Bylting byltinganna.

 

Bylting byltinganna, er byltingin sem aðeins verður á árþúsunda fresti, því hún er bylting hugarfarsins

Óréttlæti, ójöfnuður og mannvonska eru ekkert náttúrulögmál.  Og mannsandinn hefur þróað siðmenninguna gegn þessum þursum tregðunnar.  Og mikið hefur áunnist í gegnum árþúsundin,  núna er til dæmis enginn étinn eða settur í formlegan þrældóm og formlega hefur ríkisvaldið aðeins rétt til að drepa mann og annan, og refsa fyrir misgjörðir svo einhverjar réttarbætur hin venjulega manns séu upptaldar. 

Núna hefur myndast ginnungargap milli siðmenningarinnar og tregðunnar, ginnungargap sem tortímingaröfl eyðileggingarinnar fylla upp í.   Það er aðeins tregðan sem útskýrir hina miklu örbrigð og skort sem alltof stór hluti mannkyns glímir við í dag.  Og þegar ég tala um skort, þá er ég að tala um skort í víðasta skilningi, eins og skort á menntun, heilsugæslu, eiga þak yfir höfuð, fá réttláta málsmeðferð og svo framvegis.

 

Svona ginnungargap hefur myndast áður en í dag er máttur eyðileggingaraflanna svo mikill að enginn er óhultur, við erum öll á sama báti.  Við þurfum öll að horfast í augun á vandanum og viðurkenna hann.  

 

Vissulega er engin skyndilausn til gegn tregðunni, en þó má benda á nokkrar staðreyndir. 

Flest ríki Norður Evrópu komu á almennri grunnmenntun á um tveimur áratugum síðasta hluta 19. aldar.  Castro var um áratug að gera hið sama á Kúbu auk þess að byggja upp almenna heilsugæslu.  Hann átti ekki peninga en hann hafði viljann.  Samt í dag er talið að um óyfirstíganlegt verkefni sé að ræða því þá þurfi að skattleggja auðmenn og jafnvel að banna þeim að haga sér eins og svín.  Og þar sem þeir ráða stjórnmálamönnum, fjölmiðlamönnum og meginhluta háskólasamfélagsins þá er skorturinn á grunnnauðsynjum talinn náttúrlögmál.  Og hinir fáu hafa öll völd því fjöldinn telur sig tilheyra ætt kalkúna og því treður hann sig út af mat en ekki viti (það er les og hlustar á vitræna umræðu).

 

Það er morgun ljóst að kalkúnaheilkennið hverfur ekki svo glatt. 

Og bylting mannsandans á sér stað á löngu tímabili, árhundruðum eða árþúsundum.  En eyðileggingaröflin sem þrífast í skjóli tregðunnar eru á fullu skriði og eru mjög fljótvirk.  Loftslagsmál, arðrán náttúru og náttúruauðlynda, átök hugmyndaheima og fyrirsjáanleg uppreisn hins þögla meirihluta þriðja heimsins gegn kúguninni, bara nokkur dæmi um eitthvað sem getur valdið mjög stórum hluta mannkyns miklum þjáningum og jafnvel ótímabærum dauða á næstum árum og áratugum.  

 

Hverju er teflt fram af hálfu mannsandans, eða hinum ráðandi hluta hans, gegn tortímingaröflunum????  Björgun auðmanna og fjármálakerfis þeirra og síðan áframhaldandi græðgivæðing heimsins með siðlausa fjármálamenn í fararbroddi.

Við þessu er aðeins eitt mótsvar, og það er sú bylting sem ég talaði um. 

Hin hljóða bylting hins skynsama manns sem upplifir það sterka ógn að hann segir við sjálfan sig, þetta gengur ekki lengur, börnin mín eiga enga framtíð ef ég geri ekki eitthvað

Og það eitthvað er að skynja það sem skiptir mann máli eins og velferð fjölskyldunnar, framtíð barna manns og krafan um mannsæmandi líf, að það er líka eitthvað sem skiptir meðbræður manns máli, og þeir eiga sama rétt til þess og maður sjálfur. 

 

Síðan þarf að styðja það sem horfir til góðs, en berjast gegn því sem gerir það ekki.  En sú barátta á að byggjast á mátt hugans, en ekki mátt vopna.  Og menn eiga að hafa það ætíð í huga að gera ekki öðrum það sem þeir vilja ekki að sér sé gert.  Í hnotskurn er það sú einfalda staðreynd að líki þér ekki að hermenn óvinar þíns nauðguðu konu þinni og dætrum, þá gerir þú ekki slíkt sama við þeirra konur ef þú nærð skyndilega yfirhöndinni. 

Einhver þarf að byrja að hugsa hlutina upp á nýtt

Það sem er liðið, er liðið í mínum huga.  Ég geri gott úr því með því að læra af reynslu hins liðna og reyni að skapa samstöðu sem víðast til að breyta því sem breyta þarf.  Öll uppgjör vekja upp andstöðu, og því mun meira sem þú ert upptekinn af þeim, þeim mun minni kraft hefur þú til breytinga, og því, þrátt fyrir góðan vilja, þá verður breytingin þér um megn (ég er ekki að persónugera þetta upp á okkur, heldur er þetta minn ritstíll að nota persónufornöfn).  

 

Vísir menn nota lágmarks kraft í uppgjör, heldur nota þeir vit sitt til að skapa sátt um hið óhjákvæmilega uppgjör og vinna þar með tvennt, þeir lágmarka andstöðuna við uppgjörið og nota allan sinn kraft í hina nauðsynlegu breytingu sem þeir stefndu að.

Þetta gerði Nelson Mandela þegar hann losaði Suður Afríkumenn við aðskilnaðarstefnuna og kom á lýðræði í landinu án blóðsúthellinga, og þetta gerðu leiðtogar bandamanna í Þýskalandi eftir stríð, þeir gerðu upp við Nazismann og leiðtoga hans án þess að hengja alla þýsku þjóðina í leiðinni og sköpuðu þannig framtíðarsátt í landinu og milli þeirra og hinnar sigruðu þjóðar.

Og þetta er það sem andstaðan þarf að gera á Íslandi.  Hún þarf að berjast fyrir sátt og uppgjöri.  En það uppgjör á að vera við hið spillta kerfi og sáttin á að vera við fylgismenn þess.  Því aðeins sameinuð komust við út úr þeim heljarvanda sem við er að glíma.  Og eins og ég hef áður sagt, þá er til lítils að við komust sátt út úr vandanum ef einhver af tortímingaröflum heimsins (eins og til dæmis loftlagsbreytingar eða beiting kjarna eða efnavopna) nái í skottið á okkur.

 

Það þarf nýja hugsun og nýja von.  Og aðeins þannig næst hið endalega réttlæti.  Sem er reyndar eilífðarverkefni, en verkefni engu að síður.  Ef við viljum nýjan og betri heim, þá þurfum við að byrja á sjálfum okkur.  Hin stóru mistök eru þau að vera endalaust í rifrildi við að breyta öðrum.  Og síðan þarf að spyrja þá sem eru orðnir efins um Helreiðina til heljar, hvort þeir vilji ekki staldra við og hugsa sinn gang.  Bjóða þeim síðan hvort þeir vilji vera með í Andófinu gegn Helreiðinni.  Og það er Andófið sem skapar jákvæðu ferlana gegn Tregðunni, sem er hinn raunverulegi óvinur mannkynsins.

Um allan heim eru menn og konur að móta hugmyndir um þessa jákvæðu ferla, hvernig hægt er að vinna bug á skorti, eða eyðingu náttúrunnar svo eitthvað sé nefnt.  Eða þá hvernig sé hægt að sætta ólíka menningarheima o.s.frv.

Réttlæti fellst ekki í því að refsa, heldur að byggja upp nýtt og betra, að hindra fórnarlömb glæps framtíðar.

 

Þessi orðræða mín er ekki hugsuð sem aðfinnsla eða þá prédikun eða hvað það neikvæða sem um svona skrif má segja.  Ég er að reyna að orða hugsanir um þann grunnvanda sem við er etja og við þurfum öll að átta okkur á.  Hluti sem fólk þarf að hugsa um og hluti sem fólk þarf að ræða.  Engin tilraun til breytinga mun heppnast nema fólk geri sér grein fyrir þeim ógnaröflum sem við er að etja, og fólk er að lifa örlagatíma og ögurstund síns lífs.  Þessi ógnaröfl eru svo skelfileg að þau munu aðeins verða sigruð með sjálfri frumheimspekinni,  að lemja á hinu illa með hinu góða, og jú staðföstum vilja og heilbrigðri skynsemi.

Ekkert vinnast nema með réttlæti, því það er réttlátari heimur sem við þurfum að stefna að.  Það réttlátur að nógu mörgum þykir það vænt um hann að hann nái að sveigja sér framhjá öllum ógnum tortímingarinnar.

 

Réttlætið í mínum huga felst aðeins í lífvænlegri framtíð barna minna, ekki meintum örlögum útrásarliðsins.  Frá því dugar mér afsökunarbeiðni ásamt upplýsingum um hvernig það fór að þessu og upplýsingum um baklandið, bæði hugmyndafræðilegt og peningalegt. 

Og ég mun fyrirgefa þeim sem iðrast og bjóða velkomna til góðra verka.  Slíkt hið sama mun ég gera gagnvart öllum þeim sem ég bauna á þessa daganna og tel vera að vinna hið endalega skaðræði gegn þjóð minni.  

Það er iðrunin og fyrirgefningin sem er eldsneyti hinnar árangurísku byltingar sem þarf að gera.  

Og sakleysið, öll börnin sem eiga erfa heiminn, eiga það inni hjá okkur gamlingjunum að við gerum þessa byltingu.

Þess vegna þarf að  kveikja elda byltingarinnar í hjörtum fólks, í hjörtum allra.  Það skiptir ekki máli hvort um sé að ræða sannleiksleitendur eða óforbetranlega lygara, undirmálsfólk eða elítu, þunglyndissjúklinga eða skýjaglópa, skúringarkonur, forstjóra, glaðlynda, velmeinandi syngjandi, venjulegt eða óvenjulegt.  Við erum öll fólk með hjörtu sem eigum hagsmuna að gæta.  

Þeir hagsmunir heita börnin okkar og barnabörn.  

Hættum þessari vitleysu og förum að drífa ykkur í að bjarga þjóð ykkar.  Við dílum svo við vanda heimsins seinna.

 

Ég ítreka rök mín fyrir sannleiksnefndina.  Í henni er lykillinn af árangri fólginn, en öllum ætti að vera ljós  árangursleysi "hefðbundnu" aðferðanna.  Og þessi hugmynd er versta ógn gamla kerfisins því svo mikil lögbrot voru framin, og þá líka á neðri stigum, og hjá aðilum eins og endurskoðendum og lögfræðingum.  Og gegn því að sleppa við ákæru þá myndi þetta fólk opna sig.  Og eina vörn "hausanna" er þá að stíga fram og segja satt

Það að einhver segi satt er mesta ógn gamla kerfisins og myndi líklega koma í veg fyrir að það geti fjölfaldað sig athugasemdalaust eins og nú stefnir í.  En það er ákaflega erfitt fyrir talsmenn "spillingarinnar" að verjast þessari hugmynd, því hvernig er hægt að vera á móti "sannleikanum".

Eina vörn þeirra er að ýta undir "hefndartilfinninguna" og fórna nokkrum þegar föllnum mönnum. 

Þeim sem er of illa við kerfið leyfa því ekki að sleppa svo billega.  


Andóf þarf að þola umræðu.

Andóf þarf að þola umræðu fólks sem tjáir sig  samkvæmt sinni bestu samvisku.  En það þýðir ekki sama og aðrir hafi ekki líka eitthvað til málanna að leggja.  En þeir verða þá að finna sinn vettvang.  Annan en þann að vera alltaf að tjá sig hvað þeir eru ósammála síðasta manni. 

Til dæmis geta þeir tjáð sig um hvað þeim finnst.  Og athugað síðan hvort aðrir séu á svipaðri línu.  En skoðanir sem þola ekki umræðu eða andstæð sjónarmið, eru ekki merkilegar skoðanir. Og sá sem á ekki til umburðarlyndi, hann á ekki til hugsjón, sýn hans er þá úr einhverjum öðru akri sprottin.

En stundum þurfa forystumenn að hafa til hæfni að sjá sameiginlega fleti, eða þá segja pass, og halda áfram að vinna að betri heimi.  

En vígaferli leiða aldrei til betri heims.

Og skrattinn er ekki meðlimur Andstöðunnar.  Því er óþarfi að vera alltaf að skemmta honum.  Og ekki má heldur gleyma púkanum sem fitnar og fitnar.  Hann er meðlimur í félagi græðgipúka.  

 

Og margt annað má segja og hefur verið sagt á þessari síðu.  Þetta hér er fingurslag sem gaus út úr mér síðla kvölds í athugasemdarkerfi ágæts andófsmanns sem upplifði hjaðningsvíg Borgarahreyfingarinnar.  Hér fyrir neðan er linkur á greinina sem birtist fyrst um páskana 2011.  Þar var hún lengri (ekkert mál) og umræðan sem skapaðist um hana, og þá um þann þátt að gera upp fortíðina með sannleik og fyrirgefningu að leiðarljósi, var tilefni umræðu þar sem ólík sjónarmið tókust á um þá leið.  

Allt eitthvað sem fólk þarf að taka afstöðu til ef það vill fylkja sér um byltingu lífsins.  

Kveðja að austan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Hér er linkur á upprunalega pistilinn sem var lengri ásamt umræðum.

 http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1042742/

Þessi tilvísun er aðallega hugsuð fyrir nörda sem spá í af hverju hlutirnir hjakka í sama farinu án þess að nokkur von sé við sjóndeildarhringinn um breytingar.

Það er bara þannig að sá sem ætlar að breyta heiminum, hann þarf að átta sig á þeirri hugsun sem að baki býr þessum byltingarpistlum mínum.

Eins er það með sannleiksnefndina, hún tæpir á list hins mögulega.  Að markmið byltingar eða breytingar séu inn þess sviðs sem menn ráða við.

Fólk sem stendur að nýjum framboðum hefur gott af því að lesa svona pistla, það ætti að geta fækkað þekktum keldum mistaka sem aðrir hafa fallið ofaní í gegnum tíðina.

Þekking er jú forsenda framfara.

En annars, gleðilega páska.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.4.2012 kl. 00:35

2 identicon

Heill og sæll Ómar

Takk kærlega fyrir þessa trílógísku páska og pistaröð þína, ásamt ítarefni ... fyrir nörda:-)

En þrátt fyrir alla sátta- og sannleiks -leið, þá finnst mér nú samt að það megi rassskella

nokkra stórfellda ponzi svikara og vélráða makkera þeirra í stjórnsýslunni. Segi það satt.

Við höfum í rúm 3 ár vitað hvernig landið lá og liggur enn.  Við vitum þetta allt Ómar. 

Kerfið er hins vegar svo rotið, að það vinnur með og fyrir stór-þjófana og erlenda bankstera.

Bjóða vangann, eða hinn vangann, ég veit það ekki svei mér þá. 

Til hvers eigum við að bjóða sykkópötum, samansúrraðum í græðgi til valda og fjár, vangann?

Með minni bestu páskakveðju til þín og þinna og bónaðrar kiunnar:-) 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 02:43

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Af því að stríð lífsins er hafið og þeir sem vilja að lífið lifi af, þeir einbeita sér að deginum í dag með það eina markmið að sá sem vinnur lokaorrustuna, er lífið ekki Helið.

Og þó ég sé djúpur Pétur, þá er ég ekki svo djúpur að ég móti aðferðarfræði sigurs til þess eins að tapa friðnum.

Mér vitanlega hef ég hvergi í einu orði ýjað, hvað þá minna, að bjóða vangann, hvorki þann hægri eða vinstri.

Ég hef einfaldlega bent á leiðina (að sjálfsögðu stælt og stolið) til að afvopna baksveitir óvinarins áður en það er haldið í stríðið.  Í stríðinu veitir lífinu ekki að öllu þeim styrk sem hinn venjulegi maður býr yfir.  Og vafinn er hvort það dugi gegn tortímingarmætti Tregðunnar.  

Það þarf ekki einu sinni að ræða drauminn um von í þessu stríði ef fortíðin tekur allan slagkraft úr vígsveitum okkar.  

Rökin eru augljós, nördarnir geta lesið þau á linknum, eða beðið til morguns þegar ég hendi inn sannleikspistlum mínum.

Rök lífsins eru augljós Pétur, og þau eru rétt, það eru aðeins þau sem falla eins og flísin.

Meinið er að fólk rífst um þau loks þegar einhver hafði uppi burði til að setja þau niður á rafeindaskrá í stað þess eða fylkja liði um þau.

Og taka slaginn.  Áður en það er alltof seint.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.4.2012 kl. 11:01

4 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Við eru á krossgötum, höfum kannski alltaf verið það, því sama hvert haldið er þá birtast ný gatnamót og valmöguleikar, ekki allir ná að halda í við þá sem fara hraðast, aðrir vilja stoppa og "lumbra" á þeim fáu sem gerðu ferðina erfiða fyrir fjöldann að óþörfu, stálu frá ferðafélugunum sínum, jú það má alveg halda halda í eyrnasnepillinn á þeim um stundarsakir og fá þá til iðrast á þann hátt, eða láta þá eiga sig og dragast aftur úr, með öðrum orðum, snúa baki við þeim, áhrifameira að mínu áliti.

En við erum á krossgötum í víðum skilningi, mest hugarfarslega eins og þú bendir á Ómar, en þannig er það þegar maður er staddur á vegamótum í lífinu, valið um hvert á að halda, á að byggjast á reynslunni frá farna veginum, og vissri þekkingu á því hvert hinir leiða okkur, hlusta á eigið hjarta jafnmikið helst meir, en "síbilju" loddaranna sem standa þarna og reyna "vinka okkur inn á "sinn" veg, hlusta á hvortveggja, þá sér maður best hvað er rétt og hvað er rangt, sem gerir valið auðveldara, að standa of lengi á vegamótunum og karpa um hluti sem gjarnan mega bíða, eða allavega bíða afgreiðslu seinna, er bara stöðnun, og manneskjur eru ekki svo ólíkar hákörlunum að því leyti að það að stoppa of lengi í sömu sporum, leiðir til tortímingar.

Ef við ætlum að ná breiðu samstöðunni um hvert á að halda, verðum við að setja til hliðar allt það sem tefur okkur í því sameiginlega vali, allt það getum við rætt á meðan við göngum saman á réttu brautinni, hvrn á að flengja og hverjum við tökum fyrirgefningar gildar frá, mikilvægast er að velja rétta veginn áfram frá krossgötunum.

"Krossgötur" hafa alltaf verið sterkt "symból" í bæði trúarbrögðum og mannkynssögunni yfirleitt, hér flytur meistarinn Clapton Robert Johnsons útgáfu af laginu Crossroads sagan segir að Johnson hafi selt "þeim gamla" sálu sína fyrir gítarsnilli, við eigum ekki að selja okkar fyrir gull og glýju.

Takk fyrir aldeilis frábærann pisti Ómar !

MBKV

KH 

Kristján Hilmarsson, 8.4.2012 kl. 11:35

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján.

Það má líkja þessu dálítið við að þetta sé eins og að fólk sé statt í völundarhúsi og allar leiðir endi í blindgötu.  Leiðin út er samt þarna.  Fólk er pirrað, reitt, líka leitandi og vongott, og allt þar á milli.

En samt er eitt að sem skýrir að það kemst ekki út.  Að allt endi í blindgötu.

Og innst inni veit fólk hvað er að en það vill ekki horfast í augu við það.

Það er það eina sem því er gjörsamlega ókleyft að gera.  Það líklegast er stærsta skýring pirringsins, þrasins, reiðinnar.  Það veit en vill samt ekki vita.

Að leiðin út er aðeins fundin og farin ef það horfist í augun á sjálfu sér og spyr; 

"Hvað get ég gert??"

Í stað þess að spyrja, "hvað gera aðrir???".

Clapton er góður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.4.2012 kl. 13:04

6 identicon

Takk fyrir svarið Ómar; þú mælir vel í aths. 3. 

Batnar fremur en hitt, þegar á djúpið er haldið.

Takk enn og aftur fyrir þína þrenningar-pistla.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 16:24

7 identicon

Rakel Sigurgeirsdóttir skrifar nú, líkt og Ómar hér, afbragðsgóðan pistil á mogga-blogginu.  Hennar pistill heitir "Barátta góðs og ills á páskum".  Líkt og við vitum flest og höfum vitað lengi, þá opinberaði hrunið hvílíkt bófa-og ræningja stjórnkerfi sérhagsmunaafla við búum við og búum enn við.  Og það er það sem er það skrýtna, að enn mallar valda-kerfið áfram, já áfram (til Brussel?) eins og ekkert hafi gerst og gefið er í skyn að við Gunna mín ættum bara að hypja okkur úr landi, enda búið að rýja okkur inn að skinni með stökkbreyttum lánum, í stíl kröfu okrarans sem krefst punds af holdi.

Um það virðast allar forustusveitir fjórflokkanna vera sammála, að rýja okkur inn að skinni, enda hugsa þær ekki um almannahag, heldur einugis um vald- og ríkisverðtryggða græðgi sína og sinna spillingardindla og malar og hjalar það lið allt saman í valdastofnunum ríkisins

og samhliða því að mála hverja helgimyndina af dýrð sinni og ágæti, þá níðir það niður og hæðir okkur óbreyttan og almenning.  Rakel spyr síðan góðra spurninga og fyrst þessarar, hvar er almenningur í þessari mynd ?:    

"Hvar er almenningur í þessari mynd? Hann borgar upp áhættufjármagnið sem tapaðist sama hvað það kostar. Almannaheill er fórnað á altari græðginnar. Það verður að fórna öllu og öllum til að bjarga eigin skinni og halda uppi samsærinu. Hugsun græðgisfíklanna innan ríkisstjórnarinnar er mjög líklega þessi: „Ef vinur minn tapar forréttindastöðu sinni kjaftar hann frá mér og það ríður mér að fullu!“ Það er þess vegna engin spurning hverjum verður fórnað, fyrir hvern og hvers vegna!

Almenningur er fórnarlambið. Við höfum færst aftur á tíma lénsveldisins og fáum alltaf frekari staðfestingar á því. Tekjur okkar og eignir voru settar að veði fyrir sýndarverðmæti fjármálastofnana og samsteypufyrirtækja. Við vorum og erum enn knúin áfram með auglýsingum og gylliboðum til að grundvalla þennan sýndarveruleika enn frekar og sumir bitu og bíta enn á agnið. Eru þeir sakamenn eða fórnarlömb? Ég held að þeir séu flestir fórnarlömb því ég reikna ekki með að þeir fái skuldirnar sínar afskrifaðar eða réttara sagt reiknaðar inn í vextina og verðtryggingarnar sem leggjast ofan á lán Jóns og Gunnu eins og reyndin hefur verið varðandi afskriftir svokallaðra auðmanna.

Og þá er komið að stærstu spurningunum:

Hvers vegna hefur almenningur ekki brugðist við með afgerandi hætti?

Hvers vegna hefur hann ekki flykkt sér betur á bak við þá fáu sem hafa barist fyrir hann á undanförnum árum?

Hvers vegna brýtur hann sig niður í fylkingar gegn hagsmunum sjálfs sín? Hvers vegna treystir hann enn þá á sundurlyndisraddir, falsspámenn og málsvara hvers kyns forréttindahópa?"

Ég tek undir þessar spurningar Rakelar og mæli með lestri á þessum afbragðsgóða pistli hennar og þá ekki síst með hliðsjón af pistlum Ómars.

Hvers vegna stendur allur hinn óbreytti almenningur ekki saman, í stað þess að láta drepa sér a dreif?

Jón og Gunna (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 01:19

8 identicon

Er það siðlegt fólk, í þægilegri og tryggri launaáskrift hjá ríkinu, gulltryggt til góðs og vaxandi ríksverðtryggðs lífeyris,

sem vill ekki sjá vaxandi fátækt öryrkja, atvinnulausra og þeirra annarra sem hafa þurft að horfa upp á eignir þess rýrna í verði og skuldabyrði vaxa og eytt öllu sparifé til að reyna að borga í botnlausa hít skuldanna og jafnvel verið að stórum hluta rænt áunnum lífeyrisréttindum í almennum sjóðum.

Fyrir hverja er það ríkisvald sem virðist aðeins hugsa um eigin hag sjálfs sín og flytur okkur svo afskræmdar fréttir með skinhelgum svip kastljósanna á hvað ástandið sé nú gott.

Er þannig ríkisvald siðlegt, ef það snýst bara í kringum sjálftsig, ver með kjafti og klóm sjálft sig og ræðst að sínum minnstu bræðrum og systrum, þeim sem veikustum fótum reyna enn að standa?

NEI, þannig ríkisvald er rotið!  Við viljum ekki þannig ríkisvald, sem hraut í sjálfumgleði og lygum í aðdraganda hrunsins og setur enn blinda aigað á kíkinn og lýgur svo mjög að mas. Munchausen hefði roðnað af blygðun. 

Jón og Gunna (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 03:29

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Jón og Gunna.

Rakel er í miklu uppáhaldi hjá staðarhaldara þessa blogga á astralplaninu.  Það er í raunheimi þar sem viss ágreiningur er til staðar.

Ágreiningur sem kristallast (uppáhaldsorðið þessa helgina) í að ég hef viljað nýta nútímann til að höggva óvininn eina í framtíðinni en Rakel hefur verið uppteknari af að höggva hann í fortíðinni. 

En það gerist ekkert ef ekkert er gert, og Rakel hefur verið mjög virk í að láta eitthvað gerast.  Borgarafundirnir en ekki hvað síst Attac dæmið sem var mér mikill rökbrunnur þegar ég mætti á ICESave vígvöllinn og hjó alla þursa tregðunnar sem ég komst í höggfæri við.

Í dag er það Samstaða hjá Rakel og það eitt segir mér að Lilja er á mjög réttri leið.

Það þarf ekki að ræða að valdsstjórnin er ósiðuð, annars væri búið að ná sátt um heimili landsins.  En það sem ég hamra á er að núverandi valdsstjórn er aðeins angi viðbjóðslegs kerfis sem hefur lagt undir sig Vesturlönd og með eitri sínu og siðlausri græðgi hefur lagt bein drög að endalokum siðmenningarinnar.

Skiljir þú þessi orð Jón og Gunna, og alvöruna sem að baki býr þá skalt lesa áfram en annars hætta að lesa og eyða kröftum þínum í að skamma hið augljósa, áfram með þeim árangri sem við blasir, ENGUM.

Inntak orða minna er ekki að benda á hið augljósa, um hvað er að, heldur að benda á leiðina sem þarf að fara til að væntanleg fórnarlömb viðbjóðsins, hinn venjulega manneskja, nái að sameinast um markmið og í framhaldinu, að mynda afl sem nær að leggja óvininn eina, hið viðbjóðslega kerfi auðránsins að velli.

Ég bendi á nauðsyn Hugljómunarinnar, til að skapa þann kraft og vilja sem þarf til að hinn venjulegi maður stigi fram og spyr sig spurningarinnar, "Hvað get ég".

Hugljómun er eitthvað sem þú beinir fram á við, ekki afturábak.  Hún skapar þann grundvöll að ólíkt fólk með ólíkan bakgrunn nái að samsinna sig hvort öðru í verki sem það telur öllu máli skipta fyrir framtíð sína og sinna.

Ég er að tala um Hugljómunina um lífið, um hagfræði lífsins, og þá aðferðarfræði sem þarf til að fólkið, fulltrúar lífsins nái fram markmiðum sínum í baráttunni við óvininn eina.  

Þið komuð fyrst inná þráð hjá mér þar sem annar ágætur mætti í fyrsta sinn, Jón nokkur Jón Jónsson.  Hann vitnaði líka í ágætan baráttumann, gamlan sveitunga minn, Þórarinn Einarsson.   Hjá honum er til staðar kraftur og vilji til aðgerða en aðferðarfræði hans, Hugljómun hans höfðvar til þröngs hóps.  Það sama má eiginlega segja um alla andstæðinga hins hefðbundna kerfis, þeir ná ekki að virkja fjöldann þó fjöldinn sjái að hið gamla kerfi virki ekki nema í þágu örfárra ofurríkra, vegna þess að nálgun þeirra er of þröng, of tengd einhverju sem fólki finnst ekki ganga upp.  

Og það er meinið við allar þær lausnir sem eru í boði (ýmsar útgáfur kommúnisma, anarkisma, nýaldarhyggju, eða hvað þetta heitir allt saman) að þær ganga ekki.  Ekki frekar en kerfið sem á að leysa af hólmi.

Það er aðeins ein leið, eitt kerfi sem gengur upp.

Það er lífið, hagfræði lífsins.  ,

Þar sem mótív þekkingar og aðgerða eru siðleg, þá falla þau eins og flísin, í réttar skorður.

Ástæða þess að ég er að birta þessa pistla síðustu daga má rekja til samtals míns við einn af stuðningsmönnum lífsins, Pétur Örn, Liljumann, þar sem ég ræddi við hann um hvað þyrfti til að ég tæki þátt í starfi sem tengdist að móta nýtt framboð.  

Svarið var einfalt, ef framboðið hefur sig uppúr argþrasinu og slær Nýjan tón.

Með öðrum orðum er á astralsviðinu, en á því sviði mun lausn mannsins verða mótuð.  

Samantekt þessa pistla er svo mín samantekt á því sem þarf.  Auk svo margs annars.  

Sumt er ekki flókið, það þarf bara að gera það.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 9.4.2012 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 4185
  • Frá upphafi: 1338884

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 3749
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband