Stríð svartstakkanna.

 

Við lifum skrýtna tíma á Íslandi í dag.

Forhert klíka Svartstakka hefur hreiðrað um sig í stjórn Samtaka Atvinnulífsins og virðist vera í svona heilögu stríði gegn áratuga viðurkenndum rétti verkafólks að nýta sér verkfallsréttinn ef félög þeirra og samtök eru ekki sátt við það sem boðið er við samningaborðið.

Þessi réttur hefur sjaldan verið nýttur á þessari öld nema í einstaka tilvikum hjá stéttarfélögum opinbera starfsmanna, en á almenna vinnumarkaðnum erum þau ákafleg sjaldgæf, og þá almennt staðbundin nema verkfall sjómanna 2016 sem má segja að hafi endað með ósigri þeirra.

 

Samt taka ráðherrar í ríkisstjórn Íslands undir þessi sjónarmið eða aðför að verkfallsréttinum, tala um að það þurfi að breyta vinnulöggjöfinni því verkföll skaði samfélagið.

Hvað er þá eftir í vopnabúri verkalýðshreyfingarinnar ef vinnulöggjöfin setur verkfallsréttinum svo þröngar skorður að í praxís sé búið að afnema þennan grundvallarrétt launafólks?? 

Á hún þá að treysta á miskunn, náð, góðvild bæði atvinnurekanda eða stjórnvalda í þeirri eilífðarbaráttu að tryggja vinnandi fólki sanngjarnan hlut af þjóðarkökunni??

Víðir lögga sagði hjá Gísla Marteini í gær þegar hann hrósaði Sólveigu Önnu fyrir staðfestu sína, að ýmis réttindi launafólks, sem við töldum sjálfsögð í dag, eins og orlofsréttur, laun í veikindum, lífeyrissjóðir, allt þetta hefði ekki komið að sjálfu sér heldur vegna baráttu launafólks, þar á meðal viljanum til að fara í verkfall til að knýja í gegn kjarabætur.

 

Samt upplifum við aðför ofsamanna að þessum rétti svo einna helst má líkja þegar Mússólíni í upphafi valdatíðar sinnar lét svartstakka sína lemja verkafólk á Ítalíu til hlýðni, þar vegna þess að hann þoldi aðeins eitt vald á Ítalíu, sitt vald.

Hér er nútímaútgáfa sömu Svartstakka að lemja láglaunafólk til hlýðni með níð og rógsherferðum, með því að misnota embætti ríkissáttasemjara, með algjöri óbilgirni við samningaborðið, og þegar það dugði ekki, fordæmalaust verkbann sem reyndar má deila um hvort er frekar beint að ríkisstjórninni en Eflingu.

 

Hver eru svo rök Svartstakkanna gegn sanngjörnum kröfum Eflingar???, það vita jú allir að villimennskan á húsnæðismarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu hefur étið upp allar kjarabætur liðinna ára og að lægstu launin duga ekki lengur fyrir lágmarks framfærslu, ástand sem ætti að brenna jafnt á atvinnurekendum sem og launafólki því sveltur maður sinnir ekki vinnunni sinni vel.

Kröfur Eflingar eru sagðar fara fram úr launaviðmiðum, séu hærri en aðrir hópar hafi fengið. En laun æðstu stjórnenda, jafnt á almenna markaðnum sem og hjá hinu opinbera, hafa hækkað töluvert meira á liðnum árum en laun láglaunafólks.  Það er því skinhelgi að taka til sín stærri hluta af launakökunni og ætlast síðan til að starfsfólkið á lægstu laununum bæti það upp með hógværð í sínum kröfum.

Það er búið að semja við 80% launþega, þar á meðal aðildarfélög Starfsgreinasambandsins, við getum ekki samið við önnur félög um hærri kjör.  Eitthvað sem stenst enga skoðun, samningar annarra geta ekki svipt láglaunafólk í Reykjavík réttinn til að semja um sín eigin kjör, hvað þá svipt það réttinn til að fara í verkfallsaðgerðir telji það þess þurfa.  Það er samningafrelsi í landinu en ekki svokallað hópfrelsi að stærsti hópurinn ákveði kjör annarra hópa.

 

Loks er talað um efnahagslegan stöðugleika, það séu óvissutímar og óraunhæfir kjarasamningar auki verðbólguna ef ekki er innistæða fyrir þeim.

Allt gild rök í sjálfu sér en sanngjarnt fólk getur ekki ætlast til þess að láglaunafólk í Reykjavík axli eitt ábyrgð á þeim stöðugleika, með því að svelta, því þvílík er villimennskan að þegar fólk hefur borgað leigu, eða borgað af húsnæðislánum sínum, þá er ekkert afgangs fyrir brýnustu lífsnauðsynjum.

Það eru gild rök fyrir kaupkröfum Eflingar, og ef eitthvað er þá eru þær alltof hógværar miðað við hinn bitra raunveruleik láglaunafólks að til dæmis hækkanir á húsaleigu hafa þegar étið upp væntanlega kauphækkanir, og meira til.

Síðan eru hinar væntanlegu launahækkanir ekki að spýta meiri fjármunum inní hagkerfið en aðrar launahækkanir, nema síður sé.  Það er einfalt reiknisdæmi að sjá 5% hækkun á 800 þúsund króna grunnlaun er sama upphæð og 10% hækkun á 400 þúsund króna grunnlaun.

 

Eftir stendur  kannski stóra spurningin, hafa menn efni  á þessum launahækkunum??

Þá er fyrst að geta að sérhver vaxtahækkun Seðlabankans tekur háar fjárhæðir úr rekstri fyrirtækja og færir þá fjármuni í vasa fjármálastofnana, enginn spyr þá hvort fyrirtækin hafi efni á þessu, aðeins spurt þegar hækka á laun okkar minni bræðra.

Síðan eru það ofurlaun forstjórnanna, arðgreiðslurnar, hagnaðartölur fyrirtækja með því besta sem hagasaga okkar þekkir, ekkert af þessu bendir til kreppu í hagkerfinu enda hefur það vaxið mikið á liðnum árum. 

Það er aðeins þegar skúringarkonan bankar kurteislega á dyr og biður um salt í grautinn að allt verður vitlaust, forstjórarnir fara inní fataskápinn og taka út mjölétin jakkaföt sem einkaritari þeirra fékk hjá Hjálpræðishernum, einkaritarinn síðan í snarhasti látinn farða á þá sultarsvip, og skúringarkonunni tjáð að því miður standi svo illa á en kannski eigi hann nokkur slitin skópör sem hún geti fengið til að sjóða úr súpu, gamalt húsráð frá tímum Móðuharðindanna.

 

Það er nefnilega ekkert eðlilegt í þessum viðbrögðum við hógværa kröfugerð Eflingar.

Þau bæði ráðast á heilbrigða skynsemi fólks sem og sjálfan raunveruleikann, það er þensla í þjóðfélaginu sem sést á öllum eyðsluhagtölum.

Og ef ástandið væri vissulega svona tvísýnt, og þá vegna ytri óvissu, þá er fyrsta skref Samtaka Atvinnulífsins að tilkynna sitt eigið fordæmi, til dæmis að lækka ofurlaun sín um sirka 10%, frysta arðgreiðslur, safna í sjóði fyrir erfiða tíma.

Stjórnvöld myndu síðan setja ýmis Þök, til dæmis á hækkun verðtryggingarinnar (taka út erlenda hækkunarliði), hækkanir á opinberum gjöldum, á hækkanir á leigumarkaði, á vaxtahækkanir Seðlabankans, og ekki hvað síst, að hjálpa láglaunafólki að eignast Þak yfir höfuð.

 

Það eru nefnilega fordæmin sem setja viðmiðin, og fordæmum er fylgt séu þau sanngjörn, og taka tillit til aðstæðna allra, ekki bara hinna ofurríku og fyrirtækja þeirra.

Þetta er líka eitthvað sem sanngjarnt og heiðarlegt fólk veit þó það kannski fari með veggjum í dag, og láti ofsa og öfgamenn komast upp með að stríða við láglaunafólk þjóðarinnar sem sannarlega á erfitt með að ná endum saman í dag.

Í stríði sem virðist hafa það eina markmið að afnema verkfallsréttinn hjá launafólki.

 

Af hverju er svona komið fyrir okkur sem þjóð??

Að öfgarnar stjórni öllu, hvar sem er litið.

Af hverju ber okkur ekki gæfu til að setjast niður til að setja niður og ræða málin??

 

Það er svo mikið ójafnvægi í samfélaginu í dag, kerfin okkar, hvort sem það er heilbrigðiskerfið, vinnumarkaðskerfið, húsnæðiskerfið, eða efnahagskerfið, allt virðist vera komið að því að springa vegna þessa ójafnvægis, og umræðan er öll út á túni í einhverju bulli, upphrópunum, upphlaupum, og á sama tíma er ráðafólk okkar upptekið í útlöndum að fá að vera Memm meðal hinna stóru þjóða meginlandsins.

 

Við líðum þetta stríð Svartstakkana, samt vitum það er rangt, það er rangt að svipta launafólki verkfallsvopni sínu, og það er ranglátt, aðeins barbarar og þaðan af verra fólk reynir að réttlæta laun sem duga ekki fyrir framfærslu, í landi þar sem smjörið drýpur, hjá þjóð sem hefur aldrei verið ríkari.

Sumum finnst það kannski alltí lagi því það gæti fellt ríkisstjórnina og flýtt því ferli að við segjum okkur til sveita hjá Brusselvaldinu, en þá ættu þeir sumu að spá í sinn innri mann, það hljóta að vera önnur tæki og tól til að ná því markmiði, annað en ranglátt stríð ofsa og öfgamanna gegn þeim sem hallast standa i samfélagi okkar.

Því það er á svona stundum þar sem innri maður fólks kemur í ljós.

 

Í gær heyrðist óvæntur sáttatónn, kannski mun þessi deila leysast farsællega eftir allt saman.

Það er vel ef svo verður.

 

Eftir stendur þá reynslan sem við verðum að læra af, sem og ástæður þess að Efling fór af stað með launakröfur sínar, þær eru ennþá allar til staðar.

Og það er lítið verið að gera, yfirleitt vinnur hver höndin gegn annarri, þjóðarbúið er eiginlega á sjálfstýringu þessa dagana, þegar þörfin fyrir styrka stjórn hefur aldrei verið meiri.

 

Sáttartónninn getur síðan verið blekkingin ein og boðað verkbann komi til framkvæmda í næstu viku.

Björgunin gæti þá legið hjá Ástráði skipuðum ríkissáttasemjara sem virkilega hefur vaxið af störfum sínum og ný miðlunartillaga frá honum gæti verið forsenda sáttar.

Tíminn einn veit, og það er af mörgu öðru að hugsa þessa helgina.

 

Ég spái því að Efling hafi sigur í þessari deilu, á einn eða annan hátt.

Að atlögu Svartstakkana verði hnekkt, að skynsamt fólk grípi inní hjá Samtökum atvinnurekanda.

 

Eftir stendur stríð sem aldrei átti að verða.

Skömm þeirra sem hófu það er mikil.

En hún er ekki síðri hjá þeim sem spiluðu með, hvort sem það eru fjölmiðlar, ráðherrar, verkalýðsarmur Samfylkingarinnar eða aðrir sem mönnuðu skotgrafir Svartstakkanna á einhverjum tímapunkti.

 

Við erum nefnilega ekki svona þjóð.

Við bara gleymum því stundum.

 

En ekki núna, þökk sé Eflingu.

Að vekja okkur af værum blundi.

 

Það er nefnilega bjart úti og hækkandi sól.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Eitt fyrirtæki ákveðið að taka ekki þátt í verkbanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villi er með þetta.

 

Þegar tilboð Samtaka Atvinnulífsins dugar ekki einu sinni fyrir hækkun húsaleigu, að ekki sé minnst á útrýmingarkjör verðtryggingarinnar í boði Ásgeirs og Seðlabankans, þá munar alltaf um að fá það sem ekki dugar, afturá virkt.

Eitthvað sem ég veit að Vilhjálmur Birgisson sagði aldrei, til vara hugsaði aldrei í því samhengi sem ég góðfúslega benti á hér að ofan.

 

Vilhjálmur Birgisson, eins ágætur og hann er, er einfaldlega í þeirri stöðu að hvert orð sem hann lætur út úr sér við fjölmiðla þess fólks sem myndi frekar deyja en að lifa með þeirri hugsun að launin sem það borgar fólkinu sem vinnur störfin, dygðu fyrir Þak yfir höfuð, fæði og klæði.

Villi fattar ekki að það er verið að spila með hann út í eitt.

 

Hvort sem það er Mogginn eða ríkisstöð Góða fólksins, sem í dag í reynir að endurtaka hráskinnsleik sinn frá því að Rúv og Góða fólkið gekk erinda breta í ICEsave fjárkúgun þeirra.

Hans orð fá aðeins vægi þegar þau vega að Eflingu og Sólveigu Önnu.

Þess á milli tala þessir miðlar ekki við Vilhjálm.

 

Og í alvöru Villi, þessi kjaradeila hins vinnandi fólks snýst um réttlæti, sið og mennsku, ekki útúrsnúninga um að einhver Ásgeir gæti skoðað meinta olíufursta, þó það væri ekki annað en að einhver Ásgeir yrði ekki seðlabankastjóri út daginn ef sú firra hvarflaði að honum.

Jafnvel asninn í dæmisögunni þekkir illa lyktandi gulrót, hvað þá að hann legði sér eitraða slíka til munns, og þú Vilhjálmur Birgisson áttir að vita að þegar blaðamaður undir hæl Svartstakkanna bað þig að tjá þig, þá snérist það viðtal ekki um sígræðgi og sjálftöku, heldur um hvað Sólveig Anna væri ljót að samþykkja ekki þína góðu samninga.

Sem vissulega voru góðir, fyrir þína félagsmenn, sem hvorki voru tilbúnir í verkfall, eða hið Villta vestur sjálfgræðginnar ógnaði þeirra grunnréttindum að eiga sér Þak yfir höfuð.

 

Þú ert með þetta Villi.

En ekki fyrir þitt fólk.

Og það er sorglegt.

 

Og trúðu mér, þegar Svartstakkarnir eru búnir að vega Sólveigu Önnu, þá ert þú næstur.

Nytsamur sakleysingi fær alltaf sömu örlögin, nema eftir að hann gerir gagn.

 

Er ekki tími til kominn að tengja.

Kveðja að austan.


mbl.is „Seðlabankastjóri ætti að líta á olíufurstana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má satt stundum kjurt liggja??

 

Eða er í góðu lagi að brúka mannamál á alvöru tímum??

"Sem bet­ur fer er stjórn Vinnu­deilu­sjóðs Efl­ing­ar ekki mönnuð vit­firring­um og strengjabrúðum sturlaðrar yf­ir­stétt­ar held­ur full­orðnu fólki sem skil­ur ábyrgð sína í grafal­var­legu ástandi, hefnd­araðgerð hinna rík­ustu gagn­vart þeim sem minnst eiga. Hefndaraðgerð sem af­hjúp­ar með öllu grimmd og mann­hat­ur þeirra sem telja sig eig­end­ur alls á þessu landi".

 

Dæmi hver fyrir sig en ég sem hógvær maður, sem hef aldrei leitt kjaradeilu eða tekið þátt í svona kjarabaráttu þar sem sjálf tilvera láglaunafólks er undir, myndi samt leggja til að Sólveg Anna slípi sig aðeins til og segi, í stað "vitfirringa", að stjórnin sé sem betur fer ekki mönnuð fólki úr "verkalýðsarmi Samfylkingarinnar".

Þið vitið flokkinn þarna sem Góða fólkið, vinstri fólkið og jafnaðarfólkið telur sinn flokk samkvæmt skoðanakönnunum.

En kannski er það of hroðaleg tilhugsun að orða, svo líklegast stendur það í öllu ærlegu baráttufólki fyrir betri heim.

 

Já, ég held að "vitfirringar nái þessu bara alveg ágætlega.

Um grimmdina og mannhatrið þarf hins vegar ekki að ræða.

Kveðja að austan.


mbl.is Stjórnin sem betur fer „ekki mönnuð vitfirringum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stál í stál.

 

En augljóst er að samúð Morgunblaðsins er öll með Samtökum Atvinnurekanda.

Það væri alveg skelfilegt að þeir sem vinna störfin sem halda samfélaginu gangandi, hefðu í sig og á í fleiri daga en færri í mánuði.

Svo skelfilegt að einhliða áróður hinna tekjuhæstu, tröllríður bæði ritstjórnardálkum blaðsins, sem og að það hallar mjög á málstað láglaunafólks í fréttaflutningi þess.

 

Engin tilraun er að setja kaupkröfur Eflingar í samhengi við villimennsku hins frjálsa markaðar á leigu og húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins.

Eða spyrja hinnar réttmætu spurningar, hvað gengur Góða fólkinu til með baráttunni um galopin landamæri fyrir föru- og flóttafólk sem síþrýstir á þegar húsnæðisskort höfuðborgarsvæðisins.

Af hverju eru það hagsmunir þessa meinta Góða fólks að venjulegu fólki sé ókleyft að leigja húsnæði á mannsæmandi kjörum, eða að nýbyggingar anni aldrei eftirspurn eftir húsnæði??

Jafnvel Góða fólkið er ekki svo heimskt að fatta ekki að láglaunafólk er það fyrsta sem hrökklast af húsnæðismarkaðinum við slíkar aðstæður.

 

Nei, baráttu Eflingu á bara að kæfa með öllum ráðum.

Boðskapur Svartstakkana hjá Samtökum atvinnulífsins er alltaf frétt númer eitt, tvö og þrjú, svo eftir síbylju þess áróðurs, fær vissulega Efling að koma fram andmælum sínum, en hvað má ein rödd, þó kraftmikil sé, gegn margradda kór hins fjölskipaða hóps sem hefur sameinast gegn réttlátri kröfu láglaunafólks að það eigi í sig og á í landi alsnægtanna.

Atvinnurekendur, ríkisútvarpið, Morgunblaðið, Samfylkingin, og Góða fólkið svona almennt.

Sameinað í að kæfa Eflingu, að brjóta réttmætt verkfall félagsins á bak aftur.

 

Samt virðist ekki síður gneista af stáli Eflingar, og kyndilbera þess, Sólveigu Önnu, en stáli hins margfalda ofureflis sem sameinast hefur gegn þessari kjarabaráttu láglaunafólks.

Hnarreist mætir Sólveig Anna í viðtöl, það er eins og styrkur formæðra og forfeðra hennar sem börðust fyrir betra lífi, fyrir mannsæmandi lífi, gefi henni þann aukakraft að hún virðist ekki vera ein gegn margnum, heldur sé margurinn ósköp smár þegar stál hennar mætir þeim brandi sem fjendur hennar bregða gegn þessari réttlætisbaráttu Eflingar, að láglaunafólk sé líka fólk, borgarar þessa lands, með sama rétt og góðborgarnir.

Í raun ekki stál í stál, heldur stál gegn deigu járni þess ranglætis að telja nútímaþrælahald vera eitthvað sem vert sé að berjast fyrir.

 

Slík barátta er ætíð dæmd til að tapast.

Þeir sem verja níðingsháttinn verða aðeins aumkunarverðari eftir því sem þeir tefla fram fleiri lagaklækjum gegn réttlætinu.

Og þeim fækkar þegar þeir fatta að uppskera þeirra er aðeins háðung siðaðs fólks.

Hvað sem Steinarnir heita sem hlaðið er upp í varnarvígi óréttlætisins, þá falla þeir eins og múrar Jeríkó forðum, verja ekki það sem ekki er hægt að verja.

 

Það virðist vera stál í stál í dag.

En öllum er samt ljóst að stríð svartstakkana er tapað.

Verkbann þeirra er biti sem ríkisstjórnin fær ekki kyngt.

Ekki varið, því slík vörn yrði hennar banabiti.

 

Leitað er útgönguleiða.

Sú leið er aðeins fær ef hlustað er á réttmætar kröfur þess fólks sem heldur þjóðfélaginu gangandi, og nær ekki endum saman í dag.

Og það sé gert eitthvað sem skiptir máli.

 

Því þjóðfélag hins frjálsa flæðis, þjóðfélag sígræðgi og sjálftöku, innihaldslaus blaðurs (Dagísku) og upphlaupa er komið á endastöð.

Það annaðhvort hrynur eða endurnýjar sig.

 

Efling er aðeins barnið sem benti á hinn nakta keisara.

Fyrir það ættum við að þakka.

 

Því samfélag siðaðs fólks er ætíð þess virði að berjast fyrir.

Og verja þegar að því er sótt.

 

Þess vegna erum við öll Efling.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Segir ekki rétt að verkfallsboðun sé ólögmæt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Bjarni Ben bjáni??

 

Spyr sá sem ekki veit, og hefur samviskusamlega talið að svo sé ekki.

 

En hvernig á að túlka þessa mótsögn í orðum Bjarna.

Hann annars vegar segir; "Hann tel­ur rétt að fé­lags­fólk Efl­ing­ar fái að kjósa um miðlun­ar­til­lög­una sem Aðal­steinn Leifs­son rík­is­sátta­semj­ari lagði til á sín­um tíma, og finnst miður að það hafi enn ekki gerst".  Sem er alveg skiljanleg afstaða hálaunamanns sem hafa þegið hækkanir langt um fram það sem Eflingarfélögum býðst, og sér fram á margar svefnlausar nætur ef fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar, myndi hugsanlega hafa í sig og á í svona 15-20 daga hvers mánaðar, í stað þeirra 10-15 daga sem réttlæti hinna ofurlaunuðu skammtar þeim í dag.

 

En hins vegar er hann prinsippmaður í anda þess frelsis sem Hannes kenndi honum ungum, að "það eru von­brigði að það sé ekki með frjáls­um samn­ing­um hægt að leiða fram niður­stöðu".

Eða kannski býr Bjarni þarna að visku afabróður síns sem lærði á sínum langa stjórnmálaferli að stuðla að sátt í samfélaginu, og þar fetaði Bjarni Ben eldri í fótspor Ólafs Thors samstarfsmanns síns til áratuga, að rétt vinnandi fólks til verkfalla og samninga yrði að virða.

 

Hvort sem er, frjálshyggjutaugin sem telur frjálsa samninga æðri öllu, eða rótgróin íhaldssemi genginna kynslóða, sem náði sátt við hinar vinnandi stéttir, þá er ljóst að ekki er bæði hægt að svipta verkalýðshreyfinguna samningsrétti sinum, og á sama tíma mæra frjálsa samninga.

Eitthvað svo augljóst að jafnvel bjánar ættu að skilja það.

Og þar með hef ég líklegast svarað spurningu fyrirsagnar minnar.

 

En hvaðan þessi stuðningur við fasisma svartstakkana kemur er svo önnur spurning??

Er firringin svona algjör í fílabeinsturni auðs og valda??

 

Eða misfórst eitthvað í uppeldinu eins og virðist vera um svo marga íhaldsmenn þessa dagana??

Að þeir sjái ekki rangindi orða sinna og gjörða því þeim hafi ekki verið kennt það ungum.

Hvað segir það um ömmur þeirra, eða hlustuð þeir kannski aldrei á þær??

 

Veit  ekki.

En bjánar, meintir bjánar eða þaðan af verra fólk mun ekki leysa þann vanda sem blasir við þjóðinni í dag.

Hvort sem það er verkfall Eflingar, stjórnlaus innflutningur föru- og farandsfólks eða snargalin hækkun stýrisvaxta vegna verðhækkana erlendis.

 

Samt kýs ég frekar bjánana, ef ekki betra býðst.

Þeir er skárri valkostur en siðblinda sígræðginnar og sjálftökunnar, eða sá níðingsháttur að réttlæta nútíma þrælahald með einhverja vísan í meintan efnahagslegan stöðugleika.

Eða ekki sé minnst á strengjabrúður hrægammanna sem þjóðin hampar í skoðanakönnunum.

 

Best af öllu væri samt fullorðið fólk.

Skynsamt fólk.

 

En mér skilst að þjóðminjasafnið hafi þegar tekið frá hillu við hliðina á síðasta geirfuglinum.

Aðeins eigi eftir að stoppa upp eitt slíkt eintak.

 

Gleymum samt ekki að stjórnmálin eru birtingarmynd okkar.

Þau anna eftirspurn en eru ekki framboð sem slík.

 

Gömul viska og ný.

Þú uppskerð ekki kartöflur með því að sá kolamolum.

 

Og þar er ekki við kolamolana að sakast.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Allra síðasta úrræðið að ríkisstjórnin beiti sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin gegn láglaunafólki.

 

Það er fyndið að Samfylkingin skuli vera valkostur hins svokallaða félagshyggju og vinstri fólks í dag.

Þessi ærulausi flokkur sem seldi þjóðina í skuldahlekki ICEsave samninganna, sem sigaði hrægömmum á íslenska alþýðu með afleiðingum að rúmlega 10 þúsund fjölskyldur, að stofni til láglaunafólk þar sem kjarninn var einstæðar mæður, var sett á guð og gaddinn, er alltí einu orðinn valkostur fyrir fólk sem telur sig standa fyrir betri heim.

Fyrir þann jöfnuð að allir eigi að geta haft í sig og á, að enginn sé þræll annarra, hvort sem það er nútímaþrælahald láglaunastefnunnar, eða vera þræll hrægamma og fjármagns.

 

Sagan er samt eitt, og vissulega hefur Samfylkingin skipað út því fólki sem seldi þjóð sína fyrir þann bitling að fá að þykjast ráða.

Kristrún er flott, um það er ekki deilt, og það er ekki heldur deilt um að bakgrunnur hennar sígræðgi og sjálftaka þess fólk sem telur það alltí góðu að þiggja hundruð milljóna í starfslokasamninga.

Ég á rétt á þessu sagði Kristrún, ég samdi um þetta.

 

Samt fortíð, en hið nýskipaða svokallaða verkalýðsráð Samfylkingarinnar er hins vegar ekki fortíð, heldur eitthvað sem gerðist eftir að réttlætisbarátta Sólveigu Önnu hófst, þar sem hún skoraði sjálftökuna og sígræðgina á hólm.

Munum að kaupkröfur Eflingar eru aðeins flís af þeirri böku sem sjálftökuliðið tók sér á liðnum árum, langt umfram svokölluð viðmið Samtaka Atvinnurekanda.

Og gegn Sólveigu Önnu sigaði sjálftökuliðið, þetta lið sem Kristrún Frostadóttir var hluti af fyrir svona 2 árum síðan, hælbítum sem allir eiga það sammerkt að vera í hið nýkjörna verkalýðsráði Samfylkingarinnar.

 

Einn hælbíturinn, sem er vonarstjarna verkalýðsráðs Samfylkingarinnar, ræðst núna beint gegn lögmætri kjarabaráttu Eflingar, hún telur sig eiga rétt á að kjósa um lögleysu ríkissáttasemjara sem níðingar, því það er níðingsháttur að réttlæta nútímaþrælahald, kalla miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

Vonarstjarna verkalýðsráðs Samfylkingarinnar, væri aldrei vonarstjarna, nema vegna blessunar Kristrúnu Frostadóttur, fyrrverandi meðlimi í sjálftöluliðinu, núverandi valkostur hins svokallaða vinstri og félagshyggjufólks á Íslandi.

Það er eins og Samfylkingin hafi ekki treyst fyrirhuguðu verkbanni Samtaka Atvinnulífsins, heldur þyrfti að siga vonarstjörnunni fram á vígvöllinn.

Gegn réttmætri kröfu láglaunafólks um að geta hugsanlega lifað af launum sínum, jafnvel þó hundalíf væri.

 

Ef eitthvað afhjúpar eðli og tilgang fólks, þá er það þessi frétt Mbl.is, og þá er ég ekki að hnýta í Ólöfu Adolfsdóttir, hún er aðeins nytsamur sakleysingi sem er sigað til óhæfuverka.

Það er fólkið að baki sem sigar henni.

 

Og alltí einu fær það nýja merkingu að hafa horft uppá Láru V Júlíusdóttir gera sig að fífli í fréttum sjónvarpsins þegar hún fór gegn úrskurði Landsréttar, eða líklegast það sem er aumkunarverðast af öllu í þessari ömurlegu aðför Samfylkingarinnar að kjarabaráttu Eflingar, Kastljósviðtalið við Ásmund Stefánsson, þar sem öllum mátti vera ljóst að þar hefði ellin gert skráveifu.

Öll aðförin, allir hælbítarnir eru ekki úr ranni Samtaka Atvinnulífsins, sem leynt og ljóst vinnur að falli núverandi ríkisstjórnar, heldur er rótin öll úr skítakompum Samfylkingarinnar, sem reyndar líka leynt og ljóst vinnur að falli núverandi ríkisstjórnar.

 

Samt ofar öllu að sigra Eflingu, að brjóta réttmæta kjarabaráttu láglaunafólks á bak aftur, að viðhalda nútíma þrælahaldi á Íslandi.

 

Já, þetta er flokkurinn sem stór hluti þjóðarinnar treystir fyrir atkvæði sínu.

Vinstra og félagshyggjufólk á það sem sagt sammerkt með liðnu hvítu fólki Suðurríkjanna, að þrælahald sé þess virði að berjast fyrir, það tryggi gott líf og lífskjör, þar hjá eigendum plantekranna og fylgifiskum þeirra, hér hjá hinni háskólamenntuðu yfirstétt.

Uppreisn þrælanna skal kæfa með öllum ráðum.

 

Reyndar mistókst það í Suðurríkjunum eins og frægt er orðið en það má alltaf reyna aftur og aftur segir Samfylkingin.

Sérstaklega ef þetta stríð okkar við láglaunafólk tryggir okkur valdastólana.

 

Já, svona er Ísland í dag.

Auðurinn óttast ekkert, því hann á allt.

 

Líka stjórnmálin.

Kveðja að austan.


mbl.is Tekur nýr kjarasamningur gildi á fimmtudag?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efling þarf vissulega afsökunarbeiðni.

 

Og vonandi er Halldór Benjamín maður að meiri að biðjast afsökunar, þó hegðun hans undanfarinna vikna bendi til þess að það þurfi að grafa djúpt eftir þeim manndómi sem kunni slíkt.

 

En sú afsökunarbeiðni, samskipti Eflingar og Samtaka Atvinnulífsins, allt sem hefur gengið á á milli þessara aðila er algjört aukaatriði miðað við alvarleik málsins.

Munum fyrst grundvallaratriði málsins sem Landsréttur hnykkir á í úrskurði sínum; "Var breyt­ing­un­um ætlað að stuðla að friðsam­leg­um samn­ing­um og draga úr átök­um á vinnu­markaði og lang­vinn­um vinnu­stöðvun­um með skýr­ari leik­regl­um sem ættu að stuðla að frjáls­um samn­ing­um á vinnu­markaði".

Lögin frá 1996, frum­varpið um breyt­ing­ar á lög­um um stétt­ar­fé­lög og vinnu­deil­ur var hugsað til að stuðla að friði á vinnumarkaði, ekki ófriði líkt og meint miðlunartillaga ríkissáttasemjara.

 

Öllu hugsandi fólki mátti vera þessi sannindi ljós og þeir sem hafa ekki til þess vit að hugsa, en eru læsir, gátu líka lesið skýran lagatexta þar um, að lögin voru hugsuð til að stuðla friði og auðvelda deiluaðilum að ná samningum.

Ekki með kúgun eða þvingun, heldur með viðræðum svo sem fæstar vinnudeilur færu út í hörð verkfallsátök.

Þess vegna er óskiljanlegt hvernig stjórnvöld eða borgarstéttin og málpípur hennar eins og til dæmis Morgunblaðið hafa hagað sér í þessari deilu.

Eins og menn geri sér ekki grein fyrir að það að ganga gegn þessum lögum, er í raun að ganga gegn lýðræðinu sjálfu, því ef menn virða ekki tæki þess sem eru hugsuð til að stuðla að frið og sátt í samfélaginu, hvernig er þá komið fyrir þessari þjóð??

 

Dómur héraðsdóms var alltaf óskiljanlegur í þessu máli, og það sem verra var að engin málsmetandi aðili skyldi ekki benda á að beinar lygar í forsendum dóms, það er sú lygi að ríkissáttasemjari hefði eitthvað gert til að stuðla að samningum milli deiluaðila og samningaviðræður því fullreyndar, sé alltaf áfellisdómur yfir viðkomandi dómara, dómi (héraðsdómi) og dómskerfinu í heild.

Við búum ekki í Tyrklandi, það er enginn Erdogan sem hefur fangelsað rjómann af dómarastéttinni vegna upploginna saka, og þannig múlbundið allt dómskerfið um einræði, ofbeldi og kúgun.

Eða líta menn virkilega svoleiðis á Ísland í dag, að við séum á engan hátt betri en Tyrkir, að lýðræðið okkar sé aðeins minning ein, en hagsmunir fjármagns og fámennar valdaklíku ráði og stjórni öllu??

Dómarinn var örugglega að leita að priki svo hann kæmi til álita næst þegar dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins útdeildi stöðuhækkunum, en hvað með alla hina sem þögðu??

 

Öllu alvarlegra er hins vegar aðkoma ríkisstjórnarinnar að þessu ófriðarbáli með stuðningsyfirlýsingum sínum við ríkissáttarsemjara og ótillögu hans.

Hve lítið er á milli eyrnanna á fólki sem hélt í eina mínútu að ríkissáttasemjari mætti fara beint gegn anda laganna frá 1996, að stuðla EKKI "að friðsam­leg­um samn­ing­um og draga úr átök­um á vinnu­markaði og lang­vinn­um vinnu­stöðvun­um með skýr­ari leik­regl­um sem ættu að stuðla að frjáls­um samn­ing­um á vinnu­markaði,".

Hvaða máli skipti það í eina mínútu að með einhverju lagaklækjum væri hægt að fullyrða að meint málamiðlunartillaga væri ekki ólögleg samkvæmt lögum um embætti ríkissáttasemjara, þegar tilgangur embættis hans er að stuðla að friði og sátt, og koma í veg fyrir illvígar kjaradeilur??

Þegar öllu hugsandi fólki mátti ljóst vera að ríkissáttasemjari færi beint gegn anda þeirra laga sem embætti hans byggðist á.

 

Af hverju var ekki gripið inní og málin sjötluð??

Af hverju þarf dóm til að niðurlægja ríkisstjórnina endanlega??

Af hverju þetta stjórnleysi og þessi upplausn??

 

Ef málsmetandi menn verja ekki friðinn.

Ef málsmetandi menn verja ekki forsendur lýðræðisins.

Hvernig er þá komið fyrir einni þjóð??

 

Ráðherrarnir eins og Álfar út úr hól.

Hlutlaus embættismaður gengur beint erinda annars deiluaðilans.

Þjóðfélagið undirlagt áróðri samviskulausra manna sem sjá ekkert athugavert við síþenslu ferðamannaiðnaðarins sem knúinn er áfram á vinnu erlends láglaunafólks, það er nútíma þrælahald í sinni tærustu mynd.

 

Landsréttur hélt og hafi hann þökk fyrir.

Enn allir hinir sem brugðust þurfa að taka til í sínum ranni.

 

Ríkissáttasemjara er ekki lengur stætt í sínum embætti.

Ekki vegna þess að hann er rúinn trausti og allri tiltrú, heldur vegna þess að hann hefur svívirt embætti sitt með framgöngu sinni.

Hann hefur brugðist skyldum sinni gagnvart þjóðinni og er ekki lengur embættismaður hennar.

Því lengur sem hann þráast við að víkja, því aðeins aumkunarverðari verður hann.

 

En afsögn hans verður aldrei annað en kattaþvottur fyrir alla hina sem brugðust.

Það er til dæmis lágmarks kurteisi hjá ráðherra vinnumála að segjast íhuga alvarlega stöðu sína.

Ekki sérstaklega vegna þess að hann brást skyldu sínum sem ráðherra að vinna að anda laganna frá 1996, þetta með friðinn og stöðugleikann, heldur vegna þess að það má setja stórt spurningamerki við vitsmuni hans, hvernig var hægt að mæla afglöpum ríkissáttasemjara bót??

Er ekki eitt fífl í ráðherrastól nóg fyrir þjóðina að umbera??

 

En fyrst og síðast eigum við sem þjóð að skammast okkar fyrir að umbera allan vitleysisganginn í þessari deilu allri.

Það er ekki boðlegt að löglega kjörin stjórn verkalýðsfélags sæti stanslausum svívirðingum og mannorðsmeiðingum fyrir það eitt að nýta sér löglegan rétt félagsins að boða til vinnustöðvana.

Og meir að segja embættismenn þjóðarinnar taki þátt í þeirri svívirðu.

 

Þó við séum öll Efling, já vissulega vita margir ekki að því, þá hefur Efling á stundu verið ofsalega einmana í þessari kjaradeilu sinni.

Kjaradeilu sem allt siðað fólk sér að er prófsteinn á sið þjóðarinnar, hvort hún líði atvinnurekstur sem getur ekki borgað þau laun að fólk geti lifað af þeim.

Það er að velmegun okkar og velferð byggist að hluta til á þrælkun fátæks fólks.

 

Við erum betri en þetta.

Alveg satt.

 

Látum ekki skítinn segja okkur annað.

Keðja að austan.

 


mbl.is Afsökunarbeiðnir og annar sáttasemjari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áróðursmaskína mallar sínu skítamalli.

 

Þegar ekki tókst að hindra verkföll Eflingar með öllum þeim skítatrixum sem mannlegt ímyndunarafl gat upphugsað, og grátnir eru þeir gömlu góðu dagar þar sem hægt var að leigja einhverja hvítliðafanta við að lemja á fátæku verkafólki, þá er næsta útspil þessara manna sem byggja arð sinn og gróða á nútímaþrælahaldi alþjóðavæðingarinnar, að loka á verkfallsverði Eflingar.

 

Lok, lok og læs, og þegar Efling krefst réttar síns, þá er kallað á lögregluna.

Það skal samt tekið fram að löggan er ekki núna beðin að lemja verkfallsverði líkt og í tíðkast mjög í þeim löndum sem stjórnvöld sækja fyrirmynd sína að löggjöf sem eiga útiloka verkföll framtíðarinnar.

Ekki ennþá orðin svona slæm, eða réttara sagt rotin, og vissulega má hrópa húrra fyrir því.

Samt ekki ennþá, munum það.

 

Því það er fáheyrt að menn, munum þessir þarna sem byggja arð sinn og gróða á nútíma þrælahaldi, geti fengið aðstoð lögreglu við að halda verkfallsvörðum Eflingar úti og meina þeim þannig að gegna skyldustörfum sínum.

Skítamall áróðursmaskínunnar lætur það hljóma þannig að verkfallsverðir séu að skipta sér að verkum annarra sem eru ekki í verkfalli eins og kokka, þjóna eða starfsfólks í móttöku, eins og ræstingakonan viti ekki að hún sé að þrífa heldur að kokka eða taka á móti gestum. 

Sem sagt að öll verkfallsbrot liðanna ára, liðanna áratuga, bæði hér og í öðrum löndum, séu í raun aðeins misskilningur fólks sem viti ekki hvað það er að gera í vinnunni og sé æft þegar það sér annað fólk vinna sína vinnu.

 

Hvort einhver sé það trúgjarn að trúa þessu má vel vera, sérstaklega ef það fer saman við skort á uppeldi, að fólk hafi ekki verið kennt að þekkja sið á sínum yngri árum og þykir því allt í góðu að velmegun þess sé byggð á þrælkun annarra.  Og verður svo bandbrjálað þegar vinnuþrælarnir rísa upp og segja; megum við ekki líka fá laun sem duga til að lifa af.

En aðrir ekki og það er ákaflega aumt að þetta pakk, því það er bara pakk sem hagar sér svona, skuli komast upp með að loka vinnustöðum fyrir verkfallsvörðum, komi upp ágreiningur með túlkun eða framkomu, þá hlýtur að vera leið til að leysa slíkan ágreining, önnur en sú að meina verkfallsvörðum að sinna skyldum sínum.

Og fara svo í skítugt áróðursstríð gegn störfum þeirra sem löng sátt er um að séu nauðsynleg til að eyða tortryggni og tryggja frið í kringum verkföll, það er að þau séu það sem kallað var fyrir daga sígræðginnar, friðsamleg.

 

Verkföll eru alltaf neyðarbrauð, alla vega í heilbrigðu samfélagi þar sem aðrar leiðir eru reyndar til þrautar að ná sátt um mannsæmandi laun, og það er alltaf leiðinlegt að þau "skaði upplifun og valdi gestum hótela vanlíðan".

En í alvöru, við hvern er að sakast??

Þann sem borgar þrælalaunin eða sá sem krefst launa sem ekki eru kennd við þræla??

 

Og ég efa ekki að ef flestir gestanna væru spurðir, þá myndu þeir svara að þeir teldu sig borga það mikið fyrir gistinguna að þeir teldu að hægt væri að borga mannsæmandi laun á hótelinu.

Þeir væru ekki stuðningsmenn nútíma þrælahalds.

Því það er nefnilega svo að flest fólk er siðað.

 

Skítamallið er nefnilega ekki ætlað gestum.

Heldur þeim sem af einhverjum ástæðum leggjast gegn réttlætisbaráttu láglaunafólks á Íslandi, að það fái mannsæmandi laun fyrir vinnu sína, ekki ofurlaun, heldur laun sem duga allavega fyrir lágmarks framfærslu. Sem er ekki frekja í landi alsnægtanna.

 

Hvað því fólki gengur til, hvort það hafi gleymst að ala það upp, eða eitthvað misfarist hjá því á fullorðins árum, kannski orði sígræðginni að bráð, veit ég ekki.

En það er þarna greinilega í þeim fjölda að atvinnurekendur sjá ástæðu til að láta áróðursmaskínu sína malla ofaní þau afskræmda mynd af kjarabaráttu láglaunafólks.

Það er svo greinilegt að það á að sigra þessa deilu fyrir utan samningaborðið, með því að knésetja forystu Eflingar og sjálfsagt að krossfesta hana á eftir uppá Valhúsarhæð, sem víti handa öllum þeim gætu leitt kjarabaráttu láglaunafólks í framtíðinni.

 

Þetta komast Samtök Atvinnulífsins óáreitt upp með.

Í hina Nýja Íslandi eftirhrunsáranna sem enginn segist vilja neitt hafa með að gera, en enginn gerir þó neitt til að hamla á móti.

Aðeins froðusnakk og upphrópanir.

 

Þar til Efling gerði okkur að Eflingu.

Þó sumir eigi bara ennþá eftir að fatta það.

 

Við erum öll Efling.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Fordæma framkomu verkfallsvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau skeyta hvorki um skömm né heiður.

 

Er palldómur Halldórs Benjamínssonar um forystu Eflingar.

Af hverju viðhefur hann þessi orð??, jú þau lúta ekki ólögum sem og beygja sig ekki fyrir fordæmalausri aðför atvinnurekanda og stjórnvalda að rétti verkalýðsfélaga til að nýta verkfallsvopnið til að bæta samningsstöðu sína.

 

Núna þegar stálin stinn mætast þá má ekki gleymast hver er ábyrgðaraðili þess að svona er komið í kjaraviðræðum Eflingar og Samtaka Atvinnulífsins.

Sök Eflingar er að rökstyðja kröfur um að félagsmenn þess þurfi hærri launahækkanir en samið var um við félög Starfsgreinasambandsins.

Viðbrögð Samtaka atvinnulífsins var ekki að ræða þær kröfur, heldur hófu samtökin illvígt áróðursstríð í fjölmiðlum sem í meginatriðum beindist að persónu formanns Eflingar, að meintum fáránleik kröfugerðar Eflingar og að tengja hvorutveggja við einhver óskilgreind róttæk öfl sem áttu að eiga upptök sína í stofunni hjá Gunnari Smára Egilssyni, sem á að vera ákaflega ljótur maður því hann segist vera sósíalisti.

Hvernig þetta samræmist heiðri og góðum vinnubrögðum í kjaradeilum getur Halldór Benjamín einn útskýrt.

 

Þegar ljóst var að þessi samningatækni Samtaka Atvinnulífsins dygði ekki til að valda það mikilli upplausn innan Eflingar að félagið treysti sér ekki í verkfallsaðgerðir, þá var gripið til plans B, eitthvað sem til dæmis Guðmundur Þ. Guðmundsson gerði ekki á síðasta HM.

Plan B var að láta ríkissáttasemjara fyrirgera trúverðugleika sínum með því að misbeita valdi sínu og leggja fram starfsgreinasamningana sem miðlunartillögum með þeim fáheyrðum orðum að honum fyndist að félagar Eflingar ættu að fá að kjósa um þá.

Vegið var að verkfallsréttinum, embætti ríkissaksóknara var fórnað, kastað fyrir róða samskiptareglum milli aðila vinnumarkaðarins sem áratugirnir höfðu þróað og slípað til.

 

Ekkert af þessu hafði áhrif á heiður né skömm Halldórs Benjamínssonar, að hans dómi allavega, en að forysta Eflingar skyldi ekki í kjölfarið skríða í duftið fyrir honum, heldur verjast þessari samningatækni hans, sem er án allra fordæma í gjörvallri sögu íslenska vinnumarkaðarins, það er forkastanlegt að hans dómi.

Forystu Eflingar til skammar, hjá fólki sem skeytir hvorki um skömm eða heiður.

En að líta í eigin barm og íhuga í eina mínútu sína eigin sök, það er ekki uppá pallborðinu hjá Halldóri Benjamínssyni, ekki frekar en að virða viðurkenndar leikreglur í kjarasamningum.

 

Þessi sjálfhverfa skýrir svo margt í af hverju málum er svona komið, í að virðist óleysanlegan hnút.

Hnút sem Landsréttur getur ekki höggvið á frekar en aðrir dómsstólar.

Aðeins samningar.

 

En einhvern veginn finnst mér forysta Samtaka Atvinnulífsins ófær um það í dag.

Fyrirlitning á mótaðilunum, að lítilsvirða þá í orðum og tali, að treysta á undirróður og fimmtu herdeild Samfylkingarinnar til að grafa undan löglegri kjörinni stjórn Eflingar, reyna að nýta sér lagaklæki og jafnvel liðsinni lögreglunnar, er bara ekki vænlegt til árangurs í kjaradeilu.

Ekki nema menn vilja ekki leysa hana, heldur koma henni í þann hnút að það réttlæti inngrip ríkisvaldsins í deiluna og þá með bráðabirgðalögum.

 

En menn hafa engan heiður af svona skítataktík.

Heiðursmenn settust niður og reyndu að ná samningum.

Það tókst ekki alltaf, en þeir reyndu.

 

Skömmin var aldrei þeirra.

Kveðja að austan.


mbl.is Forysta Eflingar ætti að skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Feb. 2023
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 14
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 1537
  • Frá upphafi: 1321545

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1310
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband