25.9.2012 | 08:19
Það er of seint að bregðast við þegar átök byrja í bakgarðinum.
Heima hjá okkur.
Og þau munu gera það ef við látum öflin sem kynda undir átök og styrjaldir, komast upp með myrkrarverk sín.
Í Sýrlandi eru kyndararnir tveir.
Öfgaöfl múslima, fjármögnuð af miðaldastjórn Sauda og vestræn ríki með Bandaríkjamenn í fararbroddi.
Uppreisnin í Sýrlandi hefur lítt með frelsisbaráttu almennings að gera. Almenningur er fórnarlamb, ekki gerandi eins og svo oft áður.
Og svona átök munu aðeins stigmagnast þar til enginn fær þau stöðvuð.
Þá er stutt í bakgarð okkar.
Stutt í að okkar börn upplifi hið skefjalausa ofbeldi.
Og hvað gerum við þá????
Kaupum okkur tímavél og gerum það sem við þurfum að gera í dag??? Að hrekja kyndarana úr valdastöðum heimsins???
Eða jörðum við börnin okkar, segjum að shit happens.
Munum að lífið í Sýrlandi á sama rétt til lífs og okkar líf.
Gleymum því aldrei.
Og hættum að haga okkur eins og strútar. Að láta eins og ekkert sé að þegar illskuöfl heimsins vinna leynt og ljóst að því að tortíma framtíð barna okkar.
Mótmælum ofbeldinu í Sýrlandi með því að hrekja leppa AGS frá völdum. Gefum bæði Jóhönnu og Bjarna Ben frí, gefum fjórflokknum frí. Gefum öllum þeim stjórnmálamönnum frí sem hafa ekki kjark til að takast á við alvarleik mála, sem hafa ekki kjark til að ráðast gegn illskuöflum heimsins.
Allt annað er aðeins plástur á opið æxli sem heldur áfram að grafa um sig þar til allt mannlíf er undir.
Það er engin styttri leið, það er ekkert shortcut.
Aðeins verk sem þarf að vinna.
Kveðja að austan.
![]() |
Hafa upplifað skelfilegt ofbeldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.9.2012 | 20:24
Ísland eftir Hrun.
Er land gæðinganna, land spillingarinnar.
Land þar sem stjórnmálastéttin samdi um skuldaánauð þjóðarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðsinn.
Og komst upp með það.
Á sama tíma og við fáum daglega fréttir um fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar, þá horfum við á gæðingana þegja yfir sjálftöku sinni.
Á sama tíma og við fáum daglegar fréttir um innri hrörnun heilbrigðiskerfisins þá er upplýst að sjálftökuliðið ætlar sér milljónir, á milljónir ofan í laun.
Þetta sjálftökulið sem gerir það svona gott, kemur úr öllum flokkum, það er úti um allt þjóðfélagið að gera upp náungann, að gera upp fyrirtæki, að gera upp heimili.
Og ráðstafar gögnum og gæðum til vina og vandamanna, jafnt sinna sem og þeirra sem valdið styðja.
Þetta er Ísland eftir Hrun.
Ísland í dag.
Ísland í boði okkar.
Kveðja að austan.
![]() |
Fengu 280 milljónir í fyrra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.9.2012 | 17:10
Þegar spurt er rangrar spurningar.
Fá menn rangt svar.
Það er rétt hjá Bjarna að agi kemur innan frá hjá sjálfstæðri þjóð.
Utanaðkomandi agi þýðir utanaðkomandi stjórn. Þess vegna ætla ríki ESB gefa eftir sjálfstæði sitt fyrir þýskan aga.
En spurningin er röng.
Fjármálakreppan stafar ekki að agaleysi í ríkisfjármálum, þeirri bábilju er haldið á lofti af leppum braskarafjármagnisins, og jú almennum vitleysingum.
Efnahagskreppan í Evrópu stafar af yfirþjóðlegum gjaldmiðli, sem drepur niður hagkerfi álfunnar.
Og aukið aðhald í ríkisfjármálum dýpkar þá kreppu.
Augljóst mál, blasir við skynsömu fólki.
Og röng spurning Bjarna, að auka aga í ríkisfjármálum á tímum þegar ríkisvaldið þarf að sá fyrir nýjum hagvexti, mun skila sama árangri og hjá hægri mönnum sem bulluðu sömu vitleysuna fyrir kosningarnar á Spáni og á Bretlandi.
Heimska þeirra hefur aukið vandann. Og bitnað sérstaklega hart á kjósendahópi hægriflokka, millistéttinni. Sérstaklega öllum smáatvinnurekstri.
Heimska Bjarna mun hafa sömu áhrif.
Væri vottur af viti í honum, þá myndi hann véfengja hina 80 milljarða vaxtatölu sem ríkissjóður greiðir á þessu ári.
Hún hentar stórauðvaldinu en drepur niður millistéttina.
Þjónar erlendum kröfuhöfum útrásarinnar, drepur niður kjósendur Sjálfstæðisflokksins.
Þar er meinið, þar er lausnin.
En það þarf kjark og forystuhæfuleika til að ráðast tröllið.
Til að afneita heimskunni.
Til að sýna vit þegar stórauðvaldið þrýfst á heimskunni.
Og við erum að tala um Bjarna Ben.
Yngri, ekki eldri..
Því miður.
Kveðja að austan.
![]() |
Auki aga án atbeina ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.9.2012 | 11:43
Er Gylfi forseti að veita ríkisstjórnarflokkunum náðarhöggið???
Og þá af hverju???
Hann hefur hingað til verið talinn mjög dyggur stuðningsmaður Samfylkingarinnar og stuðningur hans hefur vegið þungt fyrir flokk sem gengur erinda hinnar dauðu handar AGS, að það sé ekki bara svartasta atvinnurekenda íhald sem bakkar upp óráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Að það virðist að það sé líka stuðningur hjá verkalýðshreyfingunni við dauðastefnuna.
Þegar Gylfi segir satt, hættir loksins að ljúga, þá er fokið í eiginlega öll skjól þess fólks sem kennir sig við Félagshyggju en gegnir vinnumennsku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, innheimtustofnun hins alþjóðabraskarafjármagns sem rukkar skuldir útrásarinnar hjá íslenskum almenningi.
Gefum Gylfa orðið:
"En er atvinnuleysi er að minnka og störfum að fjölga eins og fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hafa verið iðnir við að benda á? Þeir fullyrða að fækkun atvinnulausra á skrá sýni fram á að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hafi borið mikinn árangur. Er það rétt?,"
Og svar hans er einfalt; Nei.
Af hverju geta þessi umskipti Gylfa verið naglinn í fylgi ríkisstjórnarflokkana???
Samkvæmt skoðanakönnunum í dag þá eru þeir með rétt um þriðjung fylgi hjá þjóðinni, sem er algjört afhroð.
En veturinn í vetur átti að vera sýndarvetur, þar sem allt átti að líta vel út, og þannig átti að halda því fram yfir kosningar þegar raunveruleikinn fer aftur að bíta á fullum þunga með gengislækkun krónunnar og útgreiðslu aflandskróna.
Og í kjölfarið fjöldagjaldþrot vegna verðtryggingarinnar.
Planið var meir að segja að bæta í, að nota mátt Ruv og Baugsmiðla til að láta svart líta út eins og hvítt, og sérstaklega Samfylkingin vonaðist til að endurheimta hluta fylgistaps síns, sem gerði hana að samstarfsflokki Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum.
Gylfi afhjúpar þessa blekkingu, og jafnvel hin aumasta stjórnarandstaða ætti að geta nýtt sér það.
Gylfa er ekki hægt að afgreiða sem Hrunverja eða þjón Davíðs, hann þarf annaðhvort að tækla með rökum eða þagga hann niður, það er mynda múr þöggunar um allt sem kemur frá ASÍ.
Ásamt því að hleypa gjömmurum Samfylkingarinnar á blóðvöllinn, tengja Gylfa og ASÍ við allt það ljóta sem gerst hefur í sögu mannkyns síðustu þúsund árin eða svo.
Tekst það, veit það ekki.
Ríkisstjórnin hefur hangið svo lengi á lyginni að engu er hægt að spá.
Eina spurningin er hvað gengur Gylfa til???
Og ég ætla ekki einu sinni að reyna geta mér til um svarið.
Fagna því aðeins að hann heldur sig við sannleikann, jafnvel þó um eitt lítið örskot sé að ræða.
Því lygin er höfuðmeinsemd íslenskra stjórnmála, og niðurstaðan er Sýnd þar sem öll umræða snýst ekki um það sem er, heldur það sem menn segja að sé.
Orð eru staðreynd, staðreyndir eru þaggaðar, huldar, leyndar.
Þess vegna skiptir sannleikurinn svo miklu máli.
Megi sem flestir halda sig við hann.
Kveðja að austan.
![]() |
Ljóst hver viðbrögð kjósenda verða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.9.2012 | 11:04
Höktandi markaðir berast fyrir vindi.
Þegar einhver segir eitthvað, um að hann muni gera eitthvað sem hann gerir svo ekki, þá hækka þeir.
Slíkar hækkanir endurspegla algjöra örvæntingu, örvæntingu um að allt heila kerfið muni hrynja.
Í því ljósi verður að skilja orð Eurokrata um að örlög Evrópu sé komin undir örlögum evrunnar. Þá eru þeir ekki að hugsa um raunhagkerfi Evrópu heldur sýndarhagkerfið, fjármálabraskið sem hefur vaxið öllu yfir höfuð.
Þeir vita eins og er að sýndin má ekki við neinu, og hrun gervigjaldmiðils gæti lagt hana að velli.
Áhyggjur þeirra af sýndarhagkerfinu skýrist af þeirri staðreynd að það hefur fætt þá og klætt undanfarna 2 áratugi eða svo.
Þeim er alveg sama þó sýndarhagkerfið er eins og svarthol sem gleypir í sig heilbrigða efnahagsstarfsemi, fyrirtæki eru yfirtekin og rænd, óhóflegar kröfur um innri arðsemi leiða til allskonar rangra skammtímaákvarðana, og almennt má segja að menn sem hafa ekkert vit á rekstri eða hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á jörðinni, að þeir ná yfirráðum vegna þess að sýndarkrónur eru gjaldgengar í raunhagkerfinu.
Þeim er svo sama að þeir víla sér ekki fyrir að eyðileggja innviði evrópska samfélaga í meintum sparnaðaráformum sínum svo hægt sé að flytja fjármagn úr raunkerfinu yfir í deyjandi sýndarhagkerfið.
Þannig að bæði hagkerfin veslast upp í dag í Evrópu.
Á meðan höktir fjármálamarkaðurinn, og hann má ekki við neinu. Lækkar reglulega við hverja frétt um ástand efnahagsmála í Grikklandi.
Og afhjúpar þar með fúnu undirstöður sínar, Grikkland er það lítil örprósenta að hún mælist ekki í þeim stærðum sem höndla á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði.
En jafnvel stærsu ílát geta fyllst þannig að einn örlítill dropi valdi yfirflæði, dropinn sem fyllir mælinn.
Og það að gríski dropinn valdi titringi, segir allt um raunstöðu fjármálamarkaðarins.
Segir allt um að sérfræðingar hans meta hann yfirspenntan, að virði eigna á honum sé yfirskráð.
Og að þeir telji að markaðurinn ráði ekki við keðjuverkun vegna yfirskuldsetningu fjárbraskarana.
Það sé ekkert borð fyrir báru.
Og við sem lifum í raunheimi, látum þessa sýnd ráða öllu um framtíð okkar og örlög.
Eigum við ekki frekar að ýta á delete hnappinn og láta sýndina hverfa endanlega inní víðáttu öreindanna, því hún er ekkert annað en öreindir með röngu gildi.
Við gerum það með því að skipta út hinum keyptu stjórmálamönnum, og kjósum fólk í stað fífla.
Hættum þar með að láta fífla okkur.
Og látum lífið hafa sinn gang.
Því kreppan er tilbúningur, hún er vindgangur sýndar sem á sér engar forsendur í raunheimi.
Og við eigum ekki að vera laxerolían sem lagar þann vindgang.
Kveðja að austan.
![]() |
Lækkun víða á mörkuðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2012 | 09:19
Ísland, Kúba norðursins!!
Mætti maður halda að haft væri eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra.
Hann tók þátt í þeim grátkór fyrir fyrra þjóðaratkvæðið um ICEsave og hafði alvarlegar áhyggjur fyrir þá seinni.
Áhyggjur um að við yrðum áfram inní kuldanum. Í frosti hins alþjóðlega hagkerfis.
Þetta gekk ekki eftir, og þeir sem unnu að því að viðhalda því frosti með því að leggja óbærilega skuldaklafa á þjóð sína, þeir berja sér á barm og þakka sér góðærið í útflutningi þjóðarinnar.
Þakka sér hagvöxtinn, þakka sér það að landið varð ekki gjaldþrota.
Vissulega má þakka þessu fólki fyrir að vera algjörir lúserar, tap þeirra í ICEsave stríðinu er afrek sem ætti heima í heimsmetabók Guinnes því þeir réðu ríkisfjölmiðlunum, Baugmiðlum, sorpritinu, ásamt því að njóta stuðnings háskólasamfélagsins, "öldunga" þjóðarinnar, kjaftagjafanna, verkalýðshreyfingarinnar, allra sem hugsanlega hefðu getað skipulagt andóf gegn Valdinu.
Og það má þakka þeim fyrir að hafa verið lengi að fatta að góðærið hafi verið útflutninginum að þakka, þess vegna réðust þau ekki á sjávarútveginn og ferðaiðnaðinn fyrr en núna í vor og sumar, og afleiðingarnar af þeim árásum eru ekki ennþá komnar fram.
Heimska þeirra hefur verið gæfa þjóðarinnar.
En þar með er upp talið það sem hægt er að þakka þessu fólki.
Krónan útskýrir viðsnúninginn í íslensku efnahagslífi. Hún stendur keik þrátt fyrir sífelldar atlögur ICEsave lúserana að henni.
Gjaldeyrishöftin skapa fölsk lífskjör almennings, hann hefur náð að lifa með verðtryggingunni á meðan krónunni er haldið uppi með handafli. En raunvandinn eykst með hverjum deginum því aflandskrónurnar dafna eins og púkinn á fjósabitanum í hávaxtastefnu lúserana, og ekkert fær hindrað að hann mun að lokum springa framan í þjóðina með skelfilegum afleiðingum.
Í raun er ástandið hjá þjóðinni eins og fanganum á dauðadeildinnni sem nýtur vellíðun síðustu máltíðarinnar, en næsta ganga verður sú síðasta.
Til aftökunar.
Þannig er það með aflandskrónurnar, þegar þær verða látnar falla á þjóðina, þá er allt búið.
Þá er úti um efnahag hennar, úti um lífskjör hennar.
Þjóðin lifir í dag rænd og svívirt, en samt þokkalegu lífi. Akrar hennar voru ekki eyðilagðir, það kom ný uppskera, og fái hún henni haldið, þá má vinna sig út úr erfiðleikunum, byggja upp nýja eign, og leggja drög að farsælu mannlífi.
En ræningjalýðurinn er þarna úti, óáreittur og hann hefur hið formlega vald til ákvarðana. Honum er það jafnvel ekki á móti skapi að sjá vöxtinn og viðganginn, því ræningi veit að rán borga sig ekki ef hinn rændi á engin verðmæti.
Fyrst að honum tókst ekki að leggja undir sig akrana, þá vofir hann yfir, reiðubúinn, bíðandi eftir rétta tækifærinu að láta aflandskrónurnar sjúga öll verðmæti út úr efnahagslífinu.
Og þegar hann lætur til skara skríða, þá hirðir hann akrana líka. Kvótinn, raforkan, mun lenda í vasa hins alþjóðlega fjármagns. Restin er svo þekkt, almenningur mun ekki afla nauðsynlegra tekna til að borga af skuldum sínum, hvort sem það er af skuldum heimila, fyrirtækja eða samfélagsins.
Þjóðin verður gerð upp, eins og svo margar aðrar sem lent hafa í dauðgreipum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Alþjóðlegt fjármagn sígurarðinn úr auðlindunum. Fámenn yfirstétt fær að hirða mola sem til falla, en almenningur er ekki með. Hann er þarna til að vinna, og ef hann vill ekki vinna, flytur burt, þá er nóg til að fátæktarlýð sem í örbirgðargettóum heimsins sem glaður myndi koma og fylla skarð hinna burtfluttu.
Grikkir voru fyrstir þjóða í Evrópu til að lenda í þessari kvörn AGS.
Þeir tóku þann sess af okkur eftir ICEsave uppreisnina.
En við erum ekki sloppin, við erum ekki komin inn úr kuldanum.
Við erum í bið.
Biðsal AGS, biðsal dauðans.
Kveðja að austan.
![]() |
Ísland inn úr kuldanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2012 | 12:02
Ást í leynum.
Sjálfstæðisflokkurinn og Evrópusambandið.
Má ekki fara hátt.
Fjármálahrunið haustið 2008 var tækifæri sem íslensk valdastétt ætlaði ekki að láta ónotað.
Á einhvern stórskrýtinn hátt, án nokkurs röksamhengis, þrátt fyrir herkví Evrópusambandsins í ICEsave, þrátt fyrir að Hrunið var bein afleiðing af evrópskri reglugerð, þrátt fyrir dökk óveðursský á evruhimni, á allra fyrstu dögum Hrunsins, þá;
átti lausn á öllum vanda þjóðarinnar vera umsókn um aðild að Evrópusambandinu og rökin voru evran og bakstuðningur Evrópska Seðlabankans.
Og þessa umsókn átti að keyra hratt í gegn.
Svo hratt að boðað var sérstaklega til Landsfundar Sjálfstæðisflokksins með aðeins eitt mál á dagskrá. Og það mál var ekki Hrunið eða ábyrgð flokksins á gjaldþroti þjóðarinnar, heldur aðildarumsókn að ESB.
Eitthvað sem átti að vera formsatriði að ákveða því Valdið á bak við flokkinn vildi inn.
En var ekki formsatriði út af einu manni, Davíð Oddssyni.
Hann var argur útaf því berangri sem hann var staddur, með öll spjót Samfylkingarinnar á sér án þess að flokkurinn lyfti litlafingri honum til varnar.
Hann var eins og Steinn Steinar, hæddur, svívirtur kvalinn, einn uppá hálofti á Svörtuhæðum.
Nema að hann var eini einstaklingurinn sem gat fengið hinn almenna flokksmann til að fylkja sér gegn ákvörðun valdsins.
Sem og hann gerði og Landsfundur flokksins kolfelldi tillöguna um aðildarumsókna að ESB.
Vissulega er atburðarrásin margflóknari en þegar allt hismiði er skrælað frá þá er þetta kjarni þess sem útskýrir af hverju það er ekki opinber stefna forystu Sjálfstæðisflokksins að sækja um aðild að ESB, og þetta er skýring þess að flokkurinn er í dag í stjórnarandstöðu.
Frá Hruni hafa allar gjörðir Valdsins miðað við að verða memm í Valdaklíkunni sem stýrir Evrópu í dag.
Sjálfstæðisflokknum var skákað úr ríkisstjórn, Davíð var rekinn úr Seðlabankanum, og síðan þá hefur Valdið með stuðningi núverandi forystu flokksins skipulega grafið undan trúverðuleika hans.
Af hverju halda menn að skuldinni á hruni krónunnar sé skellt á lausatök í ríkisfjármálum, sem er algjör öfugmæli, í stað þess að benda á hina raunverulegu skýring, hið evrópska regluverk sem er formóðir allra þeirra þennslu sem hér ríkti á árunum fyrir Hrun.
Af hverju halda menn að flokkurinn sé að hjóla í fortíðina sem hann stýrði sjálfur að öllu leyti.
Af hverju halda menn að Bjarni og Illugi séu að mæra forsendur skýrslu Seðlabankans um forsendur gengistöðugleika????
Lausatök á ríkisfjármálum segir aðalhagfræðingur Seðlabankans þegar ríkissjóður var rekinn með afgangi og greiddi niður skuldir. Lagði meir að segja í sjóð fyrir lífeyrisskuldbindingum framtíðarinnar, gjörð sem hvergi var framkvæmd annars staðar í Evrópu nema í Noregi og þá útaf olíugróða landsins.
Ekki orð minnst á til dæmis áhrifin sem endurfjármögnun Björgólfs á Novator hafði á gjaldeyrismarkaðinn eða allar stöðutökurnar sem voru heimilaðar í nafni hins frjálsa flæðis sem enginn gjaldmiðill þolir.
Nei, ekki minnst á skýringarnar en í stað þess talað um það sem ekki var, sem skýringu á vanda krónunnar.
Ala, ríkisstjórnartíð Davíðs Oddssonar.
Margur dyggur Sjálfstæðismaðurinn, sem lætur plata sig uppúr skónum, trúir ekki hinu augljósa þó það blasi við, hann vitnar í yfirlýsingar, orð, um að Sjálfstæðisflokkurinn muni stöðva aðildarviðræðurnar og bla bla.
Eins og að orð séu raunveruleiki.
Raunveruleikinn er hins vegar sá að það er verið aðlaga landið hægt og örugglega að öllu regluverki ESB á þann hátt að á ákveðnum tímapunkti verður vart aftur snúið.
Hin opinbera skýring er sú að það sé vegna þess að Samfylkingin vilji það, flokkur með um 30% þingsæta og um 20% fylgi í dag meðal þjóðarinnar.
Hve heimskt þarf fólk að vera til að trúa að 30% þingsæta sem 20% þjóðarinnar stendur á bak við, geti uppá eigin spýtur innlimað landið í Dauðbandalagið sem kallast ESB???
Án þess að hafa skriðdreka, án þess að hafa flugvélar til að gera loftárásir á borgir landsins???
Minnihlutahópur stjórnar aldrei meirihlutanum nema hafa tök á að fylgja stjórnun sinni eftir með valdi.
Það er raunveruleiki, það er faktur sem engin orð fá breytt.
Já, VinstriGrænir segja hinu trúgjörnu sem vilja láta plata sig uppúr skónum. Broslegt eins og það er. Flokkurinn sem byggði tilveru sína á andstöðu við virkjanir og andstöðu við ESB.
Það er ein skýring á því að VG er í stjórn, og það er valdagræðgi.
Og sú valdagræðgi er réttlæt með einni ákveðinni staðreynd, og það er að ef flokkurinn dansar ekki eftir pípum Samfylkingarinnar, þá komi Sjálfstæðisflokkurinn í staðinn.
Í því eru völd Samfylkingarinnar fólgin, ef hún hefði ekki staðgengil fyrir VG, þá væri valdahlutfallið öfugt.
Ef Samfylkingin hefði engan annan valkost í stöðunni, þá myndi valdagræðgi hennar sjá til þess að hún myndi kyngja stefnumálum VG, því þá hefði VG valkost.
Þann valkost að mynda hreina stjórn með Sjálfstæðisflokknum um andstöðu við ESB.
Það er stefnan sem er framkvæmd sem segir um valdahlutfallið á þingi, ekki orð eða sá sýndarveruleiki sem flokkarnir bjóða uppá til að fela það sem þeir raunverulega vilja.
Ef forysta Sjálfstæðisflokksins meinti orð af því sem hún segir um ESB, þá væri önnur ríkisstjórn í landinu.
Vegna þess að innlimunin í Dauðbandalagið varðar sjálft sjálfstæði þjóðarinnar.
Það þarf ekki glöggan mann til að sjá að í hvert skipti sem Jóhanna er komin uppað vegg með stefnumál sín, þá hefur forysta Sjálfstæðisflokksins komið henni til bjargar.
Þetta gerðist í skuldamálum heimilanna, í ICEsave, í öllum þeim málum sem ESB setur sem skilyrði fyrir innlimun Íslands.
Þetta er ástin í leynum.
Samt ekki meiri leynum en það að samdráttur tildurrófanna er fyrir opnum tjöldum.
Þess vegna þurfa aðstandendurnir, hinn almenni flokksmaður Sjálfstæðisflokksins, að ganga um með lokuð augum, sífellt rekandi sig á raunveruleikann, annars gætu þeir ekki lengur blekkt sjálfa sig.
Eina spurningin er, hve lengi munu þeir þola sársaukann, hve lengi tekst þeim að afneita raunveruleikanum, hve lengi geta þeir talið sjálfum sér í trú um það að flokkur þeirra sé brjóstvörn í andstöðunni gegn ESB.
Málið er að þeir hafa ekki mjög langan tíma því það renna öll vötn á Íslandi í átt að Brussel. Og það er að verða um seinan að veita þeim í annan farveg.
Hve lengi enn, hve lengi enn.
Kveðja að austan.
![]() |
Mikil einföldun að ESB-aðild snúist um evru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2012 | 09:07
Framtíð Evrópu í húfi!!!!
Segir einn af feðrum evrunnar.
Þetta eru stór orð, og þarfnast nánari útskýringar. Hvað er það sem ógnar Evrópu??? Stríð, óáran, evrukreppa????
Nei sagði þessi sami maður á fundi einhverra manna í gær. Þar segir hann samkvæmt frétt MBl.is "Við verðum að hætta að nota evruna sem blóraböggul, ........ Vandinn væri efnahagskreppa en ekki gjaldeyriskreppa".
Það er sem sagt ekki evran, það er gífurleg efnahagskreppa sem ógnar Evrópu.
Þetta er fróðlegt sjónarmið, þó hagvísar í Evrópu séu ekki sérstaklega góðir, stöðnun ríkir á evrusvæðinu, þá er þeir langt í frá að vera eins alvarlegir og í Kreppunni miklu á fórða áratug síðustu aldar. Og ósköp svipaðir og þeir voru í minikreppunni í kjölfar olíuhækkana á áttunda og byrjun níunda áratugarins. Þá ríkti líka stöðnun í Evrópu.
En það hvarflaði ekki að nokkrum manni að tala um framtíð Evrópu nema þá að hún væri björt þegar efnahagserfiðleikarnir væru að baki.
Meira að segja eftir seinna stríð, þegar stór hluti Evrópu var í kaldakoli, þá talaði enginn um að framtíð Evrópu væri í húfi, menn hófu bara handa við að byggja álfuna upp.
En í dag, opnar varla sá evrópski Eurokrati munninn án þess að tala um að framtíð Evrópu sé í húfi.
Nema að Evrópa sameinist í eitt stórríki. Líkt og á dögum Karlamagnúsar.
Og það útaf einhverri efnahagskreppu sem er ekki evrunni að kenna heldur einhverju sem Eurokratarnir kalla lausatök í ríkisfjármálum.
Nú er ekki um það deilt að evrópskir ríkiskassar eiga í basli við að ná endum saman, en það er ekki nýtt vandamál.
Það nær langt aftur í aldir. Til dæmis átti Karlamagnús erfitt með að fjármagna stríðsrekstur sinn, var alltaf skítblankur. Þegar hann sameinaði Evrópu var það vegna þess að hann langur að vera stórkóngur ekki lítill kóngur. Rökin voru ekki að sameining Evrópu væri nauðsynleg til að ná tökum á fjárhirslum konungsdæmisins.
Sannleikurinn er sá að í um 1.500 ára sögu Evrópuríkja þá hefur aldrei gengið eins vel að reka ríkiskassa álfunnar eins og eftir að evran var tekin upp. Það má evran eiga, menn hafa reynt að reka sig á þeim tekjum sem þeir hafa.
En að þessi viðvarandi halli hafi leitt til svo alvarlegrar efnahagskreppu að sjálf framtíð álfunnar væri í húfi, það hefur engum dottið í hug að nefna.
Það er því aðeins tvennt í stöðunni.
Að Eurokratinn ljúgi, hann stundi hræðsluáróður, sem er ekki honum ólikt.
Eða hann hafi rétt fyrir sér. Að sjálf framtíð Evrópu sé í húfi.
En þá er aðeins ein skýring, aðeins ein skýring.
Evran.
Að henni hafi tekist það sem svo margir reyndu, Hitler, Stalín, Svarti dauði, að eyðileggja Evrópu.
Að Evrópa sé í dauðateygjunum. Og það á aðeins rúmum 10 árum.
Geri aðrir betur.
Ætla ekki að leggja dóm á, bendi aðeins á eitt.
Svarið við banvænu eitri er ekki að auka eiturskammtinn.
Evran þarf að víkja.
Kveðja að austan.
![]() |
Framtíð Evrópu sögð í húfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2012 | 12:22
Hvernig hefði fastgengið tæklað síldarhrunið 1969???
Svar; með fjöldatvinnuleysi og almennum gjaldþrotum.
Hvernig tæklar fastgengi efnahagserfiðleika Suður Evrópu???
Svar; með fjöldaatvinnuleysi og almennum gjaldþrotum.
Af hverju er forseti ASÍ talsmaður fjöldaatvinnuleysis og almennra gjaldþrota???
Svar, af því hann langar svo mikið að fá vinnu útí Brussel.
Eina spurningin er, af hverju þiggur hann laun hjá íslensku launafólki á meðan á þessari atvinnuleit hans stendur????
Ég ætla ekki að svara því.
Það segir svo mikið um þjóð okkar.
Það er hún sem ber ábyrgð á leiðtogum sínum, ekki öfugt.
Og uppsker eftir því.
Kveðja að austan.
![]() |
Vill taka upp fastgengisstefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2012 | 08:58
Hið vanheilaga bandalag Davíðs og Jóhönnu.
"Er ríkisábyrgð á innistæðutryggingakerfi Evrópu eða ekki? Eftir málflutning fyrir EFTA-dómstólnum í Lúxemborg í Icesave-málinu er ljóst að enginn treystir sér til að segja það fyrir víst. Fráleitt er að ætla að hin margumrædda tilskipun 94/19/EC taki af tvímæli um það og nú verða menn að bíða næstu tvo til þrjá mánuði eftir að niðurstaða dómsins fáist."
Já, fráleitt er að ætla að tilskipun ESB um innlánstryggingar taki af tvímæli um hina meintu ríkisábyrgð segir blaðamaður Morgunblaðsins.
Og tekur þar með þátt í farsanum hinn meinta vafa, farsa sem er lending ríkisstjórnar Jóhönnu Sig inní Evrópusambandið.
Blaðið hans Davíðs tekur þátt í þeim ljóta leik.
Hver hefði trúað að ægivald atvinnarekendaklíkunnar sem vill í ESB, til að fá evruna sína, sé svo mikið að Davíð, hvort sem hann er meðvitaður eða plataður, sé verkfæri Jóhönnu Sigurðardóttur????
Það er vitað að "viðunandi" lausn ICEsave deilunnar er forsenda þess að bretar samþykki aðild Íslands að bandalaginu. Það er líka vitað að Brussel vill okkur inn vegna hagsmuna bandalagsins á Norðuslóðum.
Og það er vitað að engin lausn er viðunandi nema Ísland játi brot sitt og lofi að borga.
Það er líka vitað að eftir Nei-in 2 var ákveðið að finna samningsflöt með því að viðurkenna greiðslur úr þrotabúi Landsbankans en deilan snýst um meinta vexti, sem þó eru aukaatriði miðað við meginkröfuna um að Íslandi játi sekt sína.
Það er líka vitað að EFTA dómurinn á að kveða upp svokallaðan Salómónsdóm í ICEsave, dóm sem íslensk stjórnvöld hafa lofað að lúta, en biðja um það eitt að möguleiki sé á að þau fái hann samþykktan heima í héraði.
Það er líka vitað að til þess að rangur dómur verði samþykktur, þá þarf að virkja allar áróðursvélar valdsins til að skapa vafa um hið augljósa, að nakti keisarinn gæti hugsanlega verið í fötum, það vita jú allir að ekkert er fyrirfram hægt að segja til um niðurstöðu dómsstóla.
Sigrún Davíðsdóttir hefur verið dugleg við þetta í Speglinum en hlutverk hennar er að koma með fóður fyrir vitgranna fjölmiðlamenn um hinn meinta vafa, að keisarinn sé í fötum þó enginn fái þau séð.
Það sem ekki var vitað var hvort Mogginn myndi spila með.
Jæja, það er vitað í dag.
Mogginn spilar sig hálfvita í málinu.
Við hin sem ætlum ekki að samþykkja ICEsave og ekki ganga í dauðabandalagið á meginlandi Evrópu skulum muna að rangt verður alltaf rangt þó til séu aðilar sem hafa hagsmuni að því að halda fram vafa í málinu og hafa til þess völd og ítök til að hinn meinti vafi sé alltaf í umræðunni.
Munum að reglugerð ESB er skýr, reglugerðir er það eina sem ESB gerir vel.
Reglugerð ESB um innlánstryggingar tekur ekki á þeim aðstæðum sem koma upp við hrun tryggingakerfisins, það var annað hvort talið svo ólíklegt eða seinna tíma vandamál sem þyrfti að setja reglur um.
En reglugerðin tók það skýrt fram að ef einstök aðildarríki settu á stofn tryggingakerfi sem uppfyllti ákvæði reglugerðarinnar, þá væru þau NOT í ábyrgð fyrir tryggingarkerfinu. Fyrir því eru tvær ástæður, bæði hefði regluverkið aldrei verið samþykkt ef það fæli sjálfkrafa í sér ótakmarkaða ríkisábyrgð, sem og hið augljósa, Framkvæmdarstjórn ESB hefur ekki Réttarheimild til að ákveða ríkisábyrgðir fyrir einstök aðildarríki ESB, hvað þá fyrir EFTA þjóðir sem eru aðilar að evrópska efnahagssvæðinu.
Um þetta er ekki vafi, þetta er svona. Orð geta alltaf dregið það í efa það sem er, orðum er alltaf hægt að stjórna. En þau breyta aldrei staðreyndum, það vita allir þeir sem fengu 4,5 á prófi. "Ég held eða ég tel" voru aldrei tekin gild sem rétt svör.
Öll umræða um að þetta eða hitt hefði átt að vera í regluverkinu, er óumræða, það sem gildir það sem stendur í regluverkinu og síðan hvað stendur í íslensku lögunum sem samin voru útfrá regluverkinu.
Það er óumræða að segja að fyrst að tryggingarkerfið hrundi vegna allsherjarhrun bankakerfisins að þá eiga stjórnvöld að gera svona eða svona. Málið er að ef sá sem setti regluverkið, Framkvæmdarstjórn ESB, hefði viljað þessa eða hina athöfnina, til dæmis beina ríkisaðstoð við tryggingarkerfið, þá varð hún að taka það fram fyrirfram, ekki eftir á.
Því það er grundvallarregla réttarkerfisins að lög eru sett fyrirfram, ekki eftir á. Það gildir sem stendur í lögum, ekki það sem hefði átt að standa.
Og lykilatriðið er, að það eina stendur í lögum sem viðkomandi löggjafi hefur heimild til að setja í viðkomandi lög.
Framkvæmdarstjórn ESB hafði ekki og hefur ekki Réttarheimild til að ákveða einhliða ótakmarkaðar ríkisábyrgðir fyrir einstök aðildarríki hins evrópska efnahagssvæðis.
Öll umræða sem byggist á "hefði" eða "ef" er óumræða sem kemur lagaframkvæmd ekkert við.
Lög geta vissulega verið óljós og þau þarf þá að túlka. En mörkin eru að það er aldrei hægt að túlka inní lög það sem ekki stendur, hvað þá að túlka slíkt gegn skýrum lagatexta um það sem stendur.
"NOT" þýðir alltaf EKKI sama hvað Davíð Oddsson og Jóhanna Sigurðardóttir ákveða sín á milli.
Gleymum því aldrei.
Það er sorglegt að þurfa að kveðja dyggan bandamann þjóðarinnar í ICEsave deilunni.
En svona vinnur valdið, það herðir sín kverkatök þegar mikið er í húfi.
Og það sem er í húfi er innlimun Íslands sem beiningarkellingu inní sæluríki evrunnar, ESB.
Þangað vill Sjálfstæðisflokkurinn.
Þangað vill Samfylkingin.
En ekki ég.
Kveðja að austan.
![]() |
Fjárhagsleg áhætta virðist hverfandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.10.): 319
- Sl. sólarhring: 852
- Sl. viku: 1525
- Frá upphafi: 1495243
Annað
- Innlit í dag: 264
- Innlit sl. viku: 1290
- Gestir í dag: 253
- IP-tölur í dag: 250
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar