17.12.2019 | 08:59
Kötturinn sem væflar kringum grautinn.
Þarf að átta sig á að lög ráða.
Að lögum þarf að lúta.
Ennþá er hluti Sjálfstæðisflokksins og ritstjóri Morgunblaðsins að reyna réttlæta lögbrot Sigríðar Andersen fyrrum dómsmálaráðherra þegar hún skipaði vildarvini og flokksvini í Landsrétt, og notað um leið tækifærið að hefna harma á pólitískum andstæðingi sínum.
Ásamt því að gera upp einhverjan kíting innan dómarastéttarinnar.
Ekkert annað gat skýrt þá sem hún handvaldi út, og þá sem hún handvaldi inn.
Uppgefnar forsendur hennar stóðust ekki skoðun, kurteisi að kalla þær rangar, og til að bíta höfuð að skömminni, þá vísaði hún í meintan kynjahalla sem hún sjálf hafði talað gegn þegar hún breytti lögunum 2017.
Dómsmálaráðherra braut nefnilega sín eigin lög.
Hefði hún talið það rangt að svokölluð hæfnisnefnd hefði það hlutverk að skila inn tillögum til ráðherra, eða að aðferðafræði hæfnisnefndar væri óljós, eða jafnvel röng að hennar mati, þá var það hennar að koma breytingum þar um í hin endurskoðuð lög.
Og enn og aftur, það var hún sem stóð að endurskoðun laganna.
Kettirnir sem mjálma nú um að grautinn sé heitur, að núna sé það upplýst að hæfnisnefnd hafi þróað áfram vinnubrögð sín, hvort sem það er fram á við eða skref aftur á bak, virðast ekki skilja að núverandi fyrirkomulag er vegna þess að það er kveðið á um það í lögum.
Og ef framkvæmdarvaldið er ósátt við lögin, þá breytir það lögunum fyrst, áður en það hagar sér á annan hátt.
Annað er andstætt lögum og reglu, kallast lögbrot, og það er dómsstóla að skera úr um það og kveða upp dóma sína.
Það er hvergi gert ráð fyrir því í réttarreglum að slíkt sé hlutverk ritstjóra Morgunblaðsins, barnadeildar Sjálfstæðisflokksins, eiginmanna flokksvina, eða biturra lögmanna út í bæ, sem grípa gæsina til að viðhalda deilum sínum við alla hina dómarana.
Það er ömurlegt að vera vitni af svona gengisfellingu bæði trúverðugleika Morgunblaðsins og þess vits sem stýrir pennum blaðsins.
Það er ömurlegt að upplifa íslensk stjórnvöld að draga lappirnar í svona máli í stað þess a gyrða sig i brók, og gera einu sinni það sem rétt er.
Að fara að lögum, og virða dóma.
Það má ekkert lengur sagði fyrrverandi ráðherra i föstum pistli sínum í Morgunblaðinu, og það er ótækt að dómur komi að utan. Hvar er sjálfstæðið??
Þetta sagði líka þjófurinn sem var gripinn glóðvolgur með sjónvarpstæki í hendinni og brotin glugga að baki sér, nema hann kvartaði reyndar ekki yfir dóm að utan.
Og þeir sem kvarta yfir dómi að utan, geta hreinlega lagt til að landið segi sig frá Evrópuráðinu, segi bless við samfélag evrópskra lýðræðisríkja.
En á meðan það er ekki gert, þá virða menn þær skuldbindingar sem þeir hafa gengist undir.
Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að sagan segir að alræðisöfl, hvort sem þau eru fasísk eða kommísk byrja oft atlögu sína að lýðræðinu með því að vega að sjálfstæði dómsstóla.
Þess sjást nú þegar teikn, bæði í USA og Evrópu.
Ekki að slíku hafi verið að dreifa hér, aðeins gamaldags vildarvina og flokksspilling.
En það skýrir dóminn að utan, sjálfstæði dómsstóla á að verja.
Einn daginn munum við þakka fyrir þennan dóm.
Það er ef við höldum sjálfstæði okkar og lýðræði.
Stjórnmálastétt okkar er þegar í stríði við hvorutveggja.
Það sást á afgreiðslu orkupakka 3 síðasta sumar.
Þá vorum við svo aum að við höfðum ekki kraft til að láta reyna á sjálfstæði dómsstóla með því að sækja þá til saka sem brutu bæði lög og stjórnarskrá.
Og ljóst er á svona fréttaflutningi að styrkur Morgunblaðsins er lítill annar en að tuða yfir heimi sem var, þegar ráðherrar riðu um héruð, og verk þeirra voru hafin yfir vafa.
Af er sá tími þegar blaðið stóð vörð um sjálfstæði þjóðarinnar, eða þar á undan, barðist gegn erlendum yfirráðum og ritstjórar blaðsins eggjuðum menn til dáða.
Reykjavíkurbréfið er að verða lítið annað en einkamálgagn Donalds Trumps og Borisar Johnsson, þægileg leið þegar ekkert er að segja um sitt eigið samfélag, eða það sem kannski verra er, að ekkert má segja um sitt eigið samfélag.
Mjá, mjá.
Mjá, mjá.
Grauturinn er heitur.
Kveðja að austan.
![]() |
Horfið frá reiknileið í dómaravali |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.12.2019 | 13:25
Sumir koma ofanaf fjöllum.
Allar spurningar Miðflokksmanna eru góðar og gildar.
Vantar kannski eina, til Guðna forseta hvort hann hefði einhverja glóru hvað markaðsvæðing orkukerfisins þýddi þegar hann skrifaði undir orkupakka 3??
Guðni var nefnilega að leika góða, svakalega hissa gæjann í kvöldfréttum sjónvarps í gær, sem hann kannski mætti ef hann hefði ekki notað tækifærið og hæðst að landvarnarfólki þegar hann skrifaði undir markaðsvæðingu orkukerfisins, og það stjórnarskráarbrot að afhenda ESB yfirráð orkunnar, svo öruggt væri að allar sértækar aðgerðir í þágu landsbyggðarinnar yrðu dæmdar ólögleg markaðsinngrip.
En ég spyr Miðflokksmenn á móti.
Í hvað landi hafið þið dvalið síðustu 17 árin eða svo, eða frá því ESB reglugerðin var innleidd í íslensk lög, sem hvað á um skiptingu Landsvirkjunar uppí gróðafyrirtækið Landsvirkjun, sem vissi ekkert hvað það ætti að gera við peninga sína, og hið bláfátæka fyrirtæki Landsnet, sem situr uppi með allan kostnaðinn af dreifkerfinu.
Og hvernig gat það farið framhjá ykkur að hið bláfátæka fyrirtæki gerði ekki neitt, sem er einmitt einkenni þeirra sem eiga ekki bót fyrir boruna á sér.
Og hvernig fór markaðsvæðing fjarskiptakerfisins framhjá ykkur??
Engin skylda, engin ábyrgð, önnur en sú að græða og græða og græða.
Sama hvað orðið græða er skrifað oft, hvergi birtist orðið ábyrgð, sú ábyrgð að halda landinu öllu í sambandi.
Eða voruð þið ekki fæddir þegar frjálshyggja síðustu tveggja, þriggja áratuga ákvað að skera niður alla opinbera þjónustu á landsbyggðinni??
Þannig að víða er hún álíka auðn og var á þjóðveldisöld þegar aðeins var einn opinber embættismaður á landinu, lögsögumaður. Og hann fékk ekki laun.
Hví ekki að axla ábyrgðina og segja fyrstir flokka.
Við skömmumst okkur.
Og við biðjumst afsökunar.
Biðjumst afsökunar á Vigdísi Hauksdóttur og öllum öðrum niðurskurðarhnífum sem hafa tengst Miðflokknum, jafnt hjá honum eða þegar við vorum í Framsóknarflokknum.
Við biðjumst afsökunar á rænuleysi okkar og hjárænuleysi.
Að við skulum hafa talað um dægurmál á þingi á meðan innviðir landsins voru látnir grotna niður.
Hvort sem ábyrgðin var bein vegna niðurskurðarhnífanna, eða óbein vegna markaðsvæðingu frjálshyggjunnar.
Og fyrst Miðflokkurinn væri byrjaður, þá gæti hann í leiðinni beðist afsökunar á þeirri aðför að lífskjörum og afkomu sjávarbyggða sem Gunnar Bragi Sveinsson stóð fyrir á sínum tíma með heimsku sinni að setja viðskiptabann á Rússa.
Einna þjóða sem tók mark á sýndarleiknum.
Aðeins þá, aðeins þá, verða spurningar Miðflokksins trúverðugar.
Jafnvel svo trúverðugar að flokkurinn eignast á einhvern hátt þann trúverðugleika, að honum væri trúandi til að sýna aðra breytni í ríkisstjórn en þeir flokkar sem þar sitja.
Jafnvel tekið upp á þeim Undrum, margfalt undarlegri en Fróðárundrum, að standa við kosningaloforð.
Og það jafnvel fleiri en eitt.
Orð kosta nefnilega ekkert.
En trúverðugleiki er dýr.
Og það þarf að vinna fyrir honum.
Kveðja að austan.
![]() |
Óska eftir svörum og gagnrýna RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.12.2019 | 09:40
Saklaus dregur ekki í efa.
Hann lýsir yfir sakleysi sínu.
Og ef hann er undir hjá dómstól almennings og hann á undir að sá dómsstóll dæmi rétt, þá sannar hann sakleysi sitt.
Eitthvað sem Samherji hefur heykst á.
Björgólfur er skynsamur maður og veit þetta.
Því annað er svo foráttuvitlaust.
Hann hefur lýst því yfir að varlega verði stigið til jarðar, og ekki snúist til varnar fyrr en öll kurl eru komin til grafar.
Sem er svona svipað eins og málfarið í setningunni hér að ofan, heiðarleg tilraun til að svæfa fólk.
Það má vera að það sé taktískt gagnvart norsku fjölmiðlum að draga í efa, og gefa í skyn að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað í Namibíuviðskiptunum.
En það er alls ekki taktíkst gagnvart íslenskum almenningi.
Hann hefur séð gögn, á móti fær hann orð og fullyrðingar.
Og jú, það hefur tekist að sýna fram á að sannleiksatriði eru aukaatriði hjá Helga krossfestara, tilgangurinn sé að krossfesta, en það breytir samt ekki staðreyndum málsins hvernig sá hugsar sem sýnir þær.
Áróðursstríð Samherja er það illa rekið að það bendir óneitanlega til þess að þar sé fátt til varnar.
Þú segir til dæmis ekki að sóknaraðilar þínir hafi handvalið tölvupóst án þess birta þó væri ekki nema einn sem gæti hugsanlega varpað öðru ljósi á málið og skotið þar með stoðum undir fullyrðingar þínar.
Jafnvel orðið örvænting nær ekki að lýsa svona vörn.
Um margt er staða Samherja farin að minna á stöðu stráksins sem var ásakaður um að hafa gert honum Lúkasi meint, og fyrir utan hús hans var kominn múgur með nagla og spýtur.
Ekkert gat bjargað honum nema eitt.
Það að Lúkas skyldi á síðustu stundu koma skoppandi að múgnum, geltandi, dillandi rófunni.
Þá var nöglunum og spýtunum skilað í Byko, og DV fann sér nýtt fórnarlamb.
Það er spurning hvort þetta sé varnartaktík Samherja.
Að þegar múgæsingin sé í hámarki, að koma þá með gögn sem varpa öðru ljósi á málið og gætu stutt þá fullyrðingu að æðstu stjórnendur hafi verið í góðri trú.
Og þá sé vonast eftir að múgurinn lyppist niður og skammist sín.
Veit ekki.
Ég held samt að það sé enginn Lúkas í þessu máli.
Það kemur samt í ljós.
Kveðja að austan.
![]() |
Dregur mútugreiðslur í efa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2019 | 22:26
Hvers eigum við sem þjóð að gjalda??
Að vitið í ráðherrastól, og þá er barnavæðing Sjálfstæðisflokksins ekki afsökun, sé ekki meira en það að fyrstu viðbrögð innanríkisráðherra sé að segja; "Grundvallaratriðið að það sé varaafl!!".
Þessi orð eru sögð á því herrans ári 2019, en ekki uppúr miðri síðustu öld, þegar bláfátæk þjóð réðst í það stórvirki að koma upp díselrafstöðum víða um land sem varaafl.
Varaafl sem bjargaði því sem bjargað varð í rafmagnsleysinu sem fylgdi í kjölfar ósköp venjulegs vetraróveðurs, þó þau vissulega hafa verið sjaldgæfari á þessari öld eftir að það fór að hlýna í heiminum.
Af hverju hvarf þessi grundvallarþekking og hugsun úr úr orðaforða ráðamanna okkar, af hverju þurfti þetta óveður til að þeir uppgötvuðu þessi sannindi??
Eigum við kannski von á því að næsti krakki komi í viðtal og segi, "óveður sýndi okkur fram á hvað rafmagn er mikilvægt í nútíma þjóðfélagi", eða jafnvel að það sé tekið viðtal við ráðherra við kertaljós, og hann dásemi þá uppfinningu sem kallast eldur, að það hafi verið merkur maður, eða mannapi sem lærði að temja hann?
Viti borið fólk, fullorðið fólk, fólk með ábyrgð, spyr einnar grundvallarspurningar; af hverju var ekki varafl víðar??
Síðan spyr hann sig, hvað er að kerfi okkar síðustu 2 áratugi að ekkert, og þá segi ég ekkert, hefur verið gert til að tryggja raforkuöryggi á landsbyggðinni heldur það sem fyrir var látið drabbast.
Og hann axlar ábyrgð, viðurkennir að sökin sé hans, og allra þeirra flokka sem hafa komið að landsstjórninni síðustu 2 áratugi, sem og þeirra flokka sem ekki hafa komist í ríkisstjórn, en hafa enga tillögu lagt fram á Alþingi um tafarlausar aðgerðir og úrbætur.
Allt annað er að leika skoffín.
Allt annað er háð og spott gagnvart fórnarlömbunum.
Okkur, fólkinu í hinum dreifðu byggðum landsins.
Vissulega má kenna regluverki Evrópusambandsins um þegar það krafðist að Landsvirkjun væri skipt upp, og tekjulaust brandarafyrirtæki sem kallað er Landsnet var klofið út úr Landsvirkjun, og látið bera ábyrgð á dreifikerfinu og uppbyggingu þess.
En það voru stjórnmálamenn sem samþykktu regluverkið, og það eru stjórnmálamenn sem síðan hafa ekki sagt orð um aðgerðarleysi Landsnets á sama tíma sem allt þjóðfélagið er algjörlega orði háð tölvutækni og rafmagni, og fer því sem næst á hestaöld þegar rafmagnið fer.
Það er vegna þess í hjarta sínu eru þeir sammála hugmyndafræði Evrópusambandsins að íbúar hinna dreifðu byggða eigi sjálfir að standa undir kostnaðinum af uppbyggingu dreifkerfisins, en ekki njóta hagnaðarins af orkusölunni til stórnotenda. Þó verður raforkan sem seld er, ekki til í höfuðborginni, heldur í hinum dreifðu byggðum, í landinu okkar sem við búum öll í.
Og þessi hugmyndafræði mannvonskunnar, þessi frjálshyggja um markaðinn og þeir einir eigi að njóta orkunnar sem borga best fyrir hana, var geirnegld með samþykkt orkupakka 3 með stuðningi allra flokka nema Miðflokks og Flokki fólksins.
Markaðsvæðing þýðir að enginn ber ábyrgð á sínum minni bróður eða hinum dreifðu byggðum, markmið regluverksins er einn sameiginlegur evrópskur orkumarkaður, og orkan fer þangað þar sem best er boðið.
Þess vegna rjúka kamínur núna út í orkuríkum löndum eins og Noregi og Svíþjóð, hinn venjulegi maður hefur ekki lengur efni á að kynda húsin sín af neinu viti þegar kuldaköst ganga yfir löndin.
Vissulega eru hinar dreifðu byggðir ennþá tengdar, en það er ekki markaðnum að þakka, heldur búa menn að tengingum sem var komið á þegar kerfið var rekið á samfélagslegum forsendum, þar sem aðgangur að orku var talinn grundvallarréttur.
Sú hugsun var innbyggð í kerfið alla síðustu öld, eða frá því í árdaga rafvæðingarinnar.
Elliðaá var virkjuð og hitaveita lögð í Reykjavík til þess að allir hefðu aðgang að rafmagni og hita, jafnt kaupmaðurinn sem og þvottakonan, svo ég vitni nokkurn veginn orðrétt í Jón Þorláksson, fyrsta formann Sjálfstæðisflokksins.
Það var þverpólitísk sátt um hið samfélagslega hlutverk orkukerfisins, og það sem við eigum í dag, er þeirri hugsun áa okkar að þakka.
Þeim datt ekki í hug að markaðsvæða orkuauðlindir þjóðarinnar, þó einhverjir hefðu getað orðið moldríkir á að selja okkur hinum orkuna.
Til þess er orkan of mikilvæg samfélaginu, og hún átti að vera á viðráðanlegu verði svo hún væri allra, og hún átti flæða um landið, jafnt til sjávar og sveita, í þéttbýli sem og dreifbýli.
Varaaflið er þeim að þakka.
Dreifikerfið er þeim að þakka.
Ekki stjórnmálamönnum dagsins í dag.
Þeirra eina verk, hefur verið að eyðileggja samfélagssáttina.
Og innleiða regluverk sem kveður á markaðsvæðingu orkuauðlindarinnar, þar sem regluverkið frábiður öll ríkisafskipti, frábiður hina samfélagslegu sátt að orkan sé þjóðarinnar.
Að orkan sé allra.
Látum samt þennan illvilja vera.
Horfum jafnvel framhjá að ráðherrar okkar og ríkisstjórn tóku "hagsmuni braskara og fjárglæframanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar ".
En svona hræsni, nýbúin að innleiða regluverk Evrópusambandsins, og svona fávisku, eins og þetta fólki hafi búið á tunglinu alla sína ævi, og viti ekkert, nákvæmlega ekkert um hvernig lífið gengur fyrir sig á landsbyggðinni, eða hvernig hinn stanslausi niðurskurður hefur leikið innviði þar, þar eru mörk sem á ekki að hleypa þessu ógæfufólki yfir.
Það er ekki veðrið sem í raun skyldi eftir slóð eyðileggingarinnar, það er það sjálft, verk þess og flokka þeirra í núna hátt í 2 áratugi.
Það er ekki flóðinu að kenna þegar flóðgarði sem er ekki haldið við, brestur.
Öll hin jákvæðu orð ráðherrana í dag eru örugglega vel meint.
Og vitið er örugglega ekki meira en guð gaf, og þekkingin eftir því.
En þetta eru bara ekki neinir vitleysingar, þeim er bara nákvæmlega sama.
Og það má jafnvel fá atkvæði út á hina fölsku samúð.
Mér er minnisstætt að eftir að snjóflóðin féllu fyrir vestan, þá hvað þáverandi forsætisráðherra það vera harmleik sem ekki mætti endurtaka sig.
Og hann lofaði að þorpin yrðu endurreist, og hann lofaði að fjármagn yrði sett í sérstakan sjóð sem sæi um uppbyggingu snjóflóðamannvirkja.
Hann stóð svo við orð sín, þá vissi maður að samúð hans og harmur var ekta.
Mannvirkin hafa þegar bjargað, og ekki hvað síst, veita mörgum byggð vörn sem áður var ekki til staðar, þar á meðal í minni heimabyggð.
Hann grét ekki krókódílatárum, hann vottaði ekki falska samúð, eða tjáði yfirgengilega vanþekkingu og heimsku.
Hann tjáði harm sinn og þjóðarinnar, og sagði síðan hvað þyrfti að gera, og að það yrði gert.
Hann var ekki með blóðugar axlir, nýbúinn að skera niður kerfið sem átti að vernda innviði, sem átti að tryggja öryggi til frambúðar.
Það var einfaldlega engin vörn til, engin opinber sjóður sem fékk öruggt fjármagn til að kosta varnarmannvirki, það var ekkert sem hægt var að skemma með því að markaðsvæða í þágu alþjóðlegra fjárfesta og braskara.
Þann dag var ég stoltur af ríkisstjórn minni og stjórnvöldum.
Ég finn ekki fyrir því stolti i dag.
Og því miður þá skammast ég mín ekki einu sinni fyrir þetta fólk.
Það er ekki þess virði.
Kveðja að austan.
![]() |
Grundvallaratriði að það sé varaafl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2019 | 15:54
Fólkið sem kann ekki að skammast sín.
Mætir núna í lopapeysum í fylgd barna, og þykist vera svakalega hissa á afleiðingum áratuga stefnu þess að brjóta niður innviði landsbyggðarinnar.
Svo hissa að það sá tækifærið til að ná kastljóst fjölmiðlanna með því að tilkynna stofnun þjóðaröryggisráðs, sem er eitthvað stofnanaheiti þegar það kemur saman og lætur taka mynd af sér í lopapeysum.
Það er eins og það hafi aldrei lesið bænaskjölin sem koma ár eftir ár frá sveitastjórnum á landsbyggðinni, landshlutasamtökum og öðrum sem málið varða, og eru neyðaróp um að allt sé fyrir löngu komið í óefni, annars vegar vegna stöðugs niðurskurðar og hins vegar að það er ekki fjárfest í stoðkerfinu sem nauðsynlegt er til að reka nútíma þjóðfélag.
Það er eins og það hafi fyrst heyrt af þessu í gær að hlutirnir væru ekki í lagi og það kæmu vond veður á Íslandi.
Þess vegna er gott að rifja upp bókun Húnaþings vestra sem sagt var frá á Mbl.is undir fyrirsögninni: OPINBERIR INNVIÐIR HAFA ALLIR BRUGÐIST.
Ekki sumir, heldur allir, og síðan er ömurleikinn talinn upp;
" að sveitarfélagið hafi verið rafmagnslaust í rúmlega 40 klukkustundir. Hluti þess sé enn ekki kominn með rafmagn og ekki sé vitað hversu lengi það ástand vari. Verulegt tjón hafi jafnframt orðið hjá íbúum.
Það er algerlega óviðunandi að grunnstofnanir samfélagsins, RARIK, Landsnet og fjarskiptafyrirtækin hafi ekki verið betur undirbúin og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aftur á móti voru Björgunarsveitirnar og Rauði krossinn, sem rekin eru í sjálfboðavinnu, vel undirbúin og komin með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á, segir í bókuninni. Þar kemur einnig fram að óásættanlegt sé að tengivirkið í Hrútatungu hafi verið ómannað þrátt fyrir yfirlýsingar Landsnets um annað. Gerir sveitarstjórnin þá grundvallarkröfu að á svæðinu sé mannafli sem getur brugðist við með skömmum fyrirvara.
Ríkisútvarpið er einnig sagt hafa brugðist algjörlega þegar horft er til öryggishlutverks þess. Dreifikerfi RÚV lá niðri víða í sveitarfélaginu og náðust sendingar illa eða alls ekki. Almennri upplýsingagjöf til íbúa um stöðu og horfur var ekki sinnt. Litlar sem engar fréttir bárust frá Húnaþingi vestra þrátt fyrir að veðuraðstæður væru hvað verstar á þessu svæði og útvarpið nær eina leið íbúa til að fá upplýsingar. Þá segir í bókuninni að grafalvarlegt sé að engin starfsstöð lögreglu sé á svæðinu, auk þess sem lýst er yfir áhyggjum yfir því að engin varaaflstöð sé við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga. ".
Þessi hnignun er alls ekki bundin við Húnaþing vestra þó ástandið þar sé sérstaklega slæmt.
Í raun má segja að valdið í Reykjavík hafi sagt landsbyggðina úr lögum við íslenska ríkið, öll stoðþjónusta er markvisst skorin niður, með því markmiði að í raun sé hún aðeins veitt úr Reykjavík.
Á sumu bera stjórnvöld beina ábyrgð, á öðru er ábyrgðin óbein eins og ohf væðing Rarik og fleiri ríkisstofnanna.
Að ekki sé minnst á evrópsku reglugerðina sem skar á tengslin milli orkuframleiðslunnar og dreifkerfisins, skar á tekjustreymið sem var hugsað til þess meðal annars að nútímavæða dreifikerfið þegar orkusamningar til stóriðju færu að skila arði til Landsvirkjunar.
Afleiðingin er fjársvelt dreifikerfi sem er að stofni til byggt af mun fátækari samfélagi um og uppúr miðri síðustu öld. Byggðalína á til dæmis á aðeins rúm 2 ár í að verða fertug, það er yngsti hluti hennar, flestar díselrafstöðvarnar eru mun eldri.
Vissulega var veðrið vont, en það koma reglulega vond veður á Íslandi.
Það þarf að gera ráð fyrir þeim og innviðirnir þurfa að þola þau þó eitthvað rask sé alltaf óumflýjanlegt.
En það sem við eigum til að reka nútímaþjóðfélag á ekki að stofni til að vera frá dögum afa okkar og ömmu, eða foreldra okkar ef við erum sjálf komin á virðulegan aldur.
Samfélag okkar er ríkt, en annað mætti halda þegar fjárfestingar til framtíðar eru skoðaðar.
Sem og að hugarfarið er stórmengað af skaðlegri hugmyndafræði.
Mengun sem sýndi sig dagana eftir Hrunið haustið 2008, þá var ein fyrsta fréttin að sjómokstur yrði því sem næst aflagður í Árneshreppi. Brothættasta byggð landsins sem bar enga ábyrgð á fjármálabraskinu öllu saman, en krónurnar sem spöruðust taldar mikilvægar til að bjarga fjárhag ríkisins.
Einnig má minna á að Hrunið var notað sem afsökun eða tylliástæða til að ráðast að áratuga uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni og það stórskaddað.
Undir kjörorðinu; "þjónustan suður".
Og núna rúmum 10 árum frá Hruni, þegar tekjur þjóðarbúsins hafa aldrei verið eins miklar, þá lifir þetta kjörorð góðu lífi.
Meðal annars hjá núverandi ríkisstjórn.
Og það bendir ekkert til þess að breyting verði þar á.
Þess vegna er löngu tímabært, að kjörnir fulltrúar okkar landsbyggðarinnar, segi núna, af gefnu tilefni, við fólkið sem kann ekki að skammast sín.
"Skammist ykkar".
Því stundum þarf að segja sannleikann.
Kveðja að austan.
![]() |
Fjarskiptamálin eru svo sér kapítuli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2019 | 09:45
Bretum ofbauð svikin.
Þau svik að gefa þjóðinni kost á að kjósa um aðildina af Evrópusambandinu, og taka svo Brussel á niðurstöðuna þegar aðildinni var hafnað.
Brussel er andlýðræðislegt batterí sem játar lýðræðinu aðeins af nafninu til, svindlar ekki í kosningum eins og var í Sovétríkjunum forðum daga, en virðir aðeins niðurstöðuna ef hún er jákvæð.
Annars er fundin hjágönguleið sem hundsar Nei, hundsar höfnun.
Breska stjórnmálaelítan var viss um að þjóðin myndi segja Já, en þegar hún tapaði, þá var strax leitað leiða til að vinna gegn niðurstöðunni, makkað með Brussel um einhverja afarkosti í viðskiptum, kennt við útgöngusamningi, eða stöðugt klifað á að þjóðin yrði að greiða aftur atkvæði, og þá kjósa rétt.
Jafnvel stuðningsfólki Evrópusambandsins ofbauð þessi vinnubrögð, og það skýrir þennan afgerandi sigur Borisar Johnsson.
Sigur sem er ennþá sterkari ef það er haft í huga að Íhaldsflokkurinn var ekki einhuga að baki Borisar, elítan, hið hefðbundna aristókrata vald sem átti flokkinn í raun, vann gegn honum allan tímann í kosningabaráttunni.
Hér á Íslandi hefur verið bent á svipuð svik, þar sem þvert gegn fyrri yfirlýsingum og opinberri stefnu fyrir kosningar, ákváðu stjórnarflokkarnir að framfylgja stefnu Viðreisnar og Samfylkingarinnar í orkumálum þjóðarinnar, það er fremja þau landráð að afhenda stofnun Evrópusambandsins, ACER, yfirráð yfir orkuauðlindum þjóðarinnar.
Þvert gegn vilja þjóðarinnar og margur hefur trúað því að þjóðin myndi refsa í komandi kosningum.
En það er ansi ólíklegt.
Vegna þess að andófið gegn orkupakkanum leitaði aftur inní flokkana sína og er þar stillt og þægt.
Miðflokkurinn fær aukið fylgi vegna orkupakkamálsins, en í raun er ekkert sem bendir til þess að flokkurinn hefði ekki gert nákvæmlega sama hlutinn ef hann hefði verið í ríkisstjórn, og Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu. Og Framsóknarflokkurinn hefði þá haldið ræður Miðflokksmanna.
Andófið gegn orkupakkanum hefur ekki leitað útí stofnun alvöru stjórnmálahreyfingar sem gerir upp við stjórnmálastéttina og svik hennar við sjálfstæði þjóðarinnar.
Við erum á leið inní Evrópusambandið, eða réttara sagt við erum komin þar í fast hjáleigusamband, en það á eftir að segja okkur það.
Það á bara eftir að tilkynna innlimunina.
Boris Johnsson hefur hins vegar lengi verið á móti aðild Breta af Evrópusambandinu og í krafti þeirrar andstöðu, náði hann völdum í Íhaldsflokknum, og vann síðan þennan sögulegan sigur.
Hann náði að virkja andúð þjóðarinnar á svikum og brigslum og þeirri vanvirðingu þeirra sem eiga stjórnmálin, að hundsa svona beint vilja hennar.
Breska þjóðin hafði einhvern sem hún gat treyst til að standa við orð sín.
Engu slíku er til að dreifa hér á Íslandi.
Og andófið er svo aumt að það tjáir óánægju sína með því að lýsa stuðningi við annað hvort flokk frjálshyggju og atvinnurekana, Viðreisn, eða flokk frjálshyggju og upplausnar, Pírata.
Eitthvað sem vitiborið fólk getur ekki samsinnað sig við.
Kýs því ennþá nauðbeygt eitthvað sem það telur illskást.
Sér engan trúverðugan valkost.
Þess vegna borga svik sig ennþá á Íslandi.
Auðurinn sér til þess að þjóðin hefur ekkert val í raun.
Og enginn í sjónmáli sem er nógu sterkur til að breyta því.
Við erum þjóð án forystu.
Þjóð án leiðtoga.
Þannig er það bara.
Kveðja að austan.
![]() |
Stærsti sigur Íhaldsflokksins í 32 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.12.2019 | 14:28
Böðlarnir sem vógu.
Þá samfélagslegu sátt að orkuauðlind þjóðarinnar ættu að nýta í þágu samfélagsins, að útvega landsmönnum ódýra og örugga orku, votta núna fórnarlömbum sína samúð sína.
Vissulega var Áslaug Arna ekki mikið yngri þegar orkupakki 1 og 2 voru lögfestir en í dag, en hún tók við keflinu, og festi í sessi orkustefnu Evrópusambandsins, framdi þau landráð að afhenda Evrópusambandinu bein yfirráð yfir orkuauðlindum þjóðarinnar, og festi í lög það regluverk sem kveður á um að orka þjóðarinnar eigi að seljast hæstbjóðanda á samneti Evrópu.
Enn og aftur skulum við rifja upp af hverju ástandið er svona í dag;
"Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna. Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregist á langinn að hefja nýjar virkjanir.".
Sameiginleg auðlind okkar er ekki lengur nýtt til að byggja dreifingarkerfi sem svarar kröfum nútímans um orkuöryggi, það kerfi sem við eigum, er leifar frá þeim tíma þegar saman fór viljinn til að virkja, og viljinn til að dreifa orkunni.
Jafnt í þéttbýli sem og dreifbýli.
Vissulega eru börnin í Sjálfstæðisflokknum ekki í beinni ábyrgð fyrir gjörum fyrirrennara sinna, en þau ættu að sleppa krókódílatárum sínum, ástandið á aðeins eftir að versna í hinum dreifðum byggðum landsins með tilkomu orkupakka 3 og 4.
Markaðsvæðing eða braskaravæðing orkuauðlindarinnar mun eingöngu nýtast stærstu markaðssvæðunum, stærstu raforkukaupendunum, en hinar dreifðu byggðir landsins munu ekki einu sinni vera hornreka, þau munu hugsanlega fá einhvern ölmusustyrk í gegnum ríkissjóð, annað ekki.
Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að það var ekki bara rafmagnið sem brást, fjarskiptakerfið hrundi líka.
Markaðurinn er ekki í stakk búinn að koma með lausnir þegar rafmagnið dettur út.
Allt er háð rafmagninu, en rafmagnið er ekki öruggt.
Ekki í aftaka veðrum þegar einmitt er svo mikilvægt að samskiptakerfið sé í lagi.
Það ber enginn ábyrgðina.
Við erum eins og skynlausar skepnur sem getum ekki hugsað eða skipulagt okkur.
Reyndar myndi aldrei svona kerfisvilla koma upp í maurabúum.
En í landi þar sem stjórnmálastéttin hefur selt bröskurum sálu sína, og fest í lög og reglur frjálshyggjunnar, að markaðurinn eigi að ráða og drottna, sú skynlausa skepna, þá mun svona uppákomum aðeins fjölga, ekki fækka.
Með tilheyrandi álag á meikið því það blandast víst ekki vel krókódílatárum.
En við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta.
Við eigum að frábiðja okkur samúð böðlanna.
Við eigum að setja þá af.
Frábiðja okkur stjórn þeirra.
Ef ekki býðst betur þá má semja við eitthvað maurabúið um að lána okkur drottningu sem gæti komið skikk á málin.
Markaðurinn er ágætur en hann á ekki að stjórna okkur.
Hann er tæki til að uppfylla þarfir okkar.
Ekkert annað, ekkert meir.
Það er vinna að tryggja þjóðinni örugga orku sem þolir veður og vind.
Slíkt þarf að vera geirneglt í regluverk okkar, og það þarf vitiborið fólk.
Heilbrigt fólk, skynsamt fólk.
Til að sjá um þá vinnu, til að bera ábyrgð á henni.
Það er ekki svo í dag.
Og hefur ekki verið lengi.
Það er ekki bara raforkukerfi okkar sem hefur drabbast niður.
Það gildir eiginlega um alla innviði þjóðarinnar.
Innviði sem voru byggir upp úr engu meðan þjóðin var fátækt, en getur ekki haldið við þrátt fyrir sögulegt ríkidæmi.
Sem segir einfaldlega það að þetta snýst ekki um fólk eða flokka, þó að öllu að jöfnu sé ekki vænlegt að láta börn eða viðrini stjórna þjóðinni, heldur um sjálfa hugmyndafræðina sem að baki liggur.
Hugmyndafræði auðsins, sjálftökunnar og hins frjálsa flæðis braskaranna, geirneglt í regluverk Evrópusambandsins.
Þess vegna er það lífsspursmál að segja upp EES samningnum.
Þess vegna er að lífsspursmál að segja upp frjálshyggjunni.
Og bakka til þess tíma þegar við vissum að uppbygging og fjárfesting var leiðin að velmegun og ríkidæmis.
Sem og sjálfstæði okkar.
Grátum ekki með böðlunum.
Gefum þeim frekar það frí að öllum sé sama hvað þeim finnst, eða hvað þeir segja.
Þá mun bara ekki rafmagnið flæða.
Kveðja að austan.
![]() |
Allt gert til að koma hlutunum í lag aftur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.12.2019 | 12:14
Sök býtur sekan.
Ekki það að iðnaðarráðherra var líklegast ennþá með snuð þegar regluverk Evrópusambandsins um Orkupakka 1 og 2 var tekið upp, og nær væri Gunnari að spyrja sjálfan sig hvernig hann hefði getað stutt Framsóknarflokkinn eftir að Valgerður Sverrisdóttir leiddi það í lög að skipta Landsvirkjun upp með þeim afleiðingum af raforkuverð á landsbyggðinni snarhækkaði, en sökin er hins vegar alþingismanna í öllum flokkum sem innleiddu regluverk Evrópusambandsins í raforkumálum.
Í kjarna nær Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur að orða það sem miður fór;
"Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna. Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregist á langinn að hefja nýjar virkjanir.".".
Og afleiðingarnar blasa við.
Og áður en skrumflokkar eins og Píratar eða Viðreisn ná sér á flug í gagnrýni sinni, þá megum við ekki gleyma hverjum þeir í raun þjóna og afhjúpuð sig við innleiðingu orkupakka 3; "taka hagsmuni braskara og fjárglæframanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar".
Um alla Evrópu er ljóst að globalfyrirtækin sem hafa lagt undir sig raforkumarkað Evrópu, hugsa aðeins um það eitt að hámarka fjárfestingu sína, eyða sem minnstu í dreifikerfi og afhendingaröryggi til neytenda, nema þá þeirra sem eru allra stærstir.
Munum að almenningur er rafmagnslaus, ekki stóriðjan, og það sama er raunin í Evrópu.
Almenningur er afgangsstærð, gróðinn liggur i samningum við þá stóru.
Almenningur getur ekkert flúið, hann á ekkert val.
Þess vegna er sem minnstu eytt í að þjóna hann, og sem mest er tekið út í arð við selja honum orku.
Svo kemur raunveruleikinn og blæs á alla frjálshyggju.
Afhjúpar að ef enginn ber ábyrgðina, þá sitja samfélög í súpunni þegar aftakaverður ganga yfir.
Af því eigum við að læra.
Og sá lærdómur er ekki að hlusta á kvakið í þeim sem seldu sálu sína fyrir braskaravæðingu raforkukerfisins.
Úrbætur verða aðeins ef kerfið er fellt.
Kveðja að austan.
![]() |
Höfum við ekkert lært? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.12.2019 | 15:47
Götustrákar á þingi
Kallandi "tíkur" í tíma og ótíma væru fyndnir ef eina hlutverk þeirra væri að vera mótvægi við virðuleikann, við valdið, við forréttindin.
Hlutverk sem Píratar hafa gefið sig út fyrir að sinna, og á vissan hátt er slíkt nauðsynlegt aðhald lýðræðinu, svona eins og hirðfíflin voru á tímum konunga miðalda.
Sögðu það sem aðrir veigruðu sig kannski við að segja.
Ekki skal ég leggja dóm á hvort kirkjujarðasamkomulagið sé bitch eða ekki, en þó veit ég að einn þarf að ráða í þingsal, og dónaskapur í garð hans er ekki háttur götustráka.
Heldur dóna.
Upphlaup og æsingur virðist æ meir einkenna framgöngu Pírata á þingi, og í umræðunni út í þjóðfélaginu.
Íslenskt globalfyrirtæki staðið af spillingu í Afríku, þá hlýtur þjóðin, stjórnvöld og fiskiveiðistjórnarkerfið vera gjörspillt, og múgurinn æstur upp til að trúa því samhengi.
Í Svíþjóð þar sem bankar eru staðnir að peningaþvætti og globalfyrirtæki að spillingu, þá benda menn á að kerfið virkar, og þar sæti menn ábyrgð eftir gjörðum og lögum.
Þar hefur ekkert það fífl fundist sem setur samasemmerki milli spillingar globalfyrirtækja og íslenska kvótakerfisins.
En framboðið er nóg af þeim hér á Íslandi, og áberandi er hvað Píratar róa undir.
Píratar róa nefnilega undir upplausn og múgæsingu.
Margoft afhjúpað sig í þá veru en síðasta og alvarlegasta þjónusta þeirra við innlenda og erlenda hrægamma eða braskara er afstaða þeirra í orkupakkaumræðunni.
Þar riðu þeir um héruð og sannfærðu stuðningsfólk sitt um styðja orkupakkann, og að það væri ekki einu sinni þörf á að slá varnagla til að hindra algjör yfirráð Evrópusambandsins yfir orkuauðlindum þjóðarinnar.
Orkuauðlindum sem á að markaðsvæða og hleypa hæstbjóðanda á jötuna með tilheyrandi hækkun rafmagnsverðs fyrir almenning.
Slíkt gera aðeins þeir sem þjóna.
Þeir sem eru á mála.
Og til að átta okkur betur á hve rotnir Píratar eru og hve aumkunarvert fólkið er sem ljær þeim stuðning sinn undir merkinu barátta gegn spillingu, þá er gott að hafa þessi orð huldumannsins Kára í huga, en hann er löglærður maður sem í nokkrum greinum hefur afhjúpað rökleysu og blekkingar stjórnvalda í orkupakkamálinu.
"Enda er þeim sama markaði ætlað að stýra verðinu. Aðildarríkin eiga hins vegar að opna allt upp á gátt. Það er raunar svo að ríkin hafa ákaflega lítið um þetta að segja, eftir að þau hafa innleitt orkupakka þrjú og fjögur. Þá gilda einfaldlega reglur Evrópuréttarins. Í 3. mgr. 3. gr. kemur fram að aðildarríkin skulu tryggja hindrunarlausan aðgang á innri raforkumarkaðnum. Hér duga heldur engin rök í þá veru að einstök ríki geti haft áhrif á lagasetninguna. Markaðsöflin hafa fyrir löngu valtað yfir allt lýðræði í þessu sem öðru og keyra sameiginlegu orkustefnuna bæði í gegnum þjóðþing og stofnanir Evrópusambandsins. Nærtækt dæmi er orkupakki þrjú í meðförum Alþingis. Þar sást greinilega, hafi menn verið í vafa, hvernig jarðýta markaðsaflanna vinnur. Hún mylur undir sig þjóðþingin. Vilji kjósenda er hafður að engu. Stjórnarþingmenn voru eins og tuskubrúður í því máli öllu saman algerlega viljalaus verkfæri. Sýndu fullkominn undirlægjuhátt. Sjaldan hefur vanhæfni Alþingis afhjúpast betur en einmitt þá.
Það sem einkennir orkupakkana alla, er áróðurinn sem í þeim er borinn fram. Þetta er einn samfelldur lofsöngur um ágæti frjálshyggjunnar, markaðsvæðingarinnar og einkaframtaksins. Alls staðar skín í gegn, hversu slæmt sé að opinber þjónusta þvælist fyrir einkaframtakinu. Sannast sagna á texti þessara tilskipana og reglugerða meira skylt við trúarrit [strangtrúaðra] en lögfræði. Svo innblásinn er textinn af fræðum frjálshyggjunnar og kenningum Milton Friedman um óheft frelsi braskaranna. ".
Af öllum þjónum auðvaldsins eru Píratarnir sekastir.
Þeir taka "taka hagsmuni braskara og fjárglæframanna fram yfir hagsmuni þjóðarinnar (neytenda)." svo ég vitni aftur í Kára, og þeirra hlutverk er að afvegleiða umræðuna.
Sjá til þess að Andófið breytist í heilalausan múg sem öskrar á torgum og heldur að leifarnar af borgarastéttinni sé sekt um alþjóðavæðinguna, hið frjálsa flæði Evrópusambandsins, skattaskjólin, einkavæðinguna, þegar allt þetta er markað í regluverk Evrópusambandsins og markaðsöflin sem knýja þetta áfram eru hluti af alþjóðlegu meini, eru sammannlegt vandamál sem þarf að sigrast á ef siðmenningin ætlar að lifa af.
Heilalaus múgur ógnar ekki markaðsöflunum.
Það eitt er víst.
Þar þjóna Píratar vel.
Kveðja að austan.
![]() |
Hótaði að slíta þingfundi vegna framíkalla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.12.2019 | 23:04
Grýla gafst uppá rólinu.
Þegar fólk hætti að trúa á hana.
Því það er þannig með þekkingu, að hún upplýsir, þegar ekki var vitað, afhjúpar þegar röngu er haldið fram.
Það er ótrúlegt að verkalýðshreyfingin með allt sitt fjármagn skuli ekki fyrir löngu hfaa sett á stað óháð rannsókn á verðmyndun afla í sjávarútvegi.
Það er hvorki dýrt eða flókið að fjármagna masterverkefni viðskipta- eða hagfræðinema, og út frá skýrslu þeirra er hægt að ræða málin.
Það er ekki boðlegur málflutningur að segja að útgerðarmenn hafi staðið gegn óðháðri rannsókn, því þá verða þeir bara eins og álfurinn út úr hól, áhrifalausir gagnvart þróun umræðunnar.
Ef það er ekkert að fela, þá upplýsa menn.
Ef eitthvað er óljóst, þá afla menn sér þekkingar.
Ekkert flókið þó þetta virðist mjög flækjast fyrir hagsmunaaðilum í sjávarútvegi.
Það má segja að það sé visst skipbrot fyrir þá að ráðuneytið skuli loks höggva á hnútinn, og athuga þennan verðmun sem vægast sagt virkar skrýtinn því allir selja á sömu mörkuðunum.
Tortryggni í garð útgerðarinnar eykst þegar mál er þögguð eða ekki rædd.
Spurning um hæfni verkalýðsforystunnar vaknar líka þegar aðeins er hrópað, en ekkert gert í að upplýsa.
Þess vegna ber að fagna að ráðuneytið skuli taka að sér að kveða Grýlu í kútinn.
Það er óþarfi að hún sé á rólinu og lýðskrumsöfl noti hana til að ógna sjávarbyggðum landsins á nýjan leik.
Í raun eru sárin ekki gróin eftir samþjöppunartímann á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, eða braskaravæðinguna sem fylgi í kjölfarið þar sem útgerð var aukaatriðið en braskið með kvóta aðalatriðið.
Eftir þau braskaraár var sjávarútvegurinn næstum því gjaldþrota, eigið fé hans næstum því komið á núllið, endurnýjun flota og búnaðar lítil.
Í dag er jafnvægi, skuldir eru greiddar niður, skip og búnaður endurnýjaður.
Og fólkið sem vinnur við sjávarútveginn býr nokkurn veginn við stöðugleika vel rekinna og vel stæðra fyrirtækja.
Arðrán ofurskattlagningarinnar eða kvótauppboð hinnar siðblindu frjálshyggju mun kollvarpa því jafnvægi, enginn mun vita hvort hann haldi vinnunni, hvort byggðin lifi, hvort einhver framtíð er í plássinu,.
Byggðaeyðingin mun fara af stað með tilheyrandi hörmungum.
Það eru grimm öfl, mannfjandsamleg sem fóðra skrumið og múgæsinguna í dag.
Það er óþarfi að hjálpa þeim.
Það á ekkert að vera sem ekki má ræða.
Kveðja að austan.
![]() |
Verðmunur til athugunar í ráðuneytinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.9.): 77
- Sl. sólarhring: 596
- Sl. viku: 4891
- Frá upphafi: 1488397
Annað
- Innlit í dag: 69
- Innlit sl. viku: 4239
- Gestir í dag: 69
- IP-tölur í dag: 69
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar