Landsbyggðarskattur í nýjum hæðum.

 

Það er af sem áður var að landsbyggðin var arðrænd með mygluðu mjöli og rangri vigt, ofaná á einhliða verðlagningu þar sem fiskgullið var talið jafngilt innfluttu skrani, hálfónýtri matvöru og vondu brennivíni.

Og þótti ofrausn miðað við barlóminn, en eins og Björn Th. Björnsson sýndi í frábærum þáttum sínum í sjónvarpinu um Kaupmannahöfn eldri daga, að þá risu stórhýsi fyrir arðinn, stórhýsi sem sum ennþá standa í kaupstaðnum við Sundið.

 

Nei, nútíminn kallar á nýjar aðferðir, og þó fiskgullið sé ennþá lagt að jöfnu við innflutt skran í gegnum ofurgengi krónunnar, þá dugði það ekki til og eftir að höfuðið hafði verið lengi í bleyti, þá fundum menn upp á sérstökum landsbyggðarskatti sem menn kölluðu veiðigjöld, svo þjóðin hefði einhvern arð að auðlindinni.

Eins og það sé enginn arður af vel rekinni blómlegri atvinnugrein sem borgar góð laun, kaupir mikið af innlendum aðföngum og flytur margfalt meir út en hún flytur inn til að nota í rekstur sinn.

Meinið var nefnilega að það bárust skelfilegar fréttir til höfuðstaðarins við Sundin blá, það var byggt íbúðarhús í ónefndu sjávarþorpi, og svo annað.  Og einhver hafði sést keyra um á nýjum bíl. 

Og þegar það fréttist síðan að menn væru farnir að leggja afgömlum skipum og bátum, og kaupa sér nýrri, hvað þá helberu ósvífni að fjárfesta í nýjum fiskiskipum, þá varð að grípa inní.

Stöðva ósómann, þetta hefði einokun Dana aldrei liðið.

 

Og forheimskan er í svo háum hæðum, að þegar váleg skilaboð berast um ástand sjávar og fiskistofna vegna hlýnunar jarðar, að þá státa menn sig af því að hafa aldrei rukkað hærri veiðigjöld.

Svo segja menn að Dúdú fuglinn hafi verið heimskur.

 

Það níð var einu sinni sagt um bónda sem átti blómlegt bú með góðum mjólkurkúm, að þegar hann frétti að það væri borgað gott verð fyrir blóðvökva úr lifandi kúm, að hann hafi samdægurs farið útí fjós, og tekið blóð.

Sem er græðgi, en níðið var að hann var steinhissa, og lá ekki á því, þegar einn daginn að kýrnar hættu að mjólka, og fljótlega á eftir dró mjög úr blóðsölunni.

Hvort fólkið í höfuðstaðnum verði hissa þegar arðurinn hættir að berast frá landsbyggðinni, mun tíminn einn leiða í ljós.

 

En væri vottur af vitglóru í ráðamönnum okkar þá sætu þeir neyðarfundi um stöðu sjávarútvegsins, því ef enginn er fiskurinn, þá er lítið um veiði.

Og tekjurnar eftir því.

Og á þessum fundi ræddu menn hvernig best er að bregðast við.

Eru fyrirtækin nógu fjárhagslega sterk til að takast á við komandi áföll, eru þau nógu sveigjanleg til að bregðast við breyttum göngum fiskistofna, hefur þeim borið gæfa til að nýta góðærið til að endurnýja skip og búnað svo menn séu í stakk búnir að takast á við hin mögru ár, því ekki endurnýja menn skip þegar lítið aflast??

Eða eru menn sáttir við að arður góðærisins fari í arðgreiðslur og veiðigjöld?

 

En vitglóran er sjálfsagt ekki meiri en í hinni gapandi stjórnarandstöðu.

Samfylkingin má þó eiga það sér til afsökunar að auðn landsins hefur lengið verið hennar markmið, aðrar leiðir til að koma landinu í Evrópusambandið hafa mistekist.

 

En einhver vitglóra ætti að vera í núverandi ríkisstjórnarflokkum, einhver þekking hvernig tekjur þjóðarinnar verða til.

Eða er það vit þorrið líka?

Kveðja að austan.


mbl.is Greiða 11,2 milljarða í veiðigjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allir íslenskir ríkisborgarar eiga til að mynda öll fiskimiðin hér við Ísland, allar íslenskar þjóðlendur, alla íslenska þjóðvegi og Landsvirkjun.

"1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. ... Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."

Lög um stjórn fiskveiða nr. 116/2006

Þorsteinn Briem, 3.10.2018 kl. 11:27

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Veiðigjald í íslenskum sjávarútvegi er gjald til íslenska ríkisins fyrir að fá að veiða fisk en ekki skattur.

Íslenska ríkið heldur utan um eignir íslensku þjóðarinnar, til að mynda þjóðlendur og Þjóðleikhúsið, og ekki er til ríki án þess að menn búi í ríkinu, frekar en til eru fiskiskip án nokkurra útgerða.

Og fyrir hönd íslensku þjóðarinnar útdeilir sjávarútvegsráðherra aflakvótum ár hvert til íslenskra útgerða.

Íslenskir aflakvótar eru þar af leiðandi réttindi til að veiða ákveðið magn af fiski ár hvert og því eign útgerðanna í þeim skilningi, þannig að kvótarnir, veiðiréttindin, geta gengið kaupum og sölum á milli útgerða, bæði innan hvers fiskveiðiárs og til lengri tíma.

Aflakvótar geta hins vegar aukist eða minnkað frá einu fiskveiðiári til annars í samræmi við ákvörðun sjávarútvegsráðherra fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Þorsteinn Briem, 3.10.2018 kl. 11:31

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alþingishúsið og hús Stjórnarráðsins eru eign íslensku þjóðarinnar og þingmenn eru kosnir af þjóðinni til að sjá meðal annars um eignir hennar.

Íslenska þjóðin á ríkissjóð
Íslands og þjóðin greiðir skatta til að greiða til að mynda kostnaðinn við rekstur Alþingis, Stjórnarráðsins, Þjóðleikhússins, Landspítalans, Landhelgisgæslunnar, þjóðvega og hafna.

Þjóðin getur einnig haft tekjur af eignum sínum
, til dæmis rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu með virðisaukaskatti af því sem þar er selt og tekjuskatti fólks sem þar starfar. Og tekjurnar fara meðal annars í að greiða kostnað þjóðarinnar við rekstur hússins.

Fjármálaráðherra sér um rekstur ríkissjóðs fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, ráðherrar verða að hafa stuðning meirihluta alþingismanna, sem kosnir eru af íslensku þjóðinni, rétt eins og forseti Íslands. Og íslenska þjóðin þarf einnig að greiða kostnaðinn við rekstur forsetaembættisins.

Íslenska þjóðin á einnig
til að mynda Landsvirkjun, ráðherra skipar stjórn Landsvirkjunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og stjórn hennar ræður forstjórann. Þjóðin á því til dæmis Kárahnjúkavirkjun.

Og íslenska þjóðin á íslenskar þjóðlendur og fiskimið. Íslenskir útgerðarmenn eiga ekki fiskimiðin, sem eru takmörkuð auðlind, og sjávarútvegsráðherra útdeilir aflakvótum til útgerða fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Útgerðirnar geta hins vegar selt aflakvótana til annarra útgerða.

Útgerðir greiða
veiðigjald til íslensku þjóðarinnar fyrir þau fiskveiðiréttindi, aflakvóta, sem sjávarútvegsráðherra úthlutar þeim fyrir hönd þjóðarinnar og veiðigjaldið fer til að mynda í að greiða kostnaðinn við rekstur hafna og Landhelgisgæslunnar.

Þorsteinn Briem, 3.10.2018 kl. 11:33

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslenska þjóðin er allir íslenskir ríkisborgarar og þeir geta búið hér á Íslandi eða í öðrum ríkjum.

Og hér á Íslandi búa bæði íslenskir og erlendir ríkisborgarar.

Erlendir ríkisborgarar eru hins vegar ekki hluti af íslensku þjóðinni, enda þótt þeir búi í íslenska ríkinu.

Erlendir ríkisborgarar sem starfa hér á Íslandi geta hins vegar þurft að greiða tekjuskatt til íslenska ríkisins, enda nota þeir ýmsar eignir íslensku þjóðarinnar á meðan þeir búa hér, til að mynda þjóðvegi.

Enda þótt ég hafi búið í Svíþjóð hef ég aldrei verið Svíi, þar sem ég hef ekki verið sænskur ríkisborgari og erlendir ríkisborgarar sem hér búa eru ekki Íslendingar.

Íslenskir ríkisborgarar geta hins vegar orðið sænskir ríkisborgarar, rétt eins og þeir geta orðið íslenskir ríkisborgarar.

"Þjóð - Borgarar ríkis."

"Ríki - Mannlegt samfélag er hefur varanleg yfirráð yfir tilteknu landsvæði, býr við lögbundið skipulag og lýtur stjórn er sækir vald sitt til samfélagsins sjálfs en eigi til annarra ríkja, enda fari sú stjórn með æðsta vald í landinu, óháð valdhöfum annarra ríkja að öðru leyti en því er leiðir af reglum þjóðaréttar."

"Ríkisborgararéttur - Lögformlegur þegnréttur í einhverju ríki. Ríkisborgararéttur segir til um hverjir eru borgarar tiltekins ríkis. Ákveðin réttindi eru bundin við ríkisborgararétt."

"Ríkissjóður - Fjármunir ríkisins sem fjármálaráðherra ábyrgist í umboði Alþingis."

(Lögfræðiorðabók með skýringum - Lagastofnun Háskóla Íslands, útg. 2008.)

Þorsteinn Briem, 3.10.2018 kl. 11:37

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, já.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.10.2018 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 17
  • Sl. sólarhring: 526
  • Sl. viku: 722
  • Frá upphafi: 1320569

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 631
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband