Já en hvað um loftslagsmálin??

 

Af hverju komast þau ekki á blað í kappræðum leiðtogana??

Er Þorgerður Katrín búin að gleyma að hún ætlar hvorki meir eða minna lýsa yfir neyðarástandi í lofslagsmálum heimsins, og eitthvað minnir mig að Píratar hafi talað á svipuðum nótum.

Samfylkingin segir að lofslagsmálin verði þungamiðja næstu ríkisstjórnar.

 

Samt eru loftslagsmálin ekki rædd á þessum síðustu metrum kosningabaráttunnar, það er marka má þessa frétt Morgunblaðsins.

Líklega skýring að hið meinta stríð íslenskra stjórnmálamanna við Útblásturinn felst í skattlagningu á öllu sem viðkemur samgöngum, sem vegna stærðar landsins og dreifbýli, er lífæð, forenda atvinnu og byggðar.

Skatturinn þarf að bíta sagði umhverfisráðherra á góðri stundu, en kveikti ekki á perunni að skattur sem er lagður jafnt á alla, bítur hina tekjuminni en er eins og léttvægt kitl fyrir þá efnameiri. 

Hugmyndafræðin er úr ranni Friedmans sem Hannes Hólmsteinn kenndi í stjórnmálaskóla sínum, margreynd og þróuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum víða um heim.  Vandinn við yfirfulla spítala hvarf eins og döggin, ekki vegna dreifinga á vítamína og lyfja, heldur vegna gjaldtökunnar svo fátækt fólk hafði ekki lengur efni á að nýta þjónustu þeirra, jafnvel þó lífshætta væri undir.

 

Fólk er ekki fífl, þó stjórnmálamenn okkar haldi að það líkist þeim.

Gunnar Smári er ekki fífl, þó það megi efast um einlægnina sem býr að baki, hann þekkti frjálshyggjuna sem hann einu sinni blótaði og benti á hið augljósa;

"Til að draga úr þeirri losun sem á sér stað viljum við betri sátt um orkuskiptin sem eru ósanngjörn í dag og birtast okkur aðallega í formi afsláttar fyrir hátekjuheimili á meðan lágtekjuheimili sem eru ekki vel þjónustuð af almenningssamgöngum þurfa að greiða há gjöld á dælunni".

Það er engin tilviljun að Sósíalistaflokkurinn siglir hraðbyri inní tveggja stafa fylgi, þetta vita hinir flokkarnir sem kenna sig við jafnaðar eða félags eitthvað, þess vegna þegja þeir í dag um skattana sem eiga að bíta, því sá þriðjungur þjóðarinnar sem á að útiloka frá samfélaginu til að ná lofslagsmarkmiðum þjóðarinnar, hann kýs, það gleymdist nefnilega að miða kosningarétt við tekjur eða þjóðfélagsstöðu.

 

Síðan má spyrja sig svona almennt, hvaða víðáttuvitleysa er á ferðinni gagnvart þeirri vá sem blasir við framtíð barna okkar??

Af hverju geta menn ekki tekið þennan vanda alvarlega og gert það sem þarf að gera svo mannkynið lifi af??

Af hverju látum við sökudólgana stjórna hinni meintu vörn mannsins, vörn sem miðar að því einu að gera þá ríkari, ná heljartökum á framleiðslu heimsins, en snertir í litlu eða engu þann vanda sem við er að glíma.

 

Til að átta okkur á hve þessi meinta vörn er heimsk þá má rifja upp dæmi af frétt sem birtist undir lok síðustu aldar og fjallaði um mengun í bæjarfélagi einu í Tékkóslóvakíu, þar sem fyrirtæki í efnaiðnaði dældi öllum úrgang í þró sem var útvíkkuð tjörn, vatnasvið hennar náði því í grunnvatn og eitrið seytlaði bæði í drykkjarvatn sem og út í jarðveg í landi bænda svo afurðir þeirra voru mengaðar.

Augljóslega þurfti að hætta þessari dælingu og eyða úrganginum á öruggan hátt án þess að mengun af honum leitaði út í umhverfið.  Og um það stóð deilan, fyrst könnuðust menn ekki við mengunina en sögðu svo síðan ekki hafa efni á að tryggja öruggar mengunarvarnir, og það voru náttúrulega störf í húfi.

Gamalkunnugt stef, en í fréttinni kom ekki fram að einhver hefði verið svo víðáttuvitlaus að leggja til þá lausn, að heimilin á svæðinu þyrftu að taka sig á í flokkun á sorpi, batterí og geymar geta alltaf valdið mengun, spurning hvort hvert heimili setti upp hreinsunarbúnað sem fjarlægði þungamálma og annað eitur úr drykkjarvatni, jafnvel að menn flyttu drykkjarvatn á svæðið og allt frárennsli frá, skiptum um jarðveg eða annað sem var verulega íþyngjandi.

Af hverju ekki??, örugglega allt þarfaverk því fólk mengar, vissulega, nema það bara kom málinu ekki við.

Sökudólgurinn var verksmiðjan sem mengaði, og mengunin var alltaf sú sama á meðan ekki var tekist á við hana. Að sterilisera heimili og fyrirtæki fólks skipti engu hvað það varðar.

 

Þetta er kjarni málsins, menn eru ekki að glíma við vandann, menn bara þykjast gera það.

Með íþyngjandi sköttum og íþyngjandi regluverki koma menn menguninni frá sér til annarra, þar sem sama vara er framleidd með margfalt meiri útblæstri en er í dag í þróuðum ríkjum Vesturlanda.

Eftir stendur mengunarlítil framleiðsla, en hún væri hvort sem er, og hefur sem slík ekki áhrif á kolefnisbókhald heimsins.

Ef brennsla jarðefnaeldsneytis hefur sannarleg áhrif á lofslag jarðar, þá drögum við úr brennslu, en aukum hana ekki með tilflutningi framleiðslu til landa þar sem megnið af orkunni kemur úr kolabrennslum.

Ef úrgangur og skítur er að drekkja heimshöfunum, þá finnum við uppsprettu viðkomandi úrgangs og hjálpum viðkomandi þjóðum að ná tökum á sorphirðu og förgun úrgangs.

Hve heimskir þurfa menn að vera til að skilja ekki að það er sýndarmennskan ein að banna einnota plast í landi þar sem sorphirða tekur við megnið af plastinu, á sama tíma þegar sorpið flæðir óhindrað út í náttúruna í ofurvöxnum stórborgum þriðja heimsins.

 

Aðgerða er þörf en það er ekkert verið að gera í dag annað en að auka vandann.

Skattlagning dregur þrótt úr vestrænum fyrirtækjum til að finna mengunarminni lausnir, og þegar heimurinn er einn markaður, þá tapa þau í samkeppninni við framleiðslu landa þar sem engar eða litlar kröfur eru gerðar.

Í þessu samhengi megum við ekki gleyma að vestræn fyrirtæki borga miklu hærri laun en þrælakistur glóbalsins, þegar fleira íþyngir þá er eðlilegt að þau láti undan, leita með framleiðsluna annað, eða hreinlega hætta rekstri.

Það þarf ekki neitt sem bítur, neytandinn öskrar á grænar lausnir, það er svipan sem stjórnar hinni þrotlausu leit að nýjum lausnum og nýrri tækni.

Ásamt hvötum, grænum hvötum, þar má Viðreisn eiga að hún talar að viti.

 

Ef fólk vill að börn þess og barnabörn eigi sér framtíð, þá hættir það að hlusta á þessa vitleysu kostaða fólksins í vasa glóbalauðsins.

Það krefst raunhæfra aðgerða, og það sjálft reynir að gera sitt, til dæmis að beina neyslu sinni frá einnota vörum í margnota, ferðast í nærumhverfi frekar en fjær, og svo framvegis.

Raunhæfar aðgerðir eru til dæmis að setja skorður við innflutning á mengunarvörum og einnota vörum, það er vörum sem illa hannaðar að þær endast ekki nema brot af því sem sambærilegar vörur entust áður en græðgimódel glóbalsins tók yfir framleiðslu heimsins.

Alveg eins og tóbaksvörur eru merktar hættulegar, þá má merkja búðir sem sérhæfa sig í að dreifa ódýrum vörum í samkeppni við fyrirtæki sem þó reyna að framleiða eitthvað ennþá á Vesturlöndum, "Varúð, með því að stíga inní þessa verslun, þá tekur þú þátt í glæpsamlegu athæfi".  Myndi þetta ekki sóma sér vel hjá Icewear eða HM??

Síðan á að taka úr sambandi alla ferla sem leiða til innkaupa á mengunarvörum, það er vörum sem eru framleiddar í þrælabúðum glóbalsins, ferla eins og skylduna hjá hinu opinbera að taka lægsta tilboði og svo framvegis.

 

Vandinn er nefnilega kerfislægur og huglægur, að átta sig ekki á því, eða takast ekki á við það, er feigðarflan þess sem vill vel, en er ófær um bjarga sér og sínum.

 

Tímaglasið er runnið út, það er ekkert flókið við það.

Spurningin er aðeins hvort við ætlum að spyrna á móti, eða gefast upp.

Allar staðreyndir liggja fyrir.

 

Við vitum hverjir menga og af hverju þeir menga.

Við vitum hvaða kerfi knýr áfram síaukna mengun og rányrkju umhverfisins.

Við vitum að lausnir vestrænna stjórnmálamanna eru sýndarlausnir, þær sneyða framhjá kjarna málsins, eru í besta falli skaðlitlar, en oft til tjóns líkt og reglugerðin um íblöndun lífeldsneytis á bifreiðar, fyrir utan að bílar menga meira vegna hennar, þá var þessi reglugerð bein árás á lungu heimsins, regnskógana sem hafa verið höggnir grimmt svo hægt sé að framleiða viðkomandi lífeldsneyti.

 

Við vitum líka að það er hægt að gera eitthvað.

Við erum jú hinn vitiborni maður.

Það fylgir stríðum sem virðast óvinnandi, að ef menn þrauka, þá leggst eitthvað til, og þau vinnast oft að lokum.

En hingað til hefur ekkert stríð unnist sem ekki hefur verið háð.

 

Í dag háum við ekki stríð við lofslagsvána.

Við þykjumst það bara.

 

Það er harmur barna okkar.

Kveðja að austan.


mbl.is Kappræðuþáttur 1: Margt ber í milli þrátt fyrir allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Árnason

Góður Ómar.
"Hve heimskir þurfa menn að vera til að skilja ekki að það er sýndarmennskan ein að banna einnota plast í landi þar sem sorphirða tekur við megnið af plastinu, á sama tíma þegar sorpið flæðir óhindrað út í náttúruna í ofurvöxnum stórborgum þriðja heimsins."

Haukur Árnason, 22.9.2021 kl. 12:16

2 identicon

Þú spyrð, Ómar, hvaða víðáttuvitleysa er á ferðinni gagnvart þeirri vá sem blasir við framtíð barna okkar? Af hverju geta menn ekki tekið þennan vanda alvarlega og gert það sem þarf að gera svo mannkynið lifi af?

Mennirnir á Jörðinni leiðast af Tíðarandanum, sem er andi valdhafans í loftinu eða andi Djöfulsins. Skynsemin getur ekki ráðið ferðinni, því í raun er um trúarbrögð að ræða.

Þín rök eru góð, sett fram af skynsemi og rökhyggju, en við getum ekki leiðst af því, það er alltaf einhverskonar trú sem leiðir okkur. Nú er það loftlagstrúin.

Þú sýnir trú þína m. a. í því að aka á rafbíl. Okkur tekst ekki að frelsa heiminn með því að gera það sem rétt er. Við erum á villuvegi og syndgum gegn Guði, heiminum og okkur sjálfum eins og þú bendir á. Þess vegna þurfum við á frelsara að halda, sem er ekki af þessum heimi. Hann heitir Jesús Kristur. Hann einn er frelsari heimsins.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 22.9.2021 kl. 12:49

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Fagradalsfjall losar 10000 tonn af CO2 á sólarhring. Jafnmikið og allar samgöngur í landinu á 3 vikum. Katla klárar þann skammt á 1 viku. 

Hvaða tíðindi eru það að ríkið eigi að styrkja niðurdælingu á 4000 tonnum á Hellisheiði?

Hverskonar fíflarí er í ykkur kommunum og Hriflungum  varðandi þessa loftslagsvá?

84 % af allri orkunotkun mannkyns kemur úr jarðefnum. Til hvers er þú að styðja barnaþrælku með því að keyra á batteríisbíl?

Halldór Jónsson, 22.9.2021 kl. 14:38

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar Þarfur pistill.

Ástæðan fyrir því að loftslagsmálin komast ekki á blað í kappræðum er einfaldlega sú að ráðamenn hafa gefið frá sér allt forræði til glóbalsins í gegnum alþjóða sáttmála sem gerðir eru annarsstaðar. Ef fer sem horfir verður ekki einu sinni hægt að byggja torfkofa á Íslandi án þess að stórskaða kolefnisspor þjóðarinnar. 

Og þú kemst réttilega að orði þegar þú segir;

Vandinn er nefnilega kerfislægur og huglægur, að átta sig ekki á því, eða takast ekki á við það, er feigðarflan þess sem vill vel, en er ófær um bjarga sér og sínum.

Eftir að fullveldinu hefur einu sinni verið afsalað verður einni vitleysunni bætt aftan við aðra annarsstaðar og okkur ber að kyngja guðspjallinu hvort sem það er torf eða steypa.

Loftslagsguðspjallið sem er í vændum eftir kosningar er ágætlega skýrt út af Jóhannesi Hraunfjörð Karlsyni. "Brýnt er að tryggja ungu fólki, viðkvæmasta hópnum, áfallahjálp og fjárhagsaðstoð. Ræða réttindi borgara, völd sérhagsmunahópa og mörk eftirlits. Tryggja þarf jafnræði, því lífstílsbreytingin hefur gífurleg áhrif á innflutning og neyslu. Hvað má drekka mikið af kaffi?"

Tímaglasið er runnið út, það er ekkert flókið við það. Eins og þú réttilega orðar.

Með því að lesa grein Jóhannesar er hægt að átta sig á hvers vegna leiðtogarnir kjósa að skauta fram hjá loftslagsmálunum.

https://kjarninn.is/skodun/ahrif-orkuskiptanna-a-daglegt-lif-hver-ser-um-eftirlitid/

Með kveðju að ofan.

Magnús Sigurðsson, 22.9.2021 kl. 15:37

5 Smámynd: Hörður Þormar

Styrkur kolsýrings í andrúmsloftinu hefur, samkv. mælingum, stórhækkað síðustu áratugi. Það er staðreynd, studd af ótal rökum, að þessi aukning stafar af stóraukinni losun kolsýrings af mannavöldum og þessi losun valdi hlýnun loftslagsins. Þetta er áhyggjuefni og fari þessi hlýnun upp fyrir ákveðin mörk þá óttst menn að eigi sér stað óviðráðanleg keðjuverkun sem valda muni ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Eldfjöll losa kolsýring og önnur gös úr iðrum jarðar en það er varla meira en þau hafa gert um milljarða ára.

Kínverjar  eiga stærsta þáttinn í þessari losun, enda eru þeir fjölmennasta þjóð í heimi. Vandinn er sá að þeir eiga erfitt með að draga úr henni því að þeir eiga fáar óbeislaðar orkulindir til þess að fullnægja þörf sinni. Hins vegar eiga þeir gnægð kola í jörðu.

Bandaríkjamenn munu vera næstir í röðinni, en þeir eru vart nema hálfdrættingar á við Kínverja. En nú eru þeir farnir að vinna olíu úr olíubornum jarðlögum, "cracking process", til þess að gera sig óháða innflutningi, en þetta er mjög óvistvæn vinnslaðferð.

Það er vissulega göfugt og háleitt markmið hjá Katrínu og Guðmundi Inga að ætla sér að gegna forystu í lausn loftslagsvandamálsins, en hræddur er ég um að það verði erfitt. Ég vildi svo sannarlega vera þeim til aðstoðar, en ég er því miður hræddur um að ég sé ófær um það.

Hörður Þormar, 22.9.2021 kl. 18:05

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haukur.

Á mörgu er tæpt, eðli málsins vegna er ekki hægt að fara ítarlegra í einstök efnisatriði, pistillinn snérist um heildarsýn okkar á vá, sem menn segjast taka alvarlega í orði, en á borði er ekki hafist handa við að gera það sem þarf að gera.

Ef höfin eru að deyja vegna plastmengunar, þá þarf að stemma sigu við þeirri mengun, það gera menn með því að takast á við rót mengunarinnar.

Einfaldar spurningar, hvaðan kemur hún??, hvað er til ráða??

Ef mengun er glóbal, þá þarf að takast á við hana glóbal, sýndarmennska heima fyrir skiptir þar engu máli.

Fordæmið, góð sorphirða er þegar til staðar, heimsátak um slíka hirðu þar sem hún er engin, og ruslið fer óheft út í umhverfið, hlýtur að vera lausnin.

Annars geta menn gleymt þessu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.9.2021 kl. 23:03

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Ég hef alltaf metið glögga og góða menn sem taka eftir rökfestu minni og skynsemi, en þú skýtur yfir markið þegar þú telur mig aka um á nýjum rafbíl, ég er einn af þessum þriðjung sem á að éta það sem úti frýs á meðan yfirstéttin lagar kolefnisbókhald sitt.

Ég er sammála þér um að hinn vitborni maður hefur lítt í heiminn að gera ef hann kann ekki að lúta höfði í auðmýkt og bæn, og trú, hvers eðlis hún er, virðist vera meitluð í DNA okkar.

Loftslagstrú er gott orð yfir þá víðáttuvitleysu sem baráttan gegn hamfarahlýnun jarðar er, heilbrigð skynsemi kemur allavega þar hvergi nærri.

En ég skil ekki rök þín að vit sé í andstöðu við trú, mér finnst þú gera lítið úr almættinu með því.  Vissulega var okkur kennt að biðja, og okkur sagt frá mætti bænarinnar, en þeirri leiðsögn fylgdi hvergi fyrirmæli um að setjast svo niður og gera ekki neitt nema að bíða.

Lítil lífsvon í þeirri sköpun svo ekki sé sterkara að orði komist.

Það má alveg færa fyrir því sterk rök að fyrst að svona er komið að þá þurfi mannkynið frelsara hvort sem hann er af þessum heimi eða öðrum, og það er alltí góðu að trúa því að sá frelsari sé Jesús Kristur, að hann sé einn frelsari heimsins.

Málið og meinið er að hann hefur látið bíða eftir sér.

Það þótti ekki góður siður í minni sveit í gamla daga að takast ekki á við háskann, jafnvel þó allt benti til að hann gengi af mönnum dauðum.

Og það var engin afsökun fyrir aðgerðaleysi að segjast vera að bíða eftir einhverjum.

Ég held að þessi siður sé ennþá góður í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.9.2021 kl. 23:30

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór minn.

Andaðu nú aðeins, það mætti halda að þú hafir verið að lesa eitthvað loftslagsfíflið (fólk sem afneitar hlýnun jarðar), og strax á eftir lent á grein efir einhvern í lofslagstrúboðinu (vísa í athugasemd mína við innleggi Guðmundar), og þú síðan komið hér inn til að fá útrás fyrir geðshræringu þína.

Fyrir utan þetta með eldgosin, hvaða samhengi sérðu í því sem þú sagðir, og ég skrifaði??

Slakaðu nú bara á og lestu skrif mín aftur yfir í rólegheitum, ég veit að ég var langur, enda efni pistilsins tvíþættur, en ég sé á bloggi þínu að þú endurbirtir oft lengri skrif en þessi, og út frá viðbótum þínum í lokaorðum, þá blasir við að þú hefur lesið og lagt út af því sem þú endurbirtir.

Svo þú hlýtur að gera lesið þetta líka.

En varðandi þetta með eldgosin og hringrás koltvísýrings í andrúmsloftinu þá ættir þú sem raunvísindamaður að vita að jafnvægi er þegar eitthvað sem kemur inn, leitar út aftur í sama magni.  Ef þú dælir 1000 lítrum á dag í sundlaug til að halda vatninu í henni fersku, þá þarft þú að dæla 1000 lítrum úr henni svo vatnið haldist stöðugt, dælir þú minna en 1000 lítrum þá yfirfyllist sundlaugin, dælir þú meira en 1000 lítrum í burtu, þá tæmist hún að lokum.

Þetta skilur meir að segja Palli kóngur, en hann hefur bara svo gaman að því að fífla fólk, fær líklegast eitthvað borgað fyrir það líka.

Og það var ekki hægt að ná prófi í verkfræði í den nema að skilja svona einfalt orsakasamhengi.

Annars er allt gott að frétta af okkur Hriflungum, okkar fjölgar ekkert, enginn í framboði, en á meðan enginn deyr, þá eru við allavega ennþá til staðar með okkar þjóðlegu sjónarmið um gildi lands og þjóðar, um rétt alls fólks til mannsæmandi lífs, um gildi menntunar og allrar framþróunar.

Og við vitum að það er betra að vera beinn í baki og feisa lífið á okkar eigin forsendum, jafnvel þó það kosti á tíðum erfiðleika og jafnvel hremmingar því það árar alltaf misjafnt á milli ára, betra en að bogna, taka ofan, selja sig eða sjálfstæði þjóðarinnar.

Við feisum líka lofslagsvána Halldór, við flýjum ekki á vit afneitunar, hvers eðlis sem hún er.

Hins vegar tek ég undir með Guðmundi hér að ofan að það er gott að trúa ef menn ætla gera sér örminnstu vonir um sigra það stríð, en fyrst og síðast er engin afsökun að heyja það ekki.

Það er ekki manna háttur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.9.2021 kl. 23:51

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Ég er eiginlega miður mín eftir lestur þessarar greinar, ég var að horfa á norska krimmaseríu með konu minni þar sem nýjabrumið fólst í miklum nærmyndum af líkum og líkamshlutum fólks, misilla förnum, og ég hugsað með mér, shit, er verið að reyna fá mig til að fara á vit barnamartraða minna þegar draugurinn Belfigor ofsótti mig næstum á hverri nóttu upp ár.

Hætti ekki fyrr en FHH tók við því hlutverki.

En núna get ég sofið rólegur fyrir ásókn rotnandi líka, þau eru eins og Bambi mynd miðað við þennan hrylling.

Það grátlegast við þetta er jafnvel þó menn færu inn á þessa hryllingsbraut, þá skiptir það svo litlu því vestræn ríki bera hlutfallslega það litla ábyrgð á heimsmenguninni, og það er heildarmengun sem skiptir máli varðandi lofslagsbreytingar, en ekki póstnúmer þess sem mengar.

Tækni og efnahagslegur styrkur Vesturlanda, til að þróa nýja tækni og aðferðir, sem og að fjármagna þær gífurlegu framkvæmdir sem þurfa að eiga sér stað í þriðja heiminum þar sem allir innviðir eru í ólestri, gæti skipt sköpum í þeirri merkingu að það sé kannski hugsanleg einhver von, að það sé einhver lausn eða lausnir í tímalínu framtíðar, bara ef við þraukum og gefumst ekki upp í hinu óhjákvæmilegu stríði.

Að kippa Vesturlöndum aftur á steinöld, gengur af þeirri von dauðri.

Það er bara svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.9.2021 kl. 00:09

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hörður.

Það eru aðeins fífl sem rífast við staðreyndir, það er óþarfi að við séum að gera það á þessari síðu, um ábyrgð mannsins á hlýnun jarðar er ekki deilt.

En það er líka óþarfi að rífast við þá staðreynd að á meðan ekki er tekist á við vandann á forsendum hans, þá náttúrulega heldur hann áfram að vaxa, svo einfalt er það.

Þess vegna geta Guðmundur og Katrín ekki gegnt forystu í lausn lofslagsmálsins, því þau eru ekki að takast á við hann.  Þetta er sýndarmennskan ein, úthugsuð af glóbalinu til að fífla fólk, á meðan þau hafa allt hið meinta stríð sér að féþúfu.

Síðan er það rangt hjá þér að Kínverjar mengi langmest allra þjóða því þeir séu fjölmennasta þjóð heims.  Ef Indverjar kynnu að telja þá væri þeir komnir fram úr Kínverjum, en með vantalningu sinni ná þeir þeim að fjölda eftir nokkur ár.  Indverjar menga samt margfalt minna en Kínverjar.

Kínverjar menga svona mikið vegna þess að þeir eru verksmiðja heimsins, þrælabú glóbalsins, það var það sem flutti framleiðslu Vesturlanda þangað, hún spratt ekki uppí Kína af sjálfu sér.  Og eins og ég rakti í pistli mínum, þá eru svör glóbalsins við lofslagsvánni að flytja ennþá meiri framleiðslu til Kína.

Ef Guðmundur og Katrín skyldu þetta orsakasamhengi, og gerðu eitthvað svipað og ég tæpti á hér að ofan, þá væru þau forystufólk, en þau eru of innantóm til þess.

Eiginlega aumkunarverðari en lofslagsfíflin sem stinga höfðinu í sandinn.

Orðagjálfur hefur aldrei leist neinn vanda, hvað þá að leita ráð hjá þeim sem ábyrgðina bera  á loftslagsvánni.

Og afneitun á því er verri en afneitun á komandi hörmungum.

Miklu verri því lofslagsfíflin flækjast aðeins fyrir, en fólk eins og Guðmundur og Katrín bera ábyrgð á því að ekkert er gert af því sem þarf að gera, en það eyðilagt sem þarf að lifa, það er styrkur og framleiðslugeta vestrænna ríkja, ef minnsta von á að vera til staðar um sigur í þessu stríði.

Þeirra er því glæpurinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.9.2021 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 39
  • Sl. sólarhring: 1194
  • Sl. viku: 3884
  • Frá upphafi: 1331905

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 3272
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband