Flugeldar skerða lífsgæði viðkvæmra.

 

En hve langt mega viðkvæmir ganga til að skerða lífsgæði fjöldans??

Á agnarsmár minnihluti að verja sig, eða á hann að krefjast að fjöldinn hætti sinni háttsemi svo hann megi láta eins og ekkert sé.

 

Er sem sagt ofríki minnihlutans í góðu lagi því hann er minnihluti?

 

Spurningar sem ég hef hugsað um frá því að ég frétti að fiski var úthýst í skólamáltíðum á Egilstöðum vegna bráðaofnæmis barns.

Eitt barn, versus heilbrigði fjöldans, fjöldinn upplifði djönk gervimatvælaiðnaðarins svo hið eina barn þurfti ekki að upplifa máltíð með sjálfu sér.

Heilbrigði eins á móti heilbrigði þrjúhundruð.

 

Og ég hugsaði, ósköp eiga börnin á Héraði auma foreldra.

Svo kom að því að barn með fiskofnæmi kom í heimsókn í Nesskóla, og þá mátti ekki vera fiskur á borðum.

Og í anda gestristarinnar þá var ekkert sagt.

Í raun sami auminginn og Hérarnir í efra.

 

Lýðskrum rétttrúnaðarins segir að þetta sé í góðu lagi.

Að það megi misþyrma fjöldanum í þágu fárra sem hafa sérþarfir.

 

Spurningin snýst ekki um að gera þeim kleyft sem eru fáir, að lifa sínu lífi, heldur að fjöldinn hætti að lifa sínu lífi, svo hinir fáu geti haldið sínu striki.

Þess vegna átti til dæmis að banna svínakjöt í skóla rétttrúnaðarins því það var múslimi í bekknum. 

Og þess vegna mega börnin, sem við foreldrarnir borgum stórfé fyrir, bæði beint í matarkostnað, óbeint í útsvar, ekki borða fisk því það gæti skaðað einn sem þolir hann ekki.

Fiskur er líklegast hollasti matur sem hægt er að bera á borð fyrir börn, það sem kom í staðinn, pastadraslið úr hvítu hveiti, er tilræði við heilsu þeirra.

En réttur minnihlutans er algjör, réttur meirihlutans er enginn.

 

En það má alltaf finna ýktara og ýktara dæmi um eitthvað sem örfáir þola ekki, og hvenær eru þá mörkin þar sem fjöldinn getur ekki fórnað sér svo hinir geti haldið áfram sínu lífi?'

Ekki til segir góða fólkið, ekki til segir rétttrúnaðurinn sem hefur hertekið svo margt í samfélagi okkar.

 

En hvað með drenginn í plastkúlunni, af hverju þurfti hann að dveljast í plastkúlu vegna sýkingarhættu??

Af hverju fékk hann ekki að vera frjáls??

Laus við flugelda, laus við fisk, laus við sýkla.

 

Lausnin er einföld, við hin þurfum bara að vera í plastkúlu.

Vissulega aðeins fleiri, en so what!!

Er það ekki einstaklingurinn sem hefur réttindin en ekki fjöldinn??

 

Í dag eru meðal okkar fullt af börnum sem þola ekki veirusýkingar og eiga virkilega erfitt.

Væri það ekki stórt réttindaskref ef þeir sem hæst láta og eru virkilega góðir, og hugsa rétt, að þeir taki af skarið, og lifi í plastkúlu, gefi svona fordæmi fjöldanum til eftirbreytni.

 

Ég bara spyr, einhvers staðar eru mörk, sem annað hvort þarf að virða eða stiga yfir.

Þeir sem segja fjöldanum að hann sé réttlaus, hljóta að gefa fordæmið, að engin slík mörk séu til staðar.

Annað er tvöfeldni eða hræsni.

 

Við hin megum hins vegar spyrja okkur, hvar endar réttur hinna fáu, áður hann skerðir rétt okkar hinna.

Þetta er jafnvægi og við eigum að hafa kjark til að ræða það jafnvægi.

Jafnvægi sem segir að það sé rangt að fatlaðir hafi ekki aðgang að sérbílastæðum nálægt inngangi á verslunum og þjónustu, en það er jafn rangt að þeir hafi öll bílastæði, en við hin, fjöldinn, höfum ekkert.

 

Sem eru öfgar.

En það er eins og öfgar séu smátt og smátt að taka yfir.

Að réttur fjöldans sé enginn.

Að hann eigi alltaf að lúffa, hann eigi alltaf að þegja.

Sem hann gerir alveg þar til hann springur.

 

Og þá grunar mig að réttur minnihlutans sé það fyrsta sem springur í loft upp.

Því þegar fólk fær nóg, þá fær það nóg.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Flugeldar skerði lífsgæði viðkvæmra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar þarna skaustu yfir markið nema það gæti einhvers misskilnings. Fréttin er um tillitsemi sem ekki er kominn frá minnihlutahópum. Flugeldurinn veldur t.d. engum ama fyrr en hann sleppur út úr plastkúlunni svona rétt eins og drengurinn með sýkingahættuna.

Sjálfur hef ég margann flugeldinn sent um ævina og haft gaman að, en nú er svo komið að þegar ég geng til vinnuna þá má ég varla mæta bíl svo ég standi ekki á öndinni, hvað þá ef svifryk pússtar undan honum.

Ég þverskast samt við það ganga sem frjáls maður þessa leið frekar en að hanga heima og mæna á klukkuna og fara þegar tími gefst til í öruggan göngutúr samkvæmt læknisráði.

Á þessum tíma árs strax að loknum göngutúr hlusta ég á margan svona pistilinn, eins og þinn, á morgunnandakt okkar vinnufélaganna án þess að koma upp orði vegna mæði rétt eins og flesta aðra daga ársins.

Stundum finnst þeim sem bera umhyggju fyrir því sem þeir eru menntaðir til rétt að gefa út svona tilkynningar, en ættu frekar að draga djúpt andann en opinbera gáfnafar sitt og gæsku, því öllum öðrum getur blöskri heimskan.

En ég ætla rétt að vona að fólk hætti ekki að skjóta upp eins mörgum flugeldum og það kemst yfir þennan hálftíma fyrir miðnættið á gamlárs. því það er svo gaman að horfa á ljósdýrðina með kaffibollann í plastkúlunni við stofugluggann.

Svona til að hafa einhvern vitrænann botn í þessu og minna á flugeldasölur björgunarsveitanna; "Hvað kaffi er, veit sá einn sem sopið hefur það í holu neðanjarðar í þrjátíu stiga frosti upp á reginöræfum með fjöll og fárviðri allt í kringum sig." (Úr Aðventu-Gunnars Gunnarssonar)

Með kveðju að ofan.

Magnús Sigurðsson, 27.12.2019 kl. 18:35

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Enginn misskilningur, ef þú þarft þess, þá horfir þú á flugeldana í plastkúlunni, en til vara þá heldur þú þig innan dyra.

Síðan treystir þú á þá framþróun að einn daginn verði herlegheitin ekki á kostnað loftgæða, ekki frekar en bíllinn sem veldur því að "svo ég standi ekki á öndinni,".

Þetta er lífið Magnús, við erum misheilbrigð að takast á við það.

Plastkúlan er tekin sem dæmi um þá foráttuheimsku ykkar Héranna að gefa börnum ykkar pastadrasl vegna þess að eitt barn þjáist af bráðaofnæmi vegna fiskpróteina.  Frá því ofnæmi er stutt í sýklaofnæmi, sem reyndar margir þjást af en hafa ekki ennþá náð radar góða fólksins og rétttrúnaðar þess.

Stutt segi ég, en reyndin er svo að sýklaofnæmi er mun algengara, en það er bara auðveldar að gera börn af aumingjum, vegna þess að þau fá ekki holla fæðu, en að hið sama góða rétthugsandi fólk sé tilbúið að ganga í plastkúlu.

En varðandi þína nálgun er miklu nær, sem ég gerði ekki því eiginlega var ég að leiða umræðuna að ofstæki hinna rétthugsandi á Héraðinu, sem smitaði niður á Firði, að minnast á bráðaþunglyndi þeirra sem afbera ekki gleði og glaum áramótanna, að ekki sé minnst á að fólk sé hamingjusamt um jólin.

Ef þú hefur ekki misskilið mig, eða kosið að misskilja mig, þá skaltu taka upp hanskann fyrir þennan minnihlutahóp sem upplifir bráðakvíða vegna lífshamingju annarra.

Svarið er ekki plastkúla, heldur bros og gleði.

Sýndu samúð og samhygð þína með því að hætta að brosa og hlæja yfir hátíðarnar, eða það sem ennþá verra er, að hitta fjölskyldu þína, hvað þá stórfjölskyldu þína, hefur þú ekki heyrt um kvíða og einmannaleik þeirra sem búa ekki að slíkum lúxus að geta farið út og skotið upp rakettum, eða var það að brosa, eða eiga fjölskyldu, hvar endar upptalningin á þeim sem eiga ekki eins gott og við hin um jól og áramót?????

En dagurinn sem svona 50.000 manns hætta að gleðjast að tillitsemi með hinum sem upplifa bágindi, kvíða og jafnvel sjálfsmorðshugmyndir um jól og nýár, þá skal ég íhuga að hætta að skjóta upp um áramótin, en ever never klukkan tíu mínútur í tíu þann 31., svo mikil er samhygð mín ekki með þeim sem ekki geta notið.

Hins vegar skal ég vera kröfuharðari á aðra hvað annað varðar, ég ætlaði að taka þátt í fitubrennslumóti hjá Blakdeildinni núna áðan, öruggur með að vinna, það er þyngdartapið, aldrei mætt áður, en það var eins og brjósklosið gæfi eftir.  Svo datt ég bara í stiganum í Netagerðinni þegar við hjónin vorum að skúra, og það var eins og brjósklosið hefði fengið vængi, reyndar hægvaxta, því síðan þá hefur hver dagur verið verri en sá fyrri.

Og af hverju Magnús, ætti fólk sem er heilbrigt, notið hreyfingar og útivistar, eða íþrótta eða gleðimóta eins og fitubrennslumótið sem ég ætlaði að spila blak í fyrsta skiptið í 30 ár, njóta þess þegar ég get það ekki.

Svarið er ekki að ég loki mig inni, það er úti og getur, og af hverju ætti það að geta þegar ég get ekki??

Af hverju ætti meirihlutinn að njóta þegar ég nýt ekki???

Varla eru fordómarnir á þá vegu að ef ekki er um líkamlega hindrun að ræða, líkt og þá að þurfa að halda sig innandyra á áramótunum, að þá er kvíði, þunglyndi, eða líkamleg hindrun í að njóta, eitthvað sem er annars flokks, líkt og var á búgörðum Suðurríkja í den???

Hver hefur rétt á að vega og meta harms annars fram yfir hinn??

Eða að segja að viss líkamleg einkenni séu æðri öðrum, eða að líkamleg fötlun eða líkamlegir sjúkdómar séu æðri andlegri fötlum eða andlegum sjúkdómum??

Plastkúlan er aðeins dropi í hafi þeirra sem ekki njóta eins og fjöldinn, og hver hefur rétt að segja að eitt sé æðra öðru??

Og það er enginn svo minnihluti svo fámennur að ekki megi finna ennþá fámennari minnihluta.

Og sá minnihluti skerðir ekki aðeins rétt hins þögla meirihluta, heldur alveg eins hinna fjölmennari minnihluta þar fyrir ofan.

Á einhverjum tímapunkti komust við af þeirri niðurstöðu sem ég pistla um, að það er hægt að tryggja rétt minnihluta án þess að skerða rétt annarra.

Til dæmis með sérmerktum bílastæðum fyrir fatlaða, eða að börn sem geta ekki borðað svínakjöt af trúarástæðum, fái annan valkost sem ekki gengur gegn trú þeirra eða að börn sem þjást af fæðuofnæmi, fái að neyta matar síns í öruggu umhverfi.

Að ekki sé minnst á að lungnaveikir haldi sig innan dyra um áramótin.

Þetta er ekki þeirra tími, ekki frekar en frost og fumi er tími astmasjúklinga, eða að það eigi að banna sól því sumir eru með sólarofnæmi.

Það held ég nú.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.12.2019 kl. 19:36

3 identicon

Hvers virði er réttur manna til að skjóta upp flugeldum um áramót?   Hvers virði er heilsusamlegt umhverfi?  Gæti verið að virði þess að fá að skjóta upp flugeldum sé hverfandi miðað við virði þess fyrir fólk með öndunarfærasjúkdóma að hafa hreint og ómengað loft?  Það er dálítið varhugavert að vísa til fjölda, eða meirihluta og minnihluta,  þegar verið er að verja "rétt" fólks til athafna sem koma niður á öðrum. Þessar athafnir verða a.m.k. að vera mönnum mjög mikilvægar. Og er það mjög mikilvægur "réttur" að fá að skjóta upp flugeldum?  Eða eins og annað dæmi sem nefnt var,  er það mikilvægur "réttur" skólabarna að fá fisk í hádegismat í skólanum?  

Steinar Frímannsson (IP-tala skráð) 27.12.2019 kl. 21:32

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Og enn skýturðu yfir markið Ómar.

Það er vissulega slæmt þegar maður getur ekki lengur skrifað skiljanlega íslensku. 

Það sem ég vildi sagt hafa, að öllu málskúrði slepptu, er einfaldlega það að það er ekki minnihlutinn, ekki einu sinni einn í minnihlutanum sem biður um þessa tillitssemi.

Ef þú lest fréttina sem þú bloggar við þá "finnst þeim sem bera umhyggju fyrir því sem þeir eru menntaðir til rétt að gefa út svona tilkynningar", og því yfirskot að ráðast að minnihlutanum, þegar þú ættir að beina skotum þínum að meirihlutanum sem menntaður er í fáviskufabrikkum ríkisins.

Sjálfum hefur mér aldrei dottið í hug að biðja aðra um að fá andateppu út af minni andateppu og mér svíður ef þú hefur lesið það út úr athugsemdinni hér að ofan.

En ég ætla samt að biðja þig um að draga djúpt andann með öllum hámenntuðu sérfræðingunum sem telja sig vita  hvað minnihlutahópum er fyrir bestu, áður en þú gefur þér að kröfur um eigingjarna tillitssemi komi frá minnihlutanum.

Með kveðju úr efra.

ps. það er reyndar nú orðið fiskur á borðum Egilsstaðaskóla, það einstaka minnihluta barn sem þú vitnar til er fyrir ca 2 árum flutt í þina Fjarðabyggð, er þar í skóla, og sel ég það ekki dýrara en ég keypti það að þar sé nú pastadrasl á borðum.

Magnús Sigurðsson, 27.12.2019 kl. 21:46

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Bráðaofnæmi lýsir sér þannig, held ég, að sá sem er haldinn því getur orðið mjög veikur á augabragði komist hann í nálægð við ofnæmisvaldinn, jafnvel dáið. Þess vegna er það stundum þannig í flugi, að hnetur eru ekki afgreiddar, og fólk er beðið um að hafa þær ekki uppi við, vegna þess að einstaklingur með hnetuofnæmi er í flugvélinni. Mér finnst slíkt sjálfsagt.

Svifryk er óheilsusamlegt fyrir alla, ekki aðeins þá viðkvæmustu, þótt þeir finni mest fyrir því. Flugeldar eru vissulega ekki eina orsök svifryks, og það verður væntanlega aldrei hægt að losna alveg við það. En valdi flugeldaskothríðin um áramót nógu mörgum nógu miklu heilsutjóni hlýtur að þurfa að velta fyrir sér hvort takmarka eigi notkunina. Það finnst mér líka sjálfsagt. Ég hef gaman af að skjóta upp flugeldum og horfa á þá, en það veitir mér ekki rétt til að gera kröfu um eitthvað sem getur skaðað aðra, bara vegna þess að ég hef gaman af því. Gleymum ekki hinu gamla boðorði frjálshyggjunnar, að hver maður skuli vera frjáls til að aðhafast það sem hann vill svo lengi sem hann skerðir ekki með því sama frelsi annarra.

Þorsteinn Siglaugsson, 27.12.2019 kl. 22:18

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er hefðarrétturinn Steinar, hefðarrétturinn.

Sem nýttur er eitt augnablik og varðandi rétt annarra til heilnæms lofts á því augnabliki, þá víkur hann og fátt eitt annað fyrir það fólk að takast á við þann vanda sinn eins og til dæmis að halda sig innan dyra, en vissulega má hlusta á umkvartanir ef mengunin er viðvarandi, en ekki bundin við lognið þetta örstutta augnablik, eða fólk sé dregið út í óloftið og látið anda að sér reiknum.

Annars þurfa menn að taka því að svona er lífið og hætta þessu sívæli.

Og já, það er réttur barna í opinberum skólum þar sem það er skólaskylda og fólk borgar stórfé fyrir skólamáltíðar, að börnin fái mannamat en ekki draslmat.  Þeir sem það ekki skilja, ættu hvergi að koma nálægt annarra manna börnum.

Þar sem er frjálst val að senda börn í skóla, eða þú getur valið úr skólum, þar má ræða reglur um ofurrétt mini mini minnihluta á kostnað réttar fjöldans.

En það er bara ekki málið, skipulag okkar er eins og það er, og það er RANGT að réttur eins, sé réttarbrot annarra.

Svo einfalt er það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.12.2019 kl. 01:50

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Eins og ég sagði þá er enginn misskilningur á ferðinni, núna er tími flugeldanna runninn upp, og þeir væru heldur klénir ef þeir skytust ekki upp í loftið.  Það er vart til eftirbreytni þegar ég 12 ára gamall safnaði af vasapening mínum fyrir einum stórum flugeld, í þá gömlu góðu þar sem stórir flugeldar voru sjaldgæfir og dýrir, og skotið heppnaðist ekki betur en það, að fór ekki yfir markið, heldur sprakk sá stóri rétt yfir hausamótunum á mér, eftir ærlega tilraun til að lyfta sér frá jörðu með tilheyrandi neistaslóð líkt og um Appalo eldflaug væri að ræða og skotið væri frá Kanaríhöfða.

Og ég get alveg játað að ég las ekki fréttina, enda skýringa fljótt að leita í hvert ég lét pistilinn þróast.

Sem og tilvitnun þín í Gunnar var vel þeginn, og alveg óþarfi að gera þær kröfur til sín að skýrleiki sé á kostnað textans.  Manni þarf allavega að vera mikið niður fyrir til þess.

Síðan er ég ekki að gera neinar kröfur, er lítið í kröfugeiranum.

Meira svona í bögginu, finnst það miklu skemmtilegra, svo ég ætla alveg láta það ógert að gera kröfu til minnihluta, nema þá þann minnihluta sem vill koma orkuauðlindum okkar í vasa braskara, eða álíkra minnihlutahópa sem pirra mig.

Einnig er ég mikið fyrir stóru spurningarnar, sérstaklega ef þær enda á hnýtingum í góða fólkið og trúarhjáguð þeirra, Rétttrúnaðinn, og nota hvert tækifærið til að árétta þær, og sérstaklega hnýtingarnar, ef mér finnst ekki nóg að gert í meginmáli mínu, sem má víst ekki vera of langt er mér reglulega sagt, og þá eru athugasemdir guðslifandi þegnar svo ég geti haldið áfram að spinna og vefa.

Þú kannast örugglega við strákinn Tuma hvað það varðar.

Og já, ég veit að það er aftur borðaður fiskur á Egilstöðum, eftir áralangt fiskleysi.  Enda tek ég eftir því að jafnaldrar strákanna minna á Héraði í fótboltanum eru óðum að braggast og flestir vaxnir uppúr lágmarksstærð, og eru núna það sem við köllum litlir hérna niðri á Fjörðum.  Og ég veit einnig af þessari sendingu hingað niður eftir, það var fisklaust eina vikuna þegar skólarnir í Fjarðabyggð unnu saman í þemaviku.  Og hafði einhver orð þar um.

Ég veit alveg hvað rétttrúnaðurinn segir, og það er erfitt að fara gegn honum án þess að persónugera málið. Sem er alltaf miður.

En í prinsipp svo ég tali í alvöru, er það röng nálgun að fórna rétti fjöldans vegna meintra réttinda fárra.  Það hlýtur að finnast einhver nálgun þar sem báðir hóparnir, fjöldinn og sá sem þarf að taka tillit til, geta sáttir verið.

En ofstækisfólkið reynir það bara ekki, því finnst allt í góðu að traðka á fjöldanum.

Sem er jafn rangt og að fjöldinn traðki alltaf á minnihlutanum.

Eða það finnst mér og ég veit að þegar menn reyna að finna lausnir, þá finna menn oft eitthvað sem allir geta verið bærilega sáttir við.

Sem ég tel að ætti að vera markmiðið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.12.2019 kl. 02:16

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Jamm og jæja Þorsteinn.

Þér tókst að koma frjálshyggjunni að, en þessi frelsiskrafa er nú svo sem bak við eyrað hjá fleirum.  Bjartur frændi sagði til dæmis oft að honum væri alvega sama hvað þessir andskotar aðhefðust, svo framalega sem þeir létu hann í friði.

Og jú,jú auðvitað þarf að hafa bak við eyrað að það sé ekki gerð heiðarleg tilraun til að strádrepa fólk, þess vegna held ég að þau bönd séu sett á það athæfi að sprengja allt í loft upp með tilheyrandi mengun og óhljóðum, að slíkt sé aðeins gert einu sinni á ári.

Og það má alveg íhuga að banna helstu hávaðatólin, ég man alveg þann tíma að það voru haldin áramót án þess að bombur á stærð við meðalsprengjur voru sprengdar í gríð og erg, og það voru bara fínustu áramót.

Bráðaofnæmi er illt viðureignar, en lausnin er ekki að aðrir hætti að umgangast það sem veldur viðkomandi ofnæmi. Þar hljóta mörkin í tillitseminni að vera.

Síðan er það spurningin hvar endar þetta því það eru alltaf að koma upp ný og ný tilfelli af bráðaofnæmi, og það er engan veginn hægt að banna alla áreitisvalda.

Tillitsemi þarf að ganga í báðar áttir og það þarf fólk að skilja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.12.2019 kl. 02:28

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, ég tek heilshugar undir með þér hvað rétttrúnaðinn varðar og hvet þig til að skjóta beint á hann í þessu flugelda máli.

það er engum vorkunn af því að halda sig til hlés við gluggann þá stuttu stund sem sú skothríð stendur, og er þar að auki bæði augnakonfekt og til að halda úti starfsemi til þjóþrifamála, þess vegna vitnaði ég í Fjalla Bensa, Gunnars.

Það er einfaldlega röng nálgun að stilla þeim upp í skotlínuna sem eru í minnihluta án þess að fá nokkru um það ráðið.

Þeir sem velja að nota þá minnstu af af þeim minnstu sem fallbyssufóður við flugeldasýningar skjóta vonandi alltaf yfir markið

Þar á það sama við hvort sem menn vilja útiloka flugelda eða fiskiofnæmi.

Með kveðju að ofan.

Magnús Sigurðsson, 28.12.2019 kl. 08:52

10 identicon

Fólk verður að gera sér grein fyrir því að mannréttindi okkar Ómars og lífsgæði byggja á því að fá að skjóta upp flugeldum, reykja hvar sem er, drekka undir stýri og pissa í vatnsból. Taka þarf tillit til þess, tillitsemin þarf að ganga í báðar áttir og það þarf fólk að skilja. Sátt gæti náðst með því að leyfa okkur að njóta okkar lífsgæða annan hvern dag og hina jafnmarga daga.

Vagn (IP-tala skráð) 29.12.2019 kl. 14:31

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Vagn minn.

Ég verð að segja að ég er ekki bara farinn hafa áhyggjur af lélegum gagnagrunni þínum heldur sýnist mér að forrit þitt sem slíkt hefur skemmst í rafmagnstruflunum sem urðu í ofurstorminum, sem við reyndar köllum bara vont veður hérna fyrir austan, nýlega.

Er enginn forritari sem getur lappað uppá þig??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.12.2019 kl. 18:02

12 identicon

Gott að þú skulir loksins hafa áhyggjur af einhverjum öðrum en sjálfum þér. Og enn betra að við skulum vera sammála í þessu réttlætismáli. Þegjandi og hljóðalaust látum við ekki hóstandi aumingja og einhverja ofnæmisræfla skerða okkar lífsgæði.

Vagn (IP-tala skráð) 29.12.2019 kl. 19:07

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Öðrum??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.12.2019 kl. 21:55

14 identicon

Kannski ekki, en það kemur vonandi með einhverjum þroska. Það má lengi vona.

Vagn (IP-tala skráð) 30.12.2019 kl. 01:51

15 Smámynd: Ómar Geirsson

?????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2019 kl. 07:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 120
  • Sl. sólarhring: 121
  • Sl. viku: 1114
  • Frá upphafi: 1321666

Annað

  • Innlit í dag: 82
  • Innlit sl. viku: 915
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband