Dómur kjósenda.

 

Er sá dómur sem dæmir um hvað fólki finnst um störf og stefnu flokka, um framgöngu forystumanna þeirra, hegðun og annað sem fólk leggur mat á.

Kallast lýðræði.

 

Dómur kjósenda er eitthvað sem allir þurfa að sætta sig við.

Bæði þeir sem eru kosnir, sem og þeir sem eru ekki kosnir.

Sem og þurfum við hin að sætta okkur við hvað aðrir kjósa.

 

Við getum haft skoðanir á því.

Okkur getur meir að segja þótt sumt ógeðfellt.

En við þurfum samt að sætta okkur við lýðræðislegan rétt samborgara okkar til að leggja sjálfstætt mat á því fólki og flokkum sem eru í framboði.

 

Annað er andlýðræðislegt.

Fasismi.

 

Slíkan fasisma upplifum við á þingi í dag.

Og við upplifum atlögum fjölmiðla að lýðræðinu.

 

Það sorglega er að mörgum finnst það í góðu lagi.

Svo mörgum að það ógnar lýðræðinu.

 

Því ef það er jarðvegur fyrir fasisma, þá mun hann sá sér, vaxa, dafna.

Margsönnuð sannindi.

 

Og sem þjóð virðumst við upplifa eina slíka sönnun í dag.

Og er það virkileg eitthvað sem við viljum??

 

Er ekki nær að staldra við??

Kveðja að austan.

 


mbl.is Miðflokkur dytti út af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru fullir þessa dagana??

 

Ef við göngum út frá því að Gunnar Bragi sé kominn í meðferð á Vogi, og Borgþór sé hjá sálfræðingi sem útskýrir fyrir honum að hann eigi að skammast sín fyrir orðfærið sem slíkt, en ekki vegna þess að það hafði afleiðingar fyrir hann, að þá er ljóst miðað við umræðuna að röflið á Klaustri hefur breiðst út á Alþingi.

Fólk er farið að bulla út í eitt, kallar á Landsdóm með tilvísun í fyllerísröfl, eða krefst þess að þingmenn víki því þeir hafi hlustað á fyllerísröfl.

 

Svona lætur enginn ófullur maður, en til vara, ef starfsmen Alþingis geti sannað með áfengismælingum að þeir sem röfla úr ræðustól þingsins séu bláedrú, þá hljótum við sem þjóð að upplifa veruleika B-bíómyndanna.

Hvort sem það er einhvers konar innrás utan úr geimnum í anda hinnar gömlu góðu klassíkur, Innrás líkamssjúgarana (Invasion of the Body Snatchers ), eða hreinlega að við séum að upplifa fyrstu einkenni þeirrar veirusýkingar sem kennd er við uppvakninga. 

Hvort sem er, þá er full ástæða fyrir embætti sótvarnarlæknis að setja húsið við Austurvöll í sóttkví, og ekki sleppa þingmönnum fyrr en ljóst er að röflið hafi runnið af þeim án þess merki sé um utanaðkomandi veirusýkingu.

 

Því það er ekkert eðlilegt við þetta röfl lengur.

Og það er álitamál hvort toppar lágkúruna, ríkisútvarpið sem útvarpar ruglinu, eða þeir sem rugla í trausti þess að þeir komist í ljósvakamiðla fyrir vikið.

 

Þingmenn voru vissulega staðnir að verki, en í einkalífi sínu, ekki á opinberum vettvangi.  Og til þess þurfti einbeittan brotavilja einstaklings sem lagði sig fram um brjóta öll ákvæði nýsamþykktra löggjafar Evrópusambandsins um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins.

Alþingismenn geta ekki samþykkt slíka löggjöf, og síðan þegar blekið er varla þornað, nýtt sér slíkan einbeittan brotavilja til að klekkja á pólitískum andstæðingum sínum.

 

Hver eru skilaboðin til landsmanna, má brjóta lög, ef þú telur að tilgangurinn helgi meðalið??  Má ég til dæmis ræna næsta banka ef ég tel hann hafa innheimt ólöglega vexti, með rökum að ég ætli að deila út ránsfeng mínum með meintum fórnarlömbum vaxtaránsins??

Eða hver eru skilaboðin til okkar foreldranna sem erum að reyna okkar besta til að fá börn okkar til að skilja að þau mega ekki taka upp myndbönd og dreifa á netinu, ef viðkomandi myndbönd koma illa við einhvern, séu særandi eða meiðandi á einhvern hátt.

Er allt leyfilegt?? 

Nýtur enginn friðhelgi lengur??

 

Eða eru það bara þingmenn okkar sem njóta ekki friðhelgi.

Má allt ef þeir eiga í hlut??

Eða má bara sumt, en hvar eru þá mörkin??

 

Viðbjóðslegt tal á erindi til almennings, og það má vel vera.

En hvar liggja mörkin??, er endalaust hægt að velta sér uppúr slíku??

Er munur á ólöglegri upptöku sem sannar slíkt tal, og upptöku þess sem sýnir einbeittan brotavilja til að ná höggi á viðkomandi og allt er týnt til.  Hvar víkur almannaréttur fyrir friðhelginni sem er lögbundin, hvenær breytist upplýsingin í hnýsni og gægjuþörf??

Úr rétti í lögbrot.

 

Gleymum því ekki að það er hvergi tekið fram í hinum nýsamþykktum lögum að þingmenn séu undanþegnir þessari réttarvernd.

Hafi Alþingi talið ástæða til þess, þá hefði það sett slíka undanþágu í lagabálkinn.

Hvorki Alþingi eða aðrir geta samið lög eftirá, fram að því eru lögbrot lögbrot.

Þess vegna til dæmis þýðir ekki fyrir lögregluna að leggja fram ólöglegar hleranir í sakamálum, hversu ógeðfeldur sem ætlaður glæpur er.

Slíkt kallast réttarvernd, og það er talin almannaheill að hún sé virt.

 

Að ganga geng þessum skýru lögum, að svipta þingmenn grundvallarmannréttindi, má telja undir vissum kringumstæðum réttlætanlegt, en hvernig í ósköpunum getur fyllerí á bar, og allt það röfl sem því fylgir, talist vera gild ástæða til slíkra verka.

Að ganga gegn réttarríkinu, að svipa einstaklinginn vernd þess.

 

Fjölmiðlar telja sig oft hafna yfir lögin, og oft af gefnu tilefni.  En slíkt hlýtur alltaf að vera vandmeðfarið, og eftir því sem tilefnið verður léttvægara, þá fjölgar slíkum lögbrotum.  Og slíkt smitast út í samfélagið, ef einn kemst upp með að vanvirða lögin, þá er stutt í að sá næsti telji sér slíkt heimilt.

Og ef þingmenn nýta sér lögbrotin, setja á svið leikrit um meinta hneykslan sína, og ráðast síðan á samþingmenn sína og krefjast afsagnar þeirra, að þá er ljóst að fátt stendur eftir af réttarríkinu.  Skilaboðin út í þjóðfélagið eru skýr, brjóttu lög ef þú telur þig hafa ávinning af því.

Hver verndar lögin ef það er ekki sá sem setur þau??

 

Svona múgæsing er þekkt, og hingað til hefur hún verið kennd við fasisma.

Ekki af því bara, heldur svona voru vinnubrögð þeirra á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar, og allir þekkja afleiðingarnar.

 

Í réttaríkjum, þar sem þingmenn virða lög og reglur samfélagsins, þar er slúður götublaða ekki nýtt til múgæsinga og galdraofsókna.

Þar takast menn á við svona uppákomur eins og siðað fólk.

Og siðað fólk fordæmir svona orðræðu, og bendir viðkomandi á það sé full ástæða til að láta renna af sér, og helst fá sér hjálp svo svona endurtaki sig ekki.

Og siðað fólk virðir viðkomandi þegar þeir að fyrra bragði taka sér leyfi frá þingstörfum, til þess einmitt að leita sér hjálpar.

 

Siðað fólk upphefur sig ekki á kostnað fallinna manna.

Siðað fólk sýnir ekki verra innræti en það sem fordæmir, það fordæmir til dæmis ekki skrílshegðun, með því að hvetja til hennar, eða sýna sjálft slíka hegðun.

Hvort sem það er undir áhrifum eður ei.

Að ekki sé minnst á það að siðað fólk sakfellir ekki samþingmenn sína fyrir orðbragð sem það hefur aldrei látið út úr sér.

 

Margir alþingismenn féllu á þessu einfalda prófi.

Freistnivandi þeirra var of mikill.

Og þeir segjast vera bláedrú.

 

Múgæsingin telur þá mikla menn.

En þeir eru litlir menn.

 

Nema náttúrulega að þeir séu að leika í B-mynd.

Hvað hétu þær aftur??

 

Því ef ekki er það brennivínið sem útskýrir, hvað er það þá??

Hvað er það þá.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Hægt að kalla saman Landsdóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helga Vala, Helga Vala.

 

Ég man fyrst eftir þessari skeleggu konu í mótmælunum á Austurvelli þegar Hrunstjórnin var hrakin frá völdum.

Hún mælti vel, hún trúði á draum okkar allra um betri heim.

 

Svo kom það á daginn, að ég hafði misskilið hana aðeins, að mælskan var henni í blóð borin, en hún hafði áhyggjur af velferð hrægamma og annarra auðmanna sem óttuðust um sinn hlut ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn næði ekki að skrúfa þumalskrúfur sínar nógu þétt á líf og kjör alþýðu þessa lands.

Og helv. hann Davíð hafði umsnúið grasrót Sjálfstæðisflokksins þannig að hann heyktist á að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

 

Hvað yrði þá um ICEsave skuldaþrældóminn, hvað yrði þá um það sem Evrópusambandið og AGS kallaði lán í nauð, en grísk alþýða veit af biturri reynslu að sú náð var aðeins handa bönkum stórríkjanna svo þeir fengu óráðslán sín til baka með fullum vöxtum.

Hvað yrði um þessa björgun hins alþjóðlega fjármagns, eða réttara sagt ofurávöxtun erlendra hrægammasjóða ef Sjálfstæðisflokkurinn springi á limminu??

 

Eitthvað sem fjármagnið lét ekki reyna á.

Tunguliprar stelpur voru því sendar sexý niður á Austurvöll, og æstu upp múginn gegn lýðræðinu.  Katrín, Helga Vala, og einhverjar fleiri sem ég man ekki lengur að nefna, en flottar voru þær.  Og þá er ég að vísa í orð þeirra og æði.

Og fyrir andlýðræðissinna,  mikil framför frá því að fasistar sendu brúnstakka í sömu erindagjörðum í den.

 

Og þetta tókst, Samfylkingin fékk hið róttæka vinstri með sér í stjórn, og þrældómur þjóðarinnar var handsalaður.

En helv. lýðræðið, helv. hann Ólafur, þjóðin sagði Nei, hún gaf ekki eftir lífskjör sín og velferð, og það sem verra var fyrir Helgu Völu og hennar flokk, þá nýtti þjóðin lýðræðislegan rétt sinn til að þurrka þennan taglhnýting auðsins út af þingi.

En aumkunarvert landsbyggðarkjördæmi, þar sem ennþá fannst fólk sem hafði ekki frétt af nýrri öld, og hélt að orðið jafnaðarmaður þýddi jafnaðarmaður, og kaus áfram flokk áa sinna.

Og Helga Vala og hennar flokkur lifði af.

 

Núna mættur margefldur í sömu þjónkun, með sama illvilja handa þjóð sinni.

Það sem útrásarvíkingarnir höfðu ekki styrk til, að gera orkuauðlindir þjóðarinnar að féþúfu, skal knúið í gegn með keyptum leppum allra flokka.

Eins og gerst hefði í gær.

 

Nema að á hjóli tímans má merkja á að Helga Vala er ekki lengur stelpa.

Hún er komin til vits og ára.

Er ábyrg gjörða sinna.

 

En í sama hlutverki og fyrr.

Kveðja að austan.


mbl.is „Geta þau sinnt störfum sínum?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur baðst afsökunar.

 

Loksins, og við skulum alveg fyrirgefa honum að hans fyrsta afsökunarbeiðni hafi ekki verið að biðja þá tugþúsundir samlanda okkar sem hið endurreista fjármálakerfi, á hans ábyrgð, hrakti af heimilum sínum.

Við verðum öll að skilja að það græðir enginn 600 milljarða frá Hruni, ef það er hægt að græða 750-800 milljarða.

Skítt með mæður, skítt með börn, og sannarlega hleraði enginn samræður Steingríms og Jóhönnu þar sem þau hlógu af þessum fórnarlömbum sínum.  Og þar með urðu þessir samborgarar okkar ekki fórnarlömb eins eða neins í okkar augum.

"Óráðssíupakk, kunnu ekki fótum sínum forráð, einstæðar mæður eitthvað sem héldu að þær mættu eiga sitt eigið húsnæði, láglaunapakk", allt orð sem sá les sem hefur fylgst með hugarheimi stuðningsmanna Vinstrigrænna og Samfylkingarinnar og réttlætingu þeirra. 

 

Og ekki skulum við erfa við hann að biðjast ekki afsökunar á sjálftöku þingmanna, enda vita allir sanngjarnir menn, það er fólk sem styður sína menn á þingi í gegnum þykkt og þunnt, að það var Kjararáð sem ákvað þessa sjálftöku.

Skítt með að þingmenn settu í lög formúluna sem gaf þessa niðurstöðu.

Skítt með stöðugleika, skítt með frið á vinnumarkaði.

 

Og allra síst skulum við fara fram á við Steingrím að hann biðjist afsökunar á öllum þeim sviknu loforðum sem voru forsenda þess að margir kusu núverandi stjórnarflokka.

Trúgjarnir geta sjálfum sér um kennt.

Og eitt er að ljúga í kosningum, en fyrst fara menn að ljúga ef þeir halda fram að flokkar stjórnarandstöðunnar hefðu hagað sér á einhvern annan hátt.

Menn biðjast ekki afsökunar á því sem er alsiða.

 

Nei Steingrímur baðst afsökunar á hegðun og orðalagi annarra.

Og á hann heiður skilið fyrir vikið.

Það er stórmannlegt, og lýsir innri manni sem þekkir þó ákveðin mörk sem ekki má rjúfa.

 

Það má líka telja Steingrími til tekna að taka ekki undir aðför Viðreisnar og Samfylkingarinnar að lýðræðinu.

Hann krefst ekki afsagnar þingmanna fyrir fyllerísröfl þeirra, en fordæmir orðfæri þeirra og hnykkir á að þingmenn beri ábyrgð gagnvart Alþingi og þeir þurfi að gæta að virðingu þess, jafnt í einkalífi sem og á opinberum vettvangi.

Og það er ekki bara að hann boði rannsókn, heldur líka að Alþingi leiti sér ráða. 

Og þó það sé viðurkennt að einstakir þingmenn beri ábyrgð á gjörðum sínum og orðum, að þá sé trúverðugleiki Alþingis undir því komið að tekið sé á svona málum í fullu samræmi við alvarleik þess.

Skynsamleg nálgun og líkleg til heilla fyrir þing og þjóð.

 

Og hvað sem verður um þetta Klausturmál sagt, burt séð frá því að um prívat samræður var að ræða, þar sem þurfti skýr brot á lögum Alþingis um persónuvernd, sem bannar meðal annars hlerun og aðrar árásir í einkalíf fólks, við fullorðna fólkið þurfum bara að útskýra fyrir börnum okkar að það er bannað að taka myndir og myndbönd af jafnöldrum sínum og setja á netið án leyfis, að þá er þetta í fyrsta skiptið frá Hruni sem Alþingi biðst afsökunar á einhverju.

Og þessi afsökunarbeiðni gæti verið upphaf af fleirum slíkum beiðnum.

Það gæti jafnvel hugsast að það yrði beðist afsökunar á sviknum loforðum.

 

Að ekki sé minnst á að Alþingi bæðist afsökunar á öllum þeim lífum sem hafa fallið frá Hruni því hagsmunir erlendra vogunarsjóða gengu fram yfir hagsmunum þeirra sem höllum fæti stóðu í samfélaginu.

Þingmenn eru vissulega margir en ef við deilum fjölda hinna föllnu á heildarfjölda þingmanna, þá er ljóst að hver og einn ber ábyrgð á fleiri en einum, og fleiri en tveimur með aðgerðaleysi sínum varðandi fíkn og geðheilbrigðisvanda ungmenna okkar.  Að ekki sé minnst á alla þá sem buguðust undir illmennsku og illvilja þeirra sem fengu frítt spil til að ofsækja skuldara þessa lands.

Gleymum aldrei að ekki ein tillaga um hjálp eða aðstoð  handa skuldurum í nauð, fékk brautargengi hjá Alþingi.  Gleymum því ekki heldur að samt gat illmennskan náð hærri hæðum, úti í hinum stóra heimi er nokkur dæmi þar sem valdhafar hafa verið ákærðir fyrir tilraunir til þjóðarmorðs, eða hreinlega fyrir þjóðarmorð.  Það var jú Alþingi til happs að Hæstiréttur dæmdi gengislánin ólögleg, og bjargaði þar með tugþúsundum úr snörum hinna snaróðu fjárinnheimtumanna.

Og dæmin erum mörg um að þjóðþing eða ráðamenn hafa beðist afsökunar á óhæfuverkum fyrirrenna sinna, en reyndar engin um að þeir hafi beðist afsökunar á sinni eigin óhæfu.

Svo gefum Alþingi smá tíma, 50 ár eða svo, og þetta fordæmi um afsökun, gæti þá verið tilefni til annarrar afsökunar.

 

Ætlumst samt ekki til of mikils.

Eitt er að biðjast afsökunar fyrir hönd annarra, annað er að reyna að bæta úr misjörðum þeirra.

Eða bæta úr sínum eigin misgjörðum.

 

Á meðan ekki er bætt úr krónu á móti krónu skerðingunni þá er líklegast hver einn og einasti maður á þingi, nema kannski þessu úthrópuðu úr Flokki fólksins, lygari og ber ábyrgð á langtum meiri illmennsku en nokkurn tímann felst í að hæðast að fötluðu fólki. 

En höfum ekki áhyggjur af því, góða fólkið styður þessa lygara, og fjölmiðlafólk okkar þiggur pening fyrir annað en að hjálpa fátækum samborgurum okkar í nauð.

Þingmenn okkar munu því ekki finna sig knúna til að axla ábyrgð á sínum eigin gjörðum.

Það er bara svo, og mun seint breytast.

 

En samt, Steingrímur baðst afsökunar.

Persónulega hélt ég að ég myndi aldrei lifa þann dag.

 

Svo ég segi bara.

Megi fleiri samtöl vera hleruð.

Ef það er það eina sem getur sameinað þingheim um eitthvað ærlegt.

 

Biðjum bara til guðs að það sé ekki undantekningin sem sannar regluna.

En þó er ein undantekning betri en engin.

 

Þrátt fyrir allt.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Rannsakað sem siðabrotamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt er að harma.

 

Annað er að bregðast verr við en tilefnið gefur til.

Það er til dæmis ómerkilegt hjá meirihluta stjórnar Flokki fólksins að reka þingmenn úr flokknum fyrir það eitt að sitja hluta úr kvöldi með mönnum sem kunnu tungu sinni fá siðuð mörk.

Slíkt er einfaldlega bara fasismi.

Að krefjast síðan afsagnar þeirra af sama tilefni, er einfaldlega aðför að lýðræðinu.

 

Síðan er full ástæða til að spyrja hver borgaði núna Rúv til að falsa staðreyndir og ljúga uppá fólk??

Við vitum hverjir fjármögnuðu falsflutning stofnunarinnar í ICEsave málinu, en hver hefur hag af þeim lygum að spyrða alla sexmenningana saman undir einn hatt??

Sbr. fréttaflutninginn um að sexmenningarnir sögðu þetta og sögðu hitt. Þeir gerðu þetta og gerðu hitt.  Í hádegisfréttum var til dæmis eftir mjög yfirvegað og skynsamlegt viðtal við Lilju Alfreðsdóttir, fullyrt að sexmenningarnir hefðu talað um að hefna sína á henni, og spurt af hverju??

 

Þetta er fals, rógburður eða þaðan af verra.

Verra ef einhver hefur hag af að veikja stjórnarandstöðuna, og borgar fréttamönnum fyrir þann skollaleik.

 

Það er ekki endalaust hægt að afsaka svona vinnubrögð ríkisstofnunar með þeim orðum að þetta sé hvort sem er heimskt fólk sem fengi hvergi vinnu nema hjá ríkinu.

Í öðrum löndum, sérstaklega þeim sem eru brennd af spillingu auðstéttar, þá vita menn hvað skýrir svona vinnubrögð.

Og það er tími til kominn að áttum okkur á að land okkar er hluti af alheiminum, það gilda ekki önnur lögmál hér en annars staðar.

 

Eða er það ekki?

Kveðja að austan.


mbl.is „Við hörmum öll þessa uppákomu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bætiflákar

 

Eru misjafnir eins og þeir eru margir, stundum réttmætir, stundum minna réttmætir, og jafnvel stundum ekki til staðar.

Og þeir eru misjafnir eftir sjónarhorni þess sem setur þá fram og þess sem metur þá, eftir menningarheimum, eftir stétt og stöðu, eftir stað og stund, að ekki sé minnst á tímann, það sem kannski þótti viðeigandi áður fyrr, er kannski ekki svo vel liðið í dag.

 

Þekktur bætiflákur, sem nær bæði að tjá mismunandi gildi samfélaga og hvernig hlutir breytast í tímans rás, er dómar við hinum svokölluðum ástríðumorðum í Frakklandi í gegnum tíðina.  Kokkálaður eiginmaður, sem kom að konu sinni í ástarleik með friðli sínum, var ekki talinn ábyrgur gerða sinna vegna geðshræringar og yfirleitt sýknaður eða fékk einhvern málamyndardóm sem síðan var lítt framfylgt.  Og það er ekki mjög mörg ár síðan að slíkir dómar fóru að valda almennri hneykslan.  Konum í sömu sporum nutu minni samúðar, og ef þær brugðust við ítrekuðu heimilisofbeldi með því að flýta för eiginmannsins yfir móðuna miklu, þá þóttu þær flögð hin mestu og áttu sér engar málsbætur, bætifláki þeirra var ekki til staðar.

Þar til nýlega, eftir mikil mótmæli, þá var dómur mildaður yfir konu sem skaut eiginmann sinn, því hún upplifði þær aðstæður að það var annað hvort hún eða hann. 

Með öðrum orðum, gamall bætiflákur var að minnka, nýr að myndast. 

 

Úr íslenskri umræðu er mér brennt í minni þegar Ragnar Hall, þá settur saksóknari í Guðmundar og Geirfinnsmálinu, átti þá einu vörn eftir í sjónvarpsviðtali um þetta þekktasta dómsmorð síðari tíma, að hinir dæmdu hefðu ekki verið neinir kórdrengir fyrir, og Ragnar Aðalsteinsson kom með þann bætiflák að þó það væri rétt, þá réttlætti það ekki á nokkurn hátt að klína á þá morðum.

Því þetta var alsiða á árum áður, bæði hér og annars staðar, að ef ekki annað bauðst, eða sá sem var líklegast sekur kom úr efri lögum samfélagsins, að þá var sökudólgur fundinn úr einhverjum jaðarhóp sem átti undir högg að sækja.  Var ekki Lisbeth Salender lespískur djöfladýrkandi, og eru ekki víða í Bandaríkjunum allir svartir sekir ef ekki annað betra býðst??

 

Það er gott að hafa þetta í huga þegar nýjasti bætifláki umræðunnar er krufinn, að það er ekki mjög langt síðan að menn voru taldir fyndnir er þeir gerðu grín af fötluðu fólki, og slíkt grín gerði menn svo fræga að þeir gátu byggt stjórnmálaferil á þeirri frægð. Og orðið borgarstjórar.

Bætifláki þeirra er líklegast að minnihlutahópur getur ekki talið sig fullgildan í samfélaginu nema að hann þoli að það sé gert grín af honum.  Og síðan beri grínistinn ekki ábyrgð á þeim fordómum okkar að skellihlæja við það eitt að meint fyndni byggist á því einu að fetta sig og geifla eins og viðkomandi væri fjölfatlaður.  Og sjálfsagt gengið út frá því að fjölfatlaðir séu alltaf að djóka þegar þeir geifli sig svona.  Þess á milli rétti þeir úr sér og drekki te með okkur hinum.

Og annar bætifláki fyrir viðkomandi grínara og sjónvarpsstöðina sem sýndi sketsa hans á besta útsendingartíma, er að honum skorti bara hugmyndaflug að hafa ekki hermt eftir hreyfingum sels í atriðum sínum, það hefði verið drepfyndið, og jafnvel gert honum kleyft að bjóða sig fram til forseta.  Svo ég misskiljist ekki þá er bætiflákinn hans að hann var ekki nógu góður grínari í gríni sínu á fjölfötluðu fólki, og það útskýrir að í dag höfum við bara forseta sem brást svo reiður við þegar þjóðin hafnaði ólöglegum fjárkröfum breta og Hollendinga með 97,9% atkvæða, að hann skrifaði grein þar sem hann hélt því blákalt fram að faðir minn og tengdafaðir, menn sem höfðu aldrei mátt vamm sitt vita, og alltaf staðið við sínar skuldbindingar, að þeir væru ómerkingar að greiða ekki hinar ólöglegu fjárkröfur hinna erlendu höfðingja.

Hefði þá ekki verið betra að hafa forseta sem hefði haft það hugmyndaflug að herma eftir sel í ítrekuðum grínsketsum þar sem eina grínið var að hæðast að fjölfötluðu fólki??

Veit ekki, ég kaus ekki Gnarrinn í borgarstjórn og ég kaus ekki Guðna Té til forseta enda veit ég ekki til þess að hann hafi beðið allt það fólk sem hann kallaði ómerkinga afsökunar, ekki einu sinni eftir dóm EFTA dómsins.  Hins vegar veit ég að hann fjarlægði greinina úr greinasafni sínu sem er aðgengilegt á netinu.

 

En þó tíðarandi leyfi þá er sumt ekki réttlætanlegt, og hefur aldrei verið réttlætanlegt.

Og verði þér á slíkt, hvort sem þú kemst upp með það eður ei, því ekki eru allir svo lánsamir að vera hleraðir og vaða því áfram í skít sínum og skömm, að þá reynir þú ekki að afsaka þig með einhverjum bætiflákum.

Það er til dæmis engin afsökun fyrir Gnarrinn að hann hafi verið kosinn borgarstjóri út á óverjanlegt grín sitt á fjölfötluðu fólki, eða ríkissjónvarpinu að senda út grínþætti hans með þeim rökum að hann hafi verið svo vinsæll hjá góða fólkinu.

Það er enginn bætifláki í því dæmi.

Þú hringir ekki heldur í fórnarlamb orða þinna, þegar orð þín voru eins særandi og meiðandi og uppkomst á Klausturbarnum, og segir; "sko, þetta var sko ....,", því ef þú getir ekki sagt afsakið, þetta var á allan hátt óverjandi, mér þykir þetta ofboðslega leitt, þá er betur þagað.  

Sumt er ekki afsakað, en það er hins vegar hægt að segja afsakið.

Og helst meina það.

Vonandi mun Sigmundur skilja þetta einn daginn.

 

En fyrst maður er farinn að fjalla um bætifláka, og þá skortinn á þeim, þá megum við heldur ekki sem þjóð, og sem einstaklingur, að láta slæmt fólk komast upp með að upphefja sig á kostnað þeirra sem varð hið óverjanlega á, og nýta sér það í pólitískum hráskinsleik.

Því það er einmitt svona uppákomur sem afhjúpar fólk, hvað það er í raun.

Það eru eðlilega viðbrögð að blöskra, að fordæma það sem er gert, en ærleg manneskja gerir ekki bara það, hún lítur líka inná við og spyr sig hvar henni hefur orðið á, hvar hún getur gert betur.

Slík manneskja þekkist meðal annars á því að hún er ekki fremst í flokki þeirra sem grýta hina syndugu, hún velur ekki svo auðvelda leið fyrir sína eigin syndaaflausn.

 

Ærleg manneskja spyr sig líka hvort hún sé hluti af, eða beri ábyrgð á, einhverju slæmu, einhverri fólsku, einhverju sem er ekki hægt að réttlæta, en er réttlætt með bætiflákum eins og "ég get engu breytt", "þetta hefur alltaf verið svona" eða við verðum að passa uppá fjármagnið og hina ríku.

Hún spyr sig hvort hún hafi verið sofandi, hvort það hafi verið bjálki í augum hennar.  Og hvort hún geti bætt úr.  Ef hún er á þingi.

Því ef svona atburðir hreyfa ekki við þingmönnum, hvað hreyfir þá við þeim??

 

Það er nefnilega þannig að það er ljótt að gera grín af fötluðu fólki, og það sem sagt var og gert á Klausturbarnum er óendanlega særandi.

En það er líka ljótt að halda fötluðu fólki í fátækragildru, og jafnvel við hungurmörk ef aðrar tekjur koma ekki til.

Króna á móti krónu skerðingin er dæmi um fólsku sem ekkert réttlætir.  Það er ekki bætifláki að segja að það þurfi að passa uppá auðinn, að hann þurfi fyrst að fá að sjúga sinn skerf úr hagkerfinu áður en gæðin sem eftir eru koma til skiptanna.

Og það eru allir þingmenn sekir hvað þetta varðar, þeir hafa kyngt óhæfunni.

 

Það mun reyna á þessa þingmenn í dag.

Þeir geta mætt í þingsal og slegið sig til riddara með hrópum og köllum.

Eða þeir geta mætt í þingsal og lagt fram sína afsökunarbeiðni, sinn bætiflák fyrir öll sviknu loforðin, sinn bætiflák fyrir mannvonskuna sem þeir bera beina ábyrgð á.

Þeir geta stutt frumvarp Ólafs Ísleifssonar, hins úthrópaða, um afnám krónutölu skerðingarinnar.

 

Þeir geta sýnt sitt innræti.

Það er ekki til of mikils mælst.

Kveðja að austan.


mbl.is Selahljóðin „líklega stóll að hreyfast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vil ekki skíthæla á þingi.

 

Og þá spyr mig sig hverjir eru skíthælarnir??

Og það þarf ekki að íhuga þá spurningu lengi til að benda á að sá sem gerir grín að hetju, að hann þarf virkilega að athuga sinn gang.  Má jafnvel mæla með meðferð honum til handa.  Eins eiga menn að geta skitið út fólk án þess að kynfæri komi þar við sögu, hvað þá nota typpið á sér sem viðmið.  Síðan er það rosalega sjálfhverft að geta ekki rætt um keppinauta án þess að leggja þeim til allskonar orðaleppa.

Með eða án áfengis, skiptir ekki máli.

 

Síðan er það stærri spurning hvort menn sem hlýða á verða sjálfkrafa skíthælar.  Ef svo er þá erum við margir skíthælar þessa dagana, og án þess að ég vilji vera leiðinlegur, þá voru þeir margir á Austurvelli að mótmæla hinum.

Minnir á hið fornkveðna, brennuvargar vilja mæta skjótt til að hjálpa við að slökkva, hommar í felum hrópa hátt níð um þá sem höfðu kjark að vera ekki inní skáp, og meintir barnaperrar þekkjast oft á háværum hrópum um algjört miskunnarleysi og hámarksrefsigleði gagnvart þeim kollegum sínum sem voru afhjúpaðir.

En Bubbi mun örugglega segja að hann er ekki á þingi.

 

Sem er rétt, en á hann þá ekkert erindi á þing???

Eða byrjar bara skíthælateljarinn að telja þegar þú ert kominn á þing??

Er það þá sem þú verður sekur fyrir það eitt að hafa fengið þér bjór á öldurhúsi með mönnum sem áttu bágt, og þurfa sárlega á meðferð að halda?  Því svona vill enginn vera, hvað segir maður við ömmu sína hinum megin ef þetta er fylgja manns??

 

Eða verður maður sjálfkrafa skíthæll við það eitt að hafa ekki staðið á fætur þegar sorakjafturinn hóf sig á flug??  Veit ekki en ég veit hitt að sorakjöftum myndi fækka mikið ef svo væri.  Hvenær er nóg komið??, en hvenær nær maður að leiða umræðuna frá kuntu og klofi í eitthvað annað??, eða tekur maður fólki eins og það er, og lætur andóf sitt í ljós með því að samsinna sig ekki orðbragðinu??

Veit ekki, hef lent í öllum þessum aðstæðum og þarf því að sætta mig við að vera skíthæll.  Það er bara svo, og þarf því að sætta mig við úthrópanir hinna göfuglyndu, hinna hreinlyndu, þeirra sem hafa alltaf þekkt sitt vamm, og leyfa okkur hinum að vita af því, með góðlátlegum ábendingum, eða þaðan af harðari bendingum, en aldrei fordæmingunni, enda vammlausir inn að beini.

 

Um að gera að benda og benda, slíkt eykur aðeins hreinleikann, vammleysið.

Ekki verra ef vammirnar snerta tveggja manna tal þar sem legið er á hleri.  Enda slíkt alsiða í vammlausum samfélögum þar sem þörf er á að tukta til syndara, skíthæla og aðra þá sem halda að prívatið firri þá einhverja ábyrgð.  Ábyrgð á orðum sínum og gjörðum, enda virðir vammlaus maður ekki landamæri þess sem er einka og þess sem er opinbert.

Hvort sem hann vinnur fyrir Stasi eða rannsóknarréttinn, er Púrítani eða vammlaus Íslendingur, þá veit hann að sumt gerir maður ekki, og  ef eitthvað hrjáir hann, þá er það sú skelfing að í öll þessi ár sem hann hefur fylgst með náunganum, að þá er það fyrst núna sem tækni er komin sem getur mælt hugsanir, og jafnvel drauma. 

Hvað sluppu margir??, sem annars hefðu fengið dóm, bál eða Gulag.  Eða hinn íslenska gapastokk fordæmingar hinna vammlausu??

 

En þetta kallast að missa pistil út um víðan völl, það var bara svo erfitt að segja í fáum orðum að ég væri skíthæll.

Tilefnið var að ef þeir sem hlusta á fyllirísraus eru skíthælar og eiga ekki að vera á þingi, hvað með hina sem lugu beint til að þeir yrðu kosnir á þing??

Hvað með samgönguráðherra okkar sem boðar aukaskattlagningu í formi veggjalda, hvað sagði hann um slíka skattlagningu í aðdraganda kosninganna??

Eða hvað sagði Katrín um einhverja leiðréttingu á þeirri ómennsku sem kölluð er króna á móti krónu??  Eða eru allir búnir að gleyma bréfi Bjarna til gamalmenna, það var ekki langt, en mörgu var logið.

En reyndar logið opinberlega, það þurfti enga hlerun til að afhjúpa falsið.  Kannski liggur diffinn í því.

 

Og er kannski bara ljótt að hæðast að fötluðu fólki, en allt í besta að ljúga að því??  Að ekki sé minnst á að halda kjörum þess við hungurmörkin.

Ekkert skítlegt við það, engir skíthælar sem það gera.

 

Víkjum þá að neyðarópinu sem bergmálar um samfélagið.

Neyðaróp aðstandenda geðsjúkra, neyðaróp aðstandenda fíknista.

Og allt mannfallið. 

Sem mátti hindra, sem má hindra. 

En við notum peningana í annað.

 

Enda hvað er líf á milli vina, hvað eru svik á milli vina?

Skíthælar??, nei, nei, þetta eru stjórnmál. 

 

Og að lokum, hvað með fólkið sem er á þingi og ber beina ábyrgð á tugþúsundir voru hraktir af heimilum sínum eftir Hrunið 2008. 

Að ekki sé minnst á þá sem báru beina ábyrgð á að hrekja þessi tugþúsundir af heimilum sínum.  Með því að loka á allar tillögur sem komu fram um að hjálpa þessu fólki, með því að gefa siðblindum fjármálamönnum veiðileyfi á þetta fólk. 

Verst urðu fátækar fjölskyldur úti, og allra verst einstæðar mæður. 

Mannvonska liðinna alda í hnotskurn.  Í nútímanum, gegn náunga okkar.

 

Nei við mótmælum þeim ekki, við styðjum þessi góðmenni. 

Og tökum undir krókódílatár þeirra yfir hleruðu fyllirísrausi samþingmanna þeirra, ásamt því að við þökkum öllum góðum vættum að okkar fólk var ekki hlerað. 

Reynum samt að toppa vandlætingu þeirra.

 

Enda vammlaus.

Alveg laus við að vera skíthælar.

 

Miklir menn erum við.

Mikil er reisn okkar.

 

Á okkur er alltaf að treysta.

Kveðja að austan.


mbl.is „Vil ekki skíthæla á Alþingi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vá, þeir einu sem höfðu þekkingu til að bæta.

 

En kunnu ekki að grenja, þeir voru látnir fara.

Engin miskunn, engin tækifæri á yfirbót.

 

Glæpurinn líklegast að segja satt, að grátur í beinni breytir engu, allavega ekki fyrir þá sem berjast fyrir lífi sínu, og margir dagar eru í næstu mánaðarmót.

Enda hefur einhver lesið nýlega lesið Reykjavíkurbréf Moggans þar sem Flokkur fólksins hefur verið talinn ógn??

 

Í allri þeirri gerjun sem á sér stað í þjóðfélaginu, í þeirri ógn sem auðvaldinu stafar af uppreisn hinna fátæku, þá þarf ekki einu sinni fornleifafræðing með stækkunargler eða sigti til að finna hin minnstu ummerki um framhald hinna mögnuðu tára. 

Þegar ekkert er að finna, þá er ekkert fundið.

 

En það skal tekið fram að þeir sem þjást ekki af söguþekkingu, að þeir gátu vissulega haldið að tár konu, á tímum MeeToo, væri bylting í sjálfu sér, en það þarf ekki mikið vit, eða mikla söguþekkingu til að vita, að slæm staða fátækra þjóðfélagshópa samfélagsins er afleiðing efnahagsstefnu, hugmyndafræði, og sá sem grætur út fylgi, en er samdauna því kerfi sem gerir fátæka, fátækari, hann breytir engu.

Enda hvað hefur Inga Snædal hjálpað þeim Ragnari, Sólveigu og Vilhjálmi, leiðtogum okkar sem vilja hagsæld þjóðar en ekki bara hagsæld auðs??

Hvað hefur hún sagt orð að viti gegn þeirri yfirgengilegri kúgun sem fjármagnið og frjálshyggjan hefur leitt yfir þessa þjóð??

 

Svarið er ekkert.

En Ólafur Ísleifsson, hafði þó þekkingu og vit til að berjast gegn óhæfunni.

Reyndar það eina sem Flokkur fólksins hafði að segja fyrir utan að við erum aumingjar, og aumingjar eiga að kjósa okkur.

En þó verður sjálfsbjargarhvötin ekki af þeim skafið, sem sáu tækifæri til að láta auðvaldið stjórna sínum fréttaflutningi, smá umbun þeirra gæti alltaf verið í boði.

Smá kastljós, síðan umræða um ekkert, nema þá kannski aukna velmegun þeirra sem létu grátinn koma sér á þing.

 

Ekki ætla ég að mæla fyllibyttum bót.

Og grætilegast var að lesa orðin um eina stærstu manneskju samtímans, hana Freyju okkar sem hefur kennt okkur hinum svo margt. 

Um klámhund þarf ekki að eyða mörg orð, hann var líklegast svo óheppinn að vinna ekki hjá Orkuveitunni, og að vera ekki í Samfylkingunni.  Enginn kattarþvottur honum til handa.

 

Ekkert afsakar samt sannleikann um Flokk fólksins.

Hann átti jú að vera öðruvísi.

 

Hann átti að styrkja og styðja baráttu verkafólks.

Hann átti ekki að láta fjölmiðla auðs og yfirstéttar stjórna sínum gjörðum.

Hann fékk tækifæri, en það tók kannski enginn eftir því.

 

Hann þagði þegar hann átti að styðja.

Og varði þegar hann átti að þegja.

 

Og auðurinn glottir á meðan.

Skál!!

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Karl og Ólafur reknir úr flokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið, sökudólgar og sekt.

 

Hrunið er eins og opin und á þjóðarsálinni þar sem gröftur vellur út.

 

Umræðan um það er ennþá heiftug, bæði á milli fólks, sem og í netheimum, það er einna helst að stjórnmálamenn okkar hafi sannmælst í samsekt sinni að slíðra sverð hinna gagnkvæmu ásakana í trausti þess að þögn þeirra hlífi þeim við óþægilegri umræðu.

Eins má segja um hinn venjulega borgara, að þó margir séu sárir og margir reiðir, þá vill fólk halda áfram með líf sitt, það er þreytt á argþrasinu sem gengur út á það eitt, að verja sitt fólk og kenna öðrum um.

Því það er enginn lærdómur í umræðunni, það er engin sátt í henni, ekki einu sinni sú víðfræga að kenna helv. útlendingunum um.  Og það er engin afsökun í henni, engin fyrirgefning, það er eiginlega enginn sem stendur upp og segir, "mér varð á, fyrirgefið það", og þegar enginn biðst fyrirgefningar, þá er náttúrulega engum hægt að fyrirgefa.

Loks biðu margir stórfellt tjón, það stórfelldasta að öllu, að missa húsnæði sitt, að hrekjast á götuna með börn sín, aðrir töpuðu hluta eða öllum ævisparnaði sínum, enn aðrir misstu fyrirtækin sín, allt vegna atburða og áfalla sem fólk sem slíkt bar enga ábyrgð á.

Og enginn hefur þá reisn að taka umræðuna og gera upp þess atburði á vitrænan og siðlegan hátt.  Jú vissulega einhverjir fótgönguliðar hér og þar, en enginn með vigt og áhrif í þessu samfélagi okkar. 

Hvað þá einhver sem samábyrgðina ber.

 

Á meðan verðum við aldrei heil sem þjóð.

Og við náum ekki samstöðu um neitt, við látum innviði okkar grotna, þrátt fyrir mjög hagfeld ytri skilyrði þá göngum við á höfuðstól eigna okkar, og við erum jafn blind gagnvart leikreglum þess kerfis sem setti okkur á hliðina haustið 2008, og það er jafnöruggt að slíkt mun gerast aftur um leið og hökt kemur á ferðamannastrauminn.

Við sjáum ekki hinn kerfislæga vanda á meðan umræðan snýst öll um persónur og leikendur.  Í sjálfsdrýldni okkar höldum við að Hrunið hafi verið séríslenskt fyrirbrigði, það hafi verið ákveðið mönnum að kenna því þeir gerðu eitthvað, eða gerðu ekki eitthvað, og meðan svo er þá lærum við ekkert.  Það er eins og við skiljum ekki að allt hið vestræna fjármálakerfi féll haustið 2008 og framá sumar 2009, og þegar fræðigreinar og fræðibækur um það kerfishrun eru lesnar, þá er hvergi minnst á Sjálfstæðisflokkinn eða Davíð Oddsson sem einhverja gerendur í að setja þær leikreglur sem giltu á fjármálamarkaðnum, eða aðgerðir eða aðgerðaleysi Davíðs hafi ollið hinu vestræna fjármálahruni.

Eins er það með það sem gerðist eftir Hrun, eins sorglegt og margt af því var.  Þá varð bara þannig að bæði hér og annars staðar voru hagsmunir fjármálakerfisins látnir ganga fyrir við endurreisn þess.  Almenningi var allsstaðar sendur reikninginn, hann var bara mishár eftir hve umfangsmikill vandinn var í viðkomandi landi.  Verstur var skellurinn hjá þeim þjóðum sem lutu forræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og stjórnvöld viðkomandi ríkja áttu fáa aðra valkosti en að dansa með.

Við mættum líka hafa það í huga, að þrátt fyrir allt þá reyndu stjórnvöld, bæði fyrir og eftir Hrun að hamla á móti skaðanum.  Neyðarlögin voru ekkert sjálfgefin, en eftir á er ljóst að þau björguðu því sem bjargað varð. Og í samningunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var reynt að lágmarka skellinn varðandi fjöldaatvinnuleysi, og það var reynt að skerða hlutfallslega minna bætur í bótakerfinu, hvort sem það var til aldraða eða öryrkja.  Hvað það varðar var samningurinn við AGS tímamót hjá sjóðnum.

 

Er þá allt í lagi?

Nei, vissulega ekki.

En við náum aldrei tökum á umræðunni ef við afneitum staðreyndum.

Og ekkert hefst þegar það sem miður fór er rætt, að fólk fái ekki að njóta sannmælis.

 

Eins ættu þeir sem benda sífellt á hina í vörn sinna manna, að íhuga eitt augnablik, að fyrir Hrun var sannarlega aðeins einn stjórnmálamaður sem hafði varann á, og féll ekki fyrir lúðrasveitinni sem bauð uppí dansinn kringum gullkálfinn. 

Og það er Ögmundur Jónasson.  Aðrir voru í fullu að bjóða sig sem stjórntæka með Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnar 2007.

Eins er mjög ólíklegt að þó aðrir flokkar hefðu verið í stjórn eftir Hrunið, það er Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, að þeir hefðu á einhvern hátt gert neitt annað en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gerði.

Það er að standa við samninginn við AGS eftir bestu getu.

 

Allavega, viðurkennum staðreyndir.

Tökum umræðuna.

Og reynum að lenda henni í sátt þannig að allavega sárin grói.

 

Það er þarft verk.

Kveðja að austan.


mbl.is Hrunið ól af sér marga flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill er máttur peninganna.

 

Þeir geta jafnvel fengið faglega stjórnsýslunefnd vega heilu byggðarlögin.

En þeir geta samt ekki fengið fólk til að hverfa.

Og þeir sem eiga lífsafkomu sína undir, þeir ljúga ekki um hluti sem auðvelt er að sannreyna.

 

Það var ákaflega auðvelt fyrir Ruv. að bera fullyrðingar lögmannsins undir heimamenn fyrir vestan, fyrir utan eitthvað sem heitir hlutleysi og fagleg vinnubrögð, þá eru nefgjöld íbúanna þar hærri en þeirra örfáu auðmanna sem standa að aðförinni að byggðinni þar.

Peningar gátu kannski keypt allt fyrir Hrun, en það er ekki svo í dag.

Fólk hverfur ekki, Ruv á ekki að láta lögmann komast upp með að ljúga í beinni útsendingu, og stjórnsýslunefnd á ekki að vera handbendi auðmanna.

 

Ekki í dag.

Það er 2018, ekki 2008.

 

Og við sem eigum heima á landsbyggðinni erum líka fólk.

Alveg satt.

Kveðja að austan.


mbl.is Gera athugasemdir við frétt RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.9.): 429
  • Sl. sólarhring: 718
  • Sl. viku: 4757
  • Frá upphafi: 1490536

Annað

  • Innlit í dag: 317
  • Innlit sl. viku: 4056
  • Gestir í dag: 289
  • IP-tölur í dag: 276

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband