Með lögum skal land byggja.

 

Og með ólögum eyða.

 

Þessi viska áa okkar er viska siðmenningarinnar, forsendan fyrir sjálfri tilveru hennar.

Það eru lögin sem halda samfélögum saman, það eru lögin sem hindra að hinn sterki kúgi og ræni að geðþótta, setja hömlur á valdníðslu og yfirgang valdhafa, en ekki hvað síst, þá eru þau leiðarvísir um viðurkennda hegðun og atferli.

Séu þau réttlát, þá eru þau forsenda friðar.

Og ef eitthvað stef er sammannlegt um allan heim á öllum tíma þá er það ákall fólks um að valdhafar virði lögin, séu réttlátir.

 

Þó þessi sannindi hafi verið skráð í árdaga sögu okkar, þá hefur gengið á ýmsu hjá innlendum sem erlendu valdhöfum okkar að virða þau.

Svo rammt kvað að þessu að á tíma voru póstskipin yfirfull af kvörtunum vegna yfirgangs sýslumanna og bænaskjölum til konungs að grípa inní, að tryggja almúganum rétt og réttlæti.

Og oft komu ordur að utan um breytta hegðun, og jafnvel voru sýslumenn settir af til langs eða skamms tíma.

Konungsvaldið var sem sagt skjól.

 

Breyttir tíma eru í dag.

Við erum lýðveldi, enginn konungur sem hægt er að klaga í, ráðum okkar málum sjálf.

Samt fengum við ordur að utan að lög eigi að virða, eins og ekkert hafi breyst.

Nema kannski núna er rifist og skammast út í þann sem tilmælin sendi.

 

"Engin afskipti af innanlandsmálum okkar", og það er ekki verið að vitna í ókvæða talsmann Sauda eða kínverska utanríkisráðuneytisins, sá fyrri frábiður sér afskipti á hegðun krónprinsins og drápslöngunar hans, sá seinni skapillur yfir því að fett sé fingur yfir þjóðarmorði á Úígúrum.

Nei sá úrilli sem þetta mælir er sjálfur fjármálaráðherra þjóðarinnar, sem líka var ráðherra þegar lög um skipan dómara voru sett.

Ef stjórnvöld kjósa að brjóta lög til að skipa vini og ættingja í dómarasæti, þá er það þeirra og öðrum kemur það ekkert við. 

Nema að fjármálaráðherra gleymir að á meðan við erum í Evrópuráðinu, þá kemur það öðrum við.  Því ráðið gerir kröfur um að aðildarríki sín virði þá grundvallareglu að með lögum skal land byggja.

 

En munnbrúkið, og það að við sem þjóð skulum ennþá þurfa að fá ordur að utan, er ekki aðalatriði málsins.

Heldur hvað fór úrskeiðis í uppeldi þessa fólks að það skuli ekki skilja þessi einföldu sannindi um lög og rétt, og til hvers lög og réttur er.

Að fólkið sem setur lögin, og er trúað fyrir stjórn landsins, skuli halda að það sé hafið upp yfir sömu lög.

Og af hverju komst það svona langt með valdníðslu sína að það þurfti dóm að utan til að skakka leikinn??

 

Valdið á Íslandi er þríþætt, það er löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, og í stjórnarskránni er kveðið á um sjálfstæði hvers valds.

Samt er það svo í reynd að framkvæmdarvaldið hefur löggjafarvaldið í vasanum og hefur haft mikil afskipti af dómsvaldinu, og þá með því að skipa í dóma eftir flokks og fjölskyldutengslum.

Samt er dómsvaldið sjálfstætt og það átti að grípa inní á afgerandi hátt sem verndari stjórnarskráarinnar.

 

Hæstiréttur gat alltaf búist við þessari niðurstöðu að utan að sett væri út á sjálfstæði dómsstóla þegar lög um skipan dómara voru brotin og hluti dómara handvaldir í embættið.

Svindl er alls staðar bannað, svindl skaðar traust og tiltrú.

Og það er sérstaklega mikilvægt að sá sem dæmir aðra, sé hafinn yfir allan vafa.

Samt lét Hæstiréttur framkvæmdarvaldið komast upp með valdníðslu sína.

 

Hvað veldur??

Var það óttinn við níðtungur valdaklíkunnar að rétturinn þorði ekki að taka slaginn við Sjálfstæðisflokkinn??

Eða eru dómararnir háðir henni, hluti af henni, og rugga því ekki bátnum sem þeir sjálfir eru munstraðir á??

Þetta eru áleitnar spurningar í kjölfar aðgerðarleysis Hæstaréttar og í raun getur aðeins rétturinn sjálfur svarað þeim spurningum.

Það má nefnilega ekki gleymast að mesti áfellisdómurinn var ekki yfir Sigríði Andersen og einbeittum brotavilja hennar, heldur hinu sjálfstæða dómskerfi sem átti að grípa inní, og afturkalla skipan dómara sem sóttu umboð sitt til lögleysunnar.

 

Það er nefnilega erfitt að byggja land með lögum þegar valdhafa njóta ekki aðhalds sjálfstæðra dómsstóla.

Og þess vegna byrja jú allir ofríkismenn að múlbinda þá svo þeir geti farið sínu fram óháð lögum og rétti.

Það er líka erfitt að fá almenning til að hlíta lögum þegar valdhafar telja sig hafna  yfir þau, og dómararnir sjálfir sjá ekkert athugavert að vera skipaðir á löglausum forsendum.

Og allra erfiðast er að vera dómsstóll sem enginn treystir því fólk véfengir heilindi þeirra sem þá skipa.

 

Og það er erfitt að byggja land þar sem enginn treystir valdhöfum, og enginn treystir dómsstólum.

Það er eiginlega kjarni þess sem við sem þjóð glímum við í dag.

Vantraust.

Sem er illkynjað æxli sem étur innan úr þjóðarlíkamanum þar til hann er helsýktur og vart starfandi lengur.

 

Við sem þjóð upplifum fordæmalaust góðæri í 1.100 ára sögu okkar.

Við höfum aldrei verið ríkari.

Samt eru forsendur sjálfstæðis okkar að bresta, við virðumst ekki geta stjórnað okkur sjálf.

Enda höfum við falið það verk illa upp öldnum börnum.

 

Forn gildi og sannindi siðmenningar, velferðar og velmegunar, friðar og öryggis, eru einskis virt lengur.

Græðgin og sjálftakan ráða för.

Ef ég er nógu sterkur, nógu ríkur, þá má ég allt.

Ég þarf bara að kaupa mér stjórnmálamenn, stjórnmálaflokka, og þeir skapa mér það umhverfi að ég fer mínu fram.

Eða einhvern veginn svona er tilfinning fólks gagnvart þeim sem eiga og ráða landinu.

Og ástandið og vantraustið eftir því.

 

Núna þegar sjálftaka þessa fólks á dómsstólum hefur verið stöðvuð þá ættum við sem þjóð að gera kröfu um endurbót, um siðbót.

Að unnið sé að sáttum, og komið sé til móts við kröfur fólks um að þjóðfélagið sé sanngjarnara og réttlátara.

Og eitthvað sem heitir þjóðarhagur sé líka þarna sem viðmið í stjórnarráðinu.

 

Á þetta er Styrmir Gunnarsson að benda í yndislegum pistli hérna á Moggablogginu í dag.

Vinkill hans á afsögn Sigríðar sem hluti af sátt er mjög góður. 

Sem og ákall hans um ný vinnubrögð og það sé tekist á við vandamál, í stað þess í besta falli hundsa þau, en oftast gert eitthvað sem gerir bara vont verra.

Og hann bendir á eitt sem þarf að gera svo sættir náist;

"Eitt af því er að fallast á sjálfsagðar kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna um að rannsókn fari fram á enn einum þætti hrunmálanna, sem snúi að þeim fjölskyldum, sem misstu allar eigur sínar í hruninu án þess að vera á nokkurn hátt orsakavaldar í því.".

 

Því það er nefnilega þannig að þó lög séu forsenda byggðar, að þá er sáttin það líka.

Að það sé traust, ekki vantraust.

Að það sé friður ekki óöld.

 

Þess vegna er ákaflega mikilvægt að menn hætti þessu röfli um dóminn að utan, heldur einhendi sig í að endurreisa hið laskaða dómskerfi, þannig að því sé treyst á eftir.

Það þarf að hlusta á fólkið sem getur ekki lifað mannsæmandi lífi á launum sínum.

Það þarf að hlusta á fólkið sem upplifir vergang húsnæðismarkaðarins.

Og yfirhöfuð, það þarf að hlusta.

 

Og reyna síðan sitt besta.

Til þess var þessi ríkisstjórn kosin.

 

Og það er ekki útséð með að hún geti ekki gert það.

Hlustað og gert sitt besta.

 

Þá mun traustið vaxa á ný.

Kveðja að austan.

 

 


Látum reyna á lögbrotin.

 

Segir hinn nýskipaði dómsmálaráðherra, eins og Sigríður sjálf hefði ekki getað tekið þann slag. 

Í alla stað mun harðskeyttari og ákveðnari manneskja.

 

Til hvers var verið að skipta út ráðherra ef einbeittur brotavilji er ennþá til staðar??

Viljinn til að setja þjóðina á bekk með útlagaríkjum Evrópu, ríkjum sem virða ekki sjálfstæði dómsstóla.

 

Hvílík auðmýkt, hvílík iðrun.

Hvílíkt skrípó.

Þetta lið þarf ekki einu sinni að vera blindfullt til að verða sér til skammar.

 

Hvað er svo erfitt við að skilja að lög gilda í landinu.

Og það á að fara eftir lögum.

Heldur þetta lið að það standi sérstaklega í stjórnarskránni að Alþingi og ríkisstjórn sé undanþegið lögum, að það megi skipa sínum málum eftir geðþótta, eða það sé hafið yfir lögin??

 

Hvað veldur þessum hroka??

Hvar eru endamörk hans??

Þarf eldingu að himnum ofan þegar ekki er látið segjast við alvarlegasta áfellisdóm sem hægt er að fá??

 

Nei, það er róið í sömu knérum.

Grenja á út undanþágu frá leikreglum lýðræðisins.

Enginn á að fá að dæma nema hann sé í flokknum, og helst skyldur og tengdur.

 

Síðan á að endurreisa glatað traust á dómskerfinu.

Til þess er fengið fólk sem eyðilagði það traust og skilur ekki af hverju.

Og þetta fólk á að vera það besta sem við eigum.

 

Ja hérna.

Ja hérna.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Ekki að tala um margra mánaða skipun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig varð þessi maður hæstaréttardómari??

 

Sem þekkir ekki muninn á lögbrotum og kunningjaskap??

Jú, hann var vinur Davíðs, og þá voru lögin ekki flóknari en það, að vinur gat orðið dómari.

Samt var reiknað með því að hann þekkti muninn á lögum og vinskap.

Eða klíkuskap.

 

Jæja, það var rangt.

En Jón Steinar afhjúpaði ekki vanþekkingu sína á lögum og reglu með gaspri sínu gegn skýrum dómi Mannréttindadómsstóls Evrópu.

Hann fékk nefnilega prófraun áður.

 

Sú prófraun var neyð þjóðarinnar sem þáverandi seðlabankastjóri, Davíð Oddsson náði að bjarga fyrir horn á neyðarstund.

Lög sem vísuðu í grunnréttindi þjóðar, kallað neyðarréttur.

Eitthvað sem allir skilja, nema þeir sem virkilega ganga erinda fjármagns og auðs.

 

Einn hæstaréttardómari vildi krossfesta þjóðina, gera hana gjaldþrota, eyðileggja sjálfstæði hennar um aldur og ævi.

Þannig að mat Davíðs, að vinskapur væri sama og hæfni, reyndist rangt.

 

Seinna setti Sjálfstæðisflokkurinn skýr lög um að dómaraefni yrðu að sæta hæfnismati, og samkvæmt lögum yrði skipuð hæfnisnefnd til að meta kosti þeirra og galla.

Svo reyndi á þau lög þegar Landsréttur var stofnaður, og ráðherra Sjálfstæðisflokksins skipaði hæfnisnefnd, og gaf henni í vegarnesti erindisbréf um skýr fyrirmæli, byggð á skýrum lögum, um hvernig nefndin átti að vinna.

Sem gekk eftir en sami ráðherra kaus að vera ósáttur við þá niðurstöðu, og eftirleikinn þekkja allir.

 

Lög eru samt lög, hvort sem menn virða þau eður ei.

Ekki svo flókið að jafnvel fyrrverandi hæstaréttardómarar ættu að skilja þessi einföldu sannindi.

 

En maðurinn sem vildi þrælka þjóðina í þágu vina sinna, hrægamma og auðmanna, hann samt gerir ágreining við þessi sannindi.

Vandséð nema ef vera skildi að dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði gleymt að nefna í skipunarbréfi sínu, að vinskapur  og klíkuskapur væri bæði jafngild reynslu og menntun.

Og ekstra plúss væri að ganga erinda auðs og auðmanna.

Sem Sigríður Andersen vissulega klikkaði á.

 

En samt, réttlætir á engan hátt jöfnuð hins fyrrverandi hæstaréttardómara að skýr lög séu jafngild verkreglu kunningsskaparins.

Mannréttindadómstóllinn gerði vissulega þá kröfu að skipan dómara væri samkvæmt lögum, en hann hefur hvergi minnst á að þegar varamenn eru kallaðir inn, að þá megi ekki meintur vinskapur og klíkuskapur, hæfni eða vanhæfni, nafnalisti eða annað ráða för.

Hann hreinlega hefur ekkert sagt um það mál.

 

Og þegar einhver vitleysingur útí bæ leggur það að jöfnu, þá er það einfaldlega vitleysingur út í bæ sem fabúlerar þar um.

Og á ekkert erindi í fjölmiðla.

Ekki nema í miðlum þar sem eigendur hafa hag að aðför að lýðræði og dómsstólum.

 

Mogginn minn er greinilega í þeirri stöðu í dag.

Hann múgæsir, hann hagar sér eins og rótgróið flokksblað Pírata og Samfylkingar.

 

Samt ritstýrir maðurinn sem bjargaði þjóðinni á Ögurstundu, blaðinu.

Og samt er maðurinn sem gekk erinda hrægamma upphafinn.

 

Er þetta ekki bara kennslubókardæmi um þversögn??

Ég bara spyr.

 

En aumt er það fólk sem styður málstað þeirra sem kosta Jón Steinar.

Þrælkun þjóðar í þágu auðs.

 

Lægra er vart hægt að leggjast.

Kveðja að austan.


mbl.is „Þá yrði nú gaman!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sú sem sagði að auðlind væri vara.

 

Og ætti því að vera eign auðmanna.

Fékk upphefð þess fjármagns sem ætlar að selja land og þjóð.

Aumkunarverðari getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki orðið.

 

Hvenær skyldi hann skipta um nafn??

Flokkur auðs og fjárplógsmanna.

 

Þetta er eins og faðirvor andskotans.

Kveðja að austan.


mbl.is Þórdís tekur við dómsmálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að höggva hnútinn er Landsréttar.

 

Dómurinn er ólöglegur, og í honum er fólk sem var handvalið.

Og það sem verra er, meðdómendur þess þögðu.

Fólk sem skilur ekki grundvallaratriði laga og réttar, að lög séu virt, er ekki hæft til að dæma um annarra sök.

Allir eiga rétt á sanngjörnum dómi, og forsenda þess er að dómstólar séu sjálfstæðir og óháðir öllum nema lögum og reglum  samfélagsins.

 

Þegar dómari er handvalinn, á skjön við skýr lög, þá veit enginn af hverju hann var valinn og lög voru brotin.

Fólk hefur spurt, hvað kemur það hagsmunum meintum dópista og brotamanni við??

En hver veit hvort hinn meinti brotamaður hafi verið í hinni klíkunni á dópmarkaðnum, og fjárfestur dómari nýti vald sitt til að gera upp sakir við hina.

Það veit nefnilega enginn hverjir þessir hinir eru.

 

Í Bandaríkjunum var ríkt fólk fangelsað fyrir að hafa keypt börnum sínum forgang að virtum háskólum.

Slíkt er lögbrot, og þegar upp um kemst, þá er refsað fyrir slíkt.

Vegna þess að reglur um umsókn eru skýrar, og eiga að ráðast að getu og hæfni, ekki handvali mútugreiðslna og annarra ívilnana.

 

Það eina sem er vitað um hina handvöldu dómara í Landsrétti, er að ráðherra dómsmála laug um forsendu skipana þeirra. 

Fjölga konum, allt í lagi, en Ragnheiður Bragadóttir var aldrei næsta kona samkvæmt hinum ólöglega kynjakvóta, en stjórnsýslulög kveða skýrt á um að hæfni en ekki kyn, eigi að ráða þegar fólk er ráðið í stöður hjá ríkinu.

Auka vægi dómarareynslu, en þó hið algjöra lögbrot að láta slíkt vægi vera 100%, þá hefði Jón Finnbjarnarson aldrei komið til greina, á undan honum á lista hæfnisnefndar voru héraðsdómara með sömu reynslu, en meiri menntun.

Síðan hefðu Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson aldrei vikið af lista miðað við uppgefnar forsendur ráðherra.

Aðrir hefðu alltaf farið á undan.

 

Ráðherra sem lýgur, og handvelur, sæti í fangelsi í Bandaríkjunum í dag.

Og það fyrsta sem væri rannsakað væri mútugreiðslur og mafíutengsl.

Því það lýgur enginn og handvelur án ástæðu.

 

Vissulega búum við ekki við svona skýrar leikreglur réttarríkisins, hér mega ráðherrar og þingmenn ljúga og svíkja og þjóna erlendum hrægömmum og fjárkúgurum, án þess að sæta ábyrgð.

Í því samhengi eru brot Sigríðar léttvæg.

 

En lögbrot hennar snéru að hina grafalvarlega, hún vó að sjálfstæði millidómstigsins sem kennt er við Landsrétt.

Fjórir af fimmtán dómurum eru án umboðs laga, og enginn veit hvað veldur.

Vinna þeir fyrir dópsala, erlenda hrægamma, innlenda fjárspekúlanta sem vilja komast yfir orkuauðlindir þjóðarinnar, eða hreinlega keyptu þeir sér forgang líkt og hið ríka fólk í Bandaríkjunum gerði.

Eða hvað??

Það veit enginn, við búum ekki í Bandaríkjunum, sjálfstæður saksóknari rannsakar ekki hið óeðlilega, hina grafalvarlegu aðför að réttarríkinu.

 

En það er óumdeilt, að fólk sem situr í dómi í skjóli lögbrota og hagsmunatengsla, er ekki hæft til að dæma samborgara sína vegna brota á ríkjandi lögum og reglum.

Og jafnvel heimskur getur ekki haldið öðru fram.

Þetta fólk þarf því að víkja.

Og það á að sæta rannsókn þó við þurfum ekki að fara amerísku leiðina að stinga því í grjótið og láta það síðan laust gegn tryggingu.

 

Um þetta er ekki deilt í lýðræðis og réttarríkjum.

En í slíkum ríkjum er ekki heldur deilt að þeir sem þegja í stað þess að verja réttarríkið, að þeir eru ekki heldur hæfir til að gegna embættum sínum.

Þeir þurfa ekki að vera hluti af sömu svikamyllunni, en þögn þeirra tjáir allavega alvarlega vanhæfni.

Og slíkt fólk á heldur ekki að skipa dómsstóla þjóðarinnar.

 

Það fékk próf, og það féll á því.

 

Landsréttar er því að höggva á hnútinn.

Eins og leggur sig eiga dómarar réttarins að segja af sér og axla ábyrgð á gönuskap sínum.

Þó feit laun, og feit eftirlaun hafi hugsanlega brenglað dómgreind og heft tungu þeirra og samviskugjörðir, þá er slíkt aldrei afsökun.

 

Þeim varð á, og þeir eiga axla ábyrgð.

Hugsanlega var bakarinn Sigríður Andersen sek, en ábyrgð hennar axlar ekki ábyrgð smiðsins, dómaranna sem þögðu þegar embætti þeirra krafðist að þeir segðu.

 

Hið gjörspillta valdakerfi okkar má ekki komast upp með þennan kattarþvott.

Svo einfalt er það.

 

Annað er viðurkenning á auðræði, ekki lýðræði.

Kveðja að austan.


mbl.is Dómararnir enn að meta stöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berrassaður Bjarni.

 

Með allt niðrum sig gjammar ennþá eins og lítill krakki með silfurskeið í munni sem allt sitt líf hefur treyst á pilsfald móður sinnar til að greiða úr hlutum.

Axlar ekki ábyrgð, áttar sig aldrei á alvarleik gjörða sinna.

 

Skítkast hans út í Mannréttindadómstólinn er að sama meiði og manna sem eru annað hvort á gjörgæsluvakt Evrópuráðsins eða er meinað innganga vegna þess að þeir skilja ekki leikreglur lýðræðisins, halda að lýðræði sé að segja; "ég ræð, ég er lýðræðið".

Vissulega geta margir dómar orkað tvímælis, en það er óumdeilt að kröfur Evrópuráðsins um að aðildarríki þess virði grunnmannréttindi þegna sinna, og virði lög og reglur lýðræðisþjóðfélaga, er einn af hornsteinum vestræns lýðræðis.

Enda var það eitt af því fyrsta sem nýfrjáls ríki Austur Evrópu gerðu eftir að þau losnuðu undan ægivaldi Sovétríkjanna var að sækja um aðild að Evrópuráðinu.  Þannig töldu þau sig best geta tryggt lýðræðislega þróun heima fyrir.

Þar sem lykilatriðið eru frjálsar kosningar og sjálfstæði dómsstóla.

 

Um þetta er ekki rifist nema núna á Íslandi.

Kosningasvindl er líklegast skýring þess að Dagur B Eggertsson er núverandi borgarstjóri, og framkvæmdavaldinu finnst það eðlilegt að það virði ekki lög um skipan dómara í næst æðsta dómsstig þjóðarinnar.

Kosningasvindlið hefur ekki ennþá verið kært þó augljóst sé að það á að kjósa uppá nýtt í Reykjavík, en ordur komu að utan að lýðræðisríki sem er aðili að Evrópuráðinu þurfi að virða sjálfstæði dómsstóla á þann hátt að dómarar séu skipaðir á löglegan hátt.

Og lögbrjótarnir sem ábyrgðina bera, rífast yfir því.

 

Svona hagar fullorðið fólk sér ekki.

Nema jú kannski Erdogan Tyrklandsforseti og Lúkasjenkó einræðisherra Hvíta Rússlands.

Aðrir sem fá svona ákúrur, sýna iðrun og lofa bót og betrun.

En forherðast ekki í glæpsamlegu atferli sínu.

 

Bjarni hefur vissulega komist upp með ýmislegt misgruggugt innanlands svo efni er í framhaldssögu af hinum vinsælu kvikmyndum um Guðföðurinn, en hann breytir ekki grunngildum Evrópuráðsins, sama hve stórt frekjukast hann fær.

Og að hóta úrsögn frá Mannréttindadóminum út af slíku grundvallarmáli að vera krafinn um að virða landslög um skipan dómara er slík firra að leitun er að annarri eins heimsku.

Þá endanlega yrði hann og íslenska þjóðin að algjöru athlægi um alla heimsbyggð.

 

Bjarni er síðan svo vitlaus að hann játar algjöra samsekt með lögbrjótnum Sigríði Andersen, að hann hafi staðið með hverju hennar skrefi sem hún hefur tekið í glímu sinni við að komast upp með lögbrot sín.

Síðasta skref Sigríðar var að segja af sér því henni er ekki lengur stætt að fara með yfirstjórn dómsmála í landinu, og miðað við játningu Bjarna er augljóst að hann á og mun stíga slíkt skref líka.

Því það er með lögbrjóta eins og Skytturnar, einn fyrir alla og allir fyrir einn.

 

Þetta er ótrúlegur málflutningur í alla staði hjá manni sem ekki bara er formaður stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar heldur er líka fjármálaráðherra í núverandi ríkisstjórn.

Að hann skuli ekki skynja alvarleik málsins og að hann skuli ekki sýna iðrun og lofa yfirbót og í þokkabót játa sig algjörlega samsekan brotamanneskju sem þurfti að axla ábyrgð, bendir til þess að djúp kreppa ríkir í Sjálfstæðisflokknum og í ríkisstjórn landsins.

Að það vanti ekki bara vit og skilning á leikreglum lýðræðisins heldur líka yfir höfuð vit á hvernig forystufólk hagar sér.

Eitthvað sem Styrmir Gunnarsson hefur verið að benda mjög kurteislega á í mörgum pistlum sínum undanfarið.

 

Það er ekkert eðlilegt við þessi viðbrögð.

Það er ekkert eðlilegt að ganga út frá að hinn almenni sjálfstæðismaður sé hreinræktað fífl sem hægt er að segja hvað sem er, að því gefnu að það sé nógu heimskulegt.

Það er ekkert eðlilegt að rífa stólpa kjaft vegna dóms sem tekur á grundvallarmáli eins og sjálfstæði dómsstóla og að landslög þar um séu virt.

Það er eins og hver pytturinn á fætur öðrum sé leitaður uppi til að detta ofaní.

 

Það skýrir margt um hvernig ástandið er í dag.

Kveðja að austan.


mbl.is Bjarni telur tvo kosti í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Steinar rífur kjaft.

 

Mætti halda að hann hafi verið að funda með Erdogan út í Tyrklandi nýlega eða hann hafi verið í bréfaskóla hjá Lúkasjenkó í Hvíta Rússlandi.

Lært að brúka munn af Erdogan, og hvernig einræðisherra brýtur lýðræði á bak aftur eins og forseti Hvíta Rússlands gerði sælla minninga.

Aðrir ybba sig ekki yfir þeirri grundvallarreglu lýðræðisins að lög gilda.

Í lýðræðisríkjum, og jafnvel í mörgum einræðisríkjum líka.

 

Mannréttindadómstóll Evrópu benti einfaldlega á þá grundvallarreglu að dómsstólar eru ekki sjálfstæðir ef annarlegir hagsmunir ráða skipan dómara en ekki gildandi lög.

Ef íslenskir stjórnmálamen vilja nota úllen dúllen doff regluna við skipan dómara, þá setja þeir fyrst þá reglu í lög, og segja síðan úllen dúllen doff eins og Sigríður Andersen gerði.

Ekkert flókið, allir sáttir, og ekkert víst að dómstóllinn væri verr skipaður á eftir.

 

Evrópuráðið er elsta samstarf lýðræðisríkja í heiminum í dag.

Gerir aðeins þá einu kröfu til aðildarríkja sinna, að þau virði leikreglur lýðræðisins.

Treysti ríki sér ekki til þess, eða telji kröfu þar um "árás á fullveldi" sitt þá eru þau náttúrulega ekki í Evrópuráðinu.

Enda öllum frjálst að koma og fara, ólíkt einræðisbandalaginu kennt við Evrópusambandið.

 

Sú völ og kvöl er okkar.

Ekki annarra.

 

Og valkosturinn felst ekki í að brúka munn.

Kveðja að austan.

 
 

mbl.is Dómurinn „árás á fullveldi Íslands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syndaflóðið er rétt hafið.

 

Og eins og allir syndarar vita þá er aðeins ein leið til að stöðva slík flóð, og það er að iðrast og lofa bót og betrum.

 

Því miður fyrir núverandi stjórnmálastétt þá héldu forverar þeirra að skýrt væri kveðið á í stjórnarskrá landsins að Ísland væri lýðveldi, og lyti lýðræðislegum stjórnarháttum.

Ekki bananalýðveldi þar sem einn valdaflokkur réði öllu, óháð kjörfylgi, óháð lögum og reglum.

 

Ef þeir hefðu haldið annað, þá hefðu þeir aldrei látið landið gerast aðili að Evrópuráðinu, og undirgangast þær skuldbindingar sem því fylgdi, þar á meðal þeim sem snúa að mannréttindum og mannréttindasáttmála Evrópu.

Bananalýðveldi eiga hins vegar ekkert erindi í slíkum klúbbi lýðræðisríkja enda hafa Snatar valdflokksins uppi hávært gjamm um fáráð þess að hér ríki lög og regla, og að skipan dómara fari eftir lögum, en ekki handafli og geðþótta flokksins.

 

Um fáráð þessa alls, og hvað það skuli vera hlægilegt að við sem þjóð skulum hafa fengið á okkur slíkan dóm, að þá má vísa í frétt hér Mbl.is þar sem frægt fólk í Bandaríkjunum var handtekið fyrir að svindla við að koma börnum sínum að í fræga háskóla.

Þegar hæfnina skorti þá var handvalið gegn náttúrulega ríflegri þóknun.

Þess vegna eru íþróttaþjálfarar viðkomandi skóla ríkir, og búbótin er góð fyrir hæfari nemendur sem tóku prófin fyrir hina miður hæfu.

Svo sem ekki óeðlilegt að reyna þetta, nema að þetta eru skýr lögbrot, auk þess að grafa undan trúverðugleika viðkomandi skóla.

Og lögbrotum fylgir afleiðing enda Bandaríkin réttarríki.

 

Hér á Íslandi geta dómarar ekki einu sinni virt lögin.

Og engin spyr sig að þegar hæfnina skorti, hvað fór á milli.

Og fólk spilar sig síðan hálfvita til að þykjast ekki skilja skýran áfellisdóm yfir réttarríki okkar.

Eina umræðan er, hvernig er hægt að sniðganga niðurstöðuna á íslenskan máta.

Hvernig getum við verið skrípó á meðal þjóða.

 

Svo hæðumst við að Trump og fólkinu sem kaus hann.

Lítum aldrei í eigin barm hve óttalega aumkunarverð við getum verið þegar kemur að virða leikreglur lýðræðisins.

Bót og betrun er ekki í sjónmáli.

Annað hvort þegja menn þunnu hljóði, eða bulla eins og Birgir Ármannsson gerði í fjölmiðlum í gær.

 

Syndaflóðið er ekki í rénum.

Það eitt er víst.

 

En það er ekki ljótu köllunum að utan að kenna.

Hvað þá einhverjum aðkomumönnum eins og sagt var á Akureyri fyrir ekki svo löngu.

 

Sökin er okkar.

Barnaskapur í bland við forheimsku.

 

Ásamt einbeittum brotavilja.

Kveðja að austan.

 

 
 

mbl.is Fleiri mál bíða úrskurðar MDE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring.

 

Eða þykir elítunni það sjálfsagt að við séum á pari við Tyrkland?

 

Sjálfstæði dómstóla er ein af þremur stoðum vestrænna lýðræðisríkja.

Grundvallarforsenda slíks sjálfstæðis er að farið sé eftir lögum þegar dómarar eru skipaðir.

Að lög ráði ekki geðþótti því geðþótti er eitt af tækjum einræðis eða alræðis.

 

Sjálfstæði dómsstóla er eitt af því fyrsta sem fellur þegar fasismi brýtur lýðræði á bak aftur.

Það gerðist í Evrópu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar, með skelfilegum afleiðingum, og það gerðist í Tyrklandi fyrir nokkrum árum.

 

Og núna á Íslandi.

Félegur félagsskapur eða hitt þó heldur.

 

En auðvitað er það ekki svo.

Núna þegar slegið var á puttann á Sjálfstæðisflokknum, og hann vinsamlegast beðinn um að virða leikreglur lýðræðisins, þá mun það hafa afleiðingar.

Og alls ekki þær verstu að valdaklíkan hundsi dóminn að utan, og þjóðin verði svona skrípó meðal vestrænna lýðræðisríkja.

Þjóðin sem handvelur dómara sína eftir geðþótta valdaflokksins.

 

Afleiðingin er og verður aðeins ein.

Að leikreglur lýðræðins séu virtar.

Að farið sé eftir lögum.

 

Vissulega sársaukafullt fyrir valdaklíkuna.

Vissulega sársaukafullt fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Og endalok ráðherradóms Sigríðar Andersen.

 

En so be it.

Sumt er ekki val.

Kveðja að austan.


mbl.is Hafi engar sjálfkrafa afleiðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómarar sem virða ekki leikreglur.

 

Og skýr lög landsins.

Eru ekki hæfir til að dæma um brot annarra á lögum og reglum.

 

Það er ekkert flókið við þetta..

Dómarar Landsrétt eru vanhæfir, allir með tölu.

Bæði þeir sem sitja í skjóli lögbrota sem og þeir sem sættu sig við hina brengluðu hegðun.

 

Lögbrot geta aldrei verið forsenda réttar.

Kveðja að austan.


mbl.is Dæma engin mál í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2019
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 1536
  • Frá upphafi: 1321544

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1309
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband