Endurunnin áróður.

 

Þegar skoðanakannanir sögðu að það stóð tæpt hvort ICEsavesamningur 3 yrði samþykktur í þjóðaratkvæði, þá var því mjög haldið á lofti af stuðningsfólki bresku fjárkúgunarinnar að betur menntaði hluti þjóðarinnar styddi uppgjafarsamninginn.

Og gáfu það góðfúslega í skyn að illa menntað heimskt fólk stæði á móti.

Svo kom dómur um að hinir svokölluðu betur menntuðu höfðu trúað einhliða áróðri og ekki haft dómgreind til að skilja einföldustu staðreyndir, sem er að Not þýðir Ekki.

 

Fréttablaðið keypti skoðanakönnun og þó það sé stórlega hægt að efast um hlutleysi blaðsins og öllu því efni sem frá blaðinu kemur, að þá efar maður ekki að blaðinu er full alvara með framsetningu sinni um að hinir upplýstu styðji orkupakkann.

Því frumleikinn er það fyrsta sem hverfur hjá fólki sem hefur selt sálu sína.

En hvað felst í því að vera upplýstur í þessu máli??

 

Felst það í því að trúa að tilskipun sem fjallar um hindrunarlaus orkuviðskipti milli landamæra sé í raun um neytendavernd og gagnsæi upplýsinga líkt og Áslaug Arna og hennar fólk heldur fram??

Felst það í því að trúa að einhliða fyrirvarar haldi þegar ljóst er að þeir hafa aldrei haldið í öllum dómum sem hafa verið felldir um slík mál á evrópska efnahagssvæðinu?

Felst það í að trúa að ACER, Orkustofnun Evrópu, hafi alls staðar yfirþjóðlegt vald yfir orkumálum ríkja evrópska efnahagssvæðisins nema á Íslandi þó slíkt sé ekki getið í tilskipuninni sem á að innleiða?

Eða felst það í að trúa að markaðsvæðing orkunnar á samevrópskum samkeppnismarkaði þýði óbreytt fyrirkomulag á orkumálum Íslendinga þar sem nýting orkuauðlindarinnar er að mestu leiti í höndunum á almenningsfyrirtækjum?

 

Felst upplýsingagjöfin í að trúa blekkingum og rangfærslum Áslaugar og hennar fólks, eða sá fólk í gegnum þær og vill þessa orkutilskipun á þeim forsendum sem hún er samin, það er hindrunarlaus viðskipti orkunnar milli landamæra á samkeppnismarkaði??

Það síðara er heiðvirð afstaða og í sjálfu sér ekkert um það að segja.

Þá er það bara svo.

 

En stjórnvöld hafa ekki hjálpað fólki að komast að þeirri niðurstöðu því þau hafa logið og blekkt frá fyrsta degi.

Þess vegna er það broslegt að þeir sem slík vinnubrögð ástunda, saki aðra um rangfærslur.

Eða eigum við að ætla að barnaskapurinn sé svo mikill að þau trúi sínum eigin orðum.

 

Það skyldi þó varla vera?

Kveðja að austan.


mbl.is Mikið fjárhagslegt bakland andstæðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upphaf þess sem koma skal.

 

Aðeins eitt útskýrir að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með um 20% fylgi og hún er sú að það er engin samkeppni á hægri væng stjórnmálanna, enginn þjóðlegur íhaldsflokkur sem höfðar til eldra fólks.

Aðrir kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn að óbreyttu, nema þá kannski örfáir pabbakrakkar.

 

Það eru þrír frjálshyggjuflokkar sem berjast um fylgi ungs fólks sem er þannig lynt, Píratar, Samfylkingin og Viðreisn.

Og þessir þrír flokkar eru líka flokkar Evrópusinna.

Viðreisn er síðan flokkur viðskiptaráðs, enda eru viðskiptamógúlar dagsins í dag ekkert fyrir þjóðlega íhaldsstefnu.

 

Þess vegna er það ákaflega óvarlegt hjá Sjálfstæðisflokknum að fara gegn gamla fólkinu með stuðningi sínum við helsta baráttumál Viðreisnar og Samfylkingarinnar, orkupakka 3, því í þeim pakka er ekkert sem gamla fólkinu hugnast.

Foreldrar þessa fólks barðist fyrir lögformlegu sjálfstæði landsins, það hins vegar gerði það sjálfstæði að möguleika með uppbyggingu innviða og atvinnu.  Því sjálfstæði er ekki yfirlýsing, sjálfstæði er aðgerðir, að til staðar sé allt sem geri þjóðir sjálfstæðar.

Orkupakkinn er ógn við alla þessa hugsun, hann færir forræði auðlindar yfir til stofnanna Evrópusambandsins þó formlega beri kvislingurinn innlent nafn, Orkustofnun.  Og hann flytur atvinnu úr landi, atvinnu sem tók áratugi að byggja upp í skjóli ódýrrar innlendrar orku.

 

Og hann stelur eignarhaldinu frá þjóðinni, yfir í vasa fjárfesta.

Það er það sem felst í markaðsvæðingu orkunnar á samevrópskum samkeppnismarkaði.

Að halda öðru fram er í besta falli hrein blekking.

 

Þessi skoðanakönnun var gerð áður en afhjúpað var að þair ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem með málið hafa að gera, þau Guðlaugur Þór og Þórdís Kolbrún, blekktu þegar þau héldu því fram að fræðimönnum bæru saman um einhliða fyrirvara þeirra héldu.

Á fundi utanríkismálanefndar kom skýrt fram að svo er ekki, fræðimenn benda á að um það séu engin þekkt dæmi, en ótal um að einhliða fyrirvarar haldi ekki.

Sem og að vísvitandi er verið að brjóta stjórnarskrána.

 

Vandi Sjálfstæðisflokksins er að gamla fólki fylgist með fréttum, og því er ekki hægt að fela blekkingarnar og rangfærslurnar. 

Það er nefnilega ekki eins og unga fólkið sem veit ekkert í sinn haus, og ætti ekki að hafa kosningarétt fyrr en fyrsta lagi uppúr þrítugt.  Svona miðað við það andvaraleysi þess gagnvart þeim öflum sem ógna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, velmegun hennar og velferð.

Það var fólk sem var komið á miðjan aldur og eldra sem reis uppí ICEsave, og það er líka að rísa upp núna gegn orkutilskipunum Evrópusambandsins.

Og mikið af þessu fólki kýs Sjálfstæðisflokkinn.

 

Í dag berst það innan flokksins við landsölufólkið, en hvað gerir það ef vilji þorrans verður undir vegna þess að flokksforystan er taglhnýtingur Brussel.

Ver hvorki land eða þjóð þegar að er sótt á óbilgjarnan hátt.

Þar er efinn.

 

Ég myndi ekki treysta á efann í sporum formanns flokksins.

Það hlýtur að vera til leið að sætta hin ólíku sjónarmið.

Til dæmis sú sem Stefán Már Stefánsson og Friðrik Hirst benda á;

 

""Þá séu eng­in ákvæði í EES-samn­ingn­um sem gefa ís­lensk­um stjórn­völd­um fyr­ir­vara um að inn­leiða ákveðin atriði samn­ings­ins, eins og ríki ESB hafa. Það myndi þarfn­ast yf­ir­legu að semja laga­leg­an fyr­ir­fara um ákvæði þriðja orkupakk­ans. Það að senda málið aft­ur til sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar gæfi tæki­færi til þess að fara fram á lög­form­lega fyr­ir­vara eða und­anþágur."."

Skynsamt fólk grípur þessa líflínu.

 

Ekki nema það vilji skemmta skrattanum í Viðreisn.

Á rústum flokks síns.

Kveðja að austan.


mbl.is Fimmtungur styður Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óbærilegur léttleiki tilverunnar.

 

Ögmundur Jónasson er staðfastur í andstöðu sinni við markaðsvæðingu orkuauðlinda landsins en virkar stundum einn þessa dagana innan VinstriGrænna.

Rök hans eru kristalskýr en það er ekki verra en þau stuðning frá öðru áhrifafólki innan VG.

 

Þess vegna ætla ég að endurbirta hluta af ræðu Steingríms Joð Sigfússonar forseta Alþingis, þáverandi formanns VinstrGrænna.

Hafi einhver efast sem les rök Ögmundar, þá efast hinn sami ekki lengur eftir að lesa þessa magnaða ræðu Steingríms;

" Herra forseti [...] ég tel að hér sé á ferðinni eitt stærsta mál á sviði raforkumála sem við höfum um langt árabil haft í höndunum á Alþingi Íslendinga. Hér stendur sem sagt hvorki meira né minna til en að Alþingi fyrir sitt leyti blessi að Ísland falli frá stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart því að tilskipun Evrópusambandsins um innri markað í raforkumálum gangi einnig í gildi fyrir Ísland.

Herra forseti [...] Það er kannski lýsandi fyrir þann færibandahugsunarhátt eða þá færibandaaðferðafræði sem í reynd er að verða á afgreiðslu mála sem koma þessa boðleið inn í íslenska löggjöf gegnum tilskipanir sem Evrópusambandið hefur afgreitt og síðan sameiginlega EES-nefndin tekið upp, [...]

Herra forseti. Við getum þá spurt okkur hve mikið erindi á Ísland og íslenski orkumarkaðurinn inn í þetta samhengi. Er ekki jafnaugljóst í raun í þessu tilviki eins og það var þegar tilskipun um innri markað fyrir jarðgas og gegnsæi t.d. í verðlagningu á jarðgasi var afgreitt í Evrópu, að við eigum ekkert erindi inn í þetta samhengi af þeirri einföldu ástæðu að íslenski orkumarkaðurinn er einangraður? Hann er eyja og án tengsla við orkumarkað meginlands Evrópu og tengdra nálægra eyja. Sæstrengirnir sem stundum hefur borið á góma hafa ekki verið lagðir enn og ekki er í sjónmáli að það verði gert og fyrr verður Ísland ekki í beinum skilningi tengt þessum orkumarkaði þannig að héðan gæti flust raforka til notkunar á meginlandi Evrópu eða öfugt.

Það sem ég vil leggja sérstaka áherslu á í þessu sambandi og rökstyðja um leið fyrir mitt leyti hvers vegna það er ekki skynsamlegt að Alþingi heimili að fallið verði frá þessum stjórnskipulega fyrirvara að svo stöddu er þá í fyrsta lagi þessi staðreynd sem snýr að stöðu Íslands sem eyju.

Í öðru lagi er sérstaða Íslands hvað orkumál varðar mjög mikil. Hún er mikil vegna þess að við framleiðum nánast alla okkar raforku úr innlendum orkugjöfum, að mestu endurnýtanlegum þar sem fallorka vatnanna á í hlut, og við erum þar af leiðandi ekki háð erlendum orkumörkuðum í þessum skilningi, hvorki í þeim skilningi að við kaupum eða seljum raforku um strengi né heldur að við flytjum inn eldsneyti til framleiðslu á raforku hér, nema í svo óverulegum mæli að ég hygg að það megi sleppa þeim þætti. Við erum að sjálfsögðu einnig í mjög sérstakri stöðu hvað varðar uppbyggingu og skipulag orkumála hér. Framleiðsla, dreifing, eignarhald og fleiri þættir eru með mjög sérstökum hætti af eðlilegum ástæðum og lúta séríslenskum aðstæðum.

Í þriðja lagi má nefna þær sérstöku landfræðilegu aðstæður sem þjóðin býr við í þeim skilningi að hér býr mjög fámenn þjóð í mjög stóru en orkuríku landi. Ef við lítum svo, herra forseti, í þessu ljósi á meginmarkmið orkutilskipunarinnar, er strax ljóst að a.m.k. tvö af fjórum meginmarkmiðum tilskipunar Evrópusambandsins um sameiginlegan innri markað fyrir raforku eiga alls ekki við á Íslandi, þ.e. það fyrra, að gera raforkugeirann að hluta af innri markaði Evrópusambandsins, fellur um sjálft sig í þeim skilningi að ekki er um sambærilegar samkeppnisaðstæður að ræða eða möguleika vegna einangrunar orkumarkaðarins hér.

Og hvað hið síðara snertir, að auðvelda viðskipti milli landa með raforku, þá fellur það strax algjörlega um sjálft sig af því að engin slík viðskipti eru í tilviki Íslands möguleg þar sem hér er ekki um að ræða mögulega flutninga á orku til eða frá landinu og inn á markaði annarra landa Evrópska efnahagssvæðisins. [...] Það vakna þegar af þessum ástæðum, herra forseti, spurningar um hvað þeim samningamönnum Íslands sem tóku ákvörðun um að setja Ísland inn í þetta samhengi gekk til. Hvers vegna í ósköpunum var ekki frá byrjun gert ráð fyrir því að leita eftir varanlegri undanþágu fyrir Ísland hvað varðaði þennan innri markað í raforkumálum, af þeirri einföldu ástæðu að við erum af efnislegum og landfræðilegum ástæðum ekki hlutar af honum?

Í fyrsta lagi hefði auðvitað strax við gerð samningsins um Evrópskt efnahagssvæði þurft að gera þarna fyrirvara og í öðru lagi átti ekki að standa að þeirri ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni sem tekin var [...] Eins og ég áður sagði, herra forseti, þá var sú leið valin af næsta augljósum ástæðum að fá varanlega undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins um gagnsæi verðlagningar og gegnumflutninga á jarðgasi á Evrópska efnahagssvæðinu. Þó að það hafi reyndar stundum gleymst og menn hafi staðið frammi fyrir því á Alþingi að næsta fáfengilegum hlutum hafi skolað hingað upp á strendur af því að mönnum hafi láðst af eðlilegum ástæðum að undanskilja Ísland jafnvel frá hlutum sem varða járnbrautarsamgöngur eða eitthvað því um líkt á þessum markaði.

Ég tel að það hefði átt að nálgast þetta með raforkuna með sambærilegum hætti og setja það sem skilyrði að Ísland fengi þarna varanlega undanþágu eða a.m.k. allt annan og rýmri aðlögunarfrest og sérmeðhöndlun að ýmsu leyti. Herra forseti. Víða í löndum Evrópusambandsins hafa áform um markaðsvæðingu og samkeppni í orkumálum og veitumálum valdið miklum deilum og reyndar er það svo að þessi tilskipun 96/92/EB er niðurstaða af mjög átakamiklu ferli og er í eðli sínu málamiðlun ólíkra sjónarmiða milli ríkja Evrópusambandsins. Engu að síður er ljóst að innleiðing hennar hefur í för með sér margháttaðar breytingar fyrir Ísland og skapar vandamál sem er ekki augljóst hvernig leyst verða þegar menn standa frammi fyrir þeim.

Ég vil þar nefna sérstaklega þá staðreynd að eignarhald á orkufyrirtækjum á Íslandi er nánast alfarið opinbert, þ.e. ekki er því fyrir að fara hér að orkufyrirtækin séu í eigu ríkis og sveitarfélaga og samkeppni milli margra fyrirtækja á markaði í einkaeigu eða blandaðri eigu og eru ekki forsendur fyrir slíku eins og mál standa, a.m.k. nú um stundir á Íslandi. [...]

Í þriðja lagi vil ég nefna að það er algerlega ljóst að undirbúningur undir óumflýjanlegar breytingar á lögum og fyrirkomulagi raforkumála, svo sem varðandi skipulag og rekstur fyrirtækja eigi tilskipunin að ná fram að ganga, er mjög skammt á veg komin. Þetta lýtur ekki aðeins að t.d. uppskiptingu fyrirtækja eins og Landsvirkjunar sem er ljóst að verður að hluta niður í fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö fyrirtæki ekki síður en stórveldið Microsoft ef af verður, þetta lýtur einnig að breytingum á lögum og reglum, þetta lýtur að skipulagi, uppbyggingu og hlutverki annarra fyrirtækja, svo sem Rafmagnsveitna ríkisins og orkufyrirtækja á vegum sveitarfélaganna, þá má nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og fleiri. [...]

.... Einnig er rétt að minna á að lokum, herra forseti, að einn megintilgangur tilskipunarinnar og markmið með henni er að innleiða samkeppni í orkugeiranum. Ef að líkum lætur er í tengslum við það og í kjölfarið ætlunin að fylgi einkavæðing opinberra fyrirtækja á þessu sviði. Það vantar að sjálfsögðu ekki að söngurinn er einnig uppi í þessu tilviki að lausnarorðið stóra og mikla sé einkavæðing. En þá, herra forseti, vaknar líka stórar spurningar og þeim er ekki síður ósvarað en þeim sem ég hef hérna velt upp. Þar ber auðvitað hæst, hvernig ætla menn að tryggja jöfnun á raforkuverði um allt land í slíku samkeppnisumhverfi eða ætla menn alfarið að gefa það markmið upp á bátinn? Mér vitanlega hefur ekki verið sýnt fram á það með hvaða einföldum aðferðum eða jafnvel yfir höfuð færum leiðum menn geta varðveitt markmið um jöfnuð í raforkuverði annars vegar og það að innleiða samkeppnisaðstæður í þessum efnum hins vegar.

Það er líka rétt, herra forseti, að benda á að þá væri um að ræða einkavæðingu fyrirtækja sem eru í eðli sínu í einokunar- eða í besta falli fákeppnisaðstöðu og þá minnug þess að reynslan af slíkri einkavæðingu þegar í hlut eiga fákeppnis- eða einokunarfyrirtæki einmitt á sviði veitumála er mjög slæm. Ætli þeir finni ekki fyrir því á Bretlandseyjum sem hafa verið að borga einkaeinokunarfyrirtækjunum sem þar voru búin til fyrir vatn og rafmagn, gas og fleiri hluti, hversu góð útkoman er af því að búa við einkaeinokun. Íslendingar þekkja hana mætavel. Versta tímabil sem Íslendingar hafa upplifað í viðskiptamálum er tímabil einkaeinokunarinnar, þ.e. hinnar illræmdu dönsku einokunarverslunar en hún var lengstum, herra forseti, einkaeinokun, þ.e. Danakonungur seldi í hendur einkafyrirtækja einkaleyfi til að okra á Íslendingum. Reyndar var það þannig að skástu tímabilin í þeirri sögu voru þegar Danakonungur sjálfur fór með verslunina. Segja má að hún hafi verið ríkiseinokun en miklu verr vegnaði okkur þegar um einkaeinokun væri að ræða af skiljanlegum ástæðum enda yfirleitt ekki um það deilt að versta mögulega fyrirkomulag í viðskiptum er einkaeinokun, þegar einkaaðili er einn í aðstöðu til að þvinga menn til viðskipta við sig til að hagnast á þeim sjálfur og hefur sjálfdæmi meira og minna um verðlagningu og jafnvel að einhverju leyti þjónustu. Menn eru í ósköp lítilli samningsaðstöðu gagnvart aðilanum sem á einu raflínuna inn í húsið hjá sér eða vatnslögnina eða annað í þeim dúr. [...]

Herra forseti. Ég tel tvímælalaust skynsamlegast við núverandi ástæður, vegna þeirra mistaka sem ég tel að hafi verið gerð að setja Ísland inn í þetta án þess að leita þarna eftir varanlegri undanþágu, að við af léttum ekki stjórnskipulegum fyrirvara. ... Hins vegar að setja í gang skoðun á því hvort nýta megi ákvæði 24. gr. tilskipunarinnar til þess að semja varanlega um sérstöðu Íslands í þessum efnum. [...]".

 

Þó þessi þingræða sé 18 ára gömul og tilefnið er samþykkt fyrsta orkupakka Evrópusambandsins þá dregur Steingrímur Joð upp meginástæður þess að Íslendingar eigi ekki að innleiða orkutilskipanir Evrópusambandsins að óbreyttu.

Hafi inní þessari fyrstu orkutilskipun verið ákvæði um yfirþjóðlegt vald, þá er næsta víst að hátalarakerfi Alþingis hefði sprungið, jafnvel þó það hefði ekki verið tengt, þvílík hefði hneykslan Steingríms orðið.

 

Frá því að þessi ræða var haldin hefur ekkert breyst, nema eitt pínu pínu oggulítið atriði.

Þá var Steingrímur í stjórnarandstöðu, núna er flokkur hans í ríkisstjórn, og þau völd þarf að verja.

 

Í því felst að ganga á bak orða sinna.

Að styðja markaðsvæðingu, að styðja ferli sem óhjákvæmilega leiðir til einkavinavæðingar orkugeirans.

Eins og Ögmundur bendir réttilega á, eins og Steingrímur Joð benti réttilega á fyrir 18 árum síðan.

 

Það er óbærilegur léttleiki þessa máls.

Þetta er svo grátbroslegt ef ekki væri fyrir dauðans alvöru þessa máls.

 

Af hverju eru völd ætíð tekin fram yfir þjóð??

Ef þetta tvennt skarast á.

Kveðja að austan.

 

Kveðja að austan.

 


mbl.is Pylsan skorin niður í pakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 316
  • Sl. sólarhring: 828
  • Sl. viku: 5600
  • Frá upphafi: 1327146

Annað

  • Innlit í dag: 283
  • Innlit sl. viku: 4968
  • Gestir í dag: 266
  • IP-tölur í dag: 262

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband