Áróðursmaskína mallar sínu skítamalli.

 

Þegar ekki tókst að hindra verkföll Eflingar með öllum þeim skítatrixum sem mannlegt ímyndunarafl gat upphugsað, og grátnir eru þeir gömlu góðu dagar þar sem hægt var að leigja einhverja hvítliðafanta við að lemja á fátæku verkafólki, þá er næsta útspil þessara manna sem byggja arð sinn og gróða á nútímaþrælahaldi alþjóðavæðingarinnar, að loka á verkfallsverði Eflingar.

 

Lok, lok og læs, og þegar Efling krefst réttar síns, þá er kallað á lögregluna.

Það skal samt tekið fram að löggan er ekki núna beðin að lemja verkfallsverði líkt og í tíðkast mjög í þeim löndum sem stjórnvöld sækja fyrirmynd sína að löggjöf sem eiga útiloka verkföll framtíðarinnar.

Ekki ennþá orðin svona slæm, eða réttara sagt rotin, og vissulega má hrópa húrra fyrir því.

Samt ekki ennþá, munum það.

 

Því það er fáheyrt að menn, munum þessir þarna sem byggja arð sinn og gróða á nútíma þrælahaldi, geti fengið aðstoð lögreglu við að halda verkfallsvörðum Eflingar úti og meina þeim þannig að gegna skyldustörfum sínum.

Skítamall áróðursmaskínunnar lætur það hljóma þannig að verkfallsverðir séu að skipta sér að verkum annarra sem eru ekki í verkfalli eins og kokka, þjóna eða starfsfólks í móttöku, eins og ræstingakonan viti ekki að hún sé að þrífa heldur að kokka eða taka á móti gestum. 

Sem sagt að öll verkfallsbrot liðanna ára, liðanna áratuga, bæði hér og í öðrum löndum, séu í raun aðeins misskilningur fólks sem viti ekki hvað það er að gera í vinnunni og sé æft þegar það sér annað fólk vinna sína vinnu.

 

Hvort einhver sé það trúgjarn að trúa þessu má vel vera, sérstaklega ef það fer saman við skort á uppeldi, að fólk hafi ekki verið kennt að þekkja sið á sínum yngri árum og þykir því allt í góðu að velmegun þess sé byggð á þrælkun annarra.  Og verður svo bandbrjálað þegar vinnuþrælarnir rísa upp og segja; megum við ekki líka fá laun sem duga til að lifa af.

En aðrir ekki og það er ákaflega aumt að þetta pakk, því það er bara pakk sem hagar sér svona, skuli komast upp með að loka vinnustöðum fyrir verkfallsvörðum, komi upp ágreiningur með túlkun eða framkomu, þá hlýtur að vera leið til að leysa slíkan ágreining, önnur en sú að meina verkfallsvörðum að sinna skyldum sínum.

Og fara svo í skítugt áróðursstríð gegn störfum þeirra sem löng sátt er um að séu nauðsynleg til að eyða tortryggni og tryggja frið í kringum verkföll, það er að þau séu það sem kallað var fyrir daga sígræðginnar, friðsamleg.

 

Verkföll eru alltaf neyðarbrauð, alla vega í heilbrigðu samfélagi þar sem aðrar leiðir eru reyndar til þrautar að ná sátt um mannsæmandi laun, og það er alltaf leiðinlegt að þau "skaði upplifun og valdi gestum hótela vanlíðan".

En í alvöru, við hvern er að sakast??

Þann sem borgar þrælalaunin eða sá sem krefst launa sem ekki eru kennd við þræla??

 

Og ég efa ekki að ef flestir gestanna væru spurðir, þá myndu þeir svara að þeir teldu sig borga það mikið fyrir gistinguna að þeir teldu að hægt væri að borga mannsæmandi laun á hótelinu.

Þeir væru ekki stuðningsmenn nútíma þrælahalds.

Því það er nefnilega svo að flest fólk er siðað.

 

Skítamallið er nefnilega ekki ætlað gestum.

Heldur þeim sem af einhverjum ástæðum leggjast gegn réttlætisbaráttu láglaunafólks á Íslandi, að það fái mannsæmandi laun fyrir vinnu sína, ekki ofurlaun, heldur laun sem duga allavega fyrir lágmarks framfærslu. Sem er ekki frekja í landi alsnægtanna.

 

Hvað því fólki gengur til, hvort það hafi gleymst að ala það upp, eða eitthvað misfarist hjá því á fullorðins árum, kannski orði sígræðginni að bráð, veit ég ekki.

En það er þarna greinilega í þeim fjölda að atvinnurekendur sjá ástæðu til að láta áróðursmaskínu sína malla ofaní þau afskræmda mynd af kjarabaráttu láglaunafólks.

Það er svo greinilegt að það á að sigra þessa deilu fyrir utan samningaborðið, með því að knésetja forystu Eflingar og sjálfsagt að krossfesta hana á eftir uppá Valhúsarhæð, sem víti handa öllum þeim gætu leitt kjarabaráttu láglaunafólks í framtíðinni.

 

Þetta komast Samtök Atvinnulífsins óáreitt upp með.

Í hina Nýja Íslandi eftirhrunsáranna sem enginn segist vilja neitt hafa með að gera, en enginn gerir þó neitt til að hamla á móti.

Aðeins froðusnakk og upphrópanir.

 

Þar til Efling gerði okkur að Eflingu.

Þó sumir eigi bara ennþá eftir að fatta það.

 

Við erum öll Efling.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Fordæma framkomu verkfallsvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau skeyta hvorki um skömm né heiður.

 

Er palldómur Halldórs Benjamínssonar um forystu Eflingar.

Af hverju viðhefur hann þessi orð??, jú þau lúta ekki ólögum sem og beygja sig ekki fyrir fordæmalausri aðför atvinnurekanda og stjórnvalda að rétti verkalýðsfélaga til að nýta verkfallsvopnið til að bæta samningsstöðu sína.

 

Núna þegar stálin stinn mætast þá má ekki gleymast hver er ábyrgðaraðili þess að svona er komið í kjaraviðræðum Eflingar og Samtaka Atvinnulífsins.

Sök Eflingar er að rökstyðja kröfur um að félagsmenn þess þurfi hærri launahækkanir en samið var um við félög Starfsgreinasambandsins.

Viðbrögð Samtaka atvinnulífsins var ekki að ræða þær kröfur, heldur hófu samtökin illvígt áróðursstríð í fjölmiðlum sem í meginatriðum beindist að persónu formanns Eflingar, að meintum fáránleik kröfugerðar Eflingar og að tengja hvorutveggja við einhver óskilgreind róttæk öfl sem áttu að eiga upptök sína í stofunni hjá Gunnari Smára Egilssyni, sem á að vera ákaflega ljótur maður því hann segist vera sósíalisti.

Hvernig þetta samræmist heiðri og góðum vinnubrögðum í kjaradeilum getur Halldór Benjamín einn útskýrt.

 

Þegar ljóst var að þessi samningatækni Samtaka Atvinnulífsins dygði ekki til að valda það mikilli upplausn innan Eflingar að félagið treysti sér ekki í verkfallsaðgerðir, þá var gripið til plans B, eitthvað sem til dæmis Guðmundur Þ. Guðmundsson gerði ekki á síðasta HM.

Plan B var að láta ríkissáttasemjara fyrirgera trúverðugleika sínum með því að misbeita valdi sínu og leggja fram starfsgreinasamningana sem miðlunartillögum með þeim fáheyrðum orðum að honum fyndist að félagar Eflingar ættu að fá að kjósa um þá.

Vegið var að verkfallsréttinum, embætti ríkissaksóknara var fórnað, kastað fyrir róða samskiptareglum milli aðila vinnumarkaðarins sem áratugirnir höfðu þróað og slípað til.

 

Ekkert af þessu hafði áhrif á heiður né skömm Halldórs Benjamínssonar, að hans dómi allavega, en að forysta Eflingar skyldi ekki í kjölfarið skríða í duftið fyrir honum, heldur verjast þessari samningatækni hans, sem er án allra fordæma í gjörvallri sögu íslenska vinnumarkaðarins, það er forkastanlegt að hans dómi.

Forystu Eflingar til skammar, hjá fólki sem skeytir hvorki um skömm eða heiður.

En að líta í eigin barm og íhuga í eina mínútu sína eigin sök, það er ekki uppá pallborðinu hjá Halldóri Benjamínssyni, ekki frekar en að virða viðurkenndar leikreglur í kjarasamningum.

 

Þessi sjálfhverfa skýrir svo margt í af hverju málum er svona komið, í að virðist óleysanlegan hnút.

Hnút sem Landsréttur getur ekki höggvið á frekar en aðrir dómsstólar.

Aðeins samningar.

 

En einhvern veginn finnst mér forysta Samtaka Atvinnulífsins ófær um það í dag.

Fyrirlitning á mótaðilunum, að lítilsvirða þá í orðum og tali, að treysta á undirróður og fimmtu herdeild Samfylkingarinnar til að grafa undan löglegri kjörinni stjórn Eflingar, reyna að nýta sér lagaklæki og jafnvel liðsinni lögreglunnar, er bara ekki vænlegt til árangurs í kjaradeilu.

Ekki nema menn vilja ekki leysa hana, heldur koma henni í þann hnút að það réttlæti inngrip ríkisvaldsins í deiluna og þá með bráðabirgðalögum.

 

En menn hafa engan heiður af svona skítataktík.

Heiðursmenn settust niður og reyndu að ná samningum.

Það tókst ekki alltaf, en þeir reyndu.

 

Skömmin var aldrei þeirra.

Kveðja að austan.


mbl.is Forysta Eflingar ætti að skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. febrúar 2023

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 321
  • Sl. sólarhring: 458
  • Sl. viku: 4769
  • Frá upphafi: 1329331

Annað

  • Innlit í dag: 265
  • Innlit sl. viku: 4192
  • Gestir í dag: 239
  • IP-tölur í dag: 236

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband