Hrunið, sökudólgar og sekt.

 

Hrunið er eins og opin und á þjóðarsálinni þar sem gröftur vellur út.

 

Umræðan um það er ennþá heiftug, bæði á milli fólks, sem og í netheimum, það er einna helst að stjórnmálamenn okkar hafi sannmælst í samsekt sinni að slíðra sverð hinna gagnkvæmu ásakana í trausti þess að þögn þeirra hlífi þeim við óþægilegri umræðu.

Eins má segja um hinn venjulega borgara, að þó margir séu sárir og margir reiðir, þá vill fólk halda áfram með líf sitt, það er þreytt á argþrasinu sem gengur út á það eitt, að verja sitt fólk og kenna öðrum um.

Því það er enginn lærdómur í umræðunni, það er engin sátt í henni, ekki einu sinni sú víðfræga að kenna helv. útlendingunum um.  Og það er engin afsökun í henni, engin fyrirgefning, það er eiginlega enginn sem stendur upp og segir, "mér varð á, fyrirgefið það", og þegar enginn biðst fyrirgefningar, þá er náttúrulega engum hægt að fyrirgefa.

Loks biðu margir stórfellt tjón, það stórfelldasta að öllu, að missa húsnæði sitt, að hrekjast á götuna með börn sín, aðrir töpuðu hluta eða öllum ævisparnaði sínum, enn aðrir misstu fyrirtækin sín, allt vegna atburða og áfalla sem fólk sem slíkt bar enga ábyrgð á.

Og enginn hefur þá reisn að taka umræðuna og gera upp þess atburði á vitrænan og siðlegan hátt.  Jú vissulega einhverjir fótgönguliðar hér og þar, en enginn með vigt og áhrif í þessu samfélagi okkar. 

Hvað þá einhver sem samábyrgðina ber.

 

Á meðan verðum við aldrei heil sem þjóð.

Og við náum ekki samstöðu um neitt, við látum innviði okkar grotna, þrátt fyrir mjög hagfeld ytri skilyrði þá göngum við á höfuðstól eigna okkar, og við erum jafn blind gagnvart leikreglum þess kerfis sem setti okkur á hliðina haustið 2008, og það er jafnöruggt að slíkt mun gerast aftur um leið og hökt kemur á ferðamannastrauminn.

Við sjáum ekki hinn kerfislæga vanda á meðan umræðan snýst öll um persónur og leikendur.  Í sjálfsdrýldni okkar höldum við að Hrunið hafi verið séríslenskt fyrirbrigði, það hafi verið ákveðið mönnum að kenna því þeir gerðu eitthvað, eða gerðu ekki eitthvað, og meðan svo er þá lærum við ekkert.  Það er eins og við skiljum ekki að allt hið vestræna fjármálakerfi féll haustið 2008 og framá sumar 2009, og þegar fræðigreinar og fræðibækur um það kerfishrun eru lesnar, þá er hvergi minnst á Sjálfstæðisflokkinn eða Davíð Oddsson sem einhverja gerendur í að setja þær leikreglur sem giltu á fjármálamarkaðnum, eða aðgerðir eða aðgerðaleysi Davíðs hafi ollið hinu vestræna fjármálahruni.

Eins er það með það sem gerðist eftir Hrun, eins sorglegt og margt af því var.  Þá varð bara þannig að bæði hér og annars staðar voru hagsmunir fjármálakerfisins látnir ganga fyrir við endurreisn þess.  Almenningi var allsstaðar sendur reikninginn, hann var bara mishár eftir hve umfangsmikill vandinn var í viðkomandi landi.  Verstur var skellurinn hjá þeim þjóðum sem lutu forræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og stjórnvöld viðkomandi ríkja áttu fáa aðra valkosti en að dansa með.

Við mættum líka hafa það í huga, að þrátt fyrir allt þá reyndu stjórnvöld, bæði fyrir og eftir Hrun að hamla á móti skaðanum.  Neyðarlögin voru ekkert sjálfgefin, en eftir á er ljóst að þau björguðu því sem bjargað varð. Og í samningunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var reynt að lágmarka skellinn varðandi fjöldaatvinnuleysi, og það var reynt að skerða hlutfallslega minna bætur í bótakerfinu, hvort sem það var til aldraða eða öryrkja.  Hvað það varðar var samningurinn við AGS tímamót hjá sjóðnum.

 

Er þá allt í lagi?

Nei, vissulega ekki.

En við náum aldrei tökum á umræðunni ef við afneitum staðreyndum.

Og ekkert hefst þegar það sem miður fór er rætt, að fólk fái ekki að njóta sannmælis.

 

Eins ættu þeir sem benda sífellt á hina í vörn sinna manna, að íhuga eitt augnablik, að fyrir Hrun var sannarlega aðeins einn stjórnmálamaður sem hafði varann á, og féll ekki fyrir lúðrasveitinni sem bauð uppí dansinn kringum gullkálfinn. 

Og það er Ögmundur Jónasson.  Aðrir voru í fullu að bjóða sig sem stjórntæka með Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnar 2007.

Eins er mjög ólíklegt að þó aðrir flokkar hefðu verið í stjórn eftir Hrunið, það er Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, að þeir hefðu á einhvern hátt gert neitt annað en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gerði.

Það er að standa við samninginn við AGS eftir bestu getu.

 

Allavega, viðurkennum staðreyndir.

Tökum umræðuna.

Og reynum að lenda henni í sátt þannig að allavega sárin grói.

 

Það er þarft verk.

Kveðja að austan.


mbl.is Hrunið ól af sér marga flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill er máttur peninganna.

 

Þeir geta jafnvel fengið faglega stjórnsýslunefnd vega heilu byggðarlögin.

En þeir geta samt ekki fengið fólk til að hverfa.

Og þeir sem eiga lífsafkomu sína undir, þeir ljúga ekki um hluti sem auðvelt er að sannreyna.

 

Það var ákaflega auðvelt fyrir Ruv. að bera fullyrðingar lögmannsins undir heimamenn fyrir vestan, fyrir utan eitthvað sem heitir hlutleysi og fagleg vinnubrögð, þá eru nefgjöld íbúanna þar hærri en þeirra örfáu auðmanna sem standa að aðförinni að byggðinni þar.

Peningar gátu kannski keypt allt fyrir Hrun, en það er ekki svo í dag.

Fólk hverfur ekki, Ruv á ekki að láta lögmann komast upp með að ljúga í beinni útsendingu, og stjórnsýslunefnd á ekki að vera handbendi auðmanna.

 

Ekki í dag.

Það er 2018, ekki 2008.

 

Og við sem eigum heima á landsbyggðinni erum líka fólk.

Alveg satt.

Kveðja að austan.


mbl.is Gera athugasemdir við frétt RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurskattlagning er ofurskattlagning.

 

Hvort sem hún er á vegum ríkisins, eða einkaaðila.

Og þegar ríkið er þegar búið að ofurskattleggja, þá er skattur ofaná það, ofurofurskattlagning.

 

Eitthvað sem allir skilja nema kommúnistar, og jú Sjálfstæðismenn.

Í þeirra huga hættir skattur að vera skattur, þegar einkaaðilar innheimta hann.

Því trúarbrögðin segja, það sem er gott fyrir auð og auðmenn, er gott fyrir okkur öll hin.

 

Sem er þannig séð, algjör þvættingur.

Sagan hefur löngu skorið úr þessari deilu.

 

Tollhlið, með reglulegu millibili á samgönguæðum, hafa alltaf dregið úr verslun og viðskiptum.

Vissulega hafa þau gert þann sem innheimtir tollinn, ríkan eða ríkari ef hann hefur verið ríkur fyrir, en hagkerfin og samfélögin  hafa alltaf liðið fyrir þau.

Bara það eitt að sameina Þýskaland á 19. öld, og loka öllum tollhliðum, hleypti ofurkrafti í efnahagslífið.  Skertar tekjur innheimtumanna veggjaldanna voru bættar upp með grósku og krafti í efnahagslífinu, og velmegun allra jókst.

Einstaklingsins, fyrirtækjanna, samfélagsins.

Eitthvað sem engin deilir um, nema jú kommúnistar, þó þeir leynist í ýmsum dulargervum.

 

Sagan segir líka að samgöngur, og samgönguæðar séu lykillin að öllu, þróun samfélaga, þróun siðmenningar, velmegunar og hagsældar.

Rómarveldi hefði ekki staðið í 800 ár ef menn hefðu ekki lagt vegi.

Og menn lögðu vegi, svo komu tekjurnar, ekki öfugt eins og sjálfstæðismenn allra landa virðast trúa í dag.

Leiðin uppúr fátækt er að leggja vegi, byggja brýr, reisa hafnir, ekki öfugt, að bíða eftir að menn séu nógu ríkir til að hafa efni á slíkum munaði.  Líkt og áar okkur gerðu, svo kom hitt. 

 

Og velmegun og velsæld er algjörlega háð því að samgöngur séu sem greiðastar, séu samgöngumannvirki látin grotna, þá grotnar annað fljótlega í kjölfarið.

Þetta er eins augljós staðreynd og að átta sig á að fjárfesting í húsnæði, hversu mikilvæg sem hún er, er ekki fjármögnuð með því að sleppa að borða.

 

Þess vegna eru samgöngumannvirki aldrei fjársvelt nema þar sem fífl stjórna.

Og fíflin eru ennþá átakanlegri þegar þau koma fram og spyrja hvernig þau eiga að fjármagna nauðsynlegt viðhald, og nauðsynlega endurnýjun og nauðsynlega uppbyggingu, þegar útflutningstekjur þjóðarinnar eru í hæstu hæðum, því það eina sem getur takmarkað uppbyggingu innviða, er skortur á aðföngum erlendis frá.

Velmegun og velferð byggist á grunni öflugra innviða, öflugs atvinnulífs, auk góðrar menntunar og heilsugæslu. 

Ekki öfugt.

 

Og þegar tekjur eru í hæstu hæðum, verða menn að spyrja sig, hvert fór viðskiptajöfnuðurinn, í vasa hverra fóru tekjurnar??

Þetta er svona eins og olíuleiðsla sem dælir 1000 tonnum á sólarhring, og það er magnið sem fer frá olíulindunum, en aðeins 300 tonn skila sér á leiðarenda, að þá er svarið að vita hvar verður rýrnunin, en ekki að leggja til að það sem skilar sér sé einkavætt, og verði að viðbótarféþúfu þeirra sem ábyrgðina bera af þeirri rýrnun sem varð á leiðinni.

Það leggja þeir aðeins til sem þiggja laun fyrir að láta rýrnunina óáreitta.

Verða svona keyptir kommúnistar.

 

En kommúnistar eiga ekki að stjórna landinu.

Sama hvaða nafni þeir kalla sig, sama hvaða dulargervi þeir hylja sig með.

 

Skynsamt fólk hlúir að atvinnulífi, hlúir að forsendum þess svo sem samgöngum, menntun og velferð launafólks.

Þetta hangir allt saman.

Og skynsamt fólk hindrar arðrán sníkjudýra og hindrar að þau sjúgi þrótt úr atvinnulífinu.

 

Það stjórnar ekki í dag.

En af hverju??

Kveðja að austan.


mbl.is Skorar á andstæðinga veggjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið var ekki um allt, alslæmt.

 

Við erum til dæmis nokkuð laus við fréttir af firrtum flottræfilshætti peningamanna, hvort sem það eru sukkveislur í anda hinnar fornu Rómverja, skutlast á þyrlu í sjoppu eftir pylsu, eða að útbrunnar tónlistarstjörnur séu fengnar í afmæli til að syngja afmælissönginn.

Við getum opnað fyrir útvarpið án þess að fá endalausar fréttir af verðbréfum, verðbréfagróða, verðbréfaguttum eða verðbréfamörkuðum.  Og í sjónvarpinu sjáum við eitthvað annað en bankamenn.

Við erum lausir við hirðskáldin sem ortu drápur í dagblaðagreinum eða komu fram í sjónvarpsþáttum þar sem þeir lofsungu hina nýju tíma og hina dugmiklu menn sem kunnu að nýta, þá jafnframt því að hnýta í íhaldið og hagsmunagæslu þess fyrir næstum útdauðar atvinnugreinar, landbúnað og sjávarútveg, sem með rótum sínum frá því á steinöld áttu fyrir löngu að vera útvistaðar til þriðja heimsins, eða þannig.  Reyndar hurfu þessi hirðskáld ekki við Hrunið, heldur mögnuðust upp sem draugar sinna löngu gleymdu hugsjóna, en þegar fjaraði undan fjárkúgun breta og hrægammarnir höfðu náð fram markmiðum sínum, þá hvarf sá draugagangur líka.

Í raun er lífið orðið ósköp keimlíkt og það var áður en þjóðin var eignfærð í bækur auðmanna á árunum um og uppúr aldamótunum.

 

Nema að allir eru bálreiðir.

Það sýður á fólki.

 

Og slíkt er alltaf þegar fólk hefur verið beitt órétti.

Og sá sem óréttinum beitti, lætur eins og ekkert hafi gerst.

 

Ekkert þurfti að ræða.

Á engu þurfi að biðjast afsökunar.

 

Það þótti eitthvað svo sjálfsagt að senda þjóðinni reikninginn.

Og níðast á þeim sem veikara stóðu.

 

Sem það er ekki.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Trommusláttur, átök og táragas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni mælir heilastur.

 

Og stundum er fátt annað hægt að gera en að vitna beint í það sem vel er sagt, án athugasemda, og taka áskorun Guðna, að draga lærdóm af.

" Sum­ir hafi ásakað sjálfa sig og viður­kennt eigið dómgreind­ar­leysi en um leið hafi leit­in að or­sök­un­um haf­ist. Mark­miðið að draga lær­dóm af því sem gerðist „Ég held að það megi eng­inn vera und­an­skil­inn í þessu, all­ir sem á ein­hvern hátt komu að ákvörðunum, túlk­un­um, álykt­un­um. Ég held við get­um öll sagt: Við höfðum ekki alltaf rétt fyr­ir okk­ur, við tók­um ekki alltaf réttu ákv­arðan­irn­ar,

“ Mark­miðið með því að rifja upp það sem gerðist fyr­ir ára­tug ætti ekki að byggja á illsku eða úlfúð held­ur fyrst og fremst viðleitni til þess að draga lær­dóm af þeirri reynslu.".

Og lærdómurinn af orðum hans er hið þekkta heilkenni, AFNEITUN.

 

Það er eins og það eina sem hafi gerst, er að haustið 2008 féll fjármálakerfi þjóðarinnar, og er saklaus les og hlustar á orð forseta okkar, sameignartákn þjóðarinnar, þá mætti jafnvel halda að það hrun hafi verið séríslenskt fyrirbrygði, sem við þyrftum að skýra og skilja, með skilningi en ekki heift, og þá væri allt í góðu í dag.

Sem það miður er ekki.

 

Því eftir Hrun fór að stað atburðarrás sem er með ólíkindum, skömminni og skítnum var komið yfir á almenningi, og honum var sendur reikningurinn.

Og það er hvorki viðurkennt í orðum forsetans, hvað þá að hann sendi út ákall um réttlæti, réttlæti að lokum fyrir fórnarlömb Hrunsins.  Og hvað sem hver segir, þó það hafi tekið 40 ár fyrir elítuna að kannast við rangindi sín í Guðmundar og Geirfinnsmálinu, og hugsanlega mun það taka önnur 40 ár að viðurkenna sekt sína og afglöp, þá eru þessi 40 ár enginn staðall fyrir elítu að viðurkenna rangindi sín og mistök.

 

Það er nefnilega þannig að Hrunið varð.

En það var Global, átti sér stað um allan hinn vestræna heim.

 

Smáþjóð með stórmennsku hroka, sem heldur að hún hafi fundið upp Hrunið, og það sé allt Sjálfstæðisflokknum að kenna, eða þá helv. honum Davíð, hefur samt í minnimáttarkennd sinni tekið mark á orðum að utan.  Og þá er gott að vitna í fyrrum fjármálaráðherra Grikkja, sem sagði sig úr elítunni og hélt uppi vörnum fyrir þjóð sína.  Lýsing hans á því sem gerðist, hefur verið margoft sögð, en hann er kjarnyrtur, lýsir vel því sem gerðist, og sorrý, við Íslendingar komum hvergi þar við sögu, hvorki Sjálfstæðisflokkurinn eða helv. hann Davíð.

" „Í bankahruninu 2008 reyndu nær allar ríkisstjórnir að bjarga sínum bönkum. Í Bretlandi og Bandaríkjunum gáfu ríkisstjórnir grænt ljós á að Englandsbanki og peningayfirvöld Bandaríkjanna, „Federal Reserve“, prentuðu fjallháar stæður af peningum til að endurfjármagna bankana. Þar að auki tóku ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna gríðarleg lán til að mæta frekari áföllum í bankakerfinu. Á meðan fjármögnuðu seðlabankar þessara ríkja verulegan hluta af skuldum bankanna,“ segir Varoufakis. „Á meginlandi Evrópu upphófst mun verra drama sem byggði á grundvallarákvörðun sem tekin var 1998 þegar myntbandalag Evrópu hófst með Seðlabanka Evrópu í aðalhlutverki án þess að hann ætti pólitískan bakstuðning í nokkru ríki. Þá urðu 19 ríkisstjórnir að glíma við að bjarga sjálfar sínum bönkum í fjármálalegu fárviðri án þess að hafa eigin seðlabanka til að hjálpa sér.“

Munaðarlaus evra og engir seðlabankar til varnar Varoufakis spyr hvers vegna þessi óeðlilega ákvörðun hafi verið tekin og svarar því sjálfur um leið: „Það var vegna þess að algjört bann var á það í Þýskalandi að skipta evrunni út og taka aftur upp þýska markið, þá skyldi það sama ganga yfir seðlabanka, fjármálastofnanir og ríkisstjórnir eins og Ítalíu og Grikkland. Svo þegar franskir og þýskir bankar urðu fyrir jafnvel enn verri gjaldþrotum en bankarnir á Wall Street í New York og í City í London, þá voru engir seðlabankar með lagalegar heimildir til að bjarga þeim. Jafnvel þótt pólitískur vilji væri fyrir hendi. Meira að segja þegar Merkel kanslari tilkynnti það 2009 að ríkisstjórn hennar hafi í skjóli myrkurs dælt 406 milljörðum evra úr eigu skattgreiðenda inn í þýska banka.“ ".

 

Fjármálakerfið féll, líka í Evrópusambandinu, og hvað sem við segjum og skömmumst, þá er ljóst að svona víðtækt fall er kerfishrun ákveðins regluverks og hugmyndafræðar, og þó það sé örugglega hægt að fullyrða að í öllum þeim löndum þar sem fjármálakerfið féll, að alltof margir hafi verið samdauna, ekki séð eða skilið hættuna, og þar með ekkert gert til að hamla á móti, eða þá lítið eða ekki fullnægjandi.

Þá er ljóst að einstaklingurinn var ekki issjú í málinu, fjármálakerfið var ósjálfbært, og hlaut að hrynja. 

Þetta er eins og að gagnrýna bóndann, sem kannski sáði ekki rétt, en þegar engisprettufaraldurinn reið yfir, þá skipti það ekki öllu máli, nágranni hans sem var fyrirmynd allra, akur hans var sama auðnin.

 

En það er gott að tala um Hrunið og ástæður þess.

En sú umræða mun engu skila ef menn persónugera hana, í stað þess að takast á við kerfisbrestinn sem olli því.  Ekki bara á Íslandi, heldur um allan hinn vestræna heim.

 

En það var misjafnt hvernig tekist var á við Hrunið.+

Á Íslandi var almenningi sendur reikninginn, og ekki bara það, fjárúlfar með blóðugan kjaft fengu frítt spil til að ráðast á þá sem veikari voru.

Eftirleikurinn var siðlaus, að hætti siðblindingja fjármagnsins.

Á því geta verið skýringar, aðrar en mannvonska og mannhatur, sem og taumlaus græðgi illmenna.

 

En þegar verkfærin, þjónarnir bera af sér sök, þá er ljóst að nærtækast er að vísa í mannvonsku, mannhatur, siðblindu og taumlausa græðgi.

Og það breytir litlu þó verkfærin vilji láta umræðuna snúast um atburði í aðdraganda Hrunsins, og þá einstaklinga sem fóru þar með hlutverk, þeim var nefnilega öllum skipt út eftir Hrun, því þjóðin fór út á torg og krafðist breytinga.

Fólkið sem var sett af, hafði ekkert að gera með þær manngerðu hörmungar sem siðblindan lagði á þjóðina eftir Hrun.

 

Og þó við lifðum af, með óendanlegum hörmungum fyrir þá sem veikari fæti stóðu þegar orrahríð eftir-Hrunsins skall á, þá var það ekki vegna þess að vilji hafi ekki verið til annars.

Illvilji verkfæranna sem tóku að sér böðulsverkið fyrir hið alþjóðlega fjármagn.

Verkfærin voru bara svo miklir aular að þeim mistókst að koma ICEsave skuldum Landsbankans á þjóðina, og í kjölfarið hinni meintu fjárhagsaðstoð sem kennd var við AGS, og hafði það eina markmið að borga út krónueigendur á yfirverði, en lánið var skuldfært á almenning, þannig að ofan hið tilbúna innlenda óáran, bættust ekki við óviðráðanlegar skuldir við erlendi ríki og sjóði.

Með öðrum orðum, það mistókst að skuldaþrælka þjóðina.

 

Það er nefnilega ekki þannig að það skipti nokkru máli að rifja það upp sem gerðist fyrir áratug, það skiptir hins vegar miklu máli að horfast í augu við það sem gerðist eftir Hrun.

Og þeir sem seldu sig þá í þjónustu fjármagnsins, ættu að segja frá.

Og til að opna fyrir þá umræðu, væri nærtækt að forseti vor byrjaði.

Því hann er maður með fortíð.

 

Og munum orð hans;

"... Mark­miðið að draga lær­dóm af því sem gerðist „Ég held að það megi eng­inn vera und­an­skil­inn í þessu, all­ir sem á ein­hvern hátt komu að ákvörðunum, túlk­un­um, álykt­un­um. Ég held við get­um öll sagt: Við höfðum ekki alltaf rétt fyr­ir okk­ur, við tók­um ekki alltaf réttu ákv­arðan­irn­ar,

“ Mark­miðið með því að rifja upp það sem gerðist fyr­ir ára­tug ætti ekki að byggja á illsku eða úlfúð held­ur fyrst og fremst viðleitni til þess að draga lær­dóm af þeirri reynslu.".".

 

Það má enginn vera undanskilinn, og einhver þarf að byrja.  Þetta snýst ekki um úlfúð, heldur lærdóm, viðurkenningu á gjörðum og síðan fyrirgefningu.

En ef allir benda á aðra, þá þá mun umræðuvettvangurinn aðeins markast af misdjúpum skotgröfum þar sem drullan fer á milli.

Þá er gott að eiga forseta sem sýnir fordæmi.

 

Það er engin afsökun að það hafi mistekist að skuldaþrælka þjóðina.

Viljinn til þess er það sem skiptir máli.

Og þó hann dugði ekki í þessu, þá dugði hann í svo mörgu öðru, sem kenna má við siðblindu, mannhatur og illvilja.

 

Sem ég ætla ekki forseta vorum, en hann þarf að útskýra hvar mörkin voru, hvar viljinn til að skuldaþrælka og eyðileggja samfélag hins venjulega manns, líkt og gert var í Grikklandi, fjaraði út, og sagt var hingað og lengra þegar kom var að því að styðja þá sem níddust á samborgurum sínum út í eitt, og lögðu allan sinn kraft og metnað að endurreisa þjóðfélag Hrunverja, með leikreglum þess, hugmyndafræði og gerendum.

Það var nefnilega ekki almenningur sem fékk skuldir sínar afskrifaðar, hann borgaði.

Og almenningur á heimtingu á skýringu.

 

Ekki innantómu blaðri, afneitun og öðru kjaftæði.

Og svo ég svari Guðna; Já, það hefur nægur tími liðið.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is „Hefur nægur tími liðið?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni mætir.

 

Hver þarf þá Evu Joly??

Hún vann þarft verk og gaf andófinu rödd, ég gleymi aldrei þegar hún mætti í Silfrið hjá Agli og sagði honum frá félaga sínum á Evrópuþinginu, sem hafði setið í þeirri nefnd sem setti lögin um tryggingarsjóðina sem ábyrgðust innlán fjármálastofnana á evrópska efnahagssvæðinu.  Egill tók viðtal við hann, og þar sagði hann það fullum fetum, með sjálfsöryggi þess sem þekkti regluverkið frá fyrstu hendi, enda tók hann þátt í að móta það og setja, að ef ríkisvald einstakra ríkja hefði stofnað innlánstryggingasjóðina á réttan hátt, þá væru viðkomandi ríki ekki í bakábyrgð fyrir skuldbindingum þeirra.

Þar með datt botninn endanlega úr málflutningi þeirra íslendinga sem unnu fyrir breta við að fá þjóðina til að samþykkja fjárkúgun þeirra, kennda við ICEsave.

Og þar með hætti Eva Joly að vera besti vinur vinstrimanna, og hefur ekki verið það síðan. 

Fjarvera hennar staðfestir það.

 

Rök Joly síuðust samt inní umræðuna, því þeir sem voru ekki illa gefnir í röðum vinnumanna breta, þeir hættu að fullyrða að þjóðinni bæri lagaleg skylda til að greiða ICEsave skuldir Landsbankans, heldur hömruðu á hinni siðferðislegu skyldu að almenningur ætti alltaf að borga skuldir auðs og yfirstéttar.  Þannig hefði það verið frá því í grárri forneskju, og hrein ósvinna hjá vinnandi fólki að gangast ekki undir þessar kvaðir áa sinna. 

Hinna kúguðu forfeðra sinna.  Með breiða bakið, með hina djúpu vasa þeirra sem sköpuðu auðinn en nutu hans ekki.

Og innblásturinn sóttu þeir í greinaskrif ungs sagnfræðings, Evrópusinna, sem var mjög áberandi á þessari Ögurstund þjóðarinnar þegar erlend stórveldi reyndu að fjárkúga þjóðina með dyggri aðstoð innlendra stuðningmanna sinna.

 

Sagnfræðings, sem var jafnvígur á penna sem hið munnlega orð, og nýtti rökfylgju sína til að styðja hina erlendu fjárkúgara með rökum um hina siðferðislegu ábyrgð þjóðarinnar.

Að aðeins aumur maður greiddi ekki skuldir höfðingjanna.

Að foreldrar mínir, tengdaforeldrar mínir, fólk sem mátti aldrei vamm sitt vita, og fór inná efri ár ellinnar skuldlaust við guð og menn, að það væri vanskilafólk.  Siðferðisleg lítilmenni sem fórnuðu ekki ellinni eða hagsæld barna sinna til að borga sannarleg útgjöld bresku og hollensku innlánstryggingarsjóðanna en ICEsave útibú Landsbankans í Hollandi og á Bretlandi voru að sjálfsögðu tryggð hjá þeim sjóðum.

Fólk lítilla sæva sem nýtti sér lagatæknileg atriði til að losna við að greiða hina siðferðislegu skuld sem útrásarvíkingarnir höfðu stofnað til eftir lögum og reglum hins samevrópska regluverks.

Algjört aukaatriði að þetta fólk hafði aldrei verið spurt, aldrei notið ágóðans, aldrei skrifað undir ábyrgðarvíxil höfðingjanna, eða hvað þá nokkuð sem tengdi það við skuldir breska eða hollenska innlánstryggingarsjóðanna.

Og í þeirra tilviki, aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn, en það var hin meginröksemd hins unga sagnfræðings.  Það að hafa kosið hinn borgaralega íhaldsflokk átti að vera fullgild ástæða fyrir ábyrgðinni, þó hvergi fyndust tengsl milli þess ágæta flokks, og hið evrópska regluverks sem gerði útrás bankanna mögulega.

 

Það þarf ekki að reifa það frekar, þessi ungi sagnfræðingur var einn af fáum sem vildi borga, í hópi um 2,5% íslendinga, sem taldi sig annað hvort siðferðislega knúinn til þess, eða þá lagalega, hlutfall hinna illa gefnu hefur aldrei verið rannsakað, og hann tók þeim ósigri illa.

Höfuðgrein hans var skrifuð eftir þann algjöra ósigur, og tónninn var að hann eins og Kristur forðum, hefði verið í minnihluta, krossfestur, en gjört rétt.  Annað en restin af þjóðinni sem hlypi frá skuldum sínum og skyldum, hefði ekki manndóm áa sinna að þræla fyrir skuldum höfðingjanna.

Svo kom dómur EFTA dómsins sem staðfesti fullyrðingar þessa vinar Evu Joly, breska fjárkúgun fjaraði út, og þjóðin naut hægt og hljótt góðæris hins sístækkandi ferðamannastraums.

Og ungi sagnfræðingurinn fór að segja brandara, brosti og sagði ekki styggðaryrði um nokkurn mann.  Endaði svo sem forseti þjóðarinnar.

 

Og Guðni hefur reynst góður forseti, alþýðlegur, og eitthvað svo mannlegur, og eins og fyrirrennari hans, líka vel kvæntur.

Hann hefur verið duglegur að ferðast um landið, og lagt sig sérstaklega fram að heimsækja hjúkrunarheimili, elliheimili og barnaheimili.

Það er fólkið sem hann ætlaði að svipta öryggi ellinnar, og börnin sem hann ætlaði að ræna framtíðinni.

Og það hefur farið vel á með fólki, ekkert skítkast um hin siðferðislegu lítilmenni sem neituðu að greiða skuldir höfðingjanna, eins og ekkert hefði verið sagt, eins og ekkert hefði verið skrifað.

 

En þöggun breytir ekki sögunni, sagan á sína tilvist óháð nútímanum.

Hann getur skráð hana, hann getur reynt að skilja hana.

Eða hann getur breytt henni, eða afneitað, skráð hana uppá nýtt.

En breytir samt engu um það sem gerðist.

 

Guðni mætir, Guðni mun tala.

Sem sérstakur sérfræðingur um Hrunið, og eftirleik þess.

Það verður fróðlegt að hlusta á hann, hvort sagnfræðingurinn kannist við fortíð sína.  Og ef svo er, hvort hann hafi kjark til að útskýra hvað þeim gekk til sem launalaust unnu fyrir breta við koma skuldaklafa auðmanna á almúgann.

Hvað þeim gekk til að gera þjóðina að skuldaþrælum?

Hann er vel máli farinn, greindur, og þekkir svikin frá fyrstu hendi.

 

Áður en við dæmum of hart, þá megum við ekki gleyma að uppreisn almennings gegn áþján og kúgun höfðingjanna er oftast dæmd til að mistakast.

Það er engin skynsemi í að styðja hana, hagurinn liggur í að gjamma fyrir höfðingjana, og fagna erlendum ofríkismönnum. Hvort sem þeir eru ótýndir fjárkúgarar eða vopnaðir innrásarmenn.

Og valdleysi fjöldans reglan.  Sem og upphefð þeirra sem í farbroddi riðu gegn réttmætum kröfum samborgara sinna.

Eðlilegt að framagjarnir ungir menn veðji á ósigur hans.  Menn verða sjaldan ríkir á að veðja á undantekninguna sem er svo sjalfgæf að hún nær varla að vera undantekning.

 

Þjóðin sigraði samt, og það ríkir velmegun svona í heildina séð á Íslandi í dag.

Ef hún hefði tapað, þá væri enginn samanburðurinn, þá væri þessi lýsing á hörmungum grísks almennings, lýsing á skuldaþrælkuðu íslensku samfélagi í náðarfaðmi ESB.

Grikkirnir risu upp gegn elítunni, gegn öllum Guðnum og Hallgrímum grísku kjaftastéttarinnar, og kusu yfir sig vinstrimenn alveg eins og við.

Sem sviku, alveg eins og hjá okkur.

En þá gáfust þeir upp, á meðan við bitum í skjaldrendurnar, en kannski auðveldara því lán þjóðarinnar var að hún var ekki fastur hluti Evrópusambandsins, heldur í svona hjáleigusambandi kennt við EES, sem þegar á reyndi dugði til að losna undan heljargreipum auðs og elítu.

 

Það sviku samt ekki allir vinstrimenn, hvorki á Íslandi eins og villikettir VinstriGrænna, eða þáverandi fjármálaráðherra gríska andófsflokksins sem þarlendur almenningur treysti til að berjast gegn auðnum og ESB.  Þetta eru hans orð í viðtali við breska blaðið Observer, hans lýsing á því sem gerðist hjá þessari vöggu vestrænnar siðmenningar, þjóðarinnar sem var krossfest á altari meints fjármálastöðugleika Evrópusambandsins.

Lýsing sem væri okkar, ef þjóðin hefði bognað.

 

" Til að viðhalda lyginni var hinni gjaldþrota Aþenu veitt stærsta lán í sögu mannkyns undir því yfirskini að verið væri að sýna Grikkjum samstöðu. Stærsti hluti þessara lána rann samstundis til þýskra og franskra banka. Til að milda reiði þýska þingsins var þetta gríðarlega lán veitt með þeim skilyrðum að því fylgdi hrottalegt aðhald fyrir grískan almenning sem setti hann í varanlega risavaxna kreppu.“

Bretland væri auðn Evrópu ef sömu aðferðarfræði hefði verið beitt þar.

„Til að átta sig á umfangi þeirrar eyðileggingar sem þessu fylgir, ímyndið ykkur hvað myndi gerast ef RBS Lloyds og aðrir bankar í fjármálahverfinu City hefði verið bjargað án aðkomu Englandsbanka. Það hefði verið gert einungis í gegnum erlend lán til ríkisins. Þau hefðu öll verið veitt með því skilyrði að laun í Bretlandi yrðu lækkuð um 40%, eftirlaun um 45%, lágmarkslaun um 30% og opinber útgjöld [NHS spending - vegna menntamála, heilbrigðismála og fleira] um 32%. Þá væri Bretland auðn Evrópu, rétt eins og Grikkland í dag.“ ".

 

Já, hvernig væri ástandið hérna??

Allavega væri Guðni ekki forseti því auðurinn launar sjaldan málaliðum sínum.

 

En Guðni er fróður.

Hann gæti útskýrt.

 

Hans er orðið.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Eva Joly mætir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnumálastofnun tekin í bólinu.

 

Samt ánægð með dugnað sinn.

Hún hefur sko kært eina starfsmannaleigu, en aðrar sem hún hefur haft afskipti af, brugðist vel við ábendingum hennar.

 

Sem þýðir á mannamáli að Kveikur er feik og þegar slökkviliðið kvartar yfir ósamþykktu húsnæði um allan bæ, yfirfullu af erlendu farandverkafólki, þar sem aðbúnaður er í besta falli fyrir neðan allar hellur, þá sjá menn þar á bæ ofsjónir.

Því samkvæmt Vinnumálastofnun er lítið sem ekkert að, nema helst að það þurfi viðhorfsbreytingu meðal almennings til að uppræta vandann.

 

Í hvaða fílabeinsturni lifir þetta fólk??

Er það svo ánægt með áskriftina að launum sínum að það telur alla aðra eiga líka vera ánægða.

 

Líka þá sem brotið er á.

Eða þau fyrirtæki sem lenda í samkeppni við hinn einbeitta brotavilja skunkanna sem víla sér ekki að nýta sér neyð náungans.

Að ekki sé minnst á innlent verkafólk sem oft þarf að sæta afarkostum því svipan um ódýrt erlent vinnuafl er ætið svífandi yfir baki þess.

 

Og hvað kemur almenningur þessu máli við??

Er hann skunkurinn, er hann siðblindinginn??

Eða er það hann sem vinnur ekki vinnuna sína við hafa eftirlit með að farið sé eftir lögum og reglum þessa lands??

 

Hvílíkur kattarþvottur og það er ekki einleikið hvernig hinar ýmsar stofnanir samfélagsins ástunda hann síðustu dagana.

Þarf að banna ketti tímabundið svo lát verði á??

Það er ekkert boðlegt í svona málflutningi.

 

Ekki frekar en það er boðlegt að hlusta á grátandi slökkviliðsmann í fjölmiðlum, sem segir frá brunagildrum um allan bæ, yfirfullum að fólki og aðbúnaður slíkur sumstaðar að hann þætti ekki einu sinni frjálsum hænum bjóðandi.

 

Eftirlitsaðilar eiga ekki að grát í fjölmiðlum.

Þeir eiga að loka, þeir eiga að sekta, þeir eiga að stöðva ósómann.

Uppræta hann.

 

Það eru skunkarnir sem eiga að gráta.

Kveðja að austan.


mbl.is Hafa kært eina starfsmannaleigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í lýðræðisríki.

 

Þar sem lög um mannréttindi eru virk.

Þar sem lög um réttindi og skyldur á vinnumarkaði eru virk.

Þar er ekki þörf á fréttaskýringaþætti um þrælahald, kúgun, og mannfyrirlitningu.

Því lögin eru skýr og líða ekki slíkt.

 

Hvað er þá í gangi á Evrópska efnahagssvæðinu??

Því sambærilegir fréttaskýringaþættir eru gerðir um alla álfuna

Lýsa þó misslæmu ástandi, það eru til dæmis ekki ennþá gerðar kröfur á Íslandi til farandverkafólks, að nauðgun og kynferðisleg misbeiting sé hluti af starfskyldunni líkt og er alsiða í löndum Suður Evrópu.

Og látið gott heita af þar til bærum yfirvöldum.

 

Hvað fór úrskeiðis í Evrópu þegar fjórfrelsið var tekið upp??

Er ekki ástæða til að velta því fyrir sig?

Eða erum við ligeglad með afleiðingar þess?

 

Njótum hins ódýra.

Njótum hinna lægstu tilboða.

Spyrjum ekki hvað að baki býr.

 

En ef svo er, af hverju hneykslumst við svo þegar við sjáum sannleikann á skjánum?

Á ekki bara að banna Kveik.

Er þetta ekki bara falsfrétt?

 

Það er ekkert að Evrópusambandinu.

Ekki frekar en Sovétinu í gamla daga.

Hvorug tveggja himnaríki á jörð.

 

Eða þannig.

Kveðja að austan.


mbl.is Segja ógnandi framkomu ástæðu uppsagnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæstu vextir á byggðu bóli.

 

Í þágu fjármagns og auðs.

Í þágu vogunarsjóða og annarra kvikinda hins frjálsa markaðar frjálshyggjunnar.

 

Hví sættum við okkur við þetta??

Hví erum við ekki fyrir löngu búin að hreinsa út úr þessum hjálpartækjum auðsins.

Frá Hruni hafa engin hagfræðileg rök mælt með þessum hávöxtum.

 

Jú, hrægammarnir vissu sínu viti, þeir keyptu ekki aðeins upp sérfræðinga.

Heldur fjármögnuðu þeir líka pólitík hálfvitanna.

 

Að uppreisn fjöldans leitaði í farvegi kostaðra örframboða og vitleysingaframboða.

Og að öðrum ólöstuðum er hluti Pírata þar stærstur.

Að ekki sé minnst á hina kostuðu hreyfingu um nýja stjórnarskrá.

Svona nútímaútfærsla að útvega Lýðnum brauð og leika.

Forheimsku og fávitahátt.

 

Svo sjá bara hávextirnir um sírennslið í peningatanka auðsins.

Og afnám gjaldeyrishafta um óendanlega fjárflutninga úr landi.

Þannig að þjóð sem hefur upplifað sögulegt góðæri í tekjum og verðmætasköpum, á ekki neitt.

Annað en grotnandi innviði, hvort sem það er þjóðvegir, sjúkrahús eða menningarverðmæti.

 

Og ekkert breytist.

Því það vill enginn breytingar.

 

Brauð og leikar snúast aðeins um að fá eitthvað nýtt til að rífast yfir.

Og við þiggjum það með þökkum.

Kveðja að austan.


mbl.is Stýrivextir áfram 4,25%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbyggðarskattur í nýjum hæðum.

 

Það er af sem áður var að landsbyggðin var arðrænd með mygluðu mjöli og rangri vigt, ofaná á einhliða verðlagningu þar sem fiskgullið var talið jafngilt innfluttu skrani, hálfónýtri matvöru og vondu brennivíni.

Og þótti ofrausn miðað við barlóminn, en eins og Björn Th. Björnsson sýndi í frábærum þáttum sínum í sjónvarpinu um Kaupmannahöfn eldri daga, að þá risu stórhýsi fyrir arðinn, stórhýsi sem sum ennþá standa í kaupstaðnum við Sundið.

 

Nei, nútíminn kallar á nýjar aðferðir, og þó fiskgullið sé ennþá lagt að jöfnu við innflutt skran í gegnum ofurgengi krónunnar, þá dugði það ekki til og eftir að höfuðið hafði verið lengi í bleyti, þá fundum menn upp á sérstökum landsbyggðarskatti sem menn kölluðu veiðigjöld, svo þjóðin hefði einhvern arð að auðlindinni.

Eins og það sé enginn arður af vel rekinni blómlegri atvinnugrein sem borgar góð laun, kaupir mikið af innlendum aðföngum og flytur margfalt meir út en hún flytur inn til að nota í rekstur sinn.

Meinið var nefnilega að það bárust skelfilegar fréttir til höfuðstaðarins við Sundin blá, það var byggt íbúðarhús í ónefndu sjávarþorpi, og svo annað.  Og einhver hafði sést keyra um á nýjum bíl. 

Og þegar það fréttist síðan að menn væru farnir að leggja afgömlum skipum og bátum, og kaupa sér nýrri, hvað þá helberu ósvífni að fjárfesta í nýjum fiskiskipum, þá varð að grípa inní.

Stöðva ósómann, þetta hefði einokun Dana aldrei liðið.

 

Og forheimskan er í svo háum hæðum, að þegar váleg skilaboð berast um ástand sjávar og fiskistofna vegna hlýnunar jarðar, að þá státa menn sig af því að hafa aldrei rukkað hærri veiðigjöld.

Svo segja menn að Dúdú fuglinn hafi verið heimskur.

 

Það níð var einu sinni sagt um bónda sem átti blómlegt bú með góðum mjólkurkúm, að þegar hann frétti að það væri borgað gott verð fyrir blóðvökva úr lifandi kúm, að hann hafi samdægurs farið útí fjós, og tekið blóð.

Sem er græðgi, en níðið var að hann var steinhissa, og lá ekki á því, þegar einn daginn að kýrnar hættu að mjólka, og fljótlega á eftir dró mjög úr blóðsölunni.

Hvort fólkið í höfuðstaðnum verði hissa þegar arðurinn hættir að berast frá landsbyggðinni, mun tíminn einn leiða í ljós.

 

En væri vottur af vitglóru í ráðamönnum okkar þá sætu þeir neyðarfundi um stöðu sjávarútvegsins, því ef enginn er fiskurinn, þá er lítið um veiði.

Og tekjurnar eftir því.

Og á þessum fundi ræddu menn hvernig best er að bregðast við.

Eru fyrirtækin nógu fjárhagslega sterk til að takast á við komandi áföll, eru þau nógu sveigjanleg til að bregðast við breyttum göngum fiskistofna, hefur þeim borið gæfa til að nýta góðærið til að endurnýja skip og búnað svo menn séu í stakk búnir að takast á við hin mögru ár, því ekki endurnýja menn skip þegar lítið aflast??

Eða eru menn sáttir við að arður góðærisins fari í arðgreiðslur og veiðigjöld?

 

En vitglóran er sjálfsagt ekki meiri en í hinni gapandi stjórnarandstöðu.

Samfylkingin má þó eiga það sér til afsökunar að auðn landsins hefur lengið verið hennar markmið, aðrar leiðir til að koma landinu í Evrópusambandið hafa mistekist.

 

En einhver vitglóra ætti að vera í núverandi ríkisstjórnarflokkum, einhver þekking hvernig tekjur þjóðarinnar verða til.

Eða er það vit þorrið líka?

Kveðja að austan.


mbl.is Greiða 11,2 milljarða í veiðigjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Okt. 2018
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 1001
  • Frá upphafi: 1321553

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 840
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband