Byltingin með pottum og pönnum sem endaði út i túni.

 

Til þess að Andstaða nái að sameinast úr ólíkum áttum, með ólíkan bakgrunn og ólíkar lífsskoðanir, þá þarf þrennt að koma til sem nauðsynleg skilyrði, og síðan þarf styrka stjórn sem kvikar ekki frá því sem þarf að gera.

Og þetta þrennt er:

 

1. Atburður eða atburðarrás þar sem fólk uppgötvar að hið gamla gengur ekki lengur, eða þá að líf þess raskast það mikið að það neyðist sjálft til að vera virkir þátttakendur í verja líf sitt eða limi, eða koma á breytingum sem knýjandi þörf er á.  Dæmi um slíkt er Hrunið eða til dæmis innrás Þjóðverja í önnur lönd Evrópu með þeirri villimennsku sem henni fylgdi.

2.  Fólk þarf að upplifa ógn og/eða knýjandi þörf fyrir breytingar.   Og ógnin gengur alltaf fyrir ef aðgerðir til að hindra hana ganga gegn þörfinni fyrir breytingar.  

3. Og það þarf skýra framtíðarsýn um hvað menn vilja fá út úr sinni baráttu.  Til dæmis ef um innrás er að ræða þá vilja menn losna við hið erlenda vald og ef menn vilja bylta eða breyta, þá þarf framtíðarsýnin að vera skýr á hvað menn vilja fá í staðinn.  Og ef menn vilja fá eitthvað betra eða mannúðlegra, þá byggist þessa skýra framtíðarsýn á hugsjónum, frekar en einhverju tækniþrasi um hvað eigi að gera.  

 

Þetta með hugsjónir er sérstaklega mikilvægt því ef þú ætlar að fylkja fólki á bak við þig við kerfisbreytingar, þá eru hugsjónir miklu betra lím á samstöðu og drifkraftur til erfiðar baráttu en til dæmis tækniatriði þar sem til dæmis breytt fiskveiðistjórnun (sem enginn getur komið sér saman um) eða mismunandi sjónarmið um stjórnkerfisbreytingar (beint lýðræði, franska kerfið, aðild að ESB o.s. frv.).  Þegar hugsjónir eru á hreinu, þá mátar þú aðeins tækniatriðin við þær, og ef þau passa, þá skiptir ekki alveg máli, hvað í þeim felst að öðru leyti, því þá skipta atriði eins og málamiðlun, sættun á ólíkum sjónarmiðum, sem og list hins mögulega, meira máli en akkúrat það sem gert er.  Ef markmiðið er að fara á Akureyri, þá gæti eina mögulega leiðin sem sættir flest sjónarmið, verið sú að fara í gegnum Egilsstaði, í stað þess að keyra upp Borgarfjörðinn, eða fara Kjöl.

Og þá reynir á stjórnunina, bæði að sætta menn um leiðir, og eins hitt að bregðast hratt og vel við yfirvofandi ógnum og hættum.  Lýðræðið er aldrei þannig að allir geti ráðið, því ólík sjónarmið um að fara út og suður, enda alltaf í deilum og hjaðningavígum, ef mönnum er sín leið hugleiknari en endastöðin.  Lýðræði er að ná sátt um ólík sjónarmið og skapa samstöðu um þau markmið sem stefnt er að.  Og kúgun minnihluta er ólýðræði.  

Þess vegna virkar lýðræði ekki vel nema þegar "leiðtogarnir" skynja sín takmörk.  Og virði ólík sjónarmið.  Og á stríðstímum, þá virkar almennt lýðræði ekki neitt, heldur þarf stýrt lýðræði, það er sameing ólíkra sjónarmiða um sameiginlegt markmið.

 

Hvað fór úrskeiðis hjá BH (afsprengi andófs Búsáhaldarbyltingarinnar).  Að mínum dómi var það að liður eitt yfirtók lið tvö og þrjú.  Atburðinn var svo harkalegur að menn fóru í naflaskoðun á honum, en vanmátu yfirvofandi hættu, og höfðu ekki skilning á því að móta hugsjónir um framtíðina.  

Á hættutímum rífast menn ekki um aukaatriði, hvað þá um það sem miður fór í fortíð, heldur kryfja menn það ef það gagnast til að bregðast við hinni yfirvofandi ógn, en annars fylkja menn liði og verjast.  Og ef menn hafa skýra sýn á hættuna, skýra sýn um þau vinnubrögð sem menn leyfa til að ná markmiðum sínum og  skýra sýn á framtíðina og inntaki hennar, þá þola menn náunganum ágreining, og menn láta ekki deilur eyðileggja vörnina, aðeins óyfirstíganlegur máttur andstæðingsins sigrar, ekki eigin klaufaskapur og ístöðuleysi.

Á endanum snýst þetta allt um að standa í lappirnar.  Vera manneskja.  Og gera það sem rétt er.

Og allt sem var til staðar í haust, er til staðar núna.  Og fólkið er gott.  Þá snýst næsta skref aðeins um viljann og skynjun á nauðsyn þess að gera eitthvað.  

En þeir sem skynja ekki ógnina í dag, þeir eru úr leik.

Kveðja að austan.

 

Hér að neðan er svo útdráttur í athugasemdarkerfi þar sem ég ræddi um mistök BH, sem eru dæmigerð fyrir klúður fólks sem vill vel, en veldur litlu því þau skilja forsendur þess hvernig staðið er að velheppnaðri byltingu.  Þetta er tekið úr spjalli mínu við einn af stofnendum BH, Arinbjörn Kúld sem í mögnuðum bloggpistlum var í mínum huga samviska andófsins.

 

 

Já, "hvað getum við þá gert"???

Ekki á ég svarið.  En þú mátt alveg halda áfram að senda frá þér vandaða pistla á meðan, vitiborin umræða þarf að fljóta.  Og þó "Riddarar heimskunnar" ráði hinni opinberri umræðu í dag, þá eru þeir samt fortíðin, þeir hafa afrekað það í mörg ár að hafa rangt fyrir sér.  Og endastöðin er nærri.   Hvert fólk leitar þá svara, veit ég ekki, en það skaðar ekki að það séu einhverjir sem spyrja réttu spurninganna.

En Andstaðan mun ekki finna sinn sköpunarkraft fyrr en nógu margir skynja ógnunina og vilja bregðast við henni.  Og þá reynir á framtíðarsýnina og hugsjónirnar.  Bara það eitt að þekkja muninn á réttu og röngu, útilokar til dæmis óráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Þú leysir ekki efnahagskreppur með óþarfa þjáningum almennings.  Vissulega er áhrifaríkasta sóttvörnin við útbreiðslu svínaflensunnar að skjóta alla smitaða, og síðan þá sem hugsanlega geta smitast, en almennt siðferði (að þekkja muninn á réttu og röngu) bannar læknum að leggja til slíka lausn.  Í stað þess er farið í frekar ómarkvissa bólusetningu og annað sem hjálpar til en er ekki næstum því eins skilvirkt og útrýming.

En sumt gerir maður ekki.  En það hafa hagfræðingar Nýfrjálshyggjunnar ekki lært.  Og á meðan þeir læra það ekki, þá eiga þeir heima á stofnunum, en ekki ganga lausir, hvað þá að hafa áhrif á mótun samfélagsins.

En eitt veit ég Arinbjörn.  Fjórflokkurinn hefur ekkert að gera með okkar framtíð.  Það erum við sjálf.  Og að lokum snýst þetta aðeins um eina spurningu; Viljum við standa í lappirnar og halda fram á við?

Viljum við það, þá þurfum aðeins að velta því fyrir okkur hvað kröfur við gerum til lífsins og þess samfélags sem lifum það í.  Og ef við höfum það í huga að okkar kröfur eru ekki á kostnað annarra og valdi ekki öðrum óþarfa þjáningum, þá erum við á beinu brautinni.  Vissulega er sú braut bæði krókótt og liggur í ýmsar áttir, en hún er samt beina brautin.

Þannig að í raun eru aðeins tveir flokkar sem takast á í dag á Íslandi.  Þeir sem vilja nota lappirnar til að standa á, og svo hinir sem vilja það ekki.  Fyrir því geta verið margar ástæður, en þær sem slíkar skipta engu máli fyrir framtíð okkar.  Framtíð okkar veltur á því að "Lappafólkið" hafi þá trú að þeirra leið sé betri, og þann sannfæringamátt til að sannfæra "hina" um að svo sé.

Flóknara er þetta nú ekki.  En það þarf mikla ógn til Lappafólkið öðlist þann styrk að ráða för.  Að mínum dómi er hún til staðar, en ég verð að sætta mig að fjöldinn deilir ekki þeirri skoðun.

Þannig er það bara.  En núna er langlokum mínum lokið í bili.  Hef ekki meira að segja í bili.

 

Og reyndar var það bil stutt, áfram kom pælingin.

 

Orð eru til alls fyrst til  að móta nýjan valkost.  Og eðli málsins vegna þá þarf fólk að skapa þann valkost sjálft, því ef það gamla er gjaldþrota eða ófært um að mæta þeirri ógn sem við blasir, þá þarf fólkið sjálft að gera það sem þarf að gera.

Og ef fólk er ekki tilbúið að siðvæðast, þ.e. að miða sínar kröfur þannig að allir séu með og bjargist,  þá er það ekki höndla þá aðferðafræði sem dugar á þeim hættum sem við blasa.  Og þá er til dæmis siðvæddur fjórflokkur betri en til dæmis valdafælin andófshreyfing (í þeirri merkingu að hún  vill láta sérfræðinga um að móta framtíðina, hlálegt í ljósi þess að þeir vilja allir borga ICEsave og fá yl í náðarfaðmi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins) eða sundruð andófshreyfing þar sem hver höndin er uppi á móti annarri.  Þá er betra heima setið.

En framtíð barna okkar öskrar á siðvæðinguna.  Og því er valið okkar, bæði sem einstaklinga og heildar.  Og eins og við vitum þá er ekki nóg að leggja að stað með góðan vilja einann að vopni, en það skipbrot er bara eins og hvert annað hundsbit.  Þið í BH, bæði núverandi og fyrrverandi ættuð að fjölmenna á videoleigurnar og leiga ykkur myndina Straight og horfa á ferðalag gamla mannsins  á traktornum, sem hann fór til að sættast við bróður sinn áður en hann félli frá (man ekki hvor).  Og í ljósi hinna alvarlegu tímamóta þá tókst það, hver vill deyja ósáttur???

Og hver vill láta samfélag sitt deyja vegna ósættis????????

Allavega  ekki þið.  Hlutir eins og stolt og sárar  minningar eru hjóm eitt miðað við það.  

Og Kreppan er ekki búinn, hvorki hér eða annarsstaðar.  Vissulega tókst Bandaríkjamönnum að stoppa hið endalega hrun fjármálakerfisins með óheyrilegri seðlaprentun, en allir heykjast á að breyta grunnforsendum kerfisins.  Og það fúafley ætlar aftur út  á ólgusjó sinna mistaka, og með sama árangri.  Nema næst er ekki hægt að skuldsetja almannasjóði út í hið óendanlega, því það er þegar búið.

Núverandi bati er því svikalogn.  

Og það er of seint að iðrast og sættast eftir dauðann.  Þetta vissi gömlu mennirnir í Straight.  Og þetta mun Andstaðan uppgötva mjög fljótlega.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 4181
  • Frá upphafi: 1338880

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 3747
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband