Hvað er afsal á fullveldinu??

 

Ef það er ekki að afhenda alþjóðlegu yfirvaldi algjör yfirráð yfir orkuauðlindum landsins??

Hvar eru mörkin já Þorsteini Pálssyni og Birni Bjarnasyni ef þeim finnst þetta eðlilegur hluti af fullveldi þjóðarinnar??

 

Og hvaða rök færir Björn Bjarnason fyrir sínu máli sem ganga gegn skýru lagaáliti helsta sérfræðings þjóðarinnar í fullveldisrétti, prófessors Stefáns Más Stefánssonar og félaga hans??

Svarið við fyrri spurningunni er ekki þekkt, en við þeirri seinni að rök Björns er lagaálit svipaðra keyptra pésa og sögðu að Stefán og Lárus Blöndal hefðu rangt fyrir sér þegar þeir sýndu fram á það með skýrum rökum og beinum tilvitnum í lagatexta að það stæði hvorki í tilskipun ESB um innlánstryggingar að einstök aðildarríki væru í bakábyrgð fyrir innlánstryggingasjóði sína, eða að sú ábyrgð skapaðist vegna sjálfs samningsins um EES.

Að sjálfsögðu höfðu hinir keyptu rangt fyrir sér því vilhöll stjórnvöld borguðu þeim fyrir ákveðna niðurstöðu.  Og sama býr að baki í dag.

 

Í allri ICEsave deilunni laug Þorsteinn skuldbindingum uppá þjóð sína og núna í öðru máli sem snýst um mikla fjármuni og verðmæti, lýgur Þorsteinn líka; "Hann seg­ir þriðja orkupakk­ann hluta af reglu­verki Evr­ópu­sam­bands­ins sem okk­ur beri að inn­leiða í ís­lensk­an rétt sam­kvæmt samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES)." b Þetta er einfaldlega rangt, Ísland getur hafnað þessari tilskipan og tekið málið upp í sameiginlegri EES nefndinni líkt og prófessor Stefán Már hefur ítrekað bent á.

Þess vegna er ekki skrýtið að maður sem fer svona ítrekað frjálslega með sannleikann þegar hagsmunir auðs annars vegar og þjóðar hins vegar eiga í hlut, skuli kalla beinar lygar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, kúnstir.

Þorsteinn iðkar sem sagt kúnstir þessa dagana.

 

En Þorsteinn má eiga að hann styður þjóðina á sinn hátt.

Þegar menn eins og hann eru hálmstrá Guðlaugs Þórs, menn sem fram á síðasta, og lengur en það, beittu öllu sínu afli, og allri sinni málfylgju til að styðja fjárkúgun erlendra ríkja, þá er ljóst úr hvaða ranni allur sá málatilbúnaður er.

Þetta ætti hinn almenni sjálfstæðismaður að hafa í huga áður en tekur afstöðu til þessa gjörninga flokksins.

 

Það er verið að vega að þjóðinni.

En það lag heppnast ekki ef enginn styður.

 

Þá dagar það uppi.

Aðeins smánin lifir.

 

Smán þeirra sem enn einu sinni reyndu að selja þjóð sína.

Kveðja að austan.


mbl.is Kúnstir að baki orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Margt er vel sagt í netheimum í dag í þessari vörn okkar fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og yfirráðum okkar yfir orkuauðlindum hennar. 

Las þessi mögnuðu orð í pistli hjá Gunnari Heiðarsyni núna rétt áðan, og langar að láta líka lifa hér á síðu minni;

""Þegar maður hélt að maður væri búinn að upplifa allt það slæma við pólitík, hvernig hér var staðið að verki í endurreisn eftir hrun, hvernig þá var vegið að þjóðinni af stjórnmálastéttinni á alla vegu, hvernig Alþingi hagaði sér í Icesave málinu og var gert afturreka með og hvernig stjórnarherrar hafa heygst á því að standa vörð þjóðarinnar, koma núverandi stjórnvöld og ætla að toppa allar slæmar gerðir fortíðar með því að fórna gullepli okkar, orkunni! Sjálfstæði þjóðarinnar lagt að veði!!".".

Þetta er nefnilega ekki einleikið, og full ástæða til að fara að skoða hvaða öfl búa að baki.

En hér er linkur á pistil Gunnars.

Hroki ráðherra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.4.2019 kl. 11:52

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er langur vegur frá því að niðurstaða í Icesave málinu hafi verið borðliggjandi. Það vita allir sem hafa kynnt sér það. Það var þvert á móti mikil óvissa um niðurstöðuna allt þar til dómur féll.

Og þessar endalausu fullyrðingar um að verið sé að færa allt vald yfir orkulindum Íslands til Brussel eru einfaldlega ósannar. Nú síðast í gær áréttuðu Stefán Már og Friðrik þetta með bréfi. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/04/10/Aretting-serfraedinga-vegna-thridja-orkupakkans/

En það breytir auðvitað engu hverjar staðreyndir mála eru fyrir þá, sem staðráðnir eru í að hamra á ósannindum, eða bara of skyni skroppnir til að skilja upp eða niður í málinu sem þeir eru að æsa sig yfir.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.4.2019 kl. 15:24

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Reyndar rétt að það var óvissa fram á síðustu stundu því það hvarflaði ekki að ESB að virða sínar eigin tilskipanir og ESA lét kúga sig.  Einmitt þess vegna eru sporin til að hræðast.

En lögin voru skýr og þó þáverandi forseti EFTA dómsins hafi játað í viðtali við Morgunblaðið að ekki væri sjálfgefið að dæmt væri eftir þeim, þá gerði hann það nú samt.

Og hlaut heiður fyrir.

Það breytir ekki skömm þeirra samlanda okkar sem studdu fjárkúgun breta frá fyrsta degi.

En þú hefur rekið nefið í þetta bréf þeirra Stefáns og Friðriks, og vaknað því aftur til lífsins af endurnýjuðum krafti, og ég verð að játa að ég gerði það líka.  Og neyddist því til að athuga hvað bjó að baki, því svona stefnubreyting er sjaldgæf í fræðasamfélaginu.

Og það var eins og mig grunnti og hefur svo sem gerst áður.

Svona til að hjálpa þér að kveikja, að þá hefðir þú vitað, það er ef þú hefðir til þess lágmarksþekkingu, að þegar Galileó sagði jörðina flata fyrir rétti í Róm, að þá breyttu þau orð engu fyrri yfirlýsingum hans.

Það er að segja, þau breyttu í engu útreikningum hans sem sýndu fram á að hún væri hnöttótt og snérust í kringum sólu.

Það er nú bara það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.4.2019 kl. 15:34

4 identicon

Ekki er það nú burðugt að tönnlast sífellt á að vald yfir auðlindum fari til ESB. Það gerir það bara alls ekki, enda samþykkti SDG 3. orkupakkann í EES. Er ekki rétt að taka slaginn á réttum tíma, þ.e. þegar eftir því verður sóst að leggja hundruða milljarða streng til að flytja orku til Evrópu?

EINAR S. HÁLFDÁNARSON (IP-tala skráð) 11.4.2019 kl. 16:04

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Ómar, hvað sem líður lagatækniþrasi, þá er búið að skuldbinda ríkið! Það var gert 5.mai 2017. Nú tala menn um að ógilda þá undirskrift en vita ekkert hvað þá gerist. Það hefur nefnilega aldrei gerst áður að mál hafi verið samþykkt í sameiginlegu EES nefndinni en síðan verið neitað samþykkis á lögþingi.  Ríkisstjórnin er í miklum vanda og hafði í raun aðeins tvo kosti. 1. Þvinga samþykki þingsins í gegn á móti yfirlýstum vilja þjóðarinnar eða 2. Hafna lögformlegri innleiðingu á þessum tilskipunum og segja þar með einhliða upp EES samningnum.

Það skiptir nefnilega engu hversu lærðir menn eru í lögum og alþjóðarétti ýmiss konar, ef menn eru ekki dómarar við EFTA dómstólinn þá eru álit þeirra ekkert merkilegri en annarra sem þekkja regluverk EES samningsins.

Að líkja þessu máli við ICESave deiluna á sínum tíma gengur ekki upp. Þetta eru gerólík mál. En skiljanlegt, að vilja núa mönnum, sem vildu beygja sig undir húsbóndavald ESB og AGS því um nasir, að þeir höfðu rangt fyrir sér og draga þá réttmætu ályktun, að þarna sé sami hópurinn ,sem berst fyrir samþykki 3. orkupakkansog þeir hafi líka rangt fyrir sér núna!

En svo er enn einn flötur á þessu máli og hann er sá, að samþykki Alþingi breytingarfrumvarp konunnar með langa nafnið, á orkulögunum, þá er það ígildi innleiðingar á orkutilskipun 93/2017, þrátt fyrir að þingsályktun utanríkisráðherra verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því það er hægt að innleiða þessar tilskipanir á tvennan hátt.  Þetta er eitthvað sem andstæðingar orkutilskipunar 93/2017 þurfa að skoða.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.4.2019 kl. 16:24

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ strákar, látið þið ekki svona, til hvers eruð þið að hrekkja sakleysingjann sem settist niður með kaffibollann til að skrifa pistil um Galileó og þumalskrúfur, hafandi enga frétt til að tengja við, og viljandi að skrifa um Trójuhesta umræðunnar, sem var mótaður í sólinni á Grand Canarý, sötrandi eðalkoníak, Remy Martini sem helv. hann Steingrímur Joð lagði á svo mikla skatta að ég hef ekki látið það eftir mér að kaupa innanlands frá því að ég var 55 ára, og mestur parturinn fór í mína ágætu gesti.

Haldiði að það sé eitthvað gaman að lesa lögfræðiálit á íslensku og útlensku, svona miðað við að ég skil ekki útlensku, og tel Svarta dauða skömminni skárri en lögfræði 101 í hálftíma.

Og kaffið var tilbúið, nýlagað og ilmandi.

En það er kurteisi að svara, og þar sem þið eruð svipaðs eðlis, þá hnýti ég ykkur saman.  Trúi því og teysti að þið viljið vel, og séuð með málefnaleg innlegg.

Einar, ég er kurteis maður og læt því sem fyrri setning þín sé ósjálfráð skrift enda veist þú sjálfur að þetta er bull.  En sú seinni er skynsamlegt innlegg, og þetta er náttúrulega sú leið sem ríkisstjórnin kaus að fara eftir að hún áttaði sig á að landvarnardeildin í Sjálfstæðisflokknum myndi ekki sætta sig við stjórnarskráarbrot.  Við vitum báðir að fyrirvarar halda ekki gegn ESB, lög þess halda ekki þegar hagsmunir stærri eru í húfi.  Og ég er ekki að vísa í ICEsave, við sjáum til dæmis ólíka meðferð á Grikkjum og Þjóðverjum þegar bankar voru við það að falla.  Það mátti ekki þenja út efnahagsreikninginn til að tryggja Grikkjum mjúka lendingu, þess vegna voru þeir skornir niður við trog, en misserum seinna þá þandi evrópski seðlabankinn út efnahagsreikning sinn, það er prentaði peninga til að bjarga þýskum bönkum.  Vissulega nutu franskir bankar góðs af því en láttu ekki hvarfla að þér í eina mínútu að það hafi verið skýringin, það stærsta var í húfi.  Og reglurnar sem voru heilagar þegar Grikkir áttu í hlut, voru einskis virði þegar Þýski bankinn átti í hlut.

En þetta er huglægt mat, byggt á staðreyndum vissulega, en ef virðum lög landsins, þá er meginástæðan sú sem þeir Stefán og Friðrik benda á og ég peista á lélegu letri hér á eftir; "Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann. ".

Letrið er ekki mér að kenna, það er bara svo erfitt að kópera úr PDF skjali.

Jóhannes.  Ég skil þig vel, en eiginlega er ekkert rétt sem þú segir hér að ofan, nema ég skal játa að ég þekki ekki til þessarar konu sem hefur langa nafnið, og tek því ekki afstöðu til hennar.

Það var ekkert skuldbundið 5. mai 2017, það er fullyrðing sem enginn hefur rökstutt.  Það er Alþingi sem afléttir fyrirvörum, ekki embættismenn eða misfullir stjórnmálamenn.  Ríkisstjórnin var því ekki í neinum vanda, nema ég skal ekki útiloka að Guðlaugi greyinu hefði verið boðið uppá vatn fyrsta hálftímann í stað þeirra kokteila sem óneitanlega skýra utanumhald Gunnars Braga á sínum tíma.  En Gunnar fór í afvötnun, og mig minnir að Guðlaugur sé ekkert fyrir kokteila.  Hins vegar nenni ég ekki að peista staðfestingu þessa því eins og þú sérð hér að ofan, þá geri ég ekki slíkt ógrátandi, en þú getur alveg lesið um það í greinargerð Stefáns og Friðriks.

Fullyrðing þín þar á eftir er síðan röng, þú veist að prófessorar kenna lögfræði, ekki dómarar EFTA dómsins.  Og ef út í það er farið, þá eru þeir oft á tíðum ekki sérstakir lögfræðingar.  Davíð var samt ágætur.

Það er svo sem rétt að ICEsave sem var fjárkúgun erlendra ríkja og landsala sem kennd er við samþykkt þriðja orkupakkans, er ekki sami hluturinn, en ég er að draga fram þá augljósu staðreynd að því sem næst nákvæmlega sömu einstaklingarnir ljúga í þessu máli.  Hinn sameiginlegi flötur er því aurinn eða hagsmunirnir sem fá menn til að fábúlera svona. 

Gömul saga og ný, Rómverjum fannst til dæmis einfaldlegra að vinna Litlu Asíu með gulli en hervaldi, en einhver smákonungur með mikilmennsku brjálæði, Míþrídates tók heiður fram yfir gull.  Og eitthvað slíkt er í gangi í dag, það láta ekki allir múta sér.

En sá sem er mútaður, þarf vissulega ekki að hafa rangt fyrir sér, en það lýsir ekki góðu fjármálaviti að múta fólki ef málstaðurinn er réttur, þá vinnur hann yfirleitt fyrir sér sjálfur.

Ég er vissulega á móti ásælni erlends auðmagns, en ég virði það viti að það sé ekki að múta fólki að ástæðulausu.

Svo ítreka ég að mig skorti þekkingu til að skilja þig í síðustu málsgrein þinni.

Síðan vil ég bæta því við Jóhannes að það er mín vissa að einn daginn mönnum við sömu skotgrafirnar, því ég veit að innst inni hatast þú við auð og auðvald.

Ég geri það nefnilega líka.

Það er þegar það getur ekki látið mig og mína í friði.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.4.2019 kl. 18:01

7 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég veit ekki í hvaða skotgröf þú hímir Ómar, en næsta víst að í henni sézt ekki til sólar. Ég virðist vera einn um að vera á móti 4. viðauka EES samningsins eins og hann leggur sig. Ég tel að orkumálin séu ekki markaðsvara og eigi því að vera á hendi ríkisins. En það er bara mín skoðun og ekki það sem öll lætin nú snúast um.  En því miður fyrir þig þá er ekki hægt að velja. Og þegar þú færð þér kokteil þá drekkurðu það sem að þér er rétt.

Ég drekk ekki annarra manna kokteila og því ómaka ég mig við að kryfja eðli hlutanna. Og ef þú gerðir það líka þá myndirðu sjá að allt sem ég sagði um þjóðréttarskuldbindingar Íslands varðandi afgreiðslu sameiginlegu EES nefndarinnar er rétt. Og sá skilningur minn styaðfestir líka Dóra Tynes í grein á Kjarnanum https://kjarninn.is/skodun/2019-04-10-hvad-thydir-hofnun-stjornskipulegs-fyrirvara/   

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.4.2019 kl. 18:29

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ, Jóhannes, erut að vitna í Dóru Tynes, þá ágætu konu sem ætti, ef hér væri lýðræði en ekki auðræði,  eftir að afplána 20 ár af fangelsisdómi fyrir landráð því hún ásamt Silju Báru Ómarsdóttir skrifaði grein þar sem hún fullyrti beint að ICEsave væri þjóðréttarleg skuldbinding Íslands, gekk þar beinna erinda erlendra fjárkúgara sem hefðu gert út um sjálfstæði landsins.

Hún slapp, en veistu Jóhannes, það er ekki hægt að leggjast lægra en að vitna í þessa ágætu konu.  Skömm hennar er algjör og sú skömm mun lifa í margar kynslóðir.

Allan tímann sem Dóra vann fyrir breta, þá lá fyrir skýrt lagaálit kennara hennar í þjóðrétti, Stefáns Más Stefánssonar, og það liggur líka fyrir í dag, og hver sem er getur kynnt sér það. Verst þykir mér að þú skulir neyða mig til að peista niðurstöðu hans, því letrið er skelfilegt. 

"Það er réttur EES/EFTA-ríkjanna samkvæmt EES-samningnum að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi innleiðingu á viðkomandi gerðum á þeim grundvelli, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Slíkt kallar hins vegar á sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 102. gr. samningsins." EES-samstarfið byggist á þeirri forsendu að EES/EFT A-ríkin innleiði löggjöf Evrópusambandsins i landsrétt sinn á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til, hvort heldur óbreytta eða með aðlögunum m.a. með hliðsjón af forsendum EES-samningsins og sérstöðu hvers ríkis um sig. Í því ljósi virðist nærtækt að Ísland leiti lausna sem eru fólgnar í því að aðlaga ákvæði þriðja orkupakkans þannig að þau fái samrýmst þeim takmörkunum sem stjórnarskráin setur framsali ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana líkt og ESA. Um slíkar lausnir þyrfti þá að semja á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við málsmeðferð samkvæmt 102. gr. EES- samningsins".

Þessi staðreynd er ekki einu sinni í umræðunni nema hjá þeim sem kjósa að ljúga Jóhannes, það er ekki svo að stjórnvöld og Alþingi hafi samþykkt á sínum tíma einhvern alræðissamning þar sem landið lendir í spennitreyju ef embættismenn þess sofa á verðinum, og því sé það skuldbundið að samþykkja stjórnarskráarbrot og aðra vitleysu.

Hvernig dettur þér þetta í hug??

Að öðru leiti þá svara ég þér skýrt, það er rökin koma öll fram þó vissulega sé ég að gantast í textanum, það var bara svo að ég var að búa mig undir annað verk, en taldi mig neyðast til að andmæla sjónarmiðum ykkar.

Andmælin mín þurfa ekki að vera rétt, til dæmis að prófessorar sem kenna viðkomandi lög hafi þekkingu, en álitamál getur verið á þekkingu dómara, eða heldur þú til dæmis að Ólafur Börkur hafi haft mikið annað til brunns að bera en að vera venslaður við Davíð??

En maður svarar rökum með rökum Jóhannes, engin afsökun þó ég faldi þau í flæðandi texta, en maður gerir sér ekki upp skilningsleysi, og fabúlerar síðan.

Allavega ekki á þessari síðu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.4.2019 kl. 18:50

9 identicon

Fylgi Sjálfstæðisflokksins fellur og fellur.

Einar S. Hálfdanarson og Þorsteinn Siglaugsson

er það ætlan ykkar að vera handbendi þeirra

sem vilja greinilega flokkinn feigan?

Fylgið fellur og fellur og æ meira eftir því 

sem sú forysta, sem þið eruð handbendi fyrir

með málflutningi ykkar hér, verður

meirihluta þjóðarinnar foraktanlegri.

Fylgið mælist nú 21,2%, fallandi

og þið böðlist og böðlist.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 11.4.2019 kl. 19:48

10 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Veiztu það ómar, ég held ég ómaki mig ekki frekar við að "rökræða" þetta mál við þig. Þetta er orðið að einhverju trúmáli hjá þér þar sem þú endurtekur bara þína trúarjátningu eins og hún er matreydd af öðrum.

En hefurðu velt fyrir þér hvað gerist ef Ísland hafnar að innleiða þessa tilskipun? Ert þú með plan B?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.4.2019 kl. 19:59

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Jóhannes, fyrsta regla í rökþroti 101 er að yfirgefa sviðið með stæl eins og þú vissulega reynir að gera í fyrstu setningu þinni.  En þar áttir þú að láta staðar numið í stað þess að gefa mér enn eitt færið á að bögga þig.  Því þú veist að ég veit að þú lúslest athugasemdir mínar til að leita að höggstað, það fylgir þegar athugasemdir eru fullar af ertingu í bland við staðreyndir.

En ég skal láta staðar numið, og svara þér ljúfmannlega.

Nei, ég er ekki með plan B, því mér vitanlega gerist ekkert annað en það að hin EES ríkin semji við ESB um að láta ekki Nei-ið hjá Íslandi trufla þeirra innleiðingu á orkupakkanum.

Það er nefnilega ekki þannig að mér verði að ósk minni að slíkt myndi sprengja EES samninginn og við losnuðum við þetta frjálshyggjubandalag fyrir fullt og allt.

Hins vegar örvænti ég ekki, það liggur í eðli þess sem kemur frá þeim í neðra að heilbrigt fólk rís upp að lokum.  Og það er það sem er að gerast í Evrópu í dag, fólk er að kjósa gegn Friedman og Hayek, fólk er að mótmæla hugmyndafræði þeirra, fólk vill ekki hinar óhjákvæmilegu afleiðingar af frjálsu flæði hinna Örfáu.

Það er lífskjaraskerðingin og atvinnumissirinn sem knýr andófið, þó birtingarmynd þess sé allskonar, óþol gegn innflytjendum, alþjóðavæðingu, skrifræðinu, Brussel, uppgangur allskonar fasistaflokka, hálffasista, lýðskrumara, eða hvað þetta heitir allt saman,.

Ber allt að sama brunni, upplausn og að lokum gliðnun.

Evrópusambandið er deyjandi, og það grætir mig ekki.

Engin ástæða samt að láta regluverk þess vera verkfæri Örfárra til að eignast orkuauðlindir þjóðarinnar, þess vegna tek ég á móti.

Og mun alltaf taka á móti.

Ég las nefnilega Öreigaæskuna eftir Stein Steinar þegar ég var að móta mínar lífsskoðanir, og sé enga ástæðu að leggjast marflatur gegn kúgun aldanna á hinum venjulega manni.

Og þú átt ekki heldur að sjá ástæðu til þess Jóhannes.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.4.2019 kl. 20:15

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er ekki rökþrot þegar andstæðingurinn hefur ekki getu til að rökræða.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.4.2019 kl. 20:25

13 identicon

Oflæti (hroki) er gjarnan undanfari falls.

Þegar fall er hafið

vex hröðun þess sem fallhæðin verður meiri. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 11.4.2019 kl. 20:44

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei, þú ert að hlusta ennþá Þorsteinn, hélt að þú væri ennþá að spá í þetta með Galíleó, og kæmir með eitthvað meitlað svar handa mér sem ég þyrfti að eyða tíma í að velta fyrir mér.

Í stað þess lætur þú mig líða eins og ég sé einhver Gúró, að þú nemir allt sem frá puttum mínum kemur. 

Það liggur við að ég fari hjá mér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.4.2019 kl. 20:51

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Greyið hann Þorsteinn, jafnvel í vafa um rétt okkar í Icesave-málinu! Kannski við förum að grafa upp hvað hann ritaði um málið 2008-13?

Ég hafði svo góða trú á Þorsteini sem sönnum sjálfstæðis- og frjálshyggjumanni, en sýnist nú sem hann sé orðinn hallur undir evrópska stórveldið og uppivöðslusemi þess gagnvart EFTA-ríkjum, ennfremur einum of tryggur þeirri núverandi Valhallarforystu sem er farin að beita sér ítrekað gegn ályktunum landsfunda flokksins.

Jón Valur Jensson, 12.4.2019 kl. 06:53

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Hann er að vinna sig út úr skammarkróknum Jón Valur, það tekur tíma, hafi menn einu sinni í ungæðishætti farið gegn auði og hagsmunum.

En það er margur verri en hann, það vitum við báðir.

En þú sem guðsmaður átt ekki guðlasta á þann hátt að hrósa einhverjum fyrir að vera frjálshyggjumaður.  Núna þegar forspáin um framgang þess í neðra er að ganga eftir.

Hugmyndafræði andskotans er ógn, ógn við allt, lífið, trúna, mennskuna.

Hún er Fernisúlfur okkar tíma.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.4.2019 kl. 07:01

17 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Óttalega er þetta nú kjánalega sagt Jón Valur. Allir sem eitthvað kynntu sér þetta mál á sínum tíma vita að verulegur vafi var um niðurstöðuna allt þar til dómur var fallinn. Það er alveg fyrirliggjandi. Það að menn voni að niðurstaða verði þeim hagfelld, trúi því jafnvel, breytir engu um lögfræðilegan vafa þegar hann er til staðar. Það að menn viðurkenni að vafi sé uppi um að mál vinnist er ekki jafngilt því að þeir "haldi með" andstæðingnum. Sá sem heldur slíku fram er fífl!

Þorsteinn Siglaugsson, 12.4.2019 kl. 19:26

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

NEI, Þorsteinn, hvað sem líðið hefur þínum qualms, þá vorum við í Þjóðarheiðri, samtökum gegn Icesave, þ.e. kjarninn í kringum Loft Altice Þorsteinsson verkfræðing og aðra leiðandi þar, fullkomlega sannfærð út frá lagalegum rökum og skipulagi mála um hreina réttarstöðu Íslands (ríkissjóðs) í Icesave-málinu. Það kemur að því að þín afstaða verði rifjuð betur upp.

Þú snuddast mikið í kringum Valhöll og virðist krónískt meðvirkur með forystunni, ítrekað þegar hún gengur þvert gegn landsfundi, eins og átt hefur sér stað í báðum þessum málum, Icesave og orkupakkanum.

Ómar minni, siðlegur, hófstilltur kapítalismi og frjálshyggja (ég sagði ekki nýfrjálshyggja) er EKKI "hugmyndafræði andskotans", heldur einfaldlega eðlilegir viðskiptahættir, frjáls samkeppni og þó ekki án siðferðislegra takmarkana. Ég er ekki örlagahyggjumaður eins og HH Gissurarson í þessu máli, hér verður mannleg skynsemi og réttlætiskennd einnig að koma að verkum og skipan mála.

Jón Valur Jensson, 13.4.2019 kl. 02:53

19 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Veistu það Jón Valur, að ég nenni ekki að eiga frekar orðastað við þig. Þér er greinilega alveg fyrirmunað að hugsa rökrétt, öll orðræða þín er eitthvert persónulegt skítkast og aðdróttanir út í loftið.

Ég hef ánægju af að rökræða við fólk sem er fært um það. Ekki við óheiðarleg fífl.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.4.2019 kl. 08:50

20 Smámynd: Jón Valur Jensson

Orðbragð þitt segir mest um þig og þína vanstillingu, Þorsteinn, ekki mig. Og það kallar ekki á nein hliðstæð smánaryrði úr mínum huga, því að èg á það bara ekki í mér að niðra þannig náunganum, enda ekki vilji Drottins míns.

Jón Valur Jensson, 13.4.2019 kl. 11:19

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón Valur.

Frjálshyggja og nýfrjálshyggja er af sama meiði, hafnar grunnhugmynd kristninnar að þú eigir að gæta bróðir þíns.

Í raun er ekki neitt til sem heitir nýfrjálshyggja, sú gamla lagðist aðeins í dvala eftir að kristilegir íhaldsmenn hröktu hana felur.

Líklegast ert þú að rugla henni saman við frjálslyndi, sem er annar hlutur.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 13.4.2019 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 1318297

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband