Launmorð eru alltaf háalvarleg.

 

Sérstaklega þegar sjálfstæð þjóð sér meintan bandamann sinn standa fyrir ódæðinu í skjóli friðhelgi síns.

Þess vegna er eðlilegt að stjórnvöld í Írak kvarti til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem og að þau fordæmi árásina.

Þó það væri ekki til annars en að draga úr líkum á að hinar óhjákvæmilegu hefndaraðgerðir bitni ekki á íröskum stjórnvöldum eða almenningi þar í landi.

 

Síðan er ekki hægt að grínast með afleiðingar slíkra árása, fátt er líklegra en að sameina keppinauta Bandaríkjanna um völd og áhrif í heiminum, gegn þeim, að vopn og drápstól flæði til Írans í þeim tilgangi að auðvelda harðlínumönnum þar í landi að verjast árásum Bandaríkjamanna, sem og að valda olíuríkjunum við Persaflóa skráveifu. 

Líklegt er að það munu eldar loga á fleiri stöðum en Ástralíu næstu dagana.

 

En þó eru til grínarar meðal leiðtoga heimsins, og ljóst er að Boris Johnsson hefur húmor fyrir ástandinu og fíflast með það.

"Bresk stjórn­völd hafa hins veg­ar hvatt ráðamenn í Íran til þess að nota tæki­færið til þess að bæta sam­skipt­in við vest­ræn ríki og taka þátt í því að draga úr spennu í Mið-Aust­ur­lönd­um".

Þetta er svona svipaður húmor og að Sádar hefðu brugðist við skemmdarverkum liðsmanna Íslamska ríkisins á menningarverðmætum, með því að leggja til að Kalífadæmið fengi sérstakan fulltrúa hjá UNESCO sökum sérþekkingar sinnar á menningarverðmætum (þeir voru ekki að eyðileggja eftirlíkingar eða leikmyndir úr Indiana Jones).

Væri bara ekki ráð að stúta Kínaforseta til að binda enda á viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína og skjóta Kimminn í leiðinni svo deilan á Kóreuskaganum fjari út??

 

Samt eru þessi öfugmæli ekki fyndin, eiginlega frekar sorgleg, því þau afhjúpa svo mikla firringu og heimsku núverandi ráðamanna vestrænna ríkja.

En munum samt, ekkert toppar þá fávisku að bregðast við víðsjárverðum tímum með því að ráðast á tilveru matvælaframleiðslu eyþjóðar líkt og íslensk stjórnvöld gera með innleiðingu regluverks Evrópusambandsins um frjálst flæði á sýklum og búfjársjúkdómum.

Sú fáviska eða réttara sagt þau fáráð beinast að tilveru okkar sem þjóðar.

Að gera okkur algjörlega háð glóbalhagkerfinu sem virðist vera að springa í loft upp þessa dagana.

 

Og vegna þessa eiga Kata og Gulli ekki að komast upp með að tjá áhyggjur sínar af atburðum í fjarlægðum löndum, þau eiga vera spurð útí viðbrögð sín heima fyrir.

Spurð hvort þau séu algjörir blábjánar, fáráðar eða þaðan af verra.

Við þurfum nefnilega að líta okkur nær.

 

Áður en skaðinn er óbætanlegur.

Áður en varnaleysi okkar er algjört.

 

Fæða er forsenda lífsins.

Aðeins úrkynjunin ræðst af uppsprettu hennar.

 

Á Íslandi í dag.

Kveðja að austan.


mbl.is Telja árásina brot gegn fullveldi Íraks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er spinnegal.

 

Algjörlega kreisý og trúandi til hvers sem er.

 

Eru efnisleg skilaboð Trump til heimsbyggðarinnar og Írans á tísti sínu.

Og hvort sem það er viljandi eða grunnhyggni, þá skipar hann sér á sjaldgæfan sess sögunnar með Ríki Íslams þegar hann hótar eyðingu menningarverðmæta. 

 

Svona er  staða heimsmála í augnablikinu, leiðtogi voldugasta ríki heims spilar sig klikkhaus og sú hugsun hvarflar að heimsbyggðinni hvort hann sé það ekki í raun.

Og ef það eru efasemdir í röðum Repúblikana á Bandaríkjaþingi um heilbrigði hans eða hæfni, þá mætti ætla að þeir haldi neyðarfund með demókrötum og setji hann af áður en kemst að rauða takkanum.

Eins er ekki hægt að verða hershöfðingi í Bandaríkjaher án þess að vera sæmilega heill á geði og vel gefinn, það gera öll þessi sálfræði- og greindarpróf og þar með vita allir stjórnendur hersins að sá sem hótar að terrorista heiminn, endar með því að heimurinn terroristar hann.  Sem og þeir vita þá skyldu sína að þegar leiðtoginn klikkast, þá er það þeirra skylda að fjarlægja hann.

 

En Trump fær að leika sér á tístinu og ennþá er hann formlega æðsti yfirmaður hersins.

Sem ætti að fá mann til að hugsa dýpra, að þetta snúist ekki um Trump eða persónu hans.

Stórveldi þurfa að tefla sína skák, og ljóst er að Íranar hafa núna um nokkurt skeið ögrað Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra í Miðausturlöndum.

Og þegar þeir réðust á olíulindir Sáda með drónum, þá fóru þeir yfir línu sem Bandaríkin geta ekki hundsað ef þau ætla að halda stöðu sinni á þessum slóðum.

 

Ögrun sem var ekki svarað og þá er bara haldið áfram að ögra.

Árásin á bandaríska sendiráðið i Bagdad er síðasta dæmið þar um.

Í þessu samhengi má minnast að þegar Gaddafi Lýbíuforseti gekk svo langt að láta sprengja farþegaflugvél yfir Skotlandi, að þá lét hann ekki af athæfi sínu fyrr en hann slapp naumlega úr loftárás á heimili hans en missti nokkra fjölskyldumeðlimi.

Þá höfðu menn áhyggjur af stigmögnun en í stað þess varð friðvænlegra í heiminum eða þar til Sádar tóku að fjármagna hryðjuverk í gríð og erg, og eru ennþá að.

 

Aðstæður við Persaflóa eru vissulega ólíkar, bæði Íran miklu öflugra ríki og ríkin við flóann sjá heiminum fyrir megnið að olíunni sem hann notar.

Mjög auðvelt er því bæði að stigmagna átök, sem og að valda miklu efnahagslegu tjóni.

Viðbrögð Bandaríkjanna verða að skoðast í því ljósi, þau ráðast að kjarna valdsins í Íran, og um leið hóta þau ógn og skelfingu.

Hvort það dugi á harðlínumenn í Íran verður að koma í ljós.  Og enn og aftur má ekki gleymast að þeir hófu þessa vegferð að ögra voldugasta ríki heims.

 

En endi þessi ógnarskák þannig að Bandarísk stjórnvöld sjái sig tilneydd til að standa við stóru orðin, og sprengja Íran í loft upp, þá er ljóst að gríma lýðræðisins er endanlega farin af þeim og bandamönnum þeirra.

Eftir stendur grímulaus valdbeiting hins sterka líkt og um svæsnasta alræðisríki væri að ræða.  Munum að hótanir hins sterka og valdbeiting hans kom af stað seinni heimstyrjöld, þegar hann neyddist til að standa við hótanir sinar.  Pólland hefði alltaf getað gefist upp fyrir Hitler og leiðtogar Frakklands og Bretlands kropið í auðmýkt við hásæti hans.

Meinið og málið er að sá sem beitir valdi í dag, safnar glóðum elds af höfði sér, og verður beittur valdi á morgun.

 

Til skamms tíma mun tilræðum gegn saklausu fólki fjölga, og aðeins hræsnin ein að kalla slíkt hryðjuverk.

Því varla voru allir andspyrnumennirnir sem börðust gegn alræði og kúgun Þjóðverja, hryðjuverkamenn þó þeir hefðu ekki afl til að mæta þeim á vígvellinum.

Og sem hingað til hefur verið sátt um í siðmenningunni, að beita ekki gjöreyðingamætti, hver notar ekki slíkt þegar andstæðingurinn sker á öll tengsl við hinn siðmenntaða heim.  Drepur í krafti vopnayfirburða, segir að hinn veiki hafi engan rétt, nema þá til að hlýða og þjóna.

 

Og þetta vita menn í Washington, og ég efa ekki að Trump viti þetta líka.

Ógnarskákin sem tefld er á að vinnast án þess að til allsherjarstríðs komi.

Á að vinnast án þess að hún sameini heimsbyggðina gegn Bandaríkjunum.

Án þess að Bandaríkjamenn verði réttdræpir hvar sem til þeirra næst.

 

En ef þessi skák er ekki tefld, hvar hefðu þá Írönsku harðlínumennirnir stoppað??

Höfum það í huga.

Undanlátsemi er ekki eitt af leiðarljósunum sem varðar veginn til friðar.

Um það kann sagan fleiri dæmi en hollt er að muna.

 

Hins vegar legg ég til að það verði hannaður sýndarveruleiki handa þessu fólki sem sífellt þarf að tefla ógnarskákir.

Svo það fái útrásina þar en ekki í raunheimi.

Svo það láti okkur hin bara í friði með það hlutverk sem lífið fól okkur.

 

Að skapa líf.

Og að koma því á legg.

 

Því flóknara er lífið ekki.

Og tími til kominn að við virðum það.

Kveðja að austan.


mbl.is Reiðubúnir að ráðast á 52 skotmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona fór um sjóferð þá.

 

Eitt af stóru kosningaloforðum Donalds Trump var að draga Bandaríkin út úr hernaðarátökum í fjarlægum löndum og átti þá við Afganistan og púðurtunnuna í Miðausturlöndum.

Vandséð er hvernig hann getur staðið við það loforð núna þegar hann hefur tendrað þráðinn í púðurtunnunni.

Að segja að hann sé að koma í veg fyrir stríð er álíka öfugmæli og að þú kveikir í púðri til að koma í veg fyrir að það springi.

Það sem verra er að hafi Bandaríkjamenn haft einhverja siðferðislega yfirburði yfir kolbrjálaða hryðjuverkamenn, þá er það vandséð hvernig svo er eftir að þeir drepa leiðtoga annarra ríkja úr launsátri.

 

Rök Trump, óljósar fullyrðingar um að hryðjuverkið hafi þjónað þeim tilgangi að koma í veg fyrir yfirvofandi og illgirnislegar árásir á Bandaríkjamenn, er endurvinnsla á þeim rökum sem Rumsfeld, þáverandi varnamálaráðherra notaði þegar hans fyrstu viðbrögð eftir árás Sáda á Tvíburaturnana var ákall um að stöðva Alkaida með því að ráðast á Írak. En Saddam Hussein var líklegast sá maður sem sýndi liðsmönnum Alkaida minnstu miskunn, þeir voru réttdræpir hvar sem náðist til þeirra innan landamæra Íraks.

Rumsfeld notaði þessi rök að koma í veg fyrir hryðjuverk á Bandaríkin og bandaríska þegna, tengsl sem hann gat ekki sýnt framá, en urðu að raunveruleika þegar óvinur hryðjuverkasamtakanna var fjarlægður og samtökin fylltu svo uppí tómarúmið í Írak. Síðan kom svo Ríki Íslams og allir þekkja þá sögu.

Af hverju ætti fólk núna að trúa svona fullyrðingum eftir allar lygarnar í kringum innrásina í Írak er spurning sem erfitt er að svara.

 

Það er augljós trúnaðarbrestur milli Bandaríkjanna annars vegar og fyrrum bandamanna þeirra á Vesturlöndum hins vegar.

Og það er nokkuð öruggt að leiðtogar þeirra ríkja sem hafa talist keppinautar Bandaríkjanna eða meintir andstæðingar, hugsa stíft, hvern myrða þeir næst?

Eins styrkir þetta harðlínuöfl í Íran sem voru á fallandi fæti vegna bágs efnahagsástands, og voru farin að skjóta mótmælendur handófskennt til að brjóta mótmæli þeirra á bak aftur.

 

Framtíðin er því óviss og öll ríki þurfa að hugsa sinn gang.

Fyrst og síðast spyrja sig hvort þau séu undir það búin að mæta kreppuástandi ef hnökrar verða alþjóðlegum viðskiptum vegna stríðsátaka.

Þegar kól sem mest í kaldastríðinu þá voru byrgi grafin, brúsar og tankar fylltir af olíu, matvælum safnað í geymslur.

Þannig bjuggu einstök lönd sig undir hugsanleg stríðsátök, að eiga matvælaforða og eldsneyti sem dygði einhverja mánuði eða ár.

 

Íslensk stjórnvöld fara hins vegar hina leiðin, vinna markvisst að því að eyða innlendri matvælaframleiðslu svo landið sé algjörlega háð snurðulausum alþjóðaviðskiptum.

Og mér er til efs að það sé mikill olíuforði í landinu ef allt springur í bókstaflegri merkingu í loft upp við Persaflóann.

Við erum það firrt að við höldum að saga mannsins sem er meira eða minna skráning á stríðsátökum, að henni sé lokið með varanlegum friði.

Sem er fjarri lagi.

 

Og við eigum að feisa það.

Fyrsta skrefið þar um er að tilkynna Evrópusambandinu að við ætlum ekki að innleiða reglugerðina um frjálst flæði á sýklum og búfjársjúkdómum.

Næsta skrefið er að setja þjóðinni þau markmið að vera sjálfbær varðandi matvæli og orku sem er ekki flókið í þessu tæknivædda landi sem er að springa úr orku með hitann vellandi úr iðrum jarðar.

 

Auðvita eigum við að vona hið besta, að glóran nái aftur völdum í Hvítahúsinu og hryðjuverkamenn þar verði dregnir fyrir dóm.

En við eigum að búa okkur undir það versta.

Því hvort sem það eru loftslagsbreytingar eða óbærilegur þrýstingur sem leiðir til stríðsátaka, þá er ekki hægt að reikna  með friðsemdinni sem er forsenda snurðulausra alþjóðlegra viðskipta.

 

Hvernig sem fer mun glóbalið deyja enda alltaf galin hugmynd, fullreynd í Sovétríkjunum sálugu.

Við munum upplifa umbreytingaskeið sem vonandi skilar af sér nýjum og betri tímum.

Við munum upplifa átök, það er öruggt, það eina sem er ekki öruggt er hvort við lifum þau af.

Og þá er betra að vera ekki tekinn í bólinu með allt niðrum sig.

 

Það er raunverulega ekki val.

Kveðja að austan


mbl.is Trump: Komum í veg fyrir illgirnislegar árásir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk eru hryðjuverk.

 

Jafnvel þó gerandinn sé vestrænt ríki.

Einkenni þeirra er að vega úr launsátri, drepa til að drepa, valda ólgu og upplausn.

Aukabónus er stigmögnun átaka, og algjör sigur ef afleiðingin er styrjöld milli sjálfstæðra ríkja án þess að nokkur sýnileg ástæða sé til staðar.

 

Dæmi um slíkt hryðjuverk er vígið á Ferdinand krónprinsi Austurríkis-Ungverjalands í Belgrad sem hratt af stað fyrri heimsstyrjöld, án þess að stórveldi þess tíma höfðu nokkurn áhuga á hernaðarátökum.

Annað dæmi er hryðjuverkamaðurinn sem skipulagði þessa morðárás í Bagdad og tókst að telja Trump Bandaríkjaforseta í trú um að þar hefði hann verið að verki.

Afleiðingarnar eru annað hvort stigmögnun átaka í Miðausturlöndum, eða að hryðjuverkamaðurinn sem grafið hefur um sig í stjórnkerfi Bandaríkjanna, verði handtekinn og sóttur til saka fyrir glæp sinn.

 

Í augnablikinu er fátt sem bendir til þess.

Hryðjuverkamaðurinn er greinilega það háttsettur að spurningar vakna um hvort hann ráði í raun, eða hvernig á að túlka þessi orð Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna; "að Banda­ríkja­menn ætluðu sér að reyna draga úr spennu, nú þegar búið væri að drepa So­leimani".

Orðalag sem jafnvel Osama Bin Laden hefði verið stoltur af eftir árásina á Tvíburaturnana.

Orðalag sem gerir jafnvel Ísraelmenn parnoid eftir handtöku Eichman, hann sagðist jú vera friðelskandi maður og það hefði verið í þágu heimsfriðar að safna gyðingum saman í útrýmingarbúðum, og útrýma þeim.

Öfugmæli fáránleikans sem enginn tekur mark á nema byssum aftökusveitar alræðisstjórnarinnar sé miðað á hann.

 

Eða þannig var það til skamms tíma, núna er víst til það heimskt fólk að það trúir vannærðum bónda í Norður Kóreu sem vestræn sjónvarpsstöð tekur í viðtal og spyr hann um ástandið og stjórnarhætti kommúnistaflokksins.

Trúir honum þegar hann dásamar hungrið og leiðtogann mikla, Kim Il Sung.

Líf bóndans er undir, en vandséð hvað liggur að baki heimskunni hjá þeim sem er ekki ógnað en kjósa að trúa samt öfugmælunum.

 

Eftir stendur spurningin, trúir Pompeo sínum eigin orðum, og þá er öruggt að hann er í klíku hryðjuverkamannanna.

Eða er honum ógnað, eða kýs hann að spila með á meðan hann veit ekki hver samsæri þeirra er útbreitt í innsta valdakjarna ríkisstjórnar Donalds Trump.

Þar liggur efinn, og hann liggur líka hjá bandamönnum Bandaríkjanna hjá Nató, að ekki sé minnst á leiðtoga annarra velda sem eðli málsins vegna eru í samkeppni við Bandaríkin um völd og áhrif.

 

Hafa hryðjuverkamenn tekið yfir ríkisstjórn Bandaríkjanna??

Eða hafa þeir bara hreiðrað um sig og verður ekki úthýst á meðan Trump fattar ekki muninn á hryðjuverkum og stjórnvaldsaðgerðum.

Fattar ekki muninn á lögmætu stríði, eða drápum á leiðtogum annarra ríkja úr launsátri.

 

Á þennan efa mun reyna næstu daga.

Ef enginn verður dreginn til ábyrgðar í Bandaríkjunum þá er ljóst að hryðjuverk eru hluti af stjórnarstefnu ríkisstjórnar Donalds Trump.

Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, því leiðtogar annarra ríkja vita ekki hver er næstur á dauðalista hryðjuverkamannanna.

Sem og ef bandamenn Bandríkjanna þegja, þá er ljóst að annað hvort eru þeir of hræddir, eða þeir viðurkenna hryðjuverk sem lögmætan verknað.

 

Úr vondu er að ráða.

Eina ráðið sem ekki kemur til greina er samt að samþykkja hryðjuverk.

Hvort sem það er með þögninni, eða óbeinum eða beinum stuðningi.

 

Lýðræðisöfl í Bandaríkjunum þurfa stuðning heimsbyggðarinnar.

Með því að segja Nei við hryðjuverkum.

Annað er bein ávísun á ófrið sem aðeins magnast.

 

Og jafnvel bakgarður okkar mun ekki sleppa.

Kveðja að austan.


mbl.is Spurningin bara hvenær stríð brjótist út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúran skákar manninum

 

Þegar fréttir berast af því að loftslagshörmungar kveikja í Ástralíu, að eitthvað sé það vont, að maðurinn hafi ekki gert betur.

Og þegar við hugsum útí áramótaávarp brosandi stelpunnar sem sagði ýmislegt, en hætti samt ekki að brosa þegar hún minntist á hinu grænu skatta góða fólksins, þá sér maður firringuna sem auðurinn og hið skítuga fjármagn hefur kostað svo að maður skyldi ætla að velmeinandi fólk hljómar eins og erkifífl.

 

Regnskógarnir brenna af mannavöldum, og þeir brenna líka í Ástralíu.

Sökin er margslungin en ljóst er að þegar hið skítuga fjármagn fékk góða fólkið í Evrópu að setja í reglugerð að blanda matvælum í olíu, þá féll ekki aðeins heimskan, það er mörk hennar, heldur líka þau landsvæði sem hagkvæm eru í framleiðslu á lífeldsneyti sem reglugerð Brussel hrópar á.

Landsvæði sem kennd eru við regnskóga þegar ég var ungur, en í dag eru metin og vegin eftir því hvort maðurinn hafi brennt stærri svæði en náttúran.

 

Þvílík er firring heimskunnar.

Það grætur enginn regnskóginn á meðan hörmungarnar eru meiri annars staðar.

Og enginn spyr, hvað hefði gerst ef regnskógurinn hefði ekki verið höggvinn.

 

Hvað þá á Íslandi þegar græni skatturinn á að bjarga heiminum.

Eða gefa fordæmi um hvernig á að bjarga heiminum.

 

Nema að náttúran brennur.

Og mannanna heimska fær engu þar um breytt.

 

Samt mætti Brussel brenna.

Það hægir kannski á öðrum bruna þegar reglugerðirnar brenna.

 

Eyðingu til tjóns en lífi til heilla.

Kveðja að austan.


mbl.is Meira brunnið í Ástralíu en í Amazon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíflið er ekki Trump.

 

Hann aðeins erfir þá heimsku að þegar Saddam var felldur, að þá tóku trúbræður Írana yfir.

Megafíflið var Rice, þáverandi trúnaðarráðgjafi Bush, sem sagði að Írakar ættu rétt á lýðræði, og vísaði í sögu Bandaríkjanna, þar sem svartir þurftu að berjast fyrir sínum atkvæðisrétti.

Nema að lýðræðið í Írak kýs Íran.

 

Persaflói er sprengjutunna.

Og ólíkt öðrum stjórnvöldum sem Vesturlönd hafa fjármagnað andstöðu við, eins og Líbýu, Sýrland og Írak, sem reyndar var ekki aðeins fjármagnað, heldur ráðist inní, þá er Íran öflugt ríki, tiltölulega stöðugt, og núverandi valdhafar gefa ekki eftir völd sín án mótspyrnu.

Og það þarf fávita til að sjá ekki það samhengi.

Íran er ekki Sýrland.

 

Trump erfði hið vanheilaga bandalag Nató og Tyrklands í Sýrlandi, og allir vita hvaðan kaupmáttur Ríkis Íslams kom. 

Saudi Arabía hefur fjármagnað hryðjuverk í fjöldamörg ár, hvort sem það er árásin á Tvíburaturnana, mannskæðar árásir í Evrópu eða ólgan í löndunum sunnan við Sahara.

 

 

Trump erfði þetta og hefur ekki beint snúist gegn þessu.

Þar til að hann réðist á Íran með því að sprengja Bagdad.

Gerði sig samsekan.

Missti sakleysi sitt.

 

Undirliggjandi eru viðskipti hans við Sáda.

Þau  hafa gert hann ríkan, en slíkt ríkdæmi er markmið miðaldamanna í Riyhad.

Kaupa sér stuðning, fávita sem líta framhjá þeirri staðreynd að til skamms tíma var það opinberlegt kennslubókarefni í grunnskólum Sádi Arabíu, að kristið fólk væri réttdræpt.

 

Trump er dæmi um slíkan fávita.

En hann kom ekki Íran til valda í Bagdad.

 

Þar voru á ferðinni Rumsfeld og Bush, Rumsfeld í bissness og Bush eins og hann var.

Viðskiptin voru þau að aldrei hefur stórveld sett eins mikla fjármuni í einkageirann eins og ríkisstjórn Bush gerði eftir innrásina í Írak.

Það er staðreynd að herinn fékk innan við 40% af þeim útgjöldum.

Gróðinn var einkafyrirtækja og þræðirnir voru stuttir í æðsta valdalag stjórnkerfis Bandaríkjanna.

 

Trump fótar þekkt spor fávita heimssögunnar.

Hann leitar stríðs þegar hinn valkosturinn fyrir andstæðinga hans, er líka stríð.

Sem er ekki gáfulegt.

Ekki frekar en að leika rússneska rúllettu.

 

Hvað gerist veit enginn.

Hvort sem það er stigmögnun átaka eða eitthvað heljarjafnvægi sem heldur friðinn.

 

Sagan segir stríð.

Raunveruleikinn segir að Íranir nái sáttum við Trump.

 

Niðurstaðan er sjálfsagt eitthvað þar á milli.

Kveðja að austan.


mbl.is Alþjóðasamfélagið bregst við árás Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 91
  • Sl. sólarhring: 373
  • Sl. viku: 5582
  • Frá upphafi: 1327406

Annað

  • Innlit í dag: 82
  • Innlit sl. viku: 4987
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband