25.9.2021 | 17:35
Kaustu rétt??
Er spurning sem ég spurði nokkra í bæjarferð minni sem og ferð minni á kjörstað.
Ekki að mér kæmi það nokkuð við, aðeins árétting á að það sem maður kýs, er rétt.
Sigmundur Davíð er bjartsýnn í þessari frétt.
Það er vel, líklegast hefur ekki nokkur flokkur háð ömurlegri kosningabaráttu en Miðflokkurinn, flokkurinn sem stóð vörð um sjálfstæði þjóðarinnar, féll í gryfju ömurlegustu frjálshyggju sem aðeins getur tengst einum Klausturdónunum, þingmanni sem gerir Hannes að hóflegum miðjumanni, jafnvel vinstrimanni.
Sigmundur hafði fjöregg að verja, en augljóst var að hann var ekki þarna langa lengi, á meðan fór sá kjaftforasti á kreik.
Fjöreggið var sjálfstæði þjóðarinnar, andstaða við reglufarganið og frjálshyggju hins frjálsa flæðis.
En kjóstu rétt, allavega fór mitt atkvæði ekki til svertunnar sem hafði yfirtekið Miðflokkinn.
Breytir samt því ekki, að ég veit, að það sem maður kýs, er rétt á þerri stundu sem er kosið.
Og að það sem aðrir kjósa, kjósa þeir rétt.
Eftir bestu samvisku og þeirri sýn sem þeir hafa á þjóðmál og stjórnmál.
Niðurstaðan kallast svo lýðræði.
Skyldan er svo þeirra sem fengu stuðning, að mynda starfshæfa ríkisstjórn.
Margir eru svartsýnir á flokkakraðakið, en munum eitt, þegar á reyndi í heimsfaraldrinum, þá voru allir flokkar samstíga.
Sýndu ábyrgð, létu ekki undan freistingu lýðskrumsins.
Nema kannski hluti Sjálfstæðisflokksins, en var það ekki aðeins öryggisventill fyrir meinta óánægju í samfélaginu?
Við eigum nefnilega þrátt fyrir allt mikið af góðu fólki í stjórnmálum.
Sýn þess og áherslur eru vissulega mismunandi, en þetta er gott fólk.
Vill vel, og bregst rétt við þegar ógn eða hætta steðjar að.
Hvort það dugi til að mæta áherslum nýrrar aldar, eða þeim ógnum sem smán saman byrja að skella á fjörur og ströndum landsins, skal ósagt látið.
Í raun veit aðeins tíminn þar um.
Kjósum samt.
Kjósum rétt.
Treystum svo fólkinu sem við kusum til að ná saman og breyta rétt.
Þau allavega reyna.
Tökum svo slaginn við niðurstöðuna.
Styðjum hana ef við erum sammála.
Reynum að breyta henni ef svo er ekki.
Þetta kallast lýðræði.
Það besta sem við höfum.
Kveðja að austan.
PS. Núna er kosningapistlum mínum lokið, þakka lestur og athugasemdir. Kveðjan að austan mun örugglega heilsa á ný.
![]() |
Telur líklegt að fylgið verði meira |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.9.2021 | 10:48
Það er réttur allra að eiga öruggt húsaskjól.
Segir Björn Leví Pírati, og mikið vildi ég að allir stjórnmálamenn tæku undir þessi orð hans.
Því þá væru íslensk stjórnmál hætt að snúast um víðáttuvitleysu, heldur um kjarna lífs og siðaðs samfélags.
Réttinn til að ala upp börnin í öruggu skjóli.
Því hvað sem menn bulla og sulla, afneita kynjum og kynferði, telja æxlun vera meinta kúgun feðraveldis, eða menn segja að tilgangur lífsins sé auðsöfnun, það er drifkrafturinn, þá er aðeins einn tilgangur með veru okkar hér á jörð.
Að geta af okkur líf, og koma því til manns.
Ég hef ekki alltaf verið beint sá jákvæðasti út í Pírata en þetta er rétt hjá Birni, og mikið vildi ég að hann sæi samhengi milli orða sinna og gjörða, en það er önnur saga.
Því það vill svo til, að þegar stjórnmál snúast um kjarna, tilgang samfélagsins og siðaða hegðun stjórnvalda og atvinnulífs gagnvart almenningi, þá finna menn leiðir og lausnir.
Ekkert svona vitrænt er rætt í íslenskum stjórnmálum í dag.
Eiginlega miðað við jólasveinaleikinn í aðdraganda kosninganna þar sem auglýsingastofur dældu frá sér loforðakosningaauglýsingum, þá mætti halda að þetta væru kosningar fíflanna, veruleikafirrts fólks sem hefði ekkert að segja.
Sem er fjarri lagi, það er mikið að góðu fólki í framboði, skýringanna er því að leita annað.
Vonandi tekst okkur að vinna okkur úr þessu hyldjúpa vitleysingapytti, í landi alsnægtanna, ástandið ekki að vera eins og það er.
Á öld skynseminnar á fíflska ekki að vera drifkraftur allrar stjórnmálaumræðu.
Og þess sjást skýr merki í síðustu skoðanakönnunum, Sjálfstæðisflokkurinn er að fá fylgi til baka frá Viðreisn, ekki vegna þess að hann er betur mannaður, þvert á móti, heldur vegna þess að hægri sinnaðir kjósendur óttast að Viðreisn verði lykill að glundroðastjórn glundroðaflokka.
Sem og að gamla góða Framsókn klikkar ekki á svona tímum, fylgi flokksins fer uppá við, taktík Sigurðar Inga, að vera hann sjálfur en ekki skítadreifari á aðra, er að virka.
Síðan vonar maður að kjósendur á vinstri vængnum sjái að þegar Merkel hætti í Þýskalandi, þá fengum við okkar eigin Merkel sem er Katrín Jakobsdóttir.
Því hvað sem verður sagt um vanda þjóðfélagsins, misskiptingu kjara eða annað, þá verður hann ekki leystur með rugli.
En kyrrstöðustjórn breytir engu, en hún grefur þó ekki dýpri gröf svo erfiðara verður eða jafnvel ókleyft að fá hér siðaða manneskjulegt þjóðfélag.
EES samingurinn verður að víkja, hann er rótin af flestu enda byggður af hugmyndafræði mannvonsku frjálshyggjunnar.
Hvort sem það er þögult samþykki núverandi ríkisstjórnar á hinni hægfara innlimun eða bein aðild eins og Samfylkingin og Viðreisn leggja til, þá verður ekki aftur snúið þegar heljargreip skrifræðisins hefur lagt allt hér í dróma, frjálshyggju eða markaðsvætt alla starfsemi hins opinbera, gert einstaklingnum eða smærri fyrirtækjum ókleyft að starfa á markaði reglugerðafrumskógarins.
Eins er það ótrúlegt að það skuli ekki vera rætt til þaula hvernig þjóðin geti orðið sjálfbær með mat, eigandi alla þennan hita og alla þessa orku, núna á tímum þar sem lofslagshörmungar eru síógn við matvælaframleiðslu heimsbyggðarinnar.
Eða við gerum okkur sjálfbær í orkuöflun og orkunotkun, hafa menn ekki heyrt um vetni eða rafmagn, án þess að við sem þjóðfélag séum færð aftur fyrir daga iðnbyltingarinnar.
Sem er megintrend allrar lofslagstrúboðsins sem núna tröllríður allir umræðu.
Jæja, þetta áttu bara að vera örfáar línu.
En endalaust er hægt að blása, en líka þakka.
Og Björn Leví á þökk fyrir þessi orð sín.
Mikið gæfi ég fyrir að ég upplifði allavega einar kosningar þar sem þessi mennska, rétturinn til að ala börn uppí öryggi, sé mál málanna.
Björn fær prik frá mér.
Kveðja að austan.
![]() |
Það er réttur allra að eiga öruggt húsaskjól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.9.2021 | 09:26
Samræðan við þjóðina.
Við Íslendingar stöndum á tímamótum.
Ný öld felur í sér nýjar áskoranir sem við verðum að mæta, þær áskoranir verða ekki leystar með hugmyndafræði eða stjórnmálum liðinnar aldar, sú öld er liðin, hugmyndafræði hennar, óheft auðhyggja og glóbalismi gjaldþrota.
Þrátt fyrir áður óþekkta velmegun og efnahagslegan styrk, þá eru lykil innviðir okkar að grotna, vinnumarkaðurinn okkar er kvalinn af félagslegum undirboðum hins frjálsa flæði Evrópusambandsins, sama frjálsa flæði veltir hverri krónu úr landi í gegnum skúffufélög aflandseyjanna, sama regluverk hefur náð til sín yfirstjórn á orkuauðlindum þjóðarinnar og mun knýja fram markaðsvæðingu þeirra innan ekki svo margra ára.
Önnur regla úr þeim ranni, krafan um hið lægsta tilboð skýrir að við kunnum ekki lengur að byggja hús nema úr hálfónýtum efnum, myglandi og grotnandi fyrir tímann.
Enn önnur meinsemd er offjölgun háskólamenntaðs fólks, fyrir utan siðblinduna að ætla að önnur störf séu unnin af fátæku fólki úr fjarskanum, þá virðist margt af því halda að hlutverk þess sé að semja reglur, verkferla, viðmið, skrifa síðan skýrslur, gera kröfur á að aðrir skrifi skýrslur, útkoman er óskilvirkni í stjórnsýslunni sem sýgur til sín fólk og fjármuni og skilar æ minna frá sér.
Erum við sátt við þetta??
Sátt við hnignunina, sátt við að vinnumarkaður okkar gagnvart ófaglærðu fólki líkist æ meir vinnumarkaði hinnar fornu Rómar, erum við sátt við reglufarganið, óskilvirknina, við hina síhækkandi þröskulda sem mæta fólki sem ætlar að gera eitthvað, en einmitt þetta að ætla að gera eitthvað er forsenda grósku og gróandans í samfélaginu.
Erum við sátt við þá hugmyndafræði að við komandi orkuskiptum sé betur stæðu fólki hyglað en kostnaðurinn látinn lenda á fullum þunga á hinum tekjuminni, eða að innviðir eins og vegir séu fjármagnaðir með notendagjöldum þar sem skúringakonan greiðir jafnt og forstjórinn þegar vegir eru notaðir??
Eða þá hugmyndafræði sem hefur kallað eftir flötum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu frá því lengur en ég man, afleiðingarnar sífellt stirðara og óskilvirka kerfi sem jú sýgur til sín fjármuni en býr við ákaflega frumstæðar aðstæður til að leysa verkefni sín. Við starfsmannaumhverfi þar sem fólk er pískað út, með þekktum afleiðingum, æ stærri hluti launaútgjalda fara í veikindi og sjúkrakostnað, restin af starfsfólkinu vinnur stanslausar aukavaktir, sem er dýrasta form launagreiðslna.
Erum við sátt við þetta, erum við sátt við hitt??
Ef svo er þá þarf stjórnmálastétt okkar ekki að þurfa að eiga samræður við þjóð sína.
Allir ligegladir, og styrkur samfélagsins til að takast á við nýjar áskoranir fjarar út, en þær eru óumflýjanlegar, við munum sem þjóð þurfa að takast á við þær.
Þessar kosningar áttu að snúast um þessa samræðu.
Stjórnmálaflokkar hafa þrátt fyrir allt margt að segja, stjórnmálamenn okkar hugsa sitt þó þeir segi annað í því umhverfi sem þeim er boðið uppá.
Þeir hafa skoðanir á til dæmis fjórða orkupakkanum, þeir hafa skoðanir á því hvort sem við þjóð getum ekki lengur staðið sjálfstæð og þurfum skjól og forræði stærri ríkja eða ríkjabandalaga, það er allavega ekki boðlegt að við séum innlimuð í Evrópusambandið í gegnum regluverk EES samningsins, án umræðna.
Auðvitað er það hlægilegt að hlusta á formenn Viðreisnar og Samfylkingarinnar tala um evru sem einhverja lausn til að bæta lífskjör þjóðarinnar, svona miðað við hina stanslausu kreppu eða stöðnun á evrusvæðinu síðustu 10 árin eða svo, og hvaða stöðugleiki er fólginn í að sækja um inngöngu í ríkjabandalag sem er á fallandi fæti vegna innri sundrungar og óstöðugleika??
En er núverandi ástand eitthvað betra??, erum við ekki raun að aðlagast Evrópusambandinu í einu og öllu, í dag krefst það yfirráða yfir orkuauðlindinni, hvenær krefst það yfirráð yfir öðrum auðlindum þjóðarinnar, til dæmis undir merkjum sameiginlegrar matvælastefnu??
Hvernig á að fjármagna vegi eftir innreið rafmagnsbílana??, er annað í boði en veggjöld??
Er hægt að hrista uppí heilbrigðiskerfinu, fá heilbrigða togstreitu á milli ríkis og einkarekstra, án þess að sígræðgi auðhyggjunnar rýi allt inn að beini??
Hvernig sjáum við fyrir okkur framtíðina þar sem allir eru háskólamenntaðir en mörg störf krefjast annars konar menntun eða færni?? Ætlum við að leyfa lögmáli framboðar og eftirspurnar að ráða, sem þýðir að háskólamenntað fólk lækkar í launum en ófaglært hækkar, eða eiga lífskjör háskólamenntaðra að byggjast á lúsarlaunum hinna ófaglærðu, að þeim sé haldið niðri með félagslegum undirboðum og innflutningi á fólki frá fátækari löndum??
Hvernig??, hvernig??, hvernig??
Þar sem ég tengdi þennan pistil sem ég ætlaði að vera búinn að skrifa fyrir löngu, við frétt um að ríkisstjórnin gæti haldið, þá er annað mjög mikilvægt sem þarf að ræða og snýr að þjóðinni.
Og það er í hvernig þjóðfélagi viljum við lifa??
Þolum við ekki velmegun og velferð, þurfum við sundrungu og upplausn til að bregðast við þeim ósköpum.
Hvað sem sagt verður um þessa ríkisstjórn, fortíð sumra flokka og svo framvegis, þá er ljóst að hún náði að stýra þjóðarfleyinu í gegnum öldusjó heimsfaraldursins, og gerði það þokkalega vel.
Lífskjarasamningarnir, mesta kjarabót láglaunafólks í manna minnum, héldu meir að segja þrátt fyrir eitthvað væl um að ekki hafi verið staðið við hitt og þetta, eins og það sé eitthvað issjú þegar þriðjungur gjaldeyristekna þjóðarinnar hverfur á einni nóttu.
Við getum rifjað upp starf barnamálaráðherra, manns sem reynir að láta eitthvað gott af sér leiða og hefur gert það með sóma.
Við getum rifjað upp að tannlækningar barna eru loksins orðnar gjaldfrjálsar, þvílík tekjubót fyrir barnafjölskyldur. Eða það er staðið við reglugerðina um endurgreiðslu á helmingshlut öryrkja vegna sömu þjónustu.
Það eru nefnilega svona atriði sem telja, eru kjarabót, líkt og þegar til dæmis Samfylkingin kom á ókeypis skólamáltíðum í grunnskólum Fjarðabyggðar.
Bætt lífskjör snúa nefnilega ekki um hækkun á einhverjum bótum eða launum, eitthvað sem hverfur jafnóðum vegna til dæmis hækkaðs kostnaðar við að eiga eða leigja húsnæði, heldur um að eitthvað sem er brýnt, er gert viðráðanlegt.
Ef laun heimsins á alltaf að vera vanþakklæti, þá geta menn ekki búist við öðru en að ekkert verði til að þakka.
Að stjórnmál snúist eingöngu um lygi og lýðskrum líkt og þessi kosningabarátta er gott dæmi um.
Af hverju halda stjórnmálaflokkarnir að bull og vitleysa, að ekki sé minnst á yfirboð jólasveinsins, sé leiðin að réttu e-xi á kjörseðilinn??
Er sökin ekki líka okkar, er hún ekki beggja??
Allavega, samræður óskast, vonandi verður þetta síðustu kosningarnar þar sem allir haga sér eins og fífl, látandi slagorðasmiði auglýsingastofanna reka hana.
Búið og gert, en þörfin fyrir samræðuna mun aðeins aukast eftir að úrslit liggja fyrir.
Knýjum á þá samræðu.
Tökum hana sjálf.
Kveðja að austan.
![]() |
Ríkisstjórnin gæti haldið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.9.2021 | 22:26
Flagðið.
Þorsteinn Pálsson, guðfaðir og einn helsti hugmyndafræðingur Viðreisnar, var sjávarútvegsráðaherra megnið af þeim árum (1991-1999) sem hið frjálsa framsal kvótakerfisins reið um héruð með hernaði gegn sjávarbyggðum landsins.
Útgerðarmenn gátu leigt eða selt aflaheimildir sínar, hjá mörgum dugði það aðeins fyrir skuldum, en hjá flestum var afgangur sem menn stungu í eigin vasa, fóru með verðmætin úr heimabyggð sinni, skildu fólk og fénað eftir í sárum verlausra eigna, án atvinnu, án nokkurrar framtíðar.
Yfirskinið var meint hagræðing, sem sannarlega gekk eftir, en það hvarflaði ekki að Þorsteini Pálssyni í allri sinni ráðherratíð að hafa frumkvæði að hluti hinnar meintu hagræðingar færu til baka til fólksins sem miskabætur fyrir tjón þess og atvinnumissi.
Hver er hin raunverulega hagræðing þegar fjöldinn situr uppi með tapið en Örfáir með gróðann??
Að ekki sé minnst á siðleysið og siðblinduna að ganga svona fram.
Þorsteinn Pálsson ítrekaði hins vegar iðulega í ræðu og riti að honum fannst hagræðingin ekki ná nógu langt, vísaði hann í fordæmin frá nýfrjálshyggjunni á Nýja Sjálandi þar sem 4 fyrirtæki áttu megnið af aflaheimildum, og sjávarbyggðirnar voru rústir einar líkt og fjandsamlegur óvinaher hefði herjað með eldi og brennum.
Þorsteinn Pálsson hafði hins vegar ekki þann styrk sem þurfti til að láta draum sinn um rústir sjávarbyggðanna rætast, það þótti ekki pólitískt klókt sökum vægi landsbyggðarkjördæmanna, málamiðlun þings við hann var að skorður voru sett á eignarhald aflaheimilda, þar sem miðað var við að einstök fyrirtæki máttu ekki eiga hærri hlutfall af aflaheimildum en sem nam 10% af heildinni.
Síðan náðist jafnvægi, eftir kvótahringekjuna eru ennþá mörg byggðarlög blómleg, önnur svona skrimta la la, þær smærri eru flestar aðeins minning um það sem var.
En þó Þorsteinn sé liðinn sem stjórnmálamaður, þá gengur draugur hans aftur í hugmyndafræði Viðreisnar.
Sjávarútvegurinn er vel rekinn, skilar hagnaði, hefur reynst kjölfesta þjóðarinnar í gegnum efnahagshremmingar síðasta áratugar eða svo, það var hann sem hélt þjóðinni á floti eftir fjármálahrunið 2008, og það var hann sem stóð keikur þegar ferðamannaiðnaðurinn hrundi í kóvid heimsfaraldrinum.
Hann borgaði niður skuldir, fjárfesti í nýjum skipum og búnaði í landvinnslu, er samkeppnisfær við sjávarútveg miklu stærri landa eins og Rússlands og Noregs.
Einhver hefði sagt að það væri fjandi gott.
Jafnvel hrósað happi að það sé borð fyrir báru á tvísýnum tímum, hvort sem það er vegna heimsfaraldurs, hlýnun jarðar eða átaka og upplausnar þar sem menningarheimar takast á, ný stórveldi eins og Kína ryðjast fram, og þau gömlu taka á móti og svo framvegis.
En fyrir menn eins og Þorstein Pálsson er þarna lag til sjá gamla drauma rætast, um alræði stórfyrirtækja yfir sjávarauðlind þjóðarinnar.
Það þarf ekki að efast um að hann er hugmyndafræðingur þeirrar árásarstefnu Viðreisnar á sjávarbyggðir landsins, þingmenn eins og Hanna Katrín eða Þorgerður Katrín hafa ekki hundsvit á sjávarútvegi, þeir hafa örugglega séð mynd af fisk og bát, en þekkingin nær ekki mikið dýpra en það.
Þeir eru nytsamir sakleysingjar í fláráðu plotti biturs manns sem á harma að hefna.
Uppboð veiðiheimilda mun þjappa saman eignarhaldi í sjávarútvegi líkt og gerðist á Nýja Sjálandi.
Ekki bara vegna þess að stórfyrirtækin hafa skip, búnað og sölukerfi, heldur líka að þau hafa fjármagnið, þau þola yfirboðin á meðan samkeppnin deyr út.
Vissulega munu nokkur smáfyrirtæki í bolfiskveiðum lifa af hið blóðuga stríð, þau sem búa að nálægð við flug eða gjöfulustu miðin, en hættan er alltaf að þau leitist út í útgerð á þrælagaleiðum eins og litlu yfirbyggðu beitningabátarnir eru í dag.
Síðan er það öruggt að aldagamlir kjarasamningar sjómanna sem byggjast á hlutskiptakerfi munu falla, innan ekki svo skamms munu áhafnaleigur sjá um að manna skipin, láglaunavinnuafl sem lætur bjóða sér hvað sem er.
Þetta er ekki forspá, þetta er raunveruleiki uppboða þar sem sá fær sem býður hæst, forsenda slíkra boða er að lágmarka allan kostnað sem snýr að vinnuafli.
Sama mun gerast í landvinnslunni, sá sem svínar mest og svindlar á starfsfólki sínu, hann er handhafi hinna hæstu boða.
Enn og aftur ekki forspá, svona er raunveruleikinn um allan hinn vestræna heim, og reyndar um allan heim þar sem glóbalhagkerfið knýr niður launakostnað, íslenskur sjávarútvegur er sjaldgæf undantekning um framleiðsluatvinnugrein sem borgar mannsæmandi laun.
Byggðirnar munu því ekki bara daga uppi vegna samþjöppunar aflaheimilda, langt um fram það sem nú er, þær munu líka blæða holsári vegna þess allur kostnaður er keyrður niður, með innflutningi á ódýru erlendu vinnuafli.
Það verður ekkert mannlíf lengur, aðeins þrælalíf.
Forsendur margra byggða mun bresta, martröðin frá sjávarútvegsráðaherratíð Þorsteins Pálssonar á tíunda áratug síðust aldar, mun ganga aftur, bara miklu illvígari en þá.
Í sjálfu sér býr ekki mannvonska að baki þess sem flagðið leggur til, aðeins þjónkun við auð og auðmenn, við sígræðgi og óseðjandi þörf að eignast meira, verða stærri, að ná til sín hverri krónu sem veltur um í samfélaginu.
En það er ekkert annað en mannvonska eða tær illska að styðja flagið, að vilja öðru fólki svona illt.
Reyndar gömul saga og ný, milljónir Þjóðverja studdu stjórnmálamenn sem ætluðu að skapa þýsku þjóðinni lífsrými í austri með því að leggja undir sig lönd og gera heimamenn að þrælum.
Og milljónir á milljónir ofan studdu kommúnista í ránsskap sínum, hvort sem þeir þjóðnýttu fyrirtæki eða lögðu undir sig jarðir bænda og neyddu þá síðan að vinna kauplítið á sínum gömlu jörðum undir merkjum ánauðar sem kommúnistarnir kölluðu samyrkjubú.
Það fyndna kannski í dag er að stuðningur við þessa aðför að sjávarbyggðum er mestur hjá fólki sem telur sig andófsfólk, gott fólk, vel meinandi fólk.
Það hlálega er að þetta fólk er svo heimskt að það sér ekki samhengið á milli arðseminnar af vel reknum fyrirtækjum í blómlegum sjávarbyggðum, og sinna eigin lífskjara.
Það heldur að mjólkurkýrin mjólki þegar búið er að rista hana á hol.
Menn geta síðan svo spurt sig hvort er verra, heimskan eða mannvonskan??
Flagðið hefur enn og aftur sýnt sitt rétta andlit.
En margir, kannski ekki fjöldinn, en mjög margir sjá aðeins hið fagra skinn.
Týndur er lærdómur ævintýranna, of langt síðan að horft var á Disney teiknimyndir sem voru alveg með á hreinu hvert hlutverk flagða er samfélaginu.
Þess vegna kemst flagðið upp með málflutning sinn.
Þess vegna fær það atkvæði í komandi kosningum.
Það er eins og velmegunin hafi svipt okkur allri sjálfsbjargarhvöt.
Kveðja að austan.
![]() |
Verja núverandi kerfi gegn allri skynsemi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.9.2021 | 18:20
Samspillingin lætur ekki að sér hæða.
Logi Einarsson er samnefnari eins af hinu lægsta í íslenskum stjórnmálum.
Þökk sé Pírötum þá er hann ekki lægstur.
Logi tók við þrotabúi Jóhönnu Sigurðardóttir, svik hennar i ICESave, aðför hennar að heimilum landsins, skjaldborg hennar um útrásarvíkinga sem og erlendra hrægamma, lögðust á eitt, Samfylkingin var ærulaus, rústir einar frá þeim jafnaðarmannaflokki sem lagt var upp með í sameiningu flokkanna til vinstri á sínum tíma.
Samfylkingin hefði réttilega þurrkast út af þingi ef ekki hefði komið til vanvitaháttur í ákveðnum kjördæmi kennt við vestur, kjósendum þar til ævarandi skammar og háðungar, einn kjördæmakosinn þingmaður bjargaði mesta ógæfufólki íslenskra stjórnmálasögu frá þeim örlögum.
Frá fyrsta degi var ljóst að Logi hafði ekkert að segja, engar hugmyndir, engar nýjar nálganir, ekki einu sinni sómakennd að biðja kjósendur sína eða þjóðina afsökunar á óhæfuverkum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir.
Ferill hans hefur einkennst á upphlaupum, fordæmingum, samkeppni við Gróuna, sem reyndar núna vinnur á Morgunblaðinu, um hneykslun og söguburð.
Svo ég vitna í gegnheilan Samfylkingarmann, Ásmund Stefánsson, "Samfylkingin blaðrar út í eitt".
En þegar á reynir, þá er ekkert að baki skinhelginni.
Þeirra frambjóðandi er hluti af gjörspillingu fjármálakerfisins.
Og þá er ekkert sagt.
Aðeins þögnin ein.
En fólk án sóma mun samt kjósa.
Kveðja að austan.
![]() |
Sagði að Kristrún myndi svara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2021 | 13:41
Gerðu þá eitthvað, annað en að flytja alla framleiðslu til Kína.
Það er vissulega vá framundan og framtíð barna okkar er í mikilli óvissu.
En meginn vandinn er að sökudólgarnir stjórna vörninni.
Skattlagning til að draga þrótt úr atvinnulífi, reglufargan, á þeim tíma þegar því veitir ekki að öllum sínum styrk til að bregðast við breyttum aðstæðum, til að þróa nýja tækni, draga úr orkunotkun og mengun, er ekki leiðin til að bregðast við lofslagsvandanum.
Afleiðingin er augljós, skjalfest, Kína mengar í dag margfalt á við Vesturlönd. bæði í magnið talið, en ekki hvað síst að framleiðsluhagkerfi þess er drifið áfram af mesta skítnum af öllum, kolaknúnum raforkuverum.
Mengunarkvótinn og annað slíkt frjálshyggjukjaftæði er síðan til þess eins að slá ryki í augun á fólki.
Það sem er gert, eykur vandann.
Það sem þarf að gera, er ekki gert.
Feisum það.
Það eru svikarar meðal okkar.
Fimmtaherdeild glóbalauðsins, drifinn áfram af mannfjandsamlegri hugmyndafræði frjálshyggjunnar.
Og á meðan þetta lið stjórnar, og á meðan þessi hugmyndafræði ræður, þá er engin von.
Vandinn eykst frá degi til dags, öll skref, allur árangur á Vesturlöndum, er margfalt unnin upp í framleiðsluhagkerfi glóbalauðsins, þar má menga, þar má skíta út, um það var samið í París.
Parísarsamkomulagið lýsir algjörum vitglöpum.
Þeir sem ábyrgðina bera, ráða ennþá öllu.
Stýra vörninni, stýra beinu brautinni fram af hengiflugi hamfarahlýnuninni.
Og fólk sér þetta ekki.
Kannski vegna þess að við erum öll froskar sem þykir svo gott að láta sjóða sig lifandi.
Eða hvað annað skýrir þjónkun okkar gagnvart glóbalinu, og aðgerðarleysi okkar þegar framtíð barna okkar er í húfi.
Kjöftugum rataði nefnilega satt orð af munni.
Kermit hafði rangt fyrir sér.
En Kermit, það erum við.
Kveðja að austan.
![]() |
Johnson: Froskurinn Kermit hafði rangt fyrir sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2021 | 17:59
Þegar rógurinn einn er eftir.
Svíar kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að meintum kynferðisbrotum.
Þegar tvær konur, sem höfðu samfarir við Julian Assange stofnanda Wikileaks, með fullu samþykki allra, sáu eftir samförunum daginn eftir og kærðu hann fyrir nauðgun, þá kröfðu Svíar framsals Assange til að geta réttað yfir honum.
Sök hans var að hafa blekkt þær með einhverju ástarhjali og óljósum loforðum um frekari samband, upplifun blekkingar var sem sagt ígildi nauðgunar.
Púrítanskara og ofstækisfyllra getur eitt samfélag ekki orðið, samt sjá Svíar ekki þá sök hjá Kolbeini Sigþórssyni að úthrópa hann sem kynferðisofbeldismann og setja hann út af öllu sakramenti líkt og krafan var um hér á landi.
Knattspyrnusérfræðingur Gautaborgspóstsins orðar kjarna málsins vel;
"Þeir hafa engan rétt til þess að rifta samningi hans við félagið því þeir atburðir sem um er að ræða áttu sér stað fyrir löngu og áður en hann varð leikmaður hjá IFK Gautaborg. En þeir eru sem vinnuveitendur skyldugir samkvæmt lögum að styðja hann í þessari stöðu. Ég tel að félagið hafi höndlað málið vel".
Málið var liðið og uppgert, og af því gat ekki orðið neinir eftirmálar.
Eftir stendur hvað gerðist eiginlega á Íslandi sem hratt af stað því fári sem níddi niður saklaust fólk, hrakti fólk að ósekju úr störfum sínum hjá KSÍ, skapaði hér andrúmsloft ótta og ógnar, þar sem enginn þorði að vitna um sannleikann, eins og að segja til dæmis; "ég kannast ekki við þetta", því þá var öruggt að viðkomandi lenti sjálfur í fárinu.
Kínverska menningarbyltingin hvað!!, Rauðu varðliðarnir hvað!!, þegar á reyndi þá var ekki dýpra á ofstækinu hjá okkur.
Eftir að staðreyndir málsins liggja fyrir, eins mikið og reynt var að þagga þær niður og skjóta sendiboðann, þá hefur enginn málsmetandi maður séð ástæðu til að biðja Kolbein Sigþórsson afsökunar, biðja fráfarandi stjórn KSÍ afsökunar, biðja þau Guðna Bergsson og Klöru Bjartmarz afsökunar.
Forseti Íslands, forsætisráðherra Íslands, menntamálaráðherra Íslands, voru hluti af hýenuhjörðinni sem rann á blóðslóðina, allt út af einu viðtali við unga stúlku sem fór ekki efnislega rétt með eitt einasta atriði í frásögn sinni.
Auðvitað gat fólk ekki vitað það þá, en hver stekkur svona á blóðslóðina án þess að kynna sér málin, nema skríllinn í sinni ljótustu mynd??
Er sem sagt forseti Íslands, forsætisráðherra Íslands, menntamálaráðherra Íslands, hluti af skrílmenningu í anda þess ofstækisfólks sem kennt er við kínversku menningarbyltinguna??
Greinilega fyrst þetta fólk hefur ekki manndóminn til að biðja hlutaðeigandi afsökunar.
Það er núna ljóst að Guðni Bergsson fór rétt með þegar hann sagði að ekkert ofbeldismál hefði komið formlega inná borð til hans sem formanns KSÍ.
Rógurinn og gróusögurnar sem eru í gangi snúa allar af málum sem eru á tímalínu fyrir formennsku Guðna.
Atlagan að honum er því smánarblettur allra viðkomanda, og verður það þar til fólk hreinsar æru sína með því að biðjast afsökunar á gönuhlaupi sínu.
Smán sem aðeins vex með tímanum því það er ekki merkilegt fólk sem getur aðeins haldið andliti sínu innan um sína líka í hýenuhjörðinni.
Mandran um að það eigi alltaf að trúa orðum meintra þolenda gerir fólk aðeins heimskara, svo það má efast um að sé hæft í að sinna nokkru öðru en að bursta skó í sögum eftir Charles Dickens.
Það er ljóst að á ögurstundu brást stjórn KSÍ, hún hafði ekki þann kjark sem Svíar hafa að standa með fórnarlömbum samfélagsmiðlaníðs, hún brást leikmanni sem hafði orðið á, en gert upp sín mál í fullri sátt við þá sem báru hann sökum.
Hún brást leikmanni sem hafði þjónað vel, lagt sig allan fram fyrir landsliðið, og átti ekkert annað inni en fullan stuðning, þó það hefði kostað einhvern tímabundin stuðning héra í hópi styrktaraðila, samfélagsmiðlaníð fjarar alltaf út að lokum og eftir standa staðreyndir mála.
Hún brást formanni sínum og framkvæmdarstjóra, sem að ósekju voru sökuð um eitthvað sem þau höfðu ekkert með að gera.
Og ekki hvað síst þá brást hún framtíðinni í íslenskum fótbolta, því þó margt hafi betur mátt fara í fortíðinni, og mörg klögumálin réttmæt, þá er það eitthvað sem menn læra af, bæta úr.
En að láta undan Níðhöggum eru skýr skilaboð til allra ungra drengja að þeir séu réttlausir í íþrótt sinni, að það sé hvenær sem er hægt að vega þá með rógi og níði, sökum kyns þeirra.
Í dag er rógurinn einn eftir.
Fótboltamenn fortíðarinnar eru örugglega ekki syndlausir frekar en annað fólk, og kynbundið ofbeldi er og hefur verið viðloðandi samfélag mannanna, og verið liðið alltof lengi.
Þær syndir réttlæta samt aldrei þá aðför að siðuðu samfélagi líkt og þetta KSÍ-fár er.
Óstaðfestar sögur réttlæta aldrei hópsekt, aldrei rógburð, eða saklaust fólk sé tekið fyrir og þess krafist að það vitni og játi.
Slíkt er og verður alltaf svívirða.
Rógurinn lifir núna sjálfstæðu lífi.
Ekki seinna en í gær þurfti Gróan í ritstjórn Morgunblaðsins að hnýta við í frétt um að Klara Bjartmarz hafi snúið aftur til starfa sinna að "KSí varð fyrir mikilli gagnrýni fyrir þöggun og meðvirkni með gerendum innan sambandsins.".
Þegar enginn er gerandinn, þegar engar eru staðreyndirnar, þá skal samt halda áfram að leggja út af tilbúningnum.
Áfram skal halda að naga af fólki æruna.
Gömul saga og ný með Gróurnar frá Leiti, en ný hvað Morgunblaðið og ritstjórn þess varðar.
Kosturinn er þó sá að núna verða ekki lengur skrifaðir leiðarar eða bréf frá Reykjavík þar sem sett er út á sið og hegðun annarra.
Núna verður ekki lengur sagt; Svona gerir maður ekki, eða þetta með grjótkastið úr glerhúsi eða flísina sem sást ekki fyrir bjálkanum, innistæðan fyrir slíkum orðum er ekki lengur til staðar, hafi hún þá nokkurn tímann verið það.
Það er skítt að Svíar skuli sjá sem okkur var um megn að sjá.
Að allir hafa sinn rétt og við höfum leikreglur sem þarf að virða.
Vonandi höfum við sem þjóð eitthvað lært af þessu.
Til dæmis að það er ekki lifandi í samfélagi þar sem Níðhöggar og Gróur sjá um fréttaflutning, dómstóll götunnar um réttarfarið.
Kínverjar sáu það fyrir rest og fangelsuðu fjórmenningaklíkuna og hafa síðan ekki litið um öxl.
Sárin eru samt ennþá að gróa eftir þetta 10 ára tímabil sturlunar og gengdarlausra ofsókna.
Þar sem orð voru talin ígildi staðreynda, ásakanir voru fullsannaður glæpur.
Það voru ekki við sem fundum upp frasann að það eigi skilyrðislaust að trúa orðum ásakanda, rætur hans eru miklu eldri, og hafa alltaf verið fóður ofsókna og réttarglæpa.
En ef við höfum ekkert lært, þá verður annað svona fár.
Og svo annað.
Svo annað.
.......
Svo annað.
Þar til Níðhöggur er einn uppistandandi, aðrir fallnir fyrir eiturtungu hans.
Kannski.
En kannski biðja þau Guðni, Katrín og Lilja Guðna og Klöru afsökunar, kannski hafa þau manndóminn til þess.
Það væri mikið áfall fyrir Níðhögg og Gróu.
Hver veit.
Hver veit.
Kveðja að austan.
![]() |
Þeir hafa höndlað mál Kolbeins vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2021 | 09:49
Já en hvað um loftslagsmálin??
Af hverju komast þau ekki á blað í kappræðum leiðtogana??
Er Þorgerður Katrín búin að gleyma að hún ætlar hvorki meir eða minna lýsa yfir neyðarástandi í lofslagsmálum heimsins, og eitthvað minnir mig að Píratar hafi talað á svipuðum nótum.
Samfylkingin segir að lofslagsmálin verði þungamiðja næstu ríkisstjórnar.
Samt eru loftslagsmálin ekki rædd á þessum síðustu metrum kosningabaráttunnar, það er marka má þessa frétt Morgunblaðsins.
Líklega skýring að hið meinta stríð íslenskra stjórnmálamanna við Útblásturinn felst í skattlagningu á öllu sem viðkemur samgöngum, sem vegna stærðar landsins og dreifbýli, er lífæð, forenda atvinnu og byggðar.
Skatturinn þarf að bíta sagði umhverfisráðherra á góðri stundu, en kveikti ekki á perunni að skattur sem er lagður jafnt á alla, bítur hina tekjuminni en er eins og léttvægt kitl fyrir þá efnameiri.
Hugmyndafræðin er úr ranni Friedmans sem Hannes Hólmsteinn kenndi í stjórnmálaskóla sínum, margreynd og þróuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum víða um heim. Vandinn við yfirfulla spítala hvarf eins og döggin, ekki vegna dreifinga á vítamína og lyfja, heldur vegna gjaldtökunnar svo fátækt fólk hafði ekki lengur efni á að nýta þjónustu þeirra, jafnvel þó lífshætta væri undir.
Fólk er ekki fífl, þó stjórnmálamenn okkar haldi að það líkist þeim.
Gunnar Smári er ekki fífl, þó það megi efast um einlægnina sem býr að baki, hann þekkti frjálshyggjuna sem hann einu sinni blótaði og benti á hið augljósa;
"Til að draga úr þeirri losun sem á sér stað viljum við betri sátt um orkuskiptin sem eru ósanngjörn í dag og birtast okkur aðallega í formi afsláttar fyrir hátekjuheimili á meðan lágtekjuheimili sem eru ekki vel þjónustuð af almenningssamgöngum þurfa að greiða há gjöld á dælunni".
Það er engin tilviljun að Sósíalistaflokkurinn siglir hraðbyri inní tveggja stafa fylgi, þetta vita hinir flokkarnir sem kenna sig við jafnaðar eða félags eitthvað, þess vegna þegja þeir í dag um skattana sem eiga að bíta, því sá þriðjungur þjóðarinnar sem á að útiloka frá samfélaginu til að ná lofslagsmarkmiðum þjóðarinnar, hann kýs, það gleymdist nefnilega að miða kosningarétt við tekjur eða þjóðfélagsstöðu.
Síðan má spyrja sig svona almennt, hvaða víðáttuvitleysa er á ferðinni gagnvart þeirri vá sem blasir við framtíð barna okkar??
Af hverju geta menn ekki tekið þennan vanda alvarlega og gert það sem þarf að gera svo mannkynið lifi af??
Af hverju látum við sökudólgana stjórna hinni meintu vörn mannsins, vörn sem miðar að því einu að gera þá ríkari, ná heljartökum á framleiðslu heimsins, en snertir í litlu eða engu þann vanda sem við er að glíma.
Til að átta okkur á hve þessi meinta vörn er heimsk þá má rifja upp dæmi af frétt sem birtist undir lok síðustu aldar og fjallaði um mengun í bæjarfélagi einu í Tékkóslóvakíu, þar sem fyrirtæki í efnaiðnaði dældi öllum úrgang í þró sem var útvíkkuð tjörn, vatnasvið hennar náði því í grunnvatn og eitrið seytlaði bæði í drykkjarvatn sem og út í jarðveg í landi bænda svo afurðir þeirra voru mengaðar.
Augljóslega þurfti að hætta þessari dælingu og eyða úrganginum á öruggan hátt án þess að mengun af honum leitaði út í umhverfið. Og um það stóð deilan, fyrst könnuðust menn ekki við mengunina en sögðu svo síðan ekki hafa efni á að tryggja öruggar mengunarvarnir, og það voru náttúrulega störf í húfi.
Gamalkunnugt stef, en í fréttinni kom ekki fram að einhver hefði verið svo víðáttuvitlaus að leggja til þá lausn, að heimilin á svæðinu þyrftu að taka sig á í flokkun á sorpi, batterí og geymar geta alltaf valdið mengun, spurning hvort hvert heimili setti upp hreinsunarbúnað sem fjarlægði þungamálma og annað eitur úr drykkjarvatni, jafnvel að menn flyttu drykkjarvatn á svæðið og allt frárennsli frá, skiptum um jarðveg eða annað sem var verulega íþyngjandi.
Af hverju ekki??, örugglega allt þarfaverk því fólk mengar, vissulega, nema það bara kom málinu ekki við.
Sökudólgurinn var verksmiðjan sem mengaði, og mengunin var alltaf sú sama á meðan ekki var tekist á við hana. Að sterilisera heimili og fyrirtæki fólks skipti engu hvað það varðar.
Þetta er kjarni málsins, menn eru ekki að glíma við vandann, menn bara þykjast gera það.
Með íþyngjandi sköttum og íþyngjandi regluverki koma menn menguninni frá sér til annarra, þar sem sama vara er framleidd með margfalt meiri útblæstri en er í dag í þróuðum ríkjum Vesturlanda.
Eftir stendur mengunarlítil framleiðsla, en hún væri hvort sem er, og hefur sem slík ekki áhrif á kolefnisbókhald heimsins.
Ef brennsla jarðefnaeldsneytis hefur sannarleg áhrif á lofslag jarðar, þá drögum við úr brennslu, en aukum hana ekki með tilflutningi framleiðslu til landa þar sem megnið af orkunni kemur úr kolabrennslum.
Ef úrgangur og skítur er að drekkja heimshöfunum, þá finnum við uppsprettu viðkomandi úrgangs og hjálpum viðkomandi þjóðum að ná tökum á sorphirðu og förgun úrgangs.
Hve heimskir þurfa menn að vera til að skilja ekki að það er sýndarmennskan ein að banna einnota plast í landi þar sem sorphirða tekur við megnið af plastinu, á sama tíma þegar sorpið flæðir óhindrað út í náttúruna í ofurvöxnum stórborgum þriðja heimsins.
Aðgerða er þörf en það er ekkert verið að gera í dag annað en að auka vandann.
Skattlagning dregur þrótt úr vestrænum fyrirtækjum til að finna mengunarminni lausnir, og þegar heimurinn er einn markaður, þá tapa þau í samkeppninni við framleiðslu landa þar sem engar eða litlar kröfur eru gerðar.
Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að vestræn fyrirtæki borga miklu hærri laun en þrælakistur glóbalsins, þegar fleira íþyngir þá er eðlilegt að þau láti undan, leita með framleiðsluna annað, eða hreinlega hætta rekstri.
Það þarf ekki neitt sem bítur, neytandinn öskrar á grænar lausnir, það er svipan sem stjórnar hinni þrotlausu leit að nýjum lausnum og nýrri tækni.
Ásamt hvötum, grænum hvötum, þar má Viðreisn eiga að hún talar að viti.
Ef fólk vill að börn þess og barnabörn eigi sér framtíð, þá hættir það að hlusta á þessa vitleysu kostaða fólksins í vasa glóbalauðsins.
Það krefst raunhæfra aðgerða, og það sjálft reynir að gera sitt, til dæmis að beina neyslu sinni frá einnota vörum í margnota, ferðast í nærumhverfi frekar en fjær, og svo framvegis.
Raunhæfar aðgerðir eru til dæmis að setja skorður við innflutning á mengunarvörum og einnota vörum, það er vörum sem illa hannaðar að þær endast ekki nema brot af því sem sambærilegar vörur entust áður en græðgimódel glóbalsins tók yfir framleiðslu heimsins.
Alveg eins og tóbaksvörur eru merktar hættulegar, þá má merkja búðir sem sérhæfa sig í að dreifa ódýrum vörum í samkeppni við fyrirtæki sem þó reyna að framleiða eitthvað ennþá á Vesturlöndum, "Varúð, með því að stíga inní þessa verslun, þá tekur þú þátt í glæpsamlegu athæfi". Myndi þetta ekki sóma sér vel hjá Icewear eða HM??
Síðan á að taka úr sambandi alla ferla sem leiða til innkaupa á mengunarvörum, það er vörum sem eru framleiddar í þrælabúðum glóbalsins, ferla eins og skylduna hjá hinu opinbera að taka lægsta tilboði og svo framvegis.
Vandinn er nefnilega kerfislægur og huglægur, að átta sig ekki á því, eða takast ekki á við það, er feigðarflan þess sem vill vel, en er ófær um bjarga sér og sínum.
Tímaglasið er runnið út, það er ekkert flókið við það.
Spurningin er aðeins hvort við ætlum að spyrna á móti, eða gefast upp.
Allar staðreyndir liggja fyrir.
Við vitum hverjir menga og af hverju þeir menga.
Við vitum hvaða kerfi knýr áfram síaukna mengun og rányrkju umhverfisins.
Við vitum að lausnir vestrænna stjórnmálamanna eru sýndarlausnir, þær sneyða framhjá kjarna málsins, eru í besta falli skaðlitlar, en oft til tjóns líkt og reglugerðin um íblöndun lífeldsneytis á bifreiðar, fyrir utan að bílar menga meira vegna hennar, þá var þessi reglugerð bein árás á lungu heimsins, regnskógana sem hafa verið höggnir grimmt svo hægt sé að framleiða viðkomandi lífeldsneyti.
Við vitum líka að það er hægt að gera eitthvað.
Við erum jú hinn vitiborni maður.
Það fylgir stríðum sem virðast óvinnandi, að ef menn þrauka, þá leggst eitthvað til, og þau vinnast oft að lokum.
En hingað til hefur ekkert stríð unnist sem ekki hefur verið háð.
Í dag háum við ekki stríð við lofslagsvána.
Við þykjumst það bara.
Það er harmur barna okkar.
Kveðja að austan.
![]() |
Kappræðuþáttur 1: Margt ber í milli þrátt fyrir allt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.9.2021 | 17:00
Vá, Svíar líka hluti af þöggun og meðvirkni.
Hluti af hinn margfrægu nauðgunarmenningu sem kennd er við KSÍ.
Eða hvað??
Vitnum í frétt Mbl.is, sem líka Váá, Gróa er í vaktarfríi, og ennþá er til blaðamaður, í það minnsta, sem getur skrifað frétt, sem byggist á staðreyndum, en ekki rógi og níði.
"Stjórn IFK Gautaborg hefur rætt ítarlega við Kolbein Sigþórsson síðustu vikur og niðurstaðan er sú að við setjum upp langtímaplan fyrir hann. Planið er byggt á gildum IFK Gautaborgar, ábyrgð okkar og skyldum sem vinnuveitendum. Það byggir líka á markmiðum Kolbeins um að bæta sig persónulega.".
Já, menn standa með sínu fólki, hvílík nauðgunarmenning.
Hvað skyldi Guðni forseti segja um það, ætlar hann að aflýsa næstu heimsókn sinni til Svíþjóðar.
Og ætla ekki meðvirkar konur að froðufella fyrir utan sænska sendiráðið??
Rúv á staðinn og Gróa skrifar fréttina.
Váá, hvernig voga þeir sér, þessir meðvirku þöggunar og nauðgunarstuðningseittvað, sér að tala um ábyrgð og skyldur gagnvart starfsfólki sínu??
Lásu þeir ekki róginn og níðið sem tröllreið jafnt íslenska fjölmiðla sem og samfélagsmiðla??
Ætla þeir virkilega að neyða þolendur Kolbeins Þórs Sigþórssonar að horfa á enn einn leik með honum??
Þarf ekki að borga þeim hærri miskabætur, er það ekki lágmarkið??
Nú er eins gott að æ fleiri sögur birtist um ætlaðar, meintar, hugsanlegar, fræðilegar nauðganir íslenskra landsliðsmanna í fótbolta.
Núna reynir á Guðna forseta, hann verður allavega að taka af sér buffið, og jafnvel taka af skarið.
Svíakóngur er læs, þarf ekki að senda honum bréf??
Og núna reynir á Gróu.
Á ritstjórn Morgunblaðsins.
Á væntanlegan formann Kennarasambandsins.
Á alla róg og slúðurbera þjóðarinnar.
Þetta gengur ekki.
Maðurinn var tekinn af lífi án dóms og laga.
Þetta er aðför að réttaríkinu.
Upphefur og réttlætir allar nauðganir og allt kynofbeldi liðinna ára, liðinna alda.
Gengur ekki.
Þetta bara gengur ekki.
Eða hvað??
Kveðja að austan.
![]() |
Gautaborg setur upp áætlun fyrir Kolbein |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2021 | 09:39
Skógareldar hér.
Skógareldar þar, og því miður skógareldar bráðum alls staðar.
Því stóru barrskógarbeltin eru farin að brenna, og ekki víst að siðmenningin lifi þann bruna af.
Jörðin var allavega lítt byggileg á forsögulegum tímum þegar slíkir brunar gengu yfir.
Og hvað gera bændur þá??
Einhver hefði til dæmis lagt til að svona helftin af þeim fjármunum sem eru lögð í heri og drápstæki ýmiskonar yrði sett í að kaupa búnað og þróa tækni til að slökkva svona risaelda, sbr. að Tyrkir föttuðu að þeir áttu hundruð nýtísku herþyrlur og herþotur, en ekki eina slökkviþyrlu eða slökkviflugvél, því brann allt sem brunnið gat þar til hjálp barst að utan.
Einhver veit að vandi er til að takast á við, vandi er til að leysa.
En Einhver stjórnar ekki heiminum í dag heldur hópur misviturra stjórnmálamanna í vasa þess fjármagns sem við kennum við glóbal, og það fjármagn var fljótt að sjá viðskiptatækifæri í lofslagsvánni, hana átti að blóðmjólk inn að beinmerg.
Annars vegar var fjármagnaður hópur lofslagsfífla sem afneitar augljósum staðreyndum um hlýnun jarðar, hins vegar voru hinir misvitru látnir telja almenning í trú um að baráttan gegn hlýnun jarðar fælist í því að skattleggja þann sama almenning, skattleggja fyrirtæki hans, þenja út regluverkið í kringum rekstur fyrirtækja, og bingó, framleiðslan öll á leið til mengunarlanda, í verksmiðjur glóbalsins.
Gjörningur sem er kallaður Parísarsamkomulagið, og á að hnykkja á næstu dögum á neyðarneyðarráðsstefnu á Spáni.
Svona er hægt að fífla fólk út í eitt, og vart má milli sjá hverjir eru vitlausari, þeir sem afneita hörmungum sem geta bundið endi á siðmenninguna, eða þeir sem æpa á torgum um lofslagsvána, og eru svo með lausnir sem eru hannaðar af nýfrjálshyggju glóbalauðsins.
Það er fyndið, nei það er grátbroslegt, að stærsta einstaka skrefið sem stigið hefur verið síðustu 5 árin eða svo gegn hlýnun jarðar af mannavöldum skuli hafa verið sú gjörð Trump forseta að neita staðfesta Parísarsamkomulagið.
Samkomulag sem ekki aðeins flytur mengun til, heldur eykur hana stórlega því farið úr umhverfi mengunarvarna í umhverfi mengunarsóða, þar sem fremstir eru Kínverjar með öll sín kolaorkuver.
Forsenda Trump var vissulega röng, en gjörðin rétt.
Ef brennsla jarðefnaeldsneyta ógnar heiminum, þá er svarið ekki að auka hina sömu brennslu undir merkjum baráttu gegn sömu ógn.
Eitthvað sem er svo augljóst, og ætti að vera ennþá augljósara þegar framtíð og jafnvel líf afkomenda okkar er undir.
Við erum fífluð.
Og mestu fíflin eru ekki lofslagsfíflin.
Höfum það hugfast næst þegar við heyrum einhvern misvitringin segjast ætla að lýsa yfir neyðarástandi í lofslagsmálum.
Það þarf jú að gera eitthvað.
Kveðja að austan.
![]() |
Skógareldar 38 kílómetra frá Aþenu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.5.): 4
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 1440168
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar