Guðni mætir.

 

Hver þarf þá Evu Joly??

Hún vann þarft verk og gaf andófinu rödd, ég gleymi aldrei þegar hún mætti í Silfrið hjá Agli og sagði honum frá félaga sínum á Evrópuþinginu, sem hafði setið í þeirri nefnd sem setti lögin um tryggingarsjóðina sem ábyrgðust innlán fjármálastofnana á evrópska efnahagssvæðinu.  Egill tók viðtal við hann, og þar sagði hann það fullum fetum, með sjálfsöryggi þess sem þekkti regluverkið frá fyrstu hendi, enda tók hann þátt í að móta það og setja, að ef ríkisvald einstakra ríkja hefði stofnað innlánstryggingasjóðina á réttan hátt, þá væru viðkomandi ríki ekki í bakábyrgð fyrir skuldbindingum þeirra.

Þar með datt botninn endanlega úr málflutningi þeirra íslendinga sem unnu fyrir breta við að fá þjóðina til að samþykkja fjárkúgun þeirra, kennda við ICEsave.

Og þar með hætti Eva Joly að vera besti vinur vinstrimanna, og hefur ekki verið það síðan. 

Fjarvera hennar staðfestir það.

 

Rök Joly síuðust samt inní umræðuna, því þeir sem voru ekki illa gefnir í röðum vinnumanna breta, þeir hættu að fullyrða að þjóðinni bæri lagaleg skylda til að greiða ICEsave skuldir Landsbankans, heldur hömruðu á hinni siðferðislegu skyldu að almenningur ætti alltaf að borga skuldir auðs og yfirstéttar.  Þannig hefði það verið frá því í grárri forneskju, og hrein ósvinna hjá vinnandi fólki að gangast ekki undir þessar kvaðir áa sinna. 

Hinna kúguðu forfeðra sinna.  Með breiða bakið, með hina djúpu vasa þeirra sem sköpuðu auðinn en nutu hans ekki.

Og innblásturinn sóttu þeir í greinaskrif ungs sagnfræðings, Evrópusinna, sem var mjög áberandi á þessari Ögurstund þjóðarinnar þegar erlend stórveldi reyndu að fjárkúga þjóðina með dyggri aðstoð innlendra stuðningmanna sinna.

 

Sagnfræðings, sem var jafnvígur á penna sem hið munnlega orð, og nýtti rökfylgju sína til að styðja hina erlendu fjárkúgara með rökum um hina siðferðislegu ábyrgð þjóðarinnar.

Að aðeins aumur maður greiddi ekki skuldir höfðingjanna.

Að foreldrar mínir, tengdaforeldrar mínir, fólk sem mátti aldrei vamm sitt vita, og fór inná efri ár ellinnar skuldlaust við guð og menn, að það væri vanskilafólk.  Siðferðisleg lítilmenni sem fórnuðu ekki ellinni eða hagsæld barna sinna til að borga sannarleg útgjöld bresku og hollensku innlánstryggingarsjóðanna en ICEsave útibú Landsbankans í Hollandi og á Bretlandi voru að sjálfsögðu tryggð hjá þeim sjóðum.

Fólk lítilla sæva sem nýtti sér lagatæknileg atriði til að losna við að greiða hina siðferðislegu skuld sem útrásarvíkingarnir höfðu stofnað til eftir lögum og reglum hins samevrópska regluverks.

Algjört aukaatriði að þetta fólk hafði aldrei verið spurt, aldrei notið ágóðans, aldrei skrifað undir ábyrgðarvíxil höfðingjanna, eða hvað þá nokkuð sem tengdi það við skuldir breska eða hollenska innlánstryggingarsjóðanna.

Og í þeirra tilviki, aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn, en það var hin meginröksemd hins unga sagnfræðings.  Það að hafa kosið hinn borgaralega íhaldsflokk átti að vera fullgild ástæða fyrir ábyrgðinni, þó hvergi fyndust tengsl milli þess ágæta flokks, og hið evrópska regluverks sem gerði útrás bankanna mögulega.

 

Það þarf ekki að reifa það frekar, þessi ungi sagnfræðingur var einn af fáum sem vildi borga, í hópi um 2,5% íslendinga, sem taldi sig annað hvort siðferðislega knúinn til þess, eða þá lagalega, hlutfall hinna illa gefnu hefur aldrei verið rannsakað, og hann tók þeim ósigri illa.

Höfuðgrein hans var skrifuð eftir þann algjöra ósigur, og tónninn var að hann eins og Kristur forðum, hefði verið í minnihluta, krossfestur, en gjört rétt.  Annað en restin af þjóðinni sem hlypi frá skuldum sínum og skyldum, hefði ekki manndóm áa sinna að þræla fyrir skuldum höfðingjanna.

Svo kom dómur EFTA dómsins sem staðfesti fullyrðingar þessa vinar Evu Joly, breska fjárkúgun fjaraði út, og þjóðin naut hægt og hljótt góðæris hins sístækkandi ferðamannastraums.

Og ungi sagnfræðingurinn fór að segja brandara, brosti og sagði ekki styggðaryrði um nokkurn mann.  Endaði svo sem forseti þjóðarinnar.

 

Og Guðni hefur reynst góður forseti, alþýðlegur, og eitthvað svo mannlegur, og eins og fyrirrennari hans, líka vel kvæntur.

Hann hefur verið duglegur að ferðast um landið, og lagt sig sérstaklega fram að heimsækja hjúkrunarheimili, elliheimili og barnaheimili.

Það er fólkið sem hann ætlaði að svipta öryggi ellinnar, og börnin sem hann ætlaði að ræna framtíðinni.

Og það hefur farið vel á með fólki, ekkert skítkast um hin siðferðislegu lítilmenni sem neituðu að greiða skuldir höfðingjanna, eins og ekkert hefði verið sagt, eins og ekkert hefði verið skrifað.

 

En þöggun breytir ekki sögunni, sagan á sína tilvist óháð nútímanum.

Hann getur skráð hana, hann getur reynt að skilja hana.

Eða hann getur breytt henni, eða afneitað, skráð hana uppá nýtt.

En breytir samt engu um það sem gerðist.

 

Guðni mætir, Guðni mun tala.

Sem sérstakur sérfræðingur um Hrunið, og eftirleik þess.

Það verður fróðlegt að hlusta á hann, hvort sagnfræðingurinn kannist við fortíð sína.  Og ef svo er, hvort hann hafi kjark til að útskýra hvað þeim gekk til sem launalaust unnu fyrir breta við koma skuldaklafa auðmanna á almúgann.

Hvað þeim gekk til að gera þjóðina að skuldaþrælum?

Hann er vel máli farinn, greindur, og þekkir svikin frá fyrstu hendi.

 

Áður en við dæmum of hart, þá megum við ekki gleyma að uppreisn almennings gegn áþján og kúgun höfðingjanna er oftast dæmd til að mistakast.

Það er engin skynsemi í að styðja hana, hagurinn liggur í að gjamma fyrir höfðingjana, og fagna erlendum ofríkismönnum. Hvort sem þeir eru ótýndir fjárkúgarar eða vopnaðir innrásarmenn.

Og valdleysi fjöldans reglan.  Sem og upphefð þeirra sem í farbroddi riðu gegn réttmætum kröfum samborgara sinna.

Eðlilegt að framagjarnir ungir menn veðji á ósigur hans.  Menn verða sjaldan ríkir á að veðja á undantekninguna sem er svo sjalfgæf að hún nær varla að vera undantekning.

 

Þjóðin sigraði samt, og það ríkir velmegun svona í heildina séð á Íslandi í dag.

Ef hún hefði tapað, þá væri enginn samanburðurinn, þá væri þessi lýsing á hörmungum grísks almennings, lýsing á skuldaþrælkuðu íslensku samfélagi í náðarfaðmi ESB.

Grikkirnir risu upp gegn elítunni, gegn öllum Guðnum og Hallgrímum grísku kjaftastéttarinnar, og kusu yfir sig vinstrimenn alveg eins og við.

Sem sviku, alveg eins og hjá okkur.

En þá gáfust þeir upp, á meðan við bitum í skjaldrendurnar, en kannski auðveldara því lán þjóðarinnar var að hún var ekki fastur hluti Evrópusambandsins, heldur í svona hjáleigusambandi kennt við EES, sem þegar á reyndi dugði til að losna undan heljargreipum auðs og elítu.

 

Það sviku samt ekki allir vinstrimenn, hvorki á Íslandi eins og villikettir VinstriGrænna, eða þáverandi fjármálaráðherra gríska andófsflokksins sem þarlendur almenningur treysti til að berjast gegn auðnum og ESB.  Þetta eru hans orð í viðtali við breska blaðið Observer, hans lýsing á því sem gerðist hjá þessari vöggu vestrænnar siðmenningar, þjóðarinnar sem var krossfest á altari meints fjármálastöðugleika Evrópusambandsins.

Lýsing sem væri okkar, ef þjóðin hefði bognað.

 

" Til að viðhalda lyginni var hinni gjaldþrota Aþenu veitt stærsta lán í sögu mannkyns undir því yfirskini að verið væri að sýna Grikkjum samstöðu. Stærsti hluti þessara lána rann samstundis til þýskra og franskra banka. Til að milda reiði þýska þingsins var þetta gríðarlega lán veitt með þeim skilyrðum að því fylgdi hrottalegt aðhald fyrir grískan almenning sem setti hann í varanlega risavaxna kreppu.“

Bretland væri auðn Evrópu ef sömu aðferðarfræði hefði verið beitt þar.

„Til að átta sig á umfangi þeirrar eyðileggingar sem þessu fylgir, ímyndið ykkur hvað myndi gerast ef RBS Lloyds og aðrir bankar í fjármálahverfinu City hefði verið bjargað án aðkomu Englandsbanka. Það hefði verið gert einungis í gegnum erlend lán til ríkisins. Þau hefðu öll verið veitt með því skilyrði að laun í Bretlandi yrðu lækkuð um 40%, eftirlaun um 45%, lágmarkslaun um 30% og opinber útgjöld [NHS spending - vegna menntamála, heilbrigðismála og fleira] um 32%. Þá væri Bretland auðn Evrópu, rétt eins og Grikkland í dag.“ ".

 

Já, hvernig væri ástandið hérna??

Allavega væri Guðni ekki forseti því auðurinn launar sjaldan málaliðum sínum.

 

En Guðni er fróður.

Hann gæti útskýrt.

 

Hans er orðið.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Eva Joly mætir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnumálastofnun tekin í bólinu.

 

Samt ánægð með dugnað sinn.

Hún hefur sko kært eina starfsmannaleigu, en aðrar sem hún hefur haft afskipti af, brugðist vel við ábendingum hennar.

 

Sem þýðir á mannamáli að Kveikur er feik og þegar slökkviliðið kvartar yfir ósamþykktu húsnæði um allan bæ, yfirfullu af erlendu farandverkafólki, þar sem aðbúnaður er í besta falli fyrir neðan allar hellur, þá sjá menn þar á bæ ofsjónir.

Því samkvæmt Vinnumálastofnun er lítið sem ekkert að, nema helst að það þurfi viðhorfsbreytingu meðal almennings til að uppræta vandann.

 

Í hvaða fílabeinsturni lifir þetta fólk??

Er það svo ánægt með áskriftina að launum sínum að það telur alla aðra eiga líka vera ánægða.

 

Líka þá sem brotið er á.

Eða þau fyrirtæki sem lenda í samkeppni við hinn einbeitta brotavilja skunkanna sem víla sér ekki að nýta sér neyð náungans.

Að ekki sé minnst á innlent verkafólk sem oft þarf að sæta afarkostum því svipan um ódýrt erlent vinnuafl er ætið svífandi yfir baki þess.

 

Og hvað kemur almenningur þessu máli við??

Er hann skunkurinn, er hann siðblindinginn??

Eða er það hann sem vinnur ekki vinnuna sína við hafa eftirlit með að farið sé eftir lögum og reglum þessa lands??

 

Hvílíkur kattarþvottur og það er ekki einleikið hvernig hinar ýmsar stofnanir samfélagsins ástunda hann síðustu dagana.

Þarf að banna ketti tímabundið svo lát verði á??

Það er ekkert boðlegt í svona málflutningi.

 

Ekki frekar en það er boðlegt að hlusta á grátandi slökkviliðsmann í fjölmiðlum, sem segir frá brunagildrum um allan bæ, yfirfullum að fólki og aðbúnaður slíkur sumstaðar að hann þætti ekki einu sinni frjálsum hænum bjóðandi.

 

Eftirlitsaðilar eiga ekki að grát í fjölmiðlum.

Þeir eiga að loka, þeir eiga að sekta, þeir eiga að stöðva ósómann.

Uppræta hann.

 

Það eru skunkarnir sem eiga að gráta.

Kveðja að austan.


mbl.is Hafa kært eina starfsmannaleigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. október 2018

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 42
  • Sl. sólarhring: 319
  • Sl. viku: 1103
  • Frá upphafi: 1321866

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 916
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband