Heiður er þess sem heiður ber.

 

Og Morgunblaðið á allan heiður skilið að tala líka við fólk, ekki bara skoffínin sem selja fjármagninu sálu sína.

 

Glæpur var framinn eftir Hrun, og þann glæp þarf að leiðrétta.

Og þökk sé þremenningunum í verkalýðshreyfingunni, og að ekki sé minnst á ötula og óeigingjarna baráttu fólksins hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, að þá er sú leiðrétting komin á dagskrá.

Með öðrum orðum þá sést glitta í mennskuna við sjóndeildarhringinn, og hún er eins og rísandi sól að morgni, bráðum mun hún skína um allt samfélagið.

 

En skömmin er líka þeirra sem skömmina bera, og hún er ekki endilega þeirra sem glæpinn frömdu eftir Hrun, þá stóðu öll spjót á stjórnvöldum, og meiri bógar hefðu líka getað bognað undan hinum alþjóðlega þrýstingi sem krafðist þess að fólki væri fórnað en fjármagninu bjargað.

Hin óendanlega skömm er fólksins sem þóttist vera á móti og fékk fjölmörg atkvæði út á þann þykjustuleik, en hefur ekkert annað gert en að taka þátt í misgáfulegum upphlaupum og froðusnakki, í stað þess að krefjast réttlætis og sanngirnis í samfélaginu.

 

Engin sýn, engin rök, engar tillögur.

Ekki einu sinni eitt upphlaup á þingi í þágu þeirra sem voru rændir eignum sínum eftir Hrun.

Og þetta auma fólk afhjúpar sig endanlega með stjórnun sinni á Reykjavík, þar eru engin blöð brotin til að hjálpa fórnalömbum Hrunsins, ungu fólki í húsnæðishraki, fátæku fólki á okurleigumarkaði, engar tillögur til hjálpar, til lausnar, ekkert sem þrýsti á stjórnvöld til að leggja sitt af mörkum.

Ekkert.

 

Hins vegar er reyndar eitt aumara en þetta auma fólk.

Og það er fólkið sem hneykslast á ástandinu, hneykslast á frjálshyggjunni, íhaldinu, fjármagninu, öllu kerfinu og auðræðinu, og kýs svo aumingjana.

Sem engu breyta, en með falsi sínu og svikum, náðu að koma í veg fyrir að raunhæft afl yrði til á þingi, sem berðist fyrir kerfisbreytingum, fyrir mennskunni og mannúðunni.

Fyrir þjóðina, fyrir almenning, fyrir börnin okkar.

Því það er upphaf og endir þess að hér er allt við það sama.

Eða þar til í síðustu viku.

 

Sólveig, Ragnar, Vilhjálmur eru hetjurnar.

Fólkið hjá Hagsmunasamtökunum sem aldrei gafst upp, eru hetjurnar.

Þúfurnar sem veltu hlassinu.

Þeirra er heiðurinn.

 

En það er okkar að tryggja þeim bakland.

Það er okkar að þagga niður í þeim sem skömmina bera.

Það er okkar að kæfa aumingjavælið.

 

Við höfum verk að vinna.

Kveðja að austan.


mbl.is Viðurkenna lánakjör sem kjaramál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bilaða platan.

 

Þegar kemur að því að verja hagsmuni auðs og fjármagns er Gylfa Magnússyni tamt að grípa til kjarnyrts máls jafnvel stóryrða.

Hver man ekki eftir Kúbu norðursins þegar hann vann bretavinnuna hina síðri, og núna er snargalið að lækka vexti.

 

Rökin eiginlega þau að það sem einn greiðir í vexti, fær annar í tekjur og því í raun hafi háir vextir engin áhrif á heildarhag almennings.

Gylfi hefði verið betri en enginn á nítjándu öldinni þegar leiguliðar víðsvegar um Evrópu risu upp gegn því sem þeir kölluðu arðráni landeiganda en sums staðar í álfunni gat leigugjald numið allt að 80% af ætluðum tekjum jarðarinnar. Þeir hefðu kiknað niður þegar Gylfi hefði sagt þeim að kröfur þeirra um lækkun væru snargalnar því það sem þeir greiddu, fengi annar, og þar með væri heildarhagurinn í jafnvægi.  Nema kannski hann batnaði ef leigugjaldið yrði hækkað í 90%.

En það var enginn Gylfi þá til að verja hagsmuni auðs og fjármagns, og hið meinta arðrán rann sitt skeið á enda og upp reis álfa velmegunar og velferðar.

 

Gylfi hins vegar gæti hins vegar hjálpað Norðmönnum að bæta sinn heildarhag, en eins og allir vita þá greiða þarlendir húsnæðiskaupendur mun lægri vexti en hérlendir, svo munurinn er allt að 150% sem vextir eru hærri hér á landi og samkvæmt rökum Gylfa er slíkt mikill skaði fyrir heildarhag Norðmanna.

Og sjálfsagt er þessi vandi lágra vaxta víðar í álfunni, með þeim skelfilegum afleiðingum að hinn síheimtandi tekjulægri hluti þjóðarinnar getur eignast þak yfir höfuð, allavega hamla hinir lágu vextir ekki slíka ósvinnu þó brask fjármagnsins við að ná upp kostnaði vegur þar uppá móti.

 

En einn hængur er á, sem allt vitiborið fólk ætti að sjá.

Að sá sem er arðrændur, honum er slétt sama þó pyngjur auðs og fjármagns fitni, hann vill bara ekki láta arðræna sig, og snýst til varnar, með tilheyrandi ókyrrð og upplausn.

Og ungt fólk sem vill skjól fyrir börn sín það er ekki alveg að spá í hávaxtatekjur eldra fólksins.

Ókyrrð og upplausn er beinn kostnaður fyrir samfélög, og hvernig sem á það er litið, þá eru allar bankainnstæður gamla fólksins verðlausar ef unga fólkið gefst upp á vaxtaokrinu og fer annað með menntun sína og þekkingu.

 

Þess vegna er Gylfi Magnússon biluð plata.

Hann bullar með stóryrðum, gegn hagsmunum þjóðar, en fyrir hagsmuni Örfárra.

En hann er verðlaunuð biluð plata, gegnir núna formannsembætti í bankaráði Seðlabankans, í stað þess að vera afplána dóm á Hrauninu fyrir landráð því það kallar stjórnarskráin það athæfi þegar innlendir aðstoða erlenda við yfirgang og kúgun gagnvar hagsmunum lands og þjóðar.

Og verðlaun Gylfa og upphefð segir allt um hug stjórnmálastéttarinnar til almennings, og með hverjum hún stendur þegar hagur auðs og fjármagns er annars vegar en ránið og ruplið á almenningi er hins vegar.

Fögur orð og fyrirheit breyta þar engu um, þeim er hægt að stjórna og stýra eftir því sem vindar blása, en hitt er raunveruleiki, það sem er.

 

Og að lokum þetta.

Það er einföld staðreynd að neyðarlögin sem samin voru í Seðlabankanum í aðdraganda hrunsins björguðu sjálfstæði þjóðarinnar og lífskjörum almennings.

En hefðu þau verið samin ef Gylfi Magnússon hefði þá leitt bankaráð Seðlabankans??

Svarið er augljóslega Nei, ekki frekar en ef Samfylkingin hefði leitt þáverandi ríkisstjórn.

Auðn og rústir, án vonar líkt og í Grikklandi væri þá hlutskipti þjóðarinnar í dag.

 

Höfum það í huga þegar bilaðar plötur eru spilaðar.

Fyrir hverja þær vinna.

Hvaða hagsmunum þær þjóna.

 

Því stjórnmálastéttin mun beita þeim fyrir sig þegar kemur að næstu atlögu að þjóð og þjóðarhag.

Ráninu á orkuauðlindum hennar.

 

Sú atlaga er þegar hafin.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Satt best að segja snargalið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. apríl 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1318296

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband