Við þurf­um öll að spila eft­ir leik­regl­um.

 

Og líklegast er ekki hægt að orða kjarna málsins betur en Halldór Benjamín gerir í þessari frétt.

Þess vegna er svo sorglegt að lesa viðtalið við hann, eiginlega er það samfeld árás á hans eigin orð.

Samt er þetta skynsemis drengur.

 

Halldór veit, því hann er ekki fífl, að miðlunartillaga ríkissáttasemjara er bein árás á frjálsan samningsrétt stéttarfélaga, hann veit sem er að þó hann sé ekki alltaf sáttur við verkfallsboðun, að þá er sá réttur stéttarfélaga hafinn yfir allan vafa.

Samt spilar hann sig fífl með því að ráðast að kröfum Eflingar, sem geta alveg verið út úr kú þess vegna, lætur eins og aðför sem og afglöp ríkissáttasemjara hafi eitthvað með þær kröfur að gera.

Og vekur uppi spurningar um vitsmuni þess sem gegnir þessu lykilhlutverki hjá Samtökum atvinnurekenda um að ná sátt og samningum.

 

Maður sem fattar ekki þessi orð, að allir þurfi að spila eftir leikreglum, er eiginlega ekki maður sem er hæfur til að vinna að frið og sátt á vinnumarkaðnum, hann er frekar eins og agent sem þjónar hrægömmum sem tóku skortstöðu gegn stöðugleika í íslensku atvinnulífi.

Það er að segja að við gerum greinarmun á orðum Halldórs í þessu viðtali, það að hann sé að spila á fólk sem veit ekki betur, og að í raun viti hann sjálfur ekki betur.

 

Veit ekki.

Veit samt að þeir sem reka fyrirtæki, og eiga margt undir að hvorki verkföll Eflingar beinist að þeim, eða það sem vænta má, að þau verði langvinn, þeir eiga mikið undir að launaður starfsmaður þeirra sé faglegur, að hann stuðli að sáttum.

Að ekki sé minnst á samninga.

 

Ég held að Halldór sé ekki alveg að ná þessu.

Kveðja að austan.


mbl.is „Það er versti ótti forystu Eflingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjóuð Katrín brúkar munn.

 

Að það sé fráleitt, að hún sem forsætisráðherra hafi skoðun á beinni aðför Aðalsteins Leifssonar að frjálsum kjarasamningum, eitthvað sem allir héldu, allavega samtök launþega, að væri geirneglt í lög og reglur sem stýra og stjórna samskiptum aðila vinnumarkaðarins.

Og eins og hún sagði á sínum tíma, nýorðin ráðherra, "ég tek ekki afstöðu" og vísaði þá í meint lög.  Lög um að uppeldisfeður hennar, þeir Svavar og Steingrímur Joð höfðu lagalega líklegast fullkomna heimild til að selja þjóð sína í skuldahlekki ICEsave.

Þá kannski vissi ekki Katrín betur, enda fór það saman að hún var ung, og algjörlega óreynd, fékk ráðherraembætti sitt út á aldur og bros, en þó brosið sé líklegast ennþá til staðar, þá er hún ekki sannarlega ung, og þar með ekki vitlaus, í vísan í að vera ung og vitlaus.

 

Samt!!

Samt!!

 

Segist hún vera vitlaus, að bein aðför embættismanns sem sækir löghelgi sína í lög um opinbera stjórnsýslu, að það komi henni ekki við.

En að lögfræðingar hafi tjáð henni að þau  sem sömdu lögin, hafi aldrei séð fyrir þessi afglöp ríkissáttasemjara, og því sé aðför hans að vinnurétti, aðför hans að frjálsum kjarasamningu, aðför hans að hlutleysi og trúverðugleika embættis hans, þar með sé hann frjáls um sín afglöp og aðför.

Eins og eitthvað sé ætlast til hennar sem forsætisráðherra að hún geri annað en að brosa.

 

Eða ef það dugar ekki.

Að hún sýni styrk með að brúka munn.

 

Já einföld er hún Kata.

Eða þykist vera svo.

 

En er það svo???

Kveðja að austan.


mbl.is „Algjörlega fráleit túlkun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með lögum skal land byggja en ólögum eyða.

 

Þessi grunnsannindi laga og reglna hafa einhvern veginn flogið út um gluggann þarna hjá þeim í Reykjavíkinni, líklegast um að kenna tíðum veðrum, vetrarveðrum sem firring nútímans kallar óveður.

 

Samt skárri firring en að telja að réttlætiskrafa Eflingar verði leyst í dómssölum, eða Efling styrki málstað sinn með því að eyða peninga í lögfræðinga í stað þess að styðja baráttufólk verkfallanna.

Ég hef áður efast um stríðsráðgjöf Sólveigar Önnu, núna veit ég að þar er úldinn maðkur í mysu, svo úldinn að jafnvel dönsku einokunarkaupmennirnir hefðu veigrað sig við að selja þá, og jafnvel sá maður sem fyrirleit þá mest, Jónas frá Hriflu, hefði jafnvel ekki borið slíkar firrur á borð lesanda Þjóðernis-Íslandssögu sinnar, þó sagði hann margt slæmt um þá.

 

Sá sem skorar valdið á hólm, hann hefur málstað, hann hefur rétt, og hann veit að sá réttur, að sá málstaður er ekki dæmdur eftir ólögum þess sama valds.

Það liggur við að manni gruni að óttinn um digra sjóði Eflingar vegi þyngra en réttmæti baráttunnar, því alveg eins og ólög beita fyrir sig skriðdrekum á Torgi hins himneska friðar, eða á götum Minsk gegn almenningi sem krafðist réttlátra kosninga, þá sækja þau í sjóði verkalýðsfélaga ef þau setja sig uppá móti gerræði þess valds sem hefur fyrir löngu keypt upp lögin.

 

Hvað sem veldur þá er Sólveig Anna á rangri braut.

Sá sem hefur réttinn sín meginn, hann tefur ekki dóm með vísan í að lögfræðingum vanti vinnu, að þá þurfi að fóðra líkt og gullfiska í búri.

 

Því fyrir dómi þá greinir hann aðeins frá Rétti sínum, og mætir svo óhræddur örlögum sínum.

Eins og Jóhanna frá Örk, eins og Sophie Scholl (Hvíta rósin) sem fékk jafnvel saksóknara Þriðja ríkisins til að tafsa þegar hann krafðist hins þyngsta dóms samkvæmt lögum Þriðja ríkisins.

Hann tafsaði eins og frægt er orðið því jafnvel hann átti erfitt með að dæma sakleysið, mennskuna, réttlætið sem kristallaðist í varnarræðu Sofíu, með vísan í þau ólög sem hinn endanlegi dómur átti að byggjast á.

 

Reyndar ætla ég ekki íslenskum dómurum að tafsa þegar þeir vísa í ólög, líkt og aðrir lögfræðingar nútímans þá fengu þeir aldrei kennslu í að lög ættu að vera réttlát, að þau væru tæki siðmenningarinnar sem greindi hana frá villimennskunni, frá skálmöld og vargöld.

En réttlætið veit muninn, og almenningur er ekki eins fávís og valdið heldur.

Dómur ólaga hefur aldrei haldið hjá siðaðri þjóð.

 

Það þarf ekki að ræða framgöngu ríkissáttasemjara, afglöp hans og svik við embættið, það útskýrði settur forseti Alþýðusambandsins samviskusamlega í ályktun Rafiðnaðarsambandsins þar sem hann er formaður.

Ekkert stendur eftir nema bein aðför að sáttinni milli aðila vinnumarkaðarins sem tók áratugi að byggja upp, og sú aðför snertir allt samfélagið, leikreglur þess og þá samfélagssátt að frekar skal leita friðar en ófriðar.

Hugsun sem Þorgeir Ljósvetningagoði ljáði orð eftir langa íhugun undir feldi, og kom þar í veg fyrir illvígan innanlandsófrið.

Lögin áttu að byggja landið, ekki eyða því.

 

Lög eiga að byggja landið, ekki eyða því.

Að ætla héraðsdóm að skilja þá visku er ofætlun, sama hvað marga yfirvinnutíma lögfræðingar Eflingar fá borgað til að orða hana á lagamáli.

 

Stjórnmálamenn okkar hafa örugglega þá vitsmuni sem þarf til að skilja þessi grundvallarsannindi friðar og reglu, en valdið sem þeir þjóna vill frekar ófrið en frið, dagskipun þess er að Eflingu skuli knésetja með öllum ráðum.

Varðandi stuðningsyfirlýsingu Katrínar og Guðmundar þá megum við ekki gleyma að þau bæði kunna sannarlega að tannbursta sig og reima skó, meiri vitsmuni þarf ekki til að skilja raðafglöp ríkissáttasemjara, þau eru ekki heimsk, ekki frekar en sá sem krafðist dóms yfir Sofíu Scholl eða sá sem öskraði og æpti yfir dauðasaklausu fólki í Moskvuréttarhöldunum 1936.

Eða eins og segir í Wikipedíu um réttarhöld ólaga; "Sýndarréttarhöld eru réttarhöld þar sem ákvörðunin um sekt eða sakleysi sakbornings hafa verið ákveðin fyrirfram. Slík réttarhöld eru oft fyrirferðamikil í fjölmiðlum og gjarnan af pólitískum toga, það er að segja, að baki þeim liggur annað og meira en grunur um að framinn hafi verið tiltekinn glæpur. Að baki getur legið vilji til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga og að útbúa víti til varnaðar fyrir aðra".

Reyndar er dálítið sætt að Katrín skuli á 21. öldinni heiðra þessa minningu íslenskra sósíalista með stuðningsyfirlýsingu sinni við Aðalstein Leifsson.

 

En það er ekkert sætt eða fallegt við þá ráðgjöf myglunnar að Efling skuli dansa með.

Að félagið skuli ekki þekkja sinn vitjunartíma.

 

Og mæta dómi Ólaganna með reisn.

Berjast svo gegn þeim dómi og hafa sigur.

 

Það er nefnilega þetta með erindrekanna.

Og þekkta erindreka.

 

Að þó maður trúi á álfa og huldufólk, að þá leyfi maður sér að efast um heilindi Nýsósíalista.

Samt var maður farinn að efast um efann.

 

Veit ekki.

En ég veit þó að eitthvað er að hjá Eflingu.

 

Hvað sem það er, hvað sem veldur.

Þá mun leiðsögn "slyðruorðsins" aldrei vinna nokkra orrustu, hvað þá nokkuð stríð.

 

Ekki frekar en ólög byggja land.

Kveðja að austan.


mbl.is „Hefðum viljað fá lengri frest“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ásmundur ennþá í verkalýðsarmi Samfylkingarinnar??

 

Datt það svo sem í hug því það er orðin hefð hjá Mogganum að byrja vikuna á að peppa upp mannskapinn með flennifréttum  þar sem hælbítar Sólveigu Önnu fá sviðsljósið.

Og fyrir einhverja skrýtna tilviljun virðast þeir allir rúmast í verkalýðsarmi Samfylkingarinnar sem er reyndar ekki stór armur.

Það aftur kannski skýrir þetta óvænta sviðsljós Ásmundar, það er sagt að það sé fíkn sem hrjáir marga eldri menn, að vera ekki lengur í fyrirsögnum blaðanna eða fyrsta frétt á ljósvökunum, að þá er allt gert til að komast þangað aftur.

 

En samt, gat Mogginn ekki betur??

Eldri menn hafa oft margt til málanna að leggja sem full þörf er að gefa gaum af, hlusta á, íhuga, læra af.

En þegar sögurnar eru orðnar stórkarlalegar, fullyrðingarnar yfirgengilegar, þá ætti sá sem nær í hælbít, því allt þjónar þetta tilganginum að níða niður, að  rægja, að íhuga afhverju orðið "ær" er stundum notað í öðrum viðskeytum en að vera ærlegur eða eitthvað svoleiðis.

 

"Fordæmalaus ósannindi" segir þessi fyrrum verkalýðshetja, "bein ósannindi", finnst blaðamanni Moggans að þeir sem harka í þessum bransa í dag fari með fordæmalaus ósannindi, bein ósannindi eða annað í ályktunum sínum??

Eða var kannski náð í svo gamlan blaðamann af ellilaunahillunni?? að hann man ekki aðra tíma en þegar menn steyttu hnefum í kjarabaráttu sinni og lögfræðingar landsins voru það fáir að þeir voru flestir í vinnu hjá ríkinu, einn hjá borginni og nokkrir hjá helstu stórfyrirtækjum landsins.  Svo voru nokkrir sem skrifuðu stefnur og gerðu upp dánarbú.

En verkamenn eða samtök þeirra höfðu fá kynni af þeim nema þegar þeir lásu tilkynningar þeirra um útburð eða stefnur vegna skulda eða eitthvað svoleiðis.

 

Nei í dag er ekki þverfótað fyrir lögfræðingum, það opnar ekki nokkur kjaftur án þess að bera það fyrst undir lögfræðing.

Menn fara ekki með ósannindi, hvort sem þau eru fordæmalaus eða bein, menn draga í efa, vilja láta skera úr, bera við andmælarétt og öðrum rétti, og ætla svo að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól ef aðrir dómstólar eru ekki sammála efa þeirra eða annað.

 

Morgunblaðið birti meir að segja gott viðtal við Láru V. Júlíusdóttur, helsta vinnumálasérfræðing landsins, og þó hún verði seint talin í vinahópi Sólveigu Önnu, þá rakti hún efann og vafann við þessa framgöngu ríkissáttasemjara, og af hverju hún væri eins og að skeggjaður maður í kufl með sprengjubelti um sig miðjan mætti inní samkomu frímúrara og bæði um orðið.

Hún, líkt og allskonar samtök launþega, benti réttilega á að samskipti og hlutverk ríkissáttasemjara sem sáttarafl á vinnumarkaðnum væri ekki allt bundið í lög, heldur óskráðum reglum sem byggðust á trúnaði og trausti.

 

Að afgreiða alla þessa umræðu, alla þessa gagnrýni, með svona frétt, er hreint út barnalegt, sýnir raunverulega hve núverandi ritstjórn Morgunblaðsins er komin langt frá þeim gildum sem einkenndu blaðið undir stjórn þeirra Styrmis og Matthíasar.

Þeir voru dyggir baráttumenn þeirra hagsmuna og gilda sem Morgunblaðið stóð fyrir, en þeir voru ekki fífl.

Og skrifuðu ekki fyrir fífl.

Það virðist eitthvað hafa breyst.

 

Já, mikill er máttur Sólveigu Önnu.

Mikið er fall Morgunblaðsins.

 

En aumingja, aumingja Samfylkingin.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Fordæmanleg ósannindi um lagaheimildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissáttasemjari er rúinn trausti.

 

Nei, reyndar ekki alveg, það eru tvær manneskjur á Íslandi sem bera ennþá fullt traust til hans, ráðherrar VinstriGrænna, þau Guðmundur Guðbrandsson og Katrín Jakobsdóttir.

 

Hvað getur svo sem verið táknrænna þegar 10 ár eru liðin frá því að EFTA dómstóllinn dæmdi ICEsave samning Svavars og Steingríms ólöglega fjárkúgun, sem reyndar var eitthvað svo augljós niðurstaða því hvernig getur fjárkúgun verið nokkurn tíma lögleg??

Eitthvað sem allir föttuðu nema Svavar og Steingrímur og nokkur fósturbörn þeirra í VG.

Sömu fósturbörn og skilja ekki núna af hverju ríkissáttasemjari er rúinn trausti.

 

Morgunblaðið í dag vitnaði samviskusamlega í ályktun Rafiðnaðarsambands Íslands þar sem afglöp ríkissáttasemjara voru á skilmerkilegan hátt dregin saman.

 

- Samn­inga­rétt­ur er grund­vall­ar­rétt­ur launa­fólks sem og rétt­ur­inn til þess að leggja niður störf til þess að veita eðli­leg­an og nauðsyn­leg­an þrýst­ing á at­vinnu­rek­end­ur í þeirri von að ná ásætt­an­leg­um kjara­samn­ingi fyr­ir fé­lags­fólk sitt.

- Það er með öllu ólíðandi að rík­is­sátta­semj­ari grípi til miðlun­ar­til­lögu án þess að all­ar aðrar mögu­leg­ar leiðir séu full­reynd­ar og í fullu sam­ráði við aðila kjara­deil­unn­ar.

- Sam­ráð hafi ekki verið haft við ann­an samn­ingsaðilann og samþykki viðkom­andi ekki fengist fyr­ir fram­lagn­ingu miðlun­ar­til­lögu.

- Kjara­deil­an er ekki á þeim stað að samn­ingaviðræður hafi verið full­reynd­ar. Stutt­ur tími er frá því að kjara­samn­ing­ur­inn rann úr gildi og langt frá því að neyðarástand hafi skapast. Því er aug­ljóst að inn­grip í kjara­deil­una á þess­um tíma­punkti er ein­göngu til hagsbóta fyr­ir atvinnu­rek­end­ur og því má draga í efa hlut­leysi rík­is­sátta­semj­ara við þessar aðstæður.

- Sam­bandið skor­ar á rík­is­sátta­semj­ara að draga miðlun­ar­til­lögu sína til baka og láta af fordæma­laus­um aðgerðum gegn stétt­ar­fé­lagi sem með lög­mæt­um hætti legg­ur sitt af mörk­um að ná ásætt­an­leg­um kjara­samn­ingi fyr­ir sitt fé­lags­fólk.

- Jafn­framt er rík­is­sátta­semj­ara bent á að hon­um beri að gæta jafn­ræðis á milli samningsaðila og stilla sér ekki upp í hóp at­vinnu­rek­enda með jafn af­ger­andi hætti og raun ber vitni.

- Rík­is­sátta­semj­ari leggi hér með fram til­boð at­vinnu­rek­enda sem miðlun­ar­til­lögu. Það sýni skort á teng­ingu við málstað verka­lýðsfé­lags­ins.

- Hlut­verk rík­is­sátta­semj­ara, að miðla mál­um og auðvelda deiluaðilum að ná kjara­samn­ing­um en ekki að hlutast til um inni­hald kjara­samn­inga eða draga í efa fé­lags­legt umboð samn­inga­nefnd­ar verka­lýðsfé­lags.

- Rík­is­sátta­semj­ari hef­ur að mati miðstjórn­ar RSÍ skaðað veru­lega traust fjöl­margra verkalýðsfé­laga til embætt­is­ins og er ljóst að ef byggja á upp traust þá verður að draga fram­lagða miðlun­ar­til­lögu til baka taf­ar­laust. Auk þess þarf að tryggja að hlut­laus aðili leiði kjaradeil­ur á kom­andi vik­um og mánuðum.

 

Hvert og eitt þessara atriða eru nægjanleg til að ríkissáttasemjari íhugi stöðu sína, séu þau öll lögð saman þá er ljóst að afglöp hans eru miklu alvarlegri en svo að hægt sé að einangra þau við þessa kjaradeilu Eflingar við Samtök Atvinnulífsins.  Þess vegna segir Rafiðnaðarsambandið að það er ekki nóg að ríkissáttasemjari dragi meinta miðlunartillögu sína til baka, heldur þurfi stjórnvöld að tryggja að hlutlaus aðili leiði kjaradeilur á komandi vikum og mánuðum.

Því eins og sambandið segir; "Ljóst þykir sam­band­inu að aðgerðir rík­is­sátta­semj­ara geti valdið launa­fólki á Íslandi mikl­um skaða, verði ekki brugðist við með af­ger­andi hætti strax.".

 

Svo ég endurtaki, aðgerðir ríkissáttarsemjara geti valdið launafólki á Íslandi miklum skaða, verði ekki brugðist við með afgerandi hætti strax.

VERÐI EKKI BRUGÐIST VIÐ MEÐ AFGERANDI HÆTTI STRAX.

 

Og afgerandi viðbrögð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra er að lýsa yfir fullu trausti til ríkissáttasemjara.

Svo tala menn um Pútín og veruleikafirringu hans.

 

Við ættum að líta okkur aðeins nær.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Katrín ber fullt traust til ríkissáttasemjara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólveig, girtu upp brók.

 

Hættu að skríða fyrir valdinu.

 

Fáðu þér frekar göngutúr niðri í brimfjöru í fyrramálið og finndu í sálu þinni styrk formæðra og forfeðra þinna þegar þau lifðu af í þessa harðbýla landi okkar.

Rifjaðu svo upp augnablikið sem Halldór gerði ógleymanlegt í Paradísarheimt þegar íslenskir kotbændur tóku í höndina á Danakóngi og sögðu; "sæll frændi" og vísuðu þar í sameiginlega forfeður frá því á víkingaöld.

 

Eða á ég að minna þig á eina sögn sem föðurbróðir þinn skráði og sagði frá norðfirska sjóaranum sem fór út í heim á farskipum, og þegar hann lenti í því á fyrstu vakt sinni að bátsmaðurinn skipaði honum með þjósti að taka ofan fyrir skipstjóranum á fraktaranum, þá tók hann vissulega ofan, en það var í síðasta sinn því hann þeytti húfunni yfir borðstokkinn, og jafnvel í steikjandi sól miðbaugsins var ekki náð í annað húfulok.

Því hann tók ekki ofan fyrir einum eða neinum af auðmýkt, aðeins þegar hann heilsaði sjálfur, og var heilsað á móti.

 

Þú ert umkringd glefsandi hýenuhjörð sem rífur þig á hol ef þú sýnir hin minnstu veikleikamerki.

Og þó allar gæsir landsins séu sóttar og settar fyrir framan ráðherrabústaðinn, þá, í talgangslausu verki, er líklegra að þær hörfi úr görðum ef þú skvettir á þær vatni en að ráðherra taki mark á sönnum orðum þínum um aðför ríkissáttasemjara.

Ekki vegna þess að meiri líkur en minni er að þeirri aðför er stýrt úr ráðherrabústaðnum heldur ertu að tala við mann sem hefur selt sálu sína fyrir vald, ekki réttlæti.

 

Það er ekki góður ráðgjafi sem hefur ráðlagt þér að fara þessa feigðarför.

Og mundu að vond ráðgjöf afhjúpar yfirleitt hvar hugur liggur í raun.

 

Réttlæti skríður ekki.

Kveðja að austan.


mbl.is Vill hitta Guðmund Inga fyrir fyrirtöku á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve illa er komið fyrir einu samfélagi??

 

Þegar aðeins Sósíalista flokkur Íslands kveikir á perunni hve alvarlegt athæfi meint miðlunartillaga ríkissáttasemjara er að frjálsum kjarasamningum, sem og þeim skaða þegar hlutlaus embættismaður gengur erinda annars aðilans.

Eru það aðeins sósíalistar sem hafa það skynbragð að skilja að embætti ríkissáttasemjara á allt sitt undir gagnkvæmu trausti og trúnaði, jafnt samtaka launafólks sem samtaka atvinnurekenda, og með þessu gönuhlaupi sínu hefur hann í raun eyðilagt það kerfi sem hefur komið í veg fyrir svo mörg skemmandi átök á vinnumarkaðnum á liðnum árum og áratugum??

 

Hvar eru allir gapandi, gólandi flokkar Góða fólksins sem hafa hrópað hátt á Alþingi af minna tilefni??

Og oft af engu tilefni?

Sem og það sem verra er, hvar eru ríkisstjórnarflokkarnir, þessi stjórn var jú stofnuð um stöðugleika og ábyrgð, hví þegja þeir þegar til skamms tíma er reynt að hleypa öllu í bál og brand, til lengri tíma að eyðileggja öll heilbrigð samskipti í Karphúsinu??

 

Sólveig Anna hefur verið gagnrýnd fyrir að vera sósíalisti og eiga sér bakland í Sósíalistaflokknum.

En skilja menn ekki að þegar aðrir bregðast, þá er valkostur láglaunafólks, valkostur láglaunakvenna ekki mikill.

Í raun enginn líkt og hin æpandi þögn hefðbundinna stjórnmálaflokka sannar.

 

Í upphafi skyldu menn endinn skoða, sem og við ættum öll að spyrja okkur, er það eðlilegt að ein hógvær krafa, krafan um að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum, veki þessi harkalegu viðbrögð.

Að sjálfsögðu er ekki bara við atvinnurekendur að sakast, mjög stór hluti þeirra glímir við erfiðleika að láta enda ná saman, líkt og er hjá láglaunafólki.

 

Í raun liggur meginsökin í samfélagsgerð okkar og þeim sið, eða réttara sagt ósið, að telja það sjálfsagt að byggja velferð og velmegun á innflutningi bláfátækra og skammta þeim smánarlaun svo vart er hægt að tala um annað en nútímaþrælahald.

Kerfi sem gengur kannski á meðan endar ná saman, en gengur ekki þegar allt snarhækkar nema launin.

 

Við sem þjóð ættum að staldra við og hlusta, í stað þess að berja niður.

Það væri gæfuspor, og það gæfuspor skilja sósíalistar.

 

Þetta snýst jú allt um sið.

Ekkert annað.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Sósíalistar fordæma framgöngu ríkissáttasemjara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugmæli.

 

Öll embætti, hversu mæt þau annars eru, geta lent í klóm hagsmunaaðila, og hætta því að gegna hlutverki sínu, verða svona Leppar og Skreppar þeirra hagsmuna sem þau þjóna.

 

Í dag er það öfugmæli að kalla Aðalstein Leifsson; ríkissáttasemjara, og tillögu hans; miðlunartillögu.

Aðalsteinn gengur erinda annarra, ekki þess embættis sem honum var trúað fyrir, og meint miðlunartillaga hans er grímulaust tilboð Samtaka Atvinnulífsins sem Efling hafði þegar hafnað.

 

Rök Aðalsteins halda ekki vatni, þau eru vanvirðing við bæði skynsemi sem og hlutverk og tilgang embætti hans.

Hann segir deiluna komna í hnút vegna þess að menn nýttu aðeins mínútu til að spjalla saman.  Ef hann er ekki skyni skroppinn þá veit hann að slíkt er aðeins eðlilegt í átakaferli þegar menn skekja skildi og hrópa ókvæðisorð að hvorum öðrum, svona bara uppá pepp og móralinn.

Efling hefur ekki einu sinni fengið samþykki félagsmanna sinna fyrir takmörkuðu skæruliðaverkfalli sínu, hvað þá að félagið hafið boðað til allsherjarverkfalls.

Sem þjálfaður samningamaður á Aðalsteinn að vita að deilan er ennþá í gerjun, á eftir að springa út, og þá á hún eftir að þroskast, aðeins þá kemur í ljós styrkleiki verkfallshótunar Eflingar sem og vilji atvinnurekanda að standast þá hótun.

 

Auðvita veit Aðalsteinn þetta, hann er enginn heimskingi þó hann kjósi að spila sig slíkan, en þeir sem ganga erinda annarra grípa oft til undarlegra röksemda til að réttlæta erindarekstur sinn.

Öllu alvarlegra er þegar Aðalsteinn missti út úr sér að hann hefði viljað að félagar Eflingar fengju að greiða atkvæði um tilboð Samtaka atvinnulífsins, eins og það væri hans hlutverk að meta slíkt.

 

Þetta er ekki heimska, þetta er aðför, og hann má ekki komast upp með hana.

Ekki frekar en ríkislögreglustjóra að banka upp hjá fólki og leggja undir sig eigur þess í krafti embættis síns, og þegar fólk neitar, þá beiti hann valdboði  til að knýja fram rupl sitt.

 

Í þessu tilbúna dæmi eiga undirmenn ríkislögreglustjóra og dómstólar að neita embættisvaldinu, í hinu raunverulega dæmi á Efling ekki að virða Aðalstein viðlits eftir að ljóst var að hann væri kominn í erindarekstur.

Og væri einhver döngun hjá öðrum í kerfinu þá myndu þeir hundsa beiðnir hans um inngrip lögreglu og dómsstóla.

Umgangast hann eins og Persona non grata eins og hann er í dag.

 

Vilji sá sem Aðalsteinn gengur erinda fyrir að félagsmenn Eflingar greiði atkvæði um lokatilboð Samtaka atvinnulífsins, þá geta viðkomandi sjálfir snúið sér til dómsstóla með þá kröfu sína.

Ekki nota embætti Ríkissáttasemjara sem millilið.

Því annað er í raun aðför að leikreglum sem ætlast er til að allir virði.

Bein eyðilegging á því embætti sem Aðalsteinn Leifsson gegnir.

 

Þó menn telji mikla ógn stafa af þeirri hógværu kröfu Eflingar að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum, þá hljóta þessir sömu menn, þessir sömu hagsmunaaðilar, að hafa önnur úrræði til að brjóta þessa ósvífni á bak aftur en að fórna samningakerfinu á vinnumarkaðnum sem hefur reynst honum svo vel.

Því öfugmæli Aðalsteins ganga af því kerfi dauðu séu þau knúin fram með valdboði.

 

Það er stór fórn til að stöðva eina manneskju.

Jafnvel þó hún berjist fyrir réttlæti.

 

I have a dream.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Launareiknivél ríkissáttasemjara komin í loftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krókódílatár Starfsgreinasambandsins.

 

Allir vita sem eitthvað hafa komið nálægt verkalýðsbaráttu, sem og reyndar allir sem hafa heilbrigða skynsemi til að bera, jafnvel dugar að vera bara ekki mjög vitlaus, vita að inngrip Ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka Atvinnulífsins er bein aðför að eina vopni verkalýðshreyfingarinnar.

Verkfallsréttinum.

Rétti, sem tók bláfátækt verkafólk síðustu alda áratugi með jafnvel blóðugri baráttu í sumum löndum, að öðlast.

 

Verkalýðshreyfingin gefur þann rétt ekki eftir baráttulaust, ekki nema hún sé ofurliði borin af skriðdrekum og vélbyssum vopnaðra hermanna.

Ætli menn að vega að þessum rétti með krókaleið laganna, þá á verkalýðshreyfingin að mæta þeim ólögum af fullum þunga.

Lýsa því yfir að sátt sé rofin, og hún verði ekki aftur nema að leikreglunnar séu virtar.

 

Sjaldan hef ég skrifað færslu með eins djúpum trega eins og um þessi krókódílatár Starfsgreinasambandsins.

Þetta fólk veit ekki lengur í hvaða liði það er.

Kveðja að austan.


mbl.is Dómstólar skeri úr um lögmæti tillögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grillir í brúðuleikstjórann.

 

Ef Halldór Benjamín er svona viss að Eflingarfélagar vilji SGS samninginn, þá veit hann líka að þeir samþykkja ekki verkfallsboðun samninganefndar félagsins, svo einfalt er það.

Það er ekki hans hlutverk að beita bolabrögðum til að fá þann samning til atkvæðagreiðslu.

Og hann á ekki að vera svo mikill auli að vita ekki að séu leikreglur ekki virtar, þá eru forsendurnar fyrir þeim brostnar, og við tekur vargöld og vígöld.

 

Að fórna Ríkissáttasemjarar voru mikil mistök.

Kveðja að austan.


mbl.is Telur félagsfólk Eflingar vilja SGS-samninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2023
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 251
  • Sl. sólarhring: 583
  • Sl. viku: 4699
  • Frá upphafi: 1329261

Annað

  • Innlit í dag: 212
  • Innlit sl. viku: 4139
  • Gestir í dag: 203
  • IP-tölur í dag: 202

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband