Sólveig, girtu upp brók.

 

Hættu að skríða fyrir valdinu.

 

Fáðu þér frekar göngutúr niðri í brimfjöru í fyrramálið og finndu í sálu þinni styrk formæðra og forfeðra þinna þegar þau lifðu af í þessa harðbýla landi okkar.

Rifjaðu svo upp augnablikið sem Halldór gerði ógleymanlegt í Paradísarheimt þegar íslenskir kotbændur tóku í höndina á Danakóngi og sögðu; "sæll frændi" og vísuðu þar í sameiginlega forfeður frá því á víkingaöld.

 

Eða á ég að minna þig á eina sögn sem föðurbróðir þinn skráði og sagði frá norðfirska sjóaranum sem fór út í heim á farskipum, og þegar hann lenti í því á fyrstu vakt sinni að bátsmaðurinn skipaði honum með þjósti að taka ofan fyrir skipstjóranum á fraktaranum, þá tók hann vissulega ofan, en það var í síðasta sinn því hann þeytti húfunni yfir borðstokkinn, og jafnvel í steikjandi sól miðbaugsins var ekki náð í annað húfulok.

Því hann tók ekki ofan fyrir einum eða neinum af auðmýkt, aðeins þegar hann heilsaði sjálfur, og var heilsað á móti.

 

Þú ert umkringd glefsandi hýenuhjörð sem rífur þig á hol ef þú sýnir hin minnstu veikleikamerki.

Og þó allar gæsir landsins séu sóttar og settar fyrir framan ráðherrabústaðinn, þá, í talgangslausu verki, er líklegra að þær hörfi úr görðum ef þú skvettir á þær vatni en að ráðherra taki mark á sönnum orðum þínum um aðför ríkissáttasemjara.

Ekki vegna þess að meiri líkur en minni er að þeirri aðför er stýrt úr ráðherrabústaðnum heldur ertu að tala við mann sem hefur selt sálu sína fyrir vald, ekki réttlæti.

 

Það er ekki góður ráðgjafi sem hefur ráðlagt þér að fara þessa feigðarför.

Og mundu að vond ráðgjöf afhjúpar yfirleitt hvar hugur liggur í raun.

 

Réttlæti skríður ekki.

Kveðja að austan.


mbl.is Vill hitta Guðmund Inga fyrir fyrirtöku á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Og þar sem ég hef svo gaman að tala við sjálfan mig því stórlega dreg ég í efa að ég sé að tala við Sólveigu Önnu með þessum pistli mínum hér að ofan, þá rifjaðist upp fyrir mér gamalt sögubrot frá dögum bændauppreisnanna í Englandi og þegar ég henti inn stikkorðum hjá Gúgla frænda til að hafa nöfnin á hreinu, þá fékk ég upp pistil eftir sjálfan mig, geri aðrir betur.

Pistillinn hét Munið eftir Wat Tyler!!!. og þar var ég eitthvað að skammast út í Hagsmunasamtök heimilanna fyrir svipað taktleysi og Sólveigu Önnu varð því miður á með því að ætla að taka samtal við Guðbrand, sem er svo sem ágætt, ef það væri á hennar forsendum en ekki hans.

Englendingar muna eftir Watt Tyler, ég las um hann núna í haust þegar ég sýndi sonum mínum Lundúnaturn, en ég efa að margir muni í dag eftir HH.

En hver var þessi Watt Tyler, og hver voru hans axarsköft sem enduðu með því að hann fékk að kenna á einni?? 

"Hann var foringi bændauppreisnarinnar miklu á Englandi á fjórtándu öld og leiddi 50.000 manna bændaher inní London 1381 þar sem fátt var til varnar af hendi aðals og konungs.

Konungurinn, Ríkharður annar, fór ekki á taugum.  Hann hafði ekki her til að sigra uppreisnarmenn, en hann hafði vitið.  Hann nýtti sér reynsluleysi uppreisnarmanna og meðfædda undirgefni þeirra fyrir valdinu og dýrð konungsdæmisins.

Hann bauð Tyler til sáttarfundar, yfir steik, en með því eina skilyrði að bændaherinn yrði fyrst sendur til síns heima.  Þeir höfðu jú unnið og núna þyrfti að ræða framtíðarskipan mála.

Það þarf ekki að taka fram að Wat Tyler fékk sverð í matinn, ekki steik, og í kjölfarið voru helstu leiðtogar uppreisnarinnar teknir og drepnir.  Og heima í sveitum myrti aðallinn helstu "uppivöðulsseggina" öðrum til viðvörunar.  

Þessi Bændauppreisnin var ein af mörgum í Evrópu á þeim tíma og tugþúsundum bænda var slátrað eins og skepnum í kjölfar þeirra, en hún var sú eina þar sem bændur höfðu sigur, en töpuðu sigrinum vegna reynsluleysis leiðtoga sinna.

Reynsluleysi eða heimska, skiptir ekki máli, taktleysið varð þeim að falli.".

Já, það er þetta með taktleysið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.1.2023 kl. 11:38

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Orð dagsins kemur frá ungum þingmanni Samfylkingarinnar,Jóhanni Páli og svona í ljósi þess að hann er í flokki Góða fólksins sem hefur verið höfuðandstæðingur íslensks verkafólks í tæp 15 ár, og til dæmis fáir aðrir í hinu svokallaða verkalýðsarmi flokksins en þekktir hælbítar Sólveigu Önnu, þá er ekkert annað hægt en að taka ofan fyrir þessum unga dreng.

Úr frétt Vísi.is

"Jafnvel þótt kjörsókn yrði miklu meiri en þegar aðildarfélög SGS voru að greiða samninga um sinn kjarasamning í desember og jafnvel þótt yfirgnæfandi meirihluti legðist gegn miðlunartillögu ríkissáttasemjara þá teldist hún samt samþykkt. Þannig eru þröskuldarnir. Það er ekki að ástæðulausu að jafnaðarmenn á tíunda áratugnum greiddu atkvæði gegn ákvæðunum um svona miðlunartillögu þegar þau voru lögfest á Alþingi. Þetta er einhvers konar skrumskæling á lýðræði.

Fyrir stéttarfélag eins og Eflingu, þar sem félagsmenn eru mjög dreifðir og margir erlendis frá. Fólk margt ómeðvitað um réttindi sín þá þýða þessir þröskuldar að það er í rauninni verið að þröngva kjarasamningi upp á fólk.“

Hann bendir á að ríkissáttasemjari sé að boða til þessarar atkvæðagreiðslu rétt áður en niðurstaða úr kosningu um verkfallsboð liggur fyrir hjá Eflingu. Héraðsdómur Reykjavíkur mun einmitt úrskurða um hvort Efling verði að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt á mánudag, sama dag og atkvæðagreiðslan um verkfallsboð hjá Eflingu lýkur.

"Þá eru áhrifin í rauninni þau að það er verið að slá verkfallsvopnið úr höndum stéttarfélags með valdboði."

Ómar Geirsson, 29.1.2023 kl. 12:16

3 identicon

Sæll Ómar,

ekki tel ég að Sólveig sé að

skríða fyrir valdinu

þó hún krefjist þess að fá fund með svonefndum vinnumarkaðsráðherra.

Það er nokkuð augljóst að þar mun hún, eftir það sem á undan er gengið, krefjast þess að Aðalsteini verði vikið frá sáttasemjarastörfum, án vífilengja, en það embætti heyrir stjórnskipulega undir vinnumarkaðsráðherra og neyti.

Með þessu knýr hún ráðherra til að koma fram úr hýði sínu og taka afstöðu.  Hver hún verður, verður eftir tekið.  En hvernig sem fer, þá er ljóst að þingmenn og ráðherrar munu ekki lengur getað látið sem ekkert sé.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 29.1.2023 kl. 13:14

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Eigum við ekki að segja að Sagan segi að þú hafir rangt fyrir þér, sá sem skorar valdið á hólm, er alltaf búinn að vera ef hann sýnir það veikleikamerki að biðjast einhverskonar vægðar ef hann telur sig ekki ráða við atlögu valdsins.  Eftir að ég las frétt númer 2 um að ráðherra léti ekki ná í sig þá fór ég að hallast að því að Mogginn hefði skáldað upp þessar fréttir til að gera lítið úr Sólveigu Önnu og hæfni hennar til að leiða baráttu á Ögurstundu.

Afstaða ráðherra liggur fyrir, í viðtali við Ruv sagðist hann bera fullt traust til ríkissáttasemjara því hann fer eftir lögum að mati Guðbrands, svo svaraði hann fyrirfram meintum spurningum Sólveigu Önnu, að miðlunartillagan er á forræði ríkissáttasemjara en ekki hans sem ráðherra vinnumála.

Hve sorgleg þessi afstaða hans er má benda á skarpa ályktun Rafiðnaðarsambandsins sem einmitt útskýrir af hverju Guðbrandur á að grípa inní í krafti embættis síns svo stórslysi á vinnumarkaði verði afstýrt.  Úr frétt Mbl.is (feitletranir aðalatriða málsins mínar):

"Kjara­deil­an er ekki á þeim stað að samn­ingaviðræður hafi verið full­reynd­ar. Stutt­ur tími er frá því að kjara­samn­ing­ur­inn rann úr gildi og langt frá því að neyðarástand hafi skap­ast. Því er aug­ljóst að inn­grip í kjara­deil­una á þess­um tíma­punkti er ein­göngu til hags­bóta fyr­ir at­vinnu­rek­end­ur og því má draga í efa hlut­leysi rík­is­sátta­semj­ara við þess­ar aðstæður."

Sam­bandið skor­ar á rík­is­sátta­semj­ara að draga miðlun­ar­til­lögu sína til baka og láta af "for­dæma­laus­um aðgerðum gegn stétt­ar­fé­lagi sem með lög­mæt­um hætti legg­ur sitt af mörk­um að ná ásætt­an­leg­um kjara­samn­ingi fyr­ir sitt fé­lags­fólk." Jafn­framt er rík­is­sátta­semj­ara bent á að hon­um beri að gæta jafn­ræðis á milli samn­ingsaðila og "stilla sér ekki upp í hóp at­vinnu­rek­enda með jafn af­ger­andi hætti og raun ber vitni."

Er því haldið fram að rík­is­sátta­semj­ari leggi hér með fram til­boð at­vinnu­rek­enda sem miðlun­ar­til­lögu. Það sýni skort á teng­ingu við málstað verka­lýðsfé­lags­ins. 

Áréttað er hlut­verk rík­is­sátta­semj­ara, að miðla mál­um og auðvelda deiluaðilum að ná kjara­samn­ing­um "en ekki að hlutast til um inni­hald kjara­samn­inga eða draga í efa fé­lags­legt umboð samn­inga­nefnd­ar verka­lýðsfé­lags."Þá tel­ur sam­bandið að hlut­verk samn­inga­nefnd­ar sé skýrt og sæki sitt fé­lags­lega umboð til síns fé­lags­fólks á hverj­um tíma. 

„Rík­is­sátta­semj­ari hef­ur að mati miðstjórn­ar RSÍ skaðað veru­lega traust fjöl­margra verka­lýðsfé­laga til embætt­is­ins og er ljóst að ef byggja á upp traust þá verður að draga fram­lagða miðlun­ar­til­lögu til baka  taf­ar­laust. Auk þess þarf að tryggja að hlut­laus aðili leiði kjara­deil­ur á kom­andi vik­um og mánuðum."

Ljóst þykir sam­band­inu að aðgerðir rík­is­sátta­semj­ara geti valdið launa­fólki á Íslandi mikl­um skaða, verði ekki brugðist við með af­ger­andi hætti strax".

Efling þarf ekki að banka upp hjá Guðbrandi til að segja honum að víkja Aðalsteini.

Slíkt gerir félagið með ályktun stjórnar og samninganefndar, og eftir opinberan stuðning Guðbrands við griðrof Aðalsteins, þá eiga þau líka krefjast þess að Guðbrandur víki líka.

Á því er grundvallarmunur og því að koma skríðandi til hans í von um að hann veiti þeim viðtal.

Slíkt gera ekki stríðsmenn réttlætisins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.1.2023 kl. 13:42

5 identicon

Allt það sem segir í ályktun Rafiðnaðarsambandsins er samhljóða því sem Efling hefur þegar bent á.  Aðalsteinn verði að víkja frá málinu og hlutlaus að taka við að leiða deiluna til sátta.

En gáðu að því, Ómar, að Rafiðnaðarsambandið bendir ekki á hvernig eigi að skipta út ríkissáttasemjara.  Hins vegar tekur Sólveig málið áfram og krefst tafarlauss fundar við ráðherra um að hann sem handhafi framkvæmdavalds málaflokksins, hlutist til um að víkja Aðalsteini frá starfi sáttasemjara í þessari deilu.

Og hún gefur ráðherra einungis frest til morguns, 30. janúar 2023.  Hefði reyndar mátt setja kl. 9:30, og eigi síðar. 

Að krefjast afsagnar eins ráðherra og svo annars og þess þriðja etcetera, án þess að gefa hverjum andmælarétt, augliti til auglits, er varla annað en rómantísk fantasía okkar gömlu framhlaðnings sveitamannanna og því skil ég svo sem mjög vel þitt sjónarmið og hef ríka samúð með.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 29.1.2023 kl. 14:50

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Pétur, sá sem óttast biður um fund, svo einfalt er það.

Varðandi tilvísun mína í Rafiðnaðarsambandið þá hef ég lesið nokkrar ályktanir frá félögum og samtökum launafólks, og hvergi rekist á eins skelegga lýsingu sem endar ekki á væli um að láta reyna á lögin, því það er leið þreyttra skriffinna, ekki skeleggra baráttumanna.

Rafiðnaðarsambandið getur ekki gengið lengra á þessari stundu en að færa óhrekjanleg rök fyrir að sátti dragi tillögu sína til baka, sambandið er ekki í beinu átakaferli líkt og Efling.

Það átakaferli er ekki háð með tveggja manna tali, það átakaferli er fyrir opnum tjöldum, Efling tjáir skoðanir sínar með samþykktum, eins og til dæmis verkfallsboðun, og yfirlýsingum frá stjórn og samninganefnd, síðan félagsfundum séu málin stærri og alvarlegri.  Það er síðan formanns að tjá og túlka bæði samþykktir og yfirlýsingar opinberlega, að fara til dæmis núna á fund ráðherra og fara fram á inngrip hans í formi þess að víkja Aðalsteini, er í besta falli bjánalegt, því þar er formaðurinn að tjá sína skoðun en ekki skoðanir félagsins.

Því félagið er eitt, Sólveig Anna annað.

Telji stjórn og samninganefnd Eflingar miðlunartillögu ríkissáttasemjara óeðlilegt inngrip í lögbundinn rétt félagsins til kjarasamninga, þá ályktar félagið um það opinberlega, gefur þannig formanni félagsins vígstöðu til að halda áfram undirbúning verkfalls síns, og að hundsa kröfur ríkissáttasemjara um kosningu um miðlunartillöguna.

Telji Efling að ríkissáttasemjara sé ekki stætt að sitja lengur, þá ályktar félagið þar um, og getur þá þess vegna falið formanni að fara á fund ráðherra til að tilkynna honum þá ályktun, og af hverju félagið muni ekki vinna með viðkomandi embætti fyrr en Aðalsteinn víkur.

En félagið fer aldrei nokkurn tímann, undir nokkrum kringumstæðum, bónleið til ráðherra, hvað þá að formaðurinn fari án umboðs til að biðja einhverrar bónar eða leggja fram einhverjar kröfur.

Þar fyrir utan þá brýna menn kutana þegar að þeim er sótt, ráðherra blandaði sér á beinan hátt inní þessa deilu með stuðningsyfirlýsingu sinni og bættist þar beint í óvinafögnuð Eflingar.  Í ljósi misnotkunar Aðalsteins á embættisvaldi sínu, og um er að ræða beina aðför að verkfallsvopni stéttarfélaga, þá er fullkomlega eðlilegt að Efling krefjist afsagnar ráðherra, og beini þar með spjótum sínum að kjarna málsins sem er "for­dæma­laus­um aðgerðum gegn stétt­ar­fé­lagi sem með lög­mæt­um hætti legg­ur sitt af mörk­um að ná ásætt­an­leg­um kjara­samn­ingi fyr­ir sitt fé­lags­fólk.".

Og aðeins lögfræðingum dytti í hug að tala um andmælarétt í þessu samhengi.

Þetta taktleysi eða klúður fór ekki framhjá óvinafagnaði Eflingar hjá Morgunblaðinu, annars hefði Sólveig Anna aldrei fengið af sér mynd og forsíðufrétt, 2 fréttir í röð.

Marbendill hlær aldrei að ástæðulausu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.1.2023 kl. 17:57

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Síðan má bæta því við að leikritið, Beðið eftir Guðbrandi!!, nei djók hann heitir víst Guðmundur lauk núna á fimmta tímanum þegar ráðherra tilkynnti Sólveigu formlega að hann hefði haft hana að fífli, ja eins og hann sagði, "ja það spáir víst illa á morgun, ég þarf að drífa mig í flug fyrir vonda veðrið", eins og langtímaspár á Íslandi séu aðeins gefnar út sólarhring fram í tímann.  Og hann sagði þetta við blaðamann Morgunblaðsins, en hafði ekki fyrir því að tilkynna Sólveigu Önnu  þetta beint.

".. en þegar að mbl.is setti sig í sam­band við Sól­veigu á fimmta tím­an­um í dag hafði henni ekki borist veður af því að fund­in­um væri af­lýst. Þá sagðist hún vongóð fyr­ir fund­in­um og sagði hann mik­il­væg­an til að mót­mæla fram­ferði rík­is­sátta­semj­ara.".

Sorglegast fannst mér samt að hún skyldi hafa skemmt Marbendli með því að segja honum að von Eflingar gagnvart ólögum væri fundur hennar með ráðherra.

Eitt er víst að varðandi átök hefur Sólvegi Anna ekki góða ráðgjafa.

Aftur er það kveðjan.

Ómar Geirsson, 29.1.2023 kl. 18:10

8 identicon

Það að Guðmundur flýji með loftstrókinn aftan úr borunni og af hólmi héðan, sýnir einungis raggeitarhátt hans.

Það var viðbúið og komið núna berlega í ljós.

Hvað Sólveig gerir í framhaldi þess sem hefur nú opinberast, berlega, vitum við hvorugir, Ómar minn.  Efa að hún, eða ráðgjafar hennar, séu að lesa þessar pælingar okkar.  En þó er ljóst að vel gæfust henni þín ráð núna.  Nú þegar raggeitin hefur flúið af hólmi.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 29.1.2023 kl. 19:15

9 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Sæll ÓMar. Og ég sem hélt að eftir Covidárin þá hefði þetta stjórnmálafólk lært að það er hægt að funda gegnum fjarfundabúnað ef vilji er fyrir að tala saman. Þetta er vandræðaæegt fyrir ráðherrann en það er ekki nýtt í handónýtum Íslenskum stjórnmálum.cool

Ragna Birgisdóttir, 29.1.2023 kl. 19:37

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Pétur, þau eru ekki það mikið gæfufólk að lesa pælingar okkar, sem er ekki okkar vandi.

En enn og aftur þá er það rangt mat hjá þér að Guðmundur mæti ekki vegna þess að hann er raggeit, þó Sólveig Anna sé öflug þá býr hún ekki yfir hæfni grísku gyðjunnar sem gat breytt fólki í stein með augnaráðinu einu saman.

Þetta er það sem kallast í leikjafræðum, að hámarka spilfíflið, yfirlýsingin skýr, ég óttast ekki Sólveigu Önnu, Ps. hún getur ekki einu sinni stjórnað umræðunni.

Það er greinilegt að hann treystir á mátt ólaganna fyrst hann kýs að niðurlægja hana svona, en hvort Sólveig Anna rísi uppúr eldi líkt og valkyrjan í Games og Thrones, á eftir að koma í ljós.

Axarsköft og afleiðingar þeirra eiga jú til að herða fólk, að því gefnu að það missir ekki höfuðið líkt og Watt Tyler forðum daga.

En þá þarftu að hætta að skríða fyrir valdinu, annars verður það bara önnur exi, og svo önnur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.1.2023 kl. 20:56

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ragna.

Guðmundur ætlaði sér aldrei að tala við Sólveigu, hann er ekki hlutlaust stjórnvald, hann er hluti af óvinafagnaðar hennar.

Bara skrýtið að Sólveig Anna skuli ekki hafa fattað það fyrr.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.1.2023 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 503
  • Sl. sólarhring: 604
  • Sl. viku: 668
  • Frá upphafi: 1320511

Annað

  • Innlit í dag: 442
  • Innlit sl. viku: 584
  • Gestir í dag: 412
  • IP-tölur í dag: 408

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband