Maðurinn sem hélt haus.

 

Á meðan aðrir lutu höfði, var myrtur í dag.

Þaggað niður í honum, vegna þess að hann kaus að tala, í stað þess að þegja.

Neitaði þeirri samdaunun sem einkennir hina opinberu umræðu á Vesturlöndum um málefni hins múslímska heims.

Umræðu sem má lýsa með tveimur orðum; Sjálfskipuð þöggun.

 

Þöggun sem er réttlætt með tilvísun í einhverja meinta ofurviðkvæmni hinna trúuðu, en stafar fyrst og fremst af ótta við kolbrjálað fólk.

Ótta sem Stephane Charbonner deildi ekki með restinni af starfsfélögum sínum.

Galt fyrir með lífi sínu, en dó sem maður, lifði ekki sem mús.

 

Sem er grundvallaratriði því forsenda einræðis og kúgunar er útbreiddur músafaraldur.

Meðal fólks, nota bene.

 

Mýsnar á fjölmiðlum munu keppast við næstu klukkutímana að fordæma morðið á Charbonner, fordæma morðin á samstarfsmönnum hans, fordæma morðin á saklausu fólki sem átti leið hjá.

En það hvarflar ekki að þeim að verja þau grunngildi sem hinn látni ritstjóri stóð fyrir. 

Að láta ekki öfga og öfgafólk ritstýra frjálsum fjölmiðlum.

 

Mærðarfullar greinar varða samdar, hástemmdar yfirlýsingar birtar, en engin mynd af brjáluðum trúarleiðtogum eða skeggjuðum spámönnum mun fljóta með.

Að tillitsemi við hina sjálfskipuðu ritskoðun.

 

Því mýs eru ekki menn.

Það vita jú allir kettir.

 

Og öfgamenn líka.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Maðurinn sem bauð þeim birginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ekki bara bjánar í Sjálfstæðisflokknum??

 

Bera Framsóknarmenn líka ábyrgð á hinni sorglegu aðför að heilbrigðiskerfinu??

Voru þeir ekki saklausir meðreiðasveinar frjálshyggjunnar??

Heldur gerendur óhæfunnar.

Og ekki orð að marka öll þeirra orð þegar þeir voru í stjórnarandstöðu??

 

Jóhanna og Steingrímur réttlættu ALLT með tilvísun í hinn meinta stöðugleika.

Aðför evrunnar að samfélögum Suður Evrópu er einnig réttlætt með sömu orðræðunni.

 

Stöðugleika kyrrstöðunnar.

Stöðugleika hins hægfara dauða.

 

Stefna Evrópusambandsins, stefna Bjarna Ben.

En að ég hélt ekki stefna Framsóknarflokksins.

 

Svona getur manni skjátlast.

Kveðja að austan.


mbl.is Verðbólga fari af stað og lán hækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritskoðun hins pólitíska rétttrúnaðar á sér ýmsar myndir.

 

Í Frakklandi nota hinir rétttrúuðu vélbyssur til að þagga niður í fólki sem vogar sér að æmta og skræmta um hinn íslamska veruleika miðaldahyggjunnar.

Á Íslandi nota þeir níð og illmælgi. 

Níðið dugar hér, en dugði ekki í Frakklandi, morðin voru því stigmögnun þöggunarinnar.

 

Þess vegna eigum við að fagna áramótaskaupinu, og vona að það virki.

Blessuð stúlkan sem vogaði sér að spyrja hvort það væri rétt að leyfa miðaldamönnum sem hatast við kvennaréttindi, mannréttindi, tjáningarréttindi, kynréttindi, að byggja í hjarta Reykjavíkur.  Svona í ljósi reynslunnar, svona í ljósi þess sem þeir standa fyrir.

Hún var húðflett líkt og böðlar Jóns Hreggviðssonar væru ennþá meðal vor.

 

Löggan, sem vogaði sé að benda á í saklausum pistli að við værum ekki öll eins, að bakgrunnur okkar og menning væri ólík, og við ættum að skilja í stað þess að afneita, hún var brennimerkt sem rasisti, og rökin voru tilvísun í eitthvað sem hún aldrei sagði.

Hún baðst afsökunar, og lofaði aldrei meir að tjá sig um að við værum ekki öll eins.

 

Vélbyssurnar voru því óþarfar.

Níðið og hatursumræðan dugðu.

 

Og vonum að svo verði áfram.

Það dó jú enginn.

 

Ennþá.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Mannfall í árás í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrátt fyrir afmennskun öfganna.

 

Þá bregst fólk alltaf eins við þegar á reynir.

Kemur náunga sínum til hjálpar, sýnir mennsku og mannúð.

Ekki allir, en allflestir.

 

Þess vegna mun frjálshyggjan ekki sigra Vesturlönd, ekki frekar en nasisminn á sínum tíma. Eða kommúnisminn.

Þess vegna munu Íslamistar ekki ná að miðaldavæða hinn múslímska heim.

 

Vissulega munu margir saklausir þjást áður en Fernisúlfur verður settur í bönd.

Vissulega mun hatrið og heiftin, sem fær fólk til að drepa náungann, grassera enn um sinn, og margir munu liggja í valnum áður en yfir líkur. Og ekki bara í Sýrlandi, og ekki bara í Írak.

Vissulega mun hin siðblinda græðgi halda áfram að skaða samfélög okkar, eyða innviðum og útvista framleiðslu okkar í þrælabúðir sínar í bláfátækum löndum.  Svo ég vitni í fræg orð; "You ain´t see nothing yet".

Vissulega stefnir í endalok þessa heims sem við þekkjum, heims villimannsins sem stjórnast af heilanum sem við fengum í arf frá skriðdýrum risaeðlutímans.

 

En ekki í endir alls, því hinn siðmenntaði maður mun rísa upp.

 

Þá verða öfgamennirnir settir á safn.

Hinir siðblindu fá lækningu á viðeigandi stofnunum, sem nota bene eru ekki þjóðþing okkar eða fundaherbergi stórfyrirtækja.  Heldur þær sem geyma spennitreyjur, sprautur og svoleiðis dót.

Og maðurinn tekst á við vandamál sín sem eru ærin, með vit og skynsemi að leiðarljósi.

Út frá sið, mannúð og mennsku.

 

Því þar sem er manneskja, þar er von.

Von sem mun geta af sér nýja tíma.

Nýjan heim.

 

Heim sem við viljum sjá börn okkar alast upp í.

Og líka önnur börn.

Börn allra sem á jörðu búa.

 

Kveðja að austan. 

 

 

PS.  

Þessi törn hefur verið óvenjulöng miðað við það að ég byrjaði aldrei að blogga á ný. Byrjaði óvart, var alltaf að hætta.  Ætlaði samt alltaf að skrifa tvær langlokur að hætti hússins, aðra um kjarna læknadeilunnar, hina um eitthvað sem ég man ekki.

Til þess þurfti að sækja flæðið út úr ryðguðum heilasellum, og það gekk vægast sagt brösuglega.  Játa að stundum skildi ég varla mína eigin pistla, tilvísanir í allar áttir, og ekki alltaf sem ég mundi í hvað þær voru að vísa.  

Þess vegna ákaflega hissa á tryggð fastra lesenda frá gamalli tíð, og þakklátur líka. Fyrir bloggara er svona tryggð auðlegð, vandfundin auðlegð.  Vildi að ég hefði meiri hæfni til að nýta hana, en sjálfsagt yrði ég illleshæfur því það er langt síðan ég sá að sá vandi sem þjóðin glímir við er ekki hagfræðilegs eðlis, eða eitthvað annað sem tengist þeirri leiðinlegri skepnu, heldur er hann siðlegs eðlis.

Grunngildin hafa einhvern veginn gufað upp og ekkert komið í staðinn annað en $ merkið.

Frjálshyggjan fyllti uppí tómarúmið, hún bjó það ekki til.

Auðlegð þjóðarinnar er okkur að þakka, ekki trúarbrögðum $ merkisins.  

Og það þarf stærri kalla en mig til að fá hljómgrunn með þá nálgun.

 

Allavega þá næ ég ekki að grípa þessa grunnpistla þegar þeir fljúga framhjá hugskotum mínum, og jólin nálgast óðfluga, hugurinn er kominn í jólaskap, og vill miklu frekar klingja Kling a Bell, en að hreinsa út ryð og stirðleika.

Nóg er því komið í bili en næsta þögn verður vonandi ekki eins löng og sú síðasta, veit samt aldrei því það er erfitt að halda úti svona bloggi án þess að hafa eitthvað til að styðja.  Flokk, málefni, heilsteypta stjórnmálamenn.

En ég skrifaði um Vonina hér að ofan, og ég trúi því að hún lifi einhvers staðar í grænum dal fjarri svertunni sem hefur yfirtekið stjórnmál okkar í krafti peninga sinna.

Og hún brjótist fram með hækkandi sól.

Veit allavega að Liljurnar lifa, jafn fagrar sem fyrr.

 

Að sjálfsögðu gat ég ekki komið frá mér einfaldri jólakveðju án þess að hnýta hana saman við eitthvað út og suður.

En það sem ég vildi segja með mínu Pje-essi var Gleðileg jól til ykkar allra, (já líka til ykkar sem ég hef víst ergt alla daga eða því sem næst), megi hið nýja vera farsælt fyrir okkur öll.

Jólakveðjur,

Ómar. 

 


mbl.is Reyndi að grípa í byssu mannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkaframtakið í hnotskurn.

 

Það getur haft jafnmiklar tekjur af því sem virkar ekki , og því sem virkar.

Nema það seinna er yfirleitt kostnaðarmeira, og skilar því minni gróða.

 

Sem er skýring þess að heilbrigðiskerfið á aldrei að vera einkavætt.

Kveðja að austan.


mbl.is Féfletti krabbameinssjúkling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin þarfnst þjóðarsáttar um heilbrigðiskerfi sitt.

 

Og ráðherra sem heldur að vandinn snúist um kaup og kjör, er ráðherra sem er ekki starfi sínu vaxinn.

Sem er sorglegt því ég hef alltaf talið Kristján Þór Júlíusson hæfastan ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

 

Ég þori að fullyrða að fyrir utan örfáa staurblinda stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, þá sem halda að aðeins hinir veikist, að þá sé leitun meðal almennings af fólki sem vill áframhald þessa skrípaleiks sem átt hefur sér stað í haust.

Fólk sér afleiðingarnar, fólk sér að deilan er komin að endamörkum.

Það þekkja allir einhvern sem býr við óvissu um næstu skoðun, um næstu aðgerð. Slítandi niðurdrepandi óvissu.

Og leitun held ég að slíku sálarlausu foreldri að það óttist ekki hvað gerist á vormánuðum ef lokaflóttinn brýst út meðal þeirra lækna sem þó hafa þraukað síðustu ár.

Hver á þá að lækna börnin okkar??

 

Eins þætti mér það skrýtið ef forsvarsmenn atvinnulífsins séu ekki farnir að spá í hvernig hægt sé að halda úti nútíma atvinnulífi með þriðja flokks heilbrigðiskerfi. Sem er ekki í dag, en verður ekki innan svo skamms ef vitiborið fólk grípur ekki frammi fyrir hendurnar  á krökkunum sem illu heilli voru kosin á Alþingi.

Velmenntað fólk er forsenda nútíma atvinnulífs, velmenntað fólk býr ekki í landi þar sem ekki er öruggt að börnin þeirra fái fyrsta flokks læknisþjónustu.  Það hefur val, það getur greitt atkvæði með fótunum.

Ef forystumenn atvinnulífsins sjá þetta ekki, þá er ljóst að þeir eru bjánabelgir, ekki hæfir til að leiða samtök sín.

 

Læknadeilan þarf að leysast og það þarf að takast á við niðurníðslu heilbrigðiskerfisins.  

Undirmönnun þess, lélegum húsakosti, óviðunandi aðbúnaði, og svo mætti lengi telja.

Heilbrigðiskerfið er eins og útgerð þar sem allur arður er tekinn jafnóðum út úr fyrirtækinu, en skip og búnaður fá ekki lágmarkaviðhald, og ekki er endurfjárfest í nýjum skipakosti.  Einn daginn er enginn arður af slíkri útgerð, því það er ekkert skip á sjó, þau eru annað hvort sokkinn, eða ósjófær við bryggju.

Skip er ekki hægt að láta drabbast endalaust niður og það sama gildir um heilbrigðiskerfið.

Einn daginn er það ekki starfandi lengur, og það styttist óðum í þann dag.

 

Þess vegna þarf að leita sáttar við lækna, og það sem meira er, það þarf þjóðarsátt um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Annars er þjóðin feig.

Ekki fær um að viðhalda sjálfri sér.

 

Fyrr má nú vera þjónkunin við fjármagnið, fyrr má nú vera undirlægjuhátturinn við burgeisa, að kjósa frekar feigð en líf.

Líf þjóðarinnar, líf okkar allra.

 

Ef Alþingi er ófært að leita sátta þá á forseti Íslands að setja það af.

Skipa utanþingsstjórn með það eina markmiði að bjarga heilbrigðiskerfinu.+

 

Það er kominn tími á mannamálið.

Kveðja að austan.


mbl.is Sáttanefnd ekki tímabær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útspil stjórnarandstöðunnar setur verkalýðshreyfinguna útí horn.

 

Í miður góðum félagsskap með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

 

Framan af læknadeilunni voru læknar án bandamanna.  

Stjórnarandstaðan sat hjá, líklegast mest vegna þess að rætur deilunnar má rekja til ákvarðana síðustu ríkisstjórnar, þegar ákvörðun var tekin að slá skjaldborg um hið dauða fjármagn en ekki hið lifandi, fólkið í landinu, og þá þjónustu sem var nauðsynleg til að hér þrifist nútímasamfélag.  

Hjá stjórnarandstöðunni eru ekki margir sem gata tjáð sig opinberlega þannig að fólk skilji og taki undir.  Og sá hópur er algjörlega vængbrotinn, eða hvernig kæmi það út ef Steingrímur Joð hefði haldið þrumuræðu gegn öllu því sem hann stóð fyrir á meðan var allsherjarráðherra?

 

Alvarleiki læknadeilunnar er sá, að læknar eru lykilstarfstétt heilbrigðiskerfisins, og þeir eru óðum annaðhvort að hverfa úr landi, eða fylla laus pláss á elliheimilum landsins.

Óbilgjörn stjórnvöld, sem kjósa að greiða tugmilljarða í óþarfa vexti, eru draumaskotmark málþófs og sígagnrýni á Alþingi.  

Ríkisstjórnin þyldi ekki slíkan atgang til lengdar því uppistöðu kjarnafylgis hennar eru á svipuðum aldri og lungað af starfandi læknum, og eldri.  Enginn er svo heimskur, að styðja flokk sem stuðlar að ótímabæru andláti hans.  En eldra fólk er líklegast að verða útundan þegar aðgerðum verður að fresta, og biðlistar hrannast upp.

 

Eina skýring þess að stjórnarandstaðan hefur ekki nýtt sér þessa stöðu er að hún er sjálf sek, hún hefði gert það sama og núverandi stjórnarflokkar, ef hún sjálf hefði lent í þessari deilu.

Passið í alvarlegustu krísu seinni ára var því hennar eini valkostur, og þeir sem spila, vita að pass skilar ekki vinningum í hús.

 

Verkalýðshreyfingin, undir forystu Gylfa forseta og skriffinna hans á skrifstofu ASÍ, hefur hinsvegar stutt ríkisstjórnina heilshugar í að knýja fram uppgjöf lækna, því hin heilaga kýr Stöðugleiki er sögð í húfi.

Samt hefur hún ekki treyst sér til að svara þeirri spurningu, hvaða stöðugleiki ríkir í þjóðfélagi þar sem engir eru læknar.  Eða hvort hún vilji þjóðfélag þar sem ríka fólkið kaupir sér læknisþjónustu en við hinir horfum á börnin okkar deyja ef ekki er hægt að lækna þau  með ódýrustu samheitalyfjunum.

Birtingarmynd hins vanheilaga bandalags þeirra Gylfa og Bjarna er sú áróðursbrella að ef læknar fái þær kjarabætur sem þarf til að þeir vilji áfram vinna hér á Íslandi, að þá eigi allir launþegar að fá slíkar bætur, sem yrðu þá óbætur því verðlagið myndi gleypa þær allar.

Lítilsvirðing þessar Barbabrellu er sú að ganga út frá því að launafólk sé haldið sömu firrunni og stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar, að það sé hægt að halda úti heilbrigðiskerfi án lækna.

 

Stjórnarandstaðan hefur áttað sig á þessari firru, og kallar á þjóðarsátt um það sem þarf að gera til að læknar vilji áfram sinna okkur, en ekki öðrum.

Stjórnarandstaðan hefur gert sér grein fyrir að lausn deilunnar snýst ekkert um að toppa kjör þeirra landa sem best borga, heldur að ná sátt um viðunandi laun, og viðunandi vinnuaðstæður.

Kannski hefur einhver Píratinn komið á fund með myndina sem flýgur um netheima þar sem annars vegar er borið saman aðbúnaður þeirra sem gæta fjármagns, og hinna sem gæta okkar, fólksins í landinu.  Og bent á að það eru til peningar í landinu, þeir safnast aðeins upp á röngum stöðum.

Hjá afætum, hjá sníkjudýrum, ekki þar sem þeirra er þörf, svo samfélagið gangi, svo verðmætasköpunin, sem er forsenda alls mannlífs, geti gengið snurðulaust.

 

Fólk er ekki heimskt, fólk er ekki fífl, jafnvel þó það þiggi laun, jafnvel þó það vinni störfin.

Fólk gerir sér grein fyrir því að það þarf fæði, klæði og húsnæði, og það þarf ákveðna grunnþjónustu eins og menntun og heilsugæslu.  

Og það fórnar þessu ekki fyrir eitthvað sem skríbentar fjármagnsins kalla stöðugleika.

 

Það er svo einfalt.

Þarf ekki að ræða.

 

Launahækkanir til lækna munu ekki verða forsenda komandi kjaraviðræða, ætli það sé ekki líklegra að launahækkunin hans Bubba og launahækkunin hans Þorsteins verði þar til umræðu.

Forstjórar þessa lands hafa kveikt bál, sem þeir verða sjálfir að slökkva.

Læknar koma því máli ekkert við.

 

Útspil stjórnarandstöðunnar hefur stillt hinu ljóta upp við vegg.

Og um leið hreinsað hana af skít fyrri ára.

Því þegar upp er staðið skiptir ekki öllu þegar fátt er um valkosti, hvað þú hefur gert, heldur hvað þú vilt gera þegar neyð ógnar.

 

Þjóðin er í nauð.

Nauð sem þarf að leysa.

 

Svo einfalt er það.

Kveðja að austan.


mbl.is Vilja sáttanefnd í læknadeiluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyndarhyggja fóðrar lygina.

 

Og sá sem viðheldur henni hefur eitthvað að óttast.

Þá spyr maður sig, af hverju leggja læknar ekki spil sín á borðið, upplýsa þjóðina um hverjar kröfur þeirra eru, hvaða forsendur búa að baki, og hvað þeir telji að gerist, nái þeir ekki viðunandi samningum.

Það er ekki nóg að segja að fjármálaráðherra sé lyginn, eða það sem verra er, að hann sé trúgjarn, að hann láti undirmenn sína ljúga sig fullann.

Það er búið að gera það einu sinni, eftir að fjármálaráðherra þaggaði niður í gagnrýni stjórnarandstöðunnar með þessari fullyrðingu.

Endurtekning er ekkert annað en þrátefli gagnkvæmra fullyrðinga.

 

Og það er lækna að hleypa birtunni inní fundaherbergi samninganna.

Vegna þess að það eru þeir sem eru að afneita fullyrðingum viðsemjanda sinna.

Sjái þeir ekki þessi sannindi, þá lúta þeir slæmri forystu.

Jafnvel að þeir séu þátttakendur í þeim hráskinsleik frjálshyggjunnar að rústa hinu opinberu heilbrigðiskerfi, svo þeir fái opið veiðileyfi á sjúklinga sína.

 

Það er ekki þannig að hin dauða hönd frjálshyggjunnar hafi ekki fundið græðgisálir meðal lækna.

Spurningin er aðeins, hve víðtæk svertan er.

Er hún í bandalagi við fjármálaráðherra, að markmiðið sé það sama?

Eða sér hún aðeins um hvíslið um að ekkert skuli látið uppi.

 

Næstu dagar verða mjög upplýsandi um hina raunverulegu stöðu læknadeilunnar.

Sannleikurinn mun upplýsa um hver það er sem lýgur.

Leyndin mun upplýsa að í raun er aðeins um einn deiluaðila að ræða.  Og hann deili við þjóð sína.

 

Hvort sem er, þá er framtíð þjóðar í húfi.

Og við getum ekki setið hjá.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Áróðursmaskína stjórnvalda“ í gang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirrtur ráðherra.

 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins telur sig komast upp með allt eftir að hann svínbeygði þingflokk sinn með því að skipa einn úr ættarveldinu innanríkisráðherra.

Vissulega eru þingmenn flokksins gungur, og fóru ekki að fordæmi Jóns Sigurðssonar með því að rísa allir sem einn og fætur og segja; "Vér mótmælum allir", en þar með er ekki sagt að restin að þjóðin sé jafnrislág.

Það sem gengur í Valhöll, gengur ekki í læknadeilunni.

Læknar hafa nefnilega fætur sem þeir geta greitt atkvæði með.

 

Ég hef áður bent á í bloggpistli að þegar feigðin sæki kjósendahóp Sjálfstæðisflokksins heim, þá sé úti um völd Bjarna.

Því fylgi flokksins muni líka greiða atkvæði með fótunum.

 

Óhætt er að segja að Bjarni Benediktsson flýti fyrir þeirri atkvæðagreiðslu með flumbrugangi sínum.

Hann virðist ekkert hafa í sér til að sjatla deilur og sætta ólík sjónarmið.

Hvað þá að hann geti leitt þjóðina á erfiðleikatímum.

 

Þjóðin á ofboðslega mikið undir að sátt náist við lækna og þeir komi aftur til starfa.

Lygnir ráðherrar eru ekki líklegir til að ná þeirri sátt.

 

Það er af sem áður var að fullorðið fólk stýrði Sjálfstæðisflokknum, þessarar kjölfestu íslenskra stjórnmála.

Eitthvað tengt sætabrauð kemur frekar upp í hugann.

Óhæft til að leiða, óhæft til að stjórna.

 

Afhverju þjóðin sættir sig við þessa kökuveislu er mér fyrirmunað að skilja.

Hélt að fólk ætti börn sem geta veikst, foreldra sem þarf að sinna.

Og það er ekki alltaf einhver annar sem veikist af krabbameini, eða fær hjartaáfall.

 

Það er eins og fólk skilji ekki að stjórnmálmenn okkar hafa gengið of langt.

Og við erum fórnarlömbin.

Sitjum uppi með kostnaðinn af tjóninu.

 

Í raun er Bjarni spegilmynd okkar.

Það erum við sem erum firrt.

 

Við verjum ekki börnin okkar.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Segir orð fjármálaráðherra hafa valdið tjóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kattarþvottur hins siðbinda.

 

Hann bendir á suma, eins og þeir hafi haft sjálfstæðan vilja, og þeir ekkert vitað.

Gleymt er gortið sem sagði heimsbyggðinni að hinar svokölluðu þvinguðu yfirheyrslur hefðu bjargað mörgum mannslífum, komið í veg fyrir mörg hryðjuverk.

 

Og hann afgreiðir hinar viðbjóðslegu pyntingar með þeim orðum að sumir hefðu farið yfir strikið.

Skyldi hann hafa verið spurður hvar strikið hafi verið dregið??

 

Afsiðun frjálshyggjunnar vestra hefur ekki bara leitt til gífurlegrar misskiptingar, eða samfélag sem samþykkir morð lögreglumanna á börnum, hún hefur líka leitt til pyntinga á föngum, tilviljunarkennd dráp úr lofti, og skapað hjarðir stuðningsmanna sem reyna að réttlæta viðbjóðinn.

Allt afsakað með því að þrátt fyrir allt hafi hún leitt til betri lífskjara.

Sem er rétt hvað auðmenn varðar, en ekki restina af almenningi.

OECD afhjúpaði lygavaðalinn í berorðari skýrslu núna í vikunni, hagkerfi Bretlands er til dæmis metið 30% minna en ella, fyrir utan að sem hefur komið inn, hefur runnið í vasa hinna örfáu auðmanna og helstu tindáta þeirra.

 

Enda hvernig á velsæld geta byggst á misskiptingu og arðráni almennings?

Eða eitthvað gott að koma út úr leiðsögn siðblindra.

Eða stefnu sem boðar mannahatur og mannvonsku.

 

Það er ekkert nýtt undir sólinni, aðeins nafnið á skepnunni er nýtt.

Öfugmælið frjálshyggja.

 

Þetta var skráð fyrir mörgum öldum síðan:

 

Verk þeirra eru ódæði

og ofbeldi er í lófum þeirra.

Fætur þeirra eru skjótir til ills,

fljótir að til að úthella saklausu blóði.

Hugsanir þeirra eru illar

eyðing og tortíming á vegum þeirra.

Veg friðarins þekkja þeir ekki

og réttlæti er ekki í sporum þeirra.

Þeir gerðu vegi sína hlykkjótta,

enginn, sem á þeim gengur, þekkir frið.

 

Naprari getur lýsingin á græðginni, misskiptingunni, pyntingunum eða morðum á saklausu fólki með drónum og fjárstýrðum flugskeytum.

Eins og ritarinn hafi hlustað á fréttirnar þegar hann skráði niður þessi orð.

 

Hjörðin þegir.

Það þarf meira til að augu hennar opnast.

 

Helið er hennar vegferð.

Kveðja að austan. 


mbl.is Sumir fulltrúar fóru yfir strikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.10.): 29
  • Sl. sólarhring: 749
  • Sl. viku: 3640
  • Frá upphafi: 1493747

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 3063
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband