Af þumalskrúfum og keyptum skoðunum.

 

"Hún snýst nú samt" er ein frægasta setning sögunnar. 

Höfð eftir einum frægasta vísindamanni allra tíma, Galíleó Galíleí þegar rannsóknarrétturinn neyddi hann til að afneita sólmiðjukenningunni sem var andstæð kenningum kirkjunnar um að jörðin væri miðja alheimsins og sólin og aðrar plánetur snérust í kringum hana.

Galíleó þurfti ekki að segja þetta til að ítreka að játning hans væri fölsk, knúin fram með þumalskrúfum þess tíma, hann gat alveg þagað, eða fullyrt hundrað þúsund sinnum að jörðin væri flöt, og miðja alheimsins.

Því það voru útreikningar hans sem sönnuðu að sólin væri miðja sólkerfisins, ekki orð hans.  Og orð hans um annað breyttu þar engu um.

 

Þessu einföldu sannindi vilja oft gleymast í orðræðu dagsins. 

Að það séu rök og rannsóknir sem leggja grunn að staðreyndum, ekki orð og fullyrðingar, hvað þá að hægt sé að vitna í sannleika þumalskrúfanna eða orð sem borgað er fyrir.  Því þumalskrúfurnar eða þrýstingur fær menn til að segja það sem ætlast er til að þeir segi, og fyrir borgun segja menn það sem þeim er borgað fyrir.

 

Það er oft erfitt að eiga við keypta menn, þeir ljúga sjaldnast, en teygja og toga rök og staðreyndir þar til þær ríma á einhvern hátt við hina fyrirfram ákveðna niðurstöðu sem þeim er borgað fyrir. 

Nýlegt dæmi er lögfræðiálit innvígðra sem Guðlaugur Þór vitnar í til að staðfesta að stjórnarskráarbrot hans séu ekki stjórnarskráarbrot, það þarf vissa þekkingu til að sjá rökvilluna, eða finna út hvað staðreyndum er sleppt í rökleiðslunni. 

Þess vegna er ágætis þumalputtaregla að hundsa slíkt með öllu, það er vitað að það er logið þegar þess þarf, og það er vitað fyrirfram um niðurstöðuna. 

En með því að hundsa, er sá sem þarf að blekkja, neyddur til að leita til hlutlausra sem njóta þess vafa að fyrirfram efast enginn um niðurstöðu þeirra.

 

Þess vegna leitaði utanríkisráðuneytið líka til okkar helsta sérfræðings á sviði alþjóðréttar, Stefáns Más Stefánssonar prófessors og ásamt Friðriki Árna Friðrikssyni vann hann álitsgerð um hvort samþykkt orkupakka 3 stæðist fullveldisákvæði stjórnarskráarinnar.

Niðurstaða þeirra félaga var eins afdráttarlaus eins og hægt er að ætlast til af lögfræðingum, því þeir passa sig á að hafa alltaf opna undankomuleið ef dómur fellur gegn áliti þeirra;

"Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða höfunda álitsgerðarinnar að verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, eins og ráðgert er að taka hana upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, rúmist innan ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. ".

Fyrir þessari niðurstöðu færðu þeir rök sem óþarfi er að rekja hér.

Og hvernig sem Guðlaugur reyndi, hvernig sem ríkisstjórnin reyndi, þá tókst henni ekki að ljúga sig framhjá þessari niðurstöðu Stefáns og Friðriks.

 

Hvað gera bændur þá??

Það er ekki vitað, og verður ekki vitað, hvaða meðölum var beitt, það er hvers eðlis þumalskrúfan var, en niðurstaðan er alveg í anda þess sem Galíleó sagði þegar hann var neyddur til að draga til baka kenningar sínar um að sólin væri miðjan sem allt snérist um. 

Orðum breytt en ekki rökstuðningi, og því náttúrulega stendur fyrri niðurstaða óhögguð.

 

Utanríkisráðuneytið birti bréf frá þeim félögum þar sem niðurstöðum álitsgerðar þeirra var hafnað, og fullyrt að málsmeðferð ráðherra stæðist stjórnarskrá.  Svo ég vitni í hina meintu yfirbót þeirra;

"1. Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu. ".

þá er ljóst að þarna eru orð, ekki röksemdir sem hnekkja fyrri ályktunum.

 

Þess vegna geta þeir sem ekki eru beittir nútíma þumalskrúfum haldið sig við rök og niðurstöður þeirra félaga sem fram koma í þegar birtri álitsgerð þeirra, og hún verður ekki fölsuð héðan af.

"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.",

Afdráttarlaus niðurstaða, studd gildum rökum.

 

Þó þumalskrúfan er á, þá nýta þeir sér vit Guðlaugs og hæða hið meinta vægi hinnar sameiginlegu yfirlýsingu hans og embættismanns ESB og óþarfi að hjálpa Guðlaugi að sjá í gegnum þá hæðni. 

Eins er ekki við öðru að búast en að iðrandi syndari geri lítið úr fyrri yfirlýsingu, slíkt var þrautreynt hjá rannsóknarréttinum og Stalín var líka mikill aðdáandi slíkrar iðrunar.  Pyntingarmeistarar hans lögðu oft nótt sem nýtan dag við Moskvuréttarhöldin til að fá hinn sanna iðrunartón, iðulega var réttarhöldum frestað og þeir beðnir um að slípa til tóninn, áður en áfram var haldið.  Og ekki þarf að taka fram að íslenskir kommúnistar féllu á kné og lofuðu hinn mikla leiðtoga fyrir að hafa komið upp um slíka syndara og svikara.

 

Hvort Guðlaugur hafi náð slíkum árangri má efast, svona hljómar iðrun Friðriks og Stefáns þar sem þeir fjalla um hvað gerist ef farið er eftir tillögum þeirra;

"5. Þessi leið er hins vegar ekki gallalaus fremur en hin. Þeir ágallar lúta að hinu sérstaka eðli EES-samningsins og samstarfsins. Eins og bent hefur verið á hefur ekki reynt á þessa leið til hlítar í 25 ára sögu samningsins og því margir pólitískir óvissuþættir til staðar varðandi afleiðingarnar. Það kann að reynast torsótt að fá slíkar undanþágur samþykktar.".

Hugur þeirra er hins vegar óbugaður og þeir fífla Guðlaug þegar þeir umsnúast gagnvart afskiptum ESA, treysta því að læst fólk hafi lesið álit þeirra og viti hvílík fjarstæða þetta er, eða er einhver sem trúir að ESA framfylgi ekki tilskipunum ESB, eða það taki íslensk stjórnvöld einhverjum silkihönskum??

"3. Þrátt fyrir að við teljum að þessi leið sé ekki hafin yfir allan lögfræðilegan vafa að þessu leyti þá teljum við mjög ósennilegt að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið. Ástæðurnar eru eftirfarandi: a. Viðkomandi reglugerð er tekin upp og innleidd. b. Ákvæði hennar sem varða raforkutengingar milli landa koma ekki til framkvæmda nema slíkri tengingu verði komið á. c. Slíkri tengingu verður ekki komið á nema með samþykki Alþingis, samkvæmt þeim lagalega fyrirvara sem gerður er við innleiðinguna. ".

Þeir efast ekki í greinargerðinni, þar segja þeir meðal annars þetta; 

". Þessar meginreglur ganga þó ekki svo langt að þær gefi markaðsaðilum rétt á að krefjast þess að raforkutengingum sé komið á eða þær stækkaðar. Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.".

Svona í ljósi þess að skýr umsaminn fyrirvari í stofnsamningi okkar um verndun búfjárstofna hélt ekki í nýlegum dómi ESA þar sem stjórnvöld er þvinguð að leyfa innflutningi á sýklum, eða að fyrri niðurstaða stofnunarinnar um að íslensk stjórnvöld hefðu innleitt innlánstryggingakerfi sitt samkvæmt ákvæðum tilskipunar ESB þar um, var gerð ómerk þegar bretar kröfðu þjóðina um bakábyrgð, þvert á innihald tilskipunarinnar, þá er ljóst hvað þeir félagar eiga við þegar þeir segja að slík staða gæti reynst Íslandi erfið.

 

Með öðrum orðum, sagan endurtekur sig.

Vald kúgar þekkinguna, en þekkingin smýgur samt úr höndum þess.

Því það er ekki hægt að kæfa þekkinguna, rökin lifa, staðreyndir lifa.

Orðunum er hægt að breyta, en ekki rökunum sem að baki búa.

 

Hins vegar ætti fólk að spyrja sig hvaða þumalskrúfum var beitt.

Og það þarf ekki endilega vera utanríkisráðherra sem átti þær.

Orkuauðlindir okkar eru undir, og erlent skítafjármagn ásælist þær.

 

Útí í Evrópu hafa innviðir verið einkavæddir í stórum stíl, allt í nafni hins frjálsa flæðis, og kaupendurnir að áskriftinni að almenningi hafa meðal annars verið kommúnistapeningar frá Kína, olíupeningar miðaldamanna við Persaflóa, að ekki sé minnst á peningaþvottavél mafíunnar, bæði þeirrar Austur Evrópsku sem og hinnar hefðbundnu við Miðjarðarhafið.

Og þetta skítuga fjármagn ber fé á stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, og ef það dugar ekki til, þá er gripið til óvandaðra meðala.

Lygarnar og blekkingarnar í þessu máli öllu eru án fordæmis í íslenskri stjórnmálasögu. Og hreint út sagt, fyrir utan hugmyndasviðs innlendra mannvitsbrekkna.

Og við erum ekki lengur einangrað eyland, sama þó við viljum í lengstu lög trúa því.

 

Vinnubrögðin eru þekkt.

Þumalskrúfurnar eru þekktar.

Niðurstöður þeirra eru þekktar, skyndileg kúvending án skýringa.

 

Á það við í þessu tilviki??

Veit það ekki.

En það er ekkert eðlilegt við þetta.

 

Höfum það hugfast.

Kveðja að austan.


Hvað er afsal á fullveldinu??

 

Ef það er ekki að afhenda alþjóðlegu yfirvaldi algjör yfirráð yfir orkuauðlindum landsins??

Hvar eru mörkin já Þorsteini Pálssyni og Birni Bjarnasyni ef þeim finnst þetta eðlilegur hluti af fullveldi þjóðarinnar??

 

Og hvaða rök færir Björn Bjarnason fyrir sínu máli sem ganga gegn skýru lagaáliti helsta sérfræðings þjóðarinnar í fullveldisrétti, prófessors Stefáns Más Stefánssonar og félaga hans??

Svarið við fyrri spurningunni er ekki þekkt, en við þeirri seinni að rök Björns er lagaálit svipaðra keyptra pésa og sögðu að Stefán og Lárus Blöndal hefðu rangt fyrir sér þegar þeir sýndu fram á það með skýrum rökum og beinum tilvitnum í lagatexta að það stæði hvorki í tilskipun ESB um innlánstryggingar að einstök aðildarríki væru í bakábyrgð fyrir innlánstryggingasjóði sína, eða að sú ábyrgð skapaðist vegna sjálfs samningsins um EES.

Að sjálfsögðu höfðu hinir keyptu rangt fyrir sér því vilhöll stjórnvöld borguðu þeim fyrir ákveðna niðurstöðu.  Og sama býr að baki í dag.

 

Í allri ICEsave deilunni laug Þorsteinn skuldbindingum uppá þjóð sína og núna í öðru máli sem snýst um mikla fjármuni og verðmæti, lýgur Þorsteinn líka; "Hann seg­ir þriðja orkupakk­ann hluta af reglu­verki Evr­ópu­sam­bands­ins sem okk­ur beri að inn­leiða í ís­lensk­an rétt sam­kvæmt samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES)." b Þetta er einfaldlega rangt, Ísland getur hafnað þessari tilskipan og tekið málið upp í sameiginlegri EES nefndinni líkt og prófessor Stefán Már hefur ítrekað bent á.

Þess vegna er ekki skrýtið að maður sem fer svona ítrekað frjálslega með sannleikann þegar hagsmunir auðs annars vegar og þjóðar hins vegar eiga í hlut, skuli kalla beinar lygar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, kúnstir.

Þorsteinn iðkar sem sagt kúnstir þessa dagana.

 

En Þorsteinn má eiga að hann styður þjóðina á sinn hátt.

Þegar menn eins og hann eru hálmstrá Guðlaugs Þórs, menn sem fram á síðasta, og lengur en það, beittu öllu sínu afli, og allri sinni málfylgju til að styðja fjárkúgun erlendra ríkja, þá er ljóst úr hvaða ranni allur sá málatilbúnaður er.

Þetta ætti hinn almenni sjálfstæðismaður að hafa í huga áður en tekur afstöðu til þessa gjörninga flokksins.

 

Það er verið að vega að þjóðinni.

En það lag heppnast ekki ef enginn styður.

 

Þá dagar það uppi.

Aðeins smánin lifir.

 

Smán þeirra sem enn einu sinni reyndu að selja þjóð sína.

Kveðja að austan.


mbl.is Kúnstir að baki orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. apríl 2019

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 995
  • Frá upphafi: 1321547

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 834
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband