Nútímaþrælahald er nátengt alþjóðavæðingunni.

 

Það er leið auðsins að komast framhjá kjarasamningum og velferð Vesturlanda.

Hefur brotið niður samfélög, hefur skert kjör vinnandi fólks.

 

Gjaldþrot norrænu velferðarinnar var þegar það var upplýst að þrælar unnu að stórum hluta alla verkamannavinnu við byggingu þjóðmenningarhússins í Osló.

Byggingu sem átti að vera djásn Óslóar næstu áratugina.

Til upplýsingar til þeirra sem halda að svona hafi þetta alltaf verið, þá byggði frjálst verkafólk pýramídana miklu, og frjálst verkafólk, iðnaðar og handverksfólk byggði dómkirkjur miðalda sem ennþá eru stærstu kennileiti evrópskra borga.

 

Hvað skyldu hið frjálsa flæði Evrópusambandsins hafa útrýmt mörgum störfum sem borgað var eftir kauptöxtum og kaupmætti í Norður Evrópu, og fyllt upp með vinnuþrælum í staðinn?

Er hlutfallið orðið 60%,70% eða 80% í byggingariðnaði.

Sögðu ekki lögregluyfirvöld á Ítalíu að þau gætu ekki skipt sér af mannsali og vinnuþrælkun í þarlendri ávaxta og grænmetisrækt, því annars væri hún ekki samkeppnishæf.  Viðurkenndu reyndar að nauðgun og kynferðisleg misnotkun væri ekki innifalin í hinu frjálsa flæði misnotkunar og vinnuþrældóms.

Af hverju halda menn að það séu svona margir verkamenn sem kjósa gegn Evrópusambandinu í dag??

Eigum við að rifja upp ómennskuna í kringum Wow flugfélagið, þegar grískum flugfreyjum var haldið á tánum í Svíþjóð, tilbúnar að fara á meintum þjónustusamningi á Kastrup, en þá mátti borga þeim brota brot af umsömdum launum kjarasamninga.  Og ef ég man það rétt, þá grétu menn þegar þrælahaldarinn fór á hausinn.

 

Það er nefnilega meinið.

Menn gráta þegar þrælahaldarinn lifir ekki af sín eigin undirboð.

Menn gráta þegar ekki er lengur hægt að þrælka börn til dauðs í Kongó, því þá er ekki lengur hægt að bjóða rafmagnsbíla á viðráðanlegu verði.

Menn gráta þegar stjórnmálamenn eins og Trump segja að það sé ekkert eðlilegt við alþjóðavæðingu þar sem vinnuafl þræla er notað til að brjóta niður innlenda framleiðslu og iðnað.

 

Góða fólkið hágrætur í dag.

Meintir hægri populistar tala um velferð og atvinnuöryggi vinnandi stétta.

Vilja stöðva óheft flæði framleiðsluvara úr þrælabúðum globalistanna, og setja skorður við frjálsum innflutningi af vinnuþrælum.

Ógna gróðanum, ógna hinu frjálsa flæði auðs frá vinnandi fólki í vasa ofurríkra.

 

Og núna á að lögsækja þrælahaldara, fyrir að nýta sér þrælavinnuafl barna.

Sjálf tilvera alþjóðavæðingarinnar er undir.

Gróðinn sem og brauðið sem notað er til að þagga niður í fjöldanum.

 

Það er nefnilega örstutt bil frá námunum í Kongó í þrælaverksmiður HM eða annarra stórfyrirtækja sem fylla heiminn af ódýru rusli.

Rusli sem hefur drepið niður okkar eigin framleiðslu.

Það er eins og hægri populistarnir séu eins og vírus sem dreifir sér um heimsbyggðina.

Leggur til atlögu við skattaskjól, það er hið frjálsa flæði fjármagns, og leggur til atlögu við hið frjálsa flæði vöru og þjónustu frá þrælabúum til vestrænna landa.

Jafnvel rafmagnsbíllinn er undir.

 

Það eru erfiðir tímar framundan fyrir auðmenn.

Og grátur og ekkasog gætu farið illa með taugar og æðar góða fólksins, sem sælt og glatt lofsöng alþjóðavæðinguna og fúlsaði ekki við afurðum hennar.

Það er eins og heimurinn sé aftur að snúast til mennsku og mannúðar.

Trump í Bandaríkjunum og Boris í Bretlandi, báðir að efla það sem heima er.

Í Evrópu banka flokkar að dyrum valda sem  auk margs annars, leggja áherslu á að velmegun er heimafengin, en ekki innflutt úr verksmiðjum globalista.

 

Mannúð og mennska þrífst nefnilega ekki í þrælaþjóðfélögum.

Þrífst ekki í samfélögum sem hafa þurft að sjá eftir iðnaði sínum og framleiðslu útvistaða í þrælaverksmiðjur.

Þrífst ekki í samfélögum þar sem lögmálið um lægsta tilboð í skjóli hins frjálsa flæðis á vinnuafli, útrýmir heilbrigðum vinnumarkaði, og gerir vinnandi fólki ókleyft að lifa af afrakstri vinnu sinnar.

Þrífst ekki þar sem gæði eru seld á uppboðsmarkaði, samfélagsþjónusta markaðsvædd.

Hún er alltaf það fyrsta sem lætur undan, og hatrið og heiftin tekur yfir.

 

Sum ómenni eru ákærð í dag.

Vonandi önnur á morgun.

 

Bretar ætla að segja sig úr hinu frjálsa flæði.

Vonandi gerum við það líka innan ekki svo skamms tíma.

 

Það er full ástæða til að fagna svona fréttum.

Og það er full ástæða til að við sjálf sköpum okkur svona fréttir.

Við gætum til dæmis byrjað að ákæra heildsalana sem flytja inn vörur úr þrælaverksmiðjum.

Lokað búðum þeirra, skapað heilbrigðari markað.

 

En stærsta skrefið er að segja upp EES samningnum.

Þar er rótin, þar er meinið.

Þar er uppsprettan sem ógnar tilveru okkar sem þjóðar.

 

Bara það eitt gerir heiminn betri.

Og það gæti hjálpað öðrum að stíga það sama skref.

 

Segjum Nei við þrælahaldi.

Segjum Nei við alþjóðavæðingunni.

Segjum Nei við hinu frjálsa flæði.

 

Og gefum góða fólkinu frí á meðan það sygir hið liðna.

Syrgir alþjóðavæðinguna, syrgir þrælahaldið.

Hvernig sem á það er litið, er slíkt alltaf kærleiksverk.

 

Og hver vill ekki slíkt á jólunum.

Kveðja að austan.


mbl.is Segja tæknifyrirtæki meðvituð um barnaþrælkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brandarakona tjáir sig.

 

Lofar það eina sem ekki hefur orðið græðgivæðingu hins frjálsa flæðis að bráð.

Eða hefur sloppið við niðurskurðarhníf frjálshyggjunnar sem telur hvern þann aur sem eytt er í samfélag og fólk, vera glataðan aur.

 

Eigum við að rifja upp hræsnarana sem voru grýttir eggjum þegar þeir mættu í minningarathafnir í New Orleans og tjáðu samúð sína vegna fórnarlamba fellibyljarins Katrínar.

Nýbúnir að leggjast gegn öllum fjárveitingum í endurnýjun stíflu- og flóðvarnargarða.

Samanber að glataður er aur sem eytt er í forvarnir eða uppbyggingu innviða.

 

En það er skortur á eggjum á Íslandi.

Það kunna þeir að meta sem ábyrgðina bera.

En aum er sú þjóð sem hlustar á mærð þeirra og hræsni.

 

Það eina sem vann kraftaverk, var fólkið.

Fólkið sem vann allt í sjálfboðavinnu.

Fólkið sem hafði ekki verið markaðsvætt.

Líkt og orkuauðlindin sem Katrín knúði í gegnum þingið.

 

Það fólk situr núna uppi með það að það hafi verið frábært.

Að óveðrið hafi verið svo slæmt.

 

En ég man eftir byl sem stóð yfir í þrjá daga, ekki hálfan sólarhring.

Þá unnu gegnar kynslóðir sjálfboðaliða kraftaverk.

Og hlut hrós fyrir.

 

Hjá fólki sem vildi vel.

Og lagði fjármuni í að bæta kerfið, að gera dreifikerfið öruggara.

 

Það trúði á betri heim.

En ekki markaðsvæðingu hans.

 

Þar er diffinn.

Það var heilt.

 

En Katrín ekki.,

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Viðbragðsaðilar unnu „kraftaverk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kötturinn sem væflar kringum grautinn.

 

Þarf að átta sig á að lög ráða.

Að lögum þarf að lúta.

 

Ennþá er hluti Sjálfstæðisflokksins og ritstjóri Morgunblaðsins að reyna réttlæta lögbrot Sigríðar Andersen fyrrum dómsmálaráðherra þegar hún skipaði vildarvini og flokksvini í Landsrétt, og notað um leið tækifærið að hefna harma á pólitískum andstæðingi sínum.

Ásamt því að gera upp einhverjan kíting innan dómarastéttarinnar.

Ekkert annað gat skýrt þá sem hún handvaldi út, og þá sem hún handvaldi inn.

Uppgefnar forsendur hennar stóðust ekki skoðun, kurteisi að kalla þær rangar, og til að bíta höfuð að skömminni, þá vísaði hún í meintan kynjahalla sem hún sjálf hafði talað gegn þegar hún breytti lögunum 2017.

 

Dómsmálaráðherra braut nefnilega sín eigin lög.

Hefði hún talið það rangt að svokölluð hæfnisnefnd hefði það hlutverk að skila inn tillögum til ráðherra, eða að aðferðafræði hæfnisnefndar væri óljós, eða jafnvel röng að hennar mati, þá var það hennar að koma breytingum þar um í hin endurskoðuð lög.

Og enn og aftur, það var hún sem stóð að endurskoðun laganna.

 

Kettirnir sem mjálma nú um að grautinn sé heitur, að núna sé það upplýst að hæfnisnefnd hafi þróað áfram vinnubrögð sín, hvort sem það er fram á við eða skref aftur á bak, virðast ekki skilja að núverandi fyrirkomulag er vegna þess að það er kveðið á um það í lögum.

Og ef framkvæmdarvaldið er ósátt við lögin, þá breytir það lögunum fyrst, áður en það hagar sér á annan hátt.

Annað er andstætt lögum og reglu, kallast lögbrot, og það er dómsstóla að skera úr um það og kveða upp dóma sína.

Það er hvergi gert ráð fyrir því í réttarreglum að slíkt sé hlutverk ritstjóra Morgunblaðsins, barnadeildar Sjálfstæðisflokksins, eiginmanna flokksvina, eða biturra lögmanna út í bæ, sem grípa gæsina til að viðhalda deilum sínum við alla hina dómarana.

 

Það er ömurlegt að vera vitni af svona gengisfellingu bæði trúverðugleika Morgunblaðsins og þess vits sem stýrir pennum blaðsins.

Það er ömurlegt að upplifa íslensk stjórnvöld að draga lappirnar í svona máli í stað þess a gyrða sig i brók, og gera einu sinni það sem rétt er.

Að fara að lögum, og virða dóma.

 

Það má ekkert lengur sagði fyrrverandi ráðherra i föstum pistli sínum í Morgunblaðinu, og það er ótækt að dómur komi að utan.  Hvar er sjálfstæðið??

Þetta sagði líka þjófurinn sem var gripinn glóðvolgur með sjónvarpstæki í hendinni og brotin glugga að baki sér, nema hann kvartaði reyndar ekki yfir dóm að utan.

Og þeir sem kvarta yfir dómi að utan, geta hreinlega lagt til að landið segi sig frá Evrópuráðinu, segi bless við samfélag evrópskra lýðræðisríkja.

En á meðan það er ekki gert, þá virða menn þær skuldbindingar sem þeir hafa gengist undir.

 

Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að sagan segir að alræðisöfl, hvort sem þau eru fasísk eða kommísk byrja oft atlögu sína að lýðræðinu með því að vega að sjálfstæði dómsstóla.

Þess sjást nú þegar teikn, bæði í USA og Evrópu.

Ekki að slíku hafi verið að dreifa hér, aðeins gamaldags vildarvina og flokksspilling.

En það skýrir dóminn að utan, sjálfstæði dómsstóla á að verja.

 

Einn daginn munum við þakka fyrir þennan dóm.

Það er ef við höldum sjálfstæði okkar og lýðræði.

Stjórnmálastétt okkar er þegar í stríði við hvorutveggja.

Það sást á afgreiðslu orkupakka 3 síðasta sumar.

 

Þá vorum við svo aum að við höfðum ekki kraft til að láta reyna á sjálfstæði dómsstóla með því að sækja þá til saka sem brutu bæði lög og stjórnarskrá.

Og ljóst er á svona fréttaflutningi að styrkur Morgunblaðsins er lítill annar en að tuða yfir heimi sem var, þegar ráðherrar riðu um héruð, og verk þeirra voru hafin yfir vafa.

Af er sá tími þegar blaðið stóð vörð um sjálfstæði þjóðarinnar, eða þar á undan, barðist gegn erlendum yfirráðum og ritstjórar blaðsins eggjuðum menn til dáða.

Reykjavíkurbréfið er að verða lítið annað en einkamálgagn Donalds Trumps og Borisar Johnsson, þægileg leið þegar ekkert er að segja um sitt eigið samfélag, eða það sem kannski verra er, að ekkert má segja um sitt eigið samfélag.

 

Mjá, mjá.

Mjá, mjá.

 

Grauturinn er heitur.

Kveðja að austan.


mbl.is Horfið frá reiknileið í dómaravali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. desember 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 1318297

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband