingurinn sem er ennþá blaut á bak við eyrað eða hinn þrautreyndi stjórnmálamaður, sem reyndar líka hafði kjark til að standa með málstað þjóðarinnar í ICEsave deilunni, og þá gegn svipuðum málflutningi og beitt er í dag gegn andstæðingum orkupakkans. 

"Þið vitið ekki hvað þið eruð að segja, þið færið ekki rök fyrir máli ykkar, viljið ekki axla ábyrgð, eru bara á móti". 

En allir vita hvernig sú deila fór, dómur kom sem kvað úr um að einmitt menn eins og Davíð Oddsson vissu allan tímann hvað þeir voru að segja.

Því þeir töluðu út frá rökum og staðreyndum.

 

Margt má taka út úr málflutningi ráðherra þar sem hún afhjúpar algjöra vanþekkingu sína á efnisatriðum málsins, en ætli þessi sé ekki sá sorglegasti;

"Þegar maður er með svona mál og það er sagt, þið eigið bara að hafna þessu, það verða þá að vera mjög ríkar ástæður fyrir því og þegar fólk segir – hvað með það sem síðar mun koma, þá segjum við það bindur okkur enginn í þennan samning, við getum alltaf sagt, nei heyrðu -stoppum nú".

Já, ef fyrirvararnir halda ekki eða ef málið þróast gegn hagsmunum þjóðarinnar, þá er alltaf hægt að segja stopp, en það er bara ekki svo.  Ekki ef menn ætla að virða EES samninginn.

 

Um þetta atriði segja þeir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson í álitsgerð sinni sem fylgir þingsályktunartillögu utanríkisráðherra,

"„Fram hefur komið að ekki standi til að innleiða 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 í landsrétt jafnvel þótt þriðji orkupakkinn væri tekinn upp í EES-samninginn (að undangengnu samþykki Alþingis á fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017), þar sem Ísland sé ekki tengt við innri orkumarkað ESB (t.d. gegnum sæstreng). Að mati höfunda er þó til þess að líta að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr. 713/2009 í landsrétt, með þeim breytingum/aðlögunum sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 7. gr. EES-samningsins.74 Myndi Íslandi þvi bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlôgunurn sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. ".

 

Svo þetta sé þýtt á mannamál, þá geta íslensk stjórnvöld ekki neitað að innleiða reglugerðina sem fjallar um tengingu yfir landamæri eftir að það hefur aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum við hana.  Því eftir það tekur sameiginlega EEs nefndin málið ekki upp.

Raunverulega getur ekki verið um vanþekkingu að ræða, heldur vísvitandi blekkingu til að slá ryki í augu fólks.

og slíkt er ekki góð kennsla.

 

Þetta er aðeins eitt dæmið af mörgum, og fleiri verða týnd til á næstu dögum eftir því sem vindur að ákvörðun Alþingis í þessu stóra hagsmunamáli þjóðarinnar.

Svona pistlar fara vissulega ekki langt og víða, en margir svona pistlar, margar svona raddir, ná athygli og eyrum fólks.

Þeir gerðu það í ICESave deilunni, þeir gera það í dag.

 

Því þetta snýst ekki um fjölmiðla, ekki ef þeir taka þátt í blekkingarleik valdhafa.

Það sást í Austur Þýskalandi um leið og fólk hætti að óttast skriðdreka valdsins.

Þetta snýst um hvort einhver hafi vilja til að verja þjóð sína á Ögurstundum hennar.

 

Og við erum mörg, mjög mörg.

Þau eru fá, mjög fá.

 

Þar á milli er almenningur sem hefur dómgreind og vit til að hlusta.

Treystum honum.

Kveðja að austan.

 

 


Frjálshyggjufólkið á þingi.

 

Mætir hneykslað í ræðustól og kvartar yfir biðlistum.

Segir þá hneisu sem er rétt, og segir að það eigi að skipta við einkaaðila til að leysa vandann. Sem getur alveg líka verið rétt, allavega ekki gáfulegt að senda fólk um langan veg til útlanda, ef það er hægt að framkvæma sömu aðgerð í næstu götu, innanlands.

Held í raun að enginn deili um það þó tregðulögmálið hafi ekki séð ljósið.

 

En hvers er ábyrgðin að hafa fjársvelt heilbrigðiskerfið um langt árabil??

Og hvaða hugmyndafræði liggur að baki að skemma innviði til að hampa einkarekstri??

 

Ekki að einkarekstur sé slæmur, alls ekki hann hlýtur að vera nauðsynleg viðbót til að fá fjölbreytni og snerpu í kerfið.

En hið skipulagða fjársvelti til að skemma innviðina er hins vegar glæpsamlegt.

 

Fjármálaráðherra bendir réttilega á flöskuhálsa en þeir urðu ekki til að sjálfur sér.

Ítrekaðar hagræðingarkröfur hafa búið þá til og í raun snúist uppí faðirvor andskotans, það sem átti að spara, stórjók kostnað ásamt lakari nýtingu þeirra fjármuna sem þó eru settir í heilbrigðiskerfið.

Fagfólk varaði ítrekað við þessari meintu hagræðingu, að fækkun rúma, lokanir deilda, lokanir stofnana eins og Landakosts eða Sankti Jósefsspítalans myndu aðeins auka vanda, skapa flöskuhálsa og að lokum sprengja Landsspítalann.

Og allt gekk eftir.

 

Samt kemur þetta fólk, sem hundsaði aðvaranirnar, í ræðustól og skammast, samt með þeim undirliggjandi tón að nú sé lag að láta einkaaðila fá peninga sem ekki var hægt að finna handa hinu opinbera kerfi.

Og á undan þessu fólki var annað fólk sem hagaði sér eins.

Skar niður í nafni hagræðingar, og sólundaði þannig fjármunum skattgreiðanda, stórskemmdi heilbrigðiskerfið og gerði allt kerfið óskilvirkara.

 

Af hverju kemst þetta fólk upp með þessi vinnubrögð??

Af hverju látum við bjóða okkur þetta??

 

Það eru jú við sem borgum og blæðum.

Og það bauð sig ekki sjálft á þing.

 

Það erum jú við sem kjósum það.

Aftur og aftur.

Og allt við það sama.

 

Og þó ekki, núna ætlar það að afhenda vinum sínum orkuauðlindir þjóðarinnar.

Sbr, mikið vill alltaf allt.

 

Og samt kjósum við það.

Er það einleikið??

 

Oft hefur verið spurt af minna tilefni.

Kveðja að austan.


mbl.is Þjáningunum verði að linna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á reynsluna má ekki hlusta.

 

Því hún hefur ekki próf, ekki gráðu sem sannar að viðkomandi hafi lært allar sínar glósur.

Reynslan nefnilega afhjúpar oft að skilningur á bak við prófin er enginn.

Þess vegna er þjóðfélag sem hefur sett það í lög sín, að fólk eigi að fá embætti eftir fjölda prófa og gráða, en ekki reynslu og kunnáttu, í öngstræti fáfræðinnar.

Jafnréttislögin geirnegla slíka fáfræði þar sem próf eru talin, og ef þau eru jafnmörg, þá eru kynfæri skoðuð.

 

Að reisa hús á sandi þótti heimskra manna ráð og oft vitnað í þó sjálfsagt hafi fáir eða engir séð slíkt hús byggt.

Þess vegna ákváðu menn að byggja höfn í sandi, fyrir utan ólgandi úthaf, við strönd sem er mótuð af sandburði jökuláa.

Sjálfsagt til að hafa áhrif á þróun málsins, að ekki yrði lengur sagt um vitleysu að hún væri eins og að reisa hús á sandi, heldur eins og að byggja höfn á Landeyjarsandi, og allir hrista hausinn yfir vitleysunni.

En það vantaði ekki prófin og gráðurnar, það eitt er víst.

 

Engin sætir samt ábyrgð og vitleysan heldur bara áfram, til dæmis er vegargerðin alræmd fyrir að byggja sínar hafnir á Landeyjarsandi.

Í Berufirði er sturtað og sturtað efni til að fylla upp set í botni fjarðarins sem árþúsundin hafa safnað upp og er eins og keldan, tekur endalaust við án þess að þéttast.

Árþúsunda reynsla mannsins að tjara og bik sé besta efnið til að binda saman eða tjarga, er kastað út um gluggann og jurtaolía notuð þess í stað.  Sem sannarlega hefur enga bindingu og klæðningin sem hún er sett í hverfur jafnóðum með tilheyrandi óþægindum og óhreinindum fyrir bíleigendur.  Að ekki sé minnst á að vegbótin er engin.

 

En versta dæmið um vanhæfnina, þeirra Landeyjarhöfn snýr að lagningu vegar að hinum nýju Norðfjarðargöngum þar sem staðhættir og veðrátta er algjörlega hundsuð á þann hátt að vegurinn hefur oftar verið lokaður en var um gamla veginn um Oddskarð sem náði í um 600 metra hæð.

Og það sem verra er, að prófgráðan veit ekki að þar sem er brött hlíð, fellur snjór þegar snjóar, eitthvað sem er kallast snjóflóð.

Mikið lán var að mannfall var ekki þegar snjóflóð féll að öðrum gangnamunanum þegar var verið að grafa göngin, menn voru í kaffi og sluppu því. 

Þá var hundskast til að reisa varnargarð í flugumynd, eitthvað sem reynslan benti strax á að þyrfti að gera, og sá garður hefur þegar sannað sig, hann hefur stöðvað snjóflóð að hluta.

En bara að hluta, svo naumur er hann á breiddina.

 

Hvað hefði gerst ef rúta full að börnum hefði fengið þetta flóð á sig??

Hefðu menn þá verið stoltir af sínum Landeyjarhöfnum??

Af hverju er ekki hægt að hlusta og gera það sem blasir við að þurfi að gera??

Þarf einhver að deyja til að svo sé gert??

 

Þess þurfti með Boeing Max, og það er margt sem bendir til þess að vegagerðin komist upp með að draga lappirnar í að gera vegstæði að Norðfjarðargöngum öruggt allri umferð.

Vegna þess að þó íbúar bendi á þetta, þá er ekki hlustað á þá.

Þó reynslan bendi, þá er hún aðeins í besta falli hædd, ef henni er þá á annað borð svarað eins og var tilfellið með réttmætar ábendingar skipherra Landhelgisgæslunnar með Landeyjarhöfn.

 

Vegna þess að kjörnir fulltrúar okkar eru mannleysur hvað þetta varðar. 

Þeir þora ekki gegn sérfræðiveldinu, það á víst alltaf að hafa rétt fyrir sér.

Enda með prófin og gráðurnar.

 

Við sjáum þetta í umræðunni um orkutilskipanir Evrópusambandsins.

Hver vill í alvörunni markaðsvæða orkuauðlindir þjóðarinnar fyrir utan örfáa keypta einstaklinga í þjónustu þess auðs sem sér gróðann í markaðsvæðingunni??

Kerfið er gott og það virkar, hví á það að verða bröskurum að bráð??

Jú, hinir meintu sérfræðingar segja að það standi í regluverkinu að við eigum að samþykkja allt sem að okkur er rétt.  Að það standi í EES samningnum að annar aðilinn eigi að ráða, en hinn að samþykkja.

Að hann sé einhvers konar uppgjafasamningur líkt og Þjóðverjum var boðið í Versölum á sínum tíma.

 

Landeyjarhafnirnar eru nefnilega víða og þeim virðist bara fara fjölgandi.

Með ómældum kostnaði og jafnvel eru mannslíf undir.

 

Það veit enginn hvað hefði gerst ef Herjólfur hefði farið á hliðina hérna um árið í briminu við hina einu sönnu Landeyjarhöfn.

Hver er þá ábyrgur, hver axlar þá ábyrgðina??

 

Við eigum alla vega ekki að sætta okkur við þær.

Ekki frekar en við sættum okkur við markaðsvæðingu orkuauðlindanna.

Það er óþarfi að reka sig alltaf á til að læra.

 

Höfum það í huga.

Kveðja að austan.


mbl.is Hafnarmynnið þarf að verja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. maí 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 167
  • Sl. sólarhring: 728
  • Sl. viku: 5451
  • Frá upphafi: 1326997

Annað

  • Innlit í dag: 152
  • Innlit sl. viku: 4837
  • Gestir í dag: 150
  • IP-tölur í dag: 147

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband