4.1.2020 | 11:59
Svona fór um sjóferð þá.
Eitt af stóru kosningaloforðum Donalds Trump var að draga Bandaríkin út úr hernaðarátökum í fjarlægum löndum og átti þá við Afganistan og púðurtunnuna í Miðausturlöndum.
Vandséð er hvernig hann getur staðið við það loforð núna þegar hann hefur tendrað þráðinn í púðurtunnunni.
Að segja að hann sé að koma í veg fyrir stríð er álíka öfugmæli og að þú kveikir í púðri til að koma í veg fyrir að það springi.
Það sem verra er að hafi Bandaríkjamenn haft einhverja siðferðislega yfirburði yfir kolbrjálaða hryðjuverkamenn, þá er það vandséð hvernig svo er eftir að þeir drepa leiðtoga annarra ríkja úr launsátri.
Rök Trump, óljósar fullyrðingar um að hryðjuverkið hafi þjónað þeim tilgangi að koma í veg fyrir yfirvofandi og illgirnislegar árásir á Bandaríkjamenn, er endurvinnsla á þeim rökum sem Rumsfeld, þáverandi varnamálaráðherra notaði þegar hans fyrstu viðbrögð eftir árás Sáda á Tvíburaturnana var ákall um að stöðva Alkaida með því að ráðast á Írak. En Saddam Hussein var líklegast sá maður sem sýndi liðsmönnum Alkaida minnstu miskunn, þeir voru réttdræpir hvar sem náðist til þeirra innan landamæra Íraks.
Rumsfeld notaði þessi rök að koma í veg fyrir hryðjuverk á Bandaríkin og bandaríska þegna, tengsl sem hann gat ekki sýnt framá, en urðu að raunveruleika þegar óvinur hryðjuverkasamtakanna var fjarlægður og samtökin fylltu svo uppí tómarúmið í Írak. Síðan kom svo Ríki Íslams og allir þekkja þá sögu.
Af hverju ætti fólk núna að trúa svona fullyrðingum eftir allar lygarnar í kringum innrásina í Írak er spurning sem erfitt er að svara.
Það er augljós trúnaðarbrestur milli Bandaríkjanna annars vegar og fyrrum bandamanna þeirra á Vesturlöndum hins vegar.
Og það er nokkuð öruggt að leiðtogar þeirra ríkja sem hafa talist keppinautar Bandaríkjanna eða meintir andstæðingar, hugsa stíft, hvern myrða þeir næst?
Eins styrkir þetta harðlínuöfl í Íran sem voru á fallandi fæti vegna bágs efnahagsástands, og voru farin að skjóta mótmælendur handófskennt til að brjóta mótmæli þeirra á bak aftur.
Framtíðin er því óviss og öll ríki þurfa að hugsa sinn gang.
Fyrst og síðast spyrja sig hvort þau séu undir það búin að mæta kreppuástandi ef hnökrar verða alþjóðlegum viðskiptum vegna stríðsátaka.
Þegar kól sem mest í kaldastríðinu þá voru byrgi grafin, brúsar og tankar fylltir af olíu, matvælum safnað í geymslur.
Þannig bjuggu einstök lönd sig undir hugsanleg stríðsátök, að eiga matvælaforða og eldsneyti sem dygði einhverja mánuði eða ár.
Íslensk stjórnvöld fara hins vegar hina leiðin, vinna markvisst að því að eyða innlendri matvælaframleiðslu svo landið sé algjörlega háð snurðulausum alþjóðaviðskiptum.
Og mér er til efs að það sé mikill olíuforði í landinu ef allt springur í bókstaflegri merkingu í loft upp við Persaflóann.
Við erum það firrt að við höldum að saga mannsins sem er meira eða minna skráning á stríðsátökum, að henni sé lokið með varanlegum friði.
Sem er fjarri lagi.
Og við eigum að feisa það.
Fyrsta skrefið þar um er að tilkynna Evrópusambandinu að við ætlum ekki að innleiða reglugerðina um frjálst flæði á sýklum og búfjársjúkdómum.
Næsta skrefið er að setja þjóðinni þau markmið að vera sjálfbær varðandi matvæli og orku sem er ekki flókið í þessu tæknivædda landi sem er að springa úr orku með hitann vellandi úr iðrum jarðar.
Auðvita eigum við að vona hið besta, að glóran nái aftur völdum í Hvítahúsinu og hryðjuverkamenn þar verði dregnir fyrir dóm.
En við eigum að búa okkur undir það versta.
Því hvort sem það eru loftslagsbreytingar eða óbærilegur þrýstingur sem leiðir til stríðsátaka, þá er ekki hægt að reikna með friðsemdinni sem er forsenda snurðulausra alþjóðlegra viðskipta.
Hvernig sem fer mun glóbalið deyja enda alltaf galin hugmynd, fullreynd í Sovétríkjunum sálugu.
Við munum upplifa umbreytingaskeið sem vonandi skilar af sér nýjum og betri tímum.
Við munum upplifa átök, það er öruggt, það eina sem er ekki öruggt er hvort við lifum þau af.
Og þá er betra að vera ekki tekinn í bólinu með allt niðrum sig.
Það er raunverulega ekki val.
Kveðja að austan
![]() |
Trump: Komum í veg fyrir illgirnislegar árásir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2020 | 21:38
Hryðjuverk eru hryðjuverk.
Jafnvel þó gerandinn sé vestrænt ríki.
Einkenni þeirra er að vega úr launsátri, drepa til að drepa, valda ólgu og upplausn.
Aukabónus er stigmögnun átaka, og algjör sigur ef afleiðingin er styrjöld milli sjálfstæðra ríkja án þess að nokkur sýnileg ástæða sé til staðar.
Dæmi um slíkt hryðjuverk er vígið á Ferdinand krónprinsi Austurríkis-Ungverjalands í Belgrad sem hratt af stað fyrri heimsstyrjöld, án þess að stórveldi þess tíma höfðu nokkurn áhuga á hernaðarátökum.
Annað dæmi er hryðjuverkamaðurinn sem skipulagði þessa morðárás í Bagdad og tókst að telja Trump Bandaríkjaforseta í trú um að þar hefði hann verið að verki.
Afleiðingarnar eru annað hvort stigmögnun átaka í Miðausturlöndum, eða að hryðjuverkamaðurinn sem grafið hefur um sig í stjórnkerfi Bandaríkjanna, verði handtekinn og sóttur til saka fyrir glæp sinn.
Í augnablikinu er fátt sem bendir til þess.
Hryðjuverkamaðurinn er greinilega það háttsettur að spurningar vakna um hvort hann ráði í raun, eða hvernig á að túlka þessi orð Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna; "að Bandaríkjamenn ætluðu sér að reyna draga úr spennu, nú þegar búið væri að drepa Soleimani".
Orðalag sem jafnvel Osama Bin Laden hefði verið stoltur af eftir árásina á Tvíburaturnana.
Orðalag sem gerir jafnvel Ísraelmenn parnoid eftir handtöku Eichman, hann sagðist jú vera friðelskandi maður og það hefði verið í þágu heimsfriðar að safna gyðingum saman í útrýmingarbúðum, og útrýma þeim.
Öfugmæli fáránleikans sem enginn tekur mark á nema byssum aftökusveitar alræðisstjórnarinnar sé miðað á hann.
Eða þannig var það til skamms tíma, núna er víst til það heimskt fólk að það trúir vannærðum bónda í Norður Kóreu sem vestræn sjónvarpsstöð tekur í viðtal og spyr hann um ástandið og stjórnarhætti kommúnistaflokksins.
Trúir honum þegar hann dásamar hungrið og leiðtogann mikla, Kim Il Sung.
Líf bóndans er undir, en vandséð hvað liggur að baki heimskunni hjá þeim sem er ekki ógnað en kjósa að trúa samt öfugmælunum.
Eftir stendur spurningin, trúir Pompeo sínum eigin orðum, og þá er öruggt að hann er í klíku hryðjuverkamannanna.
Eða er honum ógnað, eða kýs hann að spila með á meðan hann veit ekki hver samsæri þeirra er útbreitt í innsta valdakjarna ríkisstjórnar Donalds Trump.
Þar liggur efinn, og hann liggur líka hjá bandamönnum Bandaríkjanna hjá Nató, að ekki sé minnst á leiðtoga annarra velda sem eðli málsins vegna eru í samkeppni við Bandaríkin um völd og áhrif.
Hafa hryðjuverkamenn tekið yfir ríkisstjórn Bandaríkjanna??
Eða hafa þeir bara hreiðrað um sig og verður ekki úthýst á meðan Trump fattar ekki muninn á hryðjuverkum og stjórnvaldsaðgerðum.
Fattar ekki muninn á lögmætu stríði, eða drápum á leiðtogum annarra ríkja úr launsátri.
Á þennan efa mun reyna næstu daga.
Ef enginn verður dreginn til ábyrgðar í Bandaríkjunum þá er ljóst að hryðjuverk eru hluti af stjórnarstefnu ríkisstjórnar Donalds Trump.
Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, því leiðtogar annarra ríkja vita ekki hver er næstur á dauðalista hryðjuverkamannanna.
Sem og ef bandamenn Bandríkjanna þegja, þá er ljóst að annað hvort eru þeir of hræddir, eða þeir viðurkenna hryðjuverk sem lögmætan verknað.
Úr vondu er að ráða.
Eina ráðið sem ekki kemur til greina er samt að samþykkja hryðjuverk.
Hvort sem það er með þögninni, eða óbeinum eða beinum stuðningi.
Lýðræðisöfl í Bandaríkjunum þurfa stuðning heimsbyggðarinnar.
Með því að segja Nei við hryðjuverkum.
Annað er bein ávísun á ófrið sem aðeins magnast.
Og jafnvel bakgarður okkar mun ekki sleppa.
Kveðja að austan.
![]() |
Spurningin bara hvenær stríð brjótist út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2020 | 17:11
Náttúran skákar manninum
Þegar fréttir berast af því að loftslagshörmungar kveikja í Ástralíu, að eitthvað sé það vont, að maðurinn hafi ekki gert betur.
Og þegar við hugsum útí áramótaávarp brosandi stelpunnar sem sagði ýmislegt, en hætti samt ekki að brosa þegar hún minntist á hinu grænu skatta góða fólksins, þá sér maður firringuna sem auðurinn og hið skítuga fjármagn hefur kostað svo að maður skyldi ætla að velmeinandi fólk hljómar eins og erkifífl.
Regnskógarnir brenna af mannavöldum, og þeir brenna líka í Ástralíu.
Sökin er margslungin en ljóst er að þegar hið skítuga fjármagn fékk góða fólkið í Evrópu að setja í reglugerð að blanda matvælum í olíu, þá féll ekki aðeins heimskan, það er mörk hennar, heldur líka þau landsvæði sem hagkvæm eru í framleiðslu á lífeldsneyti sem reglugerð Brussel hrópar á.
Landsvæði sem kennd eru við regnskóga þegar ég var ungur, en í dag eru metin og vegin eftir því hvort maðurinn hafi brennt stærri svæði en náttúran.
Þvílík er firring heimskunnar.
Það grætur enginn regnskóginn á meðan hörmungarnar eru meiri annars staðar.
Og enginn spyr, hvað hefði gerst ef regnskógurinn hefði ekki verið höggvinn.
Hvað þá á Íslandi þegar græni skatturinn á að bjarga heiminum.
Eða gefa fordæmi um hvernig á að bjarga heiminum.
Nema að náttúran brennur.
Og mannanna heimska fær engu þar um breytt.
Samt mætti Brussel brenna.
Það hægir kannski á öðrum bruna þegar reglugerðirnar brenna.
Eyðingu til tjóns en lífi til heilla.
Kveðja að austan.
![]() |
Meira brunnið í Ástralíu en í Amazon |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2020 | 11:05
Fíflið er ekki Trump.
Hann aðeins erfir þá heimsku að þegar Saddam var felldur, að þá tóku trúbræður Írana yfir.
Megafíflið var Rice, þáverandi trúnaðarráðgjafi Bush, sem sagði að Írakar ættu rétt á lýðræði, og vísaði í sögu Bandaríkjanna, þar sem svartir þurftu að berjast fyrir sínum atkvæðisrétti.
Nema að lýðræðið í Írak kýs Íran.
Persaflói er sprengjutunna.
Og ólíkt öðrum stjórnvöldum sem Vesturlönd hafa fjármagnað andstöðu við, eins og Líbýu, Sýrland og Írak, sem reyndar var ekki aðeins fjármagnað, heldur ráðist inní, þá er Íran öflugt ríki, tiltölulega stöðugt, og núverandi valdhafar gefa ekki eftir völd sín án mótspyrnu.
Og það þarf fávita til að sjá ekki það samhengi.
Íran er ekki Sýrland.
Trump erfði hið vanheilaga bandalag Nató og Tyrklands í Sýrlandi, og allir vita hvaðan kaupmáttur Ríkis Íslams kom.
Saudi Arabía hefur fjármagnað hryðjuverk í fjöldamörg ár, hvort sem það er árásin á Tvíburaturnana, mannskæðar árásir í Evrópu eða ólgan í löndunum sunnan við Sahara.
Trump erfði þetta og hefur ekki beint snúist gegn þessu.
Þar til að hann réðist á Íran með því að sprengja Bagdad.
Gerði sig samsekan.
Missti sakleysi sitt.
Undirliggjandi eru viðskipti hans við Sáda.
Þau hafa gert hann ríkan, en slíkt ríkdæmi er markmið miðaldamanna í Riyhad.
Kaupa sér stuðning, fávita sem líta framhjá þeirri staðreynd að til skamms tíma var það opinberlegt kennslubókarefni í grunnskólum Sádi Arabíu, að kristið fólk væri réttdræpt.
Trump er dæmi um slíkan fávita.
En hann kom ekki Íran til valda í Bagdad.
Þar voru á ferðinni Rumsfeld og Bush, Rumsfeld í bissness og Bush eins og hann var.
Viðskiptin voru þau að aldrei hefur stórveld sett eins mikla fjármuni í einkageirann eins og ríkisstjórn Bush gerði eftir innrásina í Írak.
Það er staðreynd að herinn fékk innan við 40% af þeim útgjöldum.
Gróðinn var einkafyrirtækja og þræðirnir voru stuttir í æðsta valdalag stjórnkerfis Bandaríkjanna.
Trump fótar þekkt spor fávita heimssögunnar.
Hann leitar stríðs þegar hinn valkosturinn fyrir andstæðinga hans, er líka stríð.
Sem er ekki gáfulegt.
Ekki frekar en að leika rússneska rúllettu.
Hvað gerist veit enginn.
Hvort sem það er stigmögnun átaka eða eitthvað heljarjafnvægi sem heldur friðinn.
Sagan segir stríð.
Raunveruleikinn segir að Íranir nái sáttum við Trump.
Niðurstaðan er sjálfsagt eitthvað þar á milli.
Kveðja að austan.
![]() |
Alþjóðasamfélagið bregst við árás Bandaríkjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.12.2019 | 23:06
Þegar hið augljósa er ekki sagt.
Og annað gefið í skyn, þá fær fólk að lesa svona frétt.
"Kynferðisbrotum í jafnréttislöndum fjölmörg", hvað sem það þýðir, er gefið í skyn að þau eigi að vera fámörg, eða ómörg, eða eins og má lesa úr fréttinni, að þeim hefur fjölgað.
Og þá spyr maður sig, hver eru þessi jafnréttislönd, og hvað í andskotanum hefur gerst í þeim??
Gáfnafarið þarf ekki að vera sérstakt til að skilja að það er verið að vísa í Norðurlönd, og þekking á samtímasögu er ekki einu sinni í flugulíki ef maður fattar ekki að vísað er í breytinguna einu, stórfjölgun innflytjenda.
Sem þýðir að áramótaboðskapur talskonu Stígamóta er að innflytjendur nauðga, stunda sifjaspell og annan ósóma sem kennt er við kyn.
Og ef þetta er ekki rasismi þá veit ég ekki hvað.
En auðvitað veit ég að spjótunum var beint af okkur holdugu miðaldra karlmönnum sem erum hvítir og uppnefndir feðraveldið, sem nauðgar, kúgar og ..... margt annað sem ótalmargir dálkasentímetrar ná ekki að þekja meintar ávirðingar.
Eins og nokkur á mínum aldri segi ekki "já elskan" til að eiga síðasta orðið.
Svona er Ísland í dag.
Eftir sem þú bullar meir því greiðari er aðgangurinn að fjölmiðlum góða fólksins.
Það er að segja ef bullið þjónar höggstað.
Þá er rasismi ekki vík milli vina.
Heldur tæki til að berja á.
Í trausti þess að hið ósagða sé ekki sagt.
En ekki benda á mig.
Ég sagði það ekki.
Hugsaði aðeins upphátt.
Kveðja að austan.
![]() |
Kynferðisbrot í jafnréttislöndum fjölmörg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.12.2019 | 07:40
Ástralía brennur.
Og þetta er aðeins forsmekkur þess sem koma skal.
Á næsta ári á aðeins eftir að hlýna, þurrkar aukast og spurning hvort landið verði byggilegt í mestu hitum.
Svo kemur aðeins næsta ár, og næsta, og næsta.
Og sama hvað margir fara út á götu og segja að heimurinn sé ekki að hlýna af mannavöldum, þá er hann að hlýna, og það er ljóst að við erum að upplifa stigmögnun þess ástands.
Hvort sem Ástralía verður óbyggileg eða ekki þá er ljóst að land sem er að skrælna er ekki líklegt að dæla matvælum á heimsmarkað líkt og verið hefur.
Og ruglandinn í veðurfarinn almennt kemur niður á matvælaframleiðslu heimsins.
Aðeins eitt orð nær að lýsa ástandinu í náinni framtíð.
ÓÖRYGGI.
Og hver eru viðbrögð íslenskra stjórnvalda og íslensku stjórnmálastéttarinnar?
Jú, innleiða evrópska regluverkið um frjálsan innflutning á sýklum, búfjársjúkdómum og afurðum ómennskra stóriðjubúa.
Með einni öruggri afleiðingu.
Ekki óöruggri, engin óvissa í því dæmi, heldur öruggri.
Auðn íslensks landbúnaðar eins og við þekkjum hann í dag.
Svo ég spyr það bara hreint út, fyrir utan siðblinduna að ætla sér slík illvirki gagnvart náunga sínum.
Eru þetta fávitar sem stjórna landinu??
Svona að gefnu tilefni.
Kveðja að austan.
![]() |
Of seint að flýja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2019 | 11:53
Björgunarsveitirnar lifa ekki án flugelda.
Við lifum ekki án þeirra.
Svo hvert er hið raunverulega val??
Að styðja gróðapunginn og skjóta upp aðeins fleirum og stærri, eða styðja þjóðþrifasamtökin og menga minn.
Það er nefnilega ekki hægt að horfa framhjá að flugeldar mengar, og margir hafa ama af þeim.
Þeir eru löstur sem við leyfum okkur aðeins einu sinni á ári.
Syndlausir kasta mörgum steinum þessa dagana og vilja banna löstinn, sem og aðra lesti, vilja heim án lasta.
Eða réttara sagt heim án þeirra lasta.
Í kjarna hafa þeir rétt fyrir sér.
Óhóf í löstum er ekki hollt fyrir einn eða neinn.
Vissulega er gott að skála við forsætisráðherra á gamlárskvöld í koníaki, en verra að gera slíkt alla daga.
Og oft þarf minna ekki að vera verra en meira.
Það er þetta fína jafnvægi sem er heilladrýgst.
Göngum því mishratt um gleðinnar dyr.
En höldum þeim samt opnum.
Líf hinna syndlausu er hvort sem er hundleiðinlegt, annars eyddi þetta fólk ekki svona miklum tíma í að hafa vit fyrir öðrum.
Tuðið sjálfsagt það eina sem forðar því að deyja úr leiðindum.
Munum bara að við hjálpum okkur sem og samfélagi okkar með því að styðja björgunarsveitirnar.
Ef við viljum ekki skjóta, gaukum samt að þeim pening.
Þetta eru hetjurnar, menn ársins, fólkið sem er alltaf til staðar.
Megi hinir syndlausu finna sér annað til að grýta.
Og megi sem flestir koma við hjá þeim ef þeir á annað borð kaupa flugelda.
Þeir eiga það skilið.
Kveðja að austan.
![]() |
Björgunarsveitir lifa ekki án flugelda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.12.2019 | 20:19
Foræðishyggja eða ofríki??
Það hefur einkennt ofstækisfólk í gegnum tíðina að vilja banna náunganum að gera eitthvað sem það gerir ekki sjálft, hvort sem það er af siðferðislegum forsendum eða trúarlegum, sérvisku eða annað.
Ofstækisfólk lútherskunnar bannað dans og dansskemmtanir hér á öldum áður, og ég efa ekki að ef þá hefðu verið til tæki og tól til að mæla vilja, að þá hefði margt frómt fólkið tekið undir þau sjónarmið að banna ungu fólki að dansa og skemmta sér.
Ekki endilega eftir bókstaf trúarkenningarinnar heldur frekar vegna þess síbylja áróðursins var búinn að telja því í trú um að það væri eitthvað rangt við athæfið, og vel meinandi fólk vill þá grípa inní og banna öðrum ósómann.
Þá svona meira eftir anda forræðishyggjunnar, að telja sig umkominn að hafa vit fyrir öðrum.
Að hafa vit fyrir öðrum einkennir forræðishyggjuna og vissulega má segja að oft veitir ekki af.
En spurningin er kannski hins vegar hvort boð og bönn séu besta leiðin, eða á að reyna að upplýsa, fræða, eða reka stífan áróður líkt og gert var í smokkaauglýsingunum??
Stundum virkar ekkert annað en böð og bönn, sbr lögleiðing bílbelta, í öðrum tilvikum er upplýsingin talin betri leið.
En það er stutt frá forræðishyggju yfir í ofríki meirihlutans eða ofríki valdsins.
Ég geri ekki, eða ég er á móti, þá skalt þú ekki.
Ég skýt ekki upp flugeldum, þá skalt þú ekki skjóta upp flugeldum.
Ég drekk ekki gott vín, þá skalt þú ekki drekka gott vín.
Ég get gengið í vinnuna, þá skalt þú ganga í vinnuna.
Og svo framvegis.
Ég held að þessar frænkur tvær, forræðishyggjan og ofríkið skýri þessa niðurstöðu Maskínu, að bæði vilji margir hafa vit fyrir náunganum sem og aðrir sem vilja að náunginn sé eins og hann sjálfur.
Það er eins og enginn sjái það samhengi að það er frjálst val að kaupa flugelda og skjóta þeim upp.
Hafi fólk áhyggjur af mengun, eða óþægindum annarra, þá er besta leiðin að tjá afstöðu sína með því að kaupa ekki flugelda.
Og því fleiri sem hafa þessa afstöðu, því minna ætti að vera skotið upp.
Þá er þetta svona siður sem er deyjandi líkt og slagsmál á sveitaböllum.
Eða fyllerí á Þorláksmessukvöld.
Bandalag ofríkisins og forræðishyggjunnar, að banna, er hins vegar tvíræð leið, því hvað verður bannað næst, og svo þar næst.
Í samfélagi trúarofstækis er fleira bannað en leyft, og á einhverjum tímapunkti gefst fólk uppá slíkum samfélögum.
Þeim er þá haldið saman með kúgun eða ótta, sbr að fólk sem vildi saklausa skemmtun, var talið í trú um að það væri beina leiðin til helvítis.
Að kveðja gamla árið og fagna hinu nýja með því að skjóta upp flugeldum er rótgróin hefð sem er greypt inní þjóðarsálina.
Ef ofstækisfólk ætlar gegn henni með böðum og bönnum, þá hlýtur að koma til átaka.
Ekki með hnefum og hnúum, heldur mun fólk reyna að kjósa gegn ofríki og forræðishyggju, líkt og frændur okkar á Norðurlöndum gerðu þegar þeir kusu gegn ofskattlagningu jafnaðarmanna.
Það var ofstækisfólkið í þeirra röðum sem lagði grunn af ósigrinum.
Það er nefnilega ekki sniðugt að reita hinn þögla meirihluta til reiði.
Þess vegna ættu menn að fara sér hægt um þessa gleðidyr forræðishyggjunnar.
Það hefnist.
Kveðja að austan.
![]() |
Afstaða til flugelda neikvæðari en áður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.12.2019 | 11:47
Víst er til "free lunch".
Svo ég vitni í frægan frasa Milton Freedman sem benti á að það þyrfti alltaf einhver að borga.
Hluti samborgara okkar er þannig gerður að hann vill fá allt en láta sem minnst af hendi.
Og þá er ég ekki að vísa í kjósendahóp Sjálfstæðisflokksins á gullöld frjálshyggjunnar sem við vitum hvernig endaði.
Og ekki er ég að vísa í manninn sem talar um fuss þegar gróðafíkn hans er annars vegar.
Þó ég reikni með að hann fljótur að hringja í björgunarsveitirnar þegar á bjátar.
Heldur er ég að vísa í þennan sprengjuóða sem vill alltaf aðeins stærri köku, aðeins fleiri kökur, en tímir ekki að borga fyrir þetta meira og fer þangað þar sem besti díllinn býðst.
Hvað stendur þá eftir hávaðann, mengunina, sóðaskapinn??
Að ekki sé minnst á fjárútlátin.
Ef enginn er samfélagslegur ávinningur.
Björgunarsveitir okkar gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki.
Þær aðstoða alla óháð stétt, stöðu eða fjárhags.
Og þær þurfa að fjármagna sig.
Þær fjármagna sig vegna þess að stór hluti borgara landsins axlar ábyrgð og beinir viðskiptum sínum um áramótin til þeirra.
Sníkjudýrin fljóta með og fátt við því að gera.
Fjölgi þeim úr hófi þá hrynur kerfið líkt og lífvera sem er undirlögð sníkjudýrum.
Gömul saga og ný.
Við sem einstaklingar höfum stjórn á okkar gjörðum.
Ráðum hverja við styrkjum, gerum okkar til að kerfið gangi.
Við bætum ekki heiminn með því að benda á náungann, við bætum heiminn með fordæmi okkar.
Höfum þetta í huga og sprengjum og sprengjum.
Og biðjum þess að kverúlantar umræðunnar nái ekki að kæfa þennan ósið okkar.
Eitthvað verða vondir að fá að gera.
Heimurinn er ekki bara til fyrir fullkomna fólkið.
Við hin megum líka vera memm.
Kveðja að austan.
![]() |
Kúnninn ræður hvar hann kaupir flugelda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.12.2019 | 16:50
Flugeldar skerða lífsgæði viðkvæmra.
En hve langt mega viðkvæmir ganga til að skerða lífsgæði fjöldans??
Á agnarsmár minnihluti að verja sig, eða á hann að krefjast að fjöldinn hætti sinni háttsemi svo hann megi láta eins og ekkert sé.
Er sem sagt ofríki minnihlutans í góðu lagi því hann er minnihluti?
Spurningar sem ég hef hugsað um frá því að ég frétti að fiski var úthýst í skólamáltíðum á Egilstöðum vegna bráðaofnæmis barns.
Eitt barn, versus heilbrigði fjöldans, fjöldinn upplifði djönk gervimatvælaiðnaðarins svo hið eina barn þurfti ekki að upplifa máltíð með sjálfu sér.
Heilbrigði eins á móti heilbrigði þrjúhundruð.
Og ég hugsaði, ósköp eiga börnin á Héraði auma foreldra.
Svo kom að því að barn með fiskofnæmi kom í heimsókn í Nesskóla, og þá mátti ekki vera fiskur á borðum.
Og í anda gestristarinnar þá var ekkert sagt.
Í raun sami auminginn og Hérarnir í efra.
Lýðskrum rétttrúnaðarins segir að þetta sé í góðu lagi.
Að það megi misþyrma fjöldanum í þágu fárra sem hafa sérþarfir.
Spurningin snýst ekki um að gera þeim kleyft sem eru fáir, að lifa sínu lífi, heldur að fjöldinn hætti að lifa sínu lífi, svo hinir fáu geti haldið sínu striki.
Þess vegna átti til dæmis að banna svínakjöt í skóla rétttrúnaðarins því það var múslimi í bekknum.
Og þess vegna mega börnin, sem við foreldrarnir borgum stórfé fyrir, bæði beint í matarkostnað, óbeint í útsvar, ekki borða fisk því það gæti skaðað einn sem þolir hann ekki.
Fiskur er líklegast hollasti matur sem hægt er að bera á borð fyrir börn, það sem kom í staðinn, pastadraslið úr hvítu hveiti, er tilræði við heilsu þeirra.
En réttur minnihlutans er algjör, réttur meirihlutans er enginn.
En það má alltaf finna ýktara og ýktara dæmi um eitthvað sem örfáir þola ekki, og hvenær eru þá mörkin þar sem fjöldinn getur ekki fórnað sér svo hinir geti haldið áfram sínu lífi?'
Ekki til segir góða fólkið, ekki til segir rétttrúnaðurinn sem hefur hertekið svo margt í samfélagi okkar.
En hvað með drenginn í plastkúlunni, af hverju þurfti hann að dveljast í plastkúlu vegna sýkingarhættu??
Af hverju fékk hann ekki að vera frjáls??
Laus við flugelda, laus við fisk, laus við sýkla.
Lausnin er einföld, við hin þurfum bara að vera í plastkúlu.
Vissulega aðeins fleiri, en so what!!
Er það ekki einstaklingurinn sem hefur réttindin en ekki fjöldinn??
Í dag eru meðal okkar fullt af börnum sem þola ekki veirusýkingar og eiga virkilega erfitt.
Væri það ekki stórt réttindaskref ef þeir sem hæst láta og eru virkilega góðir, og hugsa rétt, að þeir taki af skarið, og lifi í plastkúlu, gefi svona fordæmi fjöldanum til eftirbreytni.
Ég bara spyr, einhvers staðar eru mörk, sem annað hvort þarf að virða eða stiga yfir.
Þeir sem segja fjöldanum að hann sé réttlaus, hljóta að gefa fordæmið, að engin slík mörk séu til staðar.
Annað er tvöfeldni eða hræsni.
Við hin megum hins vegar spyrja okkur, hvar endar réttur hinna fáu, áður hann skerðir rétt okkar hinna.
Þetta er jafnvægi og við eigum að hafa kjark til að ræða það jafnvægi.
Jafnvægi sem segir að það sé rangt að fatlaðir hafi ekki aðgang að sérbílastæðum nálægt inngangi á verslunum og þjónustu, en það er jafn rangt að þeir hafi öll bílastæði, en við hin, fjöldinn, höfum ekkert.
Sem eru öfgar.
En það er eins og öfgar séu smátt og smátt að taka yfir.
Að réttur fjöldans sé enginn.
Að hann eigi alltaf að lúffa, hann eigi alltaf að þegja.
Sem hann gerir alveg þar til hann springur.
Og þá grunar mig að réttur minnihlutans sé það fyrsta sem springur í loft upp.
Því þegar fólk fær nóg, þá fær það nóg.
Kveðja að austan.
![]() |
Flugeldar skerði lífsgæði viðkvæmra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.9.): 6
- Sl. sólarhring: 639
- Sl. viku: 4820
- Frá upphafi: 1488326
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 4175
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar