Bætiflákar

 

Eru misjafnir eins og þeir eru margir, stundum réttmætir, stundum minna réttmætir, og jafnvel stundum ekki til staðar.

Og þeir eru misjafnir eftir sjónarhorni þess sem setur þá fram og þess sem metur þá, eftir menningarheimum, eftir stétt og stöðu, eftir stað og stund, að ekki sé minnst á tímann, það sem kannski þótti viðeigandi áður fyrr, er kannski ekki svo vel liðið í dag.

 

Þekktur bætiflákur, sem nær bæði að tjá mismunandi gildi samfélaga og hvernig hlutir breytast í tímans rás, er dómar við hinum svokölluðum ástríðumorðum í Frakklandi í gegnum tíðina.  Kokkálaður eiginmaður, sem kom að konu sinni í ástarleik með friðli sínum, var ekki talinn ábyrgur gerða sinna vegna geðshræringar og yfirleitt sýknaður eða fékk einhvern málamyndardóm sem síðan var lítt framfylgt.  Og það er ekki mjög mörg ár síðan að slíkir dómar fóru að valda almennri hneykslan.  Konum í sömu sporum nutu minni samúðar, og ef þær brugðust við ítrekuðu heimilisofbeldi með því að flýta för eiginmannsins yfir móðuna miklu, þá þóttu þær flögð hin mestu og áttu sér engar málsbætur, bætifláki þeirra var ekki til staðar.

Þar til nýlega, eftir mikil mótmæli, þá var dómur mildaður yfir konu sem skaut eiginmann sinn, því hún upplifði þær aðstæður að það var annað hvort hún eða hann. 

Með öðrum orðum, gamall bætiflákur var að minnka, nýr að myndast. 

 

Úr íslenskri umræðu er mér brennt í minni þegar Ragnar Hall, þá settur saksóknari í Guðmundar og Geirfinnsmálinu, átti þá einu vörn eftir í sjónvarpsviðtali um þetta þekktasta dómsmorð síðari tíma, að hinir dæmdu hefðu ekki verið neinir kórdrengir fyrir, og Ragnar Aðalsteinsson kom með þann bætiflák að þó það væri rétt, þá réttlætti það ekki á nokkurn hátt að klína á þá morðum.

Því þetta var alsiða á árum áður, bæði hér og annars staðar, að ef ekki annað bauðst, eða sá sem var líklegast sekur kom úr efri lögum samfélagsins, að þá var sökudólgur fundinn úr einhverjum jaðarhóp sem átti undir högg að sækja.  Var ekki Lisbeth Salender lespískur djöfladýrkandi, og eru ekki víða í Bandaríkjunum allir svartir sekir ef ekki annað betra býðst??

 

Það er gott að hafa þetta í huga þegar nýjasti bætifláki umræðunnar er krufinn, að það er ekki mjög langt síðan að menn voru taldir fyndnir er þeir gerðu grín af fötluðu fólki, og slíkt grín gerði menn svo fræga að þeir gátu byggt stjórnmálaferil á þeirri frægð. Og orðið borgarstjórar.

Bætifláki þeirra er líklegast að minnihlutahópur getur ekki talið sig fullgildan í samfélaginu nema að hann þoli að það sé gert grín af honum.  Og síðan beri grínistinn ekki ábyrgð á þeim fordómum okkar að skellihlæja við það eitt að meint fyndni byggist á því einu að fetta sig og geifla eins og viðkomandi væri fjölfatlaður.  Og sjálfsagt gengið út frá því að fjölfatlaðir séu alltaf að djóka þegar þeir geifli sig svona.  Þess á milli rétti þeir úr sér og drekki te með okkur hinum.

Og annar bætifláki fyrir viðkomandi grínara og sjónvarpsstöðina sem sýndi sketsa hans á besta útsendingartíma, er að honum skorti bara hugmyndaflug að hafa ekki hermt eftir hreyfingum sels í atriðum sínum, það hefði verið drepfyndið, og jafnvel gert honum kleyft að bjóða sig fram til forseta.  Svo ég misskiljist ekki þá er bætiflákinn hans að hann var ekki nógu góður grínari í gríni sínu á fjölfötluðu fólki, og það útskýrir að í dag höfum við bara forseta sem brást svo reiður við þegar þjóðin hafnaði ólöglegum fjárkröfum breta og Hollendinga með 97,9% atkvæða, að hann skrifaði grein þar sem hann hélt því blákalt fram að faðir minn og tengdafaðir, menn sem höfðu aldrei mátt vamm sitt vita, og alltaf staðið við sínar skuldbindingar, að þeir væru ómerkingar að greiða ekki hinar ólöglegu fjárkröfur hinna erlendu höfðingja.

Hefði þá ekki verið betra að hafa forseta sem hefði haft það hugmyndaflug að herma eftir sel í ítrekuðum grínsketsum þar sem eina grínið var að hæðast að fjölfötluðu fólki??

Veit ekki, ég kaus ekki Gnarrinn í borgarstjórn og ég kaus ekki Guðna Té til forseta enda veit ég ekki til þess að hann hafi beðið allt það fólk sem hann kallaði ómerkinga afsökunar, ekki einu sinni eftir dóm EFTA dómsins.  Hins vegar veit ég að hann fjarlægði greinina úr greinasafni sínu sem er aðgengilegt á netinu.

 

En þó tíðarandi leyfi þá er sumt ekki réttlætanlegt, og hefur aldrei verið réttlætanlegt.

Og verði þér á slíkt, hvort sem þú kemst upp með það eður ei, því ekki eru allir svo lánsamir að vera hleraðir og vaða því áfram í skít sínum og skömm, að þá reynir þú ekki að afsaka þig með einhverjum bætiflákum.

Það er til dæmis engin afsökun fyrir Gnarrinn að hann hafi verið kosinn borgarstjóri út á óverjanlegt grín sitt á fjölfötluðu fólki, eða ríkissjónvarpinu að senda út grínþætti hans með þeim rökum að hann hafi verið svo vinsæll hjá góða fólkinu.

Það er enginn bætifláki í því dæmi.

Þú hringir ekki heldur í fórnarlamb orða þinna, þegar orð þín voru eins særandi og meiðandi og uppkomst á Klausturbarnum, og segir; "sko, þetta var sko ....,", því ef þú getir ekki sagt afsakið, þetta var á allan hátt óverjandi, mér þykir þetta ofboðslega leitt, þá er betur þagað.  

Sumt er ekki afsakað, en það er hins vegar hægt að segja afsakið.

Og helst meina það.

Vonandi mun Sigmundur skilja þetta einn daginn.

 

En fyrst maður er farinn að fjalla um bætifláka, og þá skortinn á þeim, þá megum við heldur ekki sem þjóð, og sem einstaklingur, að láta slæmt fólk komast upp með að upphefja sig á kostnað þeirra sem varð hið óverjanlega á, og nýta sér það í pólitískum hráskinsleik.

Því það er einmitt svona uppákomur sem afhjúpar fólk, hvað það er í raun.

Það eru eðlilega viðbrögð að blöskra, að fordæma það sem er gert, en ærleg manneskja gerir ekki bara það, hún lítur líka inná við og spyr sig hvar henni hefur orðið á, hvar hún getur gert betur.

Slík manneskja þekkist meðal annars á því að hún er ekki fremst í flokki þeirra sem grýta hina syndugu, hún velur ekki svo auðvelda leið fyrir sína eigin syndaaflausn.

 

Ærleg manneskja spyr sig líka hvort hún sé hluti af, eða beri ábyrgð á, einhverju slæmu, einhverri fólsku, einhverju sem er ekki hægt að réttlæta, en er réttlætt með bætiflákum eins og "ég get engu breytt", "þetta hefur alltaf verið svona" eða við verðum að passa uppá fjármagnið og hina ríku.

Hún spyr sig hvort hún hafi verið sofandi, hvort það hafi verið bjálki í augum hennar.  Og hvort hún geti bætt úr.  Ef hún er á þingi.

Því ef svona atburðir hreyfa ekki við þingmönnum, hvað hreyfir þá við þeim??

 

Það er nefnilega þannig að það er ljótt að gera grín af fötluðu fólki, og það sem sagt var og gert á Klausturbarnum er óendanlega særandi.

En það er líka ljótt að halda fötluðu fólki í fátækragildru, og jafnvel við hungurmörk ef aðrar tekjur koma ekki til.

Króna á móti krónu skerðingin er dæmi um fólsku sem ekkert réttlætir.  Það er ekki bætifláki að segja að það þurfi að passa uppá auðinn, að hann þurfi fyrst að fá að sjúga sinn skerf úr hagkerfinu áður en gæðin sem eftir eru koma til skiptanna.

Og það eru allir þingmenn sekir hvað þetta varðar, þeir hafa kyngt óhæfunni.

 

Það mun reyna á þessa þingmenn í dag.

Þeir geta mætt í þingsal og slegið sig til riddara með hrópum og köllum.

Eða þeir geta mætt í þingsal og lagt fram sína afsökunarbeiðni, sinn bætiflák fyrir öll sviknu loforðin, sinn bætiflák fyrir mannvonskuna sem þeir bera beina ábyrgð á.

Þeir geta stutt frumvarp Ólafs Ísleifssonar, hins úthrópaða, um afnám krónutölu skerðingarinnar.

 

Þeir geta sýnt sitt innræti.

Það er ekki til of mikils mælst.

Kveðja að austan.


mbl.is Selahljóðin „líklega stóll að hreyfast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Það er gott fyrir þá Hæstvirtu að geta iðrast og bæta fyrir gjörðir sínar. Það er best að gera það gjörðum sínum og eins og þú segir í niðurlagi pistils.

Það væri einnig órkandi að það kæmi bylgja á stað þar sem kerfið liti í sinn barm og bæti fyrir það sem það hefur gert gagnvart sinni þjóð og þá vil ég helst nefna dómskerfið.

Eftir hrun hefur dómskerfið, hinir Háttvirtu" unnið gegn þegnum sínum og beitt óréttlæti í garð þeirra sem áttu húseignir og misstu til fjármálakerfisins eftir hrunið. Óréttlæti sem felst í því að aldrei hafa þeir litið til laga um Neytaandalán í dómun sínum um ólögleg lán fjármálakerfisins. Það eru "Háttvirtir" þingmenn,  forustusauðir,kerfisfólk sem hjálpuðu fjármálakerfinu að knésetja tug þúsunda heimila sbr. grein eins fórnarlamms .https://kvennabladid.is/2018/11/26/valdnidsla-embaettismanna/

Eggert Guðmundsson, 3.12.2018 kl. 10:16

2 identicon

Takk fyrir þennan góða pistil.

Merkilegur er bætifláki Guðna Thorlaciusar að telja sig nú betri mann að fjarlægja eigin grein úr safni sínu.

Er hann þannig að að reyna að moka yfir eigin skít? 

Þegar Ólafur Ragnar hætti, þá afhenti hann allt sem hann hafði skrifað og leyndi engu.

Nú höfum við hins vegar forseta sem læðupúkast til að fjarlægja greinar, er þetta hinn mikli sagnfræðingur sem hann þykist vera?  

Hvað mun hann þá ekki fjarlægja einnig?

Nei, þjóðin mun aldrei geta átt skjól hjá forseta sem er þeirrar gerðar að hagræða sannleikanum, manni í felum með eigin verk, velur bara það sem henti heilagleika sínum hvrrju sinni sem væri hann hannaður á markaðsstofu kynningar og almannatengla.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 10:23

3 identicon

Jú, Guðni Thorlacius sagði víst um alla sexmenningana, og undanskildi þar engan, að sér hefði ofboðið virðingarleysið.  Við hverja?  Þá sem þurftu að þola?  Þá sem kusu þá, eða þá sem kusu hann og felur nú, undanskilur, greinina sem afjúpaði hann?  Sagnfræðingur sem hagræðir hlutunum er ekki góður sagnfræðingur.  Ekki góður dómari og spurt er: forseti hverra?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 10:49

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Það er þannig að svona uppákomur eins og sú sem varð á Klausturbarnum eiga að hafa afleiðingar, og það eru allavega ærlega viðbrögð að taka sér leyfi frá þingmennsku og reyna að vinna eitthvað í sínum málum.

Síðan vil ég meina að þetta eigi að fá fólk til að hugsa um sín orð, og sínar gjörðir, og spyrja sig hvort það sé yfir höfuð eitthvað betra en þeir sem lentu í skammarkrók afhjúpunarinnar.  Er ekkert sem særir nema persónulegar svívirðingar, er til dæmis alltí lagi að svívirða hópa, ef enginn er nafngreindur??

Og síðan, má gera náunganum illt, vísvitandi, bara passa sig á að persónugera það ekki við einstakling sem er þjóðþekktur, og fólki finnst hart að vegið sé að??

Og síðan áleitari spurningin, er hávaðinn aðeins pólitískur hráskinsleikur eða er um einhverja raunverulega yfirbót að ræða.  Að það sé tekist á við eitthvað sem hefur verið, en á ekki að vera, hvort sem það er umræða, eða annað eins og til dæmis mannfjandsamlegt og niðurlægjandi almannabótakerfi?

Einstaklingurinn getur tekist á við sína eigin fordóma, ekki annarra, þá hann geti haft skoðanir á þeim, en þær skoðanir virka í besta falli hræsnisfullar, ef hann telur syndaaflausn sína felast í að benda á aðra.  Grýting syndara er aldrei syndaaflausn í sjálfu sér eins og margbent er.

Ég tók þetta nærtæka dæmi um krónu á móti krónu skerðinguna, því það var jú fötluð manneskja sem lenti í tannhjóli umræðunnar.  Hún er vissulega svo lánsöm að hafa í sig og á, en margir með hennar fötlun hafa það ekki.

Ef það er ljótt að gera grín af þessu fólki, þá er líka ljótt að svelta það.

Varðandi þau atriði sem þú nefndir, þá mun ég örugglega koma inná þau ef vissir þingmenn og vissir flokkar halda áfram að sýna sinn innri mann.

Skýrist.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2018 kl. 11:04

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon.

Dæmin sem ég tók í formála meginefnisins, sem er að benda á í hverju raunveruleg yfirbót felst, mega helst ekki yfirskyggja umræðuna.  Það er staðreynd að Gnarrinn byggði sinn feril á gríni sem byggðist á að hæða þá sem voru á einhvern hátt sérstakir, og fólk fannst fyndið.  Guðna tók ég fyrir vegna þess að mér ofbauð að hann skyldi ekki standast freistnivandann að upphefja sjálfan sig á kostnað þeirra sem hann taldi auðvelt að sparka í því þeir lágu marflatir fyrir fótum hans.

Hann gat valið stærri kostinn að segja allt þetta mál hið sorglegasta, og vonandi verði þetta lærdómur fyrir kjörna fulltrúa þjóðarinnar.  En ekki bara þá, líka okkur hin.  Og bent á hið augljósa, að rætni og illgirni eigi ekki að vera öðrum tilefni rætni og illgirni.

Varðandi greinina sem Guðni fjarlægði, þá er bæði hún og það að hún hvarf úr safni hans rétt eftir að hann tók ákvörðun að bjóða sig fram til forseta, ekkrt leyndarmál.  Þjóðin tók afstöðu til þess, og kaus hann.

En það er alltí lagi að minna á glerhúsin sem eru brotin þessa dagana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2018 kl. 11:12

6 identicon

En ömurlegastur er bætifláki Ingu Sæland, að veikja svo Flokk fólksins að Ólafur mun vart ná í gegn frumvarpinu gegn krónu á móti krónu skerðingu.  Aftaka Ólafs og Karls Gauta var kjararáðsbót Ingu til Bjarna og Katrínar.  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 11:18

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Sem vekur upp spurninguna, hvort þjónar þú í hennar tilviki, umbjóðendum þínum, eða múgæsingu magnaða upp af þjónum auðsins.

"Burn her, burn her", var sagt í stórkostlegri mynd, stórkostlegra grínara, það þarf ekki að bera í bætiflákann fyrir þá.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2018 kl. 11:30

8 identicon

Aumt er, Símon Pétur, að blanda okkar ágæta forseta inn í þessa umræðu. Honum ofbauð, mér ofbauð, nánast allri þjóðinni ofbauð virðingarleysi og andstyggilegar umræður um ákveðnar manneskjur af hálfu kjörinna fulltrúa á alþingi. Hvort sem menn voru fullir eða ekki. Forseti Íslands er góður fulltrúi okkar erlendis, vel máli farinn og kann nokkur tungumál. Forseti Íslands er líka forseti almennings. Hann og hans myndarlega frú taka á móti almenningi á hverju ári frá því hann tók við embættinu. Hann opnar Bessastaði, stendur á tröppunum og býður alla velkomna. Guðni Th Jóhannesson er forsetinn minn og flestra landsmanna. Hvað sem þér finnst um hann. Er Guðni kannski ekki nógu snobbaður fyrir þinn smekk? Forseti Íslands þekkir sögu lands og þjóðar betur en flestir Íslendingar. Ólafur Ragnar stóð sig að mörgu leyti vel fyrir þjóðina, hann stóð vaktina í 20 ár, en núna eru nýir tímar.

Margret Olafsdottir (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 11:33

9 identicon

Margret Olafsdottir, lestu pistil Ómars gaumgæfilega aftur, áður en þú tekur fram fallbyssuna og höggstokkinn.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 11:37

10 identicon

Og Margret, af hverju hefur Guðni fjarlægt eina heimild, grein eftir hann sjálfan, um verk sín?  Er það til merkis um mikla og góða sagnfræði hans?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 11:40

11 identicon

Guðni Thorlacius er forseti um þriðjungs kjósenda.

En ég vona innilega að hann muni vaxa svo af verkum sínum, að hann geti einnig talist forseti okkar hinna.  Sú stund mun renna upp og þá kemur það í ljós hvort svo verði, þegar á mun reyna.  Vonandi mun hann virða undirskriftalista þjóðarinnar, þó hann hafi áður mjög talað þvert gegn því (ígreininni sem hann felur núna) sem hins vegar 97,9% þjóðarinnar kaus að gera og hunsa því ráð hans í fyrrnefndri grein hans.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 12:07

12 identicon

Lisbeth Salander, Guðni Th. jamm það er ekkert annað. Aumingja SDG að vera spirrtur við þetta lið

thin (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 12:48

13 identicon

Fallbyssuna og höggstokkinn? Hahahaha :-) þessi var góður:-) 

Margret S (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 12:50

14 identicon

Margret, það gleður mig að geta létt þér lundina.

Thin, ekki gleyma að spyrða hlutina rétt saman

og ekki gleyma þbí hinu fjölfatlaða gríni Jons Gnarr.

Simmi er amatör í gríninu miðað við hann.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 13:22

15 identicon

Thin, ef þú skilur ekki orðið þbí, þá geturðu prófað að setja orðið því í þess stað.  En ég ráðlegg þér að færa ekki stólinn til á meðan, því það gæti orsakað selahlátur, sem vitaskuld er óviðeigandi.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 13:29

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður thin minn.

Þar sem ég veit að þú ert margslunginn, og meðal annars, gaman að sjá þig aftur á lífi hér í netheimum, þá veit ég ekki alveg hvort bætiflákur þinn sé fyrir Sigmund Davíðm, eða Lisbeth  Salender.  Hins vegar get ég alveg trúað þér fyrir að ég var í miklum vafa um hvort ég ætti að þora að taka Lisbethu með sem þekkt dæmi um hvernig fóðraðir fordómur væru nýttir til að sannfæra múginn um sekt saklausa úr meintum jaðarhópum, því hún hefði alveg getað misskilið mig, og haldið að ég væri spyrða hana saman við sannaða gerendur kvenfyrirlitningarinnar.  Lisbeth er jú hörkutól, og ekki víst að sú hlíf myndi duga mér að hún er uppdiktuð skáldsagnapersóna.

En ég lét lag standa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2018 kl. 13:29

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Guð hjálpi okkur frá því Símon, það er annað, það er að segja í merkingunni eitt af því sem maður óttast, sem maður óttast þessa dagana.

En áður en ég kem mér að erindinu sem skemmtispjall þitt við Margréti bjó til, þá vil ég aðeins minna þig ásameignlega reynslu okkar þriggja, að sá sem er orðinn grár í vöngum, hann man vel eftir því þegar Albanir hlutu allskonar óbótaskammir þegar menn voru of kurteisir til að beina skömmum sínum að Kínverjum.

En eina erindi Guðna inní þessa umræðu er dæmi um að ef Gnarrinn hefði fattað þetta með selinn, þá hefði hann kannski boðið sig fram, og Guðni væri þá ekki forseti.  Guðni hafði jú aðeins svívirt samborgara sína, eða nánar til tekið 97,9% þeirra (skrifa prósentuna eftir minni, nenni ekki að fletta uppá henni), auk þess að styðja fjárkúgun erlends stórveldis, sem hafði aldalanga sögu um yfirgang og kúgun gegn öðrum ríkjum.  Fjárkúgun, sem ef hefði gengið eftir, þá hefði velferðarkerfi okkar þrotið örendið eins og landsstjóri AGS benti þjóðinni kurteislega á í viðtölum.  Selagrínið hefði samt örugglega toppað það, og Gnarrinn tekið Bessastaði.  Og þá hefði örugglega samt einhver stigið fram og fundið honum bætifláka, þó samt ekki að hann talaði mörg tungumál.

En þú misskilur eitthvað þetta með greinina.  Hún hvarf úr greinasafni Guðna, en ekki úr því blaði sem hún birtist.  Eina sem gerðist var að ég þurfti að gera greinaleita í mínum gögnum, sem er seinlegra en að gúgla hana af netinu.  Og Guðni skrifaði þessa grein daginn eftir að úrslitin lágu fyrir, ekki fyrir.  Fram að því lék hann einhvern fræðimann sem þóttist vera sérfræðingur í þjóðrembu, og nefndi það ítrekað sem dæmi um hana að neita að kannast við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.  Að ekki sé minnst á hið sífellda tal að almenningur þessa lands bæri fulla ábyrgð á sukki og framferði útrásarinnar. 

En það er búið að kjósa, þetta lág allt fyrir, og Guðni vann.

En það er ekki búið að leiðrétta krónu á móti krónu skerðinguna, og það var eiginlega tilefni þessa pistils til að sýna fram á tvöfeldni hinna skinheilögu.

Það er nefnilega lag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2018 kl. 13:45

18 identicon

Gott að þú geymir greinina, þó Guðni hafi nú ritskoðað hana út úr hinu opinbera greinasafni sínu.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 13:58

19 identicon

En RÚV hefur skipað Jón Gnarr í Áramótaskauphópinn svo af selahlátri og fjölfatlagríni hans munum við örugglega fá fleytifylli af.  Já, skinhelgi sumra er ætíð söm við sína sérvöldu og skinheilögu.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 14:03

20 Smámynd: Ómar Geirsson

Ekki gleyma Fréttablaðinu, frumheimildinni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2018 kl. 14:29

21 Smámynd: ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE

Hvaða grein var það, sem Guðni forseti tók úr birtingu, Símon Pétur?

En þessa grein getur hann ekki tekið úr birtingu:

Icesave og Guðni Th. Jóhannesson

Hún er ennfremur á vef Fréttablaðsins.

Svo mætti Guðni líka svara spurningum hér:

Af hverju kaus Guðni Th. Jóhannesson ekki Icesave-andstæðinginn Ólaf Ragnar 2012?

 

ÞJÓÐARHEIÐUR - SAMTÖK GEGN ICESAVE, 3.12.2018 kl. 17:45

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Afsakið, innleggið var mitt !

Jón Valur Jensson, 3.12.2018 kl. 17:47

23 identicon

Sæll Jón, Ómar veit hver greinin er sem hann vísar til þegar hann segir:

Hún hvarf úr greinasafni Guðna

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 17:57

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Og hún hvarf úr greinasafni Guðna, en ég er margoft búinn að segja að hún hvarf ekki úr Fréttablaðinu.

Það vill svo til að þegar ég leitaði að henni á netinu þegar ég ætlað að pistla um þjóðrækni Guðna í aðdraganda forsetakosningann, að þá fann ég ekki þessa grein í greinasafni hans, fékk villumeldingu. Hins vegar lenti ég inná þráð þar sem annar áhugamaður um ICEsave skrif Guðna Té sagði að hann hefði verið nýbúinn að taka hana út, en hann gat hins vegar ekki tekið út slóðina í Googel leitarvélinni sem vísaði í greinasafn hans, það er þegar heiti hennar var slegið inn.

Hins vegar eigum við áhugamenn um ICEsave skrif Guðna Té þessa grein, sem og önnur skrif hans.

Það er aftur á móti spúki, að þegar menn skammast sín fyrir fyrri gerðir, að þeir skuli ekki hafa manndóm til að gera þær upp, útskýra og jafnvel biðjast afsökunar. 

Halldór Laxness mátti þó eiga að hann gerði slíkt.

En Guðni kallinn, hann er bara broskall.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2018 kl. 19:12

25 identicon

Það er engin tilviljun að pr maður Bjarna

skuli vera sá sami hjá Guðna.

Skil núna af hverju Ómar nefnir hann Guðna Té,

Guðna Teflon.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2018 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1318296

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband