Hvers eigum við sem þjóð að gjalda??

 

Að vitið í ráðherrastól, og þá er barnavæðing Sjálfstæðisflokksins ekki afsökun, sé ekki meira en það að fyrstu viðbrögð innanríkisráðherra sé að segja; "Grundvallaratriðið að það sé varaafl!!".

Þessi orð eru sögð á því herrans ári 2019, en ekki uppúr miðri síðustu öld, þegar bláfátæk þjóð réðst í það stórvirki að koma upp díselrafstöðum víða um land sem varaafl.

Varaafl sem bjargaði því sem bjargað varð í rafmagnsleysinu sem fylgdi í kjölfar ósköp venjulegs vetraróveðurs, þó þau vissulega hafa verið sjaldgæfari á þessari öld eftir að það fór að hlýna í heiminum.

 

Af hverju hvarf þessi grundvallarþekking og hugsun úr úr orðaforða ráðamanna okkar, af hverju þurfti þetta óveður til að þeir uppgötvuðu þessi sannindi??

Eigum við kannski von á því að næsti krakki komi í viðtal og segi, "óveður sýndi okkur fram á hvað rafmagn er mikilvægt í nútíma þjóðfélagi", eða jafnvel að það sé tekið viðtal við ráðherra við kertaljós, og hann dásemi þá uppfinningu sem kallast eldur, að það hafi verið merkur maður, eða mannapi sem lærði að temja hann?

 

Viti borið fólk, fullorðið fólk, fólk með ábyrgð, spyr einnar grundvallarspurningar; af hverju var ekki varafl víðar??

Síðan spyr hann sig, hvað er að kerfi okkar síðustu 2 áratugi að ekkert, og þá segi ég ekkert, hefur verið gert til að tryggja raforkuöryggi á landsbyggðinni heldur það sem fyrir var látið drabbast.

Og hann axlar ábyrgð, viðurkennir að sökin sé hans, og allra þeirra flokka sem hafa komið að landsstjórninni síðustu 2 áratugi, sem og þeirra flokka sem ekki hafa komist í ríkisstjórn, en hafa enga tillögu lagt fram á Alþingi um tafarlausar aðgerðir og úrbætur.

 

Allt annað er að leika skoffín.

Allt annað er háð og spott gagnvart fórnarlömbunum.

Okkur, fólkinu í hinum dreifðu byggðum landsins.

 

Vissulega má kenna regluverki Evrópusambandsins um þegar það krafðist að Landsvirkjun væri skipt upp, og tekjulaust brandarafyrirtæki sem kallað er Landsnet var klofið út úr Landsvirkjun, og látið bera ábyrgð á dreifikerfinu og uppbyggingu þess.

En það voru stjórnmálamenn sem samþykktu regluverkið, og það eru stjórnmálamenn sem síðan hafa  ekki sagt orð um aðgerðarleysi Landsnets á sama tíma sem allt þjóðfélagið er algjörlega orði háð tölvutækni og rafmagni, og fer því sem næst á hestaöld þegar rafmagnið fer.

Það er vegna þess í hjarta sínu eru þeir sammála hugmyndafræði Evrópusambandsins að íbúar hinna dreifðu byggða eigi sjálfir að standa undir kostnaðinum af uppbyggingu dreifkerfisins, en ekki njóta hagnaðarins af orkusölunni til stórnotenda.  Þó verður raforkan sem seld er, ekki til í höfuðborginni, heldur í hinum dreifðu byggðum, í landinu okkar sem við búum öll í.

 

Og þessi hugmyndafræði mannvonskunnar, þessi frjálshyggja um markaðinn og þeir einir eigi að njóta orkunnar sem borga best fyrir hana, var geirnegld með samþykkt orkupakka 3 með stuðningi allra flokka nema Miðflokks og Flokki fólksins.

Markaðsvæðing þýðir að enginn ber ábyrgð á sínum minni bróður eða hinum dreifðu byggðum, markmið regluverksins er einn sameiginlegur evrópskur orkumarkaður, og orkan fer þangað þar sem best er boðið.

Þess vegna rjúka kamínur núna út í orkuríkum löndum eins og Noregi og Svíþjóð, hinn venjulegi maður hefur ekki lengur efni á að kynda húsin sín af neinu viti þegar kuldaköst ganga yfir löndin.

Vissulega eru hinar dreifðu byggðir ennþá tengdar, en það er ekki markaðnum að þakka, heldur búa menn að tengingum sem var komið á þegar kerfið var rekið á samfélagslegum forsendum, þar sem aðgangur að orku var talinn grundvallarréttur.

 

Sú hugsun var innbyggð í kerfið alla síðustu öld, eða frá því í árdaga rafvæðingarinnar. 

Elliðaá var virkjuð og hitaveita lögð í Reykjavík til þess að allir hefðu aðgang að rafmagni og hita, jafnt kaupmaðurinn sem og þvottakonan, svo ég vitni nokkurn veginn orðrétt í Jón Þorláksson, fyrsta formann Sjálfstæðisflokksins.

Það var þverpólitísk sátt um hið samfélagslega hlutverk orkukerfisins, og það sem við eigum í dag, er þeirri hugsun áa okkar að þakka. 

Þeim datt ekki í hug að markaðsvæða orkuauðlindir þjóðarinnar, þó einhverjir hefðu getað orðið moldríkir á að selja okkur hinum orkuna. 

Til þess er orkan of mikilvæg samfélaginu, og hún átti að vera á viðráðanlegu verði svo hún væri allra, og hún átti flæða um landið, jafnt til sjávar og sveita, í þéttbýli sem og dreifbýli.

 

Varaaflið er þeim að þakka.

Dreifikerfið er þeim að þakka.

 

Ekki stjórnmálamönnum dagsins í dag.

Þeirra eina verk, hefur verið að eyðileggja samfélagssáttina.

Og innleiða regluverk sem kveður á markaðsvæðingu orkuauðlindarinnar, þar sem regluverkið frábiður öll ríkisafskipti, frábiður hina samfélagslegu sátt að orkan sé þjóðarinnar.

Að orkan sé allra.

 

Látum samt þennan illvilja vera.

Horfum jafnvel framhjá  að ráðherrar okkar og ríkisstjórn tóku "hagsmuni braskara og fjárglæframanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar ".

En svona hræsni, nýbúin að innleiða regluverk Evrópusambandsins, og svona fávisku, eins og þetta fólki hafi búið á tunglinu alla sína ævi, og viti ekkert, nákvæmlega ekkert um hvernig lífið gengur fyrir sig á landsbyggðinni, eða hvernig hinn stanslausi niðurskurður hefur leikið innviði þar, þar eru mörk sem á ekki að hleypa þessu ógæfufólki yfir.

Það er ekki veðrið sem í raun skyldi eftir slóð eyðileggingarinnar, það er það sjálft, verk þess og flokka þeirra í núna hátt í 2 áratugi.

Það er ekki flóðinu að kenna þegar flóðgarði sem er ekki haldið við, brestur.

 

Öll hin jákvæðu orð ráðherrana í dag eru örugglega vel meint.

Og vitið er örugglega ekki meira en guð gaf, og þekkingin eftir því.

En þetta eru bara ekki neinir vitleysingar, þeim er bara nákvæmlega sama.

Og það má jafnvel fá atkvæði út á hina fölsku samúð.

 

Mér er minnisstætt að eftir að snjóflóðin féllu fyrir vestan, þá hvað þáverandi forsætisráðherra það vera harmleik sem ekki mætti endurtaka sig.

Og hann lofaði að þorpin yrðu endurreist, og hann lofaði að fjármagn yrði sett í sérstakan sjóð sem sæi um uppbyggingu snjóflóðamannvirkja.

Hann stóð svo við orð sín, þá vissi maður að samúð hans og harmur var ekta.

Mannvirkin hafa þegar bjargað, og ekki hvað síst, veita mörgum byggð vörn sem áður var ekki til staðar, þar á meðal í minni heimabyggð.

 

Hann grét ekki krókódílatárum, hann vottaði ekki falska samúð, eða tjáði yfirgengilega vanþekkingu og heimsku.

Hann tjáði harm sinn og þjóðarinnar, og sagði síðan hvað þyrfti að gera, og að það yrði gert.

Hann var ekki með blóðugar axlir, nýbúinn að skera niður kerfið sem átti að vernda innviði, sem átti að tryggja öryggi til frambúðar.

Það var einfaldlega engin vörn til, engin opinber sjóður sem fékk öruggt fjármagn til að kosta varnarmannvirki, það var ekkert sem hægt var að skemma með því að markaðsvæða í þágu alþjóðlegra fjárfesta og braskara.

 

Þann dag var ég stoltur af ríkisstjórn minni og stjórnvöldum.

Ég finn ekki fyrir því stolti i dag.

Og því miður þá skammast ég mín ekki einu sinni fyrir þetta fólk.

 

Það er ekki þess virði.

Kveðja að austan.


mbl.is „Grundvallaratriði að það sé varaafl“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkið sem kann ekki að skammast sín.

 

Mætir núna í lopapeysum í fylgd barna, og þykist vera svakalega hissa á afleiðingum áratuga stefnu þess að brjóta niður innviði landsbyggðarinnar.

Svo hissa að það sá tækifærið til að ná kastljóst fjölmiðlanna með því að tilkynna stofnun þjóðaröryggisráðs, sem er eitthvað stofnanaheiti þegar það kemur saman og lætur taka mynd af sér í lopapeysum.

 

Það er eins og það hafi aldrei lesið bænaskjölin sem koma ár eftir ár frá sveitastjórnum á landsbyggðinni, landshlutasamtökum og öðrum sem málið varða, og eru neyðaróp um að allt sé fyrir löngu komið í óefni, annars vegar vegna stöðugs niðurskurðar og hins vegar að það er ekki fjárfest í stoðkerfinu sem nauðsynlegt er til að reka nútíma þjóðfélag.

Það er eins og það hafi fyrst heyrt af þessu í gær að hlutirnir væru ekki í lagi og það kæmu vond veður á Íslandi.

 

Þess vegna er gott að rifja upp bókun Húnaþings vestra sem sagt var frá á Mbl.is undir fyrirsögninni:  OPINBERIR INNVIÐIR HAFA ALLIR BRUGÐIST.

Ekki sumir, heldur allir, og síðan er ömurleikinn talinn upp;

" að sveit­ar­fé­lagið hafi verið raf­magns­laust í rúm­lega 40 klukku­stund­ir. Hluti þess sé enn ekki kom­inn með raf­magn og ekki sé vitað hversu lengi það ástand vari. Veru­legt tjón hafi jafn­framt orðið hjá íbú­um. 

„Það er al­ger­lega óviðun­andi að grunnstofn­an­ir sam­fé­lags­ins, RARIK, Landsnet og fjar­skipta­fyr­ir­tæk­in hafi ekki verið bet­ur und­ir­bú­in og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aft­ur á móti voru Björg­un­ar­sveit­irn­ar og Rauði kross­inn, sem rek­in eru í sjálf­boðavinnu, vel und­ir­bú­in og kom­in með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á,“ seg­ir í bók­un­inni. Þar kem­ur einnig fram að óá­sætt­an­legt sé að tengi­virkið í Hrúta­tungu hafi verið ómannað þrátt fyr­ir yf­ir­lýs­ing­ar Landsnets um annað. Ger­ir sveit­ar­stjórn­in þá grund­vall­ar­kröfu að á svæðinu sé mannafli sem get­ur brugðist við með skömm­um fyr­ir­vara.

 Rík­is­út­varpið er einnig sagt hafa brugðist al­gjör­lega þegar horft er til ör­ygg­is­hlut­verks þess. „Dreifi­kerfi RÚV lá niðri víða í sveit­ar­fé­lag­inu og náðust send­ing­ar illa eða alls ekki. Al­mennri upp­lýs­inga­gjöf til íbúa um stöðu og horf­ur var ekki sinnt. Litl­ar sem eng­ar frétt­ir bár­ust frá Húnaþingi vestra þrátt fyr­ir að veðuraðstæður væru hvað verst­ar á þessu svæði og út­varpið nær eina leið íbúa til að fá upp­lýs­ing­ar.“ Þá seg­ir í bók­un­inni að grafal­var­legt sé að eng­in starfs­stöð lög­reglu sé á svæðinu, auk þess sem lýst er yfir áhyggj­um yfir því að eng­in vara­afl­stöð sé við Heil­brigðis­stofn­un Vest­ur­lands á Hvammstanga. ".

 

Þessi hnignun er alls ekki bundin við Húnaþing vestra þó ástandið þar sé sérstaklega slæmt.

 

Í raun má segja að valdið í Reykjavík hafi sagt landsbyggðina úr lögum við íslenska ríkið, öll stoðþjónusta er markvisst skorin niður, með því markmiði að í raun sé hún aðeins veitt úr Reykjavík.

Á sumu bera stjórnvöld beina ábyrgð, á öðru er ábyrgðin óbein eins og ohf væðing Rarik og fleiri ríkisstofnanna.

 

Að ekki sé minnst á evrópsku reglugerðina sem skar á tengslin milli orkuframleiðslunnar og dreifkerfisins, skar á tekjustreymið sem var hugsað til þess meðal annars að nútímavæða dreifikerfið þegar orkusamningar til stóriðju færu að skila arði til Landsvirkjunar.

Afleiðingin er fjársvelt dreifikerfi sem er að stofni til byggt af mun fátækari samfélagi um og uppúr miðri síðustu öld.  Byggðalína á til dæmis á aðeins rúm 2 ár í að verða fertug, það er yngsti hluti hennar, flestar díselrafstöðvarnar eru mun eldri.

 

Vissulega var veðrið vont, en það koma reglulega vond veður á Íslandi.

Það þarf að gera ráð fyrir þeim og innviðirnir þurfa að þola þau þó eitthvað rask sé alltaf óumflýjanlegt.

En það sem við eigum til að reka nútímaþjóðfélag á ekki að stofni til að vera frá dögum afa okkar og ömmu, eða foreldra okkar ef við erum sjálf komin á virðulegan aldur.

 

Samfélag okkar er ríkt, en annað mætti halda þegar fjárfestingar til framtíðar eru skoðaðar.

Sem og að hugarfarið er stórmengað af skaðlegri hugmyndafræði.

 

Mengun sem sýndi sig dagana eftir Hrunið haustið 2008, þá var ein fyrsta fréttin að sjómokstur yrði því sem næst aflagður í Árneshreppi.  Brothættasta byggð landsins sem bar enga ábyrgð á fjármálabraskinu öllu saman, en krónurnar sem spöruðust taldar mikilvægar til að bjarga fjárhag ríkisins.

Einnig má minna á að Hrunið var notað sem afsökun eða tylliástæða til að ráðast að áratuga uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni og það stórskaddað. 

Undir kjörorðinu; "þjónustan suður".

 

Og núna rúmum  10 árum frá Hruni, þegar tekjur þjóðarbúsins hafa aldrei verið eins miklar, þá lifir þetta kjörorð góðu lífi.

Meðal annars hjá núverandi ríkisstjórn.

Og það bendir ekkert til þess að breyting verði þar á.

 

Þess vegna er löngu tímabært, að kjörnir fulltrúar okkar landsbyggðarinnar, segi núna, af gefnu tilefni, við fólkið sem kann ekki að skammast sín.

"Skammist ykkar".

 

Því stundum þarf að segja sannleikann.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Fjarskiptamálin eru svo sér kapítuli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretum ofbauð svikin.

 

Þau svik að gefa þjóðinni kost á að kjósa um aðildina af Evrópusambandinu, og taka svo Brussel á niðurstöðuna þegar aðildinni var hafnað.

Brussel er andlýðræðislegt batterí sem játar lýðræðinu aðeins af nafninu til, svindlar ekki í kosningum eins og var í Sovétríkjunum forðum daga, en virðir aðeins niðurstöðuna ef hún er jákvæð.

Annars er fundin hjágönguleið sem hundsar Nei, hundsar höfnun.

 

Breska stjórnmálaelítan var viss um að þjóðin myndi segja Já, en þegar hún tapaði, þá var strax leitað leiða til að vinna gegn niðurstöðunni, makkað með Brussel um einhverja afarkosti í viðskiptum, kennt við útgöngusamningi, eða stöðugt klifað á að þjóðin yrði að greiða aftur atkvæði, og þá kjósa rétt.

Jafnvel stuðningsfólki Evrópusambandsins ofbauð þessi vinnubrögð, og það skýrir þennan afgerandi sigur Borisar Johnsson. 

Sigur sem er ennþá sterkari ef það er haft í huga að Íhaldsflokkurinn var ekki einhuga að baki Borisar, elítan, hið hefðbundna aristókrata vald sem átti flokkinn í raun, vann gegn honum allan tímann í kosningabaráttunni.

 

Hér á Íslandi hefur verið bent á svipuð svik, þar sem þvert gegn fyrri yfirlýsingum og opinberri stefnu fyrir kosningar, ákváðu stjórnarflokkarnir að framfylgja stefnu Viðreisnar og Samfylkingarinnar í orkumálum þjóðarinnar, það er fremja þau landráð að afhenda stofnun Evrópusambandsins, ACER, yfirráð yfir orkuauðlindum þjóðarinnar.

Þvert gegn vilja þjóðarinnar og margur hefur trúað því að þjóðin myndi refsa í komandi kosningum.

 

En það er ansi ólíklegt.

Vegna þess að andófið gegn orkupakkanum leitaði aftur inní flokkana sína og er þar stillt og þægt.

Miðflokkurinn fær aukið fylgi vegna orkupakkamálsins, en í raun er ekkert sem bendir til þess að flokkurinn hefði ekki gert nákvæmlega sama hlutinn ef hann hefði verið í ríkisstjórn, og Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu.  Og Framsóknarflokkurinn hefði þá haldið ræður Miðflokksmanna.

Andófið gegn orkupakkanum hefur ekki leitað útí stofnun alvöru stjórnmálahreyfingar sem gerir upp við stjórnmálastéttina og svik hennar við sjálfstæði þjóðarinnar.

Við erum á leið inní Evrópusambandið, eða réttara sagt við erum komin þar í fast hjáleigusamband, en það á eftir að segja okkur það.

Það á bara eftir að tilkynna innlimunina.

 

Boris Johnsson hefur hins vegar lengi verið á móti aðild Breta af Evrópusambandinu og í krafti þeirrar andstöðu, náði hann völdum í Íhaldsflokknum, og vann síðan þennan sögulegan sigur.

Hann náði að virkja andúð þjóðarinnar á svikum og brigslum og þeirri vanvirðingu þeirra sem eiga stjórnmálin, að hundsa svona beint vilja hennar.

Breska þjóðin hafði einhvern sem hún gat treyst til að standa við orð sín.

 

Engu slíku er til að dreifa hér á Íslandi.

Og andófið er svo aumt að það tjáir óánægju sína með því að lýsa stuðningi við annað hvort flokk frjálshyggju og atvinnurekana, Viðreisn, eða flokk frjálshyggju og upplausnar, Pírata.

Eitthvað sem vitiborið fólk getur ekki samsinnað sig við.

 

Kýs því ennþá nauðbeygt eitthvað sem það telur illskást.

Sér engan trúverðugan valkost.

 

Þess vegna borga svik sig ennþá á Íslandi.

Auðurinn sér til þess að þjóðin hefur ekkert val í raun.

Og enginn í sjónmáli sem er nógu sterkur til að breyta því.

 

Við erum þjóð án forystu.

Þjóð án leiðtoga.

 

Þannig er það bara.

Kveðja að austan.


mbl.is Stærsti sigur Íhaldsflokksins í 32 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. desember 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 37
  • Sl. sólarhring: 321
  • Sl. viku: 1240
  • Frá upphafi: 1321123

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1060
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband