Böðlarnir sem vógu.

 

Þá samfélagslegu sátt að orkuauðlind þjóðarinnar ættu að nýta í þágu samfélagsins, að útvega landsmönnum ódýra og örugga orku, votta núna fórnarlömbum sína samúð sína.

Vissulega var Áslaug Arna ekki mikið yngri þegar orkupakki 1 og 2 voru lögfestir en í dag, en hún tók við keflinu, og festi í sessi orkustefnu Evrópusambandsins, framdi þau landráð að afhenda Evrópusambandinu bein yfirráð yfir orkuauðlindum þjóðarinnar, og festi í lög það regluverk sem kveður á um að orka þjóðarinnar eigi að seljast hæstbjóðanda á samneti Evrópu.

 

Enn og aftur skulum við rifja upp af hverju ástandið er svona í dag;

"Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna. Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregist á langinn að hefja nýjar virkjanir.".

Sameiginleg auðlind okkar er ekki lengur nýtt til að byggja dreifingarkerfi sem svarar kröfum nútímans um orkuöryggi, það kerfi sem við eigum, er leifar frá þeim tíma þegar saman fór viljinn til að virkja, og viljinn til að dreifa orkunni.

Jafnt í þéttbýli sem og dreifbýli.

 

Vissulega eru börnin í Sjálfstæðisflokknum ekki í beinni ábyrgð fyrir gjörum fyrirrennara sinna, en þau ættu að sleppa krókódílatárum sínum, ástandið á aðeins eftir að versna í hinum dreifðum byggðum landsins með tilkomu orkupakka 3 og 4.

Markaðsvæðing eða braskaravæðing orkuauðlindarinnar mun eingöngu nýtast stærstu markaðssvæðunum, stærstu raforkukaupendunum, en hinar dreifðu byggðir landsins munu ekki einu sinni vera hornreka, þau munu hugsanlega fá einhvern ölmusustyrk í gegnum ríkissjóð, annað ekki.

 

Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að það var ekki bara rafmagnið sem brást, fjarskiptakerfið hrundi líka.

Markaðurinn er ekki í stakk búinn að koma með lausnir þegar rafmagnið dettur út.

Allt er háð rafmagninu, en rafmagnið er ekki öruggt.

Ekki í aftaka veðrum þegar einmitt er svo mikilvægt að samskiptakerfið sé í lagi.

 

Það ber enginn ábyrgðina.

Við erum eins og skynlausar skepnur sem getum ekki hugsað eða skipulagt okkur.

Reyndar myndi aldrei svona kerfisvilla koma upp í maurabúum.

 

En í landi þar sem stjórnmálastéttin hefur selt bröskurum sálu sína, og fest í lög og reglur frjálshyggjunnar, að markaðurinn eigi að ráða og drottna, sú skynlausa skepna, þá mun svona uppákomum aðeins fjölga, ekki fækka.

Með tilheyrandi álag á meikið því það blandast víst ekki vel krókódílatárum.

 

En við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta.

Við eigum að frábiðja okkur samúð böðlanna.

 

Við eigum að setja þá af.

Frábiðja okkur stjórn þeirra.

Ef ekki býðst betur þá má semja við eitthvað maurabúið um að lána okkur drottningu sem gæti komið skikk á málin.

 

Markaðurinn er ágætur en hann á ekki að stjórna okkur.

Hann er tæki til að uppfylla þarfir okkar.

Ekkert annað, ekkert meir.

 

Það er vinna að tryggja þjóðinni örugga orku sem þolir veður og vind.

Slíkt þarf að vera geirneglt í regluverk okkar, og það þarf vitiborið fólk.

Heilbrigt fólk, skynsamt fólk.

Til að sjá um þá vinnu, til að bera ábyrgð á henni.

 

Það er ekki svo í dag.

Og hefur ekki verið lengi.

 

Það er ekki bara raforkukerfi okkar sem hefur drabbast niður.

Það gildir eiginlega um alla innviði þjóðarinnar.

Innviði sem voru byggir upp úr engu meðan þjóðin var fátækt, en getur ekki haldið við þrátt fyrir sögulegt ríkidæmi.

Sem segir einfaldlega það að þetta snýst ekki um fólk eða flokka, þó að öllu að jöfnu sé ekki vænlegt að láta börn eða viðrini stjórna þjóðinni, heldur um sjálfa hugmyndafræðina sem að baki liggur.

Hugmyndafræði auðsins, sjálftökunnar og hins frjálsa flæðis braskaranna, geirneglt í regluverk Evrópusambandsins.

 

Þess vegna er það lífsspursmál að segja upp EES samningnum.

Þess vegna er að lífsspursmál að segja upp frjálshyggjunni.

 

Og bakka til þess tíma þegar við vissum að uppbygging og fjárfesting var leiðin að velmegun og ríkidæmis.

Sem og sjálfstæði okkar.

 

Grátum ekki með böðlunum.

Gefum þeim frekar það frí að öllum sé sama hvað þeim finnst, eða hvað þeir segja.

 

Þá mun bara ekki rafmagnið flæða.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Allt gert til að koma hlutunum í lag aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sök býtur sekan.

 

Ekki það að iðnaðarráðherra var líklegast ennþá með snuð þegar regluverk Evrópusambandsins um Orkupakka 1 og 2 var tekið upp, og nær væri Gunnari að spyrja sjálfan sig hvernig hann hefði getað stutt Framsóknarflokkinn eftir að Valgerður Sverrisdóttir leiddi það í lög að skipta Landsvirkjun upp með þeim afleiðingum af raforkuverð á landsbyggðinni snarhækkaði, en sökin er hins vegar alþingismanna í öllum flokkum sem innleiddu regluverk Evrópusambandsins í raforkumálum.

Í kjarna nær Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur að orða það sem miður fór;

"Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna. Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregist á langinn að hefja nýjar virkjanir.".".

Og afleiðingarnar blasa við.

 

Og áður en skrumflokkar eins og Píratar eða Viðreisn ná sér á flug í gagnrýni sinni, þá megum við ekki gleyma hverjum þeir í raun þjóna og afhjúpuð sig við innleiðingu orkupakka 3; "taka hagsmuni braskara og fjárglæframanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar".

Um alla Evrópu er ljóst að globalfyrirtækin sem hafa lagt undir sig raforkumarkað Evrópu, hugsa aðeins um það eitt að hámarka fjárfestingu sína, eyða sem minnstu í dreifikerfi og afhendingaröryggi til neytenda, nema þá þeirra sem eru allra stærstir.

Munum að almenningur er rafmagnslaus, ekki stóriðjan, og það sama er raunin í Evrópu.

 

Almenningur er afgangsstærð, gróðinn liggur i samningum við þá stóru.

Almenningur getur ekkert flúið, hann á ekkert val.

Þess vegna er sem minnstu eytt í að þjóna hann, og sem mest er tekið út í arð við selja honum orku.

 

Svo kemur raunveruleikinn og blæs á alla frjálshyggju.

Afhjúpar að ef enginn ber ábyrgðina, þá sitja samfélög í súpunni þegar aftakaverður ganga yfir.

 

Af því eigum við að læra.

Og sá lærdómur er ekki að hlusta á kvakið í þeim sem seldu sálu sína fyrir braskaravæðingu raforkukerfisins.

 

Úrbætur verða aðeins ef kerfið er fellt.

Kveðja að austan.


mbl.is „Höfum við ekkert lært?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. desember 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 1524
  • Frá upphafi: 1321532

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1299
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband