Þegar sannleikurinn er sagður lýðskrum.

 

Þá höfum við vaknað uppí alræðisþjóðfélagi eins og Orwell lýsir svo ágætlega í bók sinni 1984, það er árdaga þess áður en almenningur var sviptur öllum lýðréttindum.

 

Það er staðreynd að regluverk ESB er yfirþjóðlegt og tekur öll völd af einstökum aðildarríkjum, slíkt telur skrifræðið nauðsynlegt til að ná fram markmiðum sínum í orkumálum.

Markmið sem eru hindrunarlaus markaðsviðskipti óháð landamærum, að auka orkuöryggi og hlut grænnar orku af heildarorkuframboði innan efnahagssvæðisins.

Að benda á þetta skrifræðisyfirþjóðvald er kallað lýðskrum.

 

Það er staðreynd að regluverk ESB líður ekki markaðshindranir, og slíkar markaðshindranir hafa ekki haldið þó upphaflega hefur verið samið um þær eins og nýlegur dómur um frjálsan innflutning á sýklum staðfestir.

Einhliða fyrirvari íslenskra stjórnvalda um að banna sæstreng sem mun tengja landið við hið sameiginlega orkukerfi Evrópu mun því ekki halda.  Öll dómafordæmi eru á þá vegu, engin fordæmi til um það gagnstæða enda skrýtið að innleiða reglugerð sem er hugsuð til að stuðla að hindrunarlausum viðskiptum yfir landamæri, að einstök ríki geti undanþegið slíku frjálsu flæði með einhliða fyrirvörum.

En að benda á þetta er kallað lýðskrum.

 

Ríkisrekin einokunarfyrirtæki eru markaðshindrun í hinu frjálsa flæði, þau hindra samkeppni og einkarekin fyrirtæki keppa ekki við þau á jafnréttisgrundvelli. 

Þjóðir sem undirgangast hið sameiginlega regluverk þurfa því að skipta þeim upp og bjóða hluta þeirra til sölu á markaði.  Með öðrum að einkavæða þau.

En að benda á þetta er kallað lýðskrum.

 

Hinir svokallaðir lýðskrumarar vitna í íslensku stjórnarskrána, í lög og reglur Evrópusambandsins, í sögu þess hvernig allt samstarf hefur orðið miðstýrðara undir handleiðslu stofnana sambandsins, um dóma og dómaframkvæmd, máli sínu til stuðnings.

Menn eins og Þorsteinn Víglundsson vitna í fullyrðingar, og lýsa sjálfum sér þegar þeir segja; ", fólk sem er á laun­um við að kynna sér þessi mál af kost­gæfni, fer fram með rök sem er ekki hægt að styðja með ein­um ein­ustu til­vís­un­um í reglu­verk eða staðreynd­ir máls­ins.".

 

En þessi sami Þorsteinn hefur reynt að ræða málin á málefnalegum nótum, ekki með því að hafna hvað felst í reglugerðinni um hið yfirþjóðlega regluvald og hinn sameiginlega orkumarkað.  Menn gera verið sammála honum eða ósammála, en hann lýgur ekki, afneitar ekki staðreyndum málsins líkt og stjórnarflokkarnir þrír gera.

Og næst þegar menn lesa fullyrðingar manna eins og Brynjars Níelssonar eða Guðlaugs Þórs þar sem þeir kannast ekki við regluverkið eða hinna sameiginlega orkumarkað, einkavæðinguna eða annað, þá ættu menn að hafa þessi orð Þorsteins í huga;

" Sú ákvörðun Norðmanna að fjárfesta í tengingu við evrópska markaðinn skýrist nefnilega ekki af því að landinu sé stýrt af ótýndum landráðamönnum heldur af því að tengingin skilar Norðmönnum miklum ábata. Hún er skynsamleg. Hún stuðlar að auknu raforkuöryggi og um leið hagnast Norðmenn ágætlega á þessum viðskiptum. Samningsstaða þeirra gagnvart stóriðju styrkist til að mynda. Orkan er ekki lengur "strönduð" eins og það kallast heldur eiga Norðmenn kost á því að flytja hana út ef stóriðjan vill ekki greiða uppsett verð.

Að einblína á möguleg verðlagsáhrif heima fyrir, líkt og lýðskrumarar gera, er álíka gáfulegt og að banna fiskútflutning okkar þar sem verð á ýsu hér heima kunni að vera hærra fyrir vikið. Við seljum um 80% af raforkuframleiðslu okkar til útflutnings í gegnum stóriðjuna. Við höfum miklu meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku heldur en að halda því niðri. Og það er hægur vandi að vega á móti mögulegri hækkun á raforkuverði. Til dæmis með því að fella niður virðisauka á sölu raforku til heimilisnotkunar. Ræðum kosti þessa og galla en nálgumst ekki málið með heimóttarskap og hræðsluáróðri.". (Feisbók Þorsteins 7. apríl 2019)

 

Það er vissulega ákveðinn kostur að gamalt fólk hafi ekki efni á að kynda húsin sín á köldustu vetrarmánuðunum, til lengri tíma dregur það úr útgjöldum til heilbrigðiskerfisins því það er bara svo með kulda að hann dregur úr lífslíkum fólks.  Og auðvitað var þetta argasti sósíalismi hjá Sjálfstæðisflokknum á fyrri hluta síðustu aldar að beita sér fyrir ódýru rafmagni og hita fyrir alla, í stað þess að markaðsvæða orkuna strax og tryggja hámarks arð fyrir orkufyrirtæki sem áttu auðvitað að vera í einkaeigu. 

Og stóriðjan er vissulega ölmusuatvinnuvegur á þjóðinni sem fáu eða engu skilar líkt og Indriði G. Þorláksson hefur ítrekað bent á.  Þá borga Þjóðverjarnir hærra rafmagn þegar þeir eru að falsa kolefnisbókhaldið hjá sér, og þeir sem missa vinnuna geta bara flutt til Þýskalands, eða eitthvað.

Síðan vita allir að garðyrkjan og þetta sem nýtir sér ódýra orku, er bara tómstundagaman fólks sem nennir ekki að vinna ærlega vinnu í bönkum eða hjá lögfræðifyrirtækjum.  Og gerir ekkert annað en að draga úr hagnaði heildsala.

 

Aðalatriðið er að málið sé rætt á málefnalegan hátt, og það sé viðurkennt hvað felst í orkutilskipunum Evrópusambandsins, og hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki.

Fólk getur deilt um þessa lykilskoðun hans; "Við höfum miklu meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku heldur en að halda því niðri.", en það á ekki að rífast um forsendur hennar.

Sem er tilskipun ESB um orkumarkaði, innihald hennar og afleiðingar.

 

Það á ekki að ljúga að þjóðinni að það verði ekki lagður sæstrengur.

Það á ekki að ljúga að þjóðinni að orkufyrirtæki í almannaeigu verði  ekki einkavædd að hluta eða að öllu leiti.

Það á ekki að ljúga að þjóðinni að slíkt muni ekki breyta samfélaginu okkar í grundvallaratriðum, að kuldinn hefji innreið sína á íslensk alþýðuheimili og þúsundir munu missa vinnuna þegar iðnaður sem treystir á ódýra orku deyr drottni sínum.

Og það á ekki að ljúga að þjóðinni að stjórnarskráin heimili yfirþjóðlegt regluvald og dómsvald yfir öllu sem lítur að orkumálum.

 

Menn eiga að hafa kjarkinn eins og Þorsteinn og segja að það sé sín skoðun að meintur ávinningur vegi uppi skaðann, og að stjórnarskráin eigi ekki að vera markaðshindrun, eða hindra þróun á alþjóðlegu samstarfi okkar við Evrópusambandið.

Því annað er aðför að lýðræðinu.

Aðför að lýðveldinu, miklu verri en sú að afhenda erlendu valdi orkuna okkar.

 

Því lygin er forsenda alræðisins.

Það var lygin og ógnin sem hélt saman alræðisþjóðfélögum fasista og kommúnista.

Og ef við látum hana viðgangast þá upplifum við í dag árdaga alræðis auðsins.

 

Ef við viljum það, þegjum við.

Ef við viljum vernda lýðræðið, þá mótmælum við .

Vinnubrögðunum og málflutningnum.

Öll sem eitt, hvort sem við erum sammála samrunanum við orkumarkað Evrópusambandsins, eða ekki.

 

Og ekki hvað síst, eiga fjölmiðlamenn að standa vaktina hvað þetta varðar.

Þeir eru jú hluti af samfélagi okkar og geta ekki talið það ákjósanlegt að þjóðin sigli hraðbyri inní alræði auðsins.

Regluverkið er skýrt, dómar um hvort að einhliða fyrirvari haldi eru engir, afleiðingarnar eru skýrar, kostir og gallar.

 

Þess vegna á engin að komast upp með að kalla staðreyndir lýðskrum.

Og það er samsekt að láta einhvern komast upp með slíkt.

 

Það er mál að linni.

Kveðja að austan.

Þ


mbl.is „Það kalla ég ómerkilegt lýðskrum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af þumalskrúfum og keyptum skoðunum.

 

"Hún snýst nú samt" er ein frægasta setning sögunnar. 

Höfð eftir einum frægasta vísindamanni allra tíma, Galíleó Galíleí þegar rannsóknarrétturinn neyddi hann til að afneita sólmiðjukenningunni sem var andstæð kenningum kirkjunnar um að jörðin væri miðja alheimsins og sólin og aðrar plánetur snérust í kringum hana.

Galíleó þurfti ekki að segja þetta til að ítreka að játning hans væri fölsk, knúin fram með þumalskrúfum þess tíma, hann gat alveg þagað, eða fullyrt hundrað þúsund sinnum að jörðin væri flöt, og miðja alheimsins.

Því það voru útreikningar hans sem sönnuðu að sólin væri miðja sólkerfisins, ekki orð hans.  Og orð hans um annað breyttu þar engu um.

 

Þessu einföldu sannindi vilja oft gleymast í orðræðu dagsins. 

Að það séu rök og rannsóknir sem leggja grunn að staðreyndum, ekki orð og fullyrðingar, hvað þá að hægt sé að vitna í sannleika þumalskrúfanna eða orð sem borgað er fyrir.  Því þumalskrúfurnar eða þrýstingur fær menn til að segja það sem ætlast er til að þeir segi, og fyrir borgun segja menn það sem þeim er borgað fyrir.

 

Það er oft erfitt að eiga við keypta menn, þeir ljúga sjaldnast, en teygja og toga rök og staðreyndir þar til þær ríma á einhvern hátt við hina fyrirfram ákveðna niðurstöðu sem þeim er borgað fyrir. 

Nýlegt dæmi er lögfræðiálit innvígðra sem Guðlaugur Þór vitnar í til að staðfesta að stjórnarskráarbrot hans séu ekki stjórnarskráarbrot, það þarf vissa þekkingu til að sjá rökvilluna, eða finna út hvað staðreyndum er sleppt í rökleiðslunni. 

Þess vegna er ágætis þumalputtaregla að hundsa slíkt með öllu, það er vitað að það er logið þegar þess þarf, og það er vitað fyrirfram um niðurstöðuna. 

En með því að hundsa, er sá sem þarf að blekkja, neyddur til að leita til hlutlausra sem njóta þess vafa að fyrirfram efast enginn um niðurstöðu þeirra.

 

Þess vegna leitaði utanríkisráðuneytið líka til okkar helsta sérfræðings á sviði alþjóðréttar, Stefáns Más Stefánssonar prófessors og ásamt Friðriki Árna Friðrikssyni vann hann álitsgerð um hvort samþykkt orkupakka 3 stæðist fullveldisákvæði stjórnarskráarinnar.

Niðurstaða þeirra félaga var eins afdráttarlaus eins og hægt er að ætlast til af lögfræðingum, því þeir passa sig á að hafa alltaf opna undankomuleið ef dómur fellur gegn áliti þeirra;

"Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða höfunda álitsgerðarinnar að verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, eins og ráðgert er að taka hana upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, rúmist innan ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. ".

Fyrir þessari niðurstöðu færðu þeir rök sem óþarfi er að rekja hér.

Og hvernig sem Guðlaugur reyndi, hvernig sem ríkisstjórnin reyndi, þá tókst henni ekki að ljúga sig framhjá þessari niðurstöðu Stefáns og Friðriks.

 

Hvað gera bændur þá??

Það er ekki vitað, og verður ekki vitað, hvaða meðölum var beitt, það er hvers eðlis þumalskrúfan var, en niðurstaðan er alveg í anda þess sem Galíleó sagði þegar hann var neyddur til að draga til baka kenningar sínar um að sólin væri miðjan sem allt snérist um. 

Orðum breytt en ekki rökstuðningi, og því náttúrulega stendur fyrri niðurstaða óhögguð.

 

Utanríkisráðuneytið birti bréf frá þeim félögum þar sem niðurstöðum álitsgerðar þeirra var hafnað, og fullyrt að málsmeðferð ráðherra stæðist stjórnarskrá.  Svo ég vitni í hina meintu yfirbót þeirra;

"1. Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu. ".

þá er ljóst að þarna eru orð, ekki röksemdir sem hnekkja fyrri ályktunum.

 

Þess vegna geta þeir sem ekki eru beittir nútíma þumalskrúfum haldið sig við rök og niðurstöður þeirra félaga sem fram koma í þegar birtri álitsgerð þeirra, og hún verður ekki fölsuð héðan af.

"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.",

Afdráttarlaus niðurstaða, studd gildum rökum.

 

Þó þumalskrúfan er á, þá nýta þeir sér vit Guðlaugs og hæða hið meinta vægi hinnar sameiginlegu yfirlýsingu hans og embættismanns ESB og óþarfi að hjálpa Guðlaugi að sjá í gegnum þá hæðni. 

Eins er ekki við öðru að búast en að iðrandi syndari geri lítið úr fyrri yfirlýsingu, slíkt var þrautreynt hjá rannsóknarréttinum og Stalín var líka mikill aðdáandi slíkrar iðrunar.  Pyntingarmeistarar hans lögðu oft nótt sem nýtan dag við Moskvuréttarhöldin til að fá hinn sanna iðrunartón, iðulega var réttarhöldum frestað og þeir beðnir um að slípa til tóninn, áður en áfram var haldið.  Og ekki þarf að taka fram að íslenskir kommúnistar féllu á kné og lofuðu hinn mikla leiðtoga fyrir að hafa komið upp um slíka syndara og svikara.

 

Hvort Guðlaugur hafi náð slíkum árangri má efast, svona hljómar iðrun Friðriks og Stefáns þar sem þeir fjalla um hvað gerist ef farið er eftir tillögum þeirra;

"5. Þessi leið er hins vegar ekki gallalaus fremur en hin. Þeir ágallar lúta að hinu sérstaka eðli EES-samningsins og samstarfsins. Eins og bent hefur verið á hefur ekki reynt á þessa leið til hlítar í 25 ára sögu samningsins og því margir pólitískir óvissuþættir til staðar varðandi afleiðingarnar. Það kann að reynast torsótt að fá slíkar undanþágur samþykktar.".

Hugur þeirra er hins vegar óbugaður og þeir fífla Guðlaug þegar þeir umsnúast gagnvart afskiptum ESA, treysta því að læst fólk hafi lesið álit þeirra og viti hvílík fjarstæða þetta er, eða er einhver sem trúir að ESA framfylgi ekki tilskipunum ESB, eða það taki íslensk stjórnvöld einhverjum silkihönskum??

"3. Þrátt fyrir að við teljum að þessi leið sé ekki hafin yfir allan lögfræðilegan vafa að þessu leyti þá teljum við mjög ósennilegt að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið. Ástæðurnar eru eftirfarandi: a. Viðkomandi reglugerð er tekin upp og innleidd. b. Ákvæði hennar sem varða raforkutengingar milli landa koma ekki til framkvæmda nema slíkri tengingu verði komið á. c. Slíkri tengingu verður ekki komið á nema með samþykki Alþingis, samkvæmt þeim lagalega fyrirvara sem gerður er við innleiðinguna. ".

Þeir efast ekki í greinargerðinni, þar segja þeir meðal annars þetta; 

". Þessar meginreglur ganga þó ekki svo langt að þær gefi markaðsaðilum rétt á að krefjast þess að raforkutengingum sé komið á eða þær stækkaðar. Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.".

Svona í ljósi þess að skýr umsaminn fyrirvari í stofnsamningi okkar um verndun búfjárstofna hélt ekki í nýlegum dómi ESA þar sem stjórnvöld er þvinguð að leyfa innflutningi á sýklum, eða að fyrri niðurstaða stofnunarinnar um að íslensk stjórnvöld hefðu innleitt innlánstryggingakerfi sitt samkvæmt ákvæðum tilskipunar ESB þar um, var gerð ómerk þegar bretar kröfðu þjóðina um bakábyrgð, þvert á innihald tilskipunarinnar, þá er ljóst hvað þeir félagar eiga við þegar þeir segja að slík staða gæti reynst Íslandi erfið.

 

Með öðrum orðum, sagan endurtekur sig.

Vald kúgar þekkinguna, en þekkingin smýgur samt úr höndum þess.

Því það er ekki hægt að kæfa þekkinguna, rökin lifa, staðreyndir lifa.

Orðunum er hægt að breyta, en ekki rökunum sem að baki búa.

 

Hins vegar ætti fólk að spyrja sig hvaða þumalskrúfum var beitt.

Og það þarf ekki endilega vera utanríkisráðherra sem átti þær.

Orkuauðlindir okkar eru undir, og erlent skítafjármagn ásælist þær.

 

Útí í Evrópu hafa innviðir verið einkavæddir í stórum stíl, allt í nafni hins frjálsa flæðis, og kaupendurnir að áskriftinni að almenningi hafa meðal annars verið kommúnistapeningar frá Kína, olíupeningar miðaldamanna við Persaflóa, að ekki sé minnst á peningaþvottavél mafíunnar, bæði þeirrar Austur Evrópsku sem og hinnar hefðbundnu við Miðjarðarhafið.

Og þetta skítuga fjármagn ber fé á stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, og ef það dugar ekki til, þá er gripið til óvandaðra meðala.

Lygarnar og blekkingarnar í þessu máli öllu eru án fordæmis í íslenskri stjórnmálasögu. Og hreint út sagt, fyrir utan hugmyndasviðs innlendra mannvitsbrekkna.

Og við erum ekki lengur einangrað eyland, sama þó við viljum í lengstu lög trúa því.

 

Vinnubrögðin eru þekkt.

Þumalskrúfurnar eru þekktar.

Niðurstöður þeirra eru þekktar, skyndileg kúvending án skýringa.

 

Á það við í þessu tilviki??

Veit það ekki.

En það er ekkert eðlilegt við þetta.

 

Höfum það hugfast.

Kveðja að austan.


Hvað er afsal á fullveldinu??

 

Ef það er ekki að afhenda alþjóðlegu yfirvaldi algjör yfirráð yfir orkuauðlindum landsins??

Hvar eru mörkin já Þorsteini Pálssyni og Birni Bjarnasyni ef þeim finnst þetta eðlilegur hluti af fullveldi þjóðarinnar??

 

Og hvaða rök færir Björn Bjarnason fyrir sínu máli sem ganga gegn skýru lagaáliti helsta sérfræðings þjóðarinnar í fullveldisrétti, prófessors Stefáns Más Stefánssonar og félaga hans??

Svarið við fyrri spurningunni er ekki þekkt, en við þeirri seinni að rök Björns er lagaálit svipaðra keyptra pésa og sögðu að Stefán og Lárus Blöndal hefðu rangt fyrir sér þegar þeir sýndu fram á það með skýrum rökum og beinum tilvitnum í lagatexta að það stæði hvorki í tilskipun ESB um innlánstryggingar að einstök aðildarríki væru í bakábyrgð fyrir innlánstryggingasjóði sína, eða að sú ábyrgð skapaðist vegna sjálfs samningsins um EES.

Að sjálfsögðu höfðu hinir keyptu rangt fyrir sér því vilhöll stjórnvöld borguðu þeim fyrir ákveðna niðurstöðu.  Og sama býr að baki í dag.

 

Í allri ICEsave deilunni laug Þorsteinn skuldbindingum uppá þjóð sína og núna í öðru máli sem snýst um mikla fjármuni og verðmæti, lýgur Þorsteinn líka; "Hann seg­ir þriðja orkupakk­ann hluta af reglu­verki Evr­ópu­sam­bands­ins sem okk­ur beri að inn­leiða í ís­lensk­an rétt sam­kvæmt samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES)." b Þetta er einfaldlega rangt, Ísland getur hafnað þessari tilskipan og tekið málið upp í sameiginlegri EES nefndinni líkt og prófessor Stefán Már hefur ítrekað bent á.

Þess vegna er ekki skrýtið að maður sem fer svona ítrekað frjálslega með sannleikann þegar hagsmunir auðs annars vegar og þjóðar hins vegar eiga í hlut, skuli kalla beinar lygar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, kúnstir.

Þorsteinn iðkar sem sagt kúnstir þessa dagana.

 

En Þorsteinn má eiga að hann styður þjóðina á sinn hátt.

Þegar menn eins og hann eru hálmstrá Guðlaugs Þórs, menn sem fram á síðasta, og lengur en það, beittu öllu sínu afli, og allri sinni málfylgju til að styðja fjárkúgun erlendra ríkja, þá er ljóst úr hvaða ranni allur sá málatilbúnaður er.

Þetta ætti hinn almenni sjálfstæðismaður að hafa í huga áður en tekur afstöðu til þessa gjörninga flokksins.

 

Það er verið að vega að þjóðinni.

En það lag heppnast ekki ef enginn styður.

 

Þá dagar það uppi.

Aðeins smánin lifir.

 

Smán þeirra sem enn einu sinni reyndu að selja þjóð sína.

Kveðja að austan.


mbl.is Kúnstir að baki orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvor segir satt??

 

Ráðherra þegar hann segir að í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar sé "áréttað að inn­leiðing þeirra gerða sem um ræðir myndi ekki skuld­binda ís­lenska ríkið til að koma á eða leyfa sam­teng­ingu ís­lensks raf­orku­markaðar við önn­ur ríki Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins.".

Eða Friðrik sjálfur í viðtali við Morgunblaðið í dag þar sem hann segir um sama atriði;

"Hvað laga­lega óvissu varðar vegna leiðar rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir Friðrik aðspurður til að mynda ekki úti­lokað að Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) teldi ástæðu til þess að höfða samn­inga­brota­mál fyr­ir EFTA-dóm­stóln­um á þeim for­send­um að Íslandi beri að inn­leiða þriðja orkupakk­ann að fullu í lands­lög. Það yrði þá gert á þeim grund­velli að Alþingi hefði aflétt stjórn­skipu­leg­um fyr­ir­vara vegna þriðja orkupakk­ans eins og hann hefði verið tek­inn upp í EES-samn­ing­inn sam­kvæmt ákvörðun sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar. Mögu­legt væri að málið þróaðist með þeim hætti. Eins væri mögu­legt að ein­stak­ling­ar eða lögaðilar höfðuðu skaðabóta­mál gegn ís­lenska rík­inu ef þeir teldu að ís­lensk lands­lög tryggðu þeim ekki þann rétt sem þeir ættu að njóta sam­kvæmt EES-samn­ingn­um".

 

Líklegast gæti sjálf álitsgerðin skorið úr um það en þar segir meðal annars;

"Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. gr. EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. gr. reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar orkupakkans, ef því er að skipta), standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.".

 

Ef ekki er hægt að hafa þetta rétt eftir, hvað er þá rétt sem ráðherra segir??

 

Enda getur heilbrigð skynsemi sagt fólki að tilskipanir um sameiginlega markað virka lítt, ef einstök aðildarríki efnahagssvæðisins geti síðan samþykkt fyrirvara og skilyrði sem í raun gera viðkomandi tilskipanir marklausar.

Tilgangur orkupakkans er að koma í veg fyrir markaðshindranir og tryggja orkuviðskipti yfir landamæri eða eins og segir "Í fimmta tölulið forsendna reglugerðarinnar um þriðja orkupakkann kemur fram að aðildarríkin geti í raun ekki gert neina fyrirvara eða sett aðrar lagalegar hindranir: "Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku."" (tekið af bloggi Magnúsar Sigurðarsonar, Popúlismi sjálftökunnar).

 

Þetta veit Guðlaugur innst inni þó hann kjósi að segja þjóð sinni og kjósendum ósatt.

Hann slær því þann varnagla að vitna í sameiginlega yfirlýsing hans og orkumálastjóra Evrópusambandsins;

"„Yf­ir­lýs­ing­in und­ir­strik­ar sam­eig­in­leg­an skiln­ing og er því af hálfu fram­kvæmda­stjórn­ar ESB viður­kenn­ing á þeim sjón­ar­miðum sem liggja til grund­vall­ar fyr­ir­vör­um Íslands við inn­leiðing­una. Þótt yf­ir­lýs­ing­in sé ekki laga­lega bind­andi hef­ur hún laga­lega þýðingu gagn­vart fyr­ir­var­an­um".

Eins og orð embættismanns breyti innihaldi tilskipana ESB.

Eða ICEsave deilan hafi gefið okkur ástæðu til að treysta orðum þeirra.

 

Ísland hafði meira að segja fengið lof fyrir að innleiða tilskipunina um innlánstryggingar á réttan hátt, þar sem í tilskipunin stóð skýrt að tryggingarkerfið væri bakábyrgð innlána, og ef aðildarríki innleiddu tilskipunina á réttan hátt, þá væru þau ekki í ábyrgð fyrir tryggingarkerfið sitt.

Það breyttist á einni nóttu og þegar hagsmunir stærri fóru gegn hagsmunum minni, þá gilti ekki einu sinni skýr lagatexti, hvað þá fyrri staðfestingar á að rétt hefði verið staðið að málum.

Og núna er látið eins og þessi saga sé ekki til og að við eigum að treysta orðum þessa fólks.

Eiginlega er ekki hægt að leggjast lægra í rökleysinu.

Skömminni skárra þó að ljúga.

 

Af hverju er ekki hægt að halda sig við staðreyndir málsins líkt og Þorsteinn Víglundsson gerði í feisbókarfærslu sinni þar sem hann viðurkennir að sæstrengur verði lagður, og hann muni hækka raforkuverð til heimila.  Hann telur hins vegar að á móti komi hærra verð fyrir orku sem núna fer til stóriðju, og því sé hægt að koma til móts við heimilin með því að afnema til dæmis virðisauka á raforkusölu.

Sjónarmið sem má ræða, sjónarmið byggt á staðreyndum.

Ekki á afneitun, hálfsannleik og beinum lygum.

 

Lygar stjórnmálamanna eru meinsemd í samfélaginu í dag.

Trekk í trekk fullyrða þeir eitthvað sem stangast alveg á við staðreyndir, eða lofa einhverju sem þeir ætla sér aldrei að efna.

Núna á að samþykkja tilskipun sem afsalar þjóðinni yfirráð yfir orkuauðlindum sínum til yfirþjóðlegrar stofnunar og það má ekki viðurkenna það.

Það er öruggt að í kjölfarið verður sæstrengur lagður því hann er lengi búinn að vera í pípunum hjá Landsvirkjun svo fyrirtækið verði ekki eins háð erlendum stórkaupendum.  Og eins og segir í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að þá mun slíkt leiða til hækkunar á rafmagni. 

En talað um ávinning á móti, og hví má ekki vega og meta slíkan ávinning, fá hreinskipta umræðum um kosti og galla.

 

Hvað er að því að segja satt, og ræða hlutina út frá staðreyndum??

Það ætti að vera lágmarkskrafa til þjóðkjörinna fulltrúa okkar, sama í hvaða flokki þeir eru.

 

Gerum þá kröfu.

Öll sem eitt.

Kveðja að austan.


mbl.is Innleidd að fullu en gildistöku frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomin í hópinn Ólína.

 

Ég man eftir þér fyrst þegar ég var að móta mínar skoðanir á unglingsárunum, þú varst þá eldrauður kvenskörungur sem trúði á betri heim, og taldir hann þess virði að berjast fyrir.

Svo leið tíminn, ég þroskaðist, og sannfærðist um að mennskan og mannúðin, trúin á jöfnuð og réttlæti, sanngirni og rétt allra til mannsæmandi lífs, væri leiðin, ekki útópíur eins og kommúnisminn, sem tók kerfi fram yfir fólk, og nýtti sömu fjötrana og helsið og yfirstéttir aldanna sem höfðu kúgað og níðst á fólki frá árdaga siðmenningarinnar.

Þá var tónn hins herskáa jafnaðarmanns sem ferskur blær innan um allan róttæklingavaðal sófakommúnismans.

 

Kommúnisminn dó, en ný Útópía reis á legg.

Kennd við Evrópu og Evrópusamvinnu.

 

Hugsuð til að koma í veg fyrir ófrið og lagði vissulega áherslu á félagslegt réttlæti, mannréttindi, velferð og margt annað sem átti að gera heiminn betri en hann hafði verið.

En tók kerfið fram yfir fólk, reglur og regluverk fram yfir fjölbreytileika mannlífs og þjóða.

Og hljótt fór að regluverkið var byggt á hugmyndafræði þeirra Friedmans og Hayek.

Frjálshyggja í sinni tærustu mynd, hið frjálsa flæði auðs og fjármagns.

 

Þú féllst fyrir þessari Útópíu Ólína, og þú studdir hana í ICEsave deilunni.

Taldir þig hafa sama rétt og hinir fornu konungar Germanna, að þú gætir selt hluta þjóðar þinnar í skuldaþrældóm til að gera upp við keisara Rómar.

Gleymdur var hugsjónaeldurinn, gleymdur var eldmóðurinn, gleymd var gagnrýnin á auðvald allra tíma.

Völdin, Útópían, ekkert annað komst að.

 

Kannski þurfti rýtingsstungu í bakið til að þú vaknaðir af þessum myrka svefni.

Að þú sæir aftur ljósið, að þú skyldir að það skiptir ekki máli hver það er sem níðist á venjulegu fólki, og í nafni hvers það er gert, að það er alltaf rangt að níðast á fólki.

Alltaf rangt að arðræðna, gera það að féþúfu auðs og fjármagns.

 

Hvað sem það var, þá skiptir það ekki máli.

Aðalatriðið er að þú ert kominn í hópinn.

Hætt að þjóna auðnum, hætt að þjóna frjálshyggjunni.

Blekkir ekki lengur sjálfa þig, hvað þá að þú reynir að blekkja aðra.

 

Þú ert í góðum hópi.

Við erum hópurinn sem tökum líf fram Útópíur.

Fólk fram yfir fjármagn.

Og við biðjum þess eins að fá að lifa í friði fyrir ásælni þess, í samfélagi þar sem fólkið sjálft ræður hlutskipti sínu og örlögum.

 

Vinnumenn fjármagnsins kalla okkur lýðskrumara, vitleysinga og eitthvað þaðan af verra.

Við vöndumst þessum ónefnum í ICEsave deilunni, og þau bíta ekki í dag.

Hafa í raun aldrei bitið, aðeins hert þann ásetning að standast atlögur þeirra.

Þú munt léttilega venjast þessu, og þarft ekki að réttlæta þig með einhverjum afsökunarorðum.

Skattyrði þeirra er aðeins hrós fyrir okkur sem eigum ekki annan húsbónda en lífið sjálft.

 

Við verjum samfélag okkar.

Við verjum auðlindir þess og sjálfstæði.

Rífumst svo um allt hitt, en sem fólk, ekki þrælar.

 

Það er ekki Útópía.

Það er bara eins og lífið á að vera.

Frjálst, fjölbreytt, margslungið.

Ekkert meira, ekkert minna.

 

Eins ólík og við erum, þá erum við eitt.

Fólkið sem segir Nei við auðinn.

 

Þetta er góður hópur.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Hafnar ásökunum um popúlisma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygi er sagna best.

 

Þórdís Kolbrún iðnaðar og nýsköpunarráðherra segir;

" „Það er ein­fald­lega þannig að ég ­myndi aldrei leggja til að Íslend­ingar inn­leiddu ein­hvern ­pakka frá ESB ­sem er hluti af EES-­samn­ingnum ef að ég teldi minnstu trú á því að við værum að missa að ein­hverju leyti yfir­ráð yfir okkar auð­lind­um,“".

 

Friðrik Árni Friðriksson, landsréttarlögmaður segir;

"Hvað laga­lega óvissu varðar vegna leiðar rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir Friðrik aðspurður til að mynda ekki úti­lokað að Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) teldi ástæðu til þess að höfða samn­inga­brota­mál fyr­ir EFTA-dóm­stóln­um á þeim for­send­um að Íslandi beri að inn­leiða þriðja orkupakk­ann að fullu í lands­lög. Það yrði þá gert á þeim grund­velli að Alþingi hefði aflétt stjórn­skipu­leg­um fyr­ir­vara vegna þriðja orkupakk­ans eins og hann hefði verið tek­inn upp í EES-samn­ing­inn sam­kvæmt ákvörðun sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar. Mögu­legt væri að málið þróaðist með þeim hætti.

Eins væri mögu­legt að ein­stak­ling­ar eða lögaðilar höfðuðu skaðabóta­mál gegn ís­lenska rík­inu ef þeir teldu að ís­lensk lands­lög tryggðu þeim ekki þann rétt sem þeir ættu að njóta sam­kvæmt EES-samn­ingn­um.".

 

Þórdís er stjórnmálamaður sem á hagsmuna að gæta, Friðrik er lögmaður sem á engra hagsmuna að gæta, heldur sig aðeins við staðreyndir.

Þær staðreyndir að það er ekkert sem getur eftir samþykkt þessa tilskipun ESB kennda við orkupakka 3 komið í veg fyrir að annars vegar ESA krefjist þess að Ísland innleiði hana að fullu, og þeir einstaklingar og lögaðilar sem eiga hagsmuna að gæta, geti kært íslensk stjórnvöld ef þau draga lappirnar í því máli.

Því eins og Friðrik segir eru íslensk stjórnvöld búin "að aflétta stjórn­skipu­lega fyr­ir­var­an­um og staðfesta þessa ákvörðun".

Því í raunheimi samþykkja menn ekki eitthvað, og neita síðan að fara eftir því.

 

Þetta vita allir en samt kjósa ráðamenn að ljúga til um kvað það þýðir að samþykkja þessa tilskipun.

Þeir vita að fyrirvarar sem ganga gegn viðkomandi tilskipun, halda ekki, nema um þá sé samið í upphafi.

Sem var ekki gert og þess vegna er staðan eins og hún er, annaðhvort er pakkinn samþykktur með sínum kostum og göllum, eða honum er hafnað.

Hann er ekki Nóa Síríus konfektkassi þar sem hægt er að skilja alla marziban molana eftir.

 

Samt lætur Þórdís Kolbrún eins og að efni tilskipunarinnar eigi ekki við um Ísland.

Og þess vegna samþykki hún hana.

 

Hvað veldur??

Ekki einfeldni, þetta er vel gefin ung kona.

 

Eina hugsanlega skýring þessa er að hún sé í hjarta sínu sammála innihaldi tilskipunarinnar og telji hana til góða.

Annars hefði hún aldrei sagt það sem hún sagði á ársfundi Landsvirkjunar, svo ég vitni í Viðskiptablaðið sem dró orð hennar saman;  "Iðnaðarráðherra áréttar að orkan tilheyri eignarrétti á landi og sé ekki þjóðareign líkt og fiskurinn í sjónum. Milljarðaverðmæti liggi í sölu umframorku um sæstreng, og orkupakkarnir hafi verið markaðspakkar.".

Það hafði bara gleymst að láta hana vita að svona segði maður ekki fyrr en eftir samþykkt Alþingis, í þessu tilviki væri sannleikurinn ekki sagna bestur.

 

Í því felst vanvirðing ríkisstjórnarinnar.

Í því felst niðurlæging Alþingis.

Að það má ekki segja satt.

 

Að lygi sé sagna best.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Felur í sér lagalega óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úlfurinn kastaði af sér sauðarfeldinum á Alþingi í gær.

 

Og í ljós kom að þó gæran sé mismunandi að útliti, sumstaðar merkt Sjálfstæðisflokknum eða Pírötum, VinstriGrænum eða Samfylkingunni. Viðreisn eða Framsóknarflokknum, að þá lítur úlfurinn alltaf út eins og úlfur, hann er ljótur, og hann étur sauði.

Hann vinnur fyrir fjármagn og auðmenn, hann telur fyrirmæli Brussel vera ígildi guðslaga og honum er nákvæmlega sama um almenning og hagsmuni hans.

Hin mismunandi gervi úlfsins eru aðeins hugsuð til að halda utan um atkvæði almennings, að sjá til þess að hann láti að stjórn eins og friðsöm sauðarhjörð á að gera.

 

Í mínum huga var þetta nokkuð ljóst eftir sögufræg svik VinstrGrænna í ICEsave deilunni og endanlega þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sat í skjóli hins meinta andófsflokks, Borgarahreyfinguna.

En flokkshollt fólk sem var svo heppið að hin óvænta atburðarrás haustið 2008 sem kom Sjálfstæðisflokknum og Framsókn í stjórnarandstöðu, trúði því að þeirra fólk hefði ekki svikið, það voru hinir.

Neitaði að horfast í augun á því að ef þeirra fólk hefði verið í ríkisstjórn, þá hefði það gert nákvæmlega sömu hlutina, það er staðið við samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá haustinu 2008.

Samkomulag sem gekk út frá að vernda hagsmuni erlendra fjármagnseiganda, koma óbærilegum skuldabyrðum á íslenskan almenning, og hið gamla kerfi yrði að fullu endurreist eftir Hrun.  Með endurbótum þó.

Það er bara þannig að hefðbundnir flokkar vinna innan kerfis, og þeir fara aldrei gegn hagsmunum auðs og fjármagns.

 

Við sjáum þetta í dag.

Það er samstaða á þingi að hundsa þjóðarvilja, og innleiða reglugerð Evrópusambandsins sem óhjákvæmilega mun leiða til hækkunar raforkuverðs til almennings og fyrirtækja hans, og til einkavæðingar orkufyrirtækja.

Og þingmenn eru svo ómerkilegir að þeir kannast ekki við þetta, og ljúga út í eitt.

Þeir þurfa atkvæða almennings, en þeir telja sig ekki þurfa að gæta hagsmuna hans.

Þeir telja sig hafa rétt á að eyðileggja eitt af því fáu sem virkilega hefur tekist vel til í samfélagi okkar, sem er að fólk getur hitað húsin sín óháð fjárhag eða búsetu.

Þeir eru algjör andstaða við frumkvöðla eins og Jón Þorláksson sem nýtti krafta sína og verksvit til að leiða hita og rafmagn í hús hjá jafnt háum sem lágum. Á sem hagkvæmasta hátt svo allir réðu við að nýta sér þessi gæði.

 

Í dag á að ljúka þeirri vegferð með samþykkt markaðspakka Evrópusambandsins í orkumálum.

Með einu pennastriki á að jarða þá hugmyndafræði mannúðar og mennsku sem áar okkar lögðu drög að fyrir um 100 árum síðan.

Með einu pennastriki á að breyta orkunni úr auðlind í markaðsvöru, úr sameign í einkaeigu.

Og þingmenn sjá ekkert athugavert við það.

 

Þeirra er valdið, þeir mega.

Reikningsskil gjörða sinna þurfa þeir aðeins að standa þeim sem þeir þjóna.

 

Og það er ekki þjóðin.

Það er ekki almenningur.

 

Það er kerfið, það er elítan.

Fólkið sem er ríkið í ríkinu.

 

Þetta eru úlfar sem líta á okkur hin sem sauði.

Og hafa haft rétt fyrir sér fram að þessu.

En ekki lengur, ekki lengur.

 

Það er kominn tími á úlfaveiðar.

Kveðja að austan.

 

 


Ísland er réttarríki.

 

Og í réttarríki brýtur löggjafar og framkvæmdarvaldið ekki viljandi stjórnarskrá landsins.

Án þess að einstaklingarnir sem ábyrgðina bera séu sóttir til saka.

 

Samþykkt Orkupakka 3 er skýrt brot á stjórnarskránni sem heimilar ekki slíkt valdaafsal til yfirþjóðlegrar stofnunar.

Þau rök að orkupakkinn sé samþykktur með þeim fyrirvara að hann gildi ekki fyrr en Ísland tengist hinum sameiginlega evrópska orkumarkaði, og slík tenging séð háð samþykkt Alþingi, halda ekki.

 

Innlent stjórnvald getur ekki neitað einkaaðilum um að leggja slíka tengingu, slíkt er skýlaust brot á þeim reglum sem er verið að samþykkja.

Allir fyrirvarar um annað halda ekki enda getur hver maður með lágmarksskynsemi sagt sér að lítið hald er í sameiginlegri reglugerð, ef hvert og eitt aðildarríki efnahagssvæðisins geti sett fyrirvara við einstök ákvæðið, og látið síðan geðþótta ráða eftir hverju er farið.

Málið snýst því ekki um neitunarvald forseta, málið snýst um lög og reglu, að löggjafarvaldið á hverjum tíma sé ekki hafið yfir stjórnarskrá landsins.

 

Samþykkt Alþingis á Orkupakka 3 hlýtur því að vera kærð, og dómsstólar látnir skera úr um lögmæti hennar.

Þannig virkar réttarríkið.

Undirskriftasöfnun er hins vegar pólitík, og kemur meintu lögmæti málsins ekkert við.

 

Og þessu tvennu á ekki að rugla saman.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Beiti synjunarvaldi gegn orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðji orkupakkinn snýst um neytendavernd.

 

Segir vinnumaðurinn sem vill festa það í lög að alþjóðlegt vald hafi úrslitavald um skipan nýtingar okkar á orkuauðlindum þjóðarinnar.

Sem er skýrt stjórnarskráarbrot og þar með augljóst að það er ekki ásökun að vinnumaðurinn ætli að ganga á bak drengskaparheita sinna sem hann sór þegar hann tók sæti á Alþingi, það er staðreynd.

 

Og þeir sem það gera enda sem fangelsismatur.

Það er að segja í löndum þar sem lög og réttur er ekki undir á hælnum á einræðisöflum.

 

En eiga beinar lygar alþingismann ekki líka að varða við lög?'

Hvernig fær þingmaðurinn það út að þriðji orkupakkinn snúist um neytendavernd??

Vill hann sem sagt meina að þetta sé einhver viðauki við þegar samþykkt lög þar um.

Það er lög um neytendavernd og rétt neytenda???

Og orkuyfirvaldið sé bara svona viðbót við neytendastofu eða neytendasamtökin.

 

Hvaða rök færir hann fyrir sínu máli??

Og hverjar eru þá rangfærslurnar??, aðrar en þær að fjalla um innihald þess lagatexta sem kenndur er við orkupakka 3?

 

Auðvita eru rökin engin, og ekki bent á neinar rangfærslur.

Aðeins logið og bullað.

 

Orkupakkinn snýst ekki um neina neytendavernd.

Hann snýst um að markaðsvæða orkuauðlindir þjóðarinnar og í kjölfarið mun orka til almennings og fyrirtækja stórhækka, því þjóðin býr við lægsta raforkuverð í Vestur Evrópu, og því eftir miklu að slægjast fyrir fjármagnseigendur að eigna sér orkufyrirtækin og koma orkunni á sameiginlegan evrópskan raforkumarkað, þar sem sá sem hæst býður, fær orkuna í það og það skiptið.

Og slíkt er ekki neytendavernd, enda vandséð það fífl sem lýgur að örugg hækkun á orku til neytenda, sé neytendavernd.

 

En greinilega samt treyst á að einhver sé nógu heimskur til að trúa þessum lygum og bulli.

Enda ekki að ástæðulausu, Viðskiptaráð skipar ekki þingmenn, þingmenn Viðreisnar voru jú kosnir, mikið til af fólkinu sem þóttist vera á móti auðræði og auðráni.

 

Hins vegar á enginn vitiborinn fjölmiðill að vitna í svona rugl.

Fyrirsögnin á að vera; "þingmaður Viðreisnar lýgur í umræðunni um orkupakkann".

Allt annað er meðsekt.

 

Um lygar, og um landsölu.

Um svikráð, og landráð.

 

Engin önnur orð ná yfir þennan gjörning.

Kveðja að austan.

 


mbl.is „Algjörlega óþolandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stelpan spyr hvort það sé krafa í Evrópu.

 

Að dómarar séu skipaðir eftir lögum og reglum aðildarríkja Evrópuráðsins.

Eða hvort þessi þarna einræðisherra í Hvíta Rússlandi hafi rétt fyrir sér.

Að vilji valdhafa sé æðri lögum.

Og Skari Skrípó er ráðgjafi stelpunnar, eða hvað??

 

Er ekki tími til kominn að leggja flokksgleraugunum og spyrja hvað að baki býr??

Af hverju þurfti að henda fjórum dómurum út og skipa þægt fólk í staðinn??

Og þá ekki bara flokkshollt, heldur auðhollt.

Fólk sem myndi freka deyja en að dæma eftir lögum og reglum í þágu þjóðar, og gegn auði.

 

Orkuauðlindir þjóðarinnar eru undir.

Samhengið er skýrt.

 

Orkupakki 3 er beint brot á stjórnarskrá lýðveldisins, sem bannar framsal á valdi til erlends yfirvalds.

Enda vandséð afhverju þjóðin losaði sig við leifarnar af yfirráðu Dana til að hafa opinn þann möguleika að keyptir stjórnmálamenn gætu selt hagsmuni þjóðarinnar fyrir silfur og upphefð.

 

En skýr lög, skýr stjórnarskrá, þarfnast dómsstóla sem eru sjálfstæðir, óháðir framkvæmdavaldinu, óháðir auði og hagsmunum hinna Örfáu.

Því lögin dæma sig ekki sjálf.

 

Þetta veit einræðisherrann í Hvíta Rússlandi.

Hann breytti ekki stjórnarskránni, hann hreinsaði út í dómstólum, sá til þess að þeir sæju til þess að hans vilji, væri vilji laganna.

Og þetta vita þeir sem ganga hagsmuni auðsins, og vilja markaðsvæða orkuauðlindir þjóðarinnar.

 

Þess vegna voru skýr lög brotin þegar skipað var í Landsrétt.

Þess vegna verja vinnumenn fjármagns og hrægamma þann gjörning.

Þess vegna er stelpan látin áfrýja svo öruggt er að Landsréttur láti að stjórn á meðan ólögin ganga yfir þjóðina.

 

Því þó hún viti kannski ekki sínu viti, þá veit auðurinn sínu viti.

Og hrægammarnir vita sínu viti.

 

Spurningin er frekar um okkur hin.

Höfum við eitthvað lært??

 

Til dæmis að nota vitið??

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Óska endurskoðunar yfirdeildar MDE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2019
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)
  • Screenshot (5952)
  • Screenshot (5951)
  • Screenshot (5886)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 135
  • Sl. sólarhring: 501
  • Sl. viku: 3604
  • Frá upphafi: 1481836

Annað

  • Innlit í dag: 121
  • Innlit sl. viku: 3188
  • Gestir í dag: 121
  • IP-tölur í dag: 121

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband