Hvor segir satt??

 

Ráðherra þegar hann segir að í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar sé "áréttað að inn­leiðing þeirra gerða sem um ræðir myndi ekki skuld­binda ís­lenska ríkið til að koma á eða leyfa sam­teng­ingu ís­lensks raf­orku­markaðar við önn­ur ríki Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins.".

Eða Friðrik sjálfur í viðtali við Morgunblaðið í dag þar sem hann segir um sama atriði;

"Hvað laga­lega óvissu varðar vegna leiðar rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir Friðrik aðspurður til að mynda ekki úti­lokað að Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) teldi ástæðu til þess að höfða samn­inga­brota­mál fyr­ir EFTA-dóm­stóln­um á þeim for­send­um að Íslandi beri að inn­leiða þriðja orkupakk­ann að fullu í lands­lög. Það yrði þá gert á þeim grund­velli að Alþingi hefði aflétt stjórn­skipu­leg­um fyr­ir­vara vegna þriðja orkupakk­ans eins og hann hefði verið tek­inn upp í EES-samn­ing­inn sam­kvæmt ákvörðun sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar. Mögu­legt væri að málið þróaðist með þeim hætti. Eins væri mögu­legt að ein­stak­ling­ar eða lögaðilar höfðuðu skaðabóta­mál gegn ís­lenska rík­inu ef þeir teldu að ís­lensk lands­lög tryggðu þeim ekki þann rétt sem þeir ættu að njóta sam­kvæmt EES-samn­ingn­um".

 

Líklegast gæti sjálf álitsgerðin skorið úr um það en þar segir meðal annars;

"Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. gr. EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. gr. reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar orkupakkans, ef því er að skipta), standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.".

 

Ef ekki er hægt að hafa þetta rétt eftir, hvað er þá rétt sem ráðherra segir??

 

Enda getur heilbrigð skynsemi sagt fólki að tilskipanir um sameiginlega markað virka lítt, ef einstök aðildarríki efnahagssvæðisins geti síðan samþykkt fyrirvara og skilyrði sem í raun gera viðkomandi tilskipanir marklausar.

Tilgangur orkupakkans er að koma í veg fyrir markaðshindranir og tryggja orkuviðskipti yfir landamæri eða eins og segir "Í fimmta tölulið forsendna reglugerðarinnar um þriðja orkupakkann kemur fram að aðildarríkin geti í raun ekki gert neina fyrirvara eða sett aðrar lagalegar hindranir: "Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku."" (tekið af bloggi Magnúsar Sigurðarsonar, Popúlismi sjálftökunnar).

 

Þetta veit Guðlaugur innst inni þó hann kjósi að segja þjóð sinni og kjósendum ósatt.

Hann slær því þann varnagla að vitna í sameiginlega yfirlýsing hans og orkumálastjóra Evrópusambandsins;

"„Yf­ir­lýs­ing­in und­ir­strik­ar sam­eig­in­leg­an skiln­ing og er því af hálfu fram­kvæmda­stjórn­ar ESB viður­kenn­ing á þeim sjón­ar­miðum sem liggja til grund­vall­ar fyr­ir­vör­um Íslands við inn­leiðing­una. Þótt yf­ir­lýs­ing­in sé ekki laga­lega bind­andi hef­ur hún laga­lega þýðingu gagn­vart fyr­ir­var­an­um".

Eins og orð embættismanns breyti innihaldi tilskipana ESB.

Eða ICEsave deilan hafi gefið okkur ástæðu til að treysta orðum þeirra.

 

Ísland hafði meira að segja fengið lof fyrir að innleiða tilskipunina um innlánstryggingar á réttan hátt, þar sem í tilskipunin stóð skýrt að tryggingarkerfið væri bakábyrgð innlána, og ef aðildarríki innleiddu tilskipunina á réttan hátt, þá væru þau ekki í ábyrgð fyrir tryggingarkerfið sitt.

Það breyttist á einni nóttu og þegar hagsmunir stærri fóru gegn hagsmunum minni, þá gilti ekki einu sinni skýr lagatexti, hvað þá fyrri staðfestingar á að rétt hefði verið staðið að málum.

Og núna er látið eins og þessi saga sé ekki til og að við eigum að treysta orðum þessa fólks.

Eiginlega er ekki hægt að leggjast lægra í rökleysinu.

Skömminni skárra þó að ljúga.

 

Af hverju er ekki hægt að halda sig við staðreyndir málsins líkt og Þorsteinn Víglundsson gerði í feisbókarfærslu sinni þar sem hann viðurkennir að sæstrengur verði lagður, og hann muni hækka raforkuverð til heimila.  Hann telur hins vegar að á móti komi hærra verð fyrir orku sem núna fer til stóriðju, og því sé hægt að koma til móts við heimilin með því að afnema til dæmis virðisauka á raforkusölu.

Sjónarmið sem má ræða, sjónarmið byggt á staðreyndum.

Ekki á afneitun, hálfsannleik og beinum lygum.

 

Lygar stjórnmálamanna eru meinsemd í samfélaginu í dag.

Trekk í trekk fullyrða þeir eitthvað sem stangast alveg á við staðreyndir, eða lofa einhverju sem þeir ætla sér aldrei að efna.

Núna á að samþykkja tilskipun sem afsalar þjóðinni yfirráð yfir orkuauðlindum sínum til yfirþjóðlegrar stofnunar og það má ekki viðurkenna það.

Það er öruggt að í kjölfarið verður sæstrengur lagður því hann er lengi búinn að vera í pípunum hjá Landsvirkjun svo fyrirtækið verði ekki eins háð erlendum stórkaupendum.  Og eins og segir í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að þá mun slíkt leiða til hækkunar á rafmagni. 

En talað um ávinning á móti, og hví má ekki vega og meta slíkan ávinning, fá hreinskipta umræðum um kosti og galla.

 

Hvað er að því að segja satt, og ræða hlutina út frá staðreyndum??

Það ætti að vera lágmarkskrafa til þjóðkjörinna fulltrúa okkar, sama í hvaða flokki þeir eru.

 

Gerum þá kröfu.

Öll sem eitt.

Kveðja að austan.


mbl.is Innleidd að fullu en gildistöku frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomin í hópinn Ólína.

 

Ég man eftir þér fyrst þegar ég var að móta mínar skoðanir á unglingsárunum, þú varst þá eldrauður kvenskörungur sem trúði á betri heim, og taldir hann þess virði að berjast fyrir.

Svo leið tíminn, ég þroskaðist, og sannfærðist um að mennskan og mannúðin, trúin á jöfnuð og réttlæti, sanngirni og rétt allra til mannsæmandi lífs, væri leiðin, ekki útópíur eins og kommúnisminn, sem tók kerfi fram yfir fólk, og nýtti sömu fjötrana og helsið og yfirstéttir aldanna sem höfðu kúgað og níðst á fólki frá árdaga siðmenningarinnar.

Þá var tónn hins herskáa jafnaðarmanns sem ferskur blær innan um allan róttæklingavaðal sófakommúnismans.

 

Kommúnisminn dó, en ný Útópía reis á legg.

Kennd við Evrópu og Evrópusamvinnu.

 

Hugsuð til að koma í veg fyrir ófrið og lagði vissulega áherslu á félagslegt réttlæti, mannréttindi, velferð og margt annað sem átti að gera heiminn betri en hann hafði verið.

En tók kerfið fram yfir fólk, reglur og regluverk fram yfir fjölbreytileika mannlífs og þjóða.

Og hljótt fór að regluverkið var byggt á hugmyndafræði þeirra Friedmans og Hayek.

Frjálshyggja í sinni tærustu mynd, hið frjálsa flæði auðs og fjármagns.

 

Þú féllst fyrir þessari Útópíu Ólína, og þú studdir hana í ICEsave deilunni.

Taldir þig hafa sama rétt og hinir fornu konungar Germanna, að þú gætir selt hluta þjóðar þinnar í skuldaþrældóm til að gera upp við keisara Rómar.

Gleymdur var hugsjónaeldurinn, gleymdur var eldmóðurinn, gleymd var gagnrýnin á auðvald allra tíma.

Völdin, Útópían, ekkert annað komst að.

 

Kannski þurfti rýtingsstungu í bakið til að þú vaknaðir af þessum myrka svefni.

Að þú sæir aftur ljósið, að þú skyldir að það skiptir ekki máli hver það er sem níðist á venjulegu fólki, og í nafni hvers það er gert, að það er alltaf rangt að níðast á fólki.

Alltaf rangt að arðræðna, gera það að féþúfu auðs og fjármagns.

 

Hvað sem það var, þá skiptir það ekki máli.

Aðalatriðið er að þú ert kominn í hópinn.

Hætt að þjóna auðnum, hætt að þjóna frjálshyggjunni.

Blekkir ekki lengur sjálfa þig, hvað þá að þú reynir að blekkja aðra.

 

Þú ert í góðum hópi.

Við erum hópurinn sem tökum líf fram Útópíur.

Fólk fram yfir fjármagn.

Og við biðjum þess eins að fá að lifa í friði fyrir ásælni þess, í samfélagi þar sem fólkið sjálft ræður hlutskipti sínu og örlögum.

 

Vinnumenn fjármagnsins kalla okkur lýðskrumara, vitleysinga og eitthvað þaðan af verra.

Við vöndumst þessum ónefnum í ICEsave deilunni, og þau bíta ekki í dag.

Hafa í raun aldrei bitið, aðeins hert þann ásetning að standast atlögur þeirra.

Þú munt léttilega venjast þessu, og þarft ekki að réttlæta þig með einhverjum afsökunarorðum.

Skattyrði þeirra er aðeins hrós fyrir okkur sem eigum ekki annan húsbónda en lífið sjálft.

 

Við verjum samfélag okkar.

Við verjum auðlindir þess og sjálfstæði.

Rífumst svo um allt hitt, en sem fólk, ekki þrælar.

 

Það er ekki Útópía.

Það er bara eins og lífið á að vera.

Frjálst, fjölbreytt, margslungið.

Ekkert meira, ekkert minna.

 

Eins ólík og við erum, þá erum við eitt.

Fólkið sem segir Nei við auðinn.

 

Þetta er góður hópur.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Hafnar ásökunum um popúlisma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygi er sagna best.

 

Þórdís Kolbrún iðnaðar og nýsköpunarráðherra segir;

" „Það er ein­fald­lega þannig að ég ­myndi aldrei leggja til að Íslend­ingar inn­leiddu ein­hvern ­pakka frá ESB ­sem er hluti af EES-­samn­ingnum ef að ég teldi minnstu trú á því að við værum að missa að ein­hverju leyti yfir­ráð yfir okkar auð­lind­um,“".

 

Friðrik Árni Friðriksson, landsréttarlögmaður segir;

"Hvað laga­lega óvissu varðar vegna leiðar rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir Friðrik aðspurður til að mynda ekki úti­lokað að Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) teldi ástæðu til þess að höfða samn­inga­brota­mál fyr­ir EFTA-dóm­stóln­um á þeim for­send­um að Íslandi beri að inn­leiða þriðja orkupakk­ann að fullu í lands­lög. Það yrði þá gert á þeim grund­velli að Alþingi hefði aflétt stjórn­skipu­leg­um fyr­ir­vara vegna þriðja orkupakk­ans eins og hann hefði verið tek­inn upp í EES-samn­ing­inn sam­kvæmt ákvörðun sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar. Mögu­legt væri að málið þróaðist með þeim hætti.

Eins væri mögu­legt að ein­stak­ling­ar eða lögaðilar höfðuðu skaðabóta­mál gegn ís­lenska rík­inu ef þeir teldu að ís­lensk lands­lög tryggðu þeim ekki þann rétt sem þeir ættu að njóta sam­kvæmt EES-samn­ingn­um.".

 

Þórdís er stjórnmálamaður sem á hagsmuna að gæta, Friðrik er lögmaður sem á engra hagsmuna að gæta, heldur sig aðeins við staðreyndir.

Þær staðreyndir að það er ekkert sem getur eftir samþykkt þessa tilskipun ESB kennda við orkupakka 3 komið í veg fyrir að annars vegar ESA krefjist þess að Ísland innleiði hana að fullu, og þeir einstaklingar og lögaðilar sem eiga hagsmuna að gæta, geti kært íslensk stjórnvöld ef þau draga lappirnar í því máli.

Því eins og Friðrik segir eru íslensk stjórnvöld búin "að aflétta stjórn­skipu­lega fyr­ir­var­an­um og staðfesta þessa ákvörðun".

Því í raunheimi samþykkja menn ekki eitthvað, og neita síðan að fara eftir því.

 

Þetta vita allir en samt kjósa ráðamenn að ljúga til um kvað það þýðir að samþykkja þessa tilskipun.

Þeir vita að fyrirvarar sem ganga gegn viðkomandi tilskipun, halda ekki, nema um þá sé samið í upphafi.

Sem var ekki gert og þess vegna er staðan eins og hún er, annaðhvort er pakkinn samþykktur með sínum kostum og göllum, eða honum er hafnað.

Hann er ekki Nóa Síríus konfektkassi þar sem hægt er að skilja alla marziban molana eftir.

 

Samt lætur Þórdís Kolbrún eins og að efni tilskipunarinnar eigi ekki við um Ísland.

Og þess vegna samþykki hún hana.

 

Hvað veldur??

Ekki einfeldni, þetta er vel gefin ung kona.

 

Eina hugsanlega skýring þessa er að hún sé í hjarta sínu sammála innihaldi tilskipunarinnar og telji hana til góða.

Annars hefði hún aldrei sagt það sem hún sagði á ársfundi Landsvirkjunar, svo ég vitni í Viðskiptablaðið sem dró orð hennar saman;  "Iðnaðarráðherra áréttar að orkan tilheyri eignarrétti á landi og sé ekki þjóðareign líkt og fiskurinn í sjónum. Milljarðaverðmæti liggi í sölu umframorku um sæstreng, og orkupakkarnir hafi verið markaðspakkar.".

Það hafði bara gleymst að láta hana vita að svona segði maður ekki fyrr en eftir samþykkt Alþingis, í þessu tilviki væri sannleikurinn ekki sagna bestur.

 

Í því felst vanvirðing ríkisstjórnarinnar.

Í því felst niðurlæging Alþingis.

Að það má ekki segja satt.

 

Að lygi sé sagna best.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Felur í sér lagalega óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úlfurinn kastaði af sér sauðarfeldinum á Alþingi í gær.

 

Og í ljós kom að þó gæran sé mismunandi að útliti, sumstaðar merkt Sjálfstæðisflokknum eða Pírötum, VinstriGrænum eða Samfylkingunni. Viðreisn eða Framsóknarflokknum, að þá lítur úlfurinn alltaf út eins og úlfur, hann er ljótur, og hann étur sauði.

Hann vinnur fyrir fjármagn og auðmenn, hann telur fyrirmæli Brussel vera ígildi guðslaga og honum er nákvæmlega sama um almenning og hagsmuni hans.

Hin mismunandi gervi úlfsins eru aðeins hugsuð til að halda utan um atkvæði almennings, að sjá til þess að hann láti að stjórn eins og friðsöm sauðarhjörð á að gera.

 

Í mínum huga var þetta nokkuð ljóst eftir sögufræg svik VinstrGrænna í ICEsave deilunni og endanlega þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sat í skjóli hins meinta andófsflokks, Borgarahreyfinguna.

En flokkshollt fólk sem var svo heppið að hin óvænta atburðarrás haustið 2008 sem kom Sjálfstæðisflokknum og Framsókn í stjórnarandstöðu, trúði því að þeirra fólk hefði ekki svikið, það voru hinir.

Neitaði að horfast í augun á því að ef þeirra fólk hefði verið í ríkisstjórn, þá hefði það gert nákvæmlega sömu hlutina, það er staðið við samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá haustinu 2008.

Samkomulag sem gekk út frá að vernda hagsmuni erlendra fjármagnseiganda, koma óbærilegum skuldabyrðum á íslenskan almenning, og hið gamla kerfi yrði að fullu endurreist eftir Hrun.  Með endurbótum þó.

Það er bara þannig að hefðbundnir flokkar vinna innan kerfis, og þeir fara aldrei gegn hagsmunum auðs og fjármagns.

 

Við sjáum þetta í dag.

Það er samstaða á þingi að hundsa þjóðarvilja, og innleiða reglugerð Evrópusambandsins sem óhjákvæmilega mun leiða til hækkunar raforkuverðs til almennings og fyrirtækja hans, og til einkavæðingar orkufyrirtækja.

Og þingmenn eru svo ómerkilegir að þeir kannast ekki við þetta, og ljúga út í eitt.

Þeir þurfa atkvæða almennings, en þeir telja sig ekki þurfa að gæta hagsmuna hans.

Þeir telja sig hafa rétt á að eyðileggja eitt af því fáu sem virkilega hefur tekist vel til í samfélagi okkar, sem er að fólk getur hitað húsin sín óháð fjárhag eða búsetu.

Þeir eru algjör andstaða við frumkvöðla eins og Jón Þorláksson sem nýtti krafta sína og verksvit til að leiða hita og rafmagn í hús hjá jafnt háum sem lágum. Á sem hagkvæmasta hátt svo allir réðu við að nýta sér þessi gæði.

 

Í dag á að ljúka þeirri vegferð með samþykkt markaðspakka Evrópusambandsins í orkumálum.

Með einu pennastriki á að jarða þá hugmyndafræði mannúðar og mennsku sem áar okkar lögðu drög að fyrir um 100 árum síðan.

Með einu pennastriki á að breyta orkunni úr auðlind í markaðsvöru, úr sameign í einkaeigu.

Og þingmenn sjá ekkert athugavert við það.

 

Þeirra er valdið, þeir mega.

Reikningsskil gjörða sinna þurfa þeir aðeins að standa þeim sem þeir þjóna.

 

Og það er ekki þjóðin.

Það er ekki almenningur.

 

Það er kerfið, það er elítan.

Fólkið sem er ríkið í ríkinu.

 

Þetta eru úlfar sem líta á okkur hin sem sauði.

Og hafa haft rétt fyrir sér fram að þessu.

En ekki lengur, ekki lengur.

 

Það er kominn tími á úlfaveiðar.

Kveðja að austan.

 

 


Bloggfærslur 10. apríl 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 1531
  • Frá upphafi: 1321539

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1305
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband