Hinir aumkunarverðu.

 

Fátt er aumkunarverðara en þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem keppa núna hver um annan að útskýra afhverju þeir sviku sín helgustu vé, fullveldi þjóðarinnar og yfirráð hennar yfir auðlindum sínum.

Einhver hefði haft vit á það þegja í stað þess að réttlæta það sem ekki er hægt að réttlæta.

Páll Magnússon er ekki í þeim hópi.

 

"Og nú er ég spurður af hverju ég hafi skipt um skoðun á 3. orkupakk­an­um og sé ekki leng­ur and­víg­ur inn­leiðingu hans. Svarið er: Ég hef ekki skipt um skoðun. For­send­ur fyr­ir inn­leiðingu orkupakk­ans á Íslandi hafa breyst; þær eru ekki leng­ur hinar sömu og ég var and­víg­ur. Í fyrsta lagi er nú búið þannig um hnút­ana að stjórn­ar­skrár­vand­inn er ekki leng­ur til staðar – að mati sömu var­færnu fræðimann­anna og ég fylgdi að mál­um þegar þeir sögðu að hann væri fyr­ir hendi. Í öðru lagi er nú hafið yfir all­an vafa að það verður eng­inn sæ­streng­ur lagður til raf­orku­flutn­ings án þess að Alþingi taki um það sér­staka ákvörðun. Í þriðja lagi er nú al­veg á hreinu að á meðan eng­inn er sæ­streng­ur­inn hef­ur raf­orkupóli­tík í Evr­ópu, á borð við þá sem snýr t.d. að verðlagn­ingu, ekk­ert gildi og enga þýðingu á Íslandi. Með öðrum orðum: inn­leiðing 3. orkupakk­ans leiðir ekki af sér hærra raf­orku­verð til not­enda á Íslandi.".

 

Þetta skrifar Páll í Moggann í dag, og er svo ósvífinn að vitna í Vörð Íslands í ICEsave deilunni, Stefán Má Stefánsson prófessor, að hann hafi gefið Páli syndaaflausn.

En Stefán sagði þetta og færði fyrir því rök sem enginn hefur treyst sér að andmæla.

"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann. ......

„Það breytir því þó ekki að innleiðing þriðja orkupakkans þarf að standast stjórnarskrána. Í því sambandi verður að hafa hugfast að lagasetning sem brýtur gegn stjórnarskránni getur haft skaðlegar afleiðingar í för með sér, og skiptir þá í sjálfu sér ekki máli hvort slíkar afleiðingar koma fram strax við samþykkt laganna eða á síðari tímapunkti“.".

En hann bendir á að það sé hægt að flýja vandann á meðan ekki er lagður sæstrengur, en hann bendir á um leið, að slíkt sé ekki á forræði íslenskra stjórnvalda, ekki ef ESA höfðar mál gegn íslenskum stjórnvöldum og krefst þess að þau aflétti markaðshindrunum á hinum frjálsa evrópska raforkumarkaði.

Eins bendir hann á að þegar stjórnskipulegum fyrirvörum er aflétt, þá höfum við ekkert að segja um þróun tilskipana ESB um orkumál, en vitað er um hina endanlegur niðurstöðu, orkumarkaðurinn á að vera einn, á markaðsforsendum, og lúta boðvaldi yfirþjóðlegs valds, það er ESB.

 

Svo skrif Páls eru lygin ein, til þess eins að réttlæta sjálfan sig.

En vonandi ekki til að blekkja kjósendur sína.

 

Ef svo er þá er hann í harðri samkeppni við að toppa hina íslensku lágkúru, meistarann sjálfan, þann sem er aumkunarverðastur af öllum sem tilkall til þess gera.

Steingrím Joð Sigfússon sem seldi þjóð sína í skuldaþrælkun ICEsave, gerði upp heimili alþýðunnar þegar skuldir auðmanna voru afskrifaðar, og afhenti hrægömmum hið nýreista bankakerfi.

Steingrímur toppar samt, og kemst á topp tíu á lista þeirra í heiminum sem hafa svikið sín helgustu vé án þess að skammast sín.

 

En það bætir ekki hlut Páls, hann á að hafa vit á að þegja.

Nógu aumkunarverður er hann samt.

 

Þó gæti hann bætt úr með því að játa að hann sé eins og Þórdís Kolbrún fylgjandi lagningu sæstrengs og þeim markaðsviðskiptum sem fylgja í kjölfarið.

Einkavæðingu, margföldun raforkuverðs, rústun þess innlends iðnaðar sem treystir á lágt raforkuverð, gígantígskrar tilfærslu úr vasa almennings í vasa auðs.

Sjónarmið út af fyrir sig, en allavega ekki logið.

 

Því það er ekki þessi frjálshyggja sem er aumkunarverð, hún er afstaða.

Það er lygin að kannast ekki við hana sem er aumkunarverð.

Og aumast að öllu að kannast ekki við gjörðir sínar.

 

Allt sem Páll segir er rangt.

Orkupakki 3 þýðir akkúrat allt það sem hann afneitar.

 

Hans eina von er að afneita þrisvar.

Og iðrast svo, og ljúga ekki framar.

Kallast upprisa.

 

Til þess eru jú páskarnir.

Kveðja að austan.


Nefndin taldi sig bundna af lögum og reglum.

 

Og merkilega nokk, þá fór hún eftir því.

Ráðherra hins vegar taldi sig ekki bundna að slíku, og þess vegna fór eins og fór.

Öryggisventillinn, sem fylgist með að lýðræðisríki Evrópu fari eftir leikreglum, felldi áfellisdóm yfir stjórnsýslu ráðherra.

Og þeir sem skilja ekki til hvers lög og reglur eru, mótmæltu og töluðu um afskipti af innanlandsmálum, í stað þess að íhuga eitt augnablik að þeim hefði orðið á.

 

Í víðara samhengi lýsir þetta meinsemd sem lengi hefur grafið um sig í íslenskum stjórnmálum.

Að lög og regla séu í besta falli viðmið, en aðalatriðið er að geta farið sínu fram.

Að mitt sé valdið.

 

Við sjáum þetta núna síðast í umræðunni um orkupakka 3, sem sannarlega mun ganga gegn fullveldi landsins eins og stjórnarskráin skilgreinir það.

Sniðgangan þar er að hinum meintu brotum sé frestað þar til landið verður tengt við orkumarkað Evrópu, sem er samt ekki nema réttlæting að hluta. Eftir að stjórnskipunarlegum fyrirvörum er aflétt af orkupakkanum, að þá veit enginn hvaða viðbótarvöld Evrópusambandið mun taka sér í framtíðinni. 

Í allri þessari umræðu er eins og stjórnarskráin skipti ekki máli því hún er eitthvað gamalt plagg, jafnvel arfur fortíðar sem eigi ekki við í dag.  Allavega þegar þingmenn telja sig vita betur, þá á hún ekki að vera hindrun.

 

Samt var Alþingi í lófa lagt að breyta stjórnarskránni eins og Norðmenn gerðu áður en þeir samþykktu EES samninginn, á þá vegu að hún heimili slíkt valdaafsal til yfirþjóðlegra stofnana.

Eins gat dómsmálaráðherra þegar hún lét endurskoða lög um skipan dómara í Landsrétt, sett inn ákvæði um kynjakvóta, að dómareynsla fengi aukið vægi og svo framvegis.

Það er nefnilega hægt að breyta lögum í stað þess að brjóta þau.

Í stað þess að vanvirða þau eins og þingheimur ætlar sér að gera með samþykkt orkupakka 3.

Það er hægt að virða lýðræðið og leikreglur þess.

 

En það er bara ekki gert.

Og það er mein.

Kveðja að austan.


mbl.is Hefði átt að vega þyngra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar orð stangast á raunveruleikann.

 

Það kann að bera í bakkafullan lækinn varðandi orkupakka 3 að þurfa sífellt að hamra á efnisatriðum málsins gagnvart sífelldum fullyrðingum stjórnmálamanna sem enga skoðun standast en það er samt skylda okkar sem viljum að þjóðin haldi fullum yfirráðum orkuauðlindum sínum í lengd og í bráð.

Það sem hefur einkennt þessa umræðu af hálfu stjórnvalda er að nýta sömu taktík og lengi hefur verið nýtt við að selja bíla, þar að láta fáklædda snót sitja á húddinu á bílnum eins og það komi gæðum hans og útliti eitthvað við, hér að nýta sér kvenlegt sakleysi til að hamra á rangfærslum.

Núna síðast var ritari Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna látin gera lítið úr sjálfri sér með því að rífast við raunveruleikann. 

"Efa­semd­ir um inn­leiðingu þriðja orkupakk­ans byggj­ast á þeim mis­skiln­ingi að í hon­um fel­ist af­sal á yf­ir­ráðum yfir auðlind­um, framsal á full­veldi, skuld­bind­ing um lagn­ingu sæ­strengs og jafn­vel brot á stjórn­ar­skrá. Ekk­ert af þessu á hins veg­ar við rök styðjast. All­ir þeir aðilar sem unnið hafa að mál­inu, bæði stjórn­mála­menn og sér­fræðing­ar, eru sam­mála um að eins og málið er nú lagt upp feli það ekki í sér brot á stjórn­ar­skrá, framsal á full­veldi eða af­sal á auðlind­um.".

Þegar erlent regluverk breytir orkuauðlindum þjóðarinnar úr auðlind í markaðsvöru sem skal lúta forræði þess og fara í hvívetna eftir reglum um frjálst flæði voru og þjónustu, þá er það afsal á yfirráðum yfir auðlindum.  Að halda öðru fram er líkt og segja við fyrrum nýlendur Evrópuríkja í Afríku, að þau hafi í raun verið frjálsar því innlendir kæmu að því að stimpla fyrirmæli frá Brussel eða hvaðan sem valdboðið kom.

Slíkt er alltaf framsal á fullveldi og það er rangt að segja annað.

 

Hinsvegar þarf framsal á fullveldi ekki að vera stjórnarskráarbrot, til dæmis breyttu Norðmenn sinni stjórnarskrá áður en þeir fóru í EES samstarfið þar sem framsal á fullveldi var heimilað að ákveðnu marki.

Um slíkt er ekki að ræða í íslensku stjórnarskránni, henni var ekki breytt, og hún heimilar ekki slíkt framsal, hvað þá að hún heimili að íslenskir ríkisborgarar og íslenskir lögaðilar þurfi að lúta erlendu dómsvaldi án þess að eiga möguleika að um mál þeirra sé fjallað fyrir íslenskum dómsstólum.  Það var þess vegna sem þeir félaga Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson komust að þessari niðurstöðu í álitsgerð sinni sem er fylgiskjal með þingsályktun utanríkisráðherra um orkupakka 3.

"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.  ......

„Það breytir því þó ekki að innleiðing þriðja orkupakkans þarf að standast stjórnarskrána. Í því sambandi verður að hafa hugfast að lagasetning sem brýtur gegn stjórnarskránni getur haft skaðlegar afleiðingar í för með sér, og skiptir þá í sjálfu sér ekki máli hvort slíkar afleiðingar koma fram strax við samþykkt laganna eða á síðari tímapunkti“.".

Þetta er svo skýr niðurstaða að um hana þarf ekki að rífast.

Þess ber þó að geta að í álitsgerð sinni segja Stefán og Friðrik frá því að þeir hafi verið beittir þrýsting frá ráðuneytinu til að leggja til að það sé hægt að samþykkja orkupakkann núna án þess að það brjóti á þessum tímapunkti stjórnarskrána því hið yfirþjóðlega vald virkjast ekki nema landið tengist hinum sameiginlega orkumarkaði.  Álitamálum varðandi brot á henni er þá frestað þar til sæstrengur er lagður, en þeir telja þá leið ekki án galla eins og þeir orða það.

 

Gallarnir eru þeir að ESB líður ekki einhliða fyrirvara sem kom í veg fyrir að einstök aðildarríki evrópska efnahagssvæðisins þurfi að fara eftir efni tilskipana þess, eða hindrað hið frjálsa flæði.  Enda augljóst að hið frjálsa flæði virkar ekki ef slíkt er hægt.

Um það vitna ótal dómar en enginn um hið gagnstæða.

 

Nýlegur dómur þar sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða skaðabætur vegna þess að íslensk lög bönnuðu innflutning á hráum kjöti er skýrt dæmi um haldleysi einhliða fyrirvara. Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um innflutning á hráu kjöti má lesa þetta "Niðurstaða EFTA-dómstólsins var að gildissvið EES-samningsins, sem undanskilur ákveðnar landbúnaðarvörur, leiddi ekki til þess að EES-ríki hefðu frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning hrárrar kjötvöru, þar sem svigrúm þess takmarkaðist af ákvæðum sem tekin hefðu verið upp í viðauka við EES-samninginn". 

Þó byggðist bann íslenskra stjórnvalda á skýrum lögum sem bönnuðum slíkan innflutning; "Þá er því haldið fram að ákvarðanir stjórnvalda hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, og reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins. ".

Þetta er grundvallarmál þar sem tilskipun ESB getur lagt búfjárstofna þjóðarinnar að velli ef illa tekst til, samt halda lög okkar og fyrirvarar í EES samningnum ekki.

 

Af hverju, um það má lesa í minnispunktum Jóhannes Karls Sveinssonar lögmanns, sem hefur mikla reynslu af málarekstri þjóðarinnar við ESA og EFTA dóminn;

"Á hvaða forsendum tapaði Ísland málinu? Í stuttu máli má segja að Ísland hafi tapað málinu á þeim forsendum að EFTA-dómstóllinn taldi að ef tilskipun felur í sér fulla samræmingu á löggjöf þá geti aðildarríkin ekki skotið sér undan henni með vísan til varúðarsjónarmiða. .... .

Löggjöf Íslands um frystiskyldu, vottorð og leyfi var talið brjóta í bága við bannið í tilskipun 89/662 og þar með var málið ekki mikið flóknara af hálfu EFTA dómstólsins. Þessi dómaframkvæmd fetar sömu slóð og dómstólar ESB höfðu áður gert í málum þar sem tekist var á um takmarkanir frjálsu vöruflæði á hinum innri markaði á áttunda og níunda áratugnum. ....

.. bókun þar sem segir að ef komi til árekstra á milli EES-reglna og annarra laga í EFTA ríkjunum þá skuldbindin ríkin sig til þess að setja laga ákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.

EFTA dómstólinn veitti sjónarmiðum um einsleitni og gagnkvæmni meira vægi en margir áttu von á með dómi sínum í svonefndu Erlu Maríu máli (mál nr. E-9/97).Þar var komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingur gæti átt bótarétt gagnvart EFTA ríki vegna ófullnægjandi innleiðingar á tiltekinni tilskipun.Slík bótaábyrgð var reist á dómi Evrópudómstólsins í svokölluðu Francovich máli.

Í hugum ýmissa gat þessi niðurstaða illa samræmst því eðli EES samningsins að vera þjóðréttarsamningur þar sem löggjöf krefst sérstakt innleiðingarferlis með þátttöku löggjafarvalds.Hvernig hægt væri að komast að því að einstaklingur gæti átt bótarétt vegna réttinda sem hann átti ekki kom ýmsum undarlega fyrir sjónir.

Með þessum dómi, og því sem í kjölfarið hefur fylgt, má segja að dómstólinn hafi minnkað bilið á milli EES samningsins og ESB-sáttmálanna miðað við upphaflega stöðu þeirra. ESB ríkin hafa tekið upp nánara og fjölþættara samstarf sem EES ríkin hafa þá í raun talist skuldbundin að fylgja miðað við kröfur EFTA dómstólsins um einsleitni og gagnkvæmni.Aukið yfirþjóðlegt valdstofnana ESB hefur sett þetta mál í nýtt samhengi.".

 

Þetta er gallinn, sá raunveruleiki að fyrirvara halda ekki og að nýjar reglur og tilskipanir herða alltaf á boðvaldi hinna yfirþjóðlegra valdstofnana ESB.

Slíkt mun gerast í orkupakka 4 og orkupakka 5 og að lokum verður einn sameiginlegur orkumarkaður á Evrópska efnahagssvæðinu, sem lýtur reglum hin frjálsa flæðis, og undir boðvaldi Brussel.

Þess vegna eru lokaorð Áslaugar svipað eðlis og að dómkirkjuprestur færi með faðirvorið aftur á bak við messu í Dómkirkjunni, og segði það samræmast kristnum sið.

"Það er og verður stefna Sjálf­stæðis­flokks­ins að standa vörð um full­veldi lands­ins og yf­ir­ráð Íslend­inga yfir þeim auðlind­um sem hér er að finna. Það á ekki síður við í þessu máli.".

 

Samþykkt orkupakka 3 er ekki að standa vörð um fullveldi landsins og yfirráð Íslendinga yfir orkuauðlindum sem hér er að finna.

Hvort menn telji það nauðsynlegt vegna EES samstarfsins er svo annað mál.

En þá eiga menn að ræða efnisatriði málsins og stilla upp kosti og göllum, og halda sig við staðreyndir.

 

Það hafa stjórnvöld ekki gert í þessu máli.

Kveðja að austan.


Ef lygin er endurtekin nógu oft.

 

Þá hugsanlega gætu ráðherrarnir sjálfir í nauðvörn sinni trúað því sem þeir segja.

Á þeirri vegferð er Þórdís Kolbrún.

 

Tökum fullyrðingar hennar og skoðum:

1. "... með inn­leiðingu orkupakk­ans sé verið að fram­selja vald­heim­ild­ir um­fram það sem stjórn­ar­skrá­in leyf­ir,".

Stefáns Más Stefánssonar prófessors og Friðrik Árni Friðriksson landsréttarlögmaður; 

"Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða höfunda álitsgerðarinnar að verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, eins og ráðgert er að taka hana upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, rúmist innan ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Er þá m.a. tekið tillit til þeirra almennu stjórnskipulegu viðmiðana sem líta ber til í þessum efnum, sbr. kafla 4.2.2 og 4.2.3, og þeirra sérstöku sjónarmiða sem eiga við um það viðfangsefni sem hér er til athugunar. Skal sérstaklega tekið fram að sjónarmið um forsendur EES-samningsins64, afmörkun framsalsins og víðfeðmi þess, sbr. kafla 4.3.2. og 4.3.3, teljast vega þungt i þessu sambandi. Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr. 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé að reglugerð nr. 713/2009 verði innleidd i íslenskan rétt á þann hátt að samræmist stjórnarskránni".

Hver er að afvegleiða hvern, sá sem fullyrðir, eða sá sem rökstyður út frá stjórnskipunarrétti??

 

2. ".. að hingað verði lagður sæ­streng­ur sem muni hækka raf­orku­verð mikið".

Eitt meginmarkmið tilskipunar ESB um orkumál er að koma á samkeppnismarkaði sem nær yfir landamæri aðildarríkja, " "Í fimmta tölulið forsendna reglugerðarinnar um þriðja orkupakkann kemur fram að aðildarríkin geti í raun ekki gert neina fyrirvara eða sett aðrar lagalegar hindranir: "Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku.".  Og þessi markmið virka ekki ef einstök aðildarríki setja fyrirvara sem koma í veg fyrir slík viðskipti, eins og til dæmis að leggja bann við að raforkukerfi viðkomandi lands sé tengt hinum sameiginlega markaði.  Slíkir fyrirvarar halda ekki nema um þá sé samið upphaflega, og þá gilda þeir aðeins tímabundið.

 

3. "... að verið sé að veita ESB heim­ild til að „krukka í okk­ar auðlind­um“ varðandi virkj­an­ir.". 

Regluverkið skilgreinir orku sem vöru sem á að flæða frjáls um hinn sameiginlega markað, og eftirlit með því hefur "Orkustjórnsýslustofnunin, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators)", hún hefur beint boðvald ef til ágreinings kemur milli einstakra ríkja og henni ber að sjá til þess að Orkustofnun sé algjörlega sjálfstæð gagnvart stjórnvöldum, og Orkustofnun ber að sjá til þess að efni tilskipunarinnar gildi á íslenskum raforkumarkaði.  Þetta snýst ekki um að krukka í orkuauðlindinni varðandi virkjanir, heldur að regluverk Evrópusambandsins setur rammann og skorðurnar, og íslensk stjórnvöld hafa fátt um málið að segja.  Og orkupakkar 4 og 5 munu skerpa ennþá á þessu sjálfstæði, þannig að í raun verður yfirstjórn orkumála í Evrópu undir einni stjórn, yfirþjóðlegri.

 

Þetta er raunveruleiki, það er ekki verið að afvegleiða einn eða neinn.

 

"En við leggjum ekki sæstreng, treystið því", en af hverju ætti fólk að treysta henni ef hún getur ekki viðurkennt þann raunveruleika sem felst í regluverki ESB. 

Og hún vill sæstreng, telur þjóðina hafa hag af tengingunni við hinn sameiginlega orkumarkað.  Hún hefur sagt það í viðtölum, og hún hefur lýst vilja sínum á opinberum vettvangi; "Iðnaðarráðherra áréttar að orkan tilheyri eignarrétti á landi og sé ekki þjóðareign líkt og fiskurinn í sjónum. Milljarðaverðmæti liggi í sölu umframorku um sæstreng, og orkupakkarnir hafi verið markaðspakkar." segir í Viðskiptablaðinu um orð ráðherra á ársfundi Landsvirkjunar.

Reiknar hún með að Sjálfstæðisflokkurinn þurrkist því sem næst út og muni engu ráða um stjórnun landsins næstu árin??

En hvað með hina flokkana sem eru jafn hallir undir ESB og markaðssjónarmið þess??

 

Afvegleiðingin er nefnilega sú árátta að afneita raunveruleikanum því menn hafa ekki kjark til að ræða kosti og galla hins sameiginlega evrópska orkumarkaðar, og því er látið eins og regluverkið sé bara eitthvað sem gerist í útlöndum.

Það er hvorki heiðarlegt eða sanngjarnt gagnvart kjósendum flokksins eða þjóðinni.

Og ekki síður er það óheiðarlegt að bera öðrum það á brýn sem menn ástunda sjálfir.

 

Aftur og aftur þarf að leiðrétta ráðherra þegar þeir fullyrða eitthvað sem stenst hvorki reglur eða raunveruleika.

Og það er ekki merkilegur málstaður sem þarf á slíkum vinnubrögðum á að halda.

 

Segir í raun allt sem segja þarf.

Kveðja að austan.


mbl.is Viljandi verið að afvegaleiða umræðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta í síðasta skipti sem Sigurður Ingi slær í gegn??

 

Svona í ljósi þess að hann ákvað, í harðri samkeppni við Miðflokkinn, að ganga í björg Evrópusambandsins.

Sem getur alveg verið ágætt, en því er illa við íslenska landsbyggð, sem fram að þessu var síðasta vígi Framsóknarflokksins.

 

Þið skulið flytja inn sýkla segir Evrópusambandið, og er slétt sama að þar með eru íslenskir bústofnar undir. Fyrir utan markaðsverndina sem bann við innflutning á hráu kjöti óneitanlega var.

Afleiðingin verður dauði íslensks landbúnaðar, allt í boði Sigurðar Inga, sem sló í gegn fyrir vikið hjá Samfylkingunni og öðru landsölufólki.  En myndi frekar frjósa í helvíti en að kjósa þann sama Sigurð Inga.

Og þegar sveitirnar tæmast, hvað verður þá eftir af fylgi flokksins??

 

Vandsvöruð spurning og Sigurður Ingi er ekki áhugamaður um svona flóknar spurningar.

Þess vegna vill hann samþykkja Orkupakka 3, sem mun auka samkeppni og hækka raforkuverð, þó það væri ekki nema vegna þess að núna á að verðleggja dreifingarkostnaðinn sérstaklega.

Sem þýðir á mannamáli að raforkan mun stórhækka í  hinum dreifðu byggðum.

Og jafnvel þó það finnist það trúað Framsóknarfólk að það telji þessa hækkun verðskuldaða refsingu æðri afla, og það lofi og blessi Sigurð Inga fyrir vikið, að þá mun það hrökklast frá búi og byggð, og flytja á mölina þar sem blessun Evrópusambandsins hefur ekki ennþá hækkað raforkuna það mikið að ekki sé búandi þar.

Galinn er bara sá, að þó það kjósi áfram leiðtoga sinn og flokkinn, þá vega atkvæði þeirra ekkert í fjölda borgarinnar, þó það dugði á landsbyggðinni.

 

Eftir stendur formaður í flokki án þingmanna.

En sá fyrrverandi í flokki sem sló ekki í gegn, heldur sagði Nei við ESB og atlögu þess að landsbyggðinni, hann er formaður í flokki sem mun innan tíðar lenda í vandræðum með þingflokksherbergi sitt, því þangað leita atkvæðin þar sem skjól er að finna.

Hann sló ekki í gegn, en hann myndaði varnarmúr gegn atlögu Evrópusambandsins að byggðum landsins, og reyndar þjóðinni allri.

Atlögu sem fólkið sem vill gefa eftir sjálfstæði landsins styður heilshugar, og undirliggjandi eru hagsmunir Örfárra auðmanna sem sjá ótal gróðatækifæri í innflutningi á matvælum til þjóðar sem lítt eða ekkert framleiðir, eða eignast orkuauðlindir hennar í þeim eina tilgangi að selja hana hæstbjóðanda.

 

Sigurður Ingi sló í gegn vegna þess að hann er samgönguráðherra.

Vegna þess að þrátt fyrir var allt til fólk sem treysti Framsóknarflokknum til að standa vörð um líf þess og tilveru.

Hann mun ekki slá aftur í gegn.

Svik hans munu ganga að Framsóknarflokknum dauðum.

 

Miðflokkurinn mun hinsvegar rísa og verða afl sem mun standa ístaðið gegn ásælni Evrópusambandsins og leppa þess.

Varnarmúr sem atlögur fjármagnsins munu  ekki fá yfirunnið.

Og ef þjóðin er ekki feig, verða langstærsti flokkur á þingi.

 

Því sum svik eru ekki fyrirgefin.

Og þó Sigurður Ingi hafi líklegast svikið helgustu vé sem hægt er að svíkja, þá eru aðrir flokkar að reyna sitt besta að slá honum við.

En slá ekki í gegn, uppskera aðeins reiði og fyrirlitningu kjósenda sinna.

 

Auðmenn og dindlar þeirra, eru svo fáir að jafnvel Viðreisn er stór í því samhengi.

Og afkomendur þess fólks sem taldi Stalín mikinn mann, og Gúlagið hefði verið endurhæfingarbúðir, það mun kjósa sinn flokk, enda þeim eðlislægt að kjósa þá sem svíkja helgustu hugsjónir mennskunnar, drauminn um jafnrétti, frelsi og bræðralag.  Svo VG mun ekki deyja út, en vandfundið mun venjulegt fólk sem kýs svik þó þau séu vafin inní umbúðir frasa og útsérgenginna slagorða.

Síðan á Samfylkingin alltaf sín atkvæði, það er alltaf til fólk sem hreykir sér að því að svíkja náungann og þjóð sína, og kvartar einna helst yfir því að svikin gengu ekki eftir útaf aumingjaskap forystunnar.

 

Samanlagt er þetta samt lítill minnihluti, kannski í heild um þriðjungur þjóðarinnar.

Sem engu mun skipta nema að við hin munum alltaf hafa einhverja til að aumka okkur yfir.

Svona svipað og bent var á heimili í gamla daga og sagt að þarna býr drykkjumaður, og þess vegna ber okkur skyldu til að hjálpa börnum hans, þeirra er ekki sökin,.

Og þessi þriðjungur sem vill okkur hinum illt, honum er örugglega ekki sjálfrátt, og við eigum ekki að erfa það við hann.

Og kannski var hann blekktur, auðmenn fjárfestu jú í vilhöllum stjórnmálamönnum og þeir jú lugu og sviku út í eitt.

Hvort það sé síðan afsökun að selja framtíð barna sinna er annað mál.

 

Allavega, þá slá þeir í gegn á morgun sem standa ístaðið í dag.

Og þeir sem lá í gegn í dag, munu iðrast þess á morgun þegar enginn vill með þá hafa.

 

Því í lýðræði uppskera þeir sem ekki svíkja.

Og þeir sem svíkja munu skóggangsmenn verða.

 

Þannig er það.

Og það mun ekki breytast.

 

Það er bara svo.

Kveðja að austan.


mbl.is Sigurður Ingi sló í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkan okkar er auðlind.

 

Og hvað felst í því að hún sé auðlind??

Því svarar Þórólfur Gíslason svo ekki verður betur gert í þessu viðtali þar sem hann gagnrýnir hugmyndafræðina við þjóðarsjóðinn.

 

Arðurinn kemur frá samfélaginu, samkeppnishæfni þess og lífskjörum almennings;

"Þórólf­ur bæt­ir við að nýta þurfi auðlind­irn­ar skyn­sam­lega, og þar með raf­ork­una því hún þurfi að vega upp á móti öðrum kostnaði sem Íslend­ing­ar hafi af vör­um og flutn­ingi og slíku. „Því finnst mér miklu eðli­legra að fall­ork­an sé nýtt til að auka sam­keppn­is­hæfni sam­fé­lags­ins og fyr­ir­tækja og auka kaup­mátt al­menn­ings, frek­ar en að ríkið sé með ork­una á sín­um veg­um að gera ein­hvern sjóð sem ég hef mikl­ar efa­semd­ir um að menn hafi ein­hverja stjórn á, og ætli að láta verða ein­hvern ör­ygg­is­sjóð. Ég held að þetta verði bara ein­hver fram­kvæmda­sjóður. Við höld­um ekki kaup­mætti uppi í sam­fé­lag­inu nema sam­keppn­is­hæfni sam­fé­lags­ins sé í lagi,“ seg­ir Þórólf­ur.".

 

Við erum eyja langt frá öllum mörkuðum og við erum fámenn, náum því sjaldnast einhverri stærðarhagkvæmni. 

En eyjan okkar er gjöful, hreint vatn, hreint loft, hrein orka.  Og þær gjafir eigum við að nýta til hagsældrar allra, ekki aðeins þeirra Örfáu sem hafa fjármuni til að kaupa upp stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, og fá þá til að setja þessi gæði í einkaeigu, svo hægt sé að mjólka okkur hin fyrir að nýta þessi gæði.

Þá verður byggðabrestur því kostirnir eru farnir en ágallarnir fara ekkert.

 

Hugmyndin um þjóðarsjóðinn er angi af þeirri hugmyndafræði að orkan sé ekki auðlind, heldur vara, og arðsemi hennar felist í því verði sem hægt er að fá fyrir hana.

Gróska mannlífs, gróska atvinnulífs, velmegun og velsæld fjöldans er ekki mæld þegar sú arðsemi er metin.

 

Eða sú staðreynd að núverandi fyrirkomulag hefur skilað almenningi hagstæðasta rafmagnsverði miðað við kaupmátt sem þekkist í vestræna heimi.

Nei, það vantar samkeppni, líklegast til að hækka verð til almennings svo hægt sé að bjóða stærri kaupendum lægra verð.  Svipað og við sjáum með flutningana þar sem almenningur borgar afslætti stórfyrirtækja með hærri flutningsgjöldum.

Og samkeppni sem lækkar verð á höfuðborgarsvæðinu en hækkar í hinum dreifðu byggðum, er samkeppni sem elur á sundrungu og sundurlyndi.

 

Svo vitnað sé í iðnaðar og nýsköpunarráðherra í nýlegu útvarpsviðtali;

"„Það sem er jákvætt úr þessum orkupakka er að fyrsti og annar orkupakki opnuðu fyrir samkeppni á þessum markaði og ég er almennt hrifinn af samkeppni og nú er það í umræðunni að raforkuverð hafi hækkað, það er ekki rétt. Dreifikostnaður raforku hefur hækkað, það skýrist aðallega að fjárfestingarþörf á dreifingarkostnaði á landsbyggðinni. Það sem gerist með þessu er að það er búið að skilja á milli framleiðslu á rafmagni, flutningi á rafmagni og dreifing á raforku og sala á raforku. Áður var þetta allt í sömu súpu og neytendur vissu ekki hvað kostaði hvað. Núna vitum við hvað kostar að dreifa raforku, hvað kostar að flytja raforku, og hvað raforkan sjálf kostar. Og það er samkeppni hérna í sölu á raforku."

Hún sem landsbyggðarþingmaður er stolt af þeirri hækkun á raforku í hinum dreifðu byggðum sem varð í kjölfar innleiðingar á orkupökkum Evrópusambandsins, og hún vill skerpa á þeirri hækkun.

Hjálpa þannig til að ganga að innlendri matvælaframleiðslu dauðri, allt í nafni gagnsæis og samkeppni.

 

Hugsar ekki á móti að fyrst við erum ekki ein þjóð í nafni samkeppninnar, að þá þurfa bændur ekki að láta land sitt endurgjaldslaust fyrir raflínur til höfuðborgarsvæðisins, eða við sem framleiðum gjaldeyrinn eigum þá líka að njóta markaðslögmálanna, og fá að ráða því hverjum við afhendum gjaldeyrinn, og á hvaða verði.

Því ef markaðslögmálin ganga í báðar áttir, þá býðst höfuðborgarbúum ekki lág orka, heldur rándýr orka, og grundvöllur verslunar og þjónustu er horfinn, því innspýtingin, gjaldeyririnn verður seldur dýrum dómi.

Það er nefnilega ekki þannig að það sé bara hægt að selja landsbyggðinni allt á samkeppnisverði og hún láti allt í staðinn á kostnaðarverði, frumskógarlögmálin og sérhyggjan gilda þá í báðar áttir.

 

Af hverju vildu forfeður okkar ekki svoleiðis þjóðfélag??

Ætli það sé ekki það vit að hafa séð hvað kynnti undir ólgu og átök í Evrópu í hundruð ára, og við sjáum víða í Afríku í dag þar sem barist eru um auðlindir.  Eða í múrunum í kringum hverfi ríkra í Mið og Suður Ameríku þar sem fólk lifir í stöðugum ótta við þá sem voru skildir eftir í fátækt og örbirgð sérhyggjunnar.

Samkennd og samhygð er nefnilega forsenda velmegunar og velferðar.

Og friðar.

 

Friðar.

 

Rjúfum ekki friðinn þó einhverjir auðmenn geti orðið ríkari fyrir vikið.

Þeir eru ekki þjóðin.

Höldum sátt um það sem hefur reynst okkur svo vel.

 

Annað er ógæfan ein.

Kveðja að austan.


mbl.is Gagnrýnir þjóðarsjóðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grundvallarhagsmunir þjóðarinnar.

 

Er að orkuauðlindir hennar séu sameign þjóðarinnar.

Að þær lúti forræði hennar að fullu.

Og þær séu nýttar til að skapa velmegun og hagsæld innanlands en ekki til að bæta neytendavernd í Þýskalandi eins og eina röksemd Viðreisnar í þessu máli er.

 

Orkutilskipanir Evrópusambandsins ganga gegn öllum þessum lykilatriðum svo þeir sem berjast fyrir innleiðingu þeirra ganga annarra erinda en þjóðarinnar.

Þeir ganga erinda auðmanna sem ásælast orkufyrirtæki okkar sem og hina óbeisluðu orku.

Þeir ganga erinda Evrópusambandsins sem sárlega vantar græna orku til að bæta kolefnisbókhaldið sitt.

Þeir ganga erinda hræðslunnar og óttans, þeirrar minnimáttarkenndar sem sífellt nagar og segir að við getum ekki ráðið málum okkar sjálf, við getum ekki verið sjálfstæð þjóð.

Og þessir þeir eru stjórnmálastétt þjóðarinnar eins og leggur sig, með heiðvirðum undantekningum eins og Ingu Snæland, formann Flokks fólksins, og Sigmundar Davíðs, formanns Miðflokksins.

 

Hvað veldur?

Hví getur það verið metnaðarmál stjórnmálanna að rjúfa griðinn við þjóðina, og koma auðlindum hennar undir erlend yfirráð??

Af hverju að rjúfa þá hundrað ára gamla sátt, milli vinstri og hægri, milli ríkra og fátækra, milli höfuðborgar og landsbyggðar, að orkan okkar sé sameign, hún sé auðlind, og til hennar sækjum við hita og rafmagn á sem hagkvæmasta hátt, svo allir, og þá meina ég allir, óháð efnahag, geti kynnt og lýst upp hýbýli sín.

Sama sátt og var um heilsugæslu fyrir alla, óháð efnahag, um menntun fyrir alla, óháð efnahag.

 

Hvernig ætla þessir sömu stjórnmálamenn að hitta gamla fólkið og tjá því að innan ekki svo margra ára þurfi þeir að bæta neytendavernd í Þýskalandi með því að margfalda orkuverðið og því sé það gott fyrir það að kaupa sér lopa í tíma og prjóna á sig föðurland og lopapeysur.

Því ekki getum við gert eins og Norðmenn í sömu aðstæðum, farið út í skó og höggvið í eldinn.

Hvílík framtíðarsýn í landi ís og kulda að spóla tímann hundrað ár aftur á bak og eyðileggja það sem best er heppnað í landi okkar.

Eða hvað ætla þeir að segja við fólkið sem missir vinnuna þegar orkan verður markaðsvædd, að það sé göfugt að fórna sér fyrir málstaðinn??  Söngla svo bless, bless stóriðja, bless bless gróðurhús, halló innflutningur, halló atvinnuleysi.

Eða eru þeir svo lygnir og ómerkilegir að þeir kannast ekki við afleiðingar gjörða sinna.

 

Fyrst þeir geta logið því að EES samningurinn sé í hættu ef þjóðin virkjar ákvæði hans um að hafna tilskipunum sem ganga gegn grundvallarhagsmunum hennar, og var sett í þann sama samning einmitt ef svona tilvik kæmu upp í framtíðinni, þá geta þeir örugglega logið að þeir hafi ekki vitað betur.

Tönglast svo á hinum svokölluðum fyrirvörum sem þeir setja, án þess að geta nefnt eitt dæmi að einhliða fyrirvarar hafi haldið þegar regluverk Evrópusambandsins er annars vegar.  Enda eitthvað svo augljóst að einn markaður krefst einnar reglu, ef hann á að virka. 

En þeir átta sig ekki á því að með því að leggja svona gífurlega áherslu á hina meintu fyrirvara, þá eru þeir í raun að játa markaðsvæðingu orkunnar, einkavæðingu hennar og sölu hennar um sæstreng með tilheyrandi hækkun á rafmagnsverðinu.

Því þú þarft ekki að setja fyrirvara ef ekkert er að óttast.

 

Það er tímabært að verja hagsmuni Íslands, segir Sigmundur Davíð, og það er kjarni málsins.

En af hverju þurfum við alltaf að verja hagsmuni landsins gagnvart svikuli stjórnmálastétt, sem stöðugt gengur erinda annarra en þjóðarinnar??

Af hverju þessi stöðuga varðstaða gegn henni??

Fyrst skuldaklafar ICEsave samninganna, núna orkan.

Að ekki sé minnst á alla innviðina sem eru látnir grotna án nokkurs sýnilegs tilgangs, öðrum en þeim að valda tjóni og skaða, líklegast til að réttlæta einkavæðingu þeirra seinna meir.

 

Þegar allt þetta er lagt saman, blasir við einarður illvilji til að ganga af sjálfstæði okkar dauðu, og koma þjóðarauðnum í vasa Örfárra eignamanna og fyrirtækja þeirra.

Um þetta virðist ríkja þverpólitísk sátt því það virðist engu máli skipta hvaða flokka við kjósum í ríkisstjórn, og ef einhverjir flokkar gera sig út fyrir að vera andkerfisflokkar eins og Píratar, þá haga þeir sér eins þegar á reynir.

Sátt genginna kynslóða er rofin, hundrað ára samhent uppbygging á innviðum, menntun og heilsugæslu er í húfi, ekkert virðist skipta máli en hörð markaðslögmál sem þjóna þeim eina tilgangi að færa auð frá þjóð í vasa útvaldra.

 

Þess vegna hljótum við að spyrja okkur, eru þessir stjórnmálamen okkar þess virði að hljóta atkvæði okkar??

Þeir hafa sýnt vilja til að selja þjóðina, en þó ég viti að enginn vill kaupa, þá má samt spyrja hvort við eigum ekki að gera það sama.

Skipta þeim út sem misbjóða okkur svona.

Skipta þeim út sem ganga erinda annarra en þjóðarinnar.

 

Munum að í öllum flokkum er gott fólk sem ofbýður þessi framkoma og hegðun forystufólks síns.

Fólk sem er fullfært að taka við keflinu og vinna í þágu lands og þjóðar.

Í þágu velferðar hennar og velmegunar.

Þannig að við skilum af okkur til barna okkar og barnabarna allavega jafngóðu samfélagi og við tókum við frá áum okkar.

 

Eða viljum halda áfram að standa varðstöðuna??

Hvað gerum við ef hún brestur??

 

Íhugum það.

Kveðja að austan.


mbl.is Tímabært að verja hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróður eða fáfræði??

 

Ekkert annað fær skýrt pistil Björns Leví Píratahöfðingja í Mogganum í dag.

Þar útskýrir hann fordæmalausan stuðning Pírata við orkupakka 3, fordæmalausan því sá stuðningur breytir Pírötum úr meinlausum andófsflokki í harðsvíraðan kerfisflokk sem gengur erinda auðs og auðmanna gegn hagsmunum almennings.

Eins og slíkir flokkar hafi ekki verið nægir fyrir á þingi.

 

Í pistli sínum sem hann kallar "Sundrungarpólitík og vælubíllinn" leggur hann út af Brexit vandræðum breta þar sem embættismannakerfið og stjórnmálaelítan leggur dag við nótt að afskræma niðurstöðu þjóðaratkvæðis um að Bretlandi eigi að segja sig úr Evrópusambandinu.

Ekki sem andófsmaður sem fordæmir slík vinnubrögð, heldur sem kerfiskall sem segir, "sjáið, svona hefst uppúr því að standa á móti vilja okkar".

Og þetta er það sem hann hræðist, eða réttara sagt, hræðir þá kjósendur sína sem ennþá taka eitthvað mark á honum;

"Ef við segj­um upp EES-samn­ingn­um og orkupökk­un­um, hvað verður þá? Það er staðan sem Bret­ar eru í núna, tveim­ur árum eft­ir að þeir ákváðu að segja bless við ESB hafa Bret­ar enn ekki hug­mynd um hvernig Brex­it end­ar. Við mynd­um þurfa að semja um nýj­an fríversl­un­ar­samn­ing við Evr­ópu. Jafn­framt mynd­um við missa aðgang að öll­um viðskipta­samn­ing­um okk­ar í gegn­um EFTA. Mynd­um við enda með betri samn­inga? Mynd­um við ganga inn í viðskipta­samn­ing til vest­urs? ".

 

Gallinn við þetta er bara sá að þó við samþykkjum ekki orkupakka 3, því hann gengur gegn fullveldi þjóðarinnar að þá gerist fátt annað en að við stöndum utan við hann.

Og ef þingmenn nenna ekki að lesa EES samninginn sem þeir vitna í með svona hræðsluáróður, þá gætu þeir allavega kynnt sér álit þeirra Stefáns Más og Friðriks Árna þar sem segir;

"Það er réttur EES/EFTA-ríkjanna samkvæmt EES-samningnum að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi innleiðingu á viðkomandi gerðum á þeim grundvelli, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Slíkt kallar hins vegar á sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 102. gr. samningsins." EES-samstarfið byggist á þeirri forsendu að EES/EFT A-ríkin innleiði löggjöf Evrópusambandsins i landsrétt sinn á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til, hvort heldur óbreytta eða með aðlögunum m.a. með hliðsjón af forsendum EES-samningsins og sérstöðu hvers ríkis um sig. Í því ljósi virðist nærtækt að Ísland leiti lausna sem eru fólgnar í því að aðlaga ákvæði þriðja orkupakkans þannig að þau fái samrýmst þeim takmörkunum sem stjórnarskráin setur framsali ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana líkt og ESA. Um slíkar lausnir þyrfti þá að semja á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við málsmeðferð samkvæmt 102. gr. EES- samningsins.".

 

ESB má vera komið langt frá upprunalegum lýðræðissjónarmiðum sínum ef það telur að umsaminn réttur um að neita upptöku gerða sé ígildi uppsagnar á EES samningnum, og í raun ótrúlegt að halda fram að slík alræðishugsun stjórni sambandinu í dag.

Auðvita mun ESB sýna því skilning að orkan ásamt fiskimiðum okkar er forsenda byggðar og búsetu á Íslandi, og því slíkt grundvallarmál að íslenska þjóðin vilji stjórna þeim málum sjálf.

Nú ef ekki, þá gerist ekkert annað en það að fyrri viðskiptasamningar sem við höfðum gegnum EFTA, sem og við höfum í gegnum Alþjóða viðskiptastofnunina WTO taka gildi, og örugglega mun Ísland ná svipaðri lendingu eins og Sviss, sem er í EFTA, en ekki í EES.

Að halda öðru fram er að halda því fram að ESB sé skrímsli sem engu eirir, og ef það er ekki hræðsluáróður, hvað er þá hræðsluáróður???

 

Hvað fær hins vegar þingmann til að halda því fram að ef þjóðin neiti að samþykkja orkupakka 3, að þá sé verið að segja upp EES samningnum, og þar með "Jafn­framt mynd­um við missa aðgang að öll­um viðskipta­samn­ing­um okk­ar í gegn­um EFTA."??

Er þetta fáfræði, að hann viti ekki neitt??

Eða er hann að ljúga??

Ljúga til að hræða??

 

Hvort sem er, þá hittir hann allavega skottið á sjálfum sér með þessum orðum sínum um sundrungarpólitíkina; "Hún kvart­ar und­an um­fjöll­un og ræðir ekki hvað er satt og rétt. Sundr­ungar­póli­tík­in kast­ar bara fram hálfsann­leik og mistúlk­un­um sem rýra traust og ýfa upp það óvissu­ástand sem sundr­ung­in þrífst í.".

Enda erfitt að halda sig við sannleikann þegar á að sannfæra kjósendur sína um að það sé þeim fyrir bestu að vera rændir orkunni.

Með þeim afleiðingum að rafmagnsreikningurinn snarhækkar, og þúsundir missa atvinnuna þegar landið verður tengt við hinn sameiginlega orkumarkað Evrópu.

 

En þetta er neytendavernd.

Fyrir þýska neytendur.

 

Það má halda því til haga.

Án þess að ljúga miklu.

Kveðja að austan.


Málefnafátækt

 

Er réttnefni ef andstaða þjóðar við stofnanayfirráð ESB yfir orkuauðlindum okkar er látin kristallast í meintum hagsmunum ráðamanna af virkjunum einhverra smálækja hér og þar.

Það er umræða tittlingaskítarins gagnvart risahagsmunum í bráð og lengd.

 

Ef menn á annað borð vilja skoða hagsmunatengsl þá eiga menn að spyrja hvaða einstaklingar og félög tengd þeim hafa verið að kaupa upp virkjunarleyfi hér og þar, tilbúnir að leggja inn kæru á grundvelli tilskipunarinnar sem bannar markaðsmismun og markaðshindranir svo ESA er nauðbeygt að höfða mál á hendur íslenskum stjórnvöldum um að aflétta markaðshindrunum, og leysa upp Landsvirkjun.

Það er að heimila lagningu sæstrengjar og hluta Landsvirkjun uppí smærri einingar sem verða einkavæddar af hluta eða öllu.

Þar eru fjármunirnir, þar eru hagsmunirnir.

Þar er Engeyingarnir.

 

En þetta mál snýst ekki um hagsmuni einstakra gróðaafla, eða tengsl stjórnmála við fjármagnið.

Þetta er grundvallarmál, og snýst um hvort við ætlum að hafa landið byggilegt eða ekki.

Hvort við nýtum orkuauðlindir okkar sem þjóð, eða hvort þær séu nýttar að einkaaðilum sem selja þær hæstbjóðanda hverju sinni.

Hvort við höfum yfirráð yfir þeim, eða hvort aðrir hafi yfirráð yfir þeim.

 

Guðlaugur græðir á umræðu tittlingaskítsins.

Andstæðingar orkupakka 3 tapa á henni.

 

Svo spurningin er hvaða almannatengill kom henni í loftið?

Hver á hagsmuna að gæta??

Var utanríkisráðherra tilbúinn með svarið niðurskrifað??

 

Veit ekki en hann grætur allavega ekki umræðuna.

Kveðja að austan.


mbl.is „Ber vitni um málefnafátækt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins ofbeldismenn komast að þeirri niðurstöðu.

 

Sem Héraðsdómur Reykjavíkur komst að með því að sýkna vegna þess að vitni var hrætt til að breyta framburði sínum.

Þess vegna er full ástæða fyrir ríkislögreglustjóra að hefja rannsókn af meintum brotaferli þeirra dómara sem eiga í hlut.

Ofbeldisslóðin hlýtur að fylgja þeim frá kynþroskaaldri.

 

Ef það er ekki, þá er greinilegt að þeir finna til samsvörunar við kostunaraðila lögfræðinga, undirheimana sem borga stórfé fyrir að lög og regla láti þá í friði.

Fíkniefnaviðskipti þrífast ekki ef ekki er hægt að treysta á að málatilbúnaður lögreglu haldi ekki fyrir dómi þegar dauð vitni (raunveruleikinn út í hinum stóra heimi), eða hrædd vitni dragi framburð sinn til baka.

Gífurlegir fjármunir eru í húfi, og lögfræðistéttin fær ríflega þóknun fyrir að tryggja að lög nái ekki yfir skipulagða glæpastarfsemi.

Síðasta ömurlega dæmi þar um, órefsað, er þegar glæpaforingi var látinn laus vegna þess að ekki var hægt að sanna að hann hefði valdið dauðahögginu.

Og eitthvert handbendi var ákært.

Það mátti ekki ógna handrukkarastéttinni, sem heldur jú uppi aga í fíkniefnaheiminum, tekjur og þóknanir voru í húfi.

 

Við sem þjóð látum þetta yfir okkur ganga.

Að skítugt fjármagn stjórni öllu.

 

Við látum það meira segja yfir okkur ganga að það kaupi upp þjóðkjörna fulltrúa okkar.

Ræni orkuauðlindum okkar án þess að litla fingri sé lyft.

Alls staðar er hið glæpsamlega fest í sessi, með lögum, með mútum, með keyptum þjónum.

 

En gekk Héraðsdómur Reykjanes ekki of langt í þessum dómi sínum?

Hvað er eftir að réttarkerfi forfeðra okkar ef svona lögleysa og ofbeldi er staðfest með dómi, án eftirmála??

Mega vinnumenn hins skítuga fjármagns allt??

Bara ef þeim er borgað.

 

Það helst allt í hendur í dag.

Bæði aðförin að þjóðinni sem kennd er við tilskipun ESB um frjálst flæði orku, eða glæpalýðurinn sem selur börnunum okkar dóp er friðhelgur.

Dindill er ríkislögreglustjóri, hann rannsakar ekki neitt.

Það er meira að segja hægt að múta fólki til að brjóta stjórnarskrána til að koma orkuauðlindum þjóðarinnar í vasa auðs og fjármagns.

Eða sleppa ofbeldismönnum því vitnum er ógnað, þaggað niður í þeim.

Sem er aðför að réttarkerfinu og réttlætinu, því ef staðreyndir og sannarlegir áverkir eftir alvarlegt ofbeldi duga ekki til sakfellingar, þá dugar ekkert nema lögfræðingum sé borgað.

Og það keppir enginn við mútufé glæpastarfseminnar.

 

Viljum við þetta þjóðfélag??

Að skítugt fjármagn kaupi allt, stjórni öllu.

 

Þetta var ekki svona.

En þetta er orðið svona.

 

Vegna þess að glæpahyskið keypti sér hvíta skyrtu.

Jakkaföt og skjalatösku.

Og stjórnmálamenn.

 

Fyrir framan nefið á okkur.

Kveðja að austan.


mbl.is Konan flúði fram af svölunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2019
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 15
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 4189
  • Frá upphafi: 1338888

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 3752
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband