29.3.2021 | 16:30
Í heimi stjórnleysis og heimsku.
Þykir svona frétt eðlileg.
Að fólk fái að streyma í þúsundavís inná stórhættulegt svæði þar sem það þarf aðeins eina óvænta vindbreytingu til að skapa lífshættuleg skilyrði.
Eða að hraungígur gefi sig, og hraun renni hraðar en fætur geta flúið.
Alvarlegast af öllu er að þessi skrípaleikur sé liðinn í miðri samfélagslegri lokun sem á að kæfa fjórðu bylgju kóvid veirunnar í fæðingu.
Þessi algjörlega heimska og fávitaháttur þykir eðlilegur í heimi stjórnleysis og heimsku.
Sem og þar þykir engum óeðlilegt að einstaklingur sem hefur hvorki þroska og vit, gegni stöðu dómsmálaráðherra, og láti því alla vitleysuna viðgangast.
En við lifum bara ekki þann heim.
Þess vegna er þetta með öllu ólíðandi í alla staði.
Og formenn stjórnarflokkanna geta ekki falið sig að baki því að almannatengill taldi það klókt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að skipa ímynd í stól dómsmálaráðherra.
Við lifum ekki þá tíma þegar keisarar gátu skipað gæðinga, þar á meðal hesta, í öldungaráð. Eða að barnung börn voru látin stjórna herjum, sökum ættarstöðu, en þá var reyndar alltaf reyndur hershöfðingi að baki hinni formlegu skipun barnsins.
Við lifum nútíðina, daginn í dag, og við eigum ekki að líða svona ástand.
Við eigum ekki að líða að á örlagatímum sé yfirmaður almannavarna og löggæslu þjóðarinnar ekki mönnuð fullorðnu fólki sem hefur hæfileika og getu til að leiða vörn þjóðarinnar gegn vágestum, hvort sem það er heimsfaraldur kórónuveirunnar eða eldgos á Reykjanesi.
Við eigum ekki að líða að forheimskan skapi það ástand að lögreglumaður tjáir áhyggjur sínar af björgunarsveitarfólki.
Eða að sóttvarnarlæknir sé ráðalaus gagnvart heimskunni og fávitahættinum sem felst í þessum stjórnlausa mannsöfnuði sem þarf á þessum tímum, af öllum tímum, láta reyna á örlög sín og gæfu, vitandi að á hverri mínútu getur túristagosið breyst í dauðagildru.
Við eigum ekki að lifa þessa tíma.
Heimskuna og fávitaháttinn á að stöðva í fæðingu.
Það er svo einfalt.
Aðeins spurning um styrk og stjórnun.
Og viðurlög gagnvart þeim sem brjóta.
Ef ekki, þá er ljóst að börnin eru víðar en í dómsmálaráðuneytinu.
Og slíkt er ekki líðandi.
En við líðum samt.
Kveðja að austan.
![]() |
Lýsir áhyggjum af björgunarsveitarfólki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.3.2021 | 15:09
Satt má oft kjurt liggja.
En stundum þarf að segja satt, sérstaklega þegar annað er ávísun á þjóðarvá.
Litaspjöld eiga fyllilega rétt á sér á leikskólum, en eiga ekkert erindi inná borð ríkisstjórnar Íslands þegar sóttvarnir á landamærunum eru annarsvegar.
Kári kurteis sem fyrr, reynir að milda orð sín;
"Spurður hvort honum fyndist vit í tillögu um að litamerkja svæði eða þjóðir sagði hann að hún væri einhvers staðar á milli þess að vera fáránleg, hlægileg og glæpsamleg og sagði hana gjörsamlega út í hött.".
Það er fallega sagt hjá honum að þetta sé einhvers staðar á milli, dregur þar með brodd úr orðum sínum.
En þessi barnaskapur er vítaverður á tímum farsóttar, það þarf að verja þjóðina þar til það er búið að mynda hjarðónæmi með bólusetningum.
Núna þegar lekinn á landamærunum hefur kostað þjóðina útivistina um páskana, líklegast eyðilagt annað ári í röð keppnistímabil vetraríþrótta eins og handbolta og körfubolta, hrakið börnin okkar úr skólum sínum, svo eitthvað fátt sé nefnt, þá er það ekki líðandi að það sé ekki gert allt sem í mannlegu valdi stendur að stöðva þennan leka.
Leka sem blasir við, er auðstöðvaður, spurningin snýst aðeins um vilja.
Ekkert er hundraðprósent öruggt, það getur komið leki á jafnvel traustu skip en menn halda ekki á sjóinn á lekum fleyjum.
En þannig er háttað með sóttvarnir okkar á landamærunum í dag.
Hvað roluháttur er að sætta sig við það??
Að þröngir hagsmunir sem eiga greiða leið að sumum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, haldi þjóðinni ítrekað í herkví samfélagslegra lokana.
Af hverju rísa þeir ekki upp sem eru ítrekað sendir heim, skornir við trog þessara hagsmuna sem ráða þvert á almanna hag??
Þá riðu hetjur um héruð sagði skáldið.
Við eigum samt Kára.
Hann kann allavega mannamál.
En fjölmiðlar, blaðamenn, foreldrar, leikarar, íþróttamenn, hví þegið þið allir??
Þögn ykkar er ávísun á fimmtu bylgjuna.
Svo sjöttu.
Kári er rammur að afli.
En hann leggur ekki einn þennan þurs sérhagsmunanna.
Hann þarf stuðning.
Koma svo.
Kveðja að austan.
![]() |
Gjörsamlega út í hött |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.3.2021 | 12:33
Grínlandið Ísland.
Við erum í upphafi fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins og aðeins snögg og ákveðin viðbrögð heilbrigðisyfirvalda geta bjargað því að annars vegar nái veiran lítilli útbreiðslu, og þar með að fáir veikist illa, sem og að tíminn sem fer í hinar hörðu sóttvarnir, verði sem stystur, að við endurheimtum daglegt líf okkar eftir hinar ætluðu þrjár vikur hinna hörðu sóttvarna.
Svo fólk geri sér grein fyrir alvöru málsins þá var víða í Evrópu ekki gripið til strangra aðgerða fyrr en veiran hafði grafið um sig og þá dugði ekki annað en allsherjarlokun þar sem fólk má fátt annað en að mæta í vinnu, það er ef vinna þess felst ekki í að veita öðrum beina þjónustu, því allt slíkt er bannað.
Það sér ekki fyrir endann á þessum lokunum, mannlíf lamað, ef við tökum til dæmis hlutfall látinna í Tékklandi og færum yfir á okkur, þá væru um 700 manns látnir hérna innanlands. Auk allra hinna sem væru veiklaðir á eftir, munum að afleiðingar Akureyrarveikinnar komu fram eftir að fólk hafði náð sér af veirusýkingunni, fólk varð smán saman veiklað, óstarfhæft, jafnvel ófært um einfaldar daglegar athafnir, vegna þrekleysis sem engin önnur skýring var á en afleiðingarnar af veirusýkingunni.
Afleiðingar kóvid er ekki bara sá mikli fjöldi eldra fólks sem kafnar lifandi, heldur líka allir þeir sem veikjast og verða ekki samir á eftir, verða jafnvel skurnin af því sem þeir voru.
Við getum öll náð þessu ef við leggjumst öll á eitt.
Nema það er bara ekki reyndin, það er eins og ákveðinn hluti þjóðarinnar búi ekki á Íslandi heldur á landi sem kalla má Grínlandið Ísland.
Hvað skýrir annað fjöldann sem þyrpist á Reykjanesið, ekki bara til að gera heiðarlega tilraun til að drepa sig ef vindátt breytist snögglega, heldur á tíma þar fólk er beðið um að forðast mannsafnað, vegna þess að það gengur veira laus í samfélaginu.
Eitt samfélagssmit greindist í gær vegna þessarar fáheyrðu heimsku sem einna helst líkist atferli Dúdú fuglsins í einhverri Ísöldinni (tær snilld teiknimyndanna).
Þau hefðu getað verið 5 eða 15, og það er í raun ekki útséð um það, þó allir voni sitt besta. En það er ekki fólkinu sem býr i Grínlandinu Íslandi að þakka.
Á sama tíma og við heyrum um að skóli eftir skóla sé að setja nemendur og starfsfólk í sóttkví, á sama tíma og fyrirsjáanlegt er að skólar landsins verði lokaðir eftir páskafríið, sviðslistir enn einu sinni sviptar tekjum sínum, þá hagar fólk sér svona.
Eins og ekkert sé vitið, engin sé alvaran gagnvart hlutum sem þarf að taka alvarlega.
Hlutum sem eru dauðans alvara.
Angi af sama meiði eru þau fáheyrðu viðbrögð forstjóra Vinnumálastofnunar sem kom í fjölmiðla gær ybbandi sig, hvað úr um að skrifræði hennar væri ekki um að kenna að veiran slyppi inni í landið.
Rökin, fjöldi atvinnuleitanda sem þurfa að endurnýja vottorð sín, sem hlutfall af heildar fjöldanum sem kemur til landsins.
Hún vissi ekkert um fjölda smita sem hefði verið rakinn til þessa hóps, eða annað sem viðkom sóttvörnum, í raun það eina sem hún vissi var að hún kynni ennþá prósentureikning.
Alvarleikinn í þessu er að það eru göt á landamærunum, veiran hefur sloppið í gegnum varnir, og þó það hafi í flestum tilvikum náðst að finna þau tilvik og einangra, þá er núna vitað að allavega eitt smit hefur sloppið í gegn, og náð að breiða úr sér.
Og eitthvað skrifræði á ekki að verða þess valdandi að auknar líkur séu á slíku smiti, við lifum á 21. öldinni og þó það sé hugsað sem hindrun sem dregur úr ásókn í atvinnuleysisbætur, þá höfum við ekki efni á slíkri hindrun í dag.
Vinnumálastofnun eins og aðrir verður að nýta sér rafeindaheim til að gefa út vottorð og samþykkja vottorð en ekki að ýta undir óþarfa ferðalög frá stórsmituðum svæðum Evrópu sem bera með sér hættuna og ótann við nýtt samfélagslegt smit innanlands.
Þriðja fréttin í gær var um að þrátt fyrir tilmæli, sem ítrekuð eru eftir hinar hörðu sóttvarnir vikunnar, að þá sækir fólk ennþá ástvini sína á Keflavíkurflugvöll, þó slíkt sé með öllu bannað.
Ekki vegna þess að menn hafa svo gaman að því að banna, heldur vegna þess að það er knýjandi nauðsyn að stöðva smitleka inn fyrir landamærin.
Samt gera Grínlendingar þetta, og samt komast þeir upp með þessa hegðun sína.
Líkt og landið okkar sé eitt stórt djók.
Það virkar nefnilega þannig síðustu dagana að Þórólfur, já og fóstbróðir hans Kári, séu þeir einu sem hafa áhyggjur af ástandinu.
Þeir séu svona hrópendur sem enginn hlustar á, séu án stuðnings yfirvalda og löggæslunnar, og að almenningur hafi flutt búsetu sína frá Íslandi til Grínlandsins Ísland.
Eins og okkur sé slétt sama hvort það náist að setja veiruna í bönd og síðan útrýma henni, eða ef það tekst, að þá sé okkur slétt sama hvort nýtt og nýtt smit sleppi framhjá vörnum þjóðarinnar og öll hringavitleysa samfélagslegra lokana hefst á ný.
Því öll vitum við hvað er í húfi, það er ekki afsökunin fyrir Dúdú hegðun okkar.
Það sem er í húfi er líf okkar, vorið og sumarið.
Að við getum lifað nokkurn veginn eðlilegu lífi ef við náum að verja landamæri okkar.
Að við séum ekki stöðugt í herkví sóttvarna.
Og Þórólfur reddar þessu ekki einn.
Höfum það á hreinu.
Kveðja að austan.
![]() |
Fjórir greindust innanlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2021 | 15:35
Erfitt að eiga við einbeittan brotavilja.
Sem er kannski harmur íslensku þjóðarinnar í hnotskurn.
Sóttvarnaryfirvöld reyna og reyna, búa til hindranir og girðingar, en sá sem vill brjóta, brýtur og kemst upp með það.
Eins og það vanti Stalín eða Mússólíni til að takast á við vandann.
En er ekki þjóðarvá í húfi??
Bitnar ekki brotavilji Örfárra á okkur hinum??
Og hvaða samúð liggur að baki brotum þeirra og brotavilja, hjá þeim sem valdið hafa, og geta gripið inní.
Barn er vissulega dómsmálaráðherra, en barnið er ekki ríkisstjórn Íslands.
Hví er þetta liðið??
Hví er ekki gripið inní??
Hvaða djúpu grimmu hagsmunir liggja að baki eða óeðli þeirrar pólitísku hugmyndafræði hinna hægri heimsku sem afneitar afleiðingum hins óhefta faraldrar, sem skýra að fólk með einbeittan brotavilja sæti ekki afleiðingum gjörða sinna??
Réttarríkið líður aðeins afbrot þegar þeir sem með völdin hafa samsinna sig brotaviljanum, eða hafa hag, hvort sem hann er fjárhagslegur eða hugmyndafræðilegur, af hinum meintum brotum.
Við erum þjóð í herkví sóttvarna.
Ábyrgðin er ekki okkar, heldur Örfárra sem komast upp með að flytja smitið inní landið.
Stjórnvöld grípa ekki inní.
Hví líðum við þetta.
Hví þolum við aftur og aftur samfélagslegar takmarkanir vegna þess að ríkisstjórn okkar stoppar ekki uppí götin á landamærunum??
Vissulega hefur hún margt gott gert, en ekki þetta.
Að láta hinn einbeitta brotavilja sæta ábyrgð.
Eða meðtekið lærdóm reynslunnar og brugðist við götum á sóttvörnum á landamærum okkar.
Ábyrgðin er ekki okkar.
Heldur þeirra sem með valdið fara.
Það er eitthvað að þegar sóttvarnarlæknir ítrekar aftur og aftur, að fólk fer gegn reglunum og kemst upp með brot sín.
Það segir að hann er án stuðnings.
Og við hin erum á milli, erum fórnarlömb þeirra valdabaráttu sem berst gegn lokun landamæranna.
Að hinn einbeitti brotavilji sé ekki viðkomandi einstaklinga, heldur þeirra sem ættu að gera, en gera ekki.
Sem verður áfram á meðan við þegjum.
Aðeins hjáróma væl þeirra sem andæfa á móti.
Viljum við svo??
Á þetta engan endi að taka??
Svarið við þessu snýr að okkur.
Kveðja að austan.
![]() |
Smitið utan sóttkvíar tengist gosstöðvunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2021 | 07:34
Betur má ef duga skal.
Það hefði verið pólitískt sjálfsmorð fyrir dómsmálaráðherra, örugglega Sjálfstæðisflokkinn, líklegast ríkisstjórnina, ef í upphafi 4. bylgjunnar hefði verið rýmkað á reglum á landamærunum.
Slíkt hefði jafnvel kallað á það neyðarúrræði almennings sem kennt er við borgaralega handtöku.
Almenningur kallar á hertar reglur, að stoppað sé í göt, en ekki að vanþroskað fólk reyni að víkka þau út með óráði sínu.
En forherðingin er slík að aðförin að lýðheilsu þjóðarinnar er aðeins frestað, ekki felld úr gildi, ásamt því að lokað er á þá undanþágu frá sóttkví sem einhver pappírsbeðill á að veita.
Veiran er ólæs, hún spyr ekki um vottorð, hún spyr aðeins um ókeypis far milli landa, þó viðkomandi sýkist ekki sjálfur, þá er full ástæða, reyndar sönnuð, að hann geti borið veiruna inní landið.
Hvenær ætlar þetta blessaða fólk, þó það sé ekki komið með þann þroska að geta kallast fullorðið, að fatta, að sóttkví er eina sóttvörnin sem heldur á landamærunum.
Girðið ykkur í brók.
Andsk. hafið það.
Og gerið það sem rétt er.
Verndið þjóðina.
Verndið samfélagið.
Vernið okkar daglega líf.
Við biðjum ekki um annað.
Kveðja að austan.
![]() |
Fresta gildistöku reglugerðar um landamærin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2021 | 14:37
Utanríkisráðherra brillerar.
Tímamótayfirlýsing, djúpstæð speki.
"Það gætir enginn hagsmuna okkar nema við sjálf".
Gert ágreining, Nei, en þegar þetta kemur úr munni Guðlaugs Þórs, hvað er hægt að segja annað en??
Ha, ha ha, ha ha ha, ha, ha ha ha ha ha, ha.
Og spurt síðan, kanntu annan?
Hverra hagsmuna gættu íslenskir stjórnmálamenn þegar bretar beittu þjóðina svívirðilegri fjárkúgun??, hagsmunagæslan var ekki meiri en sú að það þurfti tvívegis þjóðaratkvæði til að hafna sviksemi og undirlægjuhætti til að stjórnvöld létu loks reyna á skýr lög sem banna fjárkúgun og annað ofbeldi, þó í hlut eigi stórþjóð gagnvart minni.
Hverra hagsmuna gættu íslenskir stjórnmálamenn þegar þeir jafnvel þvert á fyrri yfirlýsingar, gáfu eftir yfirráð þjóðarinnar yfir orkuauðlindum hennar, og innleiddu evrópskt regluverk sem ekki aðeins færir yfirstjórn orkunýtingar til skrifræðisins i Brussel, heldur líka kvað á um markaðsvæðingu með því lokatakmarki að almenningur verði féþúfa einkaaðila sem mun eignast orkufyrirtæki okkar þegar Evrópusambandið knýr á einkavæðingu þeirra?
Og hvaða hagsmuni var verið að passa uppá þegar ríkisstjórnin ákvað að hengja sig utaná skrifræði Brussel þegar kom að því að útvega þjóðinni bóluefni??
Já kanntu annan Guðlaugur.
Ég bara spyr.
Kveðja að austan.
![]() |
Gætir enginn hagsmuna okkar nema við sjálf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2021 | 22:38
Ósköp getur Sigríður verið beinskeytt.
Þegar hún vill svo við hafa.
Gaman að fá hana svona skýra út úr kófinu og full ástæða til að endurbirta orð hennar;
""Það eru mjög misvísandi skilaboð að gefa út svona yfirlýsingu og senda svo prívatnótu til utanríkisráðuneytisins sem segir að þetta eigi ekki við um Ísland".
"Ísland hefur kannski ekki ástæðu til að blanda sér mikið í þessa baráttu ESB og Bretlands, en við erum óhjákvæmilega dregin inn í málið með þessari ákvörðun í morgun," segir hún.
"Íslensk stjórnvöld eiga að mínu mati að krefast þess að Ísland verði tekið út úr þessari tilkynningu hið fyrsta. Og framkvæmdastjórnin ætti í raun að biðjast afsökunar á þessu," segir Sigríður enn fremur, en hún er formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
"Þetta er allt saman algjör þvæla, en svona er þessi umræða orðin. Og viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar eru gerræðisleg og óyfirveguð. Þau eru í raun miklu verri en veiran sjálf nokkurn tíma.".
Já viðbrögð framkvæmdarstjórnarinnar eru í raun miklu verri en veiran sjálf.
Heimskulegast af mörgu heimsku var krafa framkvæmdarstjórnarinnar um frjálst flæði veirunnar, landamærum var ekki lokað fyrr en öll álfan var smituð.
Og hjáleigurnar í Schengen eltu, þorðu ekki að loka fyrr en allt var orðið of seint.
Hins vegar er það orðið grafalvarlegt mál hvernig Evrópusambandið hagar sér þessa dagana, vikurnar, mánuðina, síðustu árin.
Samskipti við flest ríki byggjast á hótunum og yfirgangi, nema gagnvart Kína, þar er skriðið, nema svona til málamynda var skjalamappa með upplýsingum um óþekkta embættismenn í Xinjiang héraði hökkuð og nöfn nokkurra dregin úr hattinum og sambandið setti á þá viðskiptaþvinganir.
Brussel er um margt farið að minna áþarflega mikið á annað veldi sem var líka stýrt frá B-borg.
Það veldi reyndar hervæddi sig og lét kné fylgja kviði hótana sinna, Brussel er hins vegar máttvana pappírstígrisdýr, svo það ógnar fáum, en það truflar mikið.
Þess vegna er þörf tilbreyting að lesa svona ádrepu, í stað hins hefðbundna orðfæris skríðandi stjórnmálamanna sem halda ekki taktinum í skriðinu því þeir eru alltaf að taka ofan, taka húfuna aðeins úr hendi sér til að setja hana á höfuð svo þeir geti strax aftur sýnt auðmýkt sína og undirlægjuhátt með því að taka hana niður jafnharðan.
Það er jú þess vegna sem þeim gengur svona illa að skríða í takti.
En þeir skríða og skríða, þeir skriðu þegar bretar beittu okkur fáheyrðri fjárkúgun í ICEsave, þeir skriðu þegar sambandið krafðist innleiðingar regluverks sem afsalar þjóðinni yfirráðum sínum yfir orkuauðlindum þjóðarinnar, og þeir skríða núna.
Nema Sigríður.
Hún vill að alþjóðasamningar gildi.
Og auðvitað eiga þeir að gilda.
Hvað annað??
Kveðja að austan.
![]() |
Segir háalvarlegt að setja Ísland á bannlista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2021 | 15:45
Vá, núna eru það stálin stinn.
Engin hálfvelgja, engar hálfkveðnar vísur, ekki "ég veit betur".
Spyrja má reyndar, af hverju er enn og aftur verið að níðast á landsbyggðinni, sem passar upp á sig, svo langt síðan að víða greindist smit, að hugsanlega eru menn farnir að rugla því saman við síðasta faraldur Stóru bólu.
En samt, það er viss lógíg að láta eitt yfir alla ganga, þetta bráðsmitandi breska afbrigði er ekkert grín.
En þá mega grínarar ekki stjórna ferðinni.
Dómsmálaráðherra gerði sig seka um fáheyrðan dómsgreindarbrest með því að setja nýjar reglur um sóttvarnir á landamærum, án þess að hafa sóttvarnarlæknir með í ráðum, og fjármálaráðherra var lítt skárri þegar hann reyndi að verja þá vitleysu sem í raun er skýlaust lögbrot.
Þarna þarf ríkisstjórnin að gera hreint fyrir sínu dyrum.
Og yfirlýsing heilbrigðisráðherra um að ríkisstjórnin stæði við ákvörðun sína um að láta litaspjöld stýra landamæraeftirliti eftir 1. maí er líka ámælisverð, en hún var þó að ítreka þegar tekna ákvörðun þegar aðstæður voru hugsanlega betri og bjartsýni vegna bólusetningar réði ríkjum.
Hennar víti var að sjá ekki hinar breyttu aðstæður sem og að fara gegn áhyggjum sóttvarnarlæknis.
Það er nefnilega þannig að sóttvarnarlæknir hefur alltaf haft rétt fyrir sér.
Hans einu mistök voru að reyna að þóknast ríkisstjórn Íslands svo það líti út að hún sé heil, en ekki klofin eftir línum hægri öfganna í Sjálfstæðisflokknum.
Þess vegna spilaði hann með þegar landamærin voru opnuð síðasta sumar, þess vegna var hann ekki nógu harður að krefjast þess að stoppað væri í lekann á landamærunum.
En einn daginn áttaði Þórólfur sig á því að hann var sóttvarnarlæknir, ekki sóttvarnarstjórnmálamaður, hans hlutverk var ekki að eltast við hið mögulega í hinum pólitísku refjum baktjaldanna, heldur að gegna lögboðnu hlutverki sínu að verja þjóðina gegn vágesti farsóttarinnar.
Síðan þá hefur hann staðið vaktina, og nýtur bæði traust þjóðarinnar sem og heilbrigðisstarfsmanna.
Það fer enginn gegn Þórólfi í dag.
Hans tími er kominn.
Hann á að klára dæmið.
Aðeins lokun landamæranna gegn nýsmiti getur réttlætt þessar hörðu aðgerðir.
Að gera ekki nóg er fullreynt.
Í sjálfu sér við engan að sakast, það sem er liðið er liðið, en sökin er mikil, algjör, ef menn læra ekki, og gera ekki það sem þarf að gera.
Veiran getur vissulega alltaf sloppið í gegn um varnir.
En það á ekki að vera vegna mannanna verka, að það sé viljandi skildar eftir glufur sem hún getur nýtt sér til að koma af stað nýrri og nýrri bylgju.
Þetta er svona.
Þetta sér allt vitiborið fólk, allt fullorðið fólk.
Börn og unglingar líka.
Ef það er eitthvað sem hindrar í ríkisstjórn Íslands, þá ber forsætisráðherra að losa um þá hindrun.
Hvort sem það eru einstakir ráðherrar eða flokkar.
Ef hægri heimskan tröllríður svo Sjálfstæðisflokknum að hann getur ekki varið þjóð sína, þá ber Katrínu að reka hann úr stjórninni, og mynda ríkisstjórn með þeim flokkum sem eru tilbúnir til þeirra verka að halda veirunni frá Íslandsstrendum þar til þjóðin er að fullu bólusett, og veiran ógni ekki framar lífi og limum þeirra samborgara okkar sem eru í áhættuhópum.
Þetta er ekki val, þetta er nauðsyn.
Aðeins orðað til að benda á að það er ekkert í veginum fyrir að það sé gert sem þarf að gera.
En það mun ekki reyna á þetta því Sjálfstæðisflokkurinn er með.
Aðeins einhuga ríkisstjórn bregst svona skarpt við eins og þessar tillögur fela í sér.
Klárum svo dæmið.
Enn og aftur, það er ekki val.
Það er það eina.
Kveðja að austan.
![]() |
Tíu manna fjöldatakmörkun frá miðnætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2021 | 11:34
Taktu slag við raunveruleikann.
Og það eina sem er öruggt, er ósigurinn.
Eina spurningin hve menn blóðga sig mikið við að lemja hausnum við stein raunveruleikans.
Landamæri, sem leka, valda fyrr eða síðar samfélagssmiti sem aðeins víðtækar lokanir og höft á daglegu lifi geta unnið bug á.
Miðað við sögurnar sem leka út um lekann, þá er í raun ótrúlegt hvað landamærin hafa haldið og fyrir utan lukkuna sem hefur verið með okkur í liði, þá eigum við því að þakka frábæru fólki í smitrakningu og góðu skipulagi um að setja alla í sóttkví sem hugsanlega geta tengst smiti.
En var á meðan var, í dag er raunveruleikinn sá að páskarnir eru undir, vorið og jafnvel byrjun sumars ef hlutirnir eru ekki strax teknir alvarlega.
Samt enn og aftur, allt til einskis, ef tregða stjórnmálamanna við að feisa raunveruleikann, árátta þeirra að taka slaginn við hann, kemur í veg fyrir að það sé gert sem þarf að gera.
Það þarf ekki mikla heilbrigða skynsemi, eða mikinn þroska, að vita að þegar 4 göt kom á bátinn, þá dugar ekki að gera aðeins við 2, hin duga til að hann sökkvi.
Þess vegna er okkur hollt að rifja upp raunsögu þeirra sem reyna að koma vitinu fyrir stjórnmálamennina.
"Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að lögreglan á landamærunum hefði kallað eftir hertum reglum og eftirliti með fólki sem hyggst dvelja á Íslandi í mjög stuttan tíma, jafnvel styttri tíma en sóttkví á að standa yfir. "Við erum að ýta á það núna ásamt sóttvarnalækni að reglum verði breytt þannig að þegar við sjáum svona getum við keyrt fólk beint í sóttvarnahús þar sem það er undir eftirliti". ....
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til í nýjasta minnisblaði sínu að víðtækt samráð verði haft við landamæraverði, lögreglu, almannavarnir, Sjúkratryggingar Íslands og Rauða Krossinn um hvort hægt sé að skylda flesta eða alla þá sem ferðast hingað til lands til að dvelja í sérstöku húsnæði á meðan á sóttkví eða einangrun stendur. "Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú að í ljós hefur komið að í mörgum tilfellum er meðferðarheldni í sóttkví hjá þeim sem hingað koma ábótavant. Þetta hefur leitt til frekari smita og jafnvel til lítilla hópsýkinga sem auðveldlega hefðu getað þróast í stærri faraldra,". ...
Hann minnir á að þau smit sem greinst hafa innanlands að undanförnu tengist smituðum ferðamönnum og fullyrðir að oft á tíðum hafi litlu mátt muna og mikil mildi að smitin hafi ekki hrundið af stað stærri hópsýkingum. ". (úr frétt Ruv).
Þetta hefur verið vitað svo lengi það er að smitið innanlands tengjast smituðum ferðamönnum, það er flandrið á fólki sem ógnar okkur hinum, fjöldanum.
Og hópsýkingin sem gæti þróast í stærri faraldra, virðist samkvæmt fréttum dagsins, vera mætt á svæðið.
Í gær tilkynnti ríkisstjórnin vissulega hertar aðgerðir á landamærunum, og því ber vissulega að fagna.
Ber að fagna vegna þess að þegar menn hafa á annað borð viðurkennt vandann, og gripið til aðgerða gegn honum, þó ekki sé nóg gert, þá er aðeins tímaspursmál hvenær allt verður gert sem þarf að gera.
Sbr til dæmis ef menn sjá glæpahópa vígvæðast, og telja það ótækt, þá dugar ekki að afvopna suma, en láta aðra vera. Markmiðinu um friðsælla samfélag er ekki náð fyrr allir eru afvopnaðir.
Eðlilegt mannlíf kemst ekki á fyrr en landamærin halda.
Að feisa þá staðreynd er forsenda þess að stjórnvöld fái almenning í lið með sér enn einu sinni enn.
Í lið með sér að bæta fyrir klúður sem stjórnvöld bera beina ábyrgð á, einu sinni enn.
Að reyna annað, að bulla gegn raunveruleikanum, að sleppa börnunum lausum, gengur ekki þegar svona er komið.
Fögnum skrefinu sem var tekið í gær.
Fögnum skrefinu sem verður tekið í dag.
Og tilkynnum hátíð þegar lokaskrefið verður tekið.
Höldum svo glaðbeitt inní sumarið.
Í landinu okkar, óhrædd.
Frjáls.
Kveðja að austan.
![]() |
17 smit innanlands 14 í sóttkví |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.3.2021 | 12:59
Eins og lög gera ráð fyrir.
Þá skila ég tillögum mínum til heilbrigðisráðherra, sagði Þórólfur Guðnason eftir fund hans með fullorðnu fólki, formönnum ríkisstjórnarflokkanna í morgun.
Svaraði þar með spurningunni hvort hann hefði lagt fram tillögur fyrir fundinn um hertar aðgerðir vegna hinna nýlegu samfélagssmita.
Hann var búinn að skila tillögum sínum, eins og lögin kveða á um að honum sé skylt þegar aðstæður krefja.
Svona eru lögin, eitthvað sem sumir ráðherrar ríkisstjórnarinnar virðast eiga erfitt með að skilja, það er ekki þeirra að koma með tillögur um aðgerðir gegn farsóttinni.
Sem og þeir fréttamenn sem síspyrja Þórólf um álit hans á litaspjöldum eða að vottorð frelsi ferðalanga frá sóttkví.
"Spurður hvort ósamræmi væri í því sem heilbrigðisyfirvöld væru að segja og gera og svo stjórnvöld, til að mynda með því að slaka á aðgerðum á landamærunum, sagðist Þórólfur ekki ætla að leggja dóm á hvað stjórnmálamenn væru að segja. Þeir hefðu frelsi til að túlka fyrirliggjandi gögn en að við þyrftum að vanda okkur eins mikið og hægt er á landamærunum.".
Á mannamáli, stjórnmálamenn mega gaspra, en ég hef verk að vinna samkvæmt lögum.
Reynslan sker úr um hvort hinar nýju tillögur nái að stoppa í götin, allavega er ljóst að samfélagið getur ekki búið við þennan leka, fólk vill frið frá veirunni, fólk vill að landamærin séu varin.
Af hverju ekki fyrr er ekki issjú í málinu, það sem er liðið, er liðið, en það liðna krefur heilbrigðisyfirvöld um lærdóm, að það sé gert sem þarf að gera.
En að lokum má skemmta sér yfir barnláninu, láta enn eitt gullkorn fljóta með;
"Öll höfum við þurft að færa fórnir vegna aðgerða sem grípa varð til í því skyni að verja þá veikustu í samfélagi okkar. Fórnirnar eru þó mismiklar eftir aðstæðum hvers og eins. Þeir sem eiga lífsafkomu sína undir ferðamennsku hafa fært einna mestar fórnir. Við vitum að endurreisn efnahagslífsins hvílir á því hversu langan tíma það tekur ferðaþjónustuna að ná viðspyrnu.".
Gáfurnar svona álíka eins og að segja að þegar fiskifræðingar mæla enga loðnu, og leggja til veiðibann, að þá séu loðnusjómenn að færa fórnir umfram aðra með því að fara ekki á miðin og veiða hana.
Veiran er faktur og farsóttin leikur atvinnugreinar misgrátt.
Kemur misilla við fólk og fyrirtæki.
En að feisa þá staðreynd er ekki að færa fórnir, heldur bitur raunveruleiki.
Hins vegar færir samfélagið fórnir þegar misvitrir stjórnmálamenn afneita þeim raunveruleika, og nota rök forheimskunnar til að leyfa ferðalög milli landa án undangenginnar sóttkvíar, slíkt leiðir alltaf til faraldurs, og tilheyrandi samfélagslegra lokana.
Fórnirnar eru þá atvinnan og frelsið sem aðrir tapa vegna þeirrar heimsku.
Því það er eitthvað sem hægt er að stjórna, og sú ranga ákvörðun bitnar á öðrum.
Samt er ekki annað en hægt að gleðjast yfir að reynt er að stíga rétt skref.
Ekkert sjálfgefið þar sem Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut og það mannaval sem hann lítilsvirðir þjóðina með í ríkisstjórn.
Seint skulu menn vanmeta þrönga fjárhagslega hagsmuni flokkseiganda og annarra vildarvina.
Rétt ákvörðun er því alltaf sigur og fagnaðarefni.
Vonum að þetta dugi, en ef ekki, þá þarf bara að gera meira.
Og þá fyrr en seinna.
Kveðja að austan.
![]() |
Skima börn og skylda fólk í sóttvarnahús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.9.): 179
- Sl. sólarhring: 730
- Sl. viku: 3897
- Frá upphafi: 1484414
Annað
- Innlit í dag: 171
- Innlit sl. viku: 3363
- Gestir í dag: 169
- IP-tölur í dag: 166
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar