Hún kom eins og stormsveipur.

 

Það vissi enginn hver Anna Sólveig Jónsdóttir var þegar hún gerði óvænt atlögu að eignarhaldi Góða fólksins að stærsta verkalýðsfélagi landsins, Eflingu.  En Eflingu hafði Góða fólkið erft frá áum sínum sem voru verkalýðs eitthvað, oftar verkalýðsforingjar eða pólitískir leiðtogar hinna svokölluðu verkalýðsflokka, en sjaldnar verkafólk.

Að stóli var genginn mætur maður, kannski sá síðasti sem þekkti til gömlu verkalýðsbaráttunnar, náði ungur að upplifa þá tíma þegar gustaði um menn eins Gvend Jaka eða Björn Jónsson að ekki sé minnst á kvenskörunginn Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur.

 

Sigur Sólveigu Önnu var mikið áfall fyrir Góða fólkið, íslenskufræðingur innan raða þess hefur örugglega gripið tækifærið á krísufundi og gripið til forníslensku; "félagar, núna misstum við spón úr aski okkar".

Vandinn var að þó allt Góða fólkið skilgreindi sig vinstramegin við miðju, sem félagshyggjufólk, jafnaðarmenn, kvenréttindasinna eða annað álíka, þá voru tengsl þess við hinn vinnandi mann orðin ansi fjarlæg, þar sem best lét átti það gamlar myndir uppá hálofti, í einhverju dóti sem hafði farist fyrir að henda, myndir af þeim forfeðrum og formæðrum sem höfðu barist fyrir réttindum verkafólks á sínum tíma.

Sólveig Anna var hinsvegar verkalýðssinni og einlæg baráttukona fyrir bættum kjörum verkafólks, og það sem var miklu verra, hún tók hlutverk sitt alvarlega.

 

Til að byrja með umbar Góða fólkið Sólveigu Önnu, svona á meðan það virtist að spjót hennar beindust gegn auðvaldinu og atvinnurekendum, kannski samt ekki rétt að nota sögnina "að umbera", frekar ætti maður að segja að rógurinn og níðið úr ranni Góða fólksins hafi ekki veið skipulagður, engin herferð í gangi eins og varð seinna meir.

Eða allt þar til að Efling boðaði til verkfalls ófaglærðra hjá leikskólum Reykjavíkurborgar og Dagur borgarstjóri Góða fólksins var spurður í beinni útsendingu (þess vegna var ekki hægt að bjarga málunum með klippingu) af hverju hann stæði gegn þeirri hógværu kröfu Eflingar að ófaglært starfsfólk leikskólanna gæti lifað af launum sínum??

Þar gat Dagískan (sérstakt tungumál góða fólksins að segja fátt eða ekkert með mörgum skrúðmæltum orðum) ekki bjargað þeim skaða að allir sáu að hin meinta umhyggja og góðmennska Góða fólksins gagnvart sínum minnum bræðrum og systrum var aðeins skrautfjöður, leiktjöld, jafnvel hinn nakti Nýi keisari var klæðamikill miðað við allsleysi þess.

 

Þar með varð Sólveig Anna Óvinurinn, tók þann sess sem Davíð Oddsson hefði eitt sinn haft á meðan blóð rann í æðum hans, Bjarni Ben í dag, Sjálfstæðisflokkurinn, allt vék fyrir skipuninni einni, að ná höggstað á Sólveigu Önnu.

Það er óþarfi að fara í gegnum þá sögu alla saman, sem söguáhugamaður (pólitískur óþverri og undirróður á sér langa fróðlega sögu) þá gat ég samt ekki annað en dáðst af hæfninni við að finna allskonar smáfólk sem var dubbað upp og gert að einhverju, en allur þessi óþverraskapur var aðeins eldskírn og Verkalýðsleiðtogi var okkur fæddur.

Verkalýðsleiðtogi sem lætur ekki staðar numið, annaðhvort er hún höggvin, eða sigrar.

 

 

Fyrirsögn þessa pistils vísar í fornminni barnæsku minnar, frá einni fyrstu sjónvarpsauglýsingu sem ég sá í svarthvíta sjónvarpstækinu sem kom á heimili foreldra minna rétt fyrir eða um 1970,en hún auglýsti þann eðaldrykk Sinakóla.

Þreytt skúringarkona koma inná skrifstofu í óreiðu, andvarpaði en sá þá flösku af sinakóla á borðinu, teygaði hana, og allt í einu rétti hún úr sér, allt yfirbragð þreytu og ömurleika horfið, sem glæstur stormsveipur fór hún um skrifstofuna sem varð gljáfægð á eftir.

 

Þannig kom skúringarkonan Sólveig Anna inní þreytt og útbrunnið kerfi verkalýðsbaráttunnar á Íslandi, og hver getur á móti mælt að ekki hafi verið vanþörf???

Allavega tel ég alvörumennirnir, menn sem enginn efast um að hafi einlægan áhuga á að vinna að bættum hag og kjörum umbjóðenda sinna, sem eru í sárum í dag, ættu að svara þessari spurningu játandi, það var þörf á Stormsveip inní íslenska verkalýðsbaráttu.

 

Sólveig Anna er vissulega stríðlynd, það voru líka hinar gömlu hetjur verkalýðsbaráttunnar sem lyftu Grettistaki í árdaga baráttunnar fyrir mannsæmandi kjörum verkafólks, það var stéttarstríð og stríðleiðtogar eru stríðlyndir, annars ná þeir engum árangri.

Þess vegna er óþarfi að grenja þó menn telji ekki vel að sér vegið, sá grátkór er aðeins vopn í höndum Góða fólksins sem hatast í Sólveigu Önnu út í eitt.

Þeir verða einfaldlega að spyrja sig; hvað er það sem skiptir í raun máli, þeirra særindi, sem enginn efast um að sé af gefnu tilefni, eða raunveruleg kjarabarátta.

Það má vel vera, og er reyndar líklegt, að hefðbundin stöðubarátta samningaborðanna hafi ekki skilað betri kjörum, en stríðsátök hafa ekki verið reynd.

Efling stefnir í stríð, og það er óþarfi að leggja fjendum hennar lið í þeim átökum.

 

Þetta ættu menn að hafa í huga.

Og sé það rétt mat hjá mér að þeir Aðalsteinn og Vilhjálmur séu alvörumenn, þá hafa þeir þetta ekki í huga.

Þeir vita þetta.

 

Vita að það eiga aðrir að kljást við Stormsveipinn en þeir.

Og það sem meira er, þeir eiga að koma til hjálpar, gerist þess þörf.

 

Svo einfalt er það.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Mælirinn orðinn fullur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. janúar 2023

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 85
  • Sl. sólarhring: 116
  • Sl. viku: 5402
  • Frá upphafi: 1338860

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 4750
  • Gestir í dag: 61
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband