Hve illa er komið fyrir einu samfélagi??

 

Þegar aðeins Sósíalista flokkur Íslands kveikir á perunni hve alvarlegt athæfi meint miðlunartillaga ríkissáttasemjara er að frjálsum kjarasamningum, sem og þeim skaða þegar hlutlaus embættismaður gengur erinda annars aðilans.

Eru það aðeins sósíalistar sem hafa það skynbragð að skilja að embætti ríkissáttasemjara á allt sitt undir gagnkvæmu trausti og trúnaði, jafnt samtaka launafólks sem samtaka atvinnurekenda, og með þessu gönuhlaupi sínu hefur hann í raun eyðilagt það kerfi sem hefur komið í veg fyrir svo mörg skemmandi átök á vinnumarkaðnum á liðnum árum og áratugum??

 

Hvar eru allir gapandi, gólandi flokkar Góða fólksins sem hafa hrópað hátt á Alþingi af minna tilefni??

Og oft af engu tilefni?

Sem og það sem verra er, hvar eru ríkisstjórnarflokkarnir, þessi stjórn var jú stofnuð um stöðugleika og ábyrgð, hví þegja þeir þegar til skamms tíma er reynt að hleypa öllu í bál og brand, til lengri tíma að eyðileggja öll heilbrigð samskipti í Karphúsinu??

 

Sólveig Anna hefur verið gagnrýnd fyrir að vera sósíalisti og eiga sér bakland í Sósíalistaflokknum.

En skilja menn ekki að þegar aðrir bregðast, þá er valkostur láglaunafólks, valkostur láglaunakvenna ekki mikill.

Í raun enginn líkt og hin æpandi þögn hefðbundinna stjórnmálaflokka sannar.

 

Í upphafi skyldu menn endinn skoða, sem og við ættum öll að spyrja okkur, er það eðlilegt að ein hógvær krafa, krafan um að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum, veki þessi harkalegu viðbrögð.

Að sjálfsögðu er ekki bara við atvinnurekendur að sakast, mjög stór hluti þeirra glímir við erfiðleika að láta enda ná saman, líkt og er hjá láglaunafólki.

 

Í raun liggur meginsökin í samfélagsgerð okkar og þeim sið, eða réttara sagt ósið, að telja það sjálfsagt að byggja velferð og velmegun á innflutningi bláfátækra og skammta þeim smánarlaun svo vart er hægt að tala um annað en nútímaþrælahald.

Kerfi sem gengur kannski á meðan endar ná saman, en gengur ekki þegar allt snarhækkar nema launin.

 

Við sem þjóð ættum að staldra við og hlusta, í stað þess að berja niður.

Það væri gæfuspor, og það gæfuspor skilja sósíalistar.

 

Þetta snýst jú allt um sið.

Ekkert annað.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Sósíalistar fordæma framgöngu ríkissáttasemjara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugmæli.

 

Öll embætti, hversu mæt þau annars eru, geta lent í klóm hagsmunaaðila, og hætta því að gegna hlutverki sínu, verða svona Leppar og Skreppar þeirra hagsmuna sem þau þjóna.

 

Í dag er það öfugmæli að kalla Aðalstein Leifsson; ríkissáttasemjara, og tillögu hans; miðlunartillögu.

Aðalsteinn gengur erinda annarra, ekki þess embættis sem honum var trúað fyrir, og meint miðlunartillaga hans er grímulaust tilboð Samtaka Atvinnulífsins sem Efling hafði þegar hafnað.

 

Rök Aðalsteins halda ekki vatni, þau eru vanvirðing við bæði skynsemi sem og hlutverk og tilgang embætti hans.

Hann segir deiluna komna í hnút vegna þess að menn nýttu aðeins mínútu til að spjalla saman.  Ef hann er ekki skyni skroppinn þá veit hann að slíkt er aðeins eðlilegt í átakaferli þegar menn skekja skildi og hrópa ókvæðisorð að hvorum öðrum, svona bara uppá pepp og móralinn.

Efling hefur ekki einu sinni fengið samþykki félagsmanna sinna fyrir takmörkuðu skæruliðaverkfalli sínu, hvað þá að félagið hafið boðað til allsherjarverkfalls.

Sem þjálfaður samningamaður á Aðalsteinn að vita að deilan er ennþá í gerjun, á eftir að springa út, og þá á hún eftir að þroskast, aðeins þá kemur í ljós styrkleiki verkfallshótunar Eflingar sem og vilji atvinnurekanda að standast þá hótun.

 

Auðvita veit Aðalsteinn þetta, hann er enginn heimskingi þó hann kjósi að spila sig slíkan, en þeir sem ganga erinda annarra grípa oft til undarlegra röksemda til að réttlæta erindarekstur sinn.

Öllu alvarlegra er þegar Aðalsteinn missti út úr sér að hann hefði viljað að félagar Eflingar fengju að greiða atkvæði um tilboð Samtaka atvinnulífsins, eins og það væri hans hlutverk að meta slíkt.

 

Þetta er ekki heimska, þetta er aðför, og hann má ekki komast upp með hana.

Ekki frekar en ríkislögreglustjóra að banka upp hjá fólki og leggja undir sig eigur þess í krafti embættis síns, og þegar fólk neitar, þá beiti hann valdboði  til að knýja fram rupl sitt.

 

Í þessu tilbúna dæmi eiga undirmenn ríkislögreglustjóra og dómstólar að neita embættisvaldinu, í hinu raunverulega dæmi á Efling ekki að virða Aðalstein viðlits eftir að ljóst var að hann væri kominn í erindarekstur.

Og væri einhver döngun hjá öðrum í kerfinu þá myndu þeir hundsa beiðnir hans um inngrip lögreglu og dómsstóla.

Umgangast hann eins og Persona non grata eins og hann er í dag.

 

Vilji sá sem Aðalsteinn gengur erinda fyrir að félagsmenn Eflingar greiði atkvæði um lokatilboð Samtaka atvinnulífsins, þá geta viðkomandi sjálfir snúið sér til dómsstóla með þá kröfu sína.

Ekki nota embætti Ríkissáttasemjara sem millilið.

Því annað er í raun aðför að leikreglum sem ætlast er til að allir virði.

Bein eyðilegging á því embætti sem Aðalsteinn Leifsson gegnir.

 

Þó menn telji mikla ógn stafa af þeirri hógværu kröfu Eflingar að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum, þá hljóta þessir sömu menn, þessir sömu hagsmunaaðilar, að hafa önnur úrræði til að brjóta þessa ósvífni á bak aftur en að fórna samningakerfinu á vinnumarkaðnum sem hefur reynst honum svo vel.

Því öfugmæli Aðalsteins ganga af því kerfi dauðu séu þau knúin fram með valdboði.

 

Það er stór fórn til að stöðva eina manneskju.

Jafnvel þó hún berjist fyrir réttlæti.

 

I have a dream.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Launareiknivél ríkissáttasemjara komin í loftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. janúar 2023

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 82
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 5399
  • Frá upphafi: 1338857

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 4747
  • Gestir í dag: 58
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband