Hræðsluáróður eða fáfræði??

 

Ekkert annað fær skýrt pistil Björns Leví Píratahöfðingja í Mogganum í dag.

Þar útskýrir hann fordæmalausan stuðning Pírata við orkupakka 3, fordæmalausan því sá stuðningur breytir Pírötum úr meinlausum andófsflokki í harðsvíraðan kerfisflokk sem gengur erinda auðs og auðmanna gegn hagsmunum almennings.

Eins og slíkir flokkar hafi ekki verið nægir fyrir á þingi.

 

Í pistli sínum sem hann kallar "Sundrungarpólitík og vælubíllinn" leggur hann út af Brexit vandræðum breta þar sem embættismannakerfið og stjórnmálaelítan leggur dag við nótt að afskræma niðurstöðu þjóðaratkvæðis um að Bretlandi eigi að segja sig úr Evrópusambandinu.

Ekki sem andófsmaður sem fordæmir slík vinnubrögð, heldur sem kerfiskall sem segir, "sjáið, svona hefst uppúr því að standa á móti vilja okkar".

Og þetta er það sem hann hræðist, eða réttara sagt, hræðir þá kjósendur sína sem ennþá taka eitthvað mark á honum;

"Ef við segj­um upp EES-samn­ingn­um og orkupökk­un­um, hvað verður þá? Það er staðan sem Bret­ar eru í núna, tveim­ur árum eft­ir að þeir ákváðu að segja bless við ESB hafa Bret­ar enn ekki hug­mynd um hvernig Brex­it end­ar. Við mynd­um þurfa að semja um nýj­an fríversl­un­ar­samn­ing við Evr­ópu. Jafn­framt mynd­um við missa aðgang að öll­um viðskipta­samn­ing­um okk­ar í gegn­um EFTA. Mynd­um við enda með betri samn­inga? Mynd­um við ganga inn í viðskipta­samn­ing til vest­urs? ".

 

Gallinn við þetta er bara sá að þó við samþykkjum ekki orkupakka 3, því hann gengur gegn fullveldi þjóðarinnar að þá gerist fátt annað en að við stöndum utan við hann.

Og ef þingmenn nenna ekki að lesa EES samninginn sem þeir vitna í með svona hræðsluáróður, þá gætu þeir allavega kynnt sér álit þeirra Stefáns Más og Friðriks Árna þar sem segir;

"Það er réttur EES/EFTA-ríkjanna samkvæmt EES-samningnum að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi innleiðingu á viðkomandi gerðum á þeim grundvelli, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Slíkt kallar hins vegar á sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 102. gr. samningsins." EES-samstarfið byggist á þeirri forsendu að EES/EFT A-ríkin innleiði löggjöf Evrópusambandsins i landsrétt sinn á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til, hvort heldur óbreytta eða með aðlögunum m.a. með hliðsjón af forsendum EES-samningsins og sérstöðu hvers ríkis um sig. Í því ljósi virðist nærtækt að Ísland leiti lausna sem eru fólgnar í því að aðlaga ákvæði þriðja orkupakkans þannig að þau fái samrýmst þeim takmörkunum sem stjórnarskráin setur framsali ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana líkt og ESA. Um slíkar lausnir þyrfti þá að semja á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við málsmeðferð samkvæmt 102. gr. EES- samningsins.".

 

ESB má vera komið langt frá upprunalegum lýðræðissjónarmiðum sínum ef það telur að umsaminn réttur um að neita upptöku gerða sé ígildi uppsagnar á EES samningnum, og í raun ótrúlegt að halda fram að slík alræðishugsun stjórni sambandinu í dag.

Auðvita mun ESB sýna því skilning að orkan ásamt fiskimiðum okkar er forsenda byggðar og búsetu á Íslandi, og því slíkt grundvallarmál að íslenska þjóðin vilji stjórna þeim málum sjálf.

Nú ef ekki, þá gerist ekkert annað en það að fyrri viðskiptasamningar sem við höfðum gegnum EFTA, sem og við höfum í gegnum Alþjóða viðskiptastofnunina WTO taka gildi, og örugglega mun Ísland ná svipaðri lendingu eins og Sviss, sem er í EFTA, en ekki í EES.

Að halda öðru fram er að halda því fram að ESB sé skrímsli sem engu eirir, og ef það er ekki hræðsluáróður, hvað er þá hræðsluáróður???

 

Hvað fær hins vegar þingmann til að halda því fram að ef þjóðin neiti að samþykkja orkupakka 3, að þá sé verið að segja upp EES samningnum, og þar með "Jafn­framt mynd­um við missa aðgang að öll­um viðskipta­samn­ing­um okk­ar í gegn­um EFTA."??

Er þetta fáfræði, að hann viti ekki neitt??

Eða er hann að ljúga??

Ljúga til að hræða??

 

Hvort sem er, þá hittir hann allavega skottið á sjálfum sér með þessum orðum sínum um sundrungarpólitíkina; "Hún kvart­ar und­an um­fjöll­un og ræðir ekki hvað er satt og rétt. Sundr­ungar­póli­tík­in kast­ar bara fram hálfsann­leik og mistúlk­un­um sem rýra traust og ýfa upp það óvissu­ástand sem sundr­ung­in þrífst í.".

Enda erfitt að halda sig við sannleikann þegar á að sannfæra kjósendur sína um að það sé þeim fyrir bestu að vera rændir orkunni.

Með þeim afleiðingum að rafmagnsreikningurinn snarhækkar, og þúsundir missa atvinnuna þegar landið verður tengt við hinn sameiginlega orkumarkað Evrópu.

 

En þetta er neytendavernd.

Fyrir þýska neytendur.

 

Það má halda því til haga.

Án þess að ljúga miklu.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilldarpistill, ekki síst vegna þess að heimfæra má afstöðu og hræðsluáróður Píratans Björns Leví upp á þingmenn og ráðherra allra ríkisstjórnarflokkanna einnig, að því er virst hefur þó þeir þegi nú flestir.

Napurt þegar þingmenn og ráðherrar t.d. Sjálfstæðisflokksins þurfa Pírata á sokkaleistunum til að boða okkur það sem þeir þora ekki að segja sjálfir, en þegja nú þunnu hljóði. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 16.4.2019 kl. 15:18

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Innilega sammála þér, Ómar, um þessi fráleitu greinarskrifa píratans Björns Leví, bæði þasð, að hann heldur uppi órökstuddum hræðsluáróðri og er vitaskuld að sýna það um leið, að það er ekkert hald í honum til að standa með rétti þjóðarinnar í þessari alvarlegu ESB-uppstokkun á skipulagi orkumála okkar, eins og þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hafa hins vegar gert, þ.e. að verja rétt okkar af vígfimi og festu. Hræðslurök stjórnleysingjans eru ENGIN rök, því að þau byggjast á lygi eða fáfræði.

Það hefur alla tíð blasað við, að jafnvel þótt við segðum upp EES-samningnum (sem gerist ekki með því einfaldlega að hafna þriðja orkupakkanum), þá myndu, eins og þú nefnir hér, fyrri viðskiptasamningar sem við höfðum gegnum EFTA, sem og í gegnum Alþjóðaviðskiptastofnunina WTO, virkjast á ný, með sínum lágtolla-ákvæðum. Þar að auki hefur á sl. tveimur mánuðum komið í ljós, að EES-samningurinn er ekki án þungra búsifja fyrir okkur -- rangt er að uppteikna hann sem einhliða ábatasaman, þótt Björn Bjarnason stundi þann skollaleik að skrifa jafnan á hlutdrægan hátt um þau mál (og ætti því ekki að vera formaður í vel launuðu matsnefndinni um afleiðingar EES-samningsins!).

Jón Valur Jensson, 16.4.2019 kl. 17:23

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Innilega sammála þér, Ómar, um þessi fráleitu greinarskrif píratans Björns Leví, bæði það, o.s.frv. (til að leiðrétta ásláttarvillurnar)

Jón Valur Jensson, 16.4.2019 kl. 17:26

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið félagar.

Þar sem ég veit að þið fylgist vel með þá hafið örugglega, þegar þessi orð eru skrifið, lesið stórgott viðtal Mbl.is við Sigmund Davíð.

Ég held að ég taki undir hvert einasta orð hjá honum og það er frábært að hann er kominn til landsins.  Eins ágæt eins og samflokksfólk hans er, eða Inga Snæland, þá er Sigmundur maður orrahríðarinnar, og kann að láta umræðuna kristallast um aðalatriði hennar.

Nú fara gjóturnar aftur að hýsa lygamerðina.

Því þeir þola ekki umræðu byggða á staðreyndum.

Ekki að þeir geti ekki sagt satt, málið er bara að allar staðreyndir tala málstað þjóðarinnar, ekki Evrópusinnanna sem samþykkja allt sem að þeim er rétt, og hlýða öllu sem þeim er sagt að hlýða, það er ef tilmælin og ordurnar koma að utan, frá Brussel.

Ég er samt ekki viss að þeir gengju fyrir björg eins og læmingjarnir, en ég vona að Brussel láti samt ekki reyna á það.

Ég vona það ekki út frá mannúðarsjónarmiðum, því ég er ekki viss.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.4.2019 kl. 18:28

5 identicon

Já, Sigmundur Davíð kann svo sannarlega að láta umræðuna kristallast um aðalatriði hennar.

Hann er alvöru leiðtogi og skilur og nemur púls þjóðarhjartans í þessu máli öllu og fylgir þeim púlsi af öllu hjarta.  Þannig er alvöru leiðtogi, hann er þjónn þjóðarinnar og fylgir henni, á sama tíma og hann leiðsegir henni og markar leiðina.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 16.4.2019 kl. 22:10

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Og fátt meir um það að segja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.4.2019 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 87
  • Sl. sólarhring: 582
  • Sl. viku: 4167
  • Frá upphafi: 1325618

Annað

  • Innlit í dag: 73
  • Innlit sl. viku: 3670
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 72

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband