Kveikjum eld, kveikjum elda!!

 

Syngur seðlabankastjóri þessa dagana, nema með fornnorðlenskum framburði svo líklegast þarf þýðanda svo fólk skilji.

 

Ekki gerir forseti ASÍ það allavega; Hann segir "óþolandi mýtu að kjara­samn­ing­ar og launa­hækk­an­ir séu ástæðan að baki þess hve illa geng­ur að temja verðbólg­una. Frek­ar hefði átt að taka á þeim vanda­mál­um sem uppi voru fyr­ir rúmu ári vegna hækk­ana á fast­eigna­markaði, en að hækka stýri­vexti".  Og bendir á það augljósa sem allir sjá sem tala og skilja nútíma íslensku;

"Þarna eru hlut­ir á bakvið þetta, veik­ing krón­unn­ar hef­ur áhrif á verðbólgu, það eru ytri aðstæður sem hef­ur áhrif á verðbólgu og svo eru gjald­skrár hækk­an­ir hjá stjórn­völd­um sem eru að auka verðbólgu, sem ella hefði lækkað hefðu þær ekki komið til um ára­mót­in.".

 

Ekki er skilningurinn á söng seðlabankastjóra meiri hjá fulltrúum atvinnurekanda, Halldór Benjamínsson talar um óskiljanlegar boltalíkingar og bætir svo í; "Seðlabank­inn er því því miður að feta hratt þá leið að skaða trú­verðug­leika sinn al­var­lega.".  Svo kemur hefðbundni söngurinn sem hann fékk í arf frá fyrirrennara sínum, sem aftur fékk hann í arf hjá sínum fyrirrennara, sem aftur ... og svo koll af kolli, um óábyrg ríkisfjárlög og núna sé ekki lengur hægt að hækka kaupið þó það sé ekki sagt að það gæti komið niður á ofurarðgreiðslur fyrirtækja.

 

En stöldrum við þetta með trúverðugleikann, sem réttilega er verðmætur og til mikils að halda í hann.  Það gildir samt ekki bara um seðlabankastjóra, heldur líka um Halldór eða ríkissáttasemjara, en þeir síamstvíburunum tókst með einu gönuhlaupi að eyðileggja allt traust á vinnumarkaðnum og stórskaða embætti ríkissáttasemjara.

Fyrir hvað??, kröfur láglaunafólks um laun sem dygðu fyrir lágmarksframfærslu!!!

 

Það er nefnilega mjög auðvelt að skaða trúverðugleik sinn en það getur verið mjög erfitt að vinna hann aftur.

Augljóst er að allir eru að spila sóló, og enginn axlar ábyrgð á því sem er að gerast eða tekur af skarið og veitir forystu um leið sátta og samkomulags.

Og allir benda á hina, og hinn meinta stórskaðaða trúverðugleik þeirra.

Ríkisstjórnin er svo stikkfrí, að mæta á ráðstefnur, að halda skál-skálráðstefnur, flottræfilsháttur og sýndin er mál málanna í dag.

 

Enginn stígur fram og sýnir frumkvæði, með því til dæmis að afsala sér einhverju sem sjálfvirknin hefur fært honum uppí hendurnar, eða slá af einhvern flottræfilsháttinn sem þjóðin hefur engan veginn efni á.

Við erum kannski stærst og best, en við þurfum samt ekki að greiða hæstu laun í heimi til stjóra okkar, hvort sem þeir eru í einkageiranum eða hjá hinu opinbera.

Að meta menntun til launa, í samfélagi þar sem stefnt er að því að yfir 80% þjóðarinnar sé með einhvers konar "æðri" menntun, þýðir ekki það sama að þá þurfi að greiða hinum ómenntuðu, þrælalaun, svo eitthvað sé afgangs fyrir hálaunakröfur hinna menntuðu.

Velmegun og velferð getur aldrei byggst á örbyrgð þeirra sem vinna grunnstörfin.

 

Það er siðferðisgrunnur kjarabaráttu Eflingar, og sá siðferðisgrunnur er ljósið sem mun lýsa þjóðina út úr ógöngum sínum.

Því ójafnvægið og síkrafa þeirra sem mest hafa um að fá meira, hærri laun, meiri arð, er að sprengja efnahagslífið sem og að vera uppspretta ólgu og átaka sem engan endi sér fyrir.

Bara það að staldra við og viðurkenna að mennskan, að siður krefst þess að allir hafi í sig og á af vinnu sinni, mun laga svo margt annað.  Menn munu fara að tala saman, útfæra leiðir, líta á sig sem samherja, ekki óvini.

 

En ef ekki, og Seðlabankinn telur sig þurfa að kveikja elda í stað þess að slökkva bál og lægja öldur, þá mun fátt annað gerast en forseti ASÍ bendir á; "Auk­in út­gjöld hjálpa ekki til við að ná samn­ing­um þar. Þetta er frek­ar til þess að auka á vand­ann".

Því það er liðin tíð að verkafólk taki því sem að því er rétt og verði stillt þegar því er sagt að verða stillt.

Og því verður ekki breytt þó menn láti ríkissáttasemjara siga lögreglu á Sólveigu Önnu og félaga hennar hjá Eflingu.

 

Að kveikja elda hefur aldrei virkað vel til að slökkva bál eins og aðilar vinnumarkaðarins benda réttilega á.

Að beita fyrir sig ólögum til að stöðva réttmætar verkfallsaðgerðir er ekki heldur líklegt að stuðli að friði og sátt á vinnumarkaði.

Að hver skari eld að sinni köku en í vandlætingu sinni bendir á aðra, er fyrst og síðast aðeins líklegt til að valda sinadrætti í bendiputtanum, en stuðlar aldrei að jafnvægi og stöðugleika.

Og að neita hluta þjóðarinnar um að hafa í sig og á er aðeins ávísun á stöðugan ófrið og deilur.

 

Þetta er allt eitthvað svo augljóst.

Kannski of augljóst til að fólk sjái þetta almennt.

 

Munum samt að við höfum áorkað miklu sem þjóð og þrátt fyrir allt ölum við börnin okkar upp í góðu samfélagi.

Við getum þetta alveg, við höfum allavega getað þetta.

Og það hefur ekkert breyst í rauninni, nema kannski að það sé of mikið til skiptanna, eða hver er vandinn þegar þjóðartekjur eru í sögulegu hámarki??

 

Það vantar bara skynsemisrödd og sátt um að hlusta á hana.

Og að við munum að við erum öll Efling, líka Halldór Benjamínsson.

 

Þá kemur þetta.

Alveg satt.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is „Við erum reiðubúin að halda áfram“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólveig, stattu á sannfæringu þinni.

 

Með rökum hefur þú krafist afsagnar Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara, fyrir að hafa vanvirt embætti sitt og ganga erinda annars deiluaðilans.

Krafan um afsögn Aðalsteins er óhjákvæmileg eftir að hann lét það út úr sér við fjölmiðla, á sínum fræga blaðamannafundi minnir mig, að hann teldi rétt að leyfa félagsmönnum Eflingar að kjósa um samninga Starfsgreinasambandsins.

Eins og það sé hans hlutverk.

 

Ráðherra skirrast við, enda gengur hann líka erinda annars deiluaðilans, og fær þessa lýsingu frá fyrrum ráðherra VinstriGrænna; ".. í stað þess með froðusnakki að heimta fyrir hina ríku svo þeir geti kynnt græðgis ofninn sinn og orðið enn ríkari.".

Eftir stendur aðeins þú, sannfæring þín og hins vegar maður sem hefur fyrirgert rétti sínum til að gegna embætti sínu.

 

Það er því visst stílbrot að mæta á fund hjá Aðalsteini Leifssyni, jafnvel þó einhver ólög segi að það sé sama hvað menn skandalis í embætti sínu, þá megi þeir ennþá gegna því ef samtrygging dómstóla og ríkisvalds býður svo.

Ég legg því til Sólveig Anna að í nafni hagræðingar þá látir þú lögguna sækja þig á fundinn um leið og hún sækir kjörskrána fyrir Aðalstein.

 

Sú hagræðing hlýtur að gleðja talsmenn þeirrar hagræðingar að hagræða laun ræstingafólks á opinberum stofnunum niður fyrir lágmarksframfærslu, og það á að vera þeirra eina gleði sem þeir fá í þessari deilu þinni við siðblinduna sem lagst hefur eins og mara á samfélag okkar.

Annars eru það bara stálin stinn, mundu að þú hófst ekki þessa deilu, en þér var falið að leiða hana til lykta í þágu lands og þjóðar.

Því við erum jú öll Efling.

 

Sumir eiga bara eftir að fatta það.

Kveðja að austan.


mbl.is Ekkert formlegt fundarboð borist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólögum skal mæta.

 

Og þetta er ekki í fyrsta skiptið sem héraðsdómur dæmir gegn lögum.

Enda flestir dómarar í héraðsdómi stráklingar úr Vöku eða Heimdalli, eina sem hrjáir þá eru innri átök um hvort þeir eigi frekar að þjóna ríkisvaldinu undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, og þá sú þjónkun ávísun á frekari frama innan dómskerfisins, eða auðvaldinu þar sem auður í beinhörðu gulli bíður trúrra dómsþjóna.

 

Það er jú skýring þess að Hæstiréttur fellir flesta umdeilda dóma stráklingana úr gildi, enda þar innandyra þroskaðra fólk, sem eitthvað þarf að kunna fyrir sér í lögfræði til að fá embætti sín, þó vissulega séu flokksundantekningar þar á.

En þegar valdaþræðirnir fara gegn lögfræðinni, þá á lögfræðin og sjálfstæði dómsstóla sér athvarf í Strassborg, og kannski á þessi deila eftir að enda þar í enn einni háðunginni þar.

 

En kjarninn er sá að ólögum á að mæta.

Lýðræðið á að verja.

 

Það er skylda hvers borgara þessa lands.

Efling er ekki ein í þessu stríði.

Kveðja að austan.


mbl.is Miðlunartillagan lögleg með öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er þessi maður að gera sig gildandi??

 

Rúinn öllu trausti, háðung þess embættis sem honum var trúað fyrir.

 

Eitt er samt að þekkja ekki sinn vitjunartíma, annað er að bæta í háðung sína, eins og að honum dugi ekki að vera athlægi flestra, heldur liggi metnaðurinn að vera athlægi allra; "Ég er að vinna eft­ir bestu sam­viskuminni laga­skyldu og mun halda því áfram.".

Vonandi þjónuðu afglöpin öðrum hagsmunum en hans bestu samvisku, ef svo er þá er leitun að öðrum eins dómi yfir sjálfum sér.

Jafnvel harðari en að hafa lög þjóðar okkar í þeim flimtingum að afgöpin séu í samræmi við lagaskyldu hans.

 

Hvernig úthrópaður maður vegna gjörða sinna, sem aðeins ranglát stjórnvöld halda hlífðarskyldi yfir, telur sig geta boðað til fundar í krafti embættis síns, er eitthvað sem seinna verður kennt í heimspeki siðfræðinnar sem dæmi um algjöra blindu eða firringu.

En of heimskt til að nokkurn tímann verði minnst á sem dæmi um algjört klúður í samningatækni.

 

En hugsanlega, fræðilega eru einhverjir meintir verkalýðsfrömuðir, sem allir sem einn eru í verkalýðsráði Samfylkingarinnar, sem myndu mæta á fund sem Aðalsteinn Leifsson boðar til, en ekki aðrir.

Hvort sem þeir eru óflokksbundnir, meintir rebellar, í Sjálfstæðisflokknum eða Vinstri Grænum, svo djúp er gjáin á milli Aðalsteins og samtaka launþega í dag.

 

Enn og aftur á Mogginn mikla þökk fyrir að upplýsa almenning um atburði líðandi stundar, að fara frá rógi og níði, yfir í fréttir um þessa kjaradeilu Eflingar og Samtaka Atvinnulífsins þar sem ekkert er dregið undan, og öll sjónarmið koma fram.

Því einn af hornsteinum lýðræðisins er hlutlaus fréttamennska sjálfstæðs fjölmiðils, það er sjálfstæðs í þeirri merkingu að fréttaskrif eru aðskilin frá hagsmunum eiganda, eitthvað sem ríkisútvarpið mætti hafa í huga þegar það endurvarpar háðung Samfylkingarinnar og Góða fólksins til þessarar varnarbaráttu láglaunafólks þjóðarinnar.

Þegar á reyndi hélt Mogginn sjó, en því miður er það enn og aftur ekki sagt um Ruv, þar skiptir meira máli að vega Sólveigu Önnu en að segja satt og rétt frá.

Eins og við séum að endurupplifa enn og aftur ICEsave deiluna.

 

Aðalsteinn, rúinn öllu trausti, er ekki gerð meiri háðung en að orð hans séu skilmerkilega endurtekin á öllum fréttamiðlum þjóðarinnar.

Svo má taka viðtal við Katrínu aftur og spyrja hana um þessa meintu sérfræðinga hennar sem sannfærðu hana um að afglöp hans væru í anda laga og góðrar stjórnsýslu.

Með þeirri einni spurningu; Katrín, hverjir voru þessir sérfræðingar aftur??

 

Það er ástæða fyrir því að fjölmiðlar eru múlbundnir í einræðisríkjum eins og Hvíta Rússlandi eða Rússlandi.

Það er ástæða fyrir því að beittar gagnrýnar spurningar eru ógn við ríkjandi valdhafa.

 

Það dugar að leyfa Aðalsteini að tala.

En það á ennþá eftir að spyrja Katrínu.

 

Á mannamáli en ekki Dagísku.

Og ég velti fyrir mér hvaða fjölmiðill verður fyrstur til þess??

En efa samt að það verði Rúv.

 

Á meðan; Keep on running Moggi.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Boðar SA og Eflingu á fund um atkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissáttasemjari þiggur ekki vald sitt frá guði.

 

Eins og Lúðvík Sólkonungur gerði á sínum tíma, heldur frá mannanna lögum.

Lögum sem hafa ákveðinn tilgang, og ætla honum ákveðið hlutverk.

 

Þessar augljósu staðreyndir lýðræðisins útskýrir lögfræðingur Alþýðusambandsins, Magnús M. Norðdahl, og Morgunblaðið á heiður skilinn fyrir að gera orðum hans skýr og greinargóð skil, það er eins og blaðið sé aftur orðið hlutlaus fréttamiðill.

Það er engu við grein Magnúsar að bæta, þetta eru bara staðreyndir málsins, lögin um ríkissáttasemjara voru sett til að stuðla að friði og jafnvægi á vinnumarkaði, ekki ófriði þar sem samningstilboð annars aðilans er lagt fram sem einhver miðlunartillaga.

Þar skiptir ekki máli hvor deiluaðilinn hefur ríkissáttasemjara í taumi, það hefði verið jafn mikil árás á lögin um embætti hans ef hann hefði lagt kröfugerð Eflingar óbreytta sem miðlunartillögu.

 

Þess vegna er það sárgrætilegt að í einfeldningsskap sínum skuli Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vísa í einhverja óskilgreinda sérfræðinga sem segi henni að tilboð Samtaka Atvinnulífsins undir formerkjum miðlunartillögu embættis ríkissáttasemjara, sé löglegt.

Slíka árás á heilbrigða skynsemi fólks, sem og beina árás á tilgang laganna um ríkissáttasemjara, getur forsætisráðherra þjóðarinnar ekki sett fram án þess að með fylgi ítarleg greinargerð viðkomandi meintra sérfræðinga.

Því annað er bara bull út í loftið, orðagjálfur, það sem dagsdaglega er kallað Dagíska.

 

Það er eins og Katrín geri ekki greinarmun á þeirri óskhyggju sinni að Efling verði til friðs um laun sem duga ekki fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, og því að það þarf að virða lög til ná þeim friði.

Hvað þá að hún fatti að líklegast er eðli deilunnar orðið þess eðlis að það sé ekki á færi atvinnurekanda einna að tryggja þessi lágmarkslífskjör, stjórnvöld þurfa líka að íhuga sína ábyrgð á verðhækkunum, Seðlabankinn þarf að íhuga sína ábyrgð, og svo þurfa menn að stöðva hið frjálsa innflæði á fólki, því við síeftirspurn á húsnæði, þá er það láglaunafólk sem fyrst hrökklast af húsnæðismarkaðnum.

 

Það þiggur enginn vald sitt frá guði og flestar deilur eru mannannaverk.

Bæði ástæður þeirra sem og hvort menn vilji magna þær eða stuðla að sáttum.

 

Embætti ríkissáttasemjara var mikið gæfuspor á sínum tíma.

Sameiginlegur skilningur aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um að allir þyrftu eiga kost á Þak yfir höfuð, uppbygging velferðarkerfisins og svo framvegis, allt þetta hefur dregið úr deilum og átökum á vinnumarkaði.

 

Það þarf nefnilega ekki að finna upp hjólið  í dag.

Hjólið er til staðar.

Það þarf aðeins að finna upp nýjar leiðir til að virkja þau tæki og tól sem hafa virkað svo vel fram að þessu.

 

Ef einhver vitglóra er í stjórnvöldum þá hlusta þau á verkalýðshreyfinguna.

Ef einhver vitglóra er í stjórnvöldum þá leita þau sátta við hinar lægstlaunuðu stéttir þjóðarinnar.

Heimskulegar deilur eru nefnilega það síðasta sem þjóðin þarf á að halda í dag.

 

Aðeins rödd skynseminnar.

Aðeins rödd skynseminnar.

 

Þá greiðist* úr hinu.

Kveðja að austan.

 

* Sbr að greiða úr netum.

 

 


mbl.is Heimildir ríkissáttasemjara ekki óumdeildar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Negldu fyrir glugga Sólveig Anna.

 

Lýðræðið er komið í þrot þegar ólögum er beitt til að buga stéttarfélög og neyða uppá þau kjarasamninga sem þau vilja ekki sjá.

Með því að meina þeim að nýta lögbundinn verkfallsrétt sinn, með því að knýja fram ólýðræðislega miðlunartillögu.

 

Það er kjarni málsins og snýst ekki um neitt annað.

Kemur í raun hvorki Eflingu eða Samtökum atvinnulífsins nokkuð við.

Heldur er þetta þróun frá lýðræði til annað hvort stjórnræðis eða einræðis.

Svipuð leið og til dæmis ofsatrúar og öfgafólk er að fara í Ísrael í dag.

 

Og ef einhver skyldi ekki fatta það, vera það takmarkaður í sinni eða dómgreind, þá er það sömu ólög að segja miðlunartillögu fallna, þó hún sé samþykkt af meirihluta greiddra atkvæða, ef fjöldi greiddra atkvæða nær ekki 25% af kjörskrá.

Þá myndi heyrast hljóð úr horni, hjá þeim sömu sem þegja í dag, því þeim finnst það sjálfsagt að slík ólög beygi verkfalla skúringakvenna sem og annarra láglaunahópa.

Í úrkynjun frjálshyggjunnar og hins frjálsa flæðis Góða fólksins er sú speki siðaðs fólks að þú skulir ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að þér sjálfum sé gert, löngu gleymd og grafin.

Enda þar sem þetta fólk gengur laust og fær að sýsla með fjármuni og ýmis fjöregg þjóðarinnar, þá ná orðin ormagryfja eða ýldupyttur ekki að lýsa því í raun sem á sér stað í kringum það.

 

Lýðræði þarf að verja.

Mennskuna þarf að verja.

Og nú er bolti varnarinnar hjá Eflingu.

 

Sólveig Anna.

Negldu fyrir gluggana, ekki afhenda kjörskrána.

Láttu pakkið beita lögreglunni til að grafa það sem það sór að verja þegar þáði völdin sín frá þjóðinni, stjórnarskrána og lýðræðið.

 

Rétturinn er þín megin.

Kveðja að austan.


mbl.is Munu áfrýja ef dómur fellur ekki þeim í vil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skylda að ná kjarasamningum.

 

Segir Halldór Benjamínsson, og réttari orð í þessari kjaradeilu er ekki hægt að mæla.

En það er svo að maður getur aldrei gefið góð fyrirheit nema fyrir sjálfan sig, og í stað þess að vera sífellt að leggja inn orð fyrir forystu Eflingar ætti Halldór að líta í eigin barm og íhuga hvað hann og hans samtök geta gert til að liðka fyrir lausn deilunnar.

 

Til dæmis gætu Samtök Atvinnulífsins ályktað opinberlega að Aðalsteinn Leifsson eigi að draga miðlunartillögu sína til baka, og í kjölfarið segja af sér því hann er rúinn öllu trausti, aðkoma hans eftirleiðis herðir hinn fræga hnút kjaradeilunnar en liðkar ekki fyrir lausn hennar.

Skilji Aðalsteinn ekki sinn vitjunartíma, að hin meinta snjalla lausn hans, miðlunartillagan sé mesta skemmdarverk embættis hans frá stofnun þess, þá á SA að fylgja ályktun sinni eftir með því að skora á ráðherra vinnumarkaðarins að víkja Aðalsteini, rökin liggja öll fyrir, og þó afneitun þeirra hafi svo sem ekkert með vit að gera, þá er lítið vit í að reyna leysa erfiða kjaradeilu með því að hlaupa öllu í bál og brand í upphafi hennar og skemma mjög fyrir mögulegri lausn á síðari stigum hennar.

 

Samtök Atvinnulífsins geta síðan sagt að þó það sé ekki á þeirra valdi að hækka laun í Reykjavík það mikið að láglaunafólk þar eigi minnsta möguleika að leigja eða kaupa á viðunandi kjörum, að þá sé það skylda allra, bæði atvinnurekanda, ríkis og borgar að vinna að því koma böndum á hið Villta vestur húsnæðis og leigumarkaðarins, það hlýtur allt sanngjarnt fólk að sjá að ef fólk getur  ekki tryggt sér og sínum Þak yfir höfuð, þá er ekki hægt að biðja það sama fólk að sýna meinta ábyrgð og sanngirni í kjarakröfum sínum.

Til lengri tíma eiga menn að viðurkenna að eins mestu afglöp Íslandssögunnar var að leggja niður hið félagslega húsnæðiskerfi án þess að nokkuð kæmi í staðinn.

 

Til skemmri tíma verður að gera eitthvað til að draga úr þrýstingnum, Samtök Atvinnulífsins geta til dæmis lagt til að svona síðustu  10 hótel eða svo á höfuðborgarsvæðinu verði gert að loka, því það sér hver heilvita maður að fjárfesti getur ekki bara tekið ákvörðun að opna hótel án þess að nokkrir innviðir séu til staðar að mæta þörfum þess starfsfólks sem hann flytur inn í landið til að vinna á hóteli sínu.

Það þarf að segja sannleikann, fjölgun hótela er fyrir löngu orðin ósjálfbær, og innflutt starfsfólk þeirra hrekur þá sem fyrir eru út á gaddinn, því hópur einstaklinga yfirbýður alltaf fjölskyldur með einni eða tveimur fyrirvinnum, ekki nema laun þeirra séu þeim mun hærri.

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og stjórnvöld þurfa síðan að meint góðmennska þeirra að galopna landið fyrir útlensku förufólki hefur aðeins þá beinu afleiðingu að húsnæðisskortur og þar með spenna á honum sé viðvarandi ástand.

Spenna sem hrekur láglaunafólk á gaddinn.

 

Það er nefnilega svo að það eru skýringar á hörku Eflingar, skýringar sem eru ekki til staðar á landsbyggðinni, og fólk á hrakhólum, eða sér megnið af launum sínum renna í leiguhítina svo ekkert er eftir fyrir minnsta vott af mannsæmandi lífi handa börnum þess, það er ekki tilbúið að skrifa uppá kjarasamning sem dugar ekki fyrir brýnustu þörfum þess.

Svarið hjá Samtökum Atvinnulífsins er ekki að segja; Við og okkar fólk höfum það gott og eigum ekki í nokkrum vandræðum húsnæði eða búa börnum okkar mannsæmandi líf.

 

Skilningur á þessu mun leysa þessa kjaradeilu.

Skilningsleysið herða hana.

 

Sökin er nefnilega ekki hjá Eflingu, sama hvað marga níðstafi Halldór Benjamínsson og félagar reisa til heiðurs Sólveigu Önnu og félögum hennar í forystu Eflingar.

Hún liggur nær honum.

Og það er skylda hans að bregðast við.

 

Því eins og maðurinn sagði.

Það er skylda að ná kjarasamningum.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Efling stundi aðferðafræðina að „telja og velja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur Jón misskilið stöðu sína??

 

Að hann starfi í sirkus en sé ekki ráðherra í ríkisstjórn Íslands??

 

Að leiðin til að ná í lífsnauðsynlegt fjármagn í öryggisinnviði þjóðarinnar, sé show og skemmtiatriði þar sem hann er trúðurinn.

Það er ekki bara að Jón Gunnarsson hafi sett niður sem auli, heldur hefur hann í eftirmála þessa skrípaleiks, náð  að gera samráðherra sína, sérstaklega fjármálaráðherra, formann flokksins hans, samseka að þessari aðför að innviðum þjóðarinnar

Líkt og Jón sé undercover, einhvers konar fimmtaherdeild sem grefur undan trausti og trúverðugleik ríkisstjórnarinnar og ráðherra hennar.

 

Hafi verið ástæða til að láta Jón fara eftir þetta upphlaup, þá er enginn efi í dag, Bjarni er minni á eftir, einhvers konar gufa, ef hann lætur Jón sitja áfram.

Það eru örugglega ýmsar ástæður fyrir fjárhagsvanda Landhelgisgæslunnar, í grunninn að hún, líkt og aðrir öryggisinnviðir þjóðarinnar, fær ekki næga fjármuni, en þetta er ekki boðleg leið fyrir fagráðherra að sækja aukna fjármuni.

Sama hvaða álit menn hafa á núverandi ríkisstjórn, hvort sem menn eru stuðningsmenn hennar eða andstæðingar, þá er svona hegðun ekki líðandi og íslensk stjórnsýsla setur mjög niður með svona framkomu.

 

Því þrátt fyrir allt þá megum við ekki gleyma því að landið okkar, þjóðin, og þær stofnanir sem hún hefur mótað til að stjórna landinu, að þetta er allt stærra en einstaka stjórnmálaflokkar, miklu stærra en dægurþras líðandi stundar.

Við eigum að gera kröfu til stjórnmálamanna, til ráðherra að sýna þessum stofnunum lágmarksvirðingu, að sýna stjórnsýslunni þá lágmarksvirðingu  að virða leikreglur, og haga sér alla vegar ekki eins og götustrákar séu menn kosnir til trúnaðarstarfa fyrir almenning og þjóð.

Allt í þessu upphlaupi Jóns Gunnarssonar er ólíðandi, fyrst hvernig hann rökstyður ákvörðun sína (ha!!, var hún ekki hvort sem er alltaf í útlöndum) og síðan hvernig hann eys samstarfsfólk sitt innan ríkisstjórnarinnar aur þegar hann er á flótta undan mótmælum sem hann átti ekki von á og réði ekki við.

 

Ríkisstjórn Íslands er betri en þetta.

Þjóðin á betra skilið en þetta.

Og munum, ef við virðum ekki sjálf okkur, þá getum við ekki ætlast til virðingu annarra.

 

Þetta ættu Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson að hafa í huga þegar þau íhuga stöðu Jóns.

Það er munur á tjóni og altjóni.

Og ennþá er hægt að forðast altjón.

 

En líði þau sirkustrúðnum að koma út sem hetju sem sótti fjármuni í lokaðan ríkissjóð, þá er ljóst að þau eru ekki mjög stór, hvorki inní sér eða útá við.

Því leiðtogi lifir ekki af svona lítilsvirðingu.

 

En að gefnu tilefni.

Svei attan.

Kveðja að austan.


mbl.is Vill falla frá sölu TF-SIF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að verja hið óverjanlega.

 

Er tíska þessa dagana og kannski skýring þess hve almenningur hefur ofboðslega lítið álít á stjórnmálamönnum sem og stjórnvöldum.

Svo lítið að jafnvel Samfylkingin mælist stærst stjórnmálaflokka í dag.

 

Af hverju er ekki hægt að taka á málum, játa mistök þegar þau hafa verið gerð, leysa deilur í stað þess að magna þær og svo framvegis.

Það eru fáir sem draga í efa að ríkissáttasemjara hafi ekki verið heimilt að leggja fram miðlunartillögu sína, það er bara ekki málið, hún gengur svo gersamlega gegn tilgangi og hlutverki embættisins að það hálfa og jafnvel helmingur þess er nóg.

Til skamms tíma magnar hún upp ófrið, til langs tíma eyðileggur hún embætti ríkissáttasemjara á meðan Aðalsteinn Leifsson gegnir því.

Því hann er ekki lengur hlutlaus, annaðhvort gengur hann erinda atvinnurekanda eða stjórnvalda, eða jafnvel beggja.

 

Af hverju fattar ráðherra þetta ekki, af hverju spilar hann sig bjána og spilar með augljósum afglöpum Aðalsteins, í stað þess að segja; Hey Aðalsteinn, ég held að þetta séu stór mistök hjá þér og ljóst að ef þú greiðir ekki úr þeim, ertu ekki bara rúinn trausti allra stéttarfélaga landsins, heldur líka mínu trausti.

Þetta er ekki flókið, og það er ekki þannig að ráðherra og flokkur hans VG; hafi miklu fylgi að tapa eða líta ráðherrar flokksins svo á að núverandi stjórnarþátttaka sé einhvers konar siðayfirbót fyrir svikin miklu 2009, og að eðli þeirrar yfirbótar sé að fá fólk til að gera sem það átti að gera strax 2013, það er þurrka flokkinn út af þingi.

Nei ég held ekki, þetta er hreinn aulaskapur, og allt yfirklórið ræðst beint að heilbrigðri skynsemi fólks.

 

Við sjáum það sama með nýjustu afglöp Jóns Gunnarssonar, þau benda sterklega til þess að það sé bara ekki alltí lagi með manninn, sem og þá embættismenn í dómsmálaráðuneytinu sem hafa eitthvað með almannaöryggi að ræða, sem og bara almenna stjórnsýslu.

Þetta klúður vefur bara uppá sig og þau Jón sé aðallega varinn með þögninni, þá er sú þögn æpandi eftir því sem fleiri sem tengjast almannavörnum og viðbrögðum þjóðarinnar við náttúruvá, tjá sig um málið.

Allir segja að maðurinn sé hreinræktað fífl sem viti ekki hvað hann er að gera, rökin gegn ákvörðun hans er eins og að segja frá manni; "já hann setti vatn á bensíntankinn, sagðist spara mikinn pening, já hann brenndi húsið sitt til grunna, nei nei ekki viljandi, honum fannst dýrt að kynda og ákvað að kveikja varðeld á stofugólfinu líkt og hann sá í gömlum vestrum í gamla daga, já já, það er ekki logið uppá hann Jón".

 

Samt er Jón varinn með þögninni í stað þess að vera fyrrverandi dómsmálaráðherra í dag.

Og þökk sé Guðmundi þá eykst ólgan á vinnumarkaðnum með hverjum deginum.

Og fylgi Samfylkingarinnar bólgnar út eins og myglan í nýuppgerðum skólum Reykjavíkurborgar.

 

Þetta er svo skrýtið allt saman.

Hvar fengu menn þá flugu í höfuðið að þegar þeir yrðu ráðherrar, þá yrðu aldrei gerð mistök sem þyrfti að takast á við og reyna að leiðrétta.

Fara þeir á námskeið þar sem þeim er kennt að verja hið óverjanlega??

Eða er þetta bara uppblásinn hroki sem lítur á almenning, þennan venjulega, sem fífl, og því megi bulla út í eitt, eða það sem verra er, tala Dagísku öllum stundum.

 

Veit ekki, en meðan ég man.

Svei attan.

Kveðja að austan.


mbl.is Ráðuneytið vísar frá stjórnsýslukæru Eflingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum þarf að nota mannamál.

 

Og einhver verður að spyrja Bjarna Benediktsson að því hvaða erkifífl hann skipaði sem dómsmálaráðherra í stað Guðrúnu Hafsteinsdóttir, kjördæmi sem sendir svona mann á þing, á engan rétt á ráðherrastól.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar reis opinberlega upp gegn yfirboðara sínum, Jóni Gunnarssyni, og með rökum útskýrði hann svarið við þeirri spurningu sem ég spurði hér að ofan á mannamáli.

Maðurinn er fífl er það eina sem Georg Lársson átti eftir að segja.

 

Spurning  hvort hann segi það hreint út í dag þegar hann les þessa aumu vörn Jóns, að um sameiginlega ákvörðun Gæslu og ráðuneytisins væri að ræða, að Georg væri einhver svona útgáfa af Hyde og Jekyll, auðmjúkur jámaður í návist ráðherra, en óforbetranlegur rebel, svona Sólveig Anna týpa af embættismanni, þegar hann veitti viðtöl í fjölmiðlum.

Í þessu dæmi getur nefnilega bara annar haft rétt fyrir sér, annað hvort er Jón að ljúga uppá Georg, eða Georg er tvíklofi, og þar með ekki hæfur til að gegna starfi sínu.

Stundum þarf nefnilega að segja satt, og þá allan sannleikann.

 

Á meðan er gaman að lesa álit Magnúsar Tuma, prófessors á þessum afglöpum.

"Það má eiginlega líkja þessu við það að lögreglan er í tímabundnum rekstrarerfiðleikum og selur bílana sína til þess að rétta sig af og getur þess vegna ekki farið í útköll nema fótgangandi." (Rúv í gær).

"...það að minnka ör­ygg­is­ráðstaf­an­ir með því selja flug­vél Land­helg­is­gæsl­unn­ar, TF-SIF, í sparnaðarskyni sé eins og að hafa slökkt á götu­ljós­um borg­ar­inn­ar á nótt­unni til að spara.  Magnús Tumi seg­ir rök­in um að flug­vél­in sé lítið notuð ekki halda vatni. Hann lík­ir því við það að fólk vilji al­mennt hafa slökkvi­tæki heima hjá sér þó svo að það kvikni ekki í.".(Mbl.is).

 

En ég ætla að gefa Birni Bjarnasyni lokaorðið, þegar hann gagnrýnir afglöp ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þá er líklegast fokið í öll skjól Bjarna Benediktssonar, því ábyrgðin á dvergunum er jú alltaf hans.

""Ja, ég verð nú að segja að ég hef sjaldan orðið jafnhissa og þegar ég sá þessa frétt [að selja ætti TF-SIF] núna áðan. Ég verð að játa að ég skil þetta ekki, að þetta skuli vera að gerast," segir Magnús Tumi á ruv.is í dag (2. febrúar). Hann mælir þar fyrir munn þess sem hér skrifar og líklega alls þorra þjóðarinnar.".

 

En að gefnu tilefni.

Svei attan.

Kveðja að austan.


mbl.is Sameiginleg niðurstaða ráðuneytis og LHG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Feb. 2023
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 321
  • Sl. sólarhring: 453
  • Sl. viku: 4769
  • Frá upphafi: 1329331

Annað

  • Innlit í dag: 265
  • Innlit sl. viku: 4192
  • Gestir í dag: 239
  • IP-tölur í dag: 236

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband