23.12.2019 | 10:07
Frjálst flæði gegn byggðum landsins.
Gegn landbúnaðinum sem hefur verið samofin sögu þjóðarinnar frá upphafi.
Engin eyþjóð getur lifað án landbúnaðar, það koma alltaf þeir tímar að ólga og óáran dregur úr innflutningi matvæla, eða afleggur með öllu, eða hún sjálf verður fyrir áföllum og hefur ekki gjaldeyri fyrir nauðsynlegum mat.
Þetta lögmál er greypt í mannkynsöguna og ekkert sem bendir til að breyting sé þar á
Heimurinn eins og við þekkjum hann er á barmi upplausnar vegna loftslagsbreytinga, vegna trúarbragðadeilna, vegna harðvítugra pólitískra átaka þar sem sjálft lýðræðið er undir.
Þá datt okkar aumu stjórnmálastétt, þessu aumasta af öllu aumu sem íslensk saga kann frá að greina, að taka upp regluverk Evrópusambandsins um frjálst flæði á sýklum.
Gegn ítrekuðum viðvörunum okkar helstu vísindamanna, bæði á sviði lýðheilsu sem og búfjársjúkdóma.
Landbúnaðurinn okkar er heilbrigður, hann framleiðir hollar vörur.
Af hverju að eyðileggja hann??
Hvað ónáttúra hefur yfirtekið fólkið við Austurvöll sem virðist fátt gera en að rífast eins og smákrakkar??
Það er nýbúið að braskaravæða orkuauðlindir þjóðarinnar og afhenda yfirráð þeirra skrifræðisvaldi Brussel.
Þar á undan hafði það staðið fyrir helför að heimilum landsins svo hrægammar gætu siglt frá landinu með kistur fullar fjár, kistur smíðar úr neyð mæðra og barna sem sættu miskunnarlausum ofsóknum bankakerfisins, þess hið sama sem kom þjóðinni í þær ógöngur sem við köllum Hrunið haustið 2008.
Núna á að slá margar flugur í sama högginu. Eins og enginn sé endirinn á óhæfunni.
Það á að ógna heilbrigði þjóðarinnar.
Það á að gera mjög heiðarlega tilraun til að ganga frá búfjárstofnum okkar sem hafa fylgt þjóðinni frá því í árdaga og eru samofnir ímynd okkar sem þjóðar. Það hafa jú fleiri þraukað hérna en við í þessi 1.1000 ár.
Og það á að rýma sveitirnar af bændum, svo líklegast sé hægt að selja Radkliff og hans vinum jarðirnar fyrir slikk. Eins og það eina sem þjóðinni vanti sé óðal og óðalsbændur.
Eitthvað sem venjulegt fólk gerir ekki samfélagi sínu eða náunganum.
Ekkert fólk haga sér svona.
Og það er argasta rógburður að bera slíkt hátterni upp á skepnur.
Þessi ónáttúra er ekki þessa heims.
Ekkert af þessu.
En síðast þegar ég vissi þá erum við hin ósköp venjuleg, með okkar göllum og gallagripum, sem og kostum og kostagripum.
Svo spurningin er, af hverju látum við bjóða okkur þetta??
Æ já, við fáum leikana, hafiði heyrt af Samherja þarna í Namibíu.
Eða þeir sem duttu í það á Klaustrinu þarna, meiri raftarnir.
Á öllu eru nefnilega skýringar.
Og hin raunverulega sök liggur ekki hjá ónáttúrunni við Austurvöll.
Hún liggur okkur nær.
Hvað er annars að frétta af ICExit??
Kveðja að austan.
![]() |
Frjálst flæði kjöts og eggja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.12.2019 | 16:31
Gréta kallar á pólitískar aðgerðir
En hvað er það í raun sem hún kallar á??
Að allir eignist milljarðamæringa að vinum svo þeir geti ferðast um á seglskútum þeirra??
Að fólk sé knúið til að hætta nota jarðeldsneyti, en hvað svo??
Steinöld er það lausnin??, ekki má fara á hestöld því það víst að drepa húsdýrin líka vegna loftslagstrúarbragðanna.
Það blasir við að eitthvað þarf að gera, en er félagsskapur Grétu, hinir últraríku og öll auðfyrirtækin í kringum þá, með lausnina?
Sem virðist vera sótt í smiðju frjálshyggjunnar, að skattleggja meðaljónin svo hann hætti að nýta sér gæði og þjónustu.
Labbi í vinnuna eða nýti sér almenningsfarartæki, hætti að ferðast, taki sér sumarfríin út í garði, eða út á svölum ef hann á ekki garð, og ef það er hvorki garður eða svalir, þá inní stofu.
Hverju breytir það í raun??
Og hverju breytir það í raun að íþyngja atvinnulífi Vesturlanda, sem og að drepa niður alla innlenda eftirspurn, þegar auðfyrirtækin, vinir Grétu, flytja framleiðsluna til þriðja heimsins þar sem engar eru mengunarvarnirnar, þar sem kolaorkuver knýja áfram framleiðsluna og hagvöxtinn??
Í þriðja heiminum er fjöldinn, þar er massinn sem vill njóta sömu lífsgæða og við á Vesturlöndum.
Þegar tæknivædda framleiðsla okkar er úr leik, þá er ekkert eftir nema mengunarframleiðslan, og hún er ekki svo glatt stöðvuð.
Allavega ekki af vestrænum krökkum á mála hjá auðmönnum.
Það er nefnilega til gjörólík nálgun á baráttunni við hlýnun jarðar.
Það er sjálfbærni, að efla framleiðslu heima fyrir og gera til hennar kröfu um útblástur og annað.
Í stað þess að skattleggja fyrirtæki svo þau missi allan mátt, þá er hægt að hvetja þau til breytinga á framleiðslu og framleiðsluferlum, með skattaívilnunum, með því að stórauka allar rannsóknir og þróun, og annað sem hjálpar okkur að þróa þá tækni sem þarf til að mannkynið nái tökum á þeim ferlum sem ýta undir lofslagsbreytingar.
Það er ekki gert með skattlagningu, það er ekki gert með sýndarbókhaldi upprunavottorða eða mengunarkvóta. Hverjum datt í hug að það drægi úr mengun að sá sem mengar geti keypt kvóta af þeim sem mengar ekki sbr. að núna er íslensk orka framleidd í kjarnorkuverum og með kolum.
Þetta er ekkert annað en blekking auðsins til að ná endanlega heljartökum á framleiðslu og samfélögum Vesturlanda.
Blekking sem eyðir mengunarminni framleiðslu og færir hana til landa þar sem er Mengað með stóru Emmi.
Gréta er nefnilega verkfæri sem gerir illt verra.
Henni er hampað af fjölmiðlum auðsins, ímynd hennar er tengd við aðgerðir sem litlu skila ef þá einhverju, og á meðan eru raunverulegar lausnir ekki ræddar.
Hún er til tjóns, ekki til góðs.
Því miður.
Kveðja að austan.
![]() |
Hvernig er það mögulegt? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.12.2019 | 12:17
Alþjóðavæðingin, globalisminn.
Sem jarðar við að vera trúarbrögð nútíma vinstrimanna og er trúarbrögð svokallaðra frjálslyndra hægrimanna, byggist á þrælkun vinnandi fólks.
Og í raun er enginn munur á nauðung vinnuaflsins, hvort það sé í vinnubúðum harðstjóra, eða þeirri nauðung að eiga ekki annarra kosta völ um framfærslu.
Á Englandi urðu konur reiðar á 19. öldinni þegar lög voru sett um að þeim var bannað að vinna 18 tíma á dag, 6 daga vikunnar í kolanámum, eins og þeir sem lögin settu héldu að þær væru að þræla þar að gamni sínu.
Það var annað hvort þetta eða hungrið.
Þetta kallast samnefnari hins lægsta, að borga aðeins það lágmark sem verkamaðurinn þarf til að skrimta.
Og verkamaðurinn treystir á að þegar heilsan bilar, þá eigi hann börn sem taki við framfærslu hans.
Eitthvað sem var svo algengt á 19. öldinni en löng og ströng barátta samtaka verkafólks batt enda á í lok 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20.
Við tók velferðarþjóðfélagið þar sem laun dugðu fyrir mannsæmandi framfærslu, vinnutími var skikkanlegur og samfélagið kom á öryggisneti handa sjúkum og öldruðum.
Eða þar til alþjóðavæðingin tók yfir skipan heimsmála á tíunda áratug síðustu aldar.
Framleiðslan var markvisst flutt út til fátækra landa þar sem kjör og aðbúnaður var í flugulíki miðað við velferðarþjóðfélög Vesturlanda, og sígræðgin það mikil að alltaf var leitað leiða til að ná niður launakostnaðinum.
Þá fóru að berast fréttir af vinnuafli fanga, í til dæmis Kína og Víetnam, þá bárust fréttir af barnaþrælkun í spunaiðnaði í löndum eins og Pakistan og Bangladess, og þá bárust meira að segja fréttir um að Kínverjarnir væru að verða of dýrir, og þá var leitað til ennþá landa þar sem mátti finna ennþá fátækara fólk til að þrælka, í löndum eins og Haíti eða Eþíópíu.
Fréttir segi ég því það kannast enginn við að nýta sér slíka nauðung, eða keyra laun niður fyrir sultarmörk.
HM keðjan stærir sig af umhverfisvitund sinni, nýta meir að segja appelsínubörk í spuna sinn. Allar verksmiðjur teknar út, ekkert misjafnt þar að finna. Sem aftur vekur spurningar um hvað var gert við börnin þegar eftirlitsmennirnir komu, og voru þeir svo drukknir að þeir sáu ekki allan sóðaskapinn og skítinn sem vellur út í ár og fljót, uppí himinn og andrúmsloft, eða var þeim bara alveg sama.
Er hið svokallaða öryggistékk aðeins Exel skjal sem samviskulega er fyllt út. Óháð raunveruleika, óháð kjörum verkafólks, óháð þrælkun barna og kvenna í skítaverksmiðjunum sem þetta fólk skiptir við.
Og gleymum aldrei hvað einn eigandi slíkrar verksmiðju sagði þegar hann var spurður út í aðbúnað og öryggiskröfur, "jú, það eru gerðar kröfur, en við missum viðskiptin ef við látum kostnaðinn við þær út í vöruverðið".
Tesco var afhjúpað í gær.
Fyrirtækið á sér enga afsökun, upplýsingar um vinnuafl fanga í Kína liggja fyrir.
Iðrun þeirra er sýndariðrun, en lokaorðið er hjá neytandanum, hvað samkennd hefur hann gagnvart náunganum.
Vinstrimenn hafa líka verið afhjúpaðir.
Þeir standa vörðinn með frjálshyggjunni að vernda þrælahald alþjóðavæðingarinnar.
Berjast hatrammlega gegn þeim stjórnmálamönnum sem vilja framleiðsluna heim.
Sem vilja skorður á félagsleg undirboð og samkeppnina við framleiðslu þrælafyrirtækjanna.
Þetta er að gerast í Bandaríkjunum.
Það er ekki að ástæðulausu sem Donald Trump er í ólgusjó nornaveiða.
Hér á Íslandi sjáum við þetta í markaðsvæðingu orkuauðlindarinnar, þar er okkur skylt að opna fyrir globalfjármagninu sem rekur sig frá skattaskjólum.
Eða í stuðninginn við evrópska regluverkið sem á núna að ganga að innlendum landbúnaði dauðum.
Það eru ekki bara heildsalar og Viðreisn sem vill slíkt náðarhögg.
Samfylkingin stendur þar heilshugar að baki.
Stuðningurinn við glóbalið er leifarnar af alþjóðahyggju jafnaðarmanna.
Núna syngja þeir Nallann hinu sígráðuga fjármagni til heiðurs.
Slík er arfleið þeirra sem börðust fyrir velferðarkerfinu og höfðu sigur.
Kveðja að austan.
![]() |
Skilaboð frá föngum í jólakorti frá Tesco |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.12.2019 | 10:17
Réttlæting Dags
Er svo innileg að jafnvel frú Thatcher hefði vöknað um augun hefði hún lesið.
Tekið beint úr faðirvori andskotans þar sem þuldar eru máttugar særingar gegn samfélögum og innviðum; "cheapest bid", hagræðing, niðurskurður.
Lágmarka kostnað, hámarka arðinn, eða alveg þar til almenningur fær reikninginn.
Í formi innviða sem bila.
Lífsnauðsynlegra innviða sem bila.
Gírugir stjórnmálamenn hafa í mörg undanfarin ár sogið til sín fjármagn úr orku og dreifikerfi þjóðarinnar.
Hvort sem það er Landsvirkjun eða Orkuveita Reykjavíkur, milljarðarnir streyma í hítina, milljarðar sem að hluta eru fegnir með því að fresta nauðsynlegu viðhaldi en að stærstum hluta fegnir með því að fresta eðlilegri endurnýjun dreifkerfa.
Ofsalega arðbært eða þar til veður og tími minntu á að það sem drabbast niður, það dugar ekki þegar reynir á. Sbr. að það mátti lengi fara á sjó á fúadalli, á meðan ekki var farið í straumrastir, þá sukku þeir með manni og mús, eitthvað sem ósjaldan gerðist og enginn sætti ábyrgð á.
Hvort við látum gíruga stjórnmálamenn komast upp með aulalegar afsakanir sínar á eftir að koma í ljós.
Iðrun og lof um bót og betrun koma ekki beint fram í þessum orðum Dags.
Aðeins afsakanir og aftur afsakanir.
Svipað má segja um viðbrögð stjórnmálamanna okkar vegna illvirðisins sem lék landsbyggðina grátt fyrir skemmstu.
Þeir voru svo firrtir að þeir þóttust ekki vita um lamasess innviða sem þeir höfðu svo markvisst skorið niður og í raun eytt víða um land, og töldu því mikilvægt að skipa starfshóp til að upplýsa þá um ástandið og regluverkið sem þeir víst óvart settu fyrir 2 áratugum eða svo.
Að segja afsakið, lofa bót og betrun, það var ekki inní myndinni.
SEm segir aðeins eitt, ekkert mun breytast.
Hugmyndafræði andskotans er ennþá hin ríkjandi hugmyndafræði.
Og núna á að markaðsvæða, gera almenning endanlega að blóðmjólkurkú gírugra manna.
Þannig er Ísland í dag.
Í okkar boði.
Engra annarra.
Kveðja að austan.
![]() |
Bilun tengist ekki endilega niðurskurði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2019 | 15:51
Þú ert þjófur.
Það er eins og Þórhildur Sunna sem og aðrir Píratar gleymi að það stendur hvergi í einhverri bók að aðeins Píratar megi slíkt um aðra.
Píratar eru félagskapur misgefinna einstaklinga sem eiga biturð og heift sameiginlega. Fram að þessu vega þeir hvorn annan með skítyrðum þar sem ekkert eitt illmælgi hefur forgang fram yfir annað.
Svo eru hæfastir of the fittnest í leirburði og skítkasti settir fremst á framboðslista Pírata, og fjölmiðlar auðsins sem gera út á tómhyggju og heimsku, sjá til þess að Píratar eru kosnir á þing.
Og þar kalla þeir aðra þingmenn þjófa þó þeir geti ekki á nokkurn hátt sannað mál sitt. En mættu hinsvegar vekja athygli á brotalöm á reglum Alþingis, og það er önnur saga.
Þingmaður sem kallaður var þjófur, var ósáttur við þá nafngift, og klagaði út í hinn stóra heim.
Að félagsskapur misgefinna einstaklinga sem eiga biturð og heift sameiginlega, megi ekki kalla annað fólk þjófa, án þess að geta sannað sitt mál. Í þessu samhengi er gott að muna að grunur um að náunginn sé þjófur ekki það sama og að hann sé þjófur, enda yrðu þá þjófarnir fleiri en við hin.
Stóri heimurinn sendi skeyti á móti.
Að konur ættu undir högg að sækja, og því yrði una misgáfulegri hegðun þeirra.
Þú sækir ekki að konu þegar nóg er af köllum sem liggja við höggi.
Hvað sú heimska og lítilsvirðing gagnvart hinu kyninu út í hinum stóra heimi kemur okkur hinum við er önnur saga.
Er ekki eiginlega öllum sama um neistana sem glóa milli Ásmundar og Þórhildar.
Þarf bara ekki að senda þau uppí sumarbústað eina helgi eða svo.
Sem og að takast á við regluverkið sem upphaflega skóp ástarhaturssamband þeirra.
Veit ekki.
En veit samt að ég er ekki Pírati.
Og þú sem lest ert ekki þjófur.
Það er bara svo.
Kveðja að austan.
![]() |
Lagði til að Þórhildur yrði svipt réttindum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2019 | 20:53
Ég er víst guð.
Sagði Kristinn Hrafnsson í opnu bréfi til Bubba reddingarforstjóra Samherja, og útskýrði af hverju hann hefði handvalið pósta til birtingar.
Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að Kristinn Hrafnsson játaði að Wikileka lá á að birta hvellinn fyrir fyrirhugaðar kosningar í Namibíu, svo hægt væri að hafa áhrif á þær.
Eitthvað sem aðeins menn með mikilmennskubrjálæði gera, þeir sem telja sig umkomna að ráðskast með líf og örlög fólks í framandi löndum, þá sökum eigin yfirburða.
Í tilvika Kristins líklegast vegna þess að hann er hvítur, menntaður, og hefur í sig og á.
Fór þar í þekkt fótspor sem Afríka geymir ásamt steingerðum sporum hálfmennskra og mennskra áa okkar, þau fótspor að hvíti maðurinn taldi sig æðri.
Þá vegna kynþáttalítilsvirðingar, í dag líklegast vegna guða komplexa.
Svo fólk rugli ekki eitthvað í hausnum á sér, þá er ekkert sem segir að þeir sem skora núverandi stjórnarflokk á hólm, séu á nokkurn hátt óspilltari en þeir sem ráða í dag.
Um það eru mýmörg dæmi frá Afríku, en ekki mörg um hið gagnstæða.
Eiginlega engin ef útí það er farið.
Þannig að ef menn ætla sér að hafa áhrif á kosningar, og þjást ekki af guðakomplexum, þá er ljóst að ætlunin er að hygla einum á kostnað annars.
Enda hefur æ betur komið í ljós að Samherjamálið er hluti af gagnsókn Suðurafrísks stórfyrirtækis sem var sett útí kuldann af fyrrum skæruliðum sem voru ekki að berjast við nýlendu kúgun og arðrán hvítra nágranna sinna í Suður Afríku, til að fá þá bakdyramegin inní landið gegnum innlend gervifélög.
Kristinn Hrafnsson hefur hvorki náð að sverja af sér guðakomplexinn eða tengingu sína við þessa gagnsókn þessa fyrrum arðræningja namibísku þjóðarinnar.
Það er miður því Wikileki hefur margt þarft verkið unnið með uppljóstrunum sínum og birtingu gagna sem ekki voru ætluð almanna sjónum.
Wikilega var treyst vegna þess að hann var aðeins milliliður, milli gagna og almennings.
Hann handvaldi ekki, hann lét ekki stjórnast af öðru gildismati en að birta gögn, og þá var metið hvort gögnin væru þess eðlis að þau ættu erindi í dagsljósið.
Wikileki var ekki gerandi í þeirri merkingu að hann taldi sig umkominn að ráðskast með örlög þjóða, eða vera þátttakandi í pólitískri valdabaráttu.
Ef Wikileki er samkvæmur sjálfu sér, þá viðurkennir hann afglöp sín, og knýr Kristinn Hrafnsson til að segja af sér öllum trúnaðarstörfum, því trúverðugleikinn er fokinn ef hann kemst upp með þessi vinnubrögð sín.
Vissulega leiðinlegur endir á ferli annars ágæts hugsjónamanns.
En guð er á himnum, en ekki meðal manna.
Rugli menn þessu saman þá verða þeir að víkja sem dvelja hér á jörðu.
Bubbi reddari er með kjarnann.
Kristinn hefur játað handvömm, að hann hafi handvalið, til að geta matreitt frétt, til að geta sniðið upplýsingar að fyrirfram saminni sögu.
Það þarf ekki að ræða málið frekar hvað Kristinn varðar, hagsmunir Wikileka og trúverðugleiki hljóta að vera í forgangi.
Eftir stendur trúverðugleiki Ruv og Stundarinnar.
Miðlar sem láta staðreyndir víkja ef þær draga úr höggþunga atlögu þeirra.
Ekki að niðurstaðan geti verið sú sama, en af hverju þolir hún þá ekki allar staðreyndir??
Af hverju er verið að ljúga því til að Samherji hafi tekið þátt í að arðræna namibísku þjóðina þegar samskiptin við Samherja eru til komin vegna þess að ráðamenn vildu losna við fyrrum arðræningja úr lögsögu sinni??
Af hverju er ekki hægt að segja satt í þessu máli, segja frá viðskiptahefðinni, þar sem þóknun til ráðamanna virðist vera hluti af viðskiptakostnaði. Og að Samherji var með heimamenn í vinnu og gerði vel við þá á þeirra mælikvarða. Það var engin landvinnsla þarna sem var rústuð, en heldur engin sem var byggð upp.
En hvers er þá sökin?? Heimamanna sem stjórna, eða fyrirtækinu sem kom í viðskipti við þá eftir þeim reglum sem þar giltu??
Var eitthvað óeðlilegt í gangi?? Eitthvað skemmt sem var fyrir, kvóti fenginn á lægra verði en aðrir höfðu borgað, var Samherji til dæmis að yfirbjóða mútur annarra?? Og er það trúlegt??, suður afríska fyrirtækið er milljarða fyrirtæki í dollurum, í samanburði við það er Samherji eins og léttibátur um borð í stórum úthafstogara.
Þetta er umfjöllunin sem ég átti von á eftir fyrsta Kveik þáttinn.
En hún kom ekki, aðeins bullið og upphrópanir.
Og réttmætum ábendingum Samherja aðeins svarað með skætingi.
Sem er aldrei hlutverk fréttamanna þó virðulegir stjórnmálamenn og rebellar verkalýðshreyfingarinnar finni hjá sér hvöt að stunda slíkan götustrákaleik.
Það er miður því þjóðin þarf svo virkilega á því að halda að hér sé hlutlaus aðili sem segi satt og rétt frá eftir sinni bestu sannfæringu, út frá fyrirliggjandi gögnum.
Í því felst að menn leiðrétta sig ef þeir fá ábendingar þar um.
Það er svo margt sem er dulið og þolir lítt dagsljósið.
Hagsmunasamtök heimilanna kalla á rannsóknarskýrslu af hverju þjóðin var svikin í hendurnar á hrægömmum eftir Hrun.
Það má ekki upplýsa hverjir fengu íbúðir Íbúðalánssjóðs á silfurfati, og á hvaða kjörum.
Og mikið mega fjölmiðlar vera tengdir auðmönnum og hrægömmum, ef þeir spyrja ekki hinnar æpandi spurningar, af hverju lækkaði stöðugleikaframlag hrægammanna úr boðuðum 950 milljörðum í um 330-350 milljarða, sem er nokkurn veginn sú upphæð sem fannst ekki gjaldeyri fyrir að flytja úr landi. Í kjölfar þeirrar spurningar má spyrja, af hverju voru þrotabú gömlu bankanna ekki látin borga skaðabætur til fórnarlamba Hrunsins, til fólksins sem var blekkt til að fjárfesta í einskis nýtum pappírum, eða skaðabætur til samfélagsins sem þeir léku svo grátt??
Þetta var gert í Bandaríkjunum, háborg fjármálakapítalistana, af hverju þá ekki hérna??
Því miður segi ég, því þetta er ekki gert.
Hvað sem veldur.
Kveikur kveikti loga.
En í þágu hvers??
Ekki sannleikans, það er orðið ljóst.
Hvort loginn er svo mýrarljós á eftir að koma í ljós.
Fyrri spor Rúv hræða í þeim efnum.
Kveðja að austan.,
![]() |
Kæri Kristinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2019 | 17:57
Trump er ákærður.
Svo vitnað sé í einn af ákærendum hans; "fyrir að hafa misbeitt valdi sínu með því að reyna að fá erlenda ríkisstjórn til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. Hins vegar er hann ákærður fyrir að hafa hafi hindrað fulltrúadeildina í að afla upplýsinga um málið".
Og það eina sem maður hugsar, er maðurinn engill??, hefur honum virkilega ekkert orðið á í þessi þrjú ár sem hann hefur gegnt forsetaembættinu.
Eins sjálfhverfur og hvatvís hann annars er.
Hvernig getur gjörspilling fyrrverandi varaforseta Obama haft áhrif á komandi forsetakosningar??
Ef það væri tilgangurinn væri nær að láta manninn bjóða sig fram og spyrja hann, var stuðningur USA við valdarán þjóðernissinna í Kiev háð því að sonur þinn fékk feitt embætti fyrir það eitt að vera sonur þinn?? Fékkst þú borgað??, hver eru tengsl sonar þíns við austur evrópsku mafíuna?? og svo framvegis.
Nema að varaforsetinn fyrrverandi hefði aldrei verið í framboði fyrir demókrata, hans eigin flokksmenn hefðu löngu áður slátrað honum í forvali flokksins með þessum spurningum.
Hins vegar væri núverandi forseti ekki bara sjálfhverfur og hvatvís, heldur algjörlega óhæfur ef hann þegði þegar spillingaröfl í Úkraínu svæfðu rannsókn varðandi tengsl Hvíta hússins við austur evrópska spillingu.
Og hver hindraði hvað??, og hver var fyrstur til að birta afrit af samtalinu sem átti að réttlæta þessa fordæmalausu aðför að lýðræðinu sem á sér aðeins eitt eitrað fordæmi, sem er svipuð aðför repúblikana að Clinton vegna meintra kvennamála hans.
Þar var nefnilega hið eitraða fordæmi mallað í pólitískum gjörningapotti þar sem refskákarar hræðu skítamall sitt af miklum móð og úr varð farsi sem gengisfelldi bæði þá og bandarískt lýðræði.
Því það er gengisfelling að svona er liðið.
Bæði þá sem og nú.
Við Íslendingar breytum engu.
En við getum gefið verndarþjóð okkar ákveðið fordæmi með því að biðja þá sem stóðu að aðförinni að Geir Harde að stíga fram, og tjá iðrun sína.
Iðrun sem eiginlega allir, líka næstum því öll ráðuneyti ráðherra, hafa tjáð. Með þeirri undantekningu að Jóhanna Sigurðardóttir getur ekki tekið eitt mál út og sagt, afsakið, svona í ljósi þess að hún sveik allt.
Og er það skiljanlegt.
Eitrað fordæmi er nefnilega eitur sem hægdrepur lýðræðið.
Með því að grafa undan því, með því að upphefja lágkúru og lýðskrum.
Slík fordæmi þarf að afeitra, og þó við smá séum, þá snýst afeitrun um þekkingu, ekki stærð.
Afsökun vegna Landsdóms er afsökun til heimsbyggðarinnar.
Lýsir iðrun og yfirbót í heimi sem hefur næstum gleymt fyrir hvað slík gildi standa.
Hreinsar okkur og gæti hreinsað aðra.
Því við erum öll eitt.
Hluti af heimsins harmi.
Og lýðræðið er sammannlegt, er okkar allra.
Að verja það er skylda okkar.
Jafnt hér sem og annars staðar.
Auðurinn sækir á.
Á Íslandi í gær, í Bandaríkjunum í dag.
Leppar hans og þjónar brýna kuta og stinga holt og bolt.
Nýta fjölmiðla sína og keypta álitsgjafa.
Fórnarlömbin eru ekki bara Geir Harde í gær eða Donald Trump í dag.
Fórnarlömbin eru við, við öll.
Höfum það í huga þegar við fáum fréttir af þessum skrípaleik.
Kveðja að austan.
![]() |
Eitrað fordæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2019 | 09:35
Hefnum í héraði.
Sem hallast á Alþingi, var sagt hér á árum áður um ráðríka sýslumenn sem þurftu að lúta lögum á Alþingi, sem var dómþing þjóðarinnar, einhvers konar Landsréttur þess tíma, en heima í héraði voru dómar hundsaðir, og þeir jafnvel ofsóttir sem kært höfðu embættisfærslur.
Eitthvað svipað á sér núna stað í Bandaríkjunum, pólitískir andstæðingar Donalds Trumps hafa aldrei sætt sig við að hafa tapað Hvíta húsinu, og núna tefla þeir refskák til að skaða endurkjör hans.
Dýpri tilgangur gæti kannski verið að draga athyglina frá þeirri gjörspillingu að demókrataflokkurinn og Obama forseti létu það óátalið að austurevrópska spillingin væri með bein tengsl við innsta valdakjarna þjóðarinnar.
Alvarleiki þessa máls snertir vestrænt lýðræði og lýðræðissinna því ef tapsárir eða valdagráðugir komast upp með að nauðga geirnöglum lýðræðisins eins og Landsdómur er hugsaður á Íslandi og þessi réttur til að ákæra forsetann sem fer með framkvæmdarvaldið í Bandaríkjunum, þá er lýðræðið í raun orðin innatóm skel, leiksoppur afla sem virða ekki leikreglur þess og stefna á Tyranni (einræði harðstjórans) eða fámennisstjórn þar sem valdamestu hagsmunahópar skipta völdunum á milli sín.
Því frá því að Bandaríkjamenn losuðu sig við alræði aristókratanna og afhentu lýðnum völdin, þá hefur landið bæði í senn verið ísbrjótur lýðræðisins sem og brimbrjótur þess þegar einræðisöfl hafa sótt að jafnt frá vinstri sem og hægri.
Bandaríkin eru ekkert fyrirmyndarríki, nema að því leitinu að þar stjórnar fólkið. Það kýs leiðtoga sinn og það á lokaorðið í öllum ágreiningsmálum.
Falli lýðræðið í Bandaríkjunum, það er ef demókrötum tekst að ákæra Trump, eða stórskaða þannig að þessi ákæra sé skýring valdatöku þeirra í næstu forsetakosningum, þá er það eins og landmæri Rómarveldis hins forna eftir að herliðið varnarvirkjanna var kallað heim, heldur á meðan enginn fer í gegn.
Margir yppta öxlum og segja, who f. care, eða eru sammála þessari atlögu að lýðræðinu því þeim er illa við Trump, og það af mörgum ástæðum.
Þeir fyrri skilja ekki að lýðræðið er forsenda frelsis þeirra og sjálfstæðis, þeir seinni rugla saman Trump og lýðræðinu.
Það er ekkert að því að kjósa Trump burt, og jafnvel er það ekki atlaga að lýðræðinu þó einhver lemji hann í hausinn með tómri kókflösku svo hann forfallist, en bolabrögð og misnotkun á leikreglum lýðræðisins, eru aldrei réttlætanleg, sama hver á í hlut.
Trump er vægast sagt ekki allra, og hann er það sjálfhverfur að hann stuðar jafnt góðlátlegt borgarlegt íhald eins og götustrákar gera jafnan þegar þeim mæta með heimsætuna í virðuleg fjölskylduboð, sem og frjálslynt fólk vegna forpokaðra skoðana sinna og karlrembu, vinstri sinna vegna þess að þeir halda að hann sé hægri maður, en ekki hvað síst, frjálshyggjuna, globalisana sem aðhyllast alræði auðsins.
Eins og fólk sé ekki búið að fá nóg af þessum litlausa pappírsspjalda stjórnmálamanni sem rétthugsunin hefur ungað út úr sér síðustu 2 áratugina eða svo.
Og af hverju koma svona margir globalistunum til varnar??
Fyrir utan að auðurinn keypti upp hefðbundna vinstriflokka í byrjun þessarar aldar, og gerði þá að auðmjúku verkfæri sínu, þá er nokkuð augljós skýring óttinn við lofslagshamfarir, sem má segja um að við ain't see nothing yet, nema í Ástralíu sem er að verða óbyggilega sökum hlýnunar jarðar.
Ótti sem sniðugir áróðursmeistarar alþjóðafjármagnsins hafa náð að virkja gegn Donald Trump.
Líklegast vegna þess að einhver taldi honum í trú um að lofslag væri ekki að breytast af mannavöldum og því liggur hann við höggi, en undirliggjandi er að manninn þarf að fjarlægja því hann ógnar hinu frjálsa flæði úr vasa almennings í vasa hins alþjóðalegs fjármagns sem er samkrull glæpasamtaka, olíufursta og Örfárra auðfjölskyldna sem eiga næstum því allan heiminn.
Vegna þess að málið er svo alvarlegt, ekki hamfarahlýnunin þó hún sé ekki neitt grín í sjálfu sér, heldur aðförin að lýðræðinu, þá er nauðsynlegt að varpa aðeins ljósi á hinar meintu ávirðingar á hendur Trump, og spá í hvaða fótur er fyrir þeim.
Ókey, hann er allavega afneitunarsinni í orði en hvað er hann í raun, það er hvaða áhrif hefur hann haft á umræðuna, og hverjar eru afleiðingar stefnu hans??
Í það fyrsta, þá dregur það úr brennslu á jarðeldsneyti að stöðva tannhjól alþjóðavæðingarinnar sem byggist á að öll hráefni í heiminum eru flutt til Kína, þar sullað sama í þrælabúum þar sem orkan kemur frá mest mengandi orkuverum í heiminum, og flytja þau svo aftur til landa kaupgetunnar þar sem allt innlent er rjúkandi rúst því vinnandi maður lýtur alltaf í gras í samkeppni við þrælahald.
Innanlands er ekki bara gerð krafa um lágmarks kaup og kjör, sem og annan aðbúnað, heldur líka um mengunarvarnir sem og aðra umhverfisvernd. Globalistarnir eru ekki bara að reyna koma launakostnaðinn við framleiðslu niður í núllið eða þar um bil (sbr framleiðslukostnaður á Nike skóm er innan við 5% af söluverði), þeir vilja líka losna við útgjöld sem snýr að mengun og umhverfi.
Trump ógnar þessu tannhjóli, og í raun hafa fáir ef engir lagt eins þungt lóð á vogarafl baráttunnar gegn mengun og útblæstri jarðeldsneyta og hann með stefnu sinni að gera Bandaríkin great again. Og hann slær tón sem er nauðsynlegur ef mannkynið á að eiga sér minnstu von í stríðinu mikla um tilvist siðmenningarinnar, því hún er það fyrsta sem fellur ef stór hluti heims verður óbyggilegur sökum loftslagsbreytinga.
Þá bendir fólk á Parísarsamkomulagið, að Trump vilji ekki dansa með í þeim frjálshyggjudansi.
Eins og það sé einhver lausn á loftslagsvánni að koma Vesturlöndum á öld hesta og seglskipa, en leyfa þrælakistum globalistanna að menga áfram stjórnlaust.
Eða að menn skuli ekki sjá í gegnum frjálshyggjuna sem gegnsýrir alla aðgerðir í dag, en hugmyndafræði hennar um að skattleggja meðaljónin svo hann hætti að ferðast um og hafi ekki efni á að kynda húsin sín, hefur ekkert með stærri gildin að gera.
En loftslagsskattar, bæði á fyrirtæki og orku, draga úr þróttinum að innleiða nýja tækni, eða afleggja eldri farartæki sem menga meir en þau sem nýrri eru.
Baráttan við vinnst á því að þróa nýja tækni, að innleiða nýja tækni, og gera fólki og fyrirtækjum kleyft að skipta út því sem eldra er.
Hún vinnst ekki á því að afleggja framleiðslu í þróaðri löndum og hún hefst ekki á því íþyngja almenningi og atvinnulífi með nýjum sköttum svo þrótturinn til breytinga verður eins og styrkurinn hjá alnæmissjúklingi til að taka þátt í maraþon.
Hvort sem Trump áttar sig á þessu eða ekki, þá er gagnrýni hans á Parísarsamkomulagið og annað sýndarsjóf hinnar yfirteknu (auðmenn og auðfyrirtæki) loftslagsbaráttu skref í rétt átt, því ekkert stríð vinnst með vopnum sem vinna gegn því.
Að lokum má nefna að Trump hefur verið gagnrýndur fyrir stóraukna innlenda jarðeldsneytisframleiðslu, og þá er algjörlega skautað framhjá að þessi orka er hvort sem er notuð, og skömminni skárra hlýtur að vera að framleiða hana innanlands en að flytja hana langar leiðir með tilheyrandi brennslu flutningstækja.
Sem og að það er gustukaverk að minnka ítök miðaldamannanna í Arabíu í heiminum, þá kannski verður einn daginn hægt að setja múr um Arabíuskagann, og stöðva þar með fjármögnun hryðjuverka og annarra óhæfu sem íslamistar ástunda um allan heim þessi misserin.
Hvernig sem á það er litið, þá dregur Trump úr alheimsútblæstri með því að gera Bandaríkin sjálfbær í framleiðslu á jarðeldsneyti.
Hvort sem það er óvart, eða viljandi, þá er Trump í dag að gera meira en allt góða fólkið sem er á mála hjá auðnum.
Enda leynir sér ekki hverjir standa að baki atlögunum að honum.
Hann ógnar globalinu.
Hann ógnar hinu ósnertanlegu alþjóðlegu fjármagni sem engin lög virðir og telur sig upphafið yfir öll landamæri í sjálftöku sinni og óendanlegri græðgi.
Hann er eins og hann er kallinn.
En hann er hluti af því lýðræðislegu kerfi sem kom honum til valda.
Að nýta annað en það kerfi til að fella hann, er óhæfa.
Er aðför.
Og öllum til minnkunar sem að því standa, eða styðja.
Kveðja að austan.
![]() |
Samþykkt að ákæra Donald Trump |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.12.2019 | 19:44
Nútímaþrælahald er nátengt alþjóðavæðingunni.
Það er leið auðsins að komast framhjá kjarasamningum og velferð Vesturlanda.
Hefur brotið niður samfélög, hefur skert kjör vinnandi fólks.
Gjaldþrot norrænu velferðarinnar var þegar það var upplýst að þrælar unnu að stórum hluta alla verkamannavinnu við byggingu þjóðmenningarhússins í Osló.
Byggingu sem átti að vera djásn Óslóar næstu áratugina.
Til upplýsingar til þeirra sem halda að svona hafi þetta alltaf verið, þá byggði frjálst verkafólk pýramídana miklu, og frjálst verkafólk, iðnaðar og handverksfólk byggði dómkirkjur miðalda sem ennþá eru stærstu kennileiti evrópskra borga.
Hvað skyldu hið frjálsa flæði Evrópusambandsins hafa útrýmt mörgum störfum sem borgað var eftir kauptöxtum og kaupmætti í Norður Evrópu, og fyllt upp með vinnuþrælum í staðinn?
Er hlutfallið orðið 60%,70% eða 80% í byggingariðnaði.
Sögðu ekki lögregluyfirvöld á Ítalíu að þau gætu ekki skipt sér af mannsali og vinnuþrælkun í þarlendri ávaxta og grænmetisrækt, því annars væri hún ekki samkeppnishæf. Viðurkenndu reyndar að nauðgun og kynferðisleg misnotkun væri ekki innifalin í hinu frjálsa flæði misnotkunar og vinnuþrældóms.
Af hverju halda menn að það séu svona margir verkamenn sem kjósa gegn Evrópusambandinu í dag??
Eigum við að rifja upp ómennskuna í kringum Wow flugfélagið, þegar grískum flugfreyjum var haldið á tánum í Svíþjóð, tilbúnar að fara á meintum þjónustusamningi á Kastrup, en þá mátti borga þeim brota brot af umsömdum launum kjarasamninga. Og ef ég man það rétt, þá grétu menn þegar þrælahaldarinn fór á hausinn.
Það er nefnilega meinið.
Menn gráta þegar þrælahaldarinn lifir ekki af sín eigin undirboð.
Menn gráta þegar ekki er lengur hægt að þrælka börn til dauðs í Kongó, því þá er ekki lengur hægt að bjóða rafmagnsbíla á viðráðanlegu verði.
Menn gráta þegar stjórnmálamenn eins og Trump segja að það sé ekkert eðlilegt við alþjóðavæðingu þar sem vinnuafl þræla er notað til að brjóta niður innlenda framleiðslu og iðnað.
Góða fólkið hágrætur í dag.
Meintir hægri populistar tala um velferð og atvinnuöryggi vinnandi stétta.
Vilja stöðva óheft flæði framleiðsluvara úr þrælabúðum globalistanna, og setja skorður við frjálsum innflutningi af vinnuþrælum.
Ógna gróðanum, ógna hinu frjálsa flæði auðs frá vinnandi fólki í vasa ofurríkra.
Og núna á að lögsækja þrælahaldara, fyrir að nýta sér þrælavinnuafl barna.
Sjálf tilvera alþjóðavæðingarinnar er undir.
Gróðinn sem og brauðið sem notað er til að þagga niður í fjöldanum.
Það er nefnilega örstutt bil frá námunum í Kongó í þrælaverksmiður HM eða annarra stórfyrirtækja sem fylla heiminn af ódýru rusli.
Rusli sem hefur drepið niður okkar eigin framleiðslu.
Það er eins og hægri populistarnir séu eins og vírus sem dreifir sér um heimsbyggðina.
Leggur til atlögu við skattaskjól, það er hið frjálsa flæði fjármagns, og leggur til atlögu við hið frjálsa flæði vöru og þjónustu frá þrælabúum til vestrænna landa.
Jafnvel rafmagnsbíllinn er undir.
Það eru erfiðir tímar framundan fyrir auðmenn.
Og grátur og ekkasog gætu farið illa með taugar og æðar góða fólksins, sem sælt og glatt lofsöng alþjóðavæðinguna og fúlsaði ekki við afurðum hennar.
Það er eins og heimurinn sé aftur að snúast til mennsku og mannúðar.
Trump í Bandaríkjunum og Boris í Bretlandi, báðir að efla það sem heima er.
Í Evrópu banka flokkar að dyrum valda sem auk margs annars, leggja áherslu á að velmegun er heimafengin, en ekki innflutt úr verksmiðjum globalista.
Mannúð og mennska þrífst nefnilega ekki í þrælaþjóðfélögum.
Þrífst ekki í samfélögum sem hafa þurft að sjá eftir iðnaði sínum og framleiðslu útvistaða í þrælaverksmiðjur.
Þrífst ekki í samfélögum þar sem lögmálið um lægsta tilboð í skjóli hins frjálsa flæðis á vinnuafli, útrýmir heilbrigðum vinnumarkaði, og gerir vinnandi fólki ókleyft að lifa af afrakstri vinnu sinnar.
Þrífst ekki þar sem gæði eru seld á uppboðsmarkaði, samfélagsþjónusta markaðsvædd.
Hún er alltaf það fyrsta sem lætur undan, og hatrið og heiftin tekur yfir.
Sum ómenni eru ákærð í dag.
Vonandi önnur á morgun.
Bretar ætla að segja sig úr hinu frjálsa flæði.
Vonandi gerum við það líka innan ekki svo skamms tíma.
Það er full ástæða til að fagna svona fréttum.
Og það er full ástæða til að við sjálf sköpum okkur svona fréttir.
Við gætum til dæmis byrjað að ákæra heildsalana sem flytja inn vörur úr þrælaverksmiðjum.
Lokað búðum þeirra, skapað heilbrigðari markað.
En stærsta skrefið er að segja upp EES samningnum.
Þar er rótin, þar er meinið.
Þar er uppsprettan sem ógnar tilveru okkar sem þjóðar.
Bara það eitt gerir heiminn betri.
Og það gæti hjálpað öðrum að stíga það sama skref.
Segjum Nei við þrælahaldi.
Segjum Nei við alþjóðavæðingunni.
Segjum Nei við hinu frjálsa flæði.
Og gefum góða fólkinu frí á meðan það sygir hið liðna.
Syrgir alþjóðavæðinguna, syrgir þrælahaldið.
Hvernig sem á það er litið, er slíkt alltaf kærleiksverk.
Og hver vill ekki slíkt á jólunum.
Kveðja að austan.
![]() |
Segja tæknifyrirtæki meðvituð um barnaþrælkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.12.2019 | 16:32
Brandarakona tjáir sig.
Lofar það eina sem ekki hefur orðið græðgivæðingu hins frjálsa flæðis að bráð.
Eða hefur sloppið við niðurskurðarhníf frjálshyggjunnar sem telur hvern þann aur sem eytt er í samfélag og fólk, vera glataðan aur.
Eigum við að rifja upp hræsnarana sem voru grýttir eggjum þegar þeir mættu í minningarathafnir í New Orleans og tjáðu samúð sína vegna fórnarlamba fellibyljarins Katrínar.
Nýbúnir að leggjast gegn öllum fjárveitingum í endurnýjun stíflu- og flóðvarnargarða.
Samanber að glataður er aur sem eytt er í forvarnir eða uppbyggingu innviða.
En það er skortur á eggjum á Íslandi.
Það kunna þeir að meta sem ábyrgðina bera.
En aum er sú þjóð sem hlustar á mærð þeirra og hræsni.
Það eina sem vann kraftaverk, var fólkið.
Fólkið sem vann allt í sjálfboðavinnu.
Fólkið sem hafði ekki verið markaðsvætt.
Líkt og orkuauðlindin sem Katrín knúði í gegnum þingið.
Það fólk situr núna uppi með það að það hafi verið frábært.
Að óveðrið hafi verið svo slæmt.
En ég man eftir byl sem stóð yfir í þrjá daga, ekki hálfan sólarhring.
Þá unnu gegnar kynslóðir sjálfboðaliða kraftaverk.
Og hlut hrós fyrir.
Hjá fólki sem vildi vel.
Og lagði fjármuni í að bæta kerfið, að gera dreifikerfið öruggara.
Það trúði á betri heim.
En ekki markaðsvæðingu hans.
Þar er diffinn.
Það var heilt.
En Katrín ekki.,
Kveðja að austan.
![]() |
Viðbragðsaðilar unnu kraftaverk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.9.): 21
- Sl. sólarhring: 637
- Sl. viku: 4835
- Frá upphafi: 1488341
Annað
- Innlit í dag: 20
- Innlit sl. viku: 4190
- Gestir í dag: 20
- IP-tölur í dag: 20
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar