Hugleiðingar um forsendur byltinga.

 

Þessar hugleiðingar hér á eftir komu á eftir pælingum mínum um tilgang og hlutverk sannleiksnefnda.  Það eru skýringar á því af hverju breytingar, varanlegar breytingar á stjórnkerfi takast, og skýringar á því að þær takast ekki.

Í dag er augljóst að því fólki sem dreymdi um að breyta því kerfi sem skóp af sér Hrunið, að því hefur mistekist.  Kerfið er að endurskapa sig af fullum þunga með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Og enginn virðist hafa mátt til að breyta því.  Andófið er eins og hvert annað ámátlegt væl.  Og í sjálfu sér getur ekki verið neitt annað miðað við þá taktík og það hugarfar sem stjórnar okkur.

Hugarfarið "mér finnst" og "ég tel" stjórnar fólki en færri spá í forsendum samstöðu, og skilja mikilvægi þess að henni sé náð.  Og að því marki eru ekki margar leiðir, en það eru til ótal tilbrigði við klúður á þeirri vegferð.

Þetta er endurbirtur pistill frá páskavikunni 2010.  Saminn fyrir astralsviðið.  Hann er í þrenningu, sem endar með pistlinum um Byltingu Byltinganna, sem fær að rúlla á páskadag.   Annar pistillinn kemur seinna í dag.

Njótið sem áhuga hafa á framtíðinni.

Kveðja að austan.

 

Núna langar mig aðeins að tjá mig um mína sýn á þeim vanda sem Andstaðan lenti í.  Ég ætla að taka þetta í tveimur færslum, fyrst lítillega um forsendur og síðan vangaveltur um hvað vantaði upp á til að BH þyldi deilur um mismunandi leiðir.

Eins og ég hef áður komið inn á þá blasir mikill ytri háski að þjóðinni.  Og hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá vinnur núverandi stjórn eftir fyrirmælum erlendra afla.  Og hvaða afleiðingar hefur þessi stefna??

Gunnar Tómasson (hagfræðingur af eldri kynslóð, fyrrum starfsemaður AGS, kom með mótaða tillögu um skuldavanda heimilanna) fékk álit heimsþekkts bandaríks hagfræðings um skuldastöðuna og í svarbréfi hans kemur fram að áætluð skuldastaða Íslands sé óviðráðanleg, og fyrir því færir hann rök.  

Jakobína (Ólafsdóttir, virk í netheimum Andstöðunnar fyrst eftir Hrun) hefur minnst á þekkta rannsókn sem sýnir fram á að "kreppuaðgerðir" Alþjóðagjaldeyrissjóðsins drepur fólk, það er einstaklingar, sem áttu bjart líf fyrir höndum, deyja ótímabærum dauða vegna hinnar harkalegu frjálshyggju.  Reyndar alþekkt staðreynd sem blasti við eftir Asíukreppuna, en það er gott að fá það staðfest eins og til dæmis að það er vísindalega sannað að sólin kemur upp á morgun, þó til dæmis Aztekar héldu annað. 

Þegar við leggjum þetta tvennt samann, ótímabær andlát meðbræðra okkar og fyrirsjáanlegt endalok efnahagslegs sjálfstæðis landsins, þá fáum við út NEYÐ, og þörf fyrir frelsisbaráttu.  Milli þeirra sem skynja það og þeirra sem gera það ekki, er óbrúanleg gjá.  Það er til dæmis ekki hægt að gera málamiðlun sem kostar til dæmis bara 100 mannslíf, í stað 500 hundruð mannslífa.  Og umræða um stjórnlagaþing er brosleg í ljósi þess að hjálenda alþjóðlegra auðmanna ræður ekki sjálf sínum málum.  

Við þetta má bæta hinum fyrirhugaðri gjöf bankakerfisins til erlendra vogunarsjóða, jafnvel Hannes í sínum villtustu frjálshyggjudraumum vildi þjóð sinni ekki svo illt.

 

Og taktík skiptir máli.   Núverandi Andófsöfl koma ekki úr valdastéttum, og eiga því um margt sameiginlegt með uppreisn alþýðufólks í gegnum aldirnar.  Heilög reiði og réttlátur málstaður er einskisverður er uppreisnaröflin hafa ekki taktíkin á hreinu, bæði skipulag og stjórnun.  Í þessu samhengi má minna á að aðeins ein bændauppreisn í Evrópu tókst þannig að markmið uppreisnarinnar náðust.  Og það er svissneska uppreisnin þar sem Svisslendingum tókst að losna við lénsvald Habsborgara í lok 14. aldar.  Það var vegna þess að þeir vissu hvað þeir voru að gera og gerðu það sem þurfti að gera.  

Í Englandi var gerð uppreisn á svipuðum tíma, og þar átti Ríkarður II ekki séns á móti fjölmennum her uppreisnarmanna.  Því bauð hann leiðtoganum til viðræðna, tók í hendurnar á honum, og bað hann um að senda herinn heim.  Síðan lét hann drepa leiðtogann, Watt Tyler, sem lærði sína síðustu lexíu, að þú átt ekki að treysta blíðmælgi yfirstéttarinnar.  Minnir um margt hvernig VinstriGrænir láta spila með sig í dag.  Þeim er boðið sæti við valdsborðið, svona rétt á meðan þeir nota styrk sinn til að sundra Andstöðunni, síðan verður þeim hent á haugana því hugmyndafræðilega þá eiga þeir enga samleið með því auðvaldi sem þeir þjóna svo dyggilega í dag.

 

Annars mistókust allar uppreisnir vegna skort á "leiðsögn".  Og vegna innri sundrungu.  Mér er minnistætt atriði úr ástralskri miniseríu sem sýndi hvernig fór fyrir uppreisn Írskra fanga í Ástralíu.  Þeir fólu ærlegum manni forystuna, sem hafði ekki hundsvit á taktík.  Hann beið eftir breskum hersveitum, gaf þeim tíma til að stilla sér upp, því hann var heiðursmaður, og síðan hrópuðuð þeir "frelsi" og hlupu á móti uppstilltum Bretunum.  Sem skutu þá niður eins og skotskífur og hengdu svo heiðursmanninn.

Bretarnir vissu nefnilega allt um taktík, bæði að deila og drottna og eins að fylkja sér til orrustu, og þeir vissu til hvers þeir voru að berjast, fyrir krúnuna og sínum eigin hag.  Og það var vegna þessara stjórnunarlegu yfirburða sem Bretarnir urðu að heimsveldi.  Og það var vegna stjórnunarlegrar vankunnáttu sem Andstaða smælingja og alþýðu var brotin á bak aftur.   

Franska byltingin tókst vegna algjörar vanhæfni frönsku yfirstéttarinnar en bæði bylting Cromwells og Leníns tókust vegna afburða herforingja á vígvelli.

 

Og þegar maður dregur þetta saman, þörfina á "byltingu" og síðan lærdóm sögunnar, þá fær maður út það munstur sem öll breytingaröfl þurfa að hafa í huga, ef þau vilja ná árangri.

Og það vona ég svo sannarlega með íslensku Andstöðuna, að hún vilji, því ekki er vanþörf á.

Og um það er minn næsti pistill, sem verðu bæði stuttur og laggóð

 Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegur og góður póstur Ómar, alltaf gaman að lesa pislana þína. Með bestu kveðju.

Aðalbjörn Steingrímsson (IP-tala skráð) 7.4.2012 kl. 10:06

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Takk fyrir Ómar;Skemmtileg lesning og gagnleg,sérlega fyrir þá sem ættu að vera foringjar. Allstaðar er það hugvitið tæknin, sem er uppspretta góðs árungurs.Því má sannarlega líkja við boltagreinarnar,sem einn af gengnum vini úr stjórnmálaheiminum,kallaði,stríðsleiki. Hver er að velta fyrir sér ærlegum gildum á galeiðunni,rétturinn til frelsis og andlegrar reisnar, er minn. Ég vildi heyra þig þruma yfir lýðnum,þar sem hann getur fjölmennt við musteri valdsins í höfuðborginni,þú ert maðurinn. Með bestu kveðju úr Kópav.

Helga Kristjánsdóttir, 7.4.2012 kl. 10:08

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lenín gekk raunar inn í byltingu sem hann kveikti ekki og hirti allan "heiðurinn".  Það var uppreisn í her keisarans sem velti byltingunni af stað og óánægja fyrrverandi hermanna með hraksmánarleg kjör sín. Verkalýður kom þar hvergi nærri enda varla hægt að tala um slíka stétt af viti fyrr en eftir byltingu. Jóhanna Sigurðardóttir og samfylking hennar eru sömu heiglarnir og tækifærissinnarnir og notuðu sér uppreisn gegn spillingu, sem spratt úr grasrótinni og gerði hana að baráttu fyrir inngöngu í Evrópubandalagið. Allt sem hún hefur gert miðar að því að koma okkur þangað inn en ekki bregðast við orsökum hrunsins og afleiðingum. Það er algert aukaatriði.

Stjórnlagaþing snerist um tvennt. Þ.e. að koma auðlindunum í hendur framkvæmdavaldsins til rástöfunnar án þess að þurfa að eiga samráð við þjóðina. Auðlindirnar eru og voru ávallt í þjóðareign. Hin nýju eignarréttarákvæði snúast um að fela ráðherrum vald yfir ráðstöfun þeirrar eignar. Í öðru lagi var svo að koma ákvæði um skilyrðislaust fullveldi yfir þeim út úr stjórnarskrá svo hægt væri að færa ESB þær á silfurfati. Kvótafrumvarpið er svo gert til að losa allar bindingar á veiðiréttindum, svo ráðherrann hafi fullt vald yfir auðlindinni, geti fest sér ráðstöfunarrétt og lagt hana í pant fyrir inngöngu í hið nýja sovét.

Þetta er ekki byltingin sem fólkið háði heldur andhverfa hennar.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.4.2012 kl. 11:19

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þjóðareign auðlinda þýðir semsagt að færa ráðstöfunnarvald í hendur embættismanna og frá þjóðinni.

Stjórnlagaráð var stofnað til að koma þessu valdi til embættismanna og til að afnema fullveldisákvæði svo við getum gengið í ESB.

Tilraunir til innköllunnar kvótans hanga á þessari spýtu enda stendur fyrirkomulag kvótamála í vegi fyrir algerum yfirráðum embættismanna yfir þeirri auðlind.

Ekki gleyma að embættismenn og ráðherrar eru ekki þjóðin. Það sjá menn best af því að skoða mesta embættismannaveldi sögunnar: ESB

Jón Steinar Ragnarsson, 7.4.2012 kl. 11:25

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er nú annars svo með byltingar að þegar almúginn hefur séð um skítverkin og velt kúgurum sínum, þá skríða hinir akademísku öryrkjar út úr holum sínum og taka völdin. Þessu tókst ekki að forða hér og því fór sem fór og við sitjum jafnvel verr stödd en áður.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.4.2012 kl. 12:17

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Aðalbjörn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.4.2012 kl. 13:12

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Helga.

Það er ekki eftirspurn eftir fólki sem tekur að sér að messa yfir lýðnum.  Þar að auki er ég maður hins talaða orðs, ekki ræðunnar.

Þar að auki er bylting lífsins ekkert shóv þar sem talsmenn hennar bæta nýrri flóru í umræðu samtímans.

Byltingin kemur innan frá, að hver og einn spyr, "hvað get ég gert???".

Það er svona mini mini mini byltingi í gangi hér fyrir austan.  Þar mæti ég með hið talaða orð, og ræði málin bæði þröngt og vítt.  Set hluti í samhengi en fyrst og fremst bendi fólki á hvað það sem það er að gera, er merkilegt.

Því það er það sjálft sem byltir.  

Vissulega vill kerfið og elíta þess fólks sem vant er að ráða ( og skilur ekkert í af hverju það er svikið enn einu sinni og heldur því að stað með kostaða gagnslausa ímyndunarherferð sem engu mun skila, ekki frekar en endranær því það skilur ekki tungutak fólksins og nær ekki að virkja það gegn valdinu) lítið af svona sjálfsprottnum hreyfingum vita en það er einfaldlega vegna þess að það heldur að "af litlum neista sprettur oft mikið bál" sé tilvitnun í dægurlag en ekki tekið beint úr handbók byltingarinnar.

Málið er að ef fólkið og elítan rennur saman í einn hóp baráttunnar fyrir lífshagsmunamáli byggðanna þá er sá hópur vald sem talsmenn spillingar og stöðnunar geta ekki hundsað.

Ergo, fyrsta skrefið er alltaf það sem gerist hjá einstaklingnum sjálfum, að hann taki þá ákvörðun að hið hefðbundna sé komið á endastöð blindgötunnar og ef hann ætlar að hafa eitthvað um sig og sitt líf að segja, þá er komið að honum.

Að hlusta og reyna að skilja.

Og þar með er tengingin komin á, milli þess sem talar og þess sem hlustar.

Allt á sitt upphaf Helga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.4.2012 kl. 13:23

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Tveir toppmenn hér,hin aldraða heldur að dulið bænaróp um björgun Íslands,leiði bóngóða í gjallarhorn,sem hlustað er á um allt landið. Takk, hér er mesta span sem ég nokkru sinni framið á lyklaborðinu,vona að það hafi heppnast,er á leið til sonar í þorl´áksh. kkv.

Helga Kristjánsdóttir, 7.4.2012 kl. 15:45

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Því miður Helga, ef eitt gjallahorn dygði þá væri fólk fyrir löngu komið með hlustverk.

Hverjum finnst sinn fugl fagur og sjálfsagt er eitthvað til í því.

En vilji menn halda fram á við, komast í gegnum brimskafla tregðunnar, þessara sem öllu vill eyða, þá þarf fólk að stíga fram.

Og biðja þá sem tala að koma og tala við sig.  

Einstaklingurinn gerir það til dæmis með þvi að mæta á fundi hjá því fólki sem honum finnst hafa eitthvað til mála að leggja.  Eða hópar sig saman með öðrum svipuðum sinnis og fær þá um að sameinast um að fá fólk til að spjalla við sig. 

Hér fyrir austan höfum við í Áhugahóp um Norðfjarðargöng kastað fram þeirri hugmynd að byggðin sameinist um að fá austur sérfræðing FÍB í umferðaröryggismálum.  Því fleiri sem sameinast um það því meira vægi hefur slíkur fundur og þokar málum okkar áfram. 

Og sá sem lætur sig umferðaröryggi varða, hann fær fullan sal af fólki og nær þar með um leið athygli þeirra sem aldrei hlusta og fer þá líka sáttur af fundi.  Hann veit sem er að það er til lítils að keyra um byggðir landsins með gjallarhorn, hrópandi augljósa hluti, ef hann nær ekki að tala á vettvangi fjöldans.  

Á meðan fjöldinn, sem á hagsmuna að gæta vill ekki hlusta, þá reynir hann að koma sjónarmiðum sínum og gögnum á framfæri við fjölmiðlafólk eða við sveitarstjórnir, en orð hans hafa samt alltaf lítið vægi á meðan hann er hrópandi í víðerninu.  

Þess vegna reynum við að koma saman, þekkingunni og rökum, og fjöldanum sem hefur hag af að þekking og rök ráði ákvörðun stjórnvalda um næstu göng.

Það er einhvern veginn svona vinnubrögð sem skila sér Helga.  

Og allt byrjar á þeim punkti, hvað viljum við sem einstaklingar og hvað viljum við gera sem einstaklingar.

Það gerir enginn hlutina fyrir okkur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.4.2012 kl. 16:25

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón Steinar. 

Ég held að skýring þess að bylting fjöldans mistókst hafi verið skortur á Sýn, og hugmyndafræði um hvernig ætti að gera þá Sýn að veruleika. 

Byltingunni var ekki stolið, hún varð ekki.  

Þeir sem yfirtóku hana voru handbendi hins gjaldþrota kerfis.  Mig minnir að fyrsta tilraun til umræðu og lærdóms, hafi átt sér stað í Sjálfstæðisflokknum, og Villi fór létt með kæfa hana í fæðingu.  Með aðstoð dyggra auðmannsdindla og ESB dýrkenda.   

Viðhorf vinstri flokkanna var þekkt fyrir kosningarnar vorið 2009, þeir voru í stjórn AGS og ætluðu að halda því áfram.  Þannig séð sviku þeir ekki þá, svikin voru þegar Steingrímur sveik hugsjónir um betri heim fyrir skammtíma völd.

Akademían kom lítið nærri, þetta voru allt hagsmunaöfl sem tókust á og tóku yfir óánægju fólksins.  Akademína er hins vegar kerfislæg og hluti vandans.  Hún sér ekki hvað fór úrskeiðis og hennar lausn var ennþá dýpri kreppa og almenn örbirgð í himnaríki á jörð, ESB.

En það má læra margt af Lenín.  

Vissulega stal hann byltingunni en ekki af því bara.  

Það var þrennt.  

Hann hafði Sýn um öðruvísi framtíð 

Hann hafði fjármagn sem var þýska gullið.

Hann hafði taktískan herstjóra, Trotsky, sem vissi hvernig átti að koma saman her og nýta hann til hernaðarsigra.

En þetta dugði ekki, andstæðingar hans voru aular, með fullri virðingu fyrir þeim annars.  Það var sundrung þeirra sem skýrði sigur bolsévika, þeir voru aðeins örsmár hópur siðblindra geðsjúklinga.

Sem taldi sig hafa vald til að eyða, drepa, myrða í þágu hugsjóna um betri heim.

En það sigrar enginn án taktíkar og Sýnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.4.2012 kl. 16:36

11 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Ég er spurður reglulega hérna í Noregi, hvort ekki sé eitthvað að "lagast" þarna á gamla landinu þínu, ég svara "júúú svosem, það mjakast svona aðeins hvað varðar atvinnulífið, en fólkið er skuldum vafið og margur sér ekki einu sinni "smáglætu" í enda gangnana (samlíking annars af handahófi Ómar ).

Það þýðir nefnilega ekkert að reyna útskýra fyrir meðal "óla" eins norðmenn kalla sig gjarnann, hvernig þetta er í raun," meðalólinn" hér hefur það þrumugott, skuldum vafinn, en ræður vel við skuldirnar, án þess að neita sér um lífsgleði, ferðalög, skemmtanir og annað, mest vegna stöðugs gengis og lágra vaxta, en einnig vegna sérstaks eiginleika til stilla eyðsluna eftir afkomu og það fljótt, að ógleymdri skynsamlegri (enn allavega) nýtingu auðlinda.

En það er ekki bara allt gull og grænir hér heldur, bruðlið og "sírennslið" úr sjóðum þjóðarinnar er mikið, stöðugt verið að uppgötva ný dæmi spillingar og óþarfa bruðl og alt að því glæpsamlegar fjárveitingar framhjá réttum leiðum leiðum og boðum.

Þetta er einnig erfitt að útskýra fyrir "meðalóla" maður fær bara sem svar "já en við höfum það nú svo gott hérna Kristján" einmitt, nóg" brauð og sirkus" þá heldur fólk kjafti og horfir í hina áttina, en samt sem áður án þess að fullyrða of mikið. þá er ég viss um að pólítísk spilling og samspil við braskarana er minna hér en en á Íslandi, allavega er stjórnsýslan eitthvað opnari, þannig að það er tekið á því og ef mjög gróf brot eru uppgötvuð, eru menn látnir víkja úr starfi.

Hversvegna dreg ég þetta fram hér, jú fyrir það fyrsta bý ég hér og fylgist nokkuð vel með þjóðmálum, bæði í Noregi og Íslandi, og ber saman, og svo sem innlegg í pistlana hér um sameiningu og samstöðu fólks, byltinguna ef vill, og þetta með að "hvað þarf til að fólk sem í öllu helsta grunngildismati" verði sammála um að nú er nóg komið, það er stutt í það, en svo stendur eftir að fá fólk til að sjá og trúa því hvað þarf að gera, hvernig gamlar útslitnar flokksklisjur duga ekki, skítkast á hann eða hana þarna í hinum flokknum ekki duga heldur, að fá fólk til að hætta að hlusta á "síbiljuna" frá Austurvelli og fara að hlusta á eigið hjarta og breyta eigin hugsunarhætti þareftir, koma þessu síðan áfram í sínu umhverfi, hvort sem er svæðisdeild flokksins, eða bara byggðalagið, eða hvaðeina sem safnar saman fólki hvar sem er.

Þannig verður hún framkvæmanleg byltingin (ef vill) og engin ástæða til að óttast að "akademían" steli henni, nema við sofnum á verðinum, eins og alltof oft hefur gerst, þannig séð hefur Jón rétt fyrir sér, Verkamannaflokkurinn í Noregi er eitt besta dæmið um það, enda er langt í að hægt sé að dreyma um nokkuð sem hægt væri að kalla byltingu í Noregi í dag, til þess er "Akademían" alltof rausnarleg með brauðið og sirkusinn, en við erum nú nokkur hér sem mjóróma (reyndar fleiri og fleiri barítónar líka, málsmetandi fjármálasérfræðingar m.a.) erum að "tísta", um brask og spillingu, og helför í nýja og enn stærri kreppu, einhversstaðar verður að byrja.

MBKV

KH 

Kristján Hilmarsson, 7.4.2012 kl. 17:18

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Einhvers staðar verður að byrja Kristján svo að saga mannsins endi ekki á óskrifaðri blaðsíðu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.4.2012 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 4185
  • Frá upphafi: 1338884

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 3749
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband