Bann við banni.

 

Það er leiðinlegt að þurfa rifja það enn einu sinni upp hvað felst í þriðja orkupakkanum, eitthvað sem væri óþarfi ef fullorðið fólk stjórnaði þessu landi.

Eða við hefðum lög eins og í bandaríkjunum sem banna ráðamönnum að ljúga vísvitandi að þinginu, þá væri viðtalið við formann utanríkismálaráðherra tekið í annarri stofnun, aðeins fjær Reykjavík en sú sem hún blekkir ítrekað vísvitandi.

 

Ill nauðsyn en samt og ennþá er best að láta Evrópusambandið sjálft hrekja hinar vísvitandi blekkingar;

"What is the aim of the "third energy package"?  The aim is to make the energy market fully effective and to create a single EU gas and electricity market.

What does it consist of? ..... three Regulations, ... one on conditions for access to the network for cross-border exchange of electricity ((EC) No 714/2009) and one on the establishment of the Agency for the Cooperation of Energy Regulators ACER ((EC) No 713/2009).".

Einn sameiginlegur markaður, reglur um tengingu yfir landamæri, stofnun yfirþjóðlegrar Orkustofnunar Evrópu, allt regluverk til að tryggja einn sameiginlega markað, og til að ná því markmiði er sett blátt bann við hindranir á tengingum yfir landamæri.

 

Og formaður utanríkismálanefndar reynir að telja þingi og þjóð í trú um að íslensk stjórnvöld geti einhliða sett bann á bannið sem bannar tengingar milli landa.

Heldur hún að við séum öll börn, einfeldningar, sem er hægt að segja hvað sem er.

Að það sé hægt að innleiða regluverk og setja síðan lög sem gerir hið sama regluverk óvirkt.

 

Stefán Már Stefánsson prófessor, okkar helsti sérfræðingur í Evrópurétti, varaði stjórnvöld við að þó regluverkið krefðist þess ekki af íslenskum stjórnvöldum að þau kæmi á slíkri tengingu, þá væri ólíklegt að þau gætu hindrað aðra í að leggja slíkan sæstreng, slíkt væri samningsbrot sem byði heim hættuna á málssókn.  Stefán gerði það í lagaáliti sínu, sem og á fundi utanríkismálanefndar, og hann hefur hvergi hvikað frá þeirri skoðun sinni.

Í blaðaviðtali segir hann að það eigi að vísa þessu til sameiginlegu EES nefndarinnar, og fá þar undanþágu, og hann benti á að það er fólkið að semja lagatexta sem heldur fyrir dómi.

Samt vogar formaður utanríkismálanefndar sér að fullyrða enn einu sinni að "Síðan setj­um við laga­leg­an fyr­ir­vara eins og ráðlagt var af Stefáni Má og Friðriki Hirts.".

 

Þegar Arnar Þór Jónsson héraðsdómari bendir á að íslensku fyrirvararnir haldi ekki samkvæmt Evrópurétti og þeim sem er meinað að leggja sæstreng, séu með unnið mál á hendur íslenskum stjórnvöldum, þá eru rök formanns utanríkismálanefndar þessi; "Áslaug seg­ir Arn­ar Þór vera að tala um að leggja sæ­streng til Íslands gegn vilja ís­lensku þjóðar­inn­ar. „Það er ekki hægt, það er hvergi í þriðja orkupakk­an­um neitt um það að hægt sé að leggja slík­an sæ­streng. Það er skýrt.“".  Eins og hún sé ekki tengd við þennan heim.

Arnar Þór talar ekki um að leggja sæstreng til Íslands gegn vilja þjóðarinnar, hann talar um að leggja sæstreng til Íslands.  Af hverju minnist hann ekki á hliðarskilyrðið, "gegn vilja íslensku þjóðarinnar"??, jú vegna þess að það er hvergi talað um í regluverkinu að tengingar milli landa séu háðar vilja viðkomandi þjóða, heldur að þeim skuli komið á, og bannað sé að hindra slíkar tengingar.

Enda hvernig á einn orkumarkaður (single market) að funkera ef einstök ríki hins innra markaðar geti sett sig uppá móti slíkum markaði með því að neita tengingum yfir landamæri.  Þetta er svo einfalt að jafnvel börn eigi að skilja þessa rökleiðslu.  En Jón Gnarr gæti bent á að geimverur gætu átt erfitt með slíka einfalda hugsun.

 

En botninum er ekki náð hjá formanni utanríkismálanefndar og gefum henni aftur orðið;

"Spurð hvort fjór­frels­is­regl­ur EES gera það mögu­lega að verk­um að óheim­ilt sé að banna lagn­ingu sæ­strengs, eins og fram hef­ur komið á vef at­vinnu- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is­ins, seg­ir hún ekki um bann að ræða. „Við erum bara að festa það í sessi að það er ákvörðun þings­ins og það get­ur ekki komið ein­hver ut­anaðkom­andi aðili og og lagt hér sæ­streng frek­ar en hann geti komið hingað og lagt veg. Þess­um spurn­ing­um var öll­um varpað upp í starfi nefnd­ar­inn­ar og fengið skýr svör má lesa í álits­gerð Skúla Magnús­son­ar og Davíðs Þórs Björg­vins­son­ar,“ svar­ar Áslaug".

Það er sem sagt ekki verið að banna lagningu sæstrengs, heldur sé slíkt ákvörðun þingsins.  Gott og vel, er hún þá að segja að þingið muni sjálfkrafa leyfa slíkan streng ef eftir verður leitað??  Það sé því ekki um hindrun á tengingum milli landa að ræða, heldur aðeins formsatriði sem engin áhrif hafi á regluverkið?  Varla.

Ef menn vilja ekki láta regluverkið taka gildi, þá neitar Alþingi viðkomandi um leyfi til að leggja sæstrenginn.  Og bakar sér um leið skaðabóta áhrif.  Ekki nema það verði knúið til að leyfa slíkan streng, og hvert er þá bannið??

 

En það reynir ekki á slíkt að öllum líkindum miðað við rökfærslu Áslaugar því hún segir; "það get­ur ekki komið ein­hver ut­anaðkom­andi aðili og og lagt hér sæ­streng frek­ar en hann geti komið hingað og lagt veg."

Sem er rangt varðandi sæstrenginn, regluverkið kveður á um að markaðsaðilar megi leggja slíkar tengingar, og það er bannað að hindra slíkar tengingar, sbr single market.

En geta þeir komið og krafist þess að fá að leggja vegi??  Svarið er augljóslega Nei, þriðji Orkupakkinn fjallar ekki um vegalagningu, og ennþá eru þeir utan regluverksins.

Svo það er ekki einu sinni barnalegt að bera þetta tvennt saman, það er verra en það.

 

Síðan varðandi lagaálit þeirra Skúla og Davíðs þá gat ég ekki annað lesið úr lagaáliti þeirra en þeir bentu á að íslensk stjórnvöld væru ekki skyldug til að leggja sæstreng, eins og það komi málinu eitthvað við. 

Það hefur enginn haldið því fram.

Hins vegar hafa ekki komið rök frá þeim félögum um skaðabótaábyrgðina, um einhliða fyrirvara sem halda með vísan í dómafordæmi og annað.

 

Vísan í þá án frekari rökstuðnings er nákvæmlega sömu vinnubrögð og viðhöfð voru í ICEsave umræðunni, þegar stjórnvöld vitnuðu grimmt í flesta lögfræðinga, lagaálit hinna og þessa, en komu aldrei með bein rök gegn ítarlegum rökum Stefáns Más og félaga sem sýndu fram á með skýrum rökum að íslensk stjórnvöld höfðu innleit tilskipanir ESB um innlánstryggingasjóð á réttan hátt.  EFTA dómurinn staðfesti það álit, enginn man lengur hvað hinir flestu lögfræðingarnir hétu.

Og ef það mál er ekki næg vísbending um keypt lögfræðiálit stjórnvalda þá má minna dóminn um gengislán, sem þáverandi stjórnvöld fullyrtu ítrekað að væru lögleg, og ekki má gleyma síðan þegar Árnalögin voru send heim til föðurhúsanna, þá vantaði heldur ekki hin fjölmörgu keyptu lögfræðiálit sem bara stóðust ekki, því niðurstaðan var fyrirfram ákveðin.

 

Ef Stefán Már hefur rangt fyrir sér núna, og Arnar Þór veit ekki hvað hann er að segja, og munum að þeir tala út frá bestu vitneskju, ekki borgun um að skila "réttri" niðurstöðu, að þá væri stjórnvöldum í lófa lagi að hrekja röksemdir þeirra lið fyrir lið.

Með rökum, ekki fullyrðingum án rökstuðnings.

En merkilegur er sá lögfræðingur sem getur sýnt fram á að það sé hægt að banna bann sem bannar markaðshindranir á hinum innri markaði.

Þriðji orkupakkinn fjallar einmitt um slíkt bann, það er bann við hindrunum.

Og á meðan slíkur lögfræðingur gefur sig ekki fram, og rökstyður þau undur, þá er vísan í slíkt ómarktækt.

 

Það er nefnilega ótrúlegur málflutningur að geta ekki sagt satt orð um þriðja Orkupakkann, og tekið umræðuna um hann á hans forsendum.

Hver er ávinningurinn við hinn sameiginlega evrópska raforkumarkað, hverjir eru gallarnir.

Og ef menn telja ávinninginn meiri en gallana, þá samþykkja menn regluverkið.

Ef menn telja gallana vega þyngra, þá vísa menn því til sameiginlegu EES nefndarinnar, og fá undanþágu fyrir íslenskan raforkumarkað.

 

Þetta er ekki flókið.

Þetta er ákaflega einfalt.

Fyrir fullorðið fólk, og ætti líka að vera einfalt að skilja fyrir þá sem yngri eru.

 

En menn ljúga ekki.

Það er það eina sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar mega ekki í þessu máli.

Jafnvel þó þeir líti ekki á sig sem fullorðið fólk.

 

Það er mál að linni.

Þetta er að verða aumara en það sem aumt er.

 

Þjóðin á betra skilið.

Kveðja að austan.


mbl.is Valdið hjá Alþingi óháð fyrirvörunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin í djúpum vanda.

 

Eftir að fjórflokkurinn í stjórnarandstöðu kvaðst ekki lengur vilja taka þátt í skrípaleiknum, að þreyta Miðflokkinn til uppgjafar.

Eftir stendur að sökin liggur hjá forseta Alþingis sem er ófær um gefa þinginu starfsfrið með því að taka umræðu um önnur mál fram yfir umræðuna um landsöluna.

Sem og ríkisstjórninni sem tekur ekki af skarið.

 

Þá hljóta eðlilega að vakna upp spurningar af hverju ríkisstjórninni liggur svona á??

Varla hefur þetta fólk áhyggjur af því að lygar þess og blekkingar séu afhjúpaðar, líkt og Arnar Már Jónsson gerði nýlega þegar hann tók undir rökfærslu fræðimanna að einhliða fyrirvarar séu marklausir.

Eða eins og Arnar segir, "Fyrirvarar Alþingis munu engu skipta þegar búið verður að fjármagna þennan sæstreng (hvort sem það verður innlent eða erlent fyrirtæki sem gerir það). Ástæðan er sú að ef íslenska ríkið reynir þá enn að standa í vegi fyrir því að strengurinn verði lagður mun verða höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Íslenska ríkið mun augljóslega tapa því máli þar sem orka er vara, sbr. fjórfrelsisákvæðið um frjálst flæði á vörum".

Varla því þá þarf frjálsa fjölmiðla sem eru ekki undir hæl hagsmuna auðmanna svo stærsti hluti þjóðarinnar mun því ekki frétta af afhjúpunum.  Ráðherrar og aðrir munu halda áfram að geta komið í fjölmiðla og sagt eins og Katrín Jakobsdóttir; "„Þá eru allir lögfræðingar sammála um það að engin skylda verði leidd af orkupakkanum um að heimila lagningu sæstrengs milli Íslands og annars EES ríkis það er ekki svo að þau ákvæði sem snúa um þetta mál taki hér gildi nema slíkur sæstrengur verði lagður.  .... „Það er staðreynd málsins hún hefur ekki verið hrakin hann felur ekki í sér kvöð um það að hingað skuli lagður sæstrengur það er ákvörðun Alþingis ef til þess nokkru sinni kemur sem ég vona ekki,“ ".

Og unga vel upplýsta fólkið mun halda áfram að trúa blekkingum hennar.

 

Vandinn er augljósari og má lýsa með þekktum orðum Hatara, "planið er allt samkvæmt áætlun".

Nema að ekkert hefur gengið samkvæmt áætlun þökk sé málþófi Miðflokksins.

 

Núna átti að vera búið að samþykkja Orkupakka 3 og næsta skref, að fjárfestarnir sem ætla að leggja sæstreng til landsins, myndu kynna þá framkvæmd eftir samþykktina, endaði með þeim ósköpum að þeir gerðu það án þess að samþykkt lægi fyrir.

Eina helsta röksemdin að enginn hefði áhuga að leggja sæstreng, eða að það væri ekki gerlegt, hvarf á einni nóttu. 

Það er búið að hanna hann, það er búið að fjármagna hann.

Eina sem vantar er regluverkið sem gerir lagningu hans kleyft gegn málamynda andófi þegar keyptra stjórnmálamanna.

 

Og ekki nóg með þessa afhjúpun, í kjölfarið var ljóstrað upp að einn helsti álitsgjafi ríkisútvarpsins, maðurinn sem skipuleggur níðhernaðinn gegn andstæðingum orkupakkans, að hann er ekki bara á launum í Valhöll, hann er líka á launum hjá þeim aðilum sem ætla að leggja sæstreng.

Blekkingahjúpurinn er nefnilega að gliðna hægt og hljótt á þann hátt að jafnvel forheimskasti krakkinn sem telur sig vel upplýstan og gerir því gys að varnarbaráttu þjóðarinnar, getur ekki lengur rifist við raunveruleikann.

Brandarakrakkarnir eru orðnir hirðfífl erlendra fjárfesta, án þess að fá borgað krónu fyrir fíflaganginn.

 

Þetta er vandinn í hnotskurn, jafnvel best ofni blekkingarvefur raknar upp með tímanum, það liggur í eðli blekkinga að þær þola ekki ljós staðreynda.

Og þá kemur hinn skítugi raunveruleiki hagsmuna og tengsla í ljós, að allt annað en EES samningurinn eða þjóðarhagur knýr þennan flumbrugang áfram.

Hann er knúinn áfram af þeim gífurlega hagnaði sem mun flæða í vasa fjárfesta í kjölfar markaðsvæðingu orkunnar.

Og brátt verður öllum það ljóst.

 

Þá er fokið í öll skjól.

Á meðan er hvatningin aðeins ein.

 

Áfram Miðflokkur.

Áfram.

Kveðja að austan.


mbl.is Semja um dagskrá þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti tíminn til að lækka skatta.

 

Sem má deila um, það er hvenær besti tíminn er til þess.

En það er hárrétt að sumir skattar dýpka hagsveiflu, má þar nefna tryggingargjaldið, of háa neysluskatta og of háa persónuskatta.

Það gildir eiginlega um alla skatta sem eru of háir.

Og þeir sem því ekki trúa ættu að kynna sér söguna um auðn búandastétta á tímum bændaánauðarinnar í Austur Evrópu þar sem afgjaldið gat farið yfir 80%, örbrigð og ofurskattur hefur aldrei getið af sér hagsæld.

 

Síðan á viti borið fólk að taka slaginn við það lýðskrum að ofurskattleggja sjávarútveginn, það eru hamfarir í hafinu, það veit enginn um fiskgengd komandi ára, og umræðan snýst um að blóðmjólka fyrirtækin sem þurfa að takast á við þessar hamfarir.

Eiginlega er ekki hægt að hugsa sér meiri heimsku, enda eru flestir sem berjast fyrir þessu Evrópusinnar.

 

Vilji menn takast á við þessa örfáu ofurríku kapítalista í sjávarútveginum, þá hljóta að vera til þess sértækar aðgerðir án þess að rústa sjávarútveginum, því ofurskatturinn bitnar fyrst og fremst á smærri og meðalstórum fyrirtækjum í greininni.  Meðan þau stóru hirða upp náinn fyrir slikk.

Síðan verða menn að skilja að evrópska regluverkið (djók) bannar mismunun eftir atvinnugreinum, vilji menn afhausa stórkapítalista, þá hlýtur það líka að gilda um alla, ekki bara þá sem tengjast landsbyggðinni og atvinnugrein hennar.

Við höfum ekki lengur efni á svona rugli og kjaftæði.

 

En þetta var ekki tilefni þessa pistils, það er að taka undir með skattana, heldur að benda á að fyrst það á að takast á við vitleysu, þá eiga menn líka að takast á við alla vitleysu.

Sbr að Evrópuregluverkið (aftur djók) bannar mismunun.

Evrópska regluverkið veldur tugmilljarða aukakostnaði árlega fyrir atvinnulífið, sbr nýlega grein eftir Óla Björn Kárason, alþingismann, og ef fólkið hjá Samtökum Atvinnulífsins er sjálfu sér samkvæmt, þá sker það upp herör gegn því regluverki.

Það er nefnilega bara ekki nóg að ráðast á ríkið.

 

Og af hverju var hægt að tala um skatta í margar margar mínútur, á mörgum mörgum skjámetrum, án þess að minnast á þann stærsta og öflugasta.

Hinn séríslenska skatt á heimili og fyrirtæki sem kallast verðtrygging.

Hvað er undir þegar þagað er um slíkt??

 

Bara spyr.

Kveðja að austan.


mbl.is Besti tíminn til að lækka skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aulahúmor unga fólksins.

 

Sú árátta að halda að velmegun sé sjálfsögð og hún hafi sprottið út úr engu, kemur skýrt fram í þessum aumkunarverðum tístum sem Mogginn skemmtir þjóðinni á þessu gleðidegi sem uppstigningardagurinn er, það er tilefni hans er gleðilegt.

Fullveldi þjóðarinnar, forræði hennar yfir eigin málum, skýrir að hér er velmegun og velferð, og gnógt tækifæra fyrir ungt fólk, sem engin þekkt dæmi er um á öðrum jaðarsvæðum og útkjálkum í allri veraldarsögunni.

Þetta hafðist ekki að sjálfu sér, þrotlaust starf og barátta kynslóðanna liggur að baki.

Sú þrjóska að við værum sjálfstætt fólk í sjálfstæðu landi, síðan var allt byggt úr engu.

 

Velmegun og ríkdæmi er ekki óþekkt fyrirbrigði í veraldarsögunni en fall þeirra er oft tengt úrkynjun þeirra sem ofgnóttarinnar nutu.

Mér er alltaf minnistætt í þeim stórskemmtilegu þáttum um valdabaráttuna í Róm í aðdraganda stofnunar keisaraveldisins, kennda við Róm, að þar voru handritahöfundar ekki að skafa af því þegar þeir lýstu úrkynjun hirðar Kleópötru í Alexandríu, og þeir fífluðu hana, gerðu hana hjákátlega.

Ef þeir hefðu haft Tvitter, það er í þáttunum, þá hefði þeir ekki þurft að semja sum tístin, þeim hefði nægt að taka nokkur upp úr þessari frétt, eða leit á vit frumheimildanna.

Fyndnir, sjálfsupphafnir krakkar í gerviveröld.

Sem endar alltaf illa þegar villidýrin eru allt um kring.

 

Það endaði ekki vel hjá þeim í Róm, það var víst ekki eins gaman í sigurgöngu Ágústusar og það var í gerviheimi hinnar duglausu hirðar.

Og það er lítt gaman fyrir ungt fólk að taka sín fyrstu skref, eða ala upp börn sín í samfélagi markaðsvæðingarinnar, þar sem öll grunnþjónusta er gróðavettvangur fjármagnsins.

Það er ekki að ástæðulausu að ASÍ varar við orkupakka 3.

 

En gervi vinstra og félagshyggjufólkið hlær bara.

Ennþá.

Kveðja að austan.


mbl.is „Þetta málþóf er stórkostlegt „comedy““
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar trúarjátningin eru einu rökin.

 

Þá er málstaðurinn glataður.

 

Við sáum þetta til dæmis þegar Gorbatsjev reyndi að halda Sovétríkjunum á lífi með vísan í allt það góða sem kommúnisminn hafði fært fólki í 70 ár, menntun, heilsugæslu, atvinnu, jöfnuð, tækifæri, frið svo eitthvað sé nefnt sem hann taldi upp.

Þessu tefldi hann gegn vilja fólks til að vera frjálst undan oki kommúnismann.

Og hefði hugsanlega haft betur, því hver vill fórna þessu ef kommúnisminn var eina leiðin til að hafa atvinnu, menntun, heilsugæslu og svo framvegis.

 

Fólk vissi bara betur, það var ekki lengur einangrað, stjórnvöld stjórnuðu ekki lengur upplýsingagjöfinni, og það vissi að út í hinum stóra heimi var fólk sem hafði atvinnu, menntun heilsugæslu, tækifæri á margfalt betri hátt en það sem kommúnisminn bauð uppá.

Og það bjó við raunverulegt frelsi, þar á meðal frelsi til að tjá sig og frelsi til að vera laust við lygar og tilbúning stjórnvalda.

Gorbatsjev bauð upp á möndru síbyljunnar sem stóðst ekki próf raunveruleikans.

 

Börnin á þingi þylja trúarjátninguna um EES samninginn, hvað hann hafi gert fyrir þjóðina og hvernig ástandið væri ef hans hefði ekki notið við.

Það er eins og þau hafi ekki þroska til að skilja að þau stjórna ekki upplýsingagjöfinni, að fólk viti að heimurinn er stærri en hinn sameiginlegi markaður Evrópu, og út í hinum stóra heimi er mannlíf alveg eins og í Evrópu. 

Nema kannski að efnahagur þar er ekki staðnaður heldur hagvöxtur og gróska.

Og þar hefur enginn heyrt um þennan EES samning, samt virðist allt ganga sinn vanagang, alveg eins og hjá okkur. 

 

Og þau hafa ekki þroska til að skilja, að ef þetta eru einu rökin fyrir landsölu þeirra, þá eru þetta engin rök.

Ef það er ekki hægt að selja orkupakka 3 á sínum eigin forsendum, þá er hann ekki söluvara.

Og verður það ennþá síður þegar þau vanvirða baráttu kynslóðanna fyrir sjálfstæði og forræði þjóðarinnar yfir sínum eigin málum og tala um að sú barátta sé sprottin af ótta.

Eða þau börnin viti betur en fullorðið fólk.

 

Það er illa komið fyrir Sjálfstæðisflokknum að lúta svona leiðsögn.

Barna sem fyrirlíta rætur flokksins og líta niður á kjósendur hans.

Barna sem láta almannatengla mata sig á frösum um hugtök og raunveruleika sem þau hafa engan þroska til að skilja.

 

Hvort Sjálfstæðisflokkurinn lifi þessa leiðsögn af á eftir að koma í ljós.

Hinar fyrirlitnu rætur hans eru sterkar og ná langt aftur í sögu þjóðarinnar, eða til sjálfstæðisbaráttu hennar á 19. öldinni.

Hann býr að glæstri sögu, merkri fortíð.

Og það er alltaf þörf fyrir þjóðlegan íhaldsflokk.

 

En það lifir enginn flokkur á sögunni einni saman og það er varhugavert að uppnefna kjósendahóp sinn á tyllidögum.

Ennþá hættulegra er að vanvirða helgustu véin, sem er sjálfstæði einstaklingsins og sjálfstæði þjóðarinnar hjá flokki sem kennir sig við sjálfstæði.

 

Sú vegferð sem forysta flokksins er á í mörgum stórum málum eins og orkupakka málinu og fóstureyðingarmálinu svo eitthvað sé nefnt, ásamt þeirri áráttu að tala endalaust niður til flokksmanna, er ekki líkleg til að flokkurinn haldi stöðu sinni sem stærsti hægri flokkur landsins.

Þó veit maður aldrei, sauðtryggara fólk en íhaldsfólk er vandfundnara, enda er það kennt við íhald.

En þegar því er ofboðið, þá geta strengir brostið sem aldrei verða hnýttir aftur.

 

Flokkurinn á því töluvert undir að orkupakkamálið fari í sáttarferli í sumar, og hann ætti að fagna þessum minni spámönnum sem vefengja vald hans í íslenskum stjórnmálum.

Málþófið gæti bjargað andlitinu ef niðurstaðan yrði ásættanleg fyrir hinn almenna flokksmann.

Það er frestun og sættir.

 

En hann vinnur ekki fylgi með svona málflutningi.

Það eina sem gerist er að Miðflokkurinn sem á ekkert bakland, gæti fengið hluta af baklandi Sjálfstæðisflokksins.

Því öll þessi ónot útí Miðflokkinn eru bara skattyrði út í hinn almenna flokksmann.

 

Börnin skilja þetta ekki.

Þeim finnst bara frasarnir gáfulegir, og jafnvel fyndnir líka.

 

En það er ennþá fullorðið fólk í flokknum.

Og þess tími er runninn upp.

 

Núna, núna.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Minni spámenn breyti efasemdum í ótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitið sigraði að lokum.

 

En endurheimti þjóðin sína von??

 

Sjaldan hafa eins fáir skilað eins miklu og hetjurnar í Miðflokknum sem hafa ekki bognað undan skefjalausum óhróðri og illmælgi taglhnýtinga fjárfestanna sem sjá gull í markaðsvæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar.

Mannorðsníðingar og mannorðsþjófar hafa setið um þá hverja mínútu málþófsins líkt og þeir væru á vöktum að finna eitthvað sem má matreiða ofaní trúgjarna.

Svo mikið er undir að jafnvel ríkisútvarpið hefur verið innlimað inní þá herferð alla eins og nefgjöld þessara örfáu auðmanna og vinnumanna þeirra vegi þyngra í tekjuöflun stofnunarinnar en nefgjöld fórnarlamba markaðsvæðingarinnar, almennings.

Núna síðast reyndi Inga Snædal að finna æru sem hún gæti svo reitt af sér þegar hún sagði að "mál sem gagn­ist fá­tæku fólki tefjast vegna málþófs Miðflokks­ins um þriðja orkupakk­ann".  Eins og fátækt fólk sé ekki það fyrsta sem finnur það bókstaflega á eigin skinni þegar húsin kólna vegna þess að raforka þjóðarinnar verður send með sæstreng á hinn samevrópska samkeppnismarkað.

 

En Miðflokkurinn hefur staðist áhlaup rógsins og núna er fyrsta uppgjöf taglhnýtinganna í augsýn, smán þeirra vegna orkupakkans er næg þó þeir eyðileggi ekki önnur þingstörf með stuðningi sínum við þetta ógæfumál.

Vandséð er eftir þessa ályktun að Steingrímur Joð geti mætt í kvöldfréttirnar og talið Jóhönnu Vigdísi í trú um að Miðflokkurinn fari ennþá með dagskrávald þingsins.  Ekki að Jóhann myndi ekki brosa og birta, heldur gæti sá biti staðið illa í þeim sem á heyra.

Því á öllu rugli er takmörk, og þeim mörkum er náð núna eftir þessa yfirlýsingu stjórnarandstöðuflokkanna.

 

Og kannski eru þetta veðrabrigði.

Kannski er undanhaldið hafið og þá mun fljótt bresta flótti í lið taglhnýtinga því þeir vita eins og er að allir geta ekki fengið sporslur eftir næstu kosningar, sumir sitja útí kuldanum atvinnulausir, og til hvers er þá leikurinn gerður??

 

Von hefur allavega kviknað af minna tilefni.

Kveðja að austan.


mbl.is Leggja til frestun orkupakkans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stígur Steingrímur skrefið??

 

Sem Bjarna Ben iðar í skinninu að hann geri því enginn flokkur hefur eins oft lent í málþófi og Sjálfstæðisflokkurinn, eðli málsins vegna, og því grætur Bjarni ekki fordæmið sem hann sjálfur þorði aldrei að gefa.

Að stöðva málþóf.

 

En þó forystufólk Sjálfstæðisflokksins geti ekki sagt satt orð um orkupakkann, þá er óþarfi hjá Steingrím að taka þá breytni til fyrirmyndar, enda löng hefð á Alþingi að forseti þess gæti staðreynda og sanngirnis, eitthvað sem Steingrímur sjálfur var drullufúll við Ástu Ragnheiði á sínum tíma.

En þá var hann fjármálaráðherra og mátti ljúga að vild í ICEsave deilunni.

En í dag forseti þingsins og algjör óþarfi hjá honum að skapa fordæmið gegn málþófi með lygavaðli.

 

Hann getur sagt að hann sé orðinn drulluleiður á því, að hann sjái í dag hvað hann sjálfur hafi verið pein inn the ass þegar hann var konungur málþófsins, og núna þegar valdið hefur frelsað hann frá málþófspúkanum, þá vilji hann forða núverandi þingi, og komandi þingi frá slíkum leiðindum.

En hann getur ekki kennt Miðflokknum um hið meinta "ófremdarástand á Alþingi" svo vitnað sé í fyrirsögn fréttarinnar.

 

Það er Steingrímur sem ber ábyrgð á dagskrárhaldi þingsins, ekki Miðflokkurinn.

Honum er í lófa lagt að fresta málinu og taka önnur mál fram yfir þann einbeitta vilja þingmeirihlutans að afsala þjóðinni forræði yfir orkuauðlindum sínum.

Landsalan getur ekki verið svo mikilvæg að það megi ekki ræða önnur mál á meðan hún er ófrágengin.  Varla er dedlæn á málinu, varla ekki varðandi sjálfan orkupakkann.  Hann hefur beðið og getur alveg beðið enn.

 

Að kenna öðrum um sína eigin ábyrgð er ekki hátt ris á embætti forseta Alþingis.

Jafnvel þó Steingrímur Joð eigi í hlut.

Og alveg óþarfi hjá honum að hafa þann blett á ferilskránni, nógu margir eru þeir samt.

 

Eins og til dæmis sú ósvinna að reyna drepa málþóf úr þreytu með alltof löngum þingfundum, slíkt er ekki boðlegt í lýðræðisþjóðfélagi þó örugglega finnst einhver klikkhaus í einhverju einræðisríki í Fjarskaistan sem þætt það fyndið tilbrigði við dýflissur og aftökusveitir.

En ekki hérna á Íslandi.

Hérna er þetta bara til skammar, jafnvel hjá fólki sem kann ekki að skammast sín.

 

Svo stígðu skrefið Steingrímur á réttum forsendum.

Eða láttu það ógert ella.

 

Sýndu að það sé einhver fullorðinn þarna í krakkaskaranum.

Einhver með smá sóma og æru.

 

Smán landsölunnar er næg samt.

Kveðja að austan.


mbl.is Ófremdarástand á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkupakkinn væri ekki til umræðu á þingi.

 

Ef það varðaði við lög að ljúga vísvitandi að þingheim líkt og er í Bandaríkjunum.

 

Það er sífellt verið að leiðrétta ráðherra og formann utanríkismálanefndar, aftur og aftur.

Nýlegasta dæmið má taka úr viðtali Morgunblaðsins við formann utanríkismálanefndar þar sem hún segir meðal annars;

"Spurð út í íslensku fyrirvarana segir Áslaug Arna að þeir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Hirst, sem lögðu hann til, telji engan lögfræðilegan vafa vera á því að leiðin við innleiðingu orkupakkans í íslenskan landsrétt sé í samræmi við stjórnarskrá".

sem rímar engan veginn við álitsgerð þeirra þar sem þeir segja "Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.".

 

Eða á fundi utanríkismálanefndar eða í viðtölum eftir þann fund;

"„Við full­yrðum ekki að ákvæði [þriðja orkupakk­ans] brjóti í bága við stjórn­ar­skrá, en segj­um að það sé veru­leg­ur vafi á því. Okk­ar um­sögn er nei­kvæð í þeim skiln­ingi,“."

Hvernig sem þessi orð eru lesin og túlkuð þá er ekki hægt að segja að þeir Stefán og Friðrik "telji engan lögfræðilegan vafa vera á því að leiðin við innleiðingu orkupakkans í íslenskan landsrétt sé í samræmi við stjórnarskrá".

 

Og hvernig er hægt að segja að þeir félagar hafi lagt til hina einhliða fyrirvara sbr. "lögðu hann til" þegar þeir benda á að hvað þarf að gera svo fyrirvarar haldi;

"Þá séu eng­in ákvæði í EES-samn­ingn­um sem gefa ís­lensk­um stjórn­völd­um fyr­ir­vara um að inn­leiða ákveðin atriði samn­ings­ins, eins og ríki ESB hafa. Það myndi þarfn­ast yf­ir­legu að semja laga­leg­an fyr­ir­fara um ákvæði þriðja orkupakk­ans. Það að senda málið aft­ur til sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar gæfi tæki­færi til þess að fara fram á lög­form­lega fyr­ir­vara eða und­anþágur.".

Sem er ekki gert, heldur aðeins fullyrt svo ég vitni í Áslaugu; "Það liggur allt fyrir sem þarf að liggja fyrir um sæstreng, sem er sú staðreynd að ákvörðun um að leyfa eða leggja streng er alfarið á okkar valdi".

 

Fullyrðing sem stangast algjörlega á við aðvörunarorð Stefáns og Friðriks í lagaáliti þeirra en þar segja þeir meðal annars;

"„Fram hefur komið að ekki standi til að innleiða 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 í landsrétt jafnvel þótt þriðji orkupakkinn væri tekinn upp í EES-samninginn (að undangengnu samþykki Alþingis á fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017), þar sem Ísland sé ekki tengt við innri orkumarkað ESB (t.d. gegnum sæstreng). Að mati höfunda er þó til þess að líta að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr. 713/2009 í landsrétt, með þeim breytingum/aðlögunum sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 7. gr. EES-samningsins.74 Myndi Íslandi þvi bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlôgunurn sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.".

 

Og varðandi málsókn einkaaðila segja þeir félagar;

"... að und­ir ein­hverj­um kring­um­stæðum gæti slíkt tal­ist samn­ings­brot, en velti á Evr­ópu­rétti. Hins veg­ar sé það ekki bundið við þriðja orkupakk­ann hvort ís­lensk stjórn­völd geti fengið yfir sig mál­sókn eða ekki. Það gæti gerst á hvaða tíma­punkti sem er að við yrðum tal­in hindra flæði orku. Ómögu­legt væri að gefa laga­leg­an rök­stuðning fyr­ir því hvernig viðbrögð hags­munaaðila myndu verða, sem gætu höfðað skaðabóta­mál fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um gagn­vart ís­lenska rík­inu vegna hindr­un­ar á raf­orku­flutn­ingi. Ekki væri hægt að úti­loka slíkt."

 

Þetta hefur legið fyrir allan tímann og á vissan hátt sorglegt að það þurfi enn einn sérfræðinginn til að ítreka að fyrirvarar íslenskra stjórnvalda "enga þýðingu hafa komi til þess að fjár­fest­ar vilji leggja sæ­streng á milli Íslands og Evr­ópu.".

 

Alla rangfærslurnar er hægt að afsanna með svona tilvitnunum en af einhverjum ástæðum hafa fjölmiðlar ákveðið að láta trúnaðarfólk þjóðarinnar komast upp með málflutning sinn. 

Með þó þeirri heiðarlegu undantekningu sem þessi frétt er þar sem orðum Arnars Þórs Jónssonar er fundið stoð í álitsgerð þeirra Stefáns og Friðriks.

 

Og hvað er hægt að gera þegar fjölmiðlar bregðast, og ráðamenn mega ljúg að þingheimi??

Málþóf er ein nauðvörnin, andóf í netheimum er önnur.

Og hvað svo??

 

Það er meinið.

Hvað svo??

Kveðja að austan.


mbl.is Fyrirvararnir hindra ekki málsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reglur hins innra markaðar.

 

Eru forsendur skipulagðar glæpastarfsemi á Íslandi.

Glæpastarfsemi sem nýtur verndar löggjafans vegna þess að lögreglunni er því sem næst gert ókleyft að afla sannanna sem standast kröfur um sönnunarfærslu um slíka starfsemi.

 

Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að handrukkarar, hrottar og önnur illþýði eru ekki mikilvægustu vinnumenn glæpamannanna, heldur eru það stétt lögfræðinga sem þiggur gríðarlega þóknun að láta glæpakerfið ganga upp.

Það er ekki bara í málsvörninni, heldur líka í nálgun dómarar á sönnunarbyrði, sem og að angi lögfræðinga teygir sig inní regluverkið sem snýr að því umhverfi sem lög og regla hafa til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.

 

Allt þetta hefur síðan magnast upp með reglum hins innra markaðar, sem gerir peningaþvætti, mannsal og annað glæpatengt því sem næst ósnertanlegt.

Flóttamannatúrisminn er svo enn einn angi þessa innra frelsis.

Félagsleg undirboð svo annar.

 

Núna ætlar þetta hyski að leggja undir sig raforkumarkað þjóðarinnar.

Hann á að einkavæði og gróðavæða.

Eins og mannsal og eiturlyfjaviðskipti.

Skíturinn er sá sami, en liturinn á flibbanum mismunandi, frá hard core til hvítflibba.

 

Og ef ekki er spyrnt við fótum, þá glötum við öllu.

Orkunni, æskunni, sakleysinu.

 

Þess vegna er svo mikilvægt að segja Nei við Orkupakka 3.

Segja Nei við regluverkið sem fóðrar glæpastarfsemina.

Segja Nei við réttarkerfi þar sem borgarinn er krossfestur þegar hann fer út af sporinu en atvinnuglæpamenn því sem næst ósnertanlegir.  Nærtækt dæmi þess ömurleika er þegar foringi handrukkara, sem hefur ómælda þjáningu á ferilskrá sinni, fékk dæmdar bætur vegna manndráps sem hann bar ábyrgð á.  Í alvöru þjóðfélagi hefðu þeir sem báru ábyrgð á þeim dómi, sem og sýknu handrukkarans, verið settir inn fyrir meðsekt.

Segjum Nei við regluverk sem er samnefnari hins lægsta, hvort sem það er að ná niður launum með félagslegum undirboðum, reglum um lægsta tilboð, eða annað sem brýtur niður heilbrigt efnahagslíf og heilbrigðan vinnumarkað.

 

Því við erum fórnarlömbin.

Við erum blóðgjafi blóðsugunnar sem sýgur arð og auðlegð úr samfélagi okkar.

 

Við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta.

Við eigum ekki að láta bjóða okkur samfélag þar sem tugir ef ekki hundruð barna okkar falla fyrir eiturlyfjadjöflinum sem er haldið að æsku okkar án þess að nokkuð sé reynt að hamla á móti.

Samfélag þar sem lögreglan veit, en getur ekkert gert.

Annað en að skrifa skýrslur.

 

Þetta var ekki svona.

Þetta er svona.

 

Á því eru skýringar.

Augljósar.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Leiðtogi sent tugi milljóna úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórði orkupakkinn skiptir ekki máli.

 

Segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, enda á þjóðin engar varnir eftir þann þriðja.

Hún hefur unnið sína vinnu, skilað góðum árangri með því að ná þverpólitískri samstöðu um afsal þjóðarinnar á orkuauðlindum þjóðarinnar.

 

Þorgerður Katrín er ekki bara sá ráðherra sem talaði niður aðvörunarraddir í aðdraganda Hrunsins, eða barðist gegn þeirri vörn þjóðarinnar sem neyðarlögin voru.

Eða níddi niður þá sem ábyrgðina báru á þeirri vörn.

Hún fékk vinnu við meðal annars að koma á orkutengingum á milli Íslands og Evrópu hins vegar. Svo vísað sé í fundarboð sem hún var ábyrgð á í starfi sínu hjá Samtökum atvinnulífsins, undir yfirskriftinni: Er ávinningur af raforkusæstreng til Bretlands.

 

Multigróði fyrir þá sem standa að verkefninu og fjármagna það.

Og líklegast skilar sér eitthvað í vasann á þeim stjórnmálamönnum sem berjast fyrir Orkupakka 3, því hann kveður á um hindrunarlaus orkuviðskipti yfir landamæri, og þar með hefur íslenska þjóðin ekkert með það mál að gera.

Það er ekkert tilviljun háð í þessu máli.

 

En rétt er samt hjá Þorgerði að umræðan um þann fjórða skiptir ekki máli.

Og það er lofsvert að loksins var satt orð sagt í þessu máli.

 

Sem er afrek út af fyrir sig.

Kveðja að austan.


mbl.is „Hver pakki er tekinn fyrir sig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2019
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 66
  • Sl. sólarhring: 178
  • Sl. viku: 231
  • Frá upphafi: 1320074

Annað

  • Innlit í dag: 63
  • Innlit sl. viku: 205
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband