Fólkið sem kann ekki að skammast sín.

 

Mætir núna í lopapeysum í fylgd barna, og þykist vera svakalega hissa á afleiðingum áratuga stefnu þess að brjóta niður innviði landsbyggðarinnar.

Svo hissa að það sá tækifærið til að ná kastljóst fjölmiðlanna með því að tilkynna stofnun þjóðaröryggisráðs, sem er eitthvað stofnanaheiti þegar það kemur saman og lætur taka mynd af sér í lopapeysum.

 

Það er eins og það hafi aldrei lesið bænaskjölin sem koma ár eftir ár frá sveitastjórnum á landsbyggðinni, landshlutasamtökum og öðrum sem málið varða, og eru neyðaróp um að allt sé fyrir löngu komið í óefni, annars vegar vegna stöðugs niðurskurðar og hins vegar að það er ekki fjárfest í stoðkerfinu sem nauðsynlegt er til að reka nútíma þjóðfélag.

Það er eins og það hafi fyrst heyrt af þessu í gær að hlutirnir væru ekki í lagi og það kæmu vond veður á Íslandi.

 

Þess vegna er gott að rifja upp bókun Húnaþings vestra sem sagt var frá á Mbl.is undir fyrirsögninni:  OPINBERIR INNVIÐIR HAFA ALLIR BRUGÐIST.

Ekki sumir, heldur allir, og síðan er ömurleikinn talinn upp;

" að sveit­ar­fé­lagið hafi verið raf­magns­laust í rúm­lega 40 klukku­stund­ir. Hluti þess sé enn ekki kom­inn með raf­magn og ekki sé vitað hversu lengi það ástand vari. Veru­legt tjón hafi jafn­framt orðið hjá íbú­um. 

„Það er al­ger­lega óviðun­andi að grunnstofn­an­ir sam­fé­lags­ins, RARIK, Landsnet og fjar­skipta­fyr­ir­tæk­in hafi ekki verið bet­ur und­ir­bú­in og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aft­ur á móti voru Björg­un­ar­sveit­irn­ar og Rauði kross­inn, sem rek­in eru í sjálf­boðavinnu, vel und­ir­bú­in og kom­in með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á,“ seg­ir í bók­un­inni. Þar kem­ur einnig fram að óá­sætt­an­legt sé að tengi­virkið í Hrúta­tungu hafi verið ómannað þrátt fyr­ir yf­ir­lýs­ing­ar Landsnets um annað. Ger­ir sveit­ar­stjórn­in þá grund­vall­ar­kröfu að á svæðinu sé mannafli sem get­ur brugðist við með skömm­um fyr­ir­vara.

 Rík­is­út­varpið er einnig sagt hafa brugðist al­gjör­lega þegar horft er til ör­ygg­is­hlut­verks þess. „Dreifi­kerfi RÚV lá niðri víða í sveit­ar­fé­lag­inu og náðust send­ing­ar illa eða alls ekki. Al­mennri upp­lýs­inga­gjöf til íbúa um stöðu og horf­ur var ekki sinnt. Litl­ar sem eng­ar frétt­ir bár­ust frá Húnaþingi vestra þrátt fyr­ir að veðuraðstæður væru hvað verst­ar á þessu svæði og út­varpið nær eina leið íbúa til að fá upp­lýs­ing­ar.“ Þá seg­ir í bók­un­inni að grafal­var­legt sé að eng­in starfs­stöð lög­reglu sé á svæðinu, auk þess sem lýst er yfir áhyggj­um yfir því að eng­in vara­afl­stöð sé við Heil­brigðis­stofn­un Vest­ur­lands á Hvammstanga. ".

 

Þessi hnignun er alls ekki bundin við Húnaþing vestra þó ástandið þar sé sérstaklega slæmt.

 

Í raun má segja að valdið í Reykjavík hafi sagt landsbyggðina úr lögum við íslenska ríkið, öll stoðþjónusta er markvisst skorin niður, með því markmiði að í raun sé hún aðeins veitt úr Reykjavík.

Á sumu bera stjórnvöld beina ábyrgð, á öðru er ábyrgðin óbein eins og ohf væðing Rarik og fleiri ríkisstofnanna.

 

Að ekki sé minnst á evrópsku reglugerðina sem skar á tengslin milli orkuframleiðslunnar og dreifkerfisins, skar á tekjustreymið sem var hugsað til þess meðal annars að nútímavæða dreifikerfið þegar orkusamningar til stóriðju færu að skila arði til Landsvirkjunar.

Afleiðingin er fjársvelt dreifikerfi sem er að stofni til byggt af mun fátækari samfélagi um og uppúr miðri síðustu öld.  Byggðalína á til dæmis á aðeins rúm 2 ár í að verða fertug, það er yngsti hluti hennar, flestar díselrafstöðvarnar eru mun eldri.

 

Vissulega var veðrið vont, en það koma reglulega vond veður á Íslandi.

Það þarf að gera ráð fyrir þeim og innviðirnir þurfa að þola þau þó eitthvað rask sé alltaf óumflýjanlegt.

En það sem við eigum til að reka nútímaþjóðfélag á ekki að stofni til að vera frá dögum afa okkar og ömmu, eða foreldra okkar ef við erum sjálf komin á virðulegan aldur.

 

Samfélag okkar er ríkt, en annað mætti halda þegar fjárfestingar til framtíðar eru skoðaðar.

Sem og að hugarfarið er stórmengað af skaðlegri hugmyndafræði.

 

Mengun sem sýndi sig dagana eftir Hrunið haustið 2008, þá var ein fyrsta fréttin að sjómokstur yrði því sem næst aflagður í Árneshreppi.  Brothættasta byggð landsins sem bar enga ábyrgð á fjármálabraskinu öllu saman, en krónurnar sem spöruðust taldar mikilvægar til að bjarga fjárhag ríkisins.

Einnig má minna á að Hrunið var notað sem afsökun eða tylliástæða til að ráðast að áratuga uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni og það stórskaddað. 

Undir kjörorðinu; "þjónustan suður".

 

Og núna rúmum  10 árum frá Hruni, þegar tekjur þjóðarbúsins hafa aldrei verið eins miklar, þá lifir þetta kjörorð góðu lífi.

Meðal annars hjá núverandi ríkisstjórn.

Og það bendir ekkert til þess að breyting verði þar á.

 

Þess vegna er löngu tímabært, að kjörnir fulltrúar okkar landsbyggðarinnar, segi núna, af gefnu tilefni, við fólkið sem kann ekki að skammast sín.

"Skammist ykkar".

 

Því stundum þarf að segja sannleikann.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Fjarskiptamálin eru svo sér kapítuli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretum ofbauð svikin.

 

Þau svik að gefa þjóðinni kost á að kjósa um aðildina af Evrópusambandinu, og taka svo Brussel á niðurstöðuna þegar aðildinni var hafnað.

Brussel er andlýðræðislegt batterí sem játar lýðræðinu aðeins af nafninu til, svindlar ekki í kosningum eins og var í Sovétríkjunum forðum daga, en virðir aðeins niðurstöðuna ef hún er jákvæð.

Annars er fundin hjágönguleið sem hundsar Nei, hundsar höfnun.

 

Breska stjórnmálaelítan var viss um að þjóðin myndi segja Já, en þegar hún tapaði, þá var strax leitað leiða til að vinna gegn niðurstöðunni, makkað með Brussel um einhverja afarkosti í viðskiptum, kennt við útgöngusamningi, eða stöðugt klifað á að þjóðin yrði að greiða aftur atkvæði, og þá kjósa rétt.

Jafnvel stuðningsfólki Evrópusambandsins ofbauð þessi vinnubrögð, og það skýrir þennan afgerandi sigur Borisar Johnsson. 

Sigur sem er ennþá sterkari ef það er haft í huga að Íhaldsflokkurinn var ekki einhuga að baki Borisar, elítan, hið hefðbundna aristókrata vald sem átti flokkinn í raun, vann gegn honum allan tímann í kosningabaráttunni.

 

Hér á Íslandi hefur verið bent á svipuð svik, þar sem þvert gegn fyrri yfirlýsingum og opinberri stefnu fyrir kosningar, ákváðu stjórnarflokkarnir að framfylgja stefnu Viðreisnar og Samfylkingarinnar í orkumálum þjóðarinnar, það er fremja þau landráð að afhenda stofnun Evrópusambandsins, ACER, yfirráð yfir orkuauðlindum þjóðarinnar.

Þvert gegn vilja þjóðarinnar og margur hefur trúað því að þjóðin myndi refsa í komandi kosningum.

 

En það er ansi ólíklegt.

Vegna þess að andófið gegn orkupakkanum leitaði aftur inní flokkana sína og er þar stillt og þægt.

Miðflokkurinn fær aukið fylgi vegna orkupakkamálsins, en í raun er ekkert sem bendir til þess að flokkurinn hefði ekki gert nákvæmlega sama hlutinn ef hann hefði verið í ríkisstjórn, og Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu.  Og Framsóknarflokkurinn hefði þá haldið ræður Miðflokksmanna.

Andófið gegn orkupakkanum hefur ekki leitað útí stofnun alvöru stjórnmálahreyfingar sem gerir upp við stjórnmálastéttina og svik hennar við sjálfstæði þjóðarinnar.

Við erum á leið inní Evrópusambandið, eða réttara sagt við erum komin þar í fast hjáleigusamband, en það á eftir að segja okkur það.

Það á bara eftir að tilkynna innlimunina.

 

Boris Johnsson hefur hins vegar lengi verið á móti aðild Breta af Evrópusambandinu og í krafti þeirrar andstöðu, náði hann völdum í Íhaldsflokknum, og vann síðan þennan sögulegan sigur.

Hann náði að virkja andúð þjóðarinnar á svikum og brigslum og þeirri vanvirðingu þeirra sem eiga stjórnmálin, að hundsa svona beint vilja hennar.

Breska þjóðin hafði einhvern sem hún gat treyst til að standa við orð sín.

 

Engu slíku er til að dreifa hér á Íslandi.

Og andófið er svo aumt að það tjáir óánægju sína með því að lýsa stuðningi við annað hvort flokk frjálshyggju og atvinnurekana, Viðreisn, eða flokk frjálshyggju og upplausnar, Pírata.

Eitthvað sem vitiborið fólk getur ekki samsinnað sig við.

 

Kýs því ennþá nauðbeygt eitthvað sem það telur illskást.

Sér engan trúverðugan valkost.

 

Þess vegna borga svik sig ennþá á Íslandi.

Auðurinn sér til þess að þjóðin hefur ekkert val í raun.

Og enginn í sjónmáli sem er nógu sterkur til að breyta því.

 

Við erum þjóð án forystu.

Þjóð án leiðtoga.

 

Þannig er það bara.

Kveðja að austan.


mbl.is Stærsti sigur Íhaldsflokksins í 32 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Böðlarnir sem vógu.

 

Þá samfélagslegu sátt að orkuauðlind þjóðarinnar ættu að nýta í þágu samfélagsins, að útvega landsmönnum ódýra og örugga orku, votta núna fórnarlömbum sína samúð sína.

Vissulega var Áslaug Arna ekki mikið yngri þegar orkupakki 1 og 2 voru lögfestir en í dag, en hún tók við keflinu, og festi í sessi orkustefnu Evrópusambandsins, framdi þau landráð að afhenda Evrópusambandinu bein yfirráð yfir orkuauðlindum þjóðarinnar, og festi í lög það regluverk sem kveður á um að orka þjóðarinnar eigi að seljast hæstbjóðanda á samneti Evrópu.

 

Enn og aftur skulum við rifja upp af hverju ástandið er svona í dag;

"Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna. Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregist á langinn að hefja nýjar virkjanir.".

Sameiginleg auðlind okkar er ekki lengur nýtt til að byggja dreifingarkerfi sem svarar kröfum nútímans um orkuöryggi, það kerfi sem við eigum, er leifar frá þeim tíma þegar saman fór viljinn til að virkja, og viljinn til að dreifa orkunni.

Jafnt í þéttbýli sem og dreifbýli.

 

Vissulega eru börnin í Sjálfstæðisflokknum ekki í beinni ábyrgð fyrir gjörum fyrirrennara sinna, en þau ættu að sleppa krókódílatárum sínum, ástandið á aðeins eftir að versna í hinum dreifðum byggðum landsins með tilkomu orkupakka 3 og 4.

Markaðsvæðing eða braskaravæðing orkuauðlindarinnar mun eingöngu nýtast stærstu markaðssvæðunum, stærstu raforkukaupendunum, en hinar dreifðu byggðir landsins munu ekki einu sinni vera hornreka, þau munu hugsanlega fá einhvern ölmusustyrk í gegnum ríkissjóð, annað ekki.

 

Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að það var ekki bara rafmagnið sem brást, fjarskiptakerfið hrundi líka.

Markaðurinn er ekki í stakk búinn að koma með lausnir þegar rafmagnið dettur út.

Allt er háð rafmagninu, en rafmagnið er ekki öruggt.

Ekki í aftaka veðrum þegar einmitt er svo mikilvægt að samskiptakerfið sé í lagi.

 

Það ber enginn ábyrgðina.

Við erum eins og skynlausar skepnur sem getum ekki hugsað eða skipulagt okkur.

Reyndar myndi aldrei svona kerfisvilla koma upp í maurabúum.

 

En í landi þar sem stjórnmálastéttin hefur selt bröskurum sálu sína, og fest í lög og reglur frjálshyggjunnar, að markaðurinn eigi að ráða og drottna, sú skynlausa skepna, þá mun svona uppákomum aðeins fjölga, ekki fækka.

Með tilheyrandi álag á meikið því það blandast víst ekki vel krókódílatárum.

 

En við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta.

Við eigum að frábiðja okkur samúð böðlanna.

 

Við eigum að setja þá af.

Frábiðja okkur stjórn þeirra.

Ef ekki býðst betur þá má semja við eitthvað maurabúið um að lána okkur drottningu sem gæti komið skikk á málin.

 

Markaðurinn er ágætur en hann á ekki að stjórna okkur.

Hann er tæki til að uppfylla þarfir okkar.

Ekkert annað, ekkert meir.

 

Það er vinna að tryggja þjóðinni örugga orku sem þolir veður og vind.

Slíkt þarf að vera geirneglt í regluverk okkar, og það þarf vitiborið fólk.

Heilbrigt fólk, skynsamt fólk.

Til að sjá um þá vinnu, til að bera ábyrgð á henni.

 

Það er ekki svo í dag.

Og hefur ekki verið lengi.

 

Það er ekki bara raforkukerfi okkar sem hefur drabbast niður.

Það gildir eiginlega um alla innviði þjóðarinnar.

Innviði sem voru byggir upp úr engu meðan þjóðin var fátækt, en getur ekki haldið við þrátt fyrir sögulegt ríkidæmi.

Sem segir einfaldlega það að þetta snýst ekki um fólk eða flokka, þó að öllu að jöfnu sé ekki vænlegt að láta börn eða viðrini stjórna þjóðinni, heldur um sjálfa hugmyndafræðina sem að baki liggur.

Hugmyndafræði auðsins, sjálftökunnar og hins frjálsa flæðis braskaranna, geirneglt í regluverk Evrópusambandsins.

 

Þess vegna er það lífsspursmál að segja upp EES samningnum.

Þess vegna er að lífsspursmál að segja upp frjálshyggjunni.

 

Og bakka til þess tíma þegar við vissum að uppbygging og fjárfesting var leiðin að velmegun og ríkidæmis.

Sem og sjálfstæði okkar.

 

Grátum ekki með böðlunum.

Gefum þeim frekar það frí að öllum sé sama hvað þeim finnst, eða hvað þeir segja.

 

Þá mun bara ekki rafmagnið flæða.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Allt gert til að koma hlutunum í lag aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sök býtur sekan.

 

Ekki það að iðnaðarráðherra var líklegast ennþá með snuð þegar regluverk Evrópusambandsins um Orkupakka 1 og 2 var tekið upp, og nær væri Gunnari að spyrja sjálfan sig hvernig hann hefði getað stutt Framsóknarflokkinn eftir að Valgerður Sverrisdóttir leiddi það í lög að skipta Landsvirkjun upp með þeim afleiðingum af raforkuverð á landsbyggðinni snarhækkaði, en sökin er hins vegar alþingismanna í öllum flokkum sem innleiddu regluverk Evrópusambandsins í raforkumálum.

Í kjarna nær Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur að orða það sem miður fór;

"Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna. Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregist á langinn að hefja nýjar virkjanir.".".

Og afleiðingarnar blasa við.

 

Og áður en skrumflokkar eins og Píratar eða Viðreisn ná sér á flug í gagnrýni sinni, þá megum við ekki gleyma hverjum þeir í raun þjóna og afhjúpuð sig við innleiðingu orkupakka 3; "taka hagsmuni braskara og fjárglæframanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar".

Um alla Evrópu er ljóst að globalfyrirtækin sem hafa lagt undir sig raforkumarkað Evrópu, hugsa aðeins um það eitt að hámarka fjárfestingu sína, eyða sem minnstu í dreifikerfi og afhendingaröryggi til neytenda, nema þá þeirra sem eru allra stærstir.

Munum að almenningur er rafmagnslaus, ekki stóriðjan, og það sama er raunin í Evrópu.

 

Almenningur er afgangsstærð, gróðinn liggur i samningum við þá stóru.

Almenningur getur ekkert flúið, hann á ekkert val.

Þess vegna er sem minnstu eytt í að þjóna hann, og sem mest er tekið út í arð við selja honum orku.

 

Svo kemur raunveruleikinn og blæs á alla frjálshyggju.

Afhjúpar að ef enginn ber ábyrgðina, þá sitja samfélög í súpunni þegar aftakaverður ganga yfir.

 

Af því eigum við að læra.

Og sá lærdómur er ekki að hlusta á kvakið í þeim sem seldu sálu sína fyrir braskaravæðingu raforkukerfisins.

 

Úrbætur verða aðeins ef kerfið er fellt.

Kveðja að austan.


mbl.is „Höfum við ekkert lært?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Götustrákar á þingi

 

Kallandi "tíkur" í tíma og ótíma væru fyndnir ef eina hlutverk þeirra væri að vera mótvægi við virðuleikann, við valdið, við forréttindin.

Hlutverk sem Píratar hafa gefið sig út fyrir að sinna, og á vissan hátt er slíkt nauðsynlegt aðhald lýðræðinu, svona eins og hirðfíflin voru á tímum konunga miðalda. 

Sögðu það sem aðrir veigruðu sig kannski við að segja.

 

Ekki skal ég leggja dóm á hvort kirkjujarðasamkomulagið sé bitch eða ekki, en þó veit ég að einn þarf að ráða í þingsal, og dónaskapur í garð hans er ekki háttur götustráka.

Heldur dóna.

Upphlaup og æsingur virðist æ meir einkenna framgöngu Pírata á þingi, og í umræðunni út í þjóðfélaginu.

 

Íslenskt globalfyrirtæki staðið af spillingu í Afríku, þá hlýtur þjóðin, stjórnvöld og fiskiveiðistjórnarkerfið vera gjörspillt, og múgurinn æstur upp til að trúa því samhengi.

Í Svíþjóð þar sem bankar eru staðnir að peningaþvætti og globalfyrirtæki að spillingu, þá benda menn á að kerfið virkar, og þar sæti menn ábyrgð eftir gjörðum og lögum. 

Þar hefur ekkert það fífl fundist sem setur samasemmerki milli spillingar globalfyrirtækja og íslenska kvótakerfisins. 

En framboðið er nóg af þeim hér á Íslandi, og áberandi er hvað Píratar róa undir.

 

Píratar róa nefnilega undir upplausn og múgæsingu.

Margoft afhjúpað sig í þá veru en síðasta og alvarlegasta þjónusta þeirra við innlenda og erlenda hrægamma eða braskara er afstaða þeirra í orkupakkaumræðunni.

Þar riðu þeir um héruð og sannfærðu stuðningsfólk sitt um styðja orkupakkann, og að það væri ekki einu sinni þörf á að slá varnagla til að hindra algjör yfirráð Evrópusambandsins yfir orkuauðlindum þjóðarinnar.

Orkuauðlindum sem á að markaðsvæða og hleypa hæstbjóðanda á jötuna með tilheyrandi hækkun rafmagnsverðs fyrir almenning.

 

Slíkt gera aðeins þeir sem þjóna.

Þeir sem eru á mála.

 

Og til að átta okkur betur á hve rotnir Píratar eru og hve aumkunarvert fólkið er sem ljær þeim stuðning sinn undir merkinu barátta gegn spillingu, þá er gott að hafa þessi orð huldumannsins Kára í huga, en hann er löglærður maður sem í nokkrum greinum hefur afhjúpað rökleysu og blekkingar stjórnvalda í orkupakkamálinu.

"Enda er þeim sama markaði ætlað að stýra verðinu. Aðildarríkin eiga hins vegar að opna allt upp á gátt. Það er raunar svo að ríkin hafa ákaflega lítið um þetta að segja, eftir að þau hafa innleitt orkupakka þrjú og fjögur. Þá gilda einfaldlega reglur Evrópuréttarins. Í 3. mgr. 3. gr. kemur fram að aðildarríkin skulu tryggja hindrunarlausan aðgang á innri raforkumarkaðnum. Hér duga heldur engin rök í þá veru að einstök ríki geti haft áhrif á lagasetninguna. Markaðsöflin hafa fyrir löngu valtað yfir allt lýðræði í þessu sem öðru og keyra sameiginlegu orkustefnuna bæði í gegnum þjóðþing og stofnanir Evrópusambandsins. Nærtækt dæmi er orkupakki þrjú í meðförum Alþingis. Þar sást greinilega, hafi menn verið í vafa, hvernig „jarðýta markaðsaflanna“ vinnur. Hún mylur undir sig þjóðþingin. Vilji kjósenda er hafður að engu. Stjórnarþingmenn voru eins og tuskubrúður í því máli öllu saman – algerlega viljalaus verkfæri. Sýndu fullkominn undirlægjuhátt. Sjaldan hefur vanhæfni Alþingis afhjúpast betur en einmitt þá.

Það sem einkennir orkupakkana alla, er áróðurinn sem í þeim er borinn fram. Þetta er einn samfelldur lofsöngur um ágæti frjálshyggjunnar, markaðsvæðingarinnar og „einkaframtaksins“. Alls staðar skín í gegn, hversu slæmt sé að opinber þjónusta „þvælist fyrir“ „einkaframtakinu“. Sannast sagna á texti þessara tilskipana og reglugerða meira skylt við trúarrit [strangtrúaðra] en lögfræði. Svo „innblásinn“ er textinn af fræðum frjálshyggjunnar og kenningum Milton Friedman um óheft frelsi braskaranna. ".

 

Af öllum þjónum auðvaldsins eru Píratarnir sekastir.

Þeir taka "taka hagsmuni braskara og fjárglæframanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar (neytenda)." svo ég vitni aftur í Kára, og þeirra hlutverk er að afvegleiða umræðuna.

Sjá til þess að Andófið breytist í heilalausan múg sem öskrar á torgum og heldur að leifarnar af borgarastéttinni sé sekt um alþjóðavæðinguna, hið frjálsa flæði Evrópusambandsins, skattaskjólin, einkavæðinguna, þegar allt þetta er markað í regluverk Evrópusambandsins og markaðsöflin sem knýja þetta áfram eru hluti af alþjóðlegu meini, eru sammannlegt vandamál sem þarf að sigrast á ef siðmenningin ætlar að lifa af.

 

Heilalaus múgur ógnar ekki markaðsöflunum.

Það eitt er víst.

 

Þar þjóna Píratar vel.

Kveðja að austan.


mbl.is Hótaði að slíta þingfundi vegna framíkalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grýla gafst uppá rólinu.

 

Þegar fólk hætti að trúa á hana.

Því það er þannig með þekkingu, að hún upplýsir, þegar ekki var vitað, afhjúpar þegar röngu er haldið fram.

 

Það er ótrúlegt að verkalýðshreyfingin með allt sitt fjármagn skuli ekki fyrir löngu hfaa sett á stað óháð rannsókn á verðmyndun afla í sjávarútvegi.

Það er hvorki dýrt eða flókið að fjármagna masterverkefni viðskipta- eða hagfræðinema, og út frá skýrslu þeirra er hægt að ræða málin.

Það er ekki boðlegur málflutningur að segja að útgerðarmenn hafi staðið gegn óðháðri rannsókn, því þá verða þeir bara eins og álfurinn út úr hól, áhrifalausir gagnvart þróun umræðunnar.

 

Ef það er ekkert að fela, þá upplýsa menn.

Ef eitthvað er óljóst, þá afla menn sér þekkingar.

Ekkert flókið þó þetta virðist mjög flækjast fyrir hagsmunaaðilum í sjávarútvegi.

 

Það má segja að það sé visst skipbrot fyrir þá að ráðuneytið skuli loks höggva á hnútinn, og athuga þennan verðmun sem vægast sagt virkar skrýtinn því allir selja á sömu mörkuðunum.

Tortryggni í garð útgerðarinnar eykst þegar mál er þögguð eða ekki rædd.

Spurning um hæfni verkalýðsforystunnar vaknar líka þegar aðeins er hrópað, en ekkert gert í að upplýsa.

 

Þess vegna ber að fagna að ráðuneytið skuli taka að sér að kveða Grýlu í kútinn.

Það er óþarfi að hún sé á rólinu og lýðskrumsöfl noti hana til að ógna sjávarbyggðum landsins á nýjan leik.

 

Í raun eru sárin ekki gróin eftir samþjöppunartímann á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, eða braskaravæðinguna sem fylgi í kjölfarið þar sem útgerð var aukaatriðið en braskið með kvóta aðalatriðið.

Eftir þau braskaraár var sjávarútvegurinn næstum því gjaldþrota, eigið fé hans næstum því komið á núllið, endurnýjun flota og búnaðar lítil.

 

Í dag er jafnvægi, skuldir eru greiddar niður, skip og búnaður endurnýjaður.

Og fólkið sem vinnur við sjávarútveginn býr nokkurn veginn við stöðugleika vel rekinna og vel stæðra fyrirtækja.

 

Arðrán ofurskattlagningarinnar eða kvótauppboð hinnar siðblindu frjálshyggju mun kollvarpa því jafnvægi, enginn mun vita hvort hann haldi vinnunni, hvort byggðin lifi, hvort einhver framtíð er í plássinu,.

Byggðaeyðingin mun fara af stað með tilheyrandi hörmungum.

 

Það eru grimm öfl, mannfjandsamleg sem fóðra skrumið og múgæsinguna í dag.

Það er óþarfi að hjálpa þeim.

 

Það á ekkert að vera sem ekki má ræða.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Verðmunur til athugunar í ráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ericsson játar mútur.

 

Semur um að greiða sekt til bandaríska yfirvalda, ekki sænskra.

 

Það er  margt sem vekur athygli, í fyrsta lagi að enginn virðist ætla að axla ábyrgð innan Ericsson, viðhorfið er eins og að shit happen.

Annað er að engar eru mótmælastöðurnar fyrir utan sænska þinghúsið þar sem annars vegar er gerð krafa um að viðskiptaráðherra og fjarskiptaráðherra víki og hins vegar að sænsku stjórnarskránni sé tafarlaust skipt út fyrir stjórnarskráardrögin íslensku.

Síðan skilaði lausleg netleit mér engum niðurstöðum um að formenn stærstu sænsku verkalýðsfélaganna kæmu fram í viðtölum og töluðu um Svíþjóð sem gjörspillt land, bæði stundi sænskir  bankar peningaþvætti sem og að sænskt stórfyrirtæki arðræni bláfátæk lönd með viðskiptum sínum og mútugreiðslum.

Enginn sem sagði að Svíþjóð "væri fremst meðal jafningja í peningaþvætti og almennri spillingu".

 

En stórfurðulegast af öllu var að ekki skyldi tafarlaust vera gerð krafa á sænska þinginu um að innkalla kvóta og bjóða hann út til hæstbjóðanda.

Því eins og allir vita sem fylgjast með umræðunni, þá er íslenska kvótakerfið upphaf og endir allra spillingar, allavega í Afríku, og örugglega víðar ef grannt er skoðað.

Það er eins og fólk í Svíþjóð viti ekki neitt sem við vitum.

 

Úr þessu þarf að bæta.

Sting uppá að Ágúst Ólafur með einum eða fimm Pírötum verði sendur út á örkina með nýjustu upplýsingar og þekkingu og uppfræði Svíana.

Ágúst er bráðger og með þetta allt á hreinu.

Píratarnir vita líka ýmislegt sem öðrum er hulið.

 

Með slíkri sendinefnd má segja að loksins náum við að endurgjalda Svíum Ingimar Bergman og allt jólaefnið sem gladdi mann hér á árum áður.

Og rúmlega það.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Ericsson í klóm heimslögreglunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurskattur á eina atvinnugrein.

 

Sem er undirstöðuatvinnugrein heilla landshluta, er arðrán.

Arðrán fjöldans á minnihluta sem getur ekki varist í lýðræðisþjóðfélagi þar sem afl atkvæða ræður.

Arðrán þar sem fjöldinn vill gera öðrum, fjarlægum minnihluta, það sem hann vill ekki gera sér sjálfum.

 

Það er siðleysi af svæsnustu gerð að taka eina atvinnugrein út, og skattleggja sérstaklega "... rétt rúm­lega helm­ingi af hrein­um hagnaði".

Atvinnulíf höfuðborgarsvæðisins myndi aldrei sætta sig við slíka skattlagningu á hagnað, talað yrði um sósíalisma, rán og rupl.

Sem það er, ofurskattur er lengri leiðin i fátækt fjöldans.

 

Siðleysi á illt með að horfa á sjálft sig í spegli, og bankar því uppá dyr heimskunnar og biður um rök fyrir arðráni sínu.

Heimskan svaraði að bragði og sagði; "bendið á mikinn hagnað Samherja".

Og notið hann sem rök fyrir að skattleggja hundruð smærri útgerða svo þær hrekist út rekstri, selji kvótann til hinna stærri, og sjá, þar með fáið þið staðfestingu á því að stórfyrirtæki eigi allan kvótann.

 

Bæta böl með því að auka það.

Ráðast á þá sjávarútvegsbyggðir sem lifðu af samþjöppun kvótans.

Eyðileggja lífsgrundvöll fólks, gera  eignir þess verðlitlar.

 

Heimska eða siðleysi, skiptir ekki máli.

Niðurstaðan er sú sama.

Og afhjúpar þá sem þykjast tala í nafni réttlætis þessa dagana.

Í raun þegar þeirra eina hugsun er þeirra eigin frami og metnaður.

 

Höfum það hugfast.

Kveðja að austan.


mbl.is „Í besta falli villandi framsetning“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf einn.

 

Til að haga sér eins og fífl.

Tvo til að efna til skrípaleika.

 

Það er gott að Trump ætli að gera heimsbyggðinni þann greiða að boða ekki þátttöku sína á slíka leika.

Nóg er skrumið samt og froðan sem vellur um lýðræðislega umræðu vestrænna landa.

 

Það er aðför að lýðræðinu að taka pólitískar átakalínur inní varnagla lýðræðisins eins og Landsdómur var hugsaður á Íslandi, eins og málsókn á hendur forsetanum í Bandaríkjunum er.

Því gengisfelling varnagla þýðir aðeins eitt, að þeir eru ekki lengur varnaglar þegar framkvæmdarvaldið hefur brotið leikreglur lýðræðisins, brotið stjórnaskrá eða tekið sér vald sem það hefur ekki.

 

En að vera pólitískur andstæðingur sem vinnur vinnuna sína er aldrei ástæða til að beita slíkum varnöglum.

Ef slíkt er gert, þá kallast það pólitískar ofsóknir.

 

Það var illa komið fyrir íslenskum vinstri mönnum þegar þeir hófu slíkar ofsóknir með málatilbúnaði sínu á hendur Geir Harde.

Uppskáru aðeins smánina.

 

En tilgangurinn var samt ekki ofsóknirnar, tilgangurinn var afvegleiðing umræðunnar, ýta undir múgæsingu, blása til moldviðris.

Svo umræðan snérist ekki um samstarfið við hrægammanna, um landsöluna kennda við ICEsave, um hin sögulegu svik við heimili landsins sem  voru skilin eftir varnarlaus á sléttum verðtryggingarinnar og gengislánanna, sem bráð fyrir hýenur fjármagnsins.

Vinstrið  var nefnilega komið á mála, og það átti að fela.

 

Í pistli gærdagsins vakti ég athygli á að Trump hefði brotið hin helgu vé sígræðginnar, að stefna hans um efla Bandaríkin, great agian, hefði ekki bara hleypt þrótti í efnahagslífið, heldur líka leitt til umtalsverða kjarabóta láglaunafólks.

Og sú dauðsynd væri hin undirliggjandi ástæða þess að bandaríska vinstrið (eins og það sé nú til) hefði afhjúpað sig sem andstæðinga lýðræðis, því það eru kjósendur sem eiga að kveða upp dóma um embættisfærslur forseta, ekki pólitískir andstæðingar hans.

Afhjúpað sig sem verkfæri globalistanna sem markvisst hafa útvistað fyrirtækjum og jafnvel heilum iðngreinum í þrælakistur, með þeim afleiðingum að verkafólk hefur umvörpum misst vinnuna, og það sem hefur haldið henni, þurft að sætta sig við umtalsverðar kjaraskerðingar.

Virða engan sið, virða engar skyldur.

Eitthvað sem var réttlætt með því að þetta væri lögmál guðs, Mammons.

 

Svo kom bara Trump og trukkaði sig í gegnum elítuna, sagði Mammon stríð á hendur.

Og afhjúpaði lygarnar, blekkingarnar.

 

Borgarlegur kapítalismi felur ekki sjálfkrafa í sér þrælahald og örbirgð fjöldans.

Slíkt er mannanna verk, þeirra sem fá aldrei nóg.

 

Þess vegna voru demókratar settir á strengi.

Þess vegna er öllum meðölum beitt til að stöðva Trump.

 

En karlinn bara hlær af þeim.

Gott hjá honum.

 

Því globalið þarf að stöðva.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Trump virðist ekki ætla að taka til varna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörn globalismans.

 

Gegn þeirri ósvífni Trumps að ætla sér að efla Bandaríkin á nýjan leik með því að skera á útvistun framleiðslu og efla hana heima fyrir, felst ekki í því að verkfæri þeirra hati Trump, heldur haldi honum uppteknum með fáránlegum ákærum, svo honum þverri móður í stríði sínu við hið alþjóðlega fjármagn sem virðir engin landamæri, á hvergi heima nema í skattaskjólum, mergsýgur samfélög, skilar fáu til baka.

Allt í skjóli hugmyndafræði andskotans sem kennd er við frelsi, sama táknfræði eins og í svörtum messum þar sem krossi er snúið á hvolf og söfnuðurinn kyrjar faðirvorið afturábak.

Frjálshyggjan hefur nefnilega ekkert með frelsi að gera, markmið hennar er auðsöfnun Örfárra, niðurbrot samfélaga, afmennskun fjöldans, hann er kostnaður sem markmiðið er að skera sem mest niður.

 

Frjálshyggjan skaut rótum á níunda og tíunda áratugnum, varð hagtrú hagfræðiakademíunnar, hún yfirtók stjórnmálastétt Vesturlanda, sem nýtti völd sín til að afregluvæða fjármálamarkaðinn, braskaravæða grunnþjónustu (orkupakkar ESB er síðasta dæmið þar um), útvista framleiðslu stöndugra iðnríkja í þrælabúðir Kína og annarra fátækra landa, og sníða skattareglurnar þannig að lítill sem enginn skattur var greiddur af sístærri hluta hagkerfisins.

Greiddi Starbuck í Englandi ekki álíka til samfélagsins og einn leigubílstjóri í London þegar búrókratar ESB snérust til varnar?  Allavega gerðu hinir uppkeyptu stjórnmálamenn það ekki.

Eftir fjármálahrunið 2008 var ljóst að sigur frjálshyggjunnar var næstum algjör, vegna þess að vinstri menn og vinstri flokkar kepptu hver um annan að vera sem mest ábyrgir, og gengu mun harðar fram í böðulstörfum fyrir globalfjármagnið en hægri flokkar þorðu nokkurn tímann.

 

Þá var Trump kosinn forseti.

Og sagði globalvæðingunni stríð á hendur.

Ekkert flóknara en það.

 

Verkfæri frjálshyggjunnar eða globalfjármagnsins vonuðust til að aukin framleiðsla heima fyrir og minni innflutningur úr þrælabúðum, undirboðum eða öðru sem dælt var inná Bandaríkjamarkað, myndi kolfella efnahagslífið, og fólkið sem kaus Trump, myndi yfirgefa hann umvörpum.

Að stríð hans væri feigðarför með innbyggðri sjálfseyðingu.

 

Nema að það gekk ekki eftir.

Allar hagtölur og hagvísar koma vel út.

 

Og þegar fréttir bárust að sannarlega hefði kaup og kjör láglaunafólks snarbatnað, þá var botninum náð.

Ef það er eitthvað sem þessi hagtrú úr neðra þolir ekki þá er það að venjulegt fólk hafi í sig og á.

 

Eitthvað varð að gera.

Og eitthvað var gert.

 

Verkfærin vinstra megin við miðju voru látin hefja málssókn á hendur forsetanum til embættismissis.

Glæpurinn??

Enginn.

Nema hugsanlega sá að Trump sem forseti beitti sér ekki nógu mikið til að afhjúpa spillingu sem náði inní hjarta stjórnkerfis Bandaríkjanna.

 

Forsetar í USA eru kosnir til að stjórna.

Þeim tekst misvel eins og gengur og gerist.

Og það er lýðurinn sem dæmir.

Þess vegna er talað um lýðræði.

 

Bandaríkin eru ekki eins og Kína þar sem það er miðstjórn alræðisflokks ákveður hver er forseti, og setur hann af hann nýtur ekki lengur trausts mikilvægra stofnana eins og hersins, eða flokksins, eða hinna sem ráða.

Eða eitthvað.

 

Frjálshyggjan á í stríði við mennskuna.

Af öllum ólíkindatólum var það Donald Trump sem snérist gegn henni.

Og núna reynir á hvort lýðurinn stjórni eða alræðið.

Alræði globalismans eða lýðræði fjöldans.

 

Allt annað sem týnt er til.

Öll meint sakaskrá Trump sem snýr að rasisma, hægriöfga, loftslagsmál, kvenfyrirlitningu, eiga dálítið erfitt að fara rétt með staðreyndir, vera hvatvís eða óútreiknalegur.

Eða það sem verst er, að kunna ekki að haga sér eins og einn af elítunni.

Það er vera ekki forsetalegur, heldur meira svona common eins og trukkabílstjóri.

 

Allt þetta skiptir engu.

Hann steig yfir ósýnilega línu.

Hann færði störfin heim og bætti kjör fátækra.

Svo alvarlegt að það dugar ekki að skjóta hann.

Heldur þarf að fella hann.

 

En hver fellur á eftir að koma í ljós.

Kveðja að austan.


mbl.is „Ég hata ekki nokkurn mann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Des. 2019
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 953
  • Sl. sólarhring: 1065
  • Sl. viku: 6161
  • Frá upphafi: 1328974

Annað

  • Innlit í dag: 820
  • Innlit sl. viku: 5492
  • Gestir í dag: 714
  • IP-tölur í dag: 701

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband