Hrunið, sökudólgar og sekt.

 

Hrunið er eins og opin und á þjóðarsálinni þar sem gröftur vellur út.

 

Umræðan um það er ennþá heiftug, bæði á milli fólks, sem og í netheimum, það er einna helst að stjórnmálamenn okkar hafi sannmælst í samsekt sinni að slíðra sverð hinna gagnkvæmu ásakana í trausti þess að þögn þeirra hlífi þeim við óþægilegri umræðu.

Eins má segja um hinn venjulega borgara, að þó margir séu sárir og margir reiðir, þá vill fólk halda áfram með líf sitt, það er þreytt á argþrasinu sem gengur út á það eitt, að verja sitt fólk og kenna öðrum um.

Því það er enginn lærdómur í umræðunni, það er engin sátt í henni, ekki einu sinni sú víðfræga að kenna helv. útlendingunum um.  Og það er engin afsökun í henni, engin fyrirgefning, það er eiginlega enginn sem stendur upp og segir, "mér varð á, fyrirgefið það", og þegar enginn biðst fyrirgefningar, þá er náttúrulega engum hægt að fyrirgefa.

Loks biðu margir stórfellt tjón, það stórfelldasta að öllu, að missa húsnæði sitt, að hrekjast á götuna með börn sín, aðrir töpuðu hluta eða öllum ævisparnaði sínum, enn aðrir misstu fyrirtækin sín, allt vegna atburða og áfalla sem fólk sem slíkt bar enga ábyrgð á.

Og enginn hefur þá reisn að taka umræðuna og gera upp þess atburði á vitrænan og siðlegan hátt.  Jú vissulega einhverjir fótgönguliðar hér og þar, en enginn með vigt og áhrif í þessu samfélagi okkar. 

Hvað þá einhver sem samábyrgðina ber.

 

Á meðan verðum við aldrei heil sem þjóð.

Og við náum ekki samstöðu um neitt, við látum innviði okkar grotna, þrátt fyrir mjög hagfeld ytri skilyrði þá göngum við á höfuðstól eigna okkar, og við erum jafn blind gagnvart leikreglum þess kerfis sem setti okkur á hliðina haustið 2008, og það er jafnöruggt að slíkt mun gerast aftur um leið og hökt kemur á ferðamannastrauminn.

Við sjáum ekki hinn kerfislæga vanda á meðan umræðan snýst öll um persónur og leikendur.  Í sjálfsdrýldni okkar höldum við að Hrunið hafi verið séríslenskt fyrirbrigði, það hafi verið ákveðið mönnum að kenna því þeir gerðu eitthvað, eða gerðu ekki eitthvað, og meðan svo er þá lærum við ekkert.  Það er eins og við skiljum ekki að allt hið vestræna fjármálakerfi féll haustið 2008 og framá sumar 2009, og þegar fræðigreinar og fræðibækur um það kerfishrun eru lesnar, þá er hvergi minnst á Sjálfstæðisflokkinn eða Davíð Oddsson sem einhverja gerendur í að setja þær leikreglur sem giltu á fjármálamarkaðnum, eða aðgerðir eða aðgerðaleysi Davíðs hafi ollið hinu vestræna fjármálahruni.

Eins er það með það sem gerðist eftir Hrun, eins sorglegt og margt af því var.  Þá varð bara þannig að bæði hér og annars staðar voru hagsmunir fjármálakerfisins látnir ganga fyrir við endurreisn þess.  Almenningi var allsstaðar sendur reikninginn, hann var bara mishár eftir hve umfangsmikill vandinn var í viðkomandi landi.  Verstur var skellurinn hjá þeim þjóðum sem lutu forræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og stjórnvöld viðkomandi ríkja áttu fáa aðra valkosti en að dansa með.

Við mættum líka hafa það í huga, að þrátt fyrir allt þá reyndu stjórnvöld, bæði fyrir og eftir Hrun að hamla á móti skaðanum.  Neyðarlögin voru ekkert sjálfgefin, en eftir á er ljóst að þau björguðu því sem bjargað varð. Og í samningunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var reynt að lágmarka skellinn varðandi fjöldaatvinnuleysi, og það var reynt að skerða hlutfallslega minna bætur í bótakerfinu, hvort sem það var til aldraða eða öryrkja.  Hvað það varðar var samningurinn við AGS tímamót hjá sjóðnum.

 

Er þá allt í lagi?

Nei, vissulega ekki.

En við náum aldrei tökum á umræðunni ef við afneitum staðreyndum.

Og ekkert hefst þegar það sem miður fór er rætt, að fólk fái ekki að njóta sannmælis.

 

Eins ættu þeir sem benda sífellt á hina í vörn sinna manna, að íhuga eitt augnablik, að fyrir Hrun var sannarlega aðeins einn stjórnmálamaður sem hafði varann á, og féll ekki fyrir lúðrasveitinni sem bauð uppí dansinn kringum gullkálfinn. 

Og það er Ögmundur Jónasson.  Aðrir voru í fullu að bjóða sig sem stjórntæka með Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnar 2007.

Eins er mjög ólíklegt að þó aðrir flokkar hefðu verið í stjórn eftir Hrunið, það er Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, að þeir hefðu á einhvern hátt gert neitt annað en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gerði.

Það er að standa við samninginn við AGS eftir bestu getu.

 

Allavega, viðurkennum staðreyndir.

Tökum umræðuna.

Og reynum að lenda henni í sátt þannig að allavega sárin grói.

 

Það er þarft verk.

Kveðja að austan.


mbl.is Hrunið ól af sér marga flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. október 2018

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 995
  • Frá upphafi: 1321547

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 834
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband