Steingrímur baðst afsökunar.

 

Loksins, og við skulum alveg fyrirgefa honum að hans fyrsta afsökunarbeiðni hafi ekki verið að biðja þá tugþúsundir samlanda okkar sem hið endurreista fjármálakerfi, á hans ábyrgð, hrakti af heimilum sínum.

Við verðum öll að skilja að það græðir enginn 600 milljarða frá Hruni, ef það er hægt að græða 750-800 milljarða.

Skítt með mæður, skítt með börn, og sannarlega hleraði enginn samræður Steingríms og Jóhönnu þar sem þau hlógu af þessum fórnarlömbum sínum.  Og þar með urðu þessir samborgarar okkar ekki fórnarlömb eins eða neins í okkar augum.

"Óráðssíupakk, kunnu ekki fótum sínum forráð, einstæðar mæður eitthvað sem héldu að þær mættu eiga sitt eigið húsnæði, láglaunapakk", allt orð sem sá les sem hefur fylgst með hugarheimi stuðningsmanna Vinstrigrænna og Samfylkingarinnar og réttlætingu þeirra. 

 

Og ekki skulum við erfa við hann að biðjast ekki afsökunar á sjálftöku þingmanna, enda vita allir sanngjarnir menn, það er fólk sem styður sína menn á þingi í gegnum þykkt og þunnt, að það var Kjararáð sem ákvað þessa sjálftöku.

Skítt með að þingmenn settu í lög formúluna sem gaf þessa niðurstöðu.

Skítt með stöðugleika, skítt með frið á vinnumarkaði.

 

Og allra síst skulum við fara fram á við Steingrím að hann biðjist afsökunar á öllum þeim sviknu loforðum sem voru forsenda þess að margir kusu núverandi stjórnarflokka.

Trúgjarnir geta sjálfum sér um kennt.

Og eitt er að ljúga í kosningum, en fyrst fara menn að ljúga ef þeir halda fram að flokkar stjórnarandstöðunnar hefðu hagað sér á einhvern annan hátt.

Menn biðjast ekki afsökunar á því sem er alsiða.

 

Nei Steingrímur baðst afsökunar á hegðun og orðalagi annarra.

Og á hann heiður skilið fyrir vikið.

Það er stórmannlegt, og lýsir innri manni sem þekkir þó ákveðin mörk sem ekki má rjúfa.

 

Það má líka telja Steingrími til tekna að taka ekki undir aðför Viðreisnar og Samfylkingarinnar að lýðræðinu.

Hann krefst ekki afsagnar þingmanna fyrir fyllerísröfl þeirra, en fordæmir orðfæri þeirra og hnykkir á að þingmenn beri ábyrgð gagnvart Alþingi og þeir þurfi að gæta að virðingu þess, jafnt í einkalífi sem og á opinberum vettvangi.

Og það er ekki bara að hann boði rannsókn, heldur líka að Alþingi leiti sér ráða. 

Og þó það sé viðurkennt að einstakir þingmenn beri ábyrgð á gjörðum sínum og orðum, að þá sé trúverðugleiki Alþingis undir því komið að tekið sé á svona málum í fullu samræmi við alvarleik þess.

Skynsamleg nálgun og líkleg til heilla fyrir þing og þjóð.

 

Og hvað sem verður um þetta Klausturmál sagt, burt séð frá því að um prívat samræður var að ræða, þar sem þurfti skýr brot á lögum Alþingis um persónuvernd, sem bannar meðal annars hlerun og aðrar árásir í einkalíf fólks, við fullorðna fólkið þurfum bara að útskýra fyrir börnum okkar að það er bannað að taka myndir og myndbönd af jafnöldrum sínum og setja á netið án leyfis, að þá er þetta í fyrsta skiptið frá Hruni sem Alþingi biðst afsökunar á einhverju.

Og þessi afsökunarbeiðni gæti verið upphaf af fleirum slíkum beiðnum.

Það gæti jafnvel hugsast að það yrði beðist afsökunar á sviknum loforðum.

 

Að ekki sé minnst á að Alþingi bæðist afsökunar á öllum þeim lífum sem hafa fallið frá Hruni því hagsmunir erlendra vogunarsjóða gengu fram yfir hagsmunum þeirra sem höllum fæti stóðu í samfélaginu.

Þingmenn eru vissulega margir en ef við deilum fjölda hinna föllnu á heildarfjölda þingmanna, þá er ljóst að hver og einn ber ábyrgð á fleiri en einum, og fleiri en tveimur með aðgerðaleysi sínum varðandi fíkn og geðheilbrigðisvanda ungmenna okkar.  Að ekki sé minnst á alla þá sem buguðust undir illmennsku og illvilja þeirra sem fengu frítt spil til að ofsækja skuldara þessa lands.

Gleymum aldrei að ekki ein tillaga um hjálp eða aðstoð  handa skuldurum í nauð, fékk brautargengi hjá Alþingi.  Gleymum því ekki heldur að samt gat illmennskan náð hærri hæðum, úti í hinum stóra heimi er nokkur dæmi þar sem valdhafar hafa verið ákærðir fyrir tilraunir til þjóðarmorðs, eða hreinlega fyrir þjóðarmorð.  Það var jú Alþingi til happs að Hæstiréttur dæmdi gengislánin ólögleg, og bjargaði þar með tugþúsundum úr snörum hinna snaróðu fjárinnheimtumanna.

Og dæmin erum mörg um að þjóðþing eða ráðamenn hafa beðist afsökunar á óhæfuverkum fyrirrenna sinna, en reyndar engin um að þeir hafi beðist afsökunar á sinni eigin óhæfu.

Svo gefum Alþingi smá tíma, 50 ár eða svo, og þetta fordæmi um afsökun, gæti þá verið tilefni til annarrar afsökunar.

 

Ætlumst samt ekki til of mikils.

Eitt er að biðjast afsökunar fyrir hönd annarra, annað er að reyna að bæta úr misjörðum þeirra.

Eða bæta úr sínum eigin misgjörðum.

 

Á meðan ekki er bætt úr krónu á móti krónu skerðingunni þá er líklegast hver einn og einasti maður á þingi, nema kannski þessu úthrópuðu úr Flokki fólksins, lygari og ber ábyrgð á langtum meiri illmennsku en nokkurn tímann felst í að hæðast að fötluðu fólki. 

En höfum ekki áhyggjur af því, góða fólkið styður þessa lygara, og fjölmiðlafólk okkar þiggur pening fyrir annað en að hjálpa fátækum samborgurum okkar í nauð.

Þingmenn okkar munu því ekki finna sig knúna til að axla ábyrgð á sínum eigin gjörðum.

Það er bara svo, og mun seint breytast.

 

En samt, Steingrímur baðst afsökunar.

Persónulega hélt ég að ég myndi aldrei lifa þann dag.

 

Svo ég segi bara.

Megi fleiri samtöl vera hleruð.

Ef það er það eina sem getur sameinað þingheim um eitthvað ærlegt.

 

Biðjum bara til guðs að það sé ekki undantekningin sem sannar regluna.

En þó er ein undantekning betri en engin.

 

Þrátt fyrir allt.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Rannsakað sem siðabrotamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góðan pistil.

Haukur Árnason. (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 19:49

2 identicon

Takk fyrir magnaðan pistil Ómar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 20:03

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þennan Ómar, þetta kallast að hitta hann á höfuðið. En við skulum ekki fagna strax, Steingrímur er nefnilega hræsnari dauðans og forseti hræsninnar.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 3.12.2018 kl. 20:23

4 identicon

Mig undrar
stórlega
hvað margir
gerast nú 
snimhendis
og snarlega
heilagir 
í fasi og orðum
þó ekki vilji þeir
kannast við
eigin gjörðir
og vilji 
miklu fremur
og eiginlega
bara eingöngu
biðja þjóðina
afsökunar
á annarra manna
gjörðum.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 20:52

5 identicon

Tveir þingmenn eru reknir fyrir orðbragð annarra og þingforseti biður afsökunar á hegðun annarra. Athyglisvert.

Esja frá Kjalarnesi. (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 21:10

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlit og athugasemdir félagar og takk fyrir að deila ljóði þínu Pétur.

Ég spái því að eftir ekki svo langan tíma, þá mun fólk virkilega spá hvort eitthvað hafi verið sett út í drykkjarvatnið, sem kolruglaði samfélag okkar.

Ég held að hlerað drykkjuraus sé ekki lengur lágkúra dagsins, heldur gægjufíknin og hvernig fólk sem telur sig sjálft þokkalega heilbrigt getur endalaust velt sér uppúr orðum sem því var ekki ætlað að heyra og því kemur í raun ekkert við.

Ekkert af þessu á lengur erindi inní opinbera umræðu, nema lærdómurinn af sjálfsögðu, það er eitthvað mikið að fólki sem leyfir auðnum að rýja samfélag sitt inn að skinni, sem vanvirðir gildi siðaðs fólks, sem leyfir bröskurum að herja á húsnæðismarkaðinn, sem gaf hrægömmum veiðileyfi á náungann.  Þetta er ekki bara hugmyndafræði dýrsins, hún er afleiðing, það þarf einhvern ljótleika í sálinni að leyfa hlutum að æxlast á þá vegu sem þeir hafa gert í fjölda ára.

Það er einhver tómleiki innst inní fólki sem upphefur manneskju sem sagði "there´s no such thing as a society", og ekki bara meinti það, heldur hófst strax handa við að brjóta niður siðað samfélag þar sem frumreglan er að við berum ábyrgð á hvort öðru.

Eða fólki sem heldur að David Attenborough sé falsspámaður.

En þetta er kannski ekki skrýtið, það kæmi mér ekki á óvart að á morgun hafi múgsefjunin magnast svo upp, að fólk trúi því að dónarnir hafi flogið á galdrakústum uppá Heklu til að taka þátt í svallveislu með þeim í neðra, og haft svona í leiðinni með sér nokkur börn til að misnota.

Það er eins og öll heilbrigð skynsemi sé horfin úr umræðunni.

Einmitt þegar þjóðin, líkt og mannkynið allt, hefur aldrei haft eins mikla þörf fyrir hana.

Svo hvað getur maður sagt?

Jú að sjálfsögðu góða nótt, og bráðum koma blessuð jólin.

Þegar eitthvað er orðið ofvaxið skilning manns, þá er best að hætta að reyna að skilja það.

Og segja bara, "mig hlakkar svo til".

Það bregst aldrei.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2018 kl. 23:46

7 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Já, þvílík skynhelgi !

Daníel Sigurðsson, 3.12.2018 kl. 23:58

8 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Já, þvílík skynhelgi !  Og það út af fyllerís röfli.

Daníel Sigurðsson, 4.12.2018 kl. 00:01

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Daníel.

Ég held að þó allt í kringum þessa uppljóstranir sé kolólöglegt, og gróft brot á friðhelgi einstaklingsins, að þá hafi það bæði verið hollt fyrir viðkomandi einstaklinga, sem og þjóð og þing, að þessar upptökur skyldu vera birtar.  Og viðbrögð viðkomandi einstaklinga, að taka sér frí frá störfum, að segjast ætla íhuga stöðu sína, biðja mann og annan afsökunar, eru takt við alvarleik málsins.

Síðan eru viðbrögð skynsams fólks á þingi, eins og Lilju Alfreðsdóttir, besti ungi þingmaður okkar frá því að Lilja Mósesdóttir var þar um skamma hríð, þegar hún kvaðst meta viljann til iðrunar, en benti réttilega á að margt sem sagt hefði verið væri óafsakanlegt, og það myndi örugglega taka langan tíma fyrir viðkomandi að öðlast traust á ný, einnig vera eðlileg.

Og þó ég sé að hæðast dulítið að Steingrími, þá sé ég svo sem ekki alveg hvernig hann hefði getað tæklað þetta mál á annan hátt, svona miðað við tilfinningarótið útí samfélaginu.  Afsökunarbeiðni hans er hugsuð til að koma til móts við bálreiðan almenning, en hann hafði kjarkinn til að standa ístaðið gegn aðför pólitískra loddara að lýðræðinu, það er ekki hlutverk skinheilagra hræsnara að krefjast afsagnar annarra þingmanna vegna hleraðra orða í prívattali, þó á öldurshúsi væri.

Menn geta tjáð hneykslan sína, en hitt er bara lítt dulinn fasismi.

En eftir að þetta mál komst upp, og eftir að viðkomandi báðust afsökunar, og sýndu einhver  viðbrögð um að þeir skildu alvarleik málsins, að þá er þetta máli afgreitt.

Og ef svo er ekki, þá eru það annarlegir hagsmunir pólitískra andstæðinga sem knýr áfram múgæsingarbálið.

Og þeir hagsmunir eru ekki hagsmunir almennings, svo eitt er víst.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.12.2018 kl. 07:13

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Það var jú Alþingi til happs að Hæstiréttur dæmdi gengislánin ólögleg, og bjargaði þar með tugþúsundum úr snörum hinna snaróðu fjárinnheimtumanna."

Þetta er rangt. Hæstiréttur bjargaði engum með þessu. Þvert á móti herti hann snöruna bara aftur að þremur mánuðum seinna og Alþingi setti svo rembihnút á með ÁrnaPáls lögunum. Það varð nefninlega kröfuhöfunum til mikils happs að Steingrímur skyldi vera búinn að lofa þeim að í staðinn fyrir gengistrygginguna yrðu settir svimandi háir "óverðtryggðir vextir seðlabanka Íslands" á þau lán sem undir það féllu, þó í trássi væri við neytendaverndarreglur EES. Það loforð var efnt með "samhentu átaki" (stjórnarskrárbroti) allra þriggja greina ríkisvaldsins. Þá virtust gerendurnir ekki hafa miklar áhyggjur af því að EES samningurinn færi í neitt "uppnám" eins og hefur nýlega verið reynt að gefa í skyn varðandi svokallaðan orkupakka.

Þegar kom svo að því að setja ný lög um neytendalán árið 2012 flutti Steingrímur í tvígang frumvarp til þeirra laga, sem voru bæði í andstöðu við EES samninginn, þar sem í þeim var ráðgert að heimila lánveitendum að veita upplýsingar um kostnað við lántöku án þess þó að tilgreina kostnaðinn við verðtrygginguna. Með miklu harðfylgi tókst Hagsmunasamtökum heimilanna og stuðningsmönnum þeirra að knýja fram breytingu á þessu þannig að upplýsa skyldi um kostnaðinn við verðtrygginguna, sem var svo staðfest ári seinna af EFTA-dómstólnum að væri skylt að gera samkvæmt EES reglum. Þar sem sú lagfæring var ekki afturvirk leysti hún engin heimili úr neinum vanda, en hún leysti þó þingheim frá tilraun til að brjóta EES samninginn. Hún leysti samt ekki Hæstarétt frá því að fullfremja brotið þegar kom að því að dæma um verðtryggð lán úr gildistíð eldri laga um neytendalán, frá því fyrir hrun og umrædda breytingu. Af þeim sem stóðu að því að setja eldri lögin, sem Hæstiréttur taldi að hefðu brotið á sama hátt gegn EES samningnum í 20 ár, situr einn maður enn á Alþingi og er hann nú forseti þess.

Hafa ber í huga að þó bankarnir hafi hrunið 2008 voru framangreind brot ekki framin af þeim, heldur handhöfum opibnbers valds sem hefðu átt að verja almenning fyrir slíkum brotum.

Á þessum umfangsmestu brotum sem framin hafa verið gegn íslenskum almenningi fyrr og síðar, hefur aldrei neinn beðist afsökunar, hvorki Steingrímur né aðrir hlutdeildarmenn hans.

Verst er svo að flestir nýgræðingarnir sem komust inn á þing eftir hrunið, yppa núna bara öxlum og segja "þetta er frá því fyrir okkar tíð" og þykjast ekki geta leiðrétt rangindin.

Þess vegna krefjumst við Rannsóknarskýrslu heimilanna, svo hægt verði að upplýsa um og kortleggja þessa ólöglegu gjörninga og knýja á um leiðréttingar á afleiðingum þeirra.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.12.2018 kl. 14:30

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Við höfum þekkst lengi, og ef ég á að segja þér eins og er, þá held ég ekki að ég hafi lesið magnaðri athugasemd frá þér á mínu bloggi.  Hins vegar á ég nokkra bloggpistla frá þér varðveitta á harða disk mínum, sem voru þess virði að að geyma. 

Mig skorti hinsvegar minni til að gera uppá milli enda munurinn á mér og þér er aldur og heilsa.  Það er langt síðan ég fór inní skuggann og kippirnir mínir verða æ sjaldgæfari og máttlausari.

Þó tel ég samt að þú skautir framhjá þeirri grundvallarstaðreynd, að ef ekki hefði komið til dómur Hæstaréttar, þá hefðu allflestir sem gengislán tóku, verið gerðir uppá staðnum, eða þurft að sæta afarkostum nauðungarsamninganna.

Sem breytir síðan ekki því sem þú raktir réttilega, að Alþingi tók krók á móti bragði, og reyndi að herða hengingarólina sem Hæstiréttur þó slakaði á.

Sem hluti af því var svo dæmdur ólöglegur seinna meir.

En þessi saga snertir ekki þann kjarna að ekkert sem var til bóta, var þingmönnum og ríkisstjórn þessa tíma að þakka.

Og að hamra á því er þakkarvert.

En eiginlega sá ég aðeins einn þingmann, eða tvö sem hefðu hugsanlega tekið undir kröfu um Rannsóknarskýrslu heimilanna, og báðir lentu í þessu gjörningaveðri sem Klaustursmálið þróaðist í.

Ég var löngu hættur að pistla, en ætlaði reyndar að takast á við þá úrkynjun mæðra að taka hag þeirra sem flytja inn, fram yfir lýðheilsu barna sinna, og vísa þá í innflutning á samnefnara hins lægsta í evrópskri matvælaframleiðslu, á Ögurstund mannkyns þar sem gróðurhúsaáhrif eru að snarrugla alla matvælaframleiðslu í heiminum.

En þegar ég áttaði mig á því að eðlileg hneykslan varð vopn í höndum illmenna frjálshyggju og auðs, þá þurfti að snúast til varnar.

Og ég hef allavega markað ákveðna vörn sem ég hef lesið í öðrum pistlum.  Hvort skrif mín breyttu þar einhverju hef ég ekki hugmynd, en þau voru allavega lesin.

Lestur er nefnilega auðlegð, og af einhverjum ástæðum þá virðist fullt af fólki fylgjast með og ná þeim sjaldgæfum augnablikum þegar ég pistla með mínu nefi inní umræðuna.

Ef fleiri en tveir, jafnvel þrír eða fjórir lesa athugasemd þína Guðmundur, og kannski ljóðið hans Péturs í annað eða þriðja sinn, þá finnst mér að þessi orkuþjófur hafi ekki verið til einskis.

Vissulega erum við Örminnihluti í dag, en það er bara þannig, að það sem skiptir máli, og mun að lokum hafa áhrif, og jafnvel breyta miklu, að ekki sé minnst á þann sjaldgæfa mun sem kenndur er við gæfu, að í upphafi sótti það í þetta agnarlitla, þetta agnarsmáa.

Þess vegna er sú vinna sem þú lagðir í að upplýsa, svo mikils virði. 

Maður veit aldrei, en ef ekkert er gert, þá er ekkert vitað.

Hvorki til góðs eða ills.

Þó veit ég að baráttan við Dýrið og þá hugmyndafræði sem það ól af sér, hvernig sem hún er orðuð, sama í hvaða jarðveg menn grófu sínar skotgrafir, að þá er hún alltaf til góðs.

Kallast Von.

Og hún mun fóðra þann styrk sem að lokum mun bjarga framtíð barna okkar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.12.2018 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 73
  • Sl. sólarhring: 166
  • Sl. viku: 1632
  • Frá upphafi: 1321524

Annað

  • Innlit í dag: 62
  • Innlit sl. viku: 1390
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 55

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband