Áróðursmaskína mallar sínu skítamalli.

 

Þegar ekki tókst að hindra verkföll Eflingar með öllum þeim skítatrixum sem mannlegt ímyndunarafl gat upphugsað, og grátnir eru þeir gömlu góðu dagar þar sem hægt var að leigja einhverja hvítliðafanta við að lemja á fátæku verkafólki, þá er næsta útspil þessara manna sem byggja arð sinn og gróða á nútímaþrælahaldi alþjóðavæðingarinnar, að loka á verkfallsverði Eflingar.

 

Lok, lok og læs, og þegar Efling krefst réttar síns, þá er kallað á lögregluna.

Það skal samt tekið fram að löggan er ekki núna beðin að lemja verkfallsverði líkt og í tíðkast mjög í þeim löndum sem stjórnvöld sækja fyrirmynd sína að löggjöf sem eiga útiloka verkföll framtíðarinnar.

Ekki ennþá orðin svona slæm, eða réttara sagt rotin, og vissulega má hrópa húrra fyrir því.

Samt ekki ennþá, munum það.

 

Því það er fáheyrt að menn, munum þessir þarna sem byggja arð sinn og gróða á nútíma þrælahaldi, geti fengið aðstoð lögreglu við að halda verkfallsvörðum Eflingar úti og meina þeim þannig að gegna skyldustörfum sínum.

Skítamall áróðursmaskínunnar lætur það hljóma þannig að verkfallsverðir séu að skipta sér að verkum annarra sem eru ekki í verkfalli eins og kokka, þjóna eða starfsfólks í móttöku, eins og ræstingakonan viti ekki að hún sé að þrífa heldur að kokka eða taka á móti gestum. 

Sem sagt að öll verkfallsbrot liðanna ára, liðanna áratuga, bæði hér og í öðrum löndum, séu í raun aðeins misskilningur fólks sem viti ekki hvað það er að gera í vinnunni og sé æft þegar það sér annað fólk vinna sína vinnu.

 

Hvort einhver sé það trúgjarn að trúa þessu má vel vera, sérstaklega ef það fer saman við skort á uppeldi, að fólk hafi ekki verið kennt að þekkja sið á sínum yngri árum og þykir því allt í góðu að velmegun þess sé byggð á þrælkun annarra.  Og verður svo bandbrjálað þegar vinnuþrælarnir rísa upp og segja; megum við ekki líka fá laun sem duga til að lifa af.

En aðrir ekki og það er ákaflega aumt að þetta pakk, því það er bara pakk sem hagar sér svona, skuli komast upp með að loka vinnustöðum fyrir verkfallsvörðum, komi upp ágreiningur með túlkun eða framkomu, þá hlýtur að vera leið til að leysa slíkan ágreining, önnur en sú að meina verkfallsvörðum að sinna skyldum sínum.

Og fara svo í skítugt áróðursstríð gegn störfum þeirra sem löng sátt er um að séu nauðsynleg til að eyða tortryggni og tryggja frið í kringum verkföll, það er að þau séu það sem kallað var fyrir daga sígræðginnar, friðsamleg.

 

Verkföll eru alltaf neyðarbrauð, alla vega í heilbrigðu samfélagi þar sem aðrar leiðir eru reyndar til þrautar að ná sátt um mannsæmandi laun, og það er alltaf leiðinlegt að þau "skaði upplifun og valdi gestum hótela vanlíðan".

En í alvöru, við hvern er að sakast??

Þann sem borgar þrælalaunin eða sá sem krefst launa sem ekki eru kennd við þræla??

 

Og ég efa ekki að ef flestir gestanna væru spurðir, þá myndu þeir svara að þeir teldu sig borga það mikið fyrir gistinguna að þeir teldu að hægt væri að borga mannsæmandi laun á hótelinu.

Þeir væru ekki stuðningsmenn nútíma þrælahalds.

Því það er nefnilega svo að flest fólk er siðað.

 

Skítamallið er nefnilega ekki ætlað gestum.

Heldur þeim sem af einhverjum ástæðum leggjast gegn réttlætisbaráttu láglaunafólks á Íslandi, að það fái mannsæmandi laun fyrir vinnu sína, ekki ofurlaun, heldur laun sem duga allavega fyrir lágmarks framfærslu. Sem er ekki frekja í landi alsnægtanna.

 

Hvað því fólki gengur til, hvort það hafi gleymst að ala það upp, eða eitthvað misfarist hjá því á fullorðins árum, kannski orði sígræðginni að bráð, veit ég ekki.

En það er þarna greinilega í þeim fjölda að atvinnurekendur sjá ástæðu til að láta áróðursmaskínu sína malla ofaní þau afskræmda mynd af kjarabaráttu láglaunafólks.

Það er svo greinilegt að það á að sigra þessa deilu fyrir utan samningaborðið, með því að knésetja forystu Eflingar og sjálfsagt að krossfesta hana á eftir uppá Valhúsarhæð, sem víti handa öllum þeim gætu leitt kjarabaráttu láglaunafólks í framtíðinni.

 

Þetta komast Samtök Atvinnulífsins óáreitt upp með.

Í hina Nýja Íslandi eftirhrunsáranna sem enginn segist vilja neitt hafa með að gera, en enginn gerir þó neitt til að hamla á móti.

Aðeins froðusnakk og upphrópanir.

 

Þar til Efling gerði okkur að Eflingu.

Þó sumir eigi bara ennþá eftir að fatta það.

 

Við erum öll Efling.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Fordæma framkomu verkfallsvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dramtíkin, ó dramatíkin, allur tilfinningaskalinn virkjaður. Þú ert tilfinningavera ekki skynsemisvera.

Kveðja úr neðra.

Bjarni (IP-tala skráð) 9.2.2023 kl. 23:37

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Velkominn í hópinn. 

Það þarf tilfinningaveru til að greina aðra tilfinningaveru, hvað þá að beita rökum tilfinninganna eins og þú gerir hér að ofan.

Þú þarft samt ekki að skammast þín að vera í þessum hópi, í grein sem ég las nýlega á vef Lifandi Vísinda, þá telja menn að einmitt þróun tilfinninga sé einmitt skýring þess að Homo Sapiens náði forskoti á aðrar tegundir mannapa sem lifuð samtíða honum.

Við ættum sem sagt að heita; Homo sapiens feelings en ekki Homo sapiens sapiens, en reyndar sá sem skrifaði greinina skorti rökhyggjuna að hnykkja á þeim endapunkti.

Irene Care var sko með þetta; What a feeling.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.2.2023 kl. 08:14

3 identicon

Er mér að misminna . Var það ekki lögreglan sem kom og skikkaði hótelið til að hleypa verkfallsvörðunum inn eftir að þeim hafði verið útvistað af stjórnendum hótelsins?

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 10.2.2023 kl. 16:39

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Jósef, þér er alvarlega að misminna.

Og veistu Jósef, mig sárnar þetta misminni þitt.

Finnst þetta ekki vera þú.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.2.2023 kl. 18:51

5 identicon

Ómar. Ég held mig sé ekki að misminna. Sá í dag fyrirsögn ( frétt) ,held á Mbl. þar sem sagði eitthvað á þá leið: Lögreglan hleypti verfallsvörðum inn og efling fagnaði. Las ekki fréttina sjálfa en taldi að þetta hafi verið í gær eða fyrradag þegar lögreglan var kölluð til af starfsmönnum hótelsins. Hvað meinarðu með að " þér sárni misminni mitt" og finnist þetta ekki vera ég? Finnst þér ég draga taum SA að einhverju leiti? Það sem mér finnst ekki rétt er að saka lögregluna um að fremja lögbrot með starfsmönnum hótelsins. Ég tel að hún ( lögreglan) fari einungis eftir lögum og sé að sinna sínu verki en ekki draga taum eins eða neins.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 10.2.2023 kl. 22:09

6 identicon

Sæll Ómar; og sælir / þið Bjarni og Jósef Smári, sem og aðrir gestir hins ágæta Austfirðings !

Já; menn geta kallað það dramatík, eða einhverjum öðrum nöfnum en . . . . á Sólveig Anna Jónsdóttir ekki orðið í rauninni 

þegar hún  lýsir KONUNGI ÞJÓFANNA:: ómerkingnum og falsaranum Bjarna Benediktssyni á þá vegu, sem honum sannanlega ber ?

Sem og; hinni kurteisislegu linku Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar forseta Alþýðusambandsins, gagnvart baráttu Eflingar fólks,

baráttu:: sem kemur þorra landsmanna til góða, takist að styggja Engeyinga - Samherja samsteypuna á þann hátt, að öllum

skiljist ? 

Sbr. (tekið til láns:: af vísi punkti is, fyrir stundu)

„Grátklökk millistéttarályktun“ Alþýðusambandsins

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar skýtur föstum skotum á Kristján Þórð Snæbjarnarsson forseta ASÍ og krefst þess að miðstjórn sambandsins skýri nánar ályktun sem birt var í dag. Hún segir réttast að forsetinn mætti einhvern tímann til verkfallsvörslu.

Miðstjórn Alþýðusambandsins sendi frá sér ályktun fyrr í dag þar sem sambandið harmaði neikvæða og ofstækiskennda orðræðu í tengslum við kjaraviðræður. Ótækt væri að ágreiningur væri nýttur til að hafa í frammi haturskennd og viðurstyggileg ummæli í garð tiltekinna einstaklinga, hópa og samtaka, eins og sagði í ályktun miðstjórnarinnar.

ASÍ greinir ekki nákvæmlega frá því hvaða ummæli átt er við en Sólveig Anna sagði í dag að Bjarni Benediktsson hafi neitað að ræða við Eflingu vegna þess að hann hataði fátækt fólk og væri kynþáttahatari.

Óalandi og óferjandi hyski?

Sólveig Anna sendi Kristjáni Þórði forseta ASÍ tölvupóst fyrr í dag, fyrir hönd samninganefndar, þar sem hún bar upp tilteknar spurningar. Spurt er hvort ályktuninni sé beint að Eflingu og hvort Efling hafi ausið fúkyrðum yfir aðra. 

Þá spyr Efling einnig hvort hlutverk ASÍ sé að „næra áróðursmiðla valdastéttarinnar með efni til að halda áfram að draga þá mynd að Eflingar-fólk, konur og menn bókstaflega alls staðar komið úr veröldinni, svart, brúnt, hvítt, talandi öll heimsins tungumál sem stendur í stórkostlega erfiðri kjaradeilu sé óalandi og óferjandi hyski, ekki í húsum hæft?“

Því næst krefst Sólveig Anna þess að Kristján Þórður, forseti ASÍ, sem beri ábyrgð á „grátklökkri“ millistéttarályktun, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann árétti að yfirlýsingunni hafi ekki verið beint að Eflingu.

„Svo væri að því loknu ekki úr vegi að þú sem forseti ASÍ kæmir með okkur í verkfallsvörslu til að sýna öllum hvar hjarta ASÍ slær. Ef að einhvern slátt er þar enn að finna.“

Og svona; til nokkurrar viðbótar :

Hvernig væri nú; að kerfis- fígúrur, eins og Sigríður Friðjónsdóttir Ríkissaksóknari og collegi hennar, Ólafur Þór Hauksson Hjeraðssaksóknari færu að spýta í

lófa sjer, og hefja ALVÖRU rannsóknir á Lindarhvols scandal Bjarna, sem og Asíubanka æfintýri hans (austur í Kína) hvar fíflið (Bjarni) hefur liðlega 2 Milljarða Króna

sem eins konar Matador peninga, í einhverjum feluleik með Kínversku Kommúnistastjórninni (í Peking), að ÓGLEYMDRI Íslandsbanka gerfi-sölunni, á nýliðnu ári ? ? ?

Það er ekki að undra; að flón ýmis innlend (sem vænta brauðmola úr lúkum Bjarna hyskisins) gapi í lotningu, fyrir úrkynjuðum ósómanum ! ! !

Með beztu kveðjum; austur í fjörðu, sem og víðar, um //

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.2.2023 kl. 22:17

7 identicon

Ómar finnst þér það í alvörunni rétt að baráttunni fyrir betri kjörum sé beint að hótelgestum og fjármálaráðherra?  Þetta er á milli SA og Eflingar ekki hótelgesta eða ríkisins.  ßólveig Anna er nrsisisti sem á ekki að koma nálægt svona málum, hún er ekki leiðtogi neinna annara en sjálfs sín.

Bjarni (IP-tala skráð) 11.2.2023 kl. 06:46

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jósef.

Samkvæmt fréttum bæði Ruv og Moggans, þá var verkfallsvörðum vísað út af hótelinu, og þegar Eflingarfólk mótmælti fyrir utan hótelið þá var lögreglan kölluð til af stjórnendum hótelsins, og samkvæmt fréttaskotinu sem Ruv birti voru fyrstu tilmæli lögreglunnar ekki vinsamleg.

Þegar Efling gaf sig ekki fyrir tilmælum lögreglu að vikja að vettvangi, minntu eitthvað á rétt sinn til verkfalla og hindra verkfallsbrot, þá varð að samkomulagi í stað hinn tveggja sem hótelið vildii hleypa inn og í stað hinna átta sem Efling vildi hafa innandyra, varð sá salómónsdómur að 5 var hleypt inn umkringdum öryggisvörðum.

Það má vel vera að Eflingarfélagar hafi fagnað að þegar fulltrúum þeirra var hleypt inn, upplifað einhvers konar varnarsigur gagnvart upphaflega hótunum lögreglu að rýma svæðið en það er engan veginn hægt að orða hlutina á þann hátt að löggan hafi komið og barið vitglóru í hótelstjórnendur.

Ef lögreglan hefði verið hlutlaus í þessari deilu þá hefði hún látið mótmæli Eflingar afskipalaus, aðeins gætt almannafriðar, og látið deiluna hafa sinn gang.

En hafi ég mislesið úr orðum þínum stuðning við vinnubrögð SA þá er ég alveg tilbúinn að afsárna við þig, ég virði alveg það sjónarmið að menn vilji að lögreglan sé ekki skömmuð fyrir að gegna hlutverki sínu en ef verkfallsvarsla er lögleg, þá á lögreglan ekki að stöðva mótmæli þeirra aðila sem mómæla slíku lögbroti.  Og hún þarf að þola umræðu um þá hluti.

En menn eru kannski orðnir svo óvanir svona verkföllum að það tekur tíma að slípa til eðlilegan vinnugang í því sambandi.

Kveðja að austan.´

Ómar Geirsson, 11.2.2023 kl. 10:33

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Gaman að sjá þig alvarlegan, mundu samt að tilfinningaverur geta líka alveg verið alvarlegir.

Þér tókst í einni setningu að spyrða saman óskyldum hlutum, annars vegar sjálfsögðum rétti til verkfallsvörslu, og þá því neyðarráði að mótmæla fyrir utan viðkomandi hótel þar sem verkfallsvörðum er meinað að gegna störfum sínum, og svo mótmæli sem beinast að fjármálaráðherra.

Því fyrra tel ég mig hafa rætt í pistli mínum, að mótmæli sem meðal annars bitna á hótelgestum er óhjákvæmileg í svona deilu, ekki nema mikil sátt sé milli deiluaðila um framkvæmd verkfallsins, hlutverk verkfallsvarða og svo framvegis.

Varðandi mótmælin sem beindust að Bjarna þá hygg ég að þarna hafi verið mótmælt fyrir utan ráðherrabústaðinn, og mótmælin beinst að ríkisstjórninni, og já mér finnst slíkt á allan hátt eðlilegt því það var snati hennar sem hleypti öllu í bál og brand, og sá snati, rúinn öllu trausti og trúnaði situr í skjóli hennar. 

Hefðu menn hins vegar bara mótmælt Bjarna þá hefði ég ekki alveg skilið pointið, og ég hygg líka, ég hygg svo mikið þennan morgun, að þarna sért þú a vísa í frétt um hvað var hrópað að einstökum ráðherrum.  Og er það bara ekki svo að það er ýmislegt sagt þegar mönnum er heitt í hamsi.

Vilji menn ekki slík læti þá hefðu hefðu ráðafólk okkar aðeins átt að íhuga í upphafi þau afglöp að leggja fram samninga Starfsgreinasambandsins fram sem miðlunartillögu.

Sem betur fer eru ekki allir verklýðsleiðtogar skræfur sem láta bjóða sér slíkt.  Og andheiti orðsins skræfa er ekki narristi Bjarni.

Alveg satt, þó maður sé bara tilfinningavera.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.2.2023 kl. 10:47

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar Helgi.

Ekki hef ég hugmynd um af hverju miðstjórn ASÍ taldi sig knúna til að álykta á þann hátt sem hún gerði.  Ég sem jákvæð Pollýanna taldi að hún væri að skamma Halldór Benjamín en miðað sem þú rekur hér að ofan þá virðist fleira hanga á spýtunni.

Og þér að segja Óskar þá hefði ég aldrei látið það út úr mér að einhver ráðherra hataði fátækt fólk og væri kynþáttahatari.  Og léti ég slíkt út úr mér í einhverju bríaríinu, þá myndi ég alltaf biðjast afsökunar á því eftir á.

Fyrir utan að vera ekki taktískt þá gerir maður bara ekki svoleiðis.

Líka alveg óháð spillingarslóðanum sem er út um allt.

Fyrir utan mannasiði þá er ég ekki fyrir bjarnagreiða.

Almennar skammir á skýrri og góðri íslensku finnst mér hins vegar oft viðeigandi, ekki reyndar alltaf, og menn eiga að þola þær eins og almennar umræður.

Það er bara önnur ella eins og sagt var hér í gamla daga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.2.2023 kl. 10:54

11 identicon

Þetta lögreglu stúss minnir mig á gamla tíma þegar atvinnurekendur með stuðningi yfirvalda kölluðu gjarnan lögregluna til. Takk fyrir stuðninginn Ómar. 

Kristbjörn Árnason (IP-tala skráð) 11.2.2023 kl. 12:04

12 identicon

Takk fyrir Ómar. Hann er þá ennþá í sæmulegu lagi , kollurinn. Rétt skal vera rétt. Lögreglan var að mínu mati kölluð til vegna óláta utan hótelsins . Ekki til að vísa fólkinu út. Hún brást að sjálfsögðu við því með því að reyna að tala fólk til. Það var Sólveig Anna sem túlkaði þessa afskiptasemi sem stuðning við Hótelið. Að mínu mati hlutaðist lögreglan síðan til um að þessum 7 yrði hleypt inn aftur. Kristbjörn minnir á gamla daga og þetta var ósköp svipað að því leiti að það voru atvinnurekendurnir sem kölluðu til lögreglu en lögreglan brást hárrétt við með því að taka tillit til röksemda Eflingar um að samkvæmt lögum þá eigi félagið rétt á þessum 7 inni. Ég er að verja lögregluna sem vinnur sína vinnu en alls ekki SA eins og þú ættir að skilja. Vona að Efling fái viðunandi kjarasamning en minni á að það er félagsmanna allra að ákveða framhaldið þegar þeir kjósa um "miðlunartillöguna". Kveðja úr Norðurnesinu en vel á minnst: Ert þú nokkuð ættaður frá Viðfirði? Hef ég spurt að þessu áður?

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 11.2.2023 kl. 12:25

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Enda sagði ég þér Jósef að það væri ekkert mál að afsárna aftur og ekki efast ég að það sé ekki alltí lagi með toppstykkið hjá þér.  En rétt skal vera rétt, lögreglan var kölluð til vegna réttmætra mótmæla Eflingarfólks, hvort sem ég eða þú kalli slíkt ólæti, þá á löggan að vita af þessum rétti launafólks í verkfalli að mótmæla fyrir utan vinnustaði þar sem grunur leikur á verkfallsbrotum, að því gefnu að sjálfsögðu að almannafriður sé virtur.

Myndskeið Ruv benti til þess að löggunni virtist ekki vera kunnugt um þennan rétt, og hvaða hlut sem hún átti í sáttaferlinu þá var ljóst að lögfræðingur SA vildi slíkt sáttaferli og samdi við Eflingu fyrir hönd hótelsins.  En eftir stóð að 5 fóru inn í stað 7 sem Efling vildi og átti rétt á.

Athugasemd þín hefði verið réttmæt ef lögreglan hefði komið á vettvang og tryggt almannafrið en ekki skipt sér að mótmælunum að öðru leiti.

Og ef þú ert að spyrja mig, þá er ég Viðfirðingur, langamma mín, Guðlaug Bjarnadóttir var ein af Viðfjarðarsystkinunum sem sú seinni er kennd við.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.2.2023 kl. 15:50

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Við erum öll Efling Kristbjörn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.2.2023 kl. 17:32

15 Smámynd: Theódór Norðkvist

Athyglivert að fylgjast með þessari deila frá útlandinu, hvað það komin mikil harka í hana. Að lokum er það samt oftast niðurstaðan af stanslausri kúgun og harðræði.

Í Svíaríki er ekki enn komið að verkföllum, en samningar eru lausir víða á næstunni. Hinsvegar er rætt um að alltof margir vilji vera silkihúfur í skrifstofustólum, en enginn vinna vinnuna sem þarf að inna af hendi.

T.d. í heilsugæslunni, þar sem sífellt fleiri kikna undan álaginu sem silkihúfurnar leggja á starfsfólkið, vitandi að þau sjálf þurfa ekki að lyfta litla fingri. Niðurstaðan er að fjöldi fólks tekur sér veikindaleyfi, stundum í áraraðir, út og inn af veikindaskrá.

Expressen fer í saumana á þessu vandamáli í greininni hér fyrir neðan. Skyldi vandamálið vera svipað á Íslandi, of margar silkihúfur/afætur og þess vegna er ekki hægt að hækka launin hjá þeim sem vinna alvöru vinnu?

https://www.expressen.se/ledare/alla-vill-vara-strateger-ingen-vill-gora-jobbet/

Theódór Norðkvist, 11.2.2023 kl. 17:51

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Theódór.

Já, já hér er harkan sex, en ennþá vega menn með orðum og rógi, með níði í bland. En eins og þetta blasir við mér þá er rógurinn og níðið hluti af samningataktík atvinnurekenda, þeir leggja allt undir til að samningar Starfsgreinasambandsins haldi.

Þetta með silkihúfurnar, er það ekki innbyggt í menntamenningarstefnu okkar??, opinbert markmið stjórnvalda hefur lengi verið að koma hátt í 90% af hverjum árgangi æskunnar í gegnum hina svokallaða æðri menntun, það er eitthvað menntunarstig sem er fyrir ofan stúdentinn, en hann er að verða eins og barnaskólaprófið í gamla daga.

Eftir verður náttúrulega ginningargap í störfum sem þarf að manna, og lausn Góða fólksins er að flytja inn bláfátækt fólk til að sinna þjónustu og umönnunarstörfum, og þá er mikil þörf fyrir hámenntað fólk til að stjórna því, trendið er sem sagt til að stjórna, eða verða silkihúfa eins og þú orðar það.

Ég held að þessi meinsemd nútímans sé skýring á óskilvirkni hins opinbera, stjórnkerfi þess þenst út, sígur í sig æ meira fjármagn en outputtið, sú þjónusta sem er veitt, lækkar bæði að gæðum sem og magni.  En ætti að vera öfugt miðað við aukna fjármuni.

Sem betur fer liggur það í eðli markaðarins að vinna markvisst gegn þessu ástandi, vissulega trend hjá stórfyrirtækjum, en þá koma alltaf nýir aðilar inná markaðinn með nýjar lausnir, og þó það komi trend á móti hjá hinum stóru að fá hið opinbera (sbr. regluverk ESB) til að setja upp hindranir sem gera nýjum erfiðara að koma inná markaðinn, eða ýta smáum út af markaðnum með allskonar skriffinnakröfum, þá sýnist mér að frelsið sigri alltaf að lokum.

Markaðurinn plummar sig og myndi borga öllum þokkaleg laun, ef til kæmi ekki alþjóðavæðing þrælabúða glóbalsins, ásamt sístreymi erlendra inna vinnumarkaðinn, en sá vandi er afleiðing stjórnmála eða hugmyndafræði andskotans, ekki kapítalismans sem slíks.

Ergo, allar leiðir liggja til þess í neðra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2023 kl. 11:38

17 identicon

Já sæll . Afi minn var Örnólfur Sveinsson bátasmiður, Bjarnasonar þannig að Langafi og Amma þín voru systkyni. Móðurættin mín var öll Kommar.cool

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 13.2.2023 kl. 18:52

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jósef.

Guðlaug var reyndar langamma mín og þar með mæður okkar  þremenningar, og við þá fjórmenningar.

Sá hluti Viðfjarðarættarinnar sem ílengdist hérna fyrir austan var oft mikið framsóknarfólk, líklegast skýrir sveitatengingin það. En vissulega voru blóðrauðir kommar inná milli, og þá fólk sem settist strax að í kaupstaðnum, enda höfðu kommúnistar og seinna sósíalistar mjög sterka leiðtoga hérna, þá Bjarna, Lúðvík og Jóhannes.

En eiginlega var þetta allt saman bara barátta um brauðið, enda voru til dæmis eftirmæli Lúðvíks þau að á þingi hefði hann fyrst og fremst hugsað um atvinnumálin, og náði þá saman með mönnum úr öllum flokkum ef því var að skipta.

En í dag er það eina sem minnir á gömlu kommana þorrablót bæjarins sem er kallað kommablótið, og þá vegna þess að það er gamla Alþýðubandalagsblótið útvíkkað. En síðasti komminn dó fyrir nokkrum árum síðan, og hafði þá lengi verið einn eftir af gömlu Moskvukommunum.

Afkomendur þessara gömlu komma eru annaðhvort í Samfylkingunni, og þá af því bara, eða hluti af einhverjum úrkynjaðri róttækni sem hefur fundið sér farveg innan femíníska arms Vinstrigrænna.

Ósköp klént allt saman ef maður hugsar þetta út frá gildum gömlu baráttujaxlanna, enda tíminn í dag annar, og engin þörf lengur á þessari róttækni.  Það er varla að menn nenni að rífast fyrir kosningar, og það litla sem er rifist um er aðallega af gömlum vana

Er það ekki bara góður endir af stéttarbaráttunni, að fólk sé þokkalega sátt við sitt og nokkuð ánægt í sínum samfélagi??

En frændi, það er kveðjan að austan.

Ómar Geirsson, 13.2.2023 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 621
  • Sl. sólarhring: 1883
  • Sl. viku: 4097
  • Frá upphafi: 1325183

Annað

  • Innlit í dag: 561
  • Innlit sl. viku: 3606
  • Gestir í dag: 543
  • IP-tölur í dag: 535

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband