Launmorð eru alltaf háalvarleg.

 

Sérstaklega þegar sjálfstæð þjóð sér meintan bandamann sinn standa fyrir ódæðinu í skjóli friðhelgi síns.

Þess vegna er eðlilegt að stjórnvöld í Írak kvarti til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem og að þau fordæmi árásina.

Þó það væri ekki til annars en að draga úr líkum á að hinar óhjákvæmilegu hefndaraðgerðir bitni ekki á íröskum stjórnvöldum eða almenningi þar í landi.

 

Síðan er ekki hægt að grínast með afleiðingar slíkra árása, fátt er líklegra en að sameina keppinauta Bandaríkjanna um völd og áhrif í heiminum, gegn þeim, að vopn og drápstól flæði til Írans í þeim tilgangi að auðvelda harðlínumönnum þar í landi að verjast árásum Bandaríkjamanna, sem og að valda olíuríkjunum við Persaflóa skráveifu. 

Líklegt er að það munu eldar loga á fleiri stöðum en Ástralíu næstu dagana.

 

En þó eru til grínarar meðal leiðtoga heimsins, og ljóst er að Boris Johnsson hefur húmor fyrir ástandinu og fíflast með það.

"Bresk stjórn­völd hafa hins veg­ar hvatt ráðamenn í Íran til þess að nota tæki­færið til þess að bæta sam­skipt­in við vest­ræn ríki og taka þátt í því að draga úr spennu í Mið-Aust­ur­lönd­um".

Þetta er svona svipaður húmor og að Sádar hefðu brugðist við skemmdarverkum liðsmanna Íslamska ríkisins á menningarverðmætum, með því að leggja til að Kalífadæmið fengi sérstakan fulltrúa hjá UNESCO sökum sérþekkingar sinnar á menningarverðmætum (þeir voru ekki að eyðileggja eftirlíkingar eða leikmyndir úr Indiana Jones).

Væri bara ekki ráð að stúta Kínaforseta til að binda enda á viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína og skjóta Kimminn í leiðinni svo deilan á Kóreuskaganum fjari út??

 

Samt eru þessi öfugmæli ekki fyndin, eiginlega frekar sorgleg, því þau afhjúpa svo mikla firringu og heimsku núverandi ráðamanna vestrænna ríkja.

En munum samt, ekkert toppar þá fávisku að bregðast við víðsjárverðum tímum með því að ráðast á tilveru matvælaframleiðslu eyþjóðar líkt og íslensk stjórnvöld gera með innleiðingu regluverks Evrópusambandsins um frjálst flæði á sýklum og búfjársjúkdómum.

Sú fáviska eða réttara sagt þau fáráð beinast að tilveru okkar sem þjóðar.

Að gera okkur algjörlega háð glóbalhagkerfinu sem virðist vera að springa í loft upp þessa dagana.

 

Og vegna þessa eiga Kata og Gulli ekki að komast upp með að tjá áhyggjur sínar af atburðum í fjarlægðum löndum, þau eiga vera spurð útí viðbrögð sín heima fyrir.

Spurð hvort þau séu algjörir blábjánar, fáráðar eða þaðan af verra.

Við þurfum nefnilega að líta okkur nær.

 

Áður en skaðinn er óbætanlegur.

Áður en varnaleysi okkar er algjört.

 

Fæða er forsenda lífsins.

Aðeins úrkynjunin ræðst af uppsprettu hennar.

 

Á Íslandi í dag.

Kveðja að austan.


mbl.is Telja árásina brot gegn fullveldi Íraks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er spinnegal.

 

Algjörlega kreisý og trúandi til hvers sem er.

 

Eru efnisleg skilaboð Trump til heimsbyggðarinnar og Írans á tísti sínu.

Og hvort sem það er viljandi eða grunnhyggni, þá skipar hann sér á sjaldgæfan sess sögunnar með Ríki Íslams þegar hann hótar eyðingu menningarverðmæta. 

 

Svona er  staða heimsmála í augnablikinu, leiðtogi voldugasta ríki heims spilar sig klikkhaus og sú hugsun hvarflar að heimsbyggðinni hvort hann sé það ekki í raun.

Og ef það eru efasemdir í röðum Repúblikana á Bandaríkjaþingi um heilbrigði hans eða hæfni, þá mætti ætla að þeir haldi neyðarfund með demókrötum og setji hann af áður en kemst að rauða takkanum.

Eins er ekki hægt að verða hershöfðingi í Bandaríkjaher án þess að vera sæmilega heill á geði og vel gefinn, það gera öll þessi sálfræði- og greindarpróf og þar með vita allir stjórnendur hersins að sá sem hótar að terrorista heiminn, endar með því að heimurinn terroristar hann.  Sem og þeir vita þá skyldu sína að þegar leiðtoginn klikkast, þá er það þeirra skylda að fjarlægja hann.

 

En Trump fær að leika sér á tístinu og ennþá er hann formlega æðsti yfirmaður hersins.

Sem ætti að fá mann til að hugsa dýpra, að þetta snúist ekki um Trump eða persónu hans.

Stórveldi þurfa að tefla sína skák, og ljóst er að Íranar hafa núna um nokkurt skeið ögrað Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra í Miðausturlöndum.

Og þegar þeir réðust á olíulindir Sáda með drónum, þá fóru þeir yfir línu sem Bandaríkin geta ekki hundsað ef þau ætla að halda stöðu sinni á þessum slóðum.

 

Ögrun sem var ekki svarað og þá er bara haldið áfram að ögra.

Árásin á bandaríska sendiráðið i Bagdad er síðasta dæmið þar um.

Í þessu samhengi má minnast að þegar Gaddafi Lýbíuforseti gekk svo langt að láta sprengja farþegaflugvél yfir Skotlandi, að þá lét hann ekki af athæfi sínu fyrr en hann slapp naumlega úr loftárás á heimili hans en missti nokkra fjölskyldumeðlimi.

Þá höfðu menn áhyggjur af stigmögnun en í stað þess varð friðvænlegra í heiminum eða þar til Sádar tóku að fjármagna hryðjuverk í gríð og erg, og eru ennþá að.

 

Aðstæður við Persaflóa eru vissulega ólíkar, bæði Íran miklu öflugra ríki og ríkin við flóann sjá heiminum fyrir megnið að olíunni sem hann notar.

Mjög auðvelt er því bæði að stigmagna átök, sem og að valda miklu efnahagslegu tjóni.

Viðbrögð Bandaríkjanna verða að skoðast í því ljósi, þau ráðast að kjarna valdsins í Íran, og um leið hóta þau ógn og skelfingu.

Hvort það dugi á harðlínumenn í Íran verður að koma í ljós.  Og enn og aftur má ekki gleymast að þeir hófu þessa vegferð að ögra voldugasta ríki heims.

 

En endi þessi ógnarskák þannig að Bandarísk stjórnvöld sjái sig tilneydd til að standa við stóru orðin, og sprengja Íran í loft upp, þá er ljóst að gríma lýðræðisins er endanlega farin af þeim og bandamönnum þeirra.

Eftir stendur grímulaus valdbeiting hins sterka líkt og um svæsnasta alræðisríki væri að ræða.  Munum að hótanir hins sterka og valdbeiting hans kom af stað seinni heimstyrjöld, þegar hann neyddist til að standa við hótanir sinar.  Pólland hefði alltaf getað gefist upp fyrir Hitler og leiðtogar Frakklands og Bretlands kropið í auðmýkt við hásæti hans.

Meinið og málið er að sá sem beitir valdi í dag, safnar glóðum elds af höfði sér, og verður beittur valdi á morgun.

 

Til skamms tíma mun tilræðum gegn saklausu fólki fjölga, og aðeins hræsnin ein að kalla slíkt hryðjuverk.

Því varla voru allir andspyrnumennirnir sem börðust gegn alræði og kúgun Þjóðverja, hryðjuverkamenn þó þeir hefðu ekki afl til að mæta þeim á vígvellinum.

Og sem hingað til hefur verið sátt um í siðmenningunni, að beita ekki gjöreyðingamætti, hver notar ekki slíkt þegar andstæðingurinn sker á öll tengsl við hinn siðmenntaða heim.  Drepur í krafti vopnayfirburða, segir að hinn veiki hafi engan rétt, nema þá til að hlýða og þjóna.

 

Og þetta vita menn í Washington, og ég efa ekki að Trump viti þetta líka.

Ógnarskákin sem tefld er á að vinnast án þess að til allsherjarstríðs komi.

Á að vinnast án þess að hún sameini heimsbyggðina gegn Bandaríkjunum.

Án þess að Bandaríkjamenn verði réttdræpir hvar sem til þeirra næst.

 

En ef þessi skák er ekki tefld, hvar hefðu þá Írönsku harðlínumennirnir stoppað??

Höfum það í huga.

Undanlátsemi er ekki eitt af leiðarljósunum sem varðar veginn til friðar.

Um það kann sagan fleiri dæmi en hollt er að muna.

 

Hins vegar legg ég til að það verði hannaður sýndarveruleiki handa þessu fólki sem sífellt þarf að tefla ógnarskákir.

Svo það fái útrásina þar en ekki í raunheimi.

Svo það láti okkur hin bara í friði með það hlutverk sem lífið fól okkur.

 

Að skapa líf.

Og að koma því á legg.

 

Því flóknara er lífið ekki.

Og tími til kominn að við virðum það.

Kveðja að austan.


mbl.is Reiðubúnir að ráðast á 52 skotmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. janúar 2020

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 37
  • Sl. sólarhring: 321
  • Sl. viku: 1240
  • Frá upphafi: 1321123

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1060
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband